Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is. Þá var talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is Sá vefur er nú lokaður.

Erasmus – upphefð og andstreymi

Vinur minn mælti með Erasmusi og ég varð hissa. „Meinarðu þennan sem kenndur var við Rotterdam?“ spurði ég. Og svarið var „já – í útgáfu Stefan Zweig.“ Ég vissi ekki af þýðingu þeirrar bókar en ábendingin fór á bak við betra eyrað. Svo brosti Zweig-Erasmus feimnislega við mér á bókmarmarkaðnum í Laugardalshöll. Og ég keypti kverið og fór að lesa um heimsmanninn, lærdómsjöfurinn, gunguna og friðflytjandann Erasmus. Hann átti vini í viskusetrum Evrópu og gat – þrátt fyrir munkaheftingarnar – flakkað á milli góðbúa spekinnar og valdasetra álfunnar, látið ljós sitt skína, heillað fróðleiksþyrsta og lagt gott til skilnings og tengsla. Svo opnaði hann mörg hlið fyrir Martein Lúther og aðra jöfra siðbótarinnar á sextándu öld og breytti þar með heiminum.

Stefan Zweig skrifar fjörlegan, litríkan en einnig upptjakkaðan texta um persónuvíddir Erasmusar og líka gunguskap hans. Hann lýsir heilsufari meistarans, viðkvæmni, kvíða og hugleysi, fræðasókn hans, vinnusemi og löngun hans til að láta gott af sér leiða. Svo fáum við innsýn í lagskiptingar miðaldasamfélagsins, áhrifavalda, menningarstjóra og hvernig búblur Evrópu þess tíma voru. Zweig teiknar vel persónugerð Erasmusar og hvernig hann myndar andstæðu við persónu Marteins Lúthers sem heillaðist af ýmsu því sem Erasmus hafði skrifað og kynnt. Mér þóttu lýsingar Zweig á Erasmusi skemmtilegri, trúverðugri og merkilegri en það sem hann skrifaði um Lúther. Lúthersprófíllinn er eiginlega aðlagaður þörfum Erasmusarlýsingarinnar. Erasmusi er lýst fyrst og Lúther síðan sem andstæðu til að styrkja eða dýpka lýsingu á Erasmusi. Bókin er ekki sagnfræðirit heldur ætlað að vera fjörleg og litrík túlkun. Hún er bókmenntaverk og jafnvel áróðursrit. Það er styrkur verksins að lýsa tveimur mikilvægum áhrifavöldum í Evrópu á fyrri hluta sextándu aldar til að skýra gerjun og þróun evrópskra stjórnmála, átaka og þar með menningarsögu næstu alda.

Stefan Zweig var af gyðingaættum, vinur margra gáfu- og menningarljósa Evrópu á fyrri hluta 20. aldar og meðal þeirra var Sigmund Freud. Uppgangur nasismans eftir fyrri heimsstyrjöld magnaði bál gyðingahaturs í Evrópu. Stefan Zweig varð ekki vært í álfunni, fannst hann missa heimili sitt og var eiginlega flæmdur að heiman eins og fjöldi annarra. Hann varð landflótta og lífsflótta og framdi að lokum sjálfmorð árið 1942. Hvernig líður manni sem er sviptur æru, manngildi og heimili? Í harðnandi menningardeiglu Evrópu var eiginlega óhjákvæmilegt að hann íhugaði ofbeldissókn manna og átök, hatur, andúð, frið, menntun, menningu og ólíka gerð mannfólksins. Í Erasmusi sá Zweig húmanista, boðbera friðar, mann lausna og sátta og fyrirmynd um margt það besta sem heimur og mannkyn þarfnast. Erasmus var merkileg og þörf fyrirmynd fyrir sextándu öldina en jafnvel líka þá tuttugustu og samtíma okkar. Með vísan í þróun stjórnmála samtíðar sinnar furðaði Zweig sig yfir hrottalegum kenningum Machiavelli í stjórnhörkuritinu Prinsinum. Af hverju svona hryllingsboðskapur og köld stjórnargrimd en ekki mildi og friðarsókn Erasmusar? Morðæði Pútíns gagnvart rússneskum og úkraínsku borgurum, Hamasæðið og Netanyahu-hryllingurinn þessara daga kallar fram stóru spurningarnar um menntun, menningu, frið og réttlæti. Það eru spurningarnar sem lágu svo þungt á Stefan Zweig og kölluðu fram bókina um Erasmus. Því er hún ekki aðeins um sögupersónur heldur almennt um lífsbaráttu fólks, eigindir, viðbrögð og gildi. Stórmerkilegt rit, ekki gallalaust og vissulega skrumskæling á ýmsu í persónum og söguhetjum ritsins en ávirkt og lyftir upp miklu fleiru en málum siðbótartímans og 16. aldar. Erasmusbókin er um okkur líka, fólk á 21. öld sem glímir við rosalega mengun, vond stjórnmál, þegjandahátt menntafólks og getuleysi leiðtoga þjóða. 

Lof sé Sigurjóni Björnssyni sem þýðir Erasmus – upphefð og andstreymi svo vel og Skruddu fyrir útgáfuna. Takk Ómar fyrir að mæla með bókinni. Hún situr í mér. Erindið er blóðríkt og klassískt.

Meðfylgjandi kennimynd er málverk Holbein af Erasmus frá Rotterdam. Myndin er einnig notuð á framhlið íslensku útgáfunnar.

31. mars, 2024.

Skírdagsbæn

Kom Jesús Kristur.

Ver hjá okkur – kvölda tekur og degi hallar.

Við biðjum fyrir öllum þeim

sem eru okkur bundin kærleiksböndum.

Gæt þeirra á lífsveginum.

Send heilagan engil þinn, Drottinn,

að styrkja öll þau er syrgja og sakna

allar stundir nætur þar til dagur rennur

og ljós þitt kemur. Hjálpa okkur að heyra hvað við okkur er sagt, hver lífsdómur okkar er.

„Í þínar hendur Drottinn Guð vil ég nú fela anda minn. Þú hefur endurleyst mig Drottinn, þú trúfasti Guð. Gæt vor Drottinn eins og sjáaldurs augans. Varðveit oss undir skugga vængja þinna. Frelsa oss Drottinn meðan vér vökum, varðveit þú oss er vér sofum svo að vér vökum með Kristi og megum hvíla í friði.”

Þú knýrð á, gengur í hús þitt,

Sest niður og brýtur brauðið.

Þú brýtur brauð fyrir veröld, sem hungrar

og þyrstir eftir réttlæti, lífsins orði.

Kenn okkur að þiggja brauð þitt,

Þiggja svikalausa fyrirgefninu – vera þín börn.

Amen

Myndina tók ég í Árnessýslu. 

Elskhugi veraldar

Guðsmyndir manna eru tjáning á þrá og oft klisjur. Guð er gjarnan samsafn drauma og óttaefna mennskunnar. Guðstjáning er frumljóð manna. En þegar við skiljum manngerðar klisjur getum við betur skilið að Guð er ekki með stýripinna eða putta á efnaferlum, snjóflóðum eða krabbameinum veraldar. Guð er ekki harðstjóri einhverra hungurleika manna. Valdasæknir henda upp á himininn eigin ímynd í bólginni yfirstærð til að geta síðan réttlætt eigið vald, eigin grimmd og hrylling. Þeir búa til sinn guð sem er alls ekki guð kristninnar. Gagnrýnendur slíkra grunnra klisjuhugmynda hafa rétt fyrir sér. Þannig guð væri hræðilegur. Guð kristninnar ýtir ekki af stað snjóflóðum eða lætur börn deyja og fólk missa ástvini. Sá guð væri fáránlegur. Guð sem ég þekki er bæði mennskur og guðlegur og hefur reynslu af lífi og þjáningu heimsins. Guð sem Jesús Kristur tengir okkur við er ekki hátt upp hafið vald sem bara skiptir sér af okkur og veröldinni í stuði eða reiðikasti. Guð er lífgjafinn sjálfur og nálægur í gleði og böli. Í hryllilegum aðstæðum hvíslar Guð í eyra þér: „Ég elska þig og er með þér og nærri þér.“ Fólk sem missir börn sín en heldur áfram að trúa á Guð lifir fremur í ástartengslum við Guð en auðmýkt fyrir valdi. Frelsi einkennir heilbrigt ástarsamband og einnig guðssamband. Í slíku trúarsambandi er Guð ekki lengur sá sem skipar eða veldur heldur hefur áhrif og er nærri. Í stað þess að stýra fólki eins og leikbrúðum er Guð nærri í lífsferli manna og í náttúrunni líka. Guð er ekki eins og yfirvald í efnaverksmiðju heldur skapar kjöraðstæður. Guð vill ekki vera ofurstjóri heimsins heldur elskhugi veraldar. Guð beitir ekki ofstjórn og þaðan af síður ofbeldi heldur er andlegt fang og stuðningur til hjálpar. Guðstengslin eru frelsistengsl.

Úr bókinni Ást, trú og tilgangur lífsins.

Einurð

Ljóðabók Draumeyjar Aradóttur, Einurð, kom mér mjög á óvart. Kannski ekki gæði bókarinnar, geta skáldsins eða öflugt skáldamál heldur fremur viðfangsefnið. Ég sá á flipanum að höfundur fjallaði um geðhrif, hughrif og kenndir og áhrif á einstklinginnn á fyrsta æviskeiði. Það eru ekki fyrstu árin heldur fósturtíminn í móðurlífi. Og ekki aðeins þeim megin – heldur hinum megin móðurnaflans líka. Gott og vel – hugsaði ég með mér. Já, vissulega áhugavert en samt var ég tortrygginn. En ljóðin gripu strax og vitundin flæddi í matrix lífsins.

„Langminnungar frumur líkama þíns færa mér

uppsafnaða reynslu formæðra okkar og forfeðra

 

langræknar flytjar þær mér áfram niður keðjuna

allar ástir og afrek

alla ósirgra og áföll

 

rista ljóðrúnir á legveggina

sem ég les mig í gegnum næstu vikur og mánuði

en endist ekki ævin til að ráða“ (s. 30)

Uppsöfnuð reynsla kynslóðanna er orðfærð, áhrif samfélags, viðburða og líka áfalla. Hvaða afleiðingar hefur dauðsfall á fóstur og tilfinningaþykkni og samlíf móður og hins nýja lífs. Ljóðin vísa til og tjá þá fléttu en ramma líka vel þagnarmálin.

Einurð er ekki ljóðsaga með póetískum prósatextum heldur nær því að vera marglaga söguljóð um upphaf manneskju og að auki í aðkrepptum aðstæðum. Þetta er þemabók um alvöruþema. Mér þótti stefjavinnan ganga upp. Þemað er unnið með ágætum.

Bókin varð mér persónulega nærgöngul því amma drengjanna minna varð til einhverjum klukkutímum áður en faðir hennar fór í hafið við Vestmannaeyjar. Hverjar eru afleiðingar áfalls, viðbragða og sorgarvinnu móður á hellisbúann nýkviknaða? Fæðingarreynsla er tjáð, inngrip, staða fósturs og síðan framhaldsmótun persónueiginda. Lýsingagnóttin er öflug og grípandi.

Til hamingju Draumey með þessa merkilegu bók. Hún kom inn um bréfalúguna kl. 10 að morgni og upp úr hádegi var ég búinn að lesa. Kona mín sagði vá þegar hún var búin að lesa fyrstu blaðsíðurnar!

Að baki þessari smellu eru upplýsingar um höfundinn. Gott viðtal við Draumeyju á Lifðu núna. Sæmundur gefur út og leggur metnað í útgáfuna sem er þakkarvert. Aðalsteinn Svanur Sigfússon vann bókina til prentunar og hann er landsliðinu í bókahönnun. 

 

 

Hörður Áskelsson heiðraður

Herði Áskelssyni voru veitt heiðursverðlaun íslensku tónlistarverðlaunanna 2024. Það er verðskuldað. Hörður var vorboði í tónlist þjóðkirkjunnar þegar hann kom heim frá námi í Þýskalandi og síðan stormsveipur. Í honum bjó mikill metnaður, geta og einurð sem nýttist ríkulega í uppbyggingarstarfi kóra- og listalífs Hallgrímskirkju. Hann hafði mikil áhrif sem kennari og fyrirmynd í tónlistarlífi þjóðkirkjunnar. Svo var hann frumlegur, sískapandi frumkvöðull. Hann lagði metnað í nýsköpun í sálmagerð og hækkaði viðmiðin almennt í kirkjulífi og tónlist. Ég þakka fyrir mig sem og fyrir hönd íslenskrar kristni. Lof sé Herði Áskelssyni og þökk sé þeim svo stuðluðu að því að heiðursverðlaunin voru veitt svo verðuglega árið 2024. Myndin er af Herði og dótturdóttur hans á 30 ára vígsluafmæli Hallgrímskirkju 2016.

Grein mín til heiðurs Herði í 2003-riti Mótettukórsins er að baki þessari smellu.  Myndina hér að ofan tók Saga Sig.