Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Haustfasta í Neskirkju

kvöldmáltíðarmynd barna 450Viltu breyta mataræði og líðan? Efnt verður til haustföstu í Neskirkju 7. – 17. október. Fastan er ekki erfið en þó endurnýjandi. Matur á borðum föstufólks verður grænmeti, ávexti, heilkorn (glúteinlaust) og hnetur í þessa 10 daga sem fastan varir. Og fólk fær margvíslegan stuðning til að námskeiðið nýtist sem best.

Matur hefur mikil áhrif á líðan og heilbrigði – og sömuleiðis skiptir miklu máli hvernig fólk stuðlar að andlegri hreinsun og endurnýjun.

Margrét Leifsdóttir, heilsumarkþjálfi IIN og arkitekt, og hjónin Elín Sigrún Jónsdóttir lögfræðingur og ACC markþjálfi og dr. Sigurður Árni Þórðarson, Neskirkjuprestur, halda námskeið í safnaðarheimili Neskirkju um mat, hreinsun, föstu og heilsurækt.

Námskeiðsfundir eru þrír; matreiðslunámskeið, upphafs- og lokafundur.

Innifalið:

Matreiðslunámskeið fimmtudaginn 3. okt. 18:30-21:30

Upphafsfundur föstu kl. 20:00 – 21:30, mánudaginn 7. okt. og lokafundur fimmtudaginn 17. okt. kl. 20:00 – 21:30, bæklingur um hreinsunina ásamt uppskriftum, daglegir tölvupóstar og pepp. Allir þátttakendur fá einn frían tíma í markþjálfun

Matreiðslunámskeið verð 5.200.- Föstunámskeið 12.500- (hjón greiða aðeins eitt gjald f. föstunámskeið).

Sendið þátttökutilkynningu til s@neskirkja.is eða skráið í s. 5111560, fyrir mánudaginn 30. september.

Takmarkaður fjöldi þátttakenda.

Kökur af himnum

photoÍ lok messunnar í Neskirkju 21. júlí hvatti ég söfnuðinn að venju að staldra við á Torginu eftir messu. Ég lét þess einnig getið að kosturinn yrði horandi því kirkjuvörðurinn, Valdimar Tómasson, hafði sagt mér að hann hefði ekkert annað en saltstangir til að setja fram með kaffinu! Svo fóru flestir úr kirkju í messukaffið. En sjá, kökukraftaverkið mikla varð.

 

 

Lesa áfram Kökur af himnum

Póesía lífsins – Baldur Óskarsson +

Baldur ÓskarssonBókmenntaunnendur þekkja orðið “póesía” – orð sem er í mörgum útgáfum í vestrænum tungumálum. Að baki öllum póetískum ljóðnefnum og ljóðafleggjurum er hið fallega gríska orð poiesis, ποίησις. Það er ekki aðeins snoturt á blaði, heldur þrungið merkingu. Það táknar ekki aðeins það, að stafla orðum í ljóð, heldur líka hið hagnýta, að vinna, búa til með höndum, kalla fram líf og hlúa að því. Að ljóða er að gera – að skapa. Að ljóða er líka það að tengja himin og heim.

Meðal Grikkja og Hebrea var póesía ekki aðeins huglægt verk, heldur náði til fóta, handa, starfa, sköpunar, já raunveruleika og lífsbaráttu fólks. Samkvæmt þessum skilningi var handverk aldrei sálarlaus iðja heldur átti sér líka andlegar víddir. Þessi speki er hagnýt. Handverk við ritvél eða tölvu, í eldhúsi, garði, námi, við bleyjuskipti, já öllu ati lífsins á sér andlega hlið. Hin dýpsta speki, sem við kunnum að hugsa getur á hinn bóginn heldur aldrei lifað nema hún eigi sér hagnýta skírskotun í pólitík, í listum og í deiglu samfélagsins. Lífið er eitt og fólk fornaldar vissi, að lífið á sér framvindu, bæði andlega og efnislega. Allt er tengt og allt er á hreyfingu. Lífið var og er gjörningur, samfelld póesía.

Og Baldur var maður póesíunnar, altengdur hræringu lífs, músík náttúrunnar, hann sniðlaði texta og vann þar með lífinu. Skáldskapur hans var djúpfundinn, myndmálið kraftmikið en þó einnig torrætt, litríkið mikið í málverki orðanna. Innri rými mannsandans urðu Baldri rannsóknarefni, menningarsagan kitlaði og málverk hrifu og gerningurinn varð í skáldinu, poiesis.

Tíu ára drengur austur í Rangarvallasýslu gat skynjað djúpt, lifað stórt og tengt upplifun við orð. Og í skáldinu -sem túlkaði bernskureynsluna – bjó líka kímni sem gat horft til baka til fólksins sem hann þekkti í uppeldi sem hafði líka gleði af uppátækjum barnsins. Í ljóðinu

Hvert ertú að fara gamli maður? segir skáldið Baldur um sjálfan sig og hina gjafmildu og kímnu Guddu í austurbænum:

Ég var tíu ára

Gamla konan í austurbænum

færði mér gullpening spegilfagran

 

Ég furðaði mig á því

að gömul fátæk kona

skyldi gefa mér slíkan fjársjóð

 

Það var um það leyti

sem ég tók uppá því

að ganga álútur

 

Hvert ertú að fara?

sagði hún stundum

og hermdi eftir mér

Hvert ertú að fara gamli maður?

 

Gudda, ég veit það ekki

 

Kannski upp á veg

Vonandi held ég höfði

þökk sé þér

 

Ég er að fara

 

Ætt og uppruni

Baldur Óskarsson fæddist í Hafnarfirði 28. mars 1932. Hann var gefinn nýfæddur. Hann ólst ekki upp hjá blóðforeldrum sínum Óskari Eyjólfssyni og Ingigerði Þorsteinsdóttur heldur var settur í fang móðurbróður sínum og konu hans. Þau urðu fósturforeldrar hans, hjónin Sigríður Ólafsdóttir frá Austvaðsholti í Landssveit og Þorsteinn Þorsteinsson frá Berustöðum. Þau bjuggu á Ásmundarstöðum í Holtum.

Þegar í frumbernsku var Baldri hliðrað til. Kannski var hann í hliðrun alla tíð síðan? Hann þekkti foreldra sína og var aldrei leyndur uppruna sínum og bjó við ríkulega elskusemi fósturforeldranna sem hann mat og þakkaði. Hann naut tveggja heima sýnar í foreldramálum og varð síðan maður margra heima í lífinu. Hann megnaði að vera eitt en sjá til annars, rækja köllun sína en sinna skyldustörfum einnig.

“Leit inn í heiminn lifandi barn.” Og Baldur var vissulega þegar í bernsku alnæm kvika og teygaði í sig orð aldanna sem hljómuðu í sveitinni, þjálfaði fásinnisminni sem aldrei brást honum síðan, lærði að skynja tónlist í veðri, mosa og fólki, lærði að nema speki íslenskra sagna, gleðjast yfir litríki ljóða og sjúga í sig lífmagn bókmennta.

Á Ásmundarstaðaheimilinu naut Baldur klassísk-íslenskrar menntunar og mótunar. Og einn þáttur þess var að lesa Biblíuna. Fólkið hans Baldurs tók líka á móti öllum gagnrýnum straumum samtímans (Þorsteinn Erlingsson et.al). Baldur lærði því við fóstru – og fóstrakné list hinnar gagnrýnu samstöðu sem dugði honum vel í lífinu. Svo hafði fólkið á Ásmundarstöðum líka tíma til að tala, ræða málin og einnig kenna flókin fræði með einföldum og skýrum hætti.

Í einu ljóðinu segir Baldur frá að hann horfði á fóstru sína stinga prjóni í gegnum bandhnykil sem hún hallaði síðan. Með hjálp þessra einföldu kennslutækja skýrði hún fyrir drengnum möndulhalla og hringekju jarðar og gang pláneta. Og drengurinn lærði ekki aðeins stjörnufræði heldur naut að auki lífsspeki fóstru sinnar – og tók eftir dagsbirtunni í augum hennar þegar hún fræddi hann. Stóru himinvíddirnar og geimmál fylltu hann geig en síðar kom gleði. Hnykill og prjónn urðu tilefni póetísks gernings. Í þess konar hliðrun stækkar vitund, orð raðast saman, hinu efnislega er stefnt til hins óefnislega og ný merking verður til. Við lærum frá hinu þekkta og fikrum okkur til hins óþekkta. Það er póesía náms og menntunar.

Baldur lærði að vinna en uppgötvaði einnig snemma að hann þurfti tíma með sjálfum sér til að sinna eigin innri manni. Hann samdi meira að segja við sitt fólk um að hann fengi einkatíma hluta dags til eigin iðju. Slitsterk menning og viska Íslands seitlaði inn í drenginn, náttúran varð honum ofurfang móður sem hann átti trygga alla tíð.

Og hann var tilbúinn að fara að heiman og fara raunar langt í tíma, rúmi og menningu.

Baldur fór í Skógaskóla, síðar í lýðháskóla í Svíþjóð. Svo heillaðist hann af Barcelona og spænskri menningu, lærði listasögu í Katalóníu, naut lífsins þar syðra, heillaðist af fegurðinni, hljómum málsins og þýddi spænsk skáld.

Baldur var allur í orðum en lifibrauðið hafði hann af einkum af blaðamennsku. Hann var blaðamaður á Tímanum 1957-64, skólastjóri Myndlistarskóla Reykjavíkur 1965-73 og starfaði í áratugi sem fréttamaður og við dagskrárgerð hjá Ríkisútvarpinu.

Hjúskapur og börn

Kona Baldurs var Gunnhildur Kristjánsdóttir og þau nutu barnaláns. Börn þeirra eru þrjú:

 

Sigrún er elst og hennar maður er Gunnbjörn Marinósson. Þau eiga Baldur og Björk og tvö barnabörn.

Árni Þormar er í miðið. Hans kona er Valgerður Fjóla Baldursdóttir. Þau eiga dæturnar Valgerði Erlu og Gunnhildu Erlu og eitt barnabarn.

Magnús er yngstur og hans kona er Áslaug Arna Stefánsdóttir. Þau eiga dæturnar Kolku og Tíbrá.

Af Baldri eru því á lífi tólf afkomendur.

Fjölskyldulífið var fjölbreytilegt. Foreldrarnir reru frekar á djúpmið í menningarefnum en á grunnsævið. Listræn kvikmynd var eftirsóknarverðari en teiknuð afþreyingarmynd. Baldur vildi að börnin hans nytu geimupplifunar of fór með þau ung á Stanley Kubrick-myndina 2001 Space Odyssey með þrumandi Also sprach Zarathustra.

Og þor og frelsi náði líka til kosts og matar. Fjölskyldan fór gjarnan í gúrmetískar reisur í Hvalfjörð til tína kræklinga og efna til veislu.

Og heima sagði Baldur sögur, fór með börnin sín og barnabörn í langferðir ævintýra, ljóðheima og furðuheima lífsins. Ljúflyndi og hæglátt ástríki hans smitaði og skilaði. Það hefur hrifið mig mjög þessa síðustu daga að fylgjast með hve góð börnin hans og fólkið hans Baldurs eru hvert við annað – eins ólík og þau eru – þau hafa í sér dýpt virðingar, kímni og elskusemi sem Baldur miðlaði, heimilislífið einkenndist af og þau endurspegla síðan áfram í lífi og starfi.

Bókamaðurinn

Ritferill Baldurs spannar hálfa öld. Ritstörfin voru honum ástríðumál alla tíð og þó hann yrði að fara snemma á fætur til daglaunavinnu sat hann oft við ritstörf fram á nótt. Fyrsta verk hans var smásagnasafnið Hitabylgja sem kom út árið 1960. Þremur árum síðar kom út eftir hann skáldsagan Dagblað. Fyrsta ljóðabókin Svefneyjar kom út árið 1966. Baldur gaf út samtals fjórtán ljóðabækur og sú síðasta kom út árið 2010, Langt frá öðrum grjótum. Enn eru til óútgefin ljóð. Baldur var alltaf að – til hinsta dags.

Baldur var alla tíð á tali við fyrirrennara sína í heimi menningar og opnaði veru sína fyrir snilldinni, leyfði lífsmættinum inn í sig. Ljóðlist hans er myndrík því hann skoðaði myndlist alla tíð og hafði mikinn áhuga á henni. Mörg torræð ljóð opnast þegar myndlistartengslin verða ljós. Baldur var maður lita í ljóðum, hann hafði agað formskyn og vandaði frágang og vann verk sín til enda á blaði. Málfar Baldurs var agað og við sem áttum orðastað við Baldur vitum hve orðaforði hans var ríkulegur sem skilaði sér í ljóðlistinni. Viðfangsefni hans eru fjölbreytileg, náttúra, rök tilverunnar, tíminn, eðli reynslunnar, bernskan og myndmál.

Og kímni Baldurs kemur víða fram og oft sem mjúk stroka elskuseminnar. Og sem guðfræðingur hef ég haft gaman af kíminni hlýju í meðferð Baldurs á hinum trúarlegu stefjum.

Auk eigin ljóðagerðar fékkst Baldur við ljóðaþýðingar og þmt á verkum Federico Garcia Lorca. Baldur hafði löngum mikil samskipti við myndlistarmenn og hafði áhuga á myndlist. Hann skrifaði líka um myndlist í bækur og tímarit.

Baldur Óskarsson hefur í marga áratugi notið virðingar íslenskra orðavina. Þrátt fyrir torræðni póesíu hans hefur hann hefur verið metin og óumdeildur jöfur í íslenskri ljóðlist. Og það var vel og var honum sjálfum gleðiefni er hann hlaut verðlaun úr rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins árið 2011.

Frammi í safnaðarheimilinu eru nokkrar af bókum Baldurs sem þið getið skoðað. Ég veit að talsvert er óútgefið af ljóðum Baldurs og ástæða til að koma út. En ég held einnig að komið sé að því að gefa út safn ljóða hans og koma þeim á einn stað – og líka á vefinn. Baldur Óskarsson er án nokkurs efa einn af hinum stóru í íslenskri ljóðlist tuttugustu aldar.

Baldur ákvað snemma að búa ekki við fé eða skepnur í lífinu heldur við orð. Alla ævi bar hann saman orð og þjónaði orðlistinni. Og hann stóð sig frábærlega í þeim búskap. Æviverk hans er ríkulegt og fjölbreytilegt og við ævilok vil ég þakka hið framlag hans til íslenskrar listar og menningar.

Við skil hef ég verið beðin að bera þessum söfnuði kveðjur frá Baldri og Vallý og einnig afastúlkunni Björk Gunnbjörnsdóttur.

Hinn póetíski Guð

Verðandi veraldar er hrífandi. Í öllum bókum Biblíunnar er minnt á, að Guð er ekki fjarlæg, upphafin vera, heldur ástríðupersóna, sem elskar, grætur, faðmar, gleðst og syrgir. Samkvæmt kristninni er Guð svo tengdur, að þegar allt var brotið í mannheimi sat Guð ekki hjá heldur kom til að þurrka tár, lækna mein og skapa grundvöll lífsins. Guð skapar fólk til frelsis og yfirgefur aldrei þrátt fyrir mannabresti. Já, að skilningi trúarinnar er Guð stórskáldið, sem yrkir heiminn, yrkir mennina, nýtur lífsins, er sjálfur hin mikla póesía lífsins, líka þegar allt er þrotið, búið, týnt og brotið.

Fagnaðarerindið er að lífið er góður gerningur, póesía elskunnar. Þegar lífi lýkur og hvíti vegurinn – eins og Baldur kallaði hann – er framundan mætir ljóðmögurinn besti, opnar fangið og leyfir öllu fólki, já allri sköpun sinni inn í himininn. Þar má Baldur búa og hrífast, njóta linda hins lifandi vatns. Veröld Guðs er mögnuð og Guð er hrífandi. Baldur var á heimleið alla ævi – og nú er hann kominn heim.

Guð geymi Baldur um alla eilífð. Guð varðveiti þig.

Amen.

Vegna bálfarar verður ekki jarðsett í dag. Við lok þessarar útfararathafnar verður fallega kistan hans Baldurs borin út og að henni geta allir gengið að til að kveðja. Síðan verður erfidrykkja í safnaðarheimilinu strax. Baldur skrifaði á einum stað um að honum hefði líkað erfidrykkja í safnaðarheimili Neskirkju þar sem áfengur drykkur var í boði – og þannig verður það og í samræmi við vilja hans!

Til laugar gengur þú einn skrifaði Baldur í ljóðinu Hóllinn

Hóllinn minn veðraði –

gamalt sker

 

Þar sem brimaldan söng

heyrist mófuglatíst

 

Tönn er

úr manni

í sandinum svarta

Hægt

líður tíminn

og hægt

eyðist hollinn

 

Holurt í renningi –

rökkvar í hjarta

 

…Holurt í renningi…

rennur upp sólin

Þú yfirgefur hið liðna hægt

og hægt tognar á strengnum sem bindur þig –

blóður ertu

 

Til laugar gengur þú einn

Minningarorð um Baldur Óskarsson í Neskirkju 24. apríl, 2013.

Bálför og jarðsett verður í Fossvogsskirkjugarði.

Limts and Life

Limts and LifeÁ liðnu ári kom út hjá Peter Lang-forlaginu bók mín Limits and Life: Meaning and Metaphors in the Religious Language of Iceland. Ef þú vilt eintak gerðu svo vel að senda mér tilkynningu í tölvupósti með nafni, kennitölu og heimilisfangi. Efnislýsing bókarinnar er þessi:

Limits and Life: Meaning and Metaphors in the Religious Language of Iceland not only contributes to the field of Nordic cultural history, it is a valuable resource for those who may find themselves confronting threats and preparing for catastrophes in the twenty-first century. How can we best cope with traumatic events in nature, society, and the home? Facing and interpreting limits has been the pivotal religious task of Icelanders throughout the centuries. Strategies for survival became a necessity and included interpretations that assisted in coping with these crises along with strategies of escape. The theology of Icelanders offers potential ways for coping with difficulties and suggests strategies for addressing the limit-issues threatening us and later generations.

Kynning og umsagnir Peter C Hodgson, Vanderbilt, og Péturs Péturssonar, HÍ, eru á kynningarslóð forleggjarans að baki þessari smellu:

http://www.peterlang.com/download/datasheet/62994/datasheet_311703.pdf

Amazon er með þetta:

Þá skrifaði Pétur Björgvin Þorsteinsson ritrýni og birti á vefriti Háskólans á Akureyri. Slóð:

http://nome.unak.is/nm-marzo-2012/vol-8-n-1-2013/51-book-review/387-sigurdhur-arni-thordharson-limits-and-life-meaning-and-metaphors-in-the-religious-language-of-iceland-peter-lang-american-university-studies-2012

Páskabæn

Þú Guð lífsins
Lof sé þér fyrir veröld birtunnar, litríka jörð,
syngjandi náttúru, þá dásamlegu sköpun,
sem þú hefur reist til lífs.

Þú lausnari heimsins
Lof sé þér fyrir að þú veltir steinum við grafhvelfingar.
Þú ryður burt hindrunum á leið okkar til lífsgleði og friðar.
Leyf okkur að lifa í því vori og sumri, sem þín upprisa ól.
Veltu steinum frá – reis þú, Drottinn, þína veröld.

Þú andi lífs
Hugga þú þau sem vonlítil eru, lækna hin sjúku.
Vernda þau sem vandastörfum gegna.
Blessa þau sem dæma, stjórna og marka löggjöf.
Farsæl heimilislíf, atvinnu – allt líf samfélags okkar.
Blessa þau sem útbreiða frið þinn, boða orð þitt,
þjóna að altari þínu, hlúa að æsku, mennta fólk til lífsleikni.
Gef vitur ráð í þjónustu við þig.

Guð
Allt lífið skapar þú.
Allt lífið leysir þú.
Allt lífið nærir þú.
Amen

Páskabæn