Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Himinn og jörð faðmast!

AGA 150Friður yfir skírnarþeganum, hlý gleði í augum mömmunnar, Auðar Karítas, kyrra yfir Guðnýju, stóru systur, sem heldur undir skírn og Sverrrir bróðir á vakt – andblær elskunnar yfir og allt um kring. Ari, pabbinn – ljósmyndarinn – var greinilega utan skotlínunnar þó hann tæki ekki myndina. Himnesk forréttindi að taka þátt í blessun Guðs á börnum jarðar. Guð geymi Önnu Guðnýju Aradóttur.

Anna Guðný AradóttirAnna Guðný heitir í höfuð móðurömmu, serm ekki vissi nafnið fyrirfram og gladdist ósegjanleg. Amman er Aradóttir líka svo nafn og kenninafn er það sama hjá ömmu og dótturdóttur. Móðir skírnarþegans er Auður og foreldrar hennar, Anna Guðný og Ásgeir, eru með A sem upphafsstafi. Fjölskyldan er því AAA og hið triple-A er líka hjá yngri fjölskyldunni. Þetta fólk er í A flokk og skemmtilegt að fá að þjóna þeim!

Má bjóða þér kyrrð?

DSC01012Í janúar var kyrrðardagur í Neskirkju og þátttakendur hvöttu til að annar kyrrðardagur yrði haldinn. Og næsti kyrrðardagur verður haldinn 29. mars. Kyrrðardagur er dekurdagur fyrir sálina og öllum opinn. Dagskrá hefst kl. 10 árdegis og lýkur um kl. 15,30. Sigurður Árni Þórðarson, Neskirkjuprestur, stýrir þessum kyrrðardegi.

Kyrrðardagur í borg er knappari en margir dagar á kyrrðardagasetri. Á dagskrá eru íhuganir um skeið æfinnar og farnar verða tvær gönguferðir, önnur með Ægisíðu og hin í Hólavallagarð. Öllum er frjáls og ókeypis þátttaka. En veitingar þennan dag kosta kr. 1500.

Hvernig væri að bregða sér á kyrrðardag í Neskirkju? Skráning er með netpósti á s@neskirkja.is eða í s. 511 1560. Öll sem hafa áhuga á rækt hins innri manns og andlegri heilbrigði eru velkomin.

 

Orð lífsins

litBiblían er ekki úrelt heldur lifir í veröldinni því hún fæst við stóru mál mannanna, hvernig lífið getur snúist frá myrkri til ljóss, sorg til gleði, dauða til lífs. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af að hún hverfi í mistur tímans, því hún er klassík. Hún er – auk þess að vera trúarrit kristinna – líka sígildar bókmenntir. Hugmyndaheimur Biblíunnar hefur haft svo víðtæk mótunaráhrif, að ekki hægt að skilja menningarsögu heimsins, nema með því að vita talsvert um efni þessa mikla bókasafns. Það er illa menntaður maður sem ekki kann einhver skil á Biblíunni.

Menn kunna jafnan meira en þeir skilja. Skilningur er mikilvægari en staðreyndaskil. Aðalatriði í Biblíulestri er ekki að geta þulið staðreyndir frá Palestínu, vita hvaða ár hebrar voru herleiddir, hvar Hinnomsdalur var, hvenær síðasti hluti Jesajabókarinnar, trító-jesaja var skrifaður. Skólinn sér um eða á að sjá um staðreyndir og fræðslu þeirra, en hlutverk kirkjunnar er að miðla skilningi, visku og trú.

Inntak hennar Biblíunnar er mikilvægast en ekki fræði hennar. Þegar menn rata í háska og voða er hægt að eiga samleið með Job í kröminni, eiga í orðum hans túlkunarhjálp og samlíðun. Þegar mönnum blöskrar vitleysa og óréttlæti þjóðfélagsins er vert að leita til spámanna Gamla testamentisins og leyfa þeim að túlka réttlæti í samfélaginu, rétt þolenda, ekkjunnar, útlendingsins og annrra líðenda gerða samfélagsdólga.

Þegar við lendum í stórmálum lífs okkar getum við fundið samfellur í upplifunum og átakasögum hinnar helgu bókar. Þegar andi okkar er sundurknosaður eru engin rit veraldar næmari og nákvæmari túlkar tilfinninga og lífsreynslu en Davíðssálmar. Þeir fanga allar tilfinningar manna á öllum öldum. Þegar orða er vant eru Orðskviðirnir heillandi fjársjóðir til að ganga í. Og logandi ást manna? Tilfinningar og unaður er tjáður í Ljóðaljóðum.

Biblían er um líf, mennsku og vonarmál. Þegar unnið er með krísur er að finna gullnámu í bréfum Nýja testamentisins. Og heimsslitabókmenntir, heimsslitakvikmyndir líka, eru litaðar af Opinberunarbok Jóhannesar. Guðspjöllin eru klassík, sígildi sem varða tíma og eilífð, sið og ósið, trú og trúleysi, merkingu og merkingarleysi. Þegar glíma þarf við stærstu mál tíma og eilífðar verður ekki fram hjá guðspjöllunum gengið. Þar er Jesús Kristur, þessi sem er á öllum krossgötum allra manna á öllum tímum. Biblían er lind túlkunar fyrir lífsmöguleika og endurnýjun.

Sjá nánar Klassík: http://tru.is/postilla/2011/02/klassik

 

Jakob Bjarni

IMG_3360Ekkert þykir mér undursamlega í prestsþjónustunni en að skíra – skíra börn og á öllum aldri. Í dag veittist mér sá heiður að skíra Jakob Bjarna. Hann er duglegur drengur, gaf frá sér fegurstu hljóð í skírninni. Guðrún Birna Brynjarsdóttir, mamman, hélt á syni sínum. Sverrir Gunnarsson, pabbinn, sagði til nafns. Afarnir, Gunnar Bjarnason og Brynjar Stefánsson, lásu texta og þeir eru jafnframt guðfeður. Stórfjöskyldan tók þátt í undrinu og presturinn gladdist með þessu góða fólki.

Jakob Bjarni er mennilegur. Jakobsnafnið hefur a.m.k. tvær merkingar, sá sem „heldur í hæl“ (bróður síns Esaú sbr Biblíusagan) og svo „Guð blessar.“ Svo er Bjarnanafnið skýrt og vísar til hins öfluga bjarnar. Það er því blessandi kraftur í JBS, Jakobi Bjarna. Guð geymi hann alla daga, foreldra og allt hans góða fólk.

Jakob Bjarni Sverrisson fæddist á þrettándanum, degi vitringana og birtingarhátíð Drottins, 6. janúar 2014.

Klassík sem virkar

klassíkBiblían er ekki google-græja fyrir þau, sem leita að fræðslu um uppruna heimsins eða genamengi manna, heldur leiðarvísir fyrir þau sem leita að nýju og betra lífi. Biblían er ekki lögbók, ekki sniðmát um leyfilegar hugsanir, ekki handbók um lágmarks siðferði. Biblían er bók um Guð, líf, leið og hamingju. Biblían hentar illa til að hanga í bókaskáp eða á bak við gler á safni. Biblían er alltaf á leið út úr skápnum og inn í lífið. Biblían er eiginlega innan í prentgripum, sem fólk hefur milli handa og les. Innan í Biblíunni er Guð og fólk, skapari og heimur, Guð að tala og gera lífið betra og skemmtilegra. Í Biblíunni er þráður sem er rauður og birtist greinilegast í Jesú Kristi. Þegar fólk tekur Biblíuna og les með áfergju verður undur.

Flestir þrá og leita andlegrar fullnægju. Á hverjum degi bylja á fólki öldur upplýsinga og alls konar staðreynda. Á sama tíma líður það fyrir skerandi fátækt hvað varðar djúpa og merkingarbæra reynslu. Við búum við ofgnótt fræðslu en fátækt merkingar. Fólk kallar á guðsreynslu. Reynslan af Guði er persónuleg reynsla. Biblían þjónar fólki í þeim efnum af því Biblían er klassík sem virkar.

http://tru.is/postilla/2011/02/klassik