Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is. Þá var talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is Sá vefur er nú lokaður.

Týnda syninum fagnað

Á föstudögum er biblíumatur eldaður í Neskirkju. Reyndar voru tæplega tíu kg. af nautakjöti steikt og sett síðan í kryddblöndu þegar í dag,  á fimmtudegi – til að marinera kjötið vel. Á borðum 26. október verður máltíð af því tagi sem gæti hafa verið elduð þegar týnda syninum var fagnað. Allir eru velkomnir í ilmandi og bragðgóðan biblíumat í Neskirkju. Kynning og bæn verður kl. 12. Allt hráefnið er af því tagi sem líklega hefur verið notað af því fólki sem segir frá í Biblíunni. Uppskriftin er ekki leyndarmál heldur má gjarnan elda í heimahúsum. Verði ykkur að góðu.

Fyrir 6

800 gr fitulítið ungnautakjöt

2 msk furuhnetur

2 msk estragon

1 tsk basilika

1 tsk rósmarín

2 tsk Maldonsalt

1 tsk svartur pipar

4 msk ólívuolía

15 smátt skornar döðlur

3 msk þurrkaðir ávextir – t.d. apríkósur eða það sem þér finnst gott!

2 stórir rauðlaukar

6 hvítlauksbátar

2 perur

Furuhnetur, kryddið, ólífuolía og hvítlaukur sett í matvinnsluvél, malað og úr verður þykkur grautur, má þynna með ólífuolíu. Kjötið skorið í 2 cm teninga sem eru settir í kryddgrautinn og séð til að allar hliðar kjötbitanna séu vel þaktar. Best er að marinera einhvern tíma, jafnvel sólarhring. Kjötið steikt á snarpheitri pönnu og þegar það er farið að brúnast er smátt skornum lauk og döðlum bætt í. Þess gætt að ekki brenni. Hráefni, sem eftir er, út í. Hiti lækkaður og til að varna bruna er vatni bætt á pönnuna. Þegar fullsteikt er, slökkvið undir og leyfið matnum að standa góða stund. Það hjálpar þurrkuðu ávöxtunum að koma til og smita út sínu bragði.

Bulgúr sem og bygg eða kúskús er gott meðlæti og líka litsterkt ávaxtasalat.

Skemmtileg útgáfa að skera hráefnið til þræðingar á spjót og grilla síðan.

Íhugið gjarnan Lúk. 15.11-32. Hver var týndur? Voru kannski báðir synirnir týndir? Hvað merkir veislan í sögunni og hvernig bregst faðirinn við? Hver er faðirinn í sögunni? Í hvaða stöðu erum við? 

Borðbæn: Gef oss í dag vort daglegt brauð. Amen.

Sigurður M. Kristjánsson – frændi

„Nú ert þú kominn?” sagði frændi í haust. Hann hafði ekki mörg orð um gleði sína en sagði flest með bliki augna. Flöktandi vitund hans small inn í nútímann og hann óskaði frétta um helstu mál, fjölskylduhagi, viðfangsefni og verkefni. Vitund mín víkkaði og hálfrar aldar saga okkar frænda rann hjá hið innra. Hann var mér sem besti faðir. Minningar hrönnuðust upp á sálarskjáinn, allt frá því að hann faðmaði mig sem ungsvein í sveit bernskunnar eða setti mig á hné til að kenna vísu. Hann kenndi mér að marka lamb, þuldi mér örnefni, renndi í gegnum ættboga í Þistilfirði eða Dölum, skýrði Hávamál, veitti innsýn í guðfræðiátök fyrri aldar, gladdist á gjöfulum dögum búskapar, berja og veiði, lagði mér lífsreglur, kenndi að lesa bæði í veður og kringumstæður mannlífs. Hann miðlaði líka að á öllum skuggahliðum er birta hinum megin. Alltaf treysti hann mér til verka, aldrei tjáði hann efa sinn um að ég gæti ekki eða gerði ekki það sem hann fól mér. Þau Stefanía fóru í marga daga fundaferðir og skildu mig einan eftir, unglinginn, með allan búrekstur á Brautarhóli. Ég mat tiltrúna og hef síðan skilið eðli ráðsmennsku. Hann tjáði þakklæti fyrir vel unnin verk, stuðning eða samúð með meitluðum orðum. Frændi var góður stjóri, vildi ræktun lands, lýðs og fólks. Ungmennafélagsandinn rímaði vel við stefnu guðfræðingsins, sem fléttaði vel forsendur sínar í þjónustu menntunar og búskapar.

Við eigum okkur mæður og feður, frændgarð og umhverfi. Minn lífsbónus var að eiga frænda líka. Móðir mín kenndi mér að “frændi” væri eitt göfugasta heiti veraldar. Sigurður M. Kristjánsson fyllti svo það hlutverk inntaki og afstöðu. Að vera frændi er iðka mannvirðingu og elskusemi. Ég ber ekki aðeins nafn hans heldur naut hans með svo margvíslegu móti. Hann lagði til hugmyndir og skoðanir með snörpum tilsvörum, hnussi eða hlýju. Hann kenndi mér að njóta náttúrunnar, stoppaði mig stundum til að hlusta eftir hljóðum, kenna hvaða fugl syngi eða til að benda á bæjaröð og segja mér sögu fólksins á svæðinu. Ég var sumarvinnumaður skólastjórabóndans allt til fullorðinsára. „Þú ert elsta barnið okkar Stefaníu” sagði hann stundum við mig og tjáði þar með ást sína og afstöðu þeirra beggja. Svo fylgdist hann grannt með námi, sögu, ráðlagði mér hiklaust, hafði skoðanir á hvað yrði til eflingar og hvað til tjóns. Ráð hans voru glögg, stundum óvænt en alltaf til gagns. Alltaf átti ég í frænda styrka stoð. Frændi í lífinu er ómetanlegt þakkarefni.

Svo var komið að skilum. Ég sagði honum, að nú væri ég búinn að selja og láta frá mér eigur mínar í Svarfaðardal. Þá komu tár í augu hans. Við vissum báðir, að þar með yrðu skil. Farfuglinn að sunnan hætti að koma og hann væri á förum. Haustið væri komið. Við strukum hvorn annan og ég merkti hann krossi bæði á enni og brjóst. Við föðmuðumst meira og kvöddumst í hinsta sinn, með harm í vitund en líka gleði í sál fyrir að hafa átt hvorn annan að. Guð geymi hann og hans fólk.

Á kennimyndinni efst er Sigurður lengst til hægri í hópi bræðra. Sigurjón í miðið og Gísli til vinstri. Á myndinni í miðri grein eru Kristján Tryggvi, Gunnar Þór, frændi og Stefanía auk mín með hund í fangi. Hér að neðan horfir frændi heim að Brautarhóli.

Náttúruhátíð og heimsljósið

Hljóðskrá prédikunar á Jónsmessu

Messa hvaða Jóns er þessi Jónsmessa? Er það Jón Vídalín? Nei og ekki Jón Arason eða Jón Vilhjálmsson. Og ekki heldur Jón Gnarr. Messa Jóns er messa skírarans Jóhannesar Sakaríasonar, þess sem skírði bæði Jesú og fjölda fólks iðrunarskírn. Nafnið Jóhannes er til í mörgum útgáfum t.d. Jón, Hans, John eða Jon. Já, Jónsmessa er messudagur Jóhannesar skírara. Til hans er sjónum beint um allan hinn kristna heim á þessum tíma kirkjuársins. Lesa áfram Náttúruhátíð og heimsljósið