Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Yfirlýsing

Biskupsvalið er tákn breytinga og endurnýjunar í þjóðkirkjunni.

Kirkjan er kölluð til nýrra starfshátta og aukinnar þjónustu við börn og fjölskyldufólk um allt land. Kirkjan á að vera nútímaleg, frjálslynd og glöð, í góðu Guðssambandi og trúnaðarsambandi við fólkið í landinu.

Ég þakka stuðningsmönnum mínum og öllu kirkjufólki, sem hefur látið sig biskupsvalið varða.

Ég bið sr. Agnesi M. Sigurðardóttur blessunar í biskupsstarfi.

Guð gefi okkur gleðilega kirkju.

Sigurður Árni Þórðarson

Trúa hverju og fylgja hverjum?

Nú eru gleðidagar. Tíminn frá páskum og til hvítasunnu eru dagar fráteknir fyrir gleðina. Og textar í kirkjunni þessar vikurnar benda á forsendu gleðinnar, að í Jesú Kristi lifir lífið og við megum njóta þess lífs og gleðjast.

En á gleðidögum verða líka dapurlegir atburðir. Frá Englandi bárust þær fréttir, að erkibiskup anglikönsku kirkjunnar, Rowan Williams, tilkynnti að hann láti brátt af starfi – ekki vegna aldurs því maðurinn er aðeins 61 árs. Og ekki er hann heilsuveill eða farinn að kröftum.

Engin haldgóð skýring hefur verið gefin fyrir af hverju hann hættir sem leiðtogi hinnar merku kirkju og fer að kenna guðfræði í Cambridge. En flestir, sem fylgst hafa með vandkvæðum anglikana, undrast hins vegar ekki þessi tíðindi. Gríðarlegar deilur hafa skekið þessa kirkjudeild, sem ekki er bara ensk þjóðkirkja heldur einnig samband kirkna um allan heim. Deilt hefur verið hvort vígja eigi konur sem presta, um samkynhneigð, um hvort vígja eigi samkynhneigða í hjónaband eða ekki – og hópar hafa deilt um stefnumál og áherslur kirkjunnar.

Ég kynntist Rowan Williams þegar við vorum báðir fulltrúar okkar kirkna í kirknasambandi lútherskra og anglikanskra, sem kennt er við Porvoo. Á fundum kom í ljós hve kunnáttusamur kirkjumaður hann er, fræðaþulur í guðfræði, heimspeki og bókmenntum – og við öllum blasir að hann er þroskaður og heilsteyptur leiðtogi. En nú hættir hann og við megum gjarnan staldra við. Þróun kirkjulífs erlendis kemur okkur við og getur opnað augu varðandi þróun kirkjulífs á Íslandi.

Kirkjulíf – hefð og nýung

Kirkjubótastefna og sáttastarf erikibiskups angikönsku kirkjunnar hefur ekki skilað friði. Og hver er ástæðan? Margt kemur til, en ekki síst almenn þróun samfélaga á Vesturlöndum og þar með kirknanna einnig. Stjórnkerfi kirkna um víða veröld hefur gjarnan verið píramídakerfi. Stýrt hefur verið að ofan og niður. Þess konar stjórnkerfi hefur verið gagnrýnt og tortryggt á okkar tíma, sem kallar á dreifræði. Kirkjuskipulagið varð til á löngum tíma og kirkjur voru byggðar í samræmi við þarfir fyrri tíðar samfélaga.

En hvernig á svo að bregðast við þegar samfélag breytist, viðmið verða eru önnur og einstaklingarnir vilja fara öðru vísi að í trúmálum en áður? Þá verður spenna. Einum þykir eðlilegt, að kirkja og trú eigi að vera eins og verið hefur í mörg hundruð ár. Siðareglurnar eigi að vera líkar, biblíutúlkun í meginatriðum sú sama og um aldir, stefna kirkjunnar líka – þ.m.t. í málum kynja, hjúskapar, prestsþjónustu og kirkjustefnu.

En svo eru önnur,  sem segja að viðmið séu svo breytt og samfélagsþarfir líka að kirkja og trú breytist og líka skipulag kirkjunnar. Á siðurinn að ríkja og óháð veltingi tímans? Eða getur verið að breytingarnar séu jafnvel tengdar Guði og Guð kalli lífið, fólkið, út úr rammanum? Er Guð að kalla í breytingum? Á kirkjan að gæta sín á ofdýrkun eigin skipulags? Ef hefðarhyggjan verður of sterk þjónar kirkjan ekki nægilega vel. Anglikanadeilan snýst sumpart um hvort eigi að ráða hefðin eða þarfir fólks, siður eða lifandi fólk, arfur eða samtíð. Heilbrigð blanda siðar og samtíðar er affarasælust.

Góði hirðirinn

Textar þessa gleðidags, annars sunnudags eftir páska, eru um trúarhlutverk hirðis og tala með áleitnum hætti inn í tvennu siðar og trúar. Í lexíunni er Guð í hlutverki hirðis gagnvart mönnum. Og það hlutverk speglast síðan í pistli og guðspjalli. Jesús talar um sjálfan sig sem góða hirðinn.

Vert er að muna, að fjárhirðar í Palestínu hafa fremur gengið á undan fé en að reka það eins og Íslendingar gera oftast. Hirðir fóru á undan og féð fylgdi forystunni, hirðinum. Í því ljósi má skilja leiðtogann Jesú. Hann er á ferð, vísar veg og fer hann sjálfur. Og til að leggja áherslu á róttæka þjónustu sína segir hann skýrt og ákveðið, að hann sé jafnvel tilbúinn að fórna lífinu til að bjarga hópnum sínum. Enginn fórnar sér að óþörfu. Málaliðar og kaupamenn fórna ekki lífi fyrir fé, sem aðrir eiga. Aðeins þau, sem eru heil og djúpt tengd, eru tilbúin að fórna lífinu fyrir málstað og fólk.

Jesús – góði hirðirinn. Hvað er mikilvægt, hverjum eigum við að fylgja í lífinu? Kristin kenning er skýr og kristnin hefur um allar aldir kennt, að við eigum aðeins einn trúarhirði, Jesú Krist. Við veljum hvort við fylgjum honum eða förum á okkar eigin fjöll og leitum að einhverju andans haglendi óháð honum. Boðskapur texta dagsins er, að Jesús eigi að vera hirðir okkar því hann er eini góði hirðirinn. Okkar viska og öryggi er fólgið í að vera hans og fylgja honum. Hann er eini Guðssonurinn í lífi kirkjunnar, okkar, heims.

Guðspjallstextinn varðar þar með okkar kirkjulega samhengi. Það er grundvallarmál, að greina milli hans sem trúin beinist að og því, sem á að þjóna honum. Trúin beinist að Jesú Kristi en ekki kirkjunni. En okkur er hætt við að setja stofnun, sið og hefðir í forgrunn og láta það skilgreina afstöðu okkar. Við ættum stöðugt að spyrja okkur hvort siður, skipulag, hugmyndir og hefðir laumi sér í hlutverk góða hirðisins? Kristin kirkja á að fylgja Jesú Kristi en ekki öfugt. Þegar stofnun, siður eða kenning hafa forgang er alltaf hætta á Jesús Kristur sé skilinn í ljósi þeirra en ekki öfugt.

Í anda Marteins Lúthers hefur um aldir verið minnt á, að kirkjan eigi sífellt að umbyltast, kirkja þurfi ávallt að siðbætast. Kirkjufólk eigi að spyrja sig hvort kirkja fylgi meistara sínum eða ekki? Er kirkjulíf okkar í þágu fagnaðarerindins? Sauðirnir vilja alltaf vera í sínum haga en góði hirðirinn hugar að fleiru en stundarfylli og fer því milli staða.

Kirkjan og stefnan

Staða trúfélaga og þar með kirkna á Vesturlöndum er að breytast. Kirkjur njóta engrar sérmeðferðar í samfélagsumræðunni. Þær njóta lofs fyrir starfsgæði eða eru lastaðar fyrir mistök.  Starfshættir þeirra eru til skoðunar og fjárhagur þeirra er ótryggur. Áskrift velvildar, verndar og fjármuna er útrunnin. Til kirkna, erlendis og hérlendis, eru gerðar miklar kröfur, sem er vel.

Hvers konar kirkju viljum við og hvers konar kirkju þörfnumst við? Hvað um fortíðina og allt hið hefðbundna? Á kirkjan að vera vörsluaðili siðar og venja eða er kirkjan eitthvað annað og meira? Á kirkjan að vera gamaldags og íhaldsöm eða á hún að opna og lifa trú sína í takti við samtíð sína, hugmyndir og glímumál?

Í enskumælandi fræðasamhengi er greint á milli religion og spirituality. Trúarstofnun, siður og hefð er religion, en trúarþarfir og trúarlíf fólks er það, sem kallað er spirituality.

Stofnanir og forystufólk þeirra munu alltaf reyna að tryggja líf sinna hreyfinga og hagsmuni stofnana og þar með eigin hagsmuna. En ef hagsmunir fólks eru á svig við þarfir og hagsmuni stofnunar – hvað þá? Og í þrengra samhengi ættum við spyrja okkur:

Ef þjóðkirkja Íslands þjónar ekki fólkinu í landinu eins vel og hún gæti – hvað þá?

Ef hagsmunir Neskirkju og safnaðarskipulags sóknar okkar þjóna ekki fólkinu í hvefinu nægilega vel – hvað þá?

Hvort skiptir meira máli og á að stýra – andlegar þarfir fólks eða þarfir kirkjustofnunar? Örugglega trúarþarfir fólks. Á hvað trúum við? Kirkjustofnun er aðeins tæki  í þjónustu Jesú Krists í heiminum. Kirkja, sem ver siðinn og hefðina en þjónar ekki fólki, er á svig við vilja Guðs. Kristin trú er trú á Jesú Krist. Kirkjan á að ganga erinda þess fagnaðar, þeirrar gleði, alla daga.

Trú en ekki kirkja

Kirkjusókn hefur almennt minnkað í  hinum vestræna heim. Það merkir þó ekki að fólk hafi snúið sér frá hinu trúarlega, heldur fremur, að fólk hefur minni áhuga á stofnunum en áður. Trúaráhugi fólks lýtur fremur að inntaki og hinu persónulega fremur en þvi sem fram fer í kirkjuhúsum. Hrun kaþólsku kirkjunnar víða erlendis og sókn í reynslukirkjur á sömu svæðum er dæmi um þetta. Netið tengist þróuninni einnig. Æ stærri hópur fólks fær sína næringu og trúarmótun óháð trúarstofnunum, t.d. á veraldarvefnum. Trúverðugleiki kirkjustofnana hefur skerst og trúin færst yfir í að vera mál einstaklinganna. En þó stofanir breytist er trúarlífið ekki minna – heldur fremur með öðrum hætti. Andleg leiðsögn er eitt og stofnunaleiðsögn annað. Kristnin verður í nýrri startstöðu og aðstæður fara að líkjast stöðu frumkristninnar og tækifæri kirkju og trúar mörg og ný?

Á aðalfundardegi safnaðar Neskirkju er guðspjall dagsins boðskapur um líf eða dauða, stofnun eða trú. Nessöfnuður í Reykjavík er á krossgötum eins og allir söfnuðir í landinu. Framundan er breyttur tími, jafnvel bylting kirkjustarfs. Við erum leidd frá góðu haglendi þægilegrar aðstöðu inn í nýjan tíma. Þorum við að spyrja erfiðra spurninga um okkar trúarlega landbúnað, um áherslur okkar, líf og leiðir og lífsgleði. Góði hirðirinn lét ekki lífið fyrir stofnun heldur fólk. Heyrum og nemum þegar Jesús segir: “Ég er góði hirðirinn og þekki mína og mínir þekkja mig eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn.”

Amen.

Um breytingar í angikönsku kirkjunni sjá t.d. umfjöllun um afsögn Rowan Williams og stöðu kirkjunnar grein í USA today að baki þessari smellu.

 

Ég flutti fyrirlestur á fundi presta 12. janúar 2011 og ræddi um strauma tímans og kall til kirkjunnar. Ýmis mál voru ydduð til að vekja umræður. Upphafsorð mín, inngangur umræðunnar, er á upptöku að baki þessari smellu.

Textaröð:  A

Lexía:  Esk 34.11-16, 31

Því að svo segir Drottinn Guð: Nú ætla ég sjálfur að leita sauða minna og líta eftir þeim. Eins og hirðir lítur eftir hjörð sinni þegar hún er á dreif í kringum hann mun ég fylgjast með mínu fé. Ég mun bjarga sauðum mínum frá öllum þeim stöðum sem þeir dreifðust til á hinum dimma og drungalega degi. Ég mun leiða þá burt frá þjóðunum, safna þeim saman úr löndunum og leiða þá heim til síns eigin lands. Ég mun halda þeim í haga á fjöllum Ísraels, í daladrögum og á hverju byggðu bóli í landinu. Ég mun sjálfur halda þeim til beitar í góðu haglendi, beitiland þeirra verður á háfjöllum Ísraels. Þar munu þeir leggjast og ganga í frjósömu haglendi á fjöllum Ísraels. Ég mun sjálfur halda fé mínu til beitar og sjá því fyrir hvíldarstað, segir Drottinn Guð. Ég mun leita þess sem villist og sækja hið hrakta, binda um hið limlesta og styrkja hið veikburða. Ég mun gæta hins feita og þróttmikla og halda því í haga eins og rétt er.

Þið eruð hjörð mín sem ég held í haga. Ég er Guð ykkar, segir Drottinn Guð.

Pistill:  1Pét 2.21-25

Þetta er köllun ykkar. Því að Kristur leið einnig fyrir ykkur og lét ykkur eftir fyrirmynd til þess að þið skylduð feta í fótspor hans. „Hann drýgði ekki synd og svik voru ekki fundin í munni hans.“ Hann svaraði ekki með illmælum er honum var illmælt og hótaði eigi er hann leið, heldur fól það honum á vald sem dæmir réttvíslega. Hann bar sjálfur syndir okkar á líkama sínum upp á tréð, til þess að við skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eruð þið læknuð. Þið voruð sem villuráfandi sauðir en nú hafið þið snúið ykkur til hans sem er hirðir og biskup sálna ykkar.

Guðspjall:  Jóh 10.11-16

Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Sá sem er leigður og hvorki er hirðir né á sauðina, hann flýr og yfirgefur sauðina þegar hann sér úlfinn koma og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim. Enda gætir hann sauðanna aðeins fyrir borgun og er ekkert annt um þá. Ég er góði hirðirinn og þekki mína og mínir þekkja mig eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina. Ég á líka aðra sauði sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.

Kirkja á krossgötum?

“Þið prestarnir eruð mikilvægir, en það væri engin kirkja ef við, fólkið, værum ekki líka.” Svona setningar hafa oft hljómað liðnar vikur í aðdraganda biskupskjörs. Leikmannastefna þjóðkirkjufólks er haldin í Keflavík 13.-14. apríl undir yfirskriftinni: “Er kirkjan á krossgötum?” Þar verður staða þjóðkirkjunnar rædd og nýtt lagafrumvarp um kirkjuna kynnt. Leikmenn íhuga stöðu sína og hvaða möguleika þeir hafi til áhrifa og til eflingar kirkjunnar.

Marteinn Lúther gagnrýndi klerkaveldi miðalda og lagði áherslu á hin skírðu væru hinir eiginlegu prestar Guðs. Hlutverk vígra manna væri ekki til valda heldur til hjálparstarfa. Vígðir voru því ekki lengur skilgreindir sem ráðandi yfirstétt heldur þjónar Guðs og manna. Allir gegndu trúarlegu hlutverki. Þetta var kraftmikil hugmynd, sem braut niður aðgreiningar milli hópa og endurskilgreindi vald. Hugmyndin um almennan prestsdóm hafði mikil áhrif á þróun lýðræðis í okkar heimshluta og líka á Íslandi. Og hún varðar skipulag og líf þjóðkirkjunnar. Skírnin er fyrsta og mikilvægasta vígslan og hin skírðu eru kirkjufólkið í landinu.

Þjóðkirkjan er opin kirkja og metur alla jafnt. Hún þarfnast þess, að allar gáfur fólks nýtist. Leikmenn eru ekki annars flokks fólk, heldur skv. kenningunni almennir prestar. Leikmenn gegna margvíslegum störfum, t.d. í sóknarnefndum, kórum, eru sjálfboðaliðar í barnastarfi, öldrunarstarfi, nefndum, ráðum, viðhaldsvekefnum, heimsóknarþjónustu, messuhópum og öðru kirkjustarfi. Leikmenn eru ekki aðeins tugir þúsunda sjálboðaliða í starfi þjóðkirkjunnar, heldur allt kirkjufólkið, hið kristna fólk í landinu. Þetta fólk er ekki undirmenn prestanna, heldur samverkafólk, sem hefur hæfileika, þekkingu og gjafir, sem auðga safnaðarlíf og þjóna kirkjunni.

Starf kirkjunnar hefur aukist og breyst síðustu ár. Lykill að starfsbótum þjóðkirkjunnar er virkja og valddreifa, gefa öllum, sem vilja, færi á að hafa áhrif til góðs í kirkjulífinu. Það er gildandi vaxtarstefna þjóðkirkjunnar, að efla leikmenn til áhrifa. Þjóðkirkjan er ekki og á ekki að vera klerkakirkja, heldur kirkja allra skírðra og stórfjölskylda gleðinnar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. apríl, 2012.

Ástarsögur

“Þetta er kirkjan okkar. Kirkjan er hluti af okkur. Við viljum halda í hana og hafa hana fallega.” Ég stóð við hliðina á sóknarnefndarformanni norður í landi og ræddi við hann um stöðu kirkjunnar, um kirkjuhúsið og þróun kirkjumála. Hann færði í orð viðhorf fólks um allt land. Við eldhúsborð og í stofum hef ég heyrt svipaðar sögur fólks um kirkjuna. Þjóðkirkjan skiptir þau máli, en það er kirkjan þeirra, sóknarkirkjan og líf hennar, sem þau tala um af mestri elskusemi.

Kirkjuhús þjóna ýmsum hlutverkum. Þau eru skoðunarstaðir ferðafólks á leið um landið. Margir stoppa til að skoða kirkjur og garðana umhverfis þær vegna þess að þar eru menningarminjar. Þær tjá með ýmsum hætti stöðu og getu samfélags. Þær tjá líka sjálfsviðhorf fólks í sókninni. Fólk vill, að kirkjuhúsin séu falleg og þykir ótækt að þau grotni niður þó erfitt sé að finna fé til að kosta viðgerðir. Svo eru þessi hús umgjörð um mikilvægustu og helgustu athafnir í lífi fólks, staðir lifandi orðs og samfélags. Ytri ásýnd á því að hæfa tilefnum, umgjörð á að vera í samræmi við inntakið.

Kirkjur eru tákn um sögu viðkomandi byggðar og samhengi þeirra kynslóða, sem eiga sér sameiginlegan helgidóm, jafnvel um aldir. Kirkjur eru tákn, sem vísa til gilda og guðlegrar verndar. Hvert samfélag þarfnast dýpri skírskotunar um sið, hlutverk og tilgang. Kirkjurnar hafa ekki aðeins þjónað því hlutverki að teikna línur í landslag, vera kennileiti í sveit eða augnhvílur fólks á ferð. Kirkjuhús eru tákn um að mannfélag eigi sér dýpri rök og guðlegt samhengi, sem ekki bregst þó flest sé í heiminum hverfult.

Ég hef síðustu vikur heyrt margar kirkjulegar ástarsögur. Ég er djúpt snortinn af ástartjáningum fólks gagnvart kirkjunum þeirra. Að baki játningu þeirra er heilindaafstaða, ekki aðeins til húss, heldur til menningar, sögu og trúar.

Saga Jesú Krists er ástarsaga Guðs, sem gefur líf, nærir það og leysir úr viðjum. Við mannfólkið erum aðilar og persónur þeirrar sögu. Kristnin túlkar hana með margvíslegu móti. “Meðan kirkjan stendur mun þessi byggð standa” var sagt um kirkju á Suðurlandi. “Ég elska þessa kirkju” sagði ein konan og átti bæði við húsið og erindi hennar. Góðar ástarsögur hrífa. Ástarsaga Guðs skapar líf kirkjunnar og varðar okkur öll.

Páskafólk

Kona, sem alla ævi bjó við fátækt og hafði misst mikið, átti sér orðtæki og sagði gjarnan: “Ég er svo heppin.” Hún hafði lært, að sjá ljós í erfiðum aðstæðum. Hún var – þrátt fyrir áföllin – hamingjusöm og lánsöm því hún tamdi sér jákvæðni. Hún hafði lært, að vinna með hið mótdræga og sá möguleika þar sem aðrir sáu bara kreppu. Hvernig ferðu að með það, sem er þér andsnúið? Er glasið þitt hálffullt eða hálftómt? Ertu föstudagsmaður eða sunnudagsmaður?

Í lífinu er ekki bara spurt um jákvæðni eða neikvæðni, að vera í stuði eða í mínus, föstudagsgeðslag eða sunnudagsstemmingu. Þegar föstudagurinn langi var að kvöldi kominn var öllu lokið. Guð og maður á krossi! Þá var illt í efni, verra verður það ekki. En síðan er seinni hluti sögunnar, að dauðanum var snúið í andhverfu sína, sagan endaði vel þrátt fyrir dauða söguhetjunnar. Gröfin sleppti feng sínum, lífið lifnaði og tilveran er því góð. Það eru þær fréttir, sem breyta öllu í lífi kristins manns. Fasta breytist í páska, Guð leysir alla fjötra.

Ef við temjum okkur jákvæðni í lífinu höfum við lært lífsleikni, sem hjálpar í þrautum og þegar eitthvað verður okkur mótdrægt. Við verðum þar með sunnudagsfólk. En þegar við heyrum páskaboðskapinn og tökum hann til okkar verðum við að auki páskafólk. Páskaboðskapurinn verður sem kraftaverk í lífi sunnudagsjákvæðninnar. Lífið er ekki bara af sjálfu sér heldur líf í samhengi Guðs.

Páskaboðskapurinn umbyltir lífi okkar. Hann breytir heimssýn trúmanna og þar með veröldinni. Hún er ekki lengur lokað kerfi dapurlegra ferla, ekki lengur aðeins tilvera til dauða. Veröldin verður opið kerfi og jafnvel lögmál lífs og dauða eru brotin. Ekkert er svo slæmt í lífi okkar, ekkert er svo dapurlegt, engin áföll eru svo stór, að Guð geti ekki, megni ekki og nái ekki að koma þar að með hjálp sína og gleði. Guð elskar og við erum svo heppin að mega vera páskafólk.

Kristur er upprisinn – Kristur er sannarlega upprisinn.

Greinin birtist fyrst á trú.is.