Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is. Þá var talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is Sá vefur er nú lokaður.

Klassík sem virkar

klassíkBiblían er ekki google-græja fyrir þau, sem leita að fræðslu um uppruna heimsins eða genamengi manna, heldur leiðarvísir fyrir þau sem leita að nýju og betra lífi. Biblían er ekki lögbók, ekki sniðmát um leyfilegar hugsanir, ekki handbók um lágmarks siðferði. Biblían er bók um Guð, líf, leið og hamingju. Biblían hentar illa til að hanga í bókaskáp eða á bak við gler á safni. Biblían er alltaf á leið út úr skápnum og inn í lífið. Biblían er eiginlega innan í prentgripum, sem fólk hefur milli handa og les. Innan í Biblíunni er Guð og fólk, skapari og heimur, Guð að tala og gera lífið betra og skemmtilegra. Í Biblíunni er þráður sem er rauður og birtist greinilegast í Jesú Kristi. Þegar fólk tekur Biblíuna og les með áfergju verður undur.

Flestir þrá og leita andlegrar fullnægju. Á hverjum degi bylja á fólki öldur upplýsinga og alls konar staðreynda. Á sama tíma líður það fyrir skerandi fátækt hvað varðar djúpa og merkingarbæra reynslu. Við búum við ofgnótt fræðslu en fátækt merkingar. Fólk kallar á guðsreynslu. Reynslan af Guði er persónuleg reynsla. Biblían þjónar fólki í þeim efnum af því Biblían er klassík sem virkar.

http://tru.is/postilla/2011/02/klassik

Fegurðaraukinn í Neskirkju – fasta

FastaFólk sefur betur, fær fallegri húð, einbeiting batnar, lyfjanotkun margra minnkar. Sum sem hafa liðið fyrir of háan blóðþrýsting gleðjast yfir lækkun þrýstings og önnur sem hafa liðið fyrir giktarsjúkdóma eða exem skána mikið Hvað er það sem gerir fólki svo gott? Það eru fösturnar í Neskirkju. Fastan er ekki kúr – heldur námskeið til að kenna fólki nýjar heilsuleiðir. Þegar fólk tekur þátt í föstuhóp fær það stuðning til að halda sér á heilsuveginum. Þátttakendur komast að því hvað það tekur líkamann ótrúlega stuttan tíma að snúa vanlíðan í vellíðan.

Næsta námskeið hefst 25. Febrúar og stendur til 12. Mars. Höfundur fræðsluefnis er Jóhanna Vilhjálmsdóttir sem m.a. er kunn af metsölubókinni Heilsubók Jóhönnu. Stjórnendur námskeiðsins eru hjónin Elín Sigrún Jónsdóttir og Sigurður Árni Þórðarson. Á föstutímanum verður matreiðslunámskeið, veitt næringarráðgjöf, deilt mataruppskriftum, frætt um eðli og tilgang föstunnar, kyrrðardagur og vinnustofa um persónulega stefnumótun. Skráning á es@elinsigrun.is

Það er ljómandi að sækja sér fegurðarauka í Neskirkju! Og það er líka aukabónus að léttast þótt það sé ekki aðaltilgangur föstunnar. Aðalatriðið er að þú njótir gæða og lífs – kirkjan stendur með þér og erindi kirkjunnar varðar gott líf – líka þitt.

Bókstafshyggja eða…?

Ein leið til að lesa Biblíuna er bókstafshyggja. Hún hefur lítinn áhuga á túlkun og táknrænum boðskap og leitar fremur að óskeikulli leiðsögn. Bókstafstrú hefur lítið umburðarlyndi gagnvart því, að samfélag og gildi hafi breyst og sér í siðfræði fornaldar boð um líferni og skyldur kristins manns í nútíma. Lúthersk kirkja fer aðra leið og hefur lagt áherslu á, að Biblían skuli lesin út frá persónu og lausnarverki Jesú Krists og boðskapur hennar túlkaður í ljósi reynslu manneskjunnar. Þannig þjónar Guðs orð velferð og frelsi manneskjunnar og líka hvernig við umgöngumst hvert annað og förum með gæði heims, líka náttúruna. Við eigum að taka Biblíuna alvarlega en ekki bókstaflega. Túlkun Biblíunnar í samtíma varðar, að orð hennar veki líf og verndi. Biblían er ekki handbók um siðferði, heldur farvegur lifandi orðs Guðs.

Lygi eða sannleikur?

vitringarSagan um vitringana er ekki goðsaga heldur helgisaga. En er helgisagan lygi eða sannleikur?

Jólatímanum er að ljúka og við jólalok er sagan um vitringana gjarnan íhuguð. En hvers konar saga er hún og hvað merkja vitringar og atferli þeirra? Er saga þeirra goðsaga, helgisaga, dæmisaga eða eitthvað annað – eða kannski bara lygisaga, bull og vitleysa?

Það skiptir máli hvernig lesið er til að fólk greini með viti og skilji þar með. Í Biblíunni – og líka í trúarbrögðum og menningarhefðum – eru margar sögur sem kallast kallast helgisögur. Þær eru oft nefndar með slanguryrðinu legendur því þær kallast á ensku legends og eru ólíkar og gegna öðru hlutverki en svonefndar goðsögur um uppruna heimsins.

Helgisögur eru gjarnan um efni á mörkum raunveruleikans. Þær eru oft sögur um einstaklinga, sem gætu hafa verið til og um líf eða viðburði sem eiga jafnvel við eitthvað að styðjast í raunveruleikanum. Áhersla helgisögu er ekki á nákvæma rás viðburða og söguferlið sjálft, staðreyndir eða ytra form atburðanna, heldur fremur á dýpri merkingu og táknmál. Svona greining á formi og flokkum skiptir máli til að merking sögunnar sé rétt numin og skilin. Bókmenntafræðin, þjóðfræði og greinar háskólafræðanna eru hjálplegar til að skilja svona sögur. Inntak og form verður að greina rétt. Inntakið kallar alltaf á form til að ramma inn og miðla með merkingu. Reglan er einföld: Svona sögur á ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega og skilja þær í ljósi eigin forsendna. Svona sögur á ekki að kreista því þá brotnar allt, líka skilningurinn. Og vitringasagan er helgisaga en ekki goðsaga.

Vitringar?

Hvað vitum við um þessa vitringa sem komu til Jesú? Af hverju var sagan sögð af þeim? Hvaðan komu þeir? Hvað hétu þeir og hvað gerðu þeir? Hvað voru þeir margir?

Vitringarnir hafa gjarnan verið þrír í sögum og á myndum og nefndir Baltasar, Melkíor og Rafael. En í guðspjallinu segir ekkert um fjöldann þó okkur finnist að svo hafi verið. Í austrænni kristni eru þeir taldir allt að tólf. Ekkert í guðspjöllunum er heldur um nöfn þeirra.

Voru þetta konur eða karlar – eða bæði? Um það getum við ekki fullyrt heldur. Sú hnyttni hefur löngum gengið í kristninni, að vitringarnir hljóti að hafa verið karlkyns því ef þetta hefðu verið konur hefðu þær byrjað á að fá sér almennilegar leiðbeiningar um hvar Jesús myndi fæðast, þær hefðu verið á staðnum á réttum tíma, þrifið húsið til að undirbúa fæðinguna, hitað vatn, hjálpað til og gefið barninu og foreldrunum eitthvað nothæft s.s. bleyjur, mat og föt en ekki ónothæft dót eins og gull, reykelsi og myrru!

Uppruni og eðli

Margar tilgátur eru um uppruna vitringanna. Um aldir hafa menn séð í þeim tákn mismunandi hluta hins þekkta heims. Ýmsar sögur hafa gengið: Einn þeirra átti að vera svartur og frá Eþíópíu, annar frá Indlandi og einn frá Austurlöndum fjær. Enn í dag er álit margra kristinna manna í Kína, að einn vitringanna hafi verið frá Kína. Um þetta er ekkert vitað með vissu.

Þegar rýnt er í textann eru mennirnir nefndir á grískunni magos (μάγος) og í ft. magoi. Magusar gátu verið töframenn og af þessu orði er magic sprottið t.d. í ensku. Líklega ber að skilja söguna sem svo að komumenn, hversu margir sem þeir voru, hafi ekki átt að vísa til töframanna heldur svonefndra mágusa, presta í norðurhluta þess svæðis sem við köllum Íran í nútímanum. Þeir hafi verið fræðimenn, kunnáttumenn í stjörnufræði og lagt sig eftir táknmáli stjarnanna. Kannski hafi þeir verið úr þeim væng Zóróastrían-átrúnaðarins, sem var opinn gagnvart guðlegri innkomu eða birtingu hins guðlega.

Víkkun – fyrir alla

Matteus guðspjallamaður var ekki upptekinn af jólasögunni sem lesin er á aðfangadegi úr Lúkasarguðspjalli. Af hverju sagði Matteus aðra útgáfu jólasögunnar? Ástæðan varðar stefnu og tilgang rits hans. Í guðspjalli Matteusar er áhersla á opnun hins trúarlega. Matteus taldi að Jesús Kristur og kristnin ætti ekki aðeins erindi við lokaðan hóp Gyðinga heldur allan hinn þekkta heim manna. Guð væri ekki smásmugulegur heldur stór. Guð veldi ekki aðeins litinn hóp heldur hugsaði vítt og útveldi stórt. Guð léti sig ekki aðeins varða einn átrúnað heldur allt líf, hugsun og veru allra. Vegna þessa er eðlilegt, að í þessu guðspjalli, sem býður að kristna allar þjóðir, skíra og kenna öllum, komi prestar við sögu utan úr heimi trúarbragðanna. Erindi vitringanna er m.a. að tjá opnun og alþjóðavæðingu hins trúarlega. Hrepparígur og bókstafstrú passar ekki við trú þessarar gerðar, trúin er fyrir alla. Guð starfar í þágu allra. Guð er alveg laus við snobb og er ekki hrifnari af sumum en síður af öðrum. Guð er ekki bara Guð einnar þjóðar heldur allra manna.

Kóngavæðingin

Táknleitandi hugsuðir aldanna hafa lesið í táknmál vitringasögunnar, stækkað hana og lesið í hana. Kóngavæðing sögunnar er einn þáttur flókinnar túlkunarhefðar. Þegar veraldlegir konungar fóru að trúa á Jesú Krist var að vænta, að kóngarnir vildu koma sér að í guðssríkinu – valdið vill alltaf meira. Sögur fengu byr um að hinir vitru og gjafmildu ferðalangar hlytu að hafa verið konungbornir. Í ýmsum þýðingum Biblíunnar var gjarnan skrifað (t.d. í ýmsum enskum biblíuþýðingum), að vitringarnir hafi verið kóngar og eðli og tilgangur gjafa þeirra breyttist þar með. Danska biblíuhefðin var í anda þessarar konungatúlkunar. Á dönsku er t.d. talað um þrettándann sem helligtrekongersdag. En ég held þó að ef komumenn hefðu verið konungar hefðu þeir verið nefndir öðrum nöfnum en magos og magoi í Biblíunni.

Íslenska hómilíubókin, sem er prédikanasafn frá fyrstu öldum kristni á Íslandi, segir berlega að komumenn hafi verið “Austurvegskonungar.” En hins vegar þýddi Guðbrandur Þorláksson orðið magos með orðinu vitringur í Guðbrandsbiblíu og þannig hefur verið þýtt allar götur síðan á 16. öld og vitringarnir eru vitringar en ekki kóngar í núgildandi Biblíuþýðingu. 

Hvenær?

Flestir halda, að vitringarnir hafi vitjað Jesú á fæðingarkvöldinu í Betlehem af því þannig eru myndirnar og helgileikirnir, sem við setjum upp t.d. helgileikur Melaskólans sem sýndur hefur verið í marga áratugi hér í kirkjunni. En ekkert er sagt í guðspjallinu um, að vitringarnir hafi vitjað Jesúbarnsins þegar það var nýfætt. Ekkert er sagt hvenær þeir komu heldur það eitt að þeir hafi opnað hirslur sínar og gefið góðar gjafir.

Lestur helgisögunnar

Hvað eigum við að gera við helgisöguna um vitringana? Svarið er að sagan er kennslu- eða mótunarsaga. Sagan tilheyrir áhrifasviði mannlífsins. Hún á sér hugsanlega sögulega stoð. Engu skiptir þó hvort svo er eða ekki, en þó hefur hún engu að síður merkingu fyrir raunverulegt líf. Við þurfum ekki að trúa, að vitringarnir hafi verið þrír eða tólf. Við þurfum ekki að vita hvort þeir voru frá Eþíópíu, Íran eða Kína. Við verðum ekki að trúa þessari sögu frekar en við erum neydd til að trúa Hamlet eða Njálu. En helgisögur hafa merkingu eins og aðrar mikilvægar sögur mannkyns. Helgisaga er ekki lygi heldur opnar möguleika í lífinu, varðar sannleik viskunnar. Hlutverk helgisagna – eins og annarra klassískra sagna og þmt skáldsagna – er ekki að lýsa staðreyndum eða segja nákvæma frétt á vefnum heldur segja segja sannleikann á dýptina, lýsa því sem er mikilvægt og hjálpa fólki við að lifa vel.

Að lúta barninu með vitringunum

Hin táknræna merking helgisögunnar um vitringana er m.a. að menn séu – og það á við okkur öll – ferðalangar í tíma. Lífsferð allra manna er lík langferð vitringanna til móts við barnið. Aðalmál lífs allra manna er að fara til fundar við Jesú. Okkar köllun eða hlutverk er að mæta honum og gefa það, sem er okkur mikilvægt, af okkur sjálfum, okkur sjálf – eins og vitringarnir – og snúa síðan til okkar heima með reynslu og lífsstefnu í veganesti.

Við erum frjáls að því að túlka þessa vitringa og helgisöguna að okkar hætti, en tilvera þeirra er eins og tilvera mín og þín. Þú ert í sporum eins þessara manna. Engin nauðsyn knýr að þú trúir að þeir hafi verið þrír eða tólf. Fjöldi þessara vitringa getur verið allur fjöldi allra manna á öllum öldum. Þín er vænst í hóp þeirra. Þú mátt vera þarna við hlið þeirra og með þeim.

Þegar þú íhugar og innlifast helgisögunni um vitringana er þín eigin saga endursköpuð. Þegar þú lýtur Jesú í lotningu – eins og þeir – breytist líf þitt með þeim. Helgisaga er utan við lífið og lygi – ef hún er skilin bókstaflega – en eflir lífið ef hún fær að tjá merkingu. Þegar þú viðurkennir mikilvægi þess að lúta barninu – veruleika Jesú Krists – verður þú einn af vitringunum. Þá verður lífið töfrandi – ekki bull eða lífsflótti – heldur undursamlegt. Helgisagan er til að efla fólk til lífs – skapa farveg fyrir heill og hamingju.

Hugleiðing við lok jóla.

Fyrirgefðu

IMG_3763_8970363903_lHverjum á að fyrirgefa og hverjum á ekki að fyrirgefa? Það getur reynst mikil þraut að sætta okkur við það sem okkur hefur verið gert illt. Spurningin verður oft ekki: Á ég að fyrirgefa heldur: Get ég fyrirgefið? Get ég fyrirgefið þeim sem hefur farið illa með mig?

Strákur í Eyjum

Það var einu sinni strákur í Vestmannaeyjum, sem svindlaði á prófi. Mamman komst að glæpnum. Strákur varð skömmustulegur og sagði við hana. „Ég ætla að biðja Guð fyrirgefningar.” „Já, það er ljómandi,” sagði mamma. „En það er ekki nóg. Þú verður líka að fara í skólann og biðja kennarann fyrirgefningar!” Það fannst strák verra en lærði þá lexíu, að það er ekki nóg að tala. Iðrunin verður að hríslast út í lífið og lífshættina.

Við kennum börnum okkar að biðjast afsökunar á brotum af einhverju tagi, t.d. þegar þau meiða, taka það sem þeim er bannað eða brjóta eitthvað sem þeim er óheimilt. Ákveðin viðmið eru grundvallandi og brotin eru frávik frá viðmiðinu. Við kennum síðan fólki að horfast í augu við brot og biðjast afsökunar á þeim.

Mínir strákar

Ég á stráka á níunda ári og hef fylgst grannt með mótun siðvits. Þegar þeir voru á fjórða ári var ljóst að jafnvel svo snemma á æfinni var prettavit þeirra orðið mikið og líka færnin til að greina hvað mátt og hvað ekki. Þeir lærðu þá að ljúka málum með fyrirgefðu. En stundum kreistu þeir jafnvel upp “fyrirgefðu” til að losna við frekari vandræði.

Fyrirgefningarbeiðni er oftast beiðni einstaklings gagvart öðrum eintaklingi. Á milli þeirra er vefur merkingar sem stýrir og leiðbeinir þeim um hvað má og hvað má ekki, hvað er gilt og hvað ógilt, hvað er rétt og hvað rangt. Til að fyrirgefningarferlið gangi upp verður þetta kerfi að virka sem á milli er. Hvað á svo að gera með þá fyrirgefningu þegar menn vilja ekki biðjast fyrirgefningar, sjá ekki að þeir hafi gert rangt?

Iðrun – hvað er það?

Í gamla daga var talað um iðrun, það að úthverfa iðrunum – þessu sem er innan í okkur. Við getum talað um viðsnúning og sá getur verið samfélagslegur þegar samfélagið allt fer að skoða gildi og meginmál. Viðsnúningur verður líka í lífi okkar flestra með einu eða öðru móti. Þegar við erum vanheil þurfum við að ná heilsu og iðka heilindi til að viðsnúningur sé góður og gjöfull. Fyrirgefning er mikilvægt atriði í viðsnúningi – varðar ákveðna þætti lífsins og ekiki síst hið himneska – guðlega samhengi.

Við gerum öll eitthvað rangt, eitthvað sem meiðir og hefur slæmar afleiðingar. Við segjum eitthvað ógætilegt sem særir og jafnvel grætir. Við flissum stundum á óheppilegum tíma, hittum viðkvæmt hjarta eða segjum eitthvað óvart, sem veldur misskilningi og jafnvel vinslitum.

Á að biðjast fyrirgefningar á slíku? Já, en hvað um þau, sem gera rangt en iðrast ekki. Er hægt að fyrirgefa þeim án þess að þau viðurkenni brotið. Eða er það forsenda fyrirgefningar að viðkomandi fari á hnén og iðrist?

Bergmann og heiftin
Fyrir nokkrum árum sá ég margar kvikmyndir sænska leikstjórans Ingmar Bergman. Á einum DVD-disknum var ítarefni, og þar á meðal viðtal við Bergman. Hann sagði frá samskiptum sínum við kvikmyndagagnrýnanda, sem hafði farið ómjúklega með verk hans mörgum áratugum áður. Bergman hafði greinilega þörf fyrir að ræða samskiptin og sagði frá með mikilli ástríðu, sagði hversu illa gagnrýnandinn hefði farið með hann, hvernig honum hefði liðið og hversu illa fjölskyldan varð fyrir barðinu á illgjörnum dómum.

Bergmann lýsti manninum sem vondum manni. En maðurinn sem gagnrýndur var hafði enga möguleika til varnar því hann var dáinn. Mér brá og varð illt af að heyra Bergman tala svona um látinn mann. Til að ekkert færi milli mála sagði kvikmyndajöfurinn ískalt, að það skipti hann engu máli þótt hann væri dáinn: “Ég vona að hann rotni í helvíti!” sagði Bergman.

Svipaðar tilfinningar hrærast gagnvart svikurum. Eg hef hitt fólk í mínu starfi sem er ekki bara reitt heldur fullt af hatri, illsku vegna einhvers missis sem það persónugerir.

Illgerðarmenn

Sum illvirki fremur fólk með ráðnum huga og einbeittum brotavilja. Aðrir valda miklum skaða vegna einhverra aðstæðna og mistaka. Fólk gerir veigamikil mistök og brýtur af sér í umferðinni. Fólk fer illa með aðra í skóla, tekur þátt í stríði og einelti. Skólastofnanir sem ekki eru þroskaðar vinna ekki með vanda og standa ekki með líðendum. Á vinnustöðum er víða ofbeldi sem fólk verður samdauna og tekur þátt í, ef ekki með rænuleysi þá í meðvirkni og ótta við þau sem valdið hafa.

Valdamiklir aðilar hafa tækifæri til að auðgast eða auka völd sín og áhrif sem notuð eru og geta valdið spjöllum. Þau sem ullu bankahruninu hafa valdið tugþúsundum íslendinga miklu tjóni og vanlíðan. Þau voru kannski ekki vondar manneskjur en ollu mikilli þjáningu. Mistök verða í stjórnum og ráðum þjóðarinnar, í fyrirækjum og félögum. Hver er ábyrgð stofnana og þar með sök ef stofnanir sem eiga að sinna ráðgjafar- eða eftirlits-hlutverki en bregðast? Eru þau kreppudólgar, sem tóku þátt í þöggun þeirra sem gagnrýndu og bentu á hættur? Eru þeir stjórnmálamenn sekir, sem tóku þátt í reisa valta fjármálarkerfi og vörðu síðan þegar gagnrýnar spurningar voru settar fram? Og svo eru öll mistökin sem gerð hafa verið og gerð eru í heilbrigðiskerfinu, þegar ekki er greint rétt, þegar mistök eru gerð í aðgerðum og fólk verður fyrir heilsufarstjóni og missir ástvini eða ástvinir missa svo mikið og stórlega að margir líða. Á að fyrirgefa þessu fólki?

Hvað er fyrirgefning?

O þá er komið að fyrirgefningunni: Fyrir hvern er fyrigefningin? Er hún fyrir þann sem hefur unnið eitthvað illt verk – hefur gert manni mein. Léttir hún sök af viðkomandi? Eða er fyrirgefning kannski jafnvel fremur fyrir mann sjálfan. Er mikilvægt að forsenda fyrirgefningar sé iðrun – eða er kanski iðrunin eitthvað sem er ekki alltaf nauðsynlegt forsenda?

Við kennum börnunum okkar að iðrast og læra af mistökum og reynslu og biðjast fyrirgefningar þegar þau hafa brotið gegn öðrum. Það er fullgilt og mikilvægt. En iðrun og andleg heilsurækt er eitt en fyrigefning annað – og við ættum kannski ekki að blanda þeim þáttum saman þegar við reynum að vinna með fyrirgefninu og þau andlegu átök sem fyrirgefningu fylgja oft. Ég tel að iðrunar sé ekki þörf til að fyrirgefa. Fyrirgefing er ekki bara vegna þeirra sem hafa brotið af sér – fyrirgefningin er ekki síst vegna manns sjálfs. Að fyrirgefa er að losna undan fjötrum þess sem gert hefur manni illt, losna úr álögum hins illa og þess sem meitt hefur mann. Fyrirgefning er fyrir mann sjálfan.

Að fyrirgefa er að losna úr fangelsi sem aðrir hafa skapað manni. En það erum við sjálf sem erum fangaverðir okkar. Aðrir byggja fangelsið, steypa okkur í dyflissu, hefta okkur og kefla. En það erum við sem ákveðum hvort við viljum dvelja þar lengi, hvort við ætlum að losna. Lykill þess er fyrirgefningin. Og illgerðarmennirnir kunna kannski ekki að iðrast, en við getum losað þá og við getum losað okkur. Illgerðirnar eiga ekki að vera síðasta orðið.

Klassískur skilningur

Hvað er fyrirgefning? Við túlkum hana gjarnan í samhengi einstaklingsins. En ég vek athygli á að í klassísku trúarsamhengi var fyrirgefning ekki skilin sem sjálfhverft tilfinningamál – eins og oft hefur verið í seinni tíð – heldur samfélagsmál.

Að vera fyrirgefið í “biblíulegu” samhengi var ekki eðeins spurning um hug heldur aðgerð – að lagfæra og endurbæta stöðu – að viðkomandi endurheimti stöðu sína, æru og helgi. Í hinu kristna trúarsamhengi er fyrirgefning Guðs þá ekki fólgin í að Guð hætti að vera særður eða fúll yfir brotum manna – heldur að Guð veiti manninum uppreisn æru, veiti manninum stöðu sem guðsbarn að nýju, taki við honum eða henni í guðsríkið þrátt fyrir að viðkomandi hafi brotið af sér og sé því sekur.

Og slík fyrirgefning er alltaf að valdameiri aðili fyrigefur hinum valdaminni. En ekki öfugt. Sá sem brotið var á er ekki beðinn um að fyrirgefa því sá sem er valdaminni getur ekki sett hlutina í rétt samhengi. Fyrirgefning í slíku samhengi er ekki eitthvað huglægt mál heldur verklegt – framkvæmdarmál – og varðar endurheimt stöðu og gildis.

Í hinu trúarlega samhengi er fyrirgefning ekki þröngt fyrirbæri heldur varðar samfélagsgerð og þroska þjóðfélagsins. Fyrirgefningarmál er ferli sem varðar ekki aðeins hið innra og einstaklingstilfinningar heldur einnig – hið ytra, hvernig breyta á öllu – líka félagskerfinu og forsendum menningar – svo menn séu teknir í sátt og mál gerð upp með viðunandi hætti, orðspor sé lagað og menning styrkt. Margir munu ekki vilja gera upp sín mál – en samfélaginu ber skylda til að gera málin upp hvort sem menn vilja eða ekki.

Fyrirgefning eða sátt?

Einstaklingar í samfélaginu geta tekið ákvörðun um að fyrirgefa öðrum einstaklingum, sem hafa gert rangt eða talið er að hafi drýgt eitthvað vont. Hópar geta t.d. eftir umræður tekið ákvörðun að fyrirgefa einstaklingum eða jafnvel stofnunum. En dugar þetta til að vinna með kerfisbrot, hvort sem er í heilbrigðiskerfinu eða bankakerfinu?

Það er vissulega mikilvægt að einstaklingar vinni með sinn innri mann, þ.m.t. reiði sína. Það er okkur persónulega mikilvægt að fyrirgefa. Ef við fyrirgefum ekki sem einstaklingar verður til skrímslagarður innan í okkur. Það er áhersla margra hinna miklu leiðtoga t.d. Martin Luther King og Nelson Mandela að vinna að fyrirgefningu hið innra til að geta beitt sér í hinu ytra. Þetta er vel en er það nóg?

Mér sýnist að sökudólgar í samfélagi okkar séu ekki aðeins einstaklingar heldur líka stofnanir, menningarþættir og jafnvel veigamiklir þættir menningar okkar. Því eigi fyrirgefningarferlið ekki við nema hluta uppgjörsins. Þegar mistök verða þarf leiðréttingarferlið sem hefst í kjölfarið fremur að vera sáttaferli en fyrirgefningarferli.

Fyrirgefningarhugtakið er of þröngt til að passa við samfélagslegar og heildrænar kreppuaðstæður. Fyrirgefning er ekki andstæða sáttar. Þvert á móti getur fyrirgefning verið markmið sáttaferlis en þarf ekki að vera það.

Sáttahugtakið væri hagkvæmara að því leyti að það tjáir betur ferlið sem við værum í. Sem einstaklingar þyrftum við að vinna með aðstæður okkar, viðhorf, tilfinningar, fjármál, vinnuhlutverk, pólitískar skoðanir okkar og leita sáttar hið innra og vinna úr málum okkar í samræmi við það.

En það er hugsanlega ófyrirgefanlegt ef við hlaupum undan ábyrgð og leggjum ekki okkar til sáttaferlis samfélagsins. Við gætum orðið verstu dólgarnir ef við göngumst ekki við köllun okkar.

Ófyrirgefanlegt?

Ég vil bæta við að krafan um iðrun sem forsendu fyrirgefningar er óraunhæf nema í einstökum málum. Margt verður og fellur utan við alla mannlega fyrirgefningu, engin beiðni berst og enginn getur fyrirgefið. Dæmi um þetta eru svonefndir “glæpir gegn mannkyni” sem enginn getur fyrirgefið algerlega. Þjóðir og hópar geta fyrirgefið, en glæpinn er ekki hægt að gera upp. Þegar milljónir voru að berjast við að gera upp hrylling seinni heimsstyrjaldar gerðu hinir marxísku spekingar Frankfurtarskólans sér grein fyrir hinni eilífu sekt. Horkheimir og Adorno, minntu á að Guð væri “nauðsynlegur”eins og þeir orðuðu það, til að vinna úr og upphefja glæpi nasismans.

Guð – sem fyrirgefur

Það er nokkuð til í, að þegar samskipti manna eru gerð upp stendur ávallt út af hið illa, hið ógurlega sem aðeins Guð getur tekið á. Og þar erum við komin að kviku trúar og kristni.

Jesús umbreytti allri lagahyggju hins gyðinglega átrúnaðar, bar elsku til fólks, var elskan holdi klædd í samskiptum og benti í öllu og ávallt á þann sem elskar. Og okkar mál er að innlifast þeim veruleika í lífi, samskiptum og siðferði. Kristnin er framar öðru átrúnaður fyrirgefningar af því að guðsmynd Jesú er hin lífgefandi þvert á kalt réttlæti og endurgjaldshyggju.

Sigurður Árni Þórðarson, s@neskirkja.is – GSM: 8622312.

(Þessi pistill varð til sem ávarp í félagsskap sem bað um innlegg um fyrirgefningu – ég hlustaði svo á merkilega umræðu sem spratt af innlögninni)