Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Morgunbæn

IMG_7683Lilja Sólveig Kristjánsdóttir, móðursystir mín, hefur alla tíð átt auðvelt með að fella saman orð í ljóð. Hún hefur samið sálma, tækifærisvísur og svo hefur hún gefið fólki sínu intaksrík vers að ýmsu tagi. Þegar ég var kútur samdi hún þessa morgunbæn og gaf mér til að biðja að morgni. Það var góð gjöf sem hefur fylgt mér síðan. Í morgun fór ég í stúdíó 4 til Egils Jóhannssonar, tæknimanns, og við tókum upp 14 morgunbænir. Fyrsta verður kl. 6,25 laugardaginn 20. september og sú síðasta föstudaginn 3. október. Morgunbæn Lilju verður beðin í öllum þessum morgunbænum.

 Gef mér Drottinn góðan dag.

Gefðu, að ég í návist þinni,

eignist hugrótt hjartalag,

hjálpi ef einhver þarf í dag.

Blessa þú og bæt minn hag.

Bægðu synd frá götu minni.

Gef mér Drottinn góðan dag,

góðan dag í návist þinni.

 

Hulda Heiðrún Eyjólfsdóttir – minningarorð

DillaÚtfarardagur Huldu Heiðrúnar var bjartur og fagur. Litadýrð á altarisvegg Neskirkju og sólargeisli fann leið að kistunni hennar og lýsti hana upp og blómin brostu. Minningarorðin fara hér á eftir.

Hulda Heiðrún Eyjólfsdóttir ólst upp í húsi sem bar sólarnafn og við útför hennar nú skín sólin á kistuna hennar. Ég hlustaði á allar sögurnar um Dillu, um eiginkonuna, mömmuna, ömmuna, tengdamóðurina – sögur um ósérhlífna og elskuríka konu sem var málsvari birtu og elskusemi. Hún var ljósberi í lífinu, öllum mönnum og öllu lífi. Sólvangur – það er gott heiti á seyðfirska húsinu hennar Dillu, húsi birtu sem var sólarblettur í tilverunni. Og Seyðisfjörður var og er stórt sólfang og þar var Sólvangur. Þar naut Hulda Heiðrún góðs uppvaxtar, þaðan fór hún með birtu í sinni, þangað leitaði hún í huga þegar hún þarfnaðist leiðarljóss og þangað hvarflaði hugur hennar æ oftar þegar dró að lokum.

Þegar á fyrstu blaðsíðu Biblíunnar er fjallað um ljósið og lífið. Verði ljós var máttarorð Guðs gegn myrkri þá og svo öllu myrkri síðar. Og heimsljósið kviknaði og hefur ekki slokknað síðan. Ljósminnið birtist oft í hinni heilögu bók. Og Jóhannesarguðspjall er guðspjall ljóssins. Þar er sagt frá að ljósið kom í myrkur heimsins. Og Jesús tók af öll tvímæli um hvers eðlis ljósið væri og sagði: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.“ Og svo eru kristnir menn börn ljóssins og er ætlað að halda sér við ljósið, vera farvegir birtunnar öðrum mönnum, speglar Guðs í veröldinni. Sólvangur var hluti þess ríkis birtunnar og Dilla ljósberi.

Æviágrip

Hulda Heiðrún Eyjólfsdóttir fæddist inn í vorbirtuna þann 30. maí 1919. Foreldrar hennar voru bæði menntuð sem ljósmyndarar. Faðirinn var Eyjólfur Jónsson og starfaði auk myndatöku einnig sem klæðskeri, verslunarmaður og bankastjóri Íslandsbanka á Seyðisfirði (f.31.10.1869, d. 29.6. 1944). Hann var tvíkvæntur. Sigríður Jensdóttir, móðir Dillu, var seinni kona hans. Hún kom til Eyjólfs fyrst sem vinnukona og Eyjólfur sá í henni hæfileikana og hvatti hana og studdi til náms. Sigríður fór til Danmerkur og lærði ljósmyndun og hafði atvinnu af iðn sinni. Á Sólvangsreitnum ráku þau hjón ljósmyndastofu og tóku myndir af Austfirðingum og öllum þeim sem vildu góðar myndir. Og það er gaman að sjá gæðin í myndum fjölskyldunnar og þær bera fagmennsku þeirra hjóna gott vitni. Þær eru mikilvægt framlag þeirra til sögu, ekki aðeins seyðfirskrar heldur einnig austfirskrar. Sigríður (f. 9. 6. 1881, d. 4.5. 1956) sá um heimilið og bar eflaust aðallega ábyrgð á ljósmyndavinnunni og redúseríngunni – sem var photsjoppvinna þess tíma. Svo rak Eyjólfur líka verslun eins og bróðir hans og var sænskur konsúll. Heimilislífið var fjölskrúðugt og litríkt.

Hulda Heiðrún átti fimm systkini og eru þau öll látin. Þau voru Svava, dóttir Eyjólfs af fyrra hjónabandi, Haukur, Axel, Ólöf Hrefna og Garðar. Og Dilla var þriðja í röðinni.

Seyðisfjörður var á uppvaxtartíma Huldu Heiðrúnar – eins og löngum síðar – kraftmikið samfélag. Erlend útgerð hafði tengt mannlífið við hinn stóra heim, ekki aðeins við Noreg heldur líka við Ameríku. Svo kom síminn áður en Dilla fæddist og orðin til og frá Íslandi fóru um Seyðisfjörð. Áin var stífluð, fyrsta orkubú Íslands var gert og ljós nútímans kviknuðu eitt af öðru. Heimilið á Sólvangi iðaði af lífi, mikið var umleikis en það var alltaf tími til að gleðjast. Myndirnar af garðveislum stórfjölskyldunnar sýna okkur glaðværan og framsækinn heim, geislandi af lífsþrótti. Karlarnir voru með flotta, ljósa sumarhatta, konurnar prúðbúnar og börnin frjálsleg og smekkleg. Og þessar gömlu myndir sýna velsæld og glæsileika og gætu allt eins verið af betri borgurum í Reykjavík, Oslo, London eða Vín nema vegna austfirskra fjalla og húsa.

Baksíða1Hulda Heiðrún gekk í góðan skóla á Seyðisfirði. Hún var bóksækin og hafði á heimilinu möguleika til að sökkva sér í bækur. Alla tíð síðan sótti hún í að lesa og þótti miður undir lokin þegar hún gat ekki lengur leitað í heim hins ritaða máls. Hún sá um garðinn á Sólvangi og svo var hún snör í snúningum og stóð sig vel í íþróttum, m.a. hlaupum. Og þið – afkomendur hennar – megið alveg reyna að sjá hana fyrir ykkur á spretti í hlaupakeppni á Seyðisfirði. Og hún vann – og var stolt af en hún gortaði ekki af afrekum sínum. Eftir nám fékk Hulda Heiðrún vinnu í lyfjabúð hjá Ellerup á Seyðisfirði. Svo togaði Reykjavík í. Um tvítugt fór Hulda Heiðrún til höfuðborgarinnar og starfaði hjá Friðrik Bertelsen og Kristjáni G. Gíslasyni.

Unga fólkið fór á Borgina. Og Hulda Heiðrún heyrði um unga glæsimennið Halldór B. Ólason frá Ísafirði. Samstarfskonur hennar voru systur hans og Dilla hafði alla tíð góðan smekk og kunni að meta glæsileikann, gáskann og snerpuna. Hún kom að austan og hann að vestan og svo mættust þau syðra – ástin kviknaði og þau gengu í hjónaband 12. september árið 1942. Síðan héldust þau í hendur, lifðu í ástríku hjónabandi og þó skuggar féllu á götu þeirra var Hulda Heiðrún alltaf skotin í karlinum sínum. Og hann hafði gjarnan á orði að þau væru glæsileg, sem þau voru. Halldór var sjálfstætt starfandi rafverktaki og rak eigið fyrirtæki, Rafvélaverkstæði Halldórs B. Ólasonar, nær allan sinn starfsferil. Hann var snillingur í sinni grein og flutti m.a. inn lyftur af gerðinni Hiro og þau Hulda Heiðrún göntuðust með að hinar lyftarnar væru nú ekki neinar Híró! Þau stóðu alltaf saman.

Lengstum bjuggu þau Hulda Heiðrún á Framnesvegi og voru gjarnan á síðari árum kölluð afi og amma á Frammó. Raunar bjuggu þau á tveimur stöðum við Framnesveg, fyrst á nr. 55 og fluttu svo yfir í rauðu blokkina nr. 62. Þar bjuggu þau frá miðjum níunda áratugnum. Þar var Halldór til enda og Hulda Heiðrún þar til hún fór á Grund fyrir um fjórum árum. Á Grund var hún síðan og naut góðrar aðhlynningar allt til enda þar til hún hvarf inn í bjart sumarið 6. ágúst. Og það er við hæfi að útfarardagur hennar skuli vera dagur birtu og fegurðar.

Eftir að þau Halldór hófu búskap og börnin fæddust var Hulda Heiðrún heimavinnandi húsmóðir en stundaði saumaskap meðfram húshaldinu. Eftir að börnin voru uppkominn starfaði hún m.a. hjá Efnalauginni Hraða í um 20 ár og stóð sig frábærlega var mér sagt í forkirkjunni áðan.

Kveðjur

Ég hef verið beðinn um að bera ykkur kveðju Hauks Hallsonar og fjölskyldu hans. Sömuleiðis frá Daða Frey Ólasyni og Lillían Rakel Óladóttur en öll eru þau erlendis.

Börnin og afkomendur

Þau Hulda Heiðrún og Halldór bjuggu við barnalán og eignuðust fjögur börn. Elstur var Eyjólfur Rafn, en hann er nú látinn. Hin börnin eru Valgerður, Sigríður og Óli Friðgeir.

Kona Eyjólfs Rafns hét Bjarnveig Borg Pétursdóttir en hún er einnig látin. Þá áttu synina Pétur Bergmann, sem er látinn, Garðar Rafn og Þorra Frey.

Valgerður er næstelsta barn Huldu Heiðrúnar. Hennar maður er Helgi H. Steingrímsson. Þau eiga fimm börn, Halldór, Margréti Gróu, Heiðrúnu, Steingrím og Friðrik.

Þriðja í röðinni er Sigríður. Hennar maður er Gylfi Þorkelsson og þau eiga dótturina Ástu Heiðrúnu.

Fjórði og yngstur barna Huldu Heiðrúnar og Halldórs er Óli Friðgeir. Kona hans er María Björk Daðadóttir. Þau eiga þrjú börn og þau eru: Daði Freyr, Halldór Skjöldur og Bára Björk. Og fyrir átti Óli dæturnar Lilían Rakel og Huldu Heiðrúnu.

Langömmubörn Huldu Heiðrúnar eru 14 á fæti og 2 í kvið. Það er mikið ríkidæmi.

Eigindir

Öllu þessu fólki var Hulda Heiðrún klettur, stoð og stytta. Hún hvatti þau til dáða, hafði áhuga á námi og velferð, hafði skoðun á hvort gular buxur væru við hæfi í selskap eða ekki. Hún gerði kröfur um að börnin hennar kynnu mannasiði og kynnu sig félagslega. Uppeldi hennar var helgað trausti en ekki ógn og viðurlögum. Því var hún ekki hrædd um börnin sín. Hún naut virðingar sinna og miðlaði jákvæðri mannsýn til afkomenda sinna. Öll vissu þau að hún var tilbúin að leggja mikið á sig fyrir bónda sinn og ástvini. Í því var hún skýr fyrimynd og ljósberi. Og svo barst henni líka staðfesting að henni hafði tekist vel. Einhverju sinni misbauð nágrannakonu Huldu Heiðrúnar ólæti í börnunum í blokkinni og það hvein í. En hún lét Huldu Heiðrúnu jafnframt vita að kvörtunin ætti ekki við hennar börn, þau væru vel upp alin! Þetta þótti henni gott að heyra.

Og hvernig var þessi kona birtunnar, Hulda Heiðrún Eyjólfsdóttir? Hvernig manstu hana?

Hún var hetja sem ekkert haggaði. Hún var ljúf, hógvær, stillt og hlý. En hún var líka stolt og í henni bjó öguð, slípuð reisn. Hún sá fólk, styrk þess og veikleika en skipti sér ekki af málum annarra ef henni komu þau ekki við. Hún kunni því að virða mörk. Og hún ræktaði vel fólkið sitt, var alltaf stór faðmur fyrir fjölskyldu og afkomendur hennar hafa sagt margar sögur um hve hún og afinn tóku á móti litlu fólki og juku gleði þeirra og fjölskyldna þeirra.

Svo var hún jákvæð og kvartaði alls ekki. Eitt sinn lenti Hulda Heiðrún í alvarlegu bílslysi og slasaðist mjög illa. Þegar hún var spurð um bílstjórann sem keyrði yfir hana bar hún blak af honum og sagði að þetta hefði verið óviljaverk. Aumingja maðurinn – sagði hún – og var eiginlega helst á henni að skilja að þetta væri bara yndislegur maður sem olli henni þessum líka kvölum! Og ekki vildi hún að skuggi félli á hann.

Á spítalanum var hún illa haldinn af meinum sínum. Læknirinn spurði varfærnislega hvernig henni liði og átti von á að hún segði frá verkjum hér og sársauka þar. Nei, nei, henni Huldu Heiðrúnu leið bara bærilega! Og lækninn setti hljóðan – sú slasaða var svalari en hann hafði átt von á.

Svo spilaði hún. Þegar í bernsku læri hún að spila á píanó og varð svo snjöll að hún spilaði m.a.s. undir á sýningum á þöglu myndunum í bíó fyrir austan. Og það þarf færni og spunagetu að spila ómþýtt undir kossasenur og sveifla sér svo yfir í hasar og læti í miklum taktbreytingum þessa myndaflokks. Halldór gaf henni píanó og alla tíð varð tónlistin henni vinur í gleði og sorg. Hún spilaði þegar hún var glöð og hún spilaði þegar hún var leið. Hún spilaði sér til hugarhægðar og hvatningar, spilaði sig til birtunnar. Og það var gott.

Hulda Heiðrún fékk góða dómgreind í vöggu- og uppeldisgjöf og svo agaði hún sjálf fegurðarskyn. Það kom fram í saumaskap hennar og heimilsrekstri. Hulda Heiðrún gat saumað smart kjóla og flott föt sem fjölskylda hennar og ástvinir nutu.

Inn í Sólvang himinsins

O nú eru skil. Amma og afi á Frammó eru bæði farin inn í birtuna. Þau fara ekki lengur ferðir vestur, austur eða á sólarströnd. Þau taka ekki á móti ungviðinu og skemmta þeim og sjálfum sér. Nú eru þau farin inn í stóra heim Guðs og það er Guð sem tekur myndirnar og redúserar. Jesús sagði „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.“ Ekkert ljós lýsir betur. Heimur Huldu Heiðrúnar er ljósaslóð. Þú mátt treysta að henni líður vel, hún er sæl, hún er hamingjusöm, þarf ekki að leggja kapal eða spila en kannski sest hún við einhvert himneskt piano og leikur í gleði sinni um suðrið sem andar, um sumarið, um lífið og um þig. Guð geymi Huldu Heiðrúnu í Sólvangi himinsins og Guð geymi þig og framkalli til lífs.

Minningarorð við útför í Neskirkju 13. ágúst 2014 kl. 15. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.

Hallgrímur í lit

HP3 2Hver er þjóðardýrlingur Íslendinga? Skáldpresturinn Hallgrímur Pétursson fengi eflaust flest atkvæðin ef kosið væri. Hann hefur jafnvel verið kallaður fimmti guðspjallamaður Íslands. Myndin af Hallgrími er sem íkón Íslandskristninnar. En hvað tjáir hún? Hann brosir ekki, er sorglegur og svartklæddur. Hæfir þjóðardýrlingi að vera bara í svart-hvítu?

Fagnaðarerindi?

Í bernsku þótti mér kristindómurinn skrítinn á föstunni fyrir páska. Passíusálmarnir hafa verið sungnir eða lesnir á þessum tíma í meira en þrjár aldir. Þeir segja passíu – píslarsögu Jesú og túlka merkingu hennar. Sálmarnir og íhugun tímans færðu drunga yfir trúarlíf, mannlíf og kirkjuhús. Það var eins og trúin væri í fjötrum. Af hverju öll þessi pína og jafnvel kæfandi drungi? Ég spurði mig stundum: Getur sorgarerindi verið fagnaðarerindi? Eru Passíusálmarnir bara um pínu, þjáningu og sorg? Hver er gleðifréttin?

Þjáningin

Fjögur hundruð ár eru frá fæðingu Hallgríms Péturssonar og ráð að spyrja á þessum tímamótum: Hentar helgimyndin af Hallgrími nútímafólki? Er Hallgrímur of einhæfur þjóðardýrlingur? Hvaða afmælisgjöf gætum við gefið honum?

Ímynd Hallgríms Péturssonar er of dimm. Sjónum hefur um of verið beint að hörmulegum þáttum í lífi hans. Visslega lenti hann í klandri. Örgeðja unglingurinn átti líklega í útistöðum við heimamenn á Hólum þar sem hann var um tíma. Hann klúðraði málum af því hann varð ástfangin af og tengdist giftri konu. Þar með hvarf draumurinn um nám og frama. Hann sá á eftir börnum sínum og annarra í gröfina. Svo rotnaði hann lifandi sem holdsveikur maður.

Allt í plús

Er sorgarsvipur og svört hempa allt sem einkennir Hallgrím? Nei, hann var í lit og kunni örugglega að skellihlæja og strjúka blítt. Hallgrímur var skemmtilegur, klár, fjölhæfur, húmoristi og vel menntaður eldhugi. Hann var laghentur, natinn og líklega góður pabbi. Þau, sem hafa lesið kveðskap hans, geta ímyndað sér líflegan og ævintýralegan mann.

Píslarmaðurinn var líka elskhugi, ræðujöfur, sem talaði stórkostlega, bunaði úr sér skemmtilegheitum, var góður granni, slyngur félagsmálamaður og eftirlæti allra sem kynntust honum. Hallgrímur var allur í plús. Hann var sjarmerandi góðmenni, hrífandi stórmenni og magnaður listamaður. Nútímakarlafræði sér í honum „súperkall.“

Það eru fordómar manna sem hafa skapað hina svörtu mynd af skáldprestinum. Þeir hafa – að mínu viti – varpað yfir á Hallgrím og mynd hans sorg sinni, eigin þjáningu og vansælu. Við megum gjarnan frelsa Hallgrím úr fangelsi harmkvælanna. Það væri góð afmælisgjöf.

Líf en ekki dauði

Í Passíusálmunum fimmtíu er Jesús í hlutverki himinkóngs, sem kom til að þjóna. Það er ekki dauðinn, sem er hvati og frumvaldur í lífsskoðun Passíusálmana, heldur ástin. Jesús kom ekki til að deyða heldur leysa menn og heim til lífs, frelsa frá vonleysi og þjáningu. Erindi sálmanna er ekki dauði heldur líf. Ekki uppgjöf gagnvart hinu illa heldur sigur. Þeir boða Guð, sem kemur og fer á undan fólki um lífsdalinn. Sá Guð er tengdur og elskar.

Passíusálmar eru ekki masókistísk bók um myrka trúarafstöðu. Saga þeirra er góð og um líf, þrátt fyrir þjáningu. Sálmarnir eru ástarsaga, margþætt og bjartsýn saga um afstöðu Guðs og raunhæfar aðgerðir. Í orðahafi Passíusálmanna er grunnstefið að Guð elskar, Jesús elskar alla menn – okkur. Það er fagnaðarerindið. Jesús er ástmögur sem tjáir að lífið er elskulegt og að eftir dauða kemur líf. Hallgrímur var vinur og aðdáandi þess Jesú Krists sem kveikir það líf.

Hvernig er kristin trú? Er hún gleðileg – fagnaðarerindi?  Hallgrímshelgimyndin í sauðalitunum er of dapurleg. Þjóðardýrlingurinn Hallgrímur má brosa. Þannig íkon hæfir Íslandskristninni. Besta afmælisgjöfin er Hallgrímur í lit.

Til starfa á kirkjuþingi?

kirkjuthingsbjalla-100x100Brátt verður kosið til kirkjuþings. Ég býð mig fram til þjónustu á þinginu næstu fjögur ár, en ég mun ekki óska endurkjörs að fjórum árum liðnum. Ég hef verið kirkjuþingsfulltrúi djákna og presta í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra í fjögur ár. Átta ár á kirkjuþingi er að mínu viti hæfilegur tími!

Verði ég kjörinn nú mun ég einnig bjóða mig fram til starfa í kirkjuráði, enda varamaður í ráðinu. Enginn vígður kirkjuþingsfulltrúi af suðvesturhorninu er nú í kirkjuráði sem er óheppilegt. Við kjör í kirkjuráð n.k. nóvember verður að gæta hagsmuna þéttbýlissvæðis okkar og að vígðir úr okkar kjördæmi verði kosnir í kirkjuráð.

Á liðnu kjörtímabili hef ég lagt fram margar tillögur að starfsreglum, verið virkur í störfum þingsins og gætt hagsmuna kirkju og kristni. Framundan er spennandi val til þings sem hefur mest vald í stjórn þjóðkirkjunnar.

Hvað er ferming?

Ég fermdist í Neskirkju haustið 1966. Við systkinin erum tvö og stutt á milli okkar. Ákveðið var að hafa eina fermingu og eina veislu. Systir mín er eldri og hún seinkaði sinni fermingu og ég fermdist hálfu ári á undan jafnöldrum mínum, var bara 12 ára. Við systkinin mættumt á miðri leið og vorum fermd 23. október. Ég sótti því fermingarfræðslu með krökkum á undan mér í aldri og þótti skemmtilegt að kynnast þeim. Þau komu úr Hagaskóla en ég úr Melaskóla. Sr. Frank M. Halldórsson lauk upp víddum trúarinnar. Við lærðum fjölda sálma, Biblíuvers og fræði Lúthers og vorum ágætlega undirbúin.

fermingEn til hvers að fermast? Ég hafði heyrt að orðið ferming væri þýðing á latneska orðinu confirmatio sem kæmi svo fram í ýmsum tungumálum, confirmation á ensku, konfirmation á germönskum málum. Og merking orðanna væri að staðfesta. Já, auðvitað – ferming væri komið af firmatio og merkti að skírnin væri staðfest. Svo var ég spurður um hvort ég vildi leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins. Ekkert er sjálfgefið – hvorki í trúarlegum efnum né öðru. Já með vörum og í fylgsnum hugans þarf að fara saman. Það er æviverkefni að orð og afstaða séu eitt. Fermingarungmenni nútímans spyrja líka gagnrýninna spurninga og skoða trúarmálin með opnum huga. Þau eru raunverulega að glíma við Guð og mennsku sína.

Er ferming? Er það að fermingarungmenni segi já? Þegar ég var tólf ára í kirkjunni vissi ég að trú er ekki einhliða mál. Samband Guðs og manna er tvíhliða. Já á jörðu verður hjáróma ef ekki er mótsvar í himnesku já-i. Í fermingunni hljóma ekki aðeins já fermingarbarna heldur já, já, já Guðs. Guð staðfestir skírnina, líf barnsins, bænirnar og óskir. Við erum oft með hugann við mannheima en gleymum guðsvíddinni. Mesta undrið í fermingunni er sama undrið og í skírninni. Guð gefur lífið og lofar að vera alltaf nærri. Guð svarar fermingarspurningunni ekki aðeins með fermingaryfirlýsingu: „Vertu trú(r) allt til dauða, og ég mun gefa þér kórónu lífsins.“ Guð svarar með því að gefa allt sem við þurfum til að lifa vel og með hamingju. Hvað er ferming? Já á jörðu og já á himni hljóma saman. Fermingarungmenni staðfesta lífið sem Guð gefur, staðfestir og viðheldur.

Og nú hlakka ég til allra ferminganna framundan. Ég hlakka til að heyra áttatíu já í kirkjunni og við megum hlakka til allra jáyrðanna í kirkjum þjóðarinnar á næstu vikum. Ferming er já fyrir lífið.