Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Prestur á breytingaskeiði

IMG_5641Tárin í augum vina minna gerðu útslagið. Margt hafði farið í gegnum hugann síðustudagana, en votir hvarmar fólks í altarisgöngu snertu kvikuna. Ég var á leiðinni, frá einum söfnuði til annars, frá vinum mínum og til annarra vina. Þetta voru tilfinningadagar og ýmislegt kom mér á óvart, bæði innan í mér og í samskiptum og viðbrögðum fólks.

Eftir tíu ára starf í Neskirkju og þjónustu við vesturbæinga sótti ég um prestsstarf við Hallgrímskirkju. Einföldu rökin voru að skynsamlegra væri að fara í annað prestakall áður en allir væru orðnir leiðir og farnir að bíða að maður hætti! En fleira og veigameira hafði afgerandi áhrif, sumt kirkjulegt, annað varðaði persónulega reynslu og tengsl við fólk. Svo var ég í stöðugu samtali við himinvin minn um hvort ég ætti að sækja eða ekki.

Þegar niðurstaða var fengin hóf ég umsóknarskrifin. Mér þótti áhugavert og að skrifa umsókn í samræmi við ný og breytt viðmið varðandi slíkar umsóknir. Ragnhildur Bragadóttir á Biskupsstofu sagðist aldrei hafa séð svo fallega umsókn! Skýringin var að Katla, sem er bæði fagurkeri og dóttir mín, braut um textann svo ágætlega og smellti inn myndum á góða staði að hinn smekkvísi bókasafnsfræðingur biskups gladdist. Já, pappírinn var líka fallegur og allar myndirnar, sem ég hafði tekið í Hallgrímskirkju, voru í lit.

Svo tók við umsóknarferli. Ég var í önnum, útfarir voru margar og tóku hug minn. Svo varð ég að sinna kirkjuþingi í klemmu á milli jarðarfaranna. Eitt kvöldið á kirkjuþingstímanum var ég kallaður til valnefndarfundar í Hallgrímskirkju. Formaður kjörnefndar, Halldóra Þorvarðardóttir, stýrði fundi örugglega og glæsilega. Svo beið ég – og hinir umsækjendur – niðurstöðu. Ég fagnaði þegar mér var tilkynnt að ég hefði verið valinn til að gegna sóknarprestsstöðu á holtinu. Mér þótti að vísu leitt að aðrir frábærir umsækjendur voru þar með ekki valdir en gladdist jafnframt yfir að Irma Sjöfn Óskarsdóttir var valin sem hinn prestur kirkjunnar.

Annir héldu áfram, að mörgu er að hyggja við skil í Neskirkju og síðan byrjaði undirbúningur fyrir störfin í Hallgrímskirkju. Ákveðið var að kveðjumessan yrði í Neskirkju síðasta sunnudag kirkjurársins, 23. nóvember. Ég yrði síðan settur í embætti (tekinn í notkun eins og starfsfólkið orðaði það!) í messu fyrsta sunnudag í aðventu, 30. nóvember. Við Steingrímur Þórhallson, organisti, ákváðum sálma fyrir kveðjumessuna. Ég skoðaði textana, sóknarnefndarfólkið vildi þjóna sem messuhópur á þessum skiladegi. Ég skutlaði inn í tölvuna nokkrum þönkum að gefnu tilefni. En mér leið þó hálf-einkennilega. Eiginlega alla vikuna. Hvað var að mér? Var það bara flensuræfill sem herjaði? Eða var eitthvað annað? Presturinn, sem hefur gengið sorgargöngur með mörgum, fór að hugsa og spurði hið innra: „Heyrðu, karlinn, ertu í sorgarferli? Svo kafaði ég í ávirka texta síðasta sunnudags kirkjuársins. Jesús spyr þar stórra spurninga um hvort við höfum heimsótt sjúka, fangelsaða, gefið næringarsnauðum mat – iðkað kærleika. Og þau, sem ekki hafa í sér þessa Jesúafstöðu samúðarinnar, eru mörkuð dauðanum. Þetta eru dómstextar, merking þeirra er krísa – enda merkir gríska orðið krisis dóm og dómsniðurstöðu. Boðskapur kristninnar varðar ekki yfirborðsmál heldur mennskuna í öllum víddum. Og þennan gamlársdag kirkjuársins hljómuðu dómsorð um krísu okkar allra. Við dæmum okkur sjálf.

Því vöknuðu íhuganir um eigið líf. Hafði ég staðið mig í starfi síðustu ár? Hafði ég sýnt árangur? Hafði ég ekki brugðist fólkinu í sókninni með margvíslegu móti? Ég gæti fært frávísunarrök og vikið mér undan ábyrgð og vísað á aðra. Nei, ég hafði vissulega ekki brugðist í öllu, en þó – ég sá bresti mína. Þegar ég leit til baka var mér ljóst að ég hafði ekki heimsótt alla sem ég vildi, ekki slökkt þorsta fólks eftir næringu, alla vega ekki þeirri andlegu.

Og ókyrran óx alla vikuna er ég undirbjó kveðjumessuna. Kvefpestin ágerðist og á sunnudagsmorgni var ég orðinn raddlaus. Aldrei hafði þetta gerst síðustu tíu ár. Hvað væri til ráða? Dómur himins – tjáning þess að ég hefði brugðist líka í orðum en ekki bara gerðum? Birgir Ás Guðmundsson kenndi okkur guðfræðinemum nokkur radd-krísu-trix og nú komu þau að góðum notum. Röddin skírðist nokkuð – en var þó þvæld eins og eftir sigurleik Íslendinga í fótbolta – en þó nothæf.

Ég gekk svo í morgunkælunni til kirkju. Óvenju margt fólk var að undirbúningsstörfum, sóknarnefndarfólk við veisluundirbúning, stóri kórinn mættur í upphitun, kórall úr jólaóratóríu-Bach skyldi sunginn eftir prédikun. Alls konar hugsanir læddust að. Síðasta messan? Aldrei aftur í Neskirkju? Kannski fengi ég að prédika síðar eða hjálpa til við útdeilingu? Svo dreif fólk að, eldra og yngra, og mörg þekkti ég vel. Þegar ég horfði í augu þeirra var ég snortinn á dýptina. Ég hafði jarðsungið foreldra eða maka sumra, skírt fyrir önnur, fermt ungmenni í fjölskyldum margra og gift sum. Samfélag, kirkja, söfnuður. Og svo hófst messan, kveikt var á altariskertunum, við sungum lofsöng og báðum bænirnar. Miskunnarbænin fyllti helgidóminn á jörðu og himni. Lestrarnir hljómuðu og Sigurþór Heimisson las stórkostlega. Rúnar Reynisson afskrýddi prestinn og svo var lagt var út af erfiðum og dæmandi textum sem segja þó satt um okkur öll. Kirkja er ekki fallegt hús fyrir klisjur. Kirkja er þar sem góð afstaða til Jesú er ræktuð og afstaða Jesú til manna er iðkuð. Að venju lét söfnuðurinn ræðinginn yfir sig ganga, hlustaði vel, nikkaði kolli eða setti í brýrnar vegna krísunnar.

Já, Bach dillaði, engladans jólaóratóríunnar hleypti dans í kórinn sem lyftist og hneig í hljómfallinu. Spennandi tónleikar framundan. En verð ég með þar? Verð ég ekki hættur, hvenær hættir maður að vera prestur í söfnuði? Verð ég komin í tónverk og alls konar verk í Hallgrímskirkju? Og svo Sanctus, heilagur – þessi dásamlegi hjartsláttur aldanna, viðlag kynslóðanna, játning sálna himinsins, þvert á dómsorðin, orð vonanna sem Jesús Kristur kveikti. Orð um lífið gegn dauða. Og innsetningarorðin rímuðu fullkomlega – um bikar og brauð.

Og svo stóðum við fjögur við útdeilingu. En stemmingin var sérstök. Svo sá ég tár í auga. Síðan voru fleiri tár sem féllu og ég nánast beygði af. Í lokin sungum við öll þann yndislega tímaskilasálm nr. 712 – Dag í senn, eitt andartak í einu. Þakklætið hríslaðist um mig, en tárin leituðu djúpt í vitundina. Mörg faðmlög við dyr, allir tjáðu ósk um hamingju, sum með gleði en mörg með votan hvarm og vanlíðan. Ljúfsár kveðjustund. Svo vorum við kona mín leyst út með höfðinglegum gjöfum sem verma og gleðja um ókomin ár. Droplaug Guðnadóttir og Sigurvin Jónsson héldu snjallar ræður. Takk fyrir mig.

IMG_5700

Í Hallgrímskirkju munu núverandi prestar brátt láta af störfum, Jón Dalbú Hróbjartsson og Birgir Ásgeirsson. Vísast bærast líka í þeim margvíslegar tilfinningar eins og í mér. Þeir glíma væntanlega við vistaskipti og breytingaskeið. Ég get að einhverju leyti sett mig í þeirra spor. Það er ekkert einfalt að skipta um starf eða láta af störfum, eiginlega trúarleg glíma og pílagrímsferð í hópi fólks. Svo eru hin, sem ekki voru valin til starfa. Þau glíma við höfnun og vonbrigði. Sóknarfólk og starfsfólk kirknanna gengur í gegnum breytingaskeið þegar prestaskipti verða. Tilfinningar eru ekki léttvægar heldur mikilvægar – þær “kirkjulegu” og prestslegu líka.

Undarlegur dagar að baki, undarleg vika og sérstæður tími einnig. Ég sé enn tárvot augun við útdeilingu. Tár ljúga ekki og þessi tjáðu afstöðu. Var ég að bregðast eða ekki. Dómstár? Sorgartár já – og tjáðu líklega missi, glataðan tíma, lok fremur en sárindi. Mér var ekki álasað eða skammaður, heldur var sagt að eftir yrði skarð. Nú er lokið tíma, lokið þjónustu og ég fer. Reyndar ekki langt og sum eiga eftir að koma í Hallgrímskirkju og önnur eiga eftir að óska þjónustu minnar. „Þú ert nú áfram sóknarbarn Neskirkju, kallinn minn“ sagði einn. „Við eigum nú eftir að hittast í Melabúðinni, já og kannski líka í Neskirkju“ sagði ein. Ég tilheyri þessu fólki, þessum söfnuði, þessum hverfi, er einn af þeim, deili með þeim gildum og vonum og vil að fjölskylda mín fái að njóta þeirra og líka vera þeim fang þegar á reynir. Það er gott að vera prestur og manneskja í Vesturbænum. Og þó ég færi mig um set er ég einn af þeim. Hvort sem Vesturbærinn nær upp í Þingholt eða ekki er Jesús Kristur sá sami á Högum, Melum og á Skólavörðuholti. Ferðin er á hans vegum.

 

 

 

Bleikt og blátt á aðventunni og fleira!

HP2Þjóðkirkjan hefur notað fjóra liti, grænan, hvítan, rauðan og fjólubláan í helgihaldi sínu síðustu áratugi. Litanotkun er þó að breytast og verða fjölbreytilegri og ríkulegri. Aukin áhrif eru frá erlendum kirkjum sem er vel. Hér á eftir verður farið yfir nokkra aðalliti og merkingu þeirra í skrúða kirkna. Það eru því fleiri litir í boði en aðeins þeir sem hafa skapað sér hefð og notkun í íslensku þjóðkirkjunni. Og hefðin er ekki löng og þarf stöðugt að endurskoða og endurmeta.

Konungblátt

Konungbláminn er litur konungsins og notaður til að fagna hinum konungborna. Er einnig tákn næturhiminsins sem stjarna jólanna birtist á og minnir því á Jesúkomuna. Blátt er æ meira notað á aðventutímanum fyrir jól í stóru kirkjudeildunum og þá til aðgreiningar frá fjólubláa litnum á föstunni fyrir páska. Aðventutíminn er tími eftirvæntingar, biðarinnar eftir að sveinn jólanna, guð-maðurinn, komi inn í heim manna.

Skærblátt

Táknar gjarnan himininn. Í ýmsum hefðum er skærbláminn tákn fyrir Maríu, drottningu himinsins. Skærbláminn táknar einnig frumvötnin í 1. Mósebók, vötnin við upphaf heimsins. Skærbláminn er æ meira notaður í stóru kirkjudeildunum og þá á aðventunni einnig.

Bleikt

Táknar gjarnan gleði og hamingju. Í ýmsum kirkjudeildum er bleikt notað á þriðja eða fjórða sunnudegi í aðventu, þ.e. fyrir jól og þá til að tákna gleði, fögnuð, vegna Jesúkomunnar, fæðingarinnar. Ekki ónýtt það – bleik og blátt – á aðventunni!

Rósrautt

Notað til að tákna gleði og hamingju og er notað í stað bleiks á þriðja eða fjórða sunnudegi í aðventu.

Hvítt

Hvítt táknar gjarnan hreinleika, fullkomleika og heilagleika. Hvítt er notað á hátíðum kirkjuársins, fyrsta sunnudegi í aðventu, aðfangadegi og jóladögunum (nema 2. jóladegi á Stefánsmessu), þrettándasunnudegi, skírdegi, páskum og eftir páska, þrenningarhátíð og allra heilagra messu o.fl. Einnig víða í kirkjum heimsins notað við skírnir, giftingar, vígslur og einnig við útfarir og þá sem tákn upprisu.

Silfrað

Stundum notað í stað hvíta litarins vegna skærleika.

Gyllt

Tákn gleði, hátignar og hátíðar. Gyllti liturinn gjarnan notaður til að tákna návist Guðs. Oft notað með hvítum á hátíðum, ekki síst á jólum og páskum. Oft notað sem viðbótarlitur á öðrum hlutum kirkjuársins.

Gult

Guli liturinn er ljóstákn og notað um návist Guðs. Tákn um endurnýjun og sem vonarlitur, gjarnan tengt upprisu Jesú. Notað oft í stað gyllts eða hvíts og stundum sem viðbótarlitur með öðrum lit á ýmsum tímabilum kirkjuársins, t.d. páskum.

Grænt

Grænt táknar einkum líf, vöxt og viðgang og von. Notað á Íslandi á tímanum eftir þrettánda og fram að föstu, sem og langa tímabilið eftir þrenningarhátíð og að mestu til loka kirkjuársins. Grænn er mest notaði litur kirkjuársins á Íslandi.

Ljósgrænn

Ljósgrænn stundum notaður sem ígildi hins græna. Í sumum kirkjudeildum er ljósgrænn notaður á föstunni fyrir páska en grænn notaður á tímanum eftir hvítasunnu.

Fjólublár

Fjólublár táknar gjarnan þjáningu, iðrun yfirbót, undirbúning og sorg. Þetta er algengasti föstuliturinn. Stundum notaður sem konungslitur. Hefur verið notaður á Íslandi á jólaföstu líka og er hinn eiginlegi föstulitur skv. Handbók kirkjunnar en ég legg til að við leggjum hann af sem aðventulit og notum fremur bláan í hans stað eins og margar mótmælendakirkjur eru að gera.

Vínrauður

Vínrauður er tákn þjáningar og er oft notaður í stað fjólubláa litarins. Gömlu rómönsku höklarnir á Íslandi voru gjarnan í þessum lit. Slíkir höklar eru varðveittir og líka notaðir í mörgum kirkjum og víða um landið.

Grátt

Grár er litur ösku og gjarnan litur sorgar og iðrunar. Í ýmsum kirkju heimsins er þessi litur notaður á öskudegi og á föstu sem og á dögum föstu og bæna.

Svartur

Svartur táknar dauða og sorg. Svartur er notaður á föstudeginum langa. Aldrei notaður sem viðbótarlitur með öðrum litum. Svartur notaður oft í stólur sem notaðar eru við útfarir.

Rauður

Rauður er litur nándar Guðs, litur baráttu trúarinnar og jafnvel fórna sem menn færa vegna trúar sinnar, þ.e. píslarvættis. Þá er rauði liturinn blóðtákn. Rauður er litur hvítasunnunnar, kristniboðsdags og minningardaga, t.d. Stefánsdags ef hann er haldinn hátíðlegur 2. jóladag. Kaþólikkar nota sumir rautt á pálmasunnudegi til að minna á yfirvofandi dauða Jesú.

Flott hjá þér

IMG_1006Góðan daginn kæru hlustendur. Við fjölskylda mín fórum einu sinni til Ameríku. Við lentum í Seattle og ég átti von á hefðbundinni stórflugvallafýlu starfsmanna, sem tækju út pirring sinn á okkur ferðalöngum. Nei, ónei. Elskulegt fólk mætti þreyttum útlendingum. Einn sagði með hlýju í augum “verið velkomin” og annar sagði “njótið verunnar í Bandaríkjunum.” Takk, þetta var óvænt móttaka. Smáfólkið fékk líka sinn skammt af elskulegum viðbrögðum: “Fínn hattur” og “falleg peysa.” Jákvæðnin var skýr og almenn.

Svo héldum við áfram og enduðum suður við landamæri Mexíkó og bleyttum tærnar í Kyrrahafinu. Herra Fúll og frú Fýla virtust gersamlega týnd. Var eitthvað að? Fólk hafði getu til að sjá, virða og hrósa. Jafnvel í atinu í Disneylandi og Legolandi tjáðu vandalausir ef eitthvað hreif. Svo vorum við boðin inn á heimili vina okkar og eflingarorðin flugu.

Þessi áberandi jákvæðni og hrós urðu mér íhugunarefni. Fúll og Fýla lauma sér ótrúlega oft og fljótt í umræðu fólks. En þó margt sé okkur mótdrægt er óþarfi að temja sér neikvæðni í tengslum við fólk. Börnin hafa þörf fyrir að við sjáum þau og við bregðumst við þegar þau gera vel og vinna sigra í smáu eða stóru. Nábíturinn á ekki heldur að stjórna atvinnulífi, stofnunum og þmt. fjölmiðlum. Við megum og þurfum að tjá fólki, að það og verk þess veki hrifningu og gleði. Maki þinn þarfnast að þú sjáir hann og bregðist við með jákvæðum hætti. Fólk við búðarkassa tekur jafnan vel við þegar hlý orð falla í þess garð.

Hrós varðar ekki málæði og yfirborðstjáningu, heldur að temja sér ákveðna afstöðu til annarra og lífsins. Fólk er dýrmæti og þannig skapað. Allir þarfnast orða. Við lifum í krafti tengsla, höfum þörf fyrir að vera séð, að lífshættir, hæfileikar, eigindir og verk séu færð í tal með jákvæðum hætti. Öllum verður gott af því, sem hefur verið kallað H-vítamín – hrós. Það er trúverðug lífsleikni að næra aðra með orðum þegar vert er og ástæða til. Jesús kenndi okkur þessa mannvinsamlegu nálgun. Hann hafði alltaf áhuga á fólki og sá í öllum eilíft gildi og gæði. Við þig segir hann með jákvæðum hætti og eins og satt er. „Þú ert frábær!“

Er einhver nálægt þér, sem þarfnast þess að heyra það líka? Blóm dagsins er hrós.

Bænir…

Guð gefi þér yndislegan dag og gleðiríka helgi.

Morgunorð og morgunbæn RÚV 3. október, 2014.

Undur lífsins

IMG_4139Kæri hlustandi – góðan dag. Hvernig ætlar þú nú að vera og lifa í dag? Má bjóða þér meðal gegn öldrun? Ég er búin að uppgötva það. Hvað skyldi það vera? Jú, að umgangast börn. Vísast er öflugasta meðalið til lífsgæða að eignast líka börn seint og á efri árum! Öldrun er ekki aðeins það að missa heilsuna. Fyrir slíku geta allir orðið á öllum aldursskeiðum. Nei, verst er þegar heilsugott fólk hrynur inn í sjálft sig, verður svo upptekið af sínu, að það sér vart út yfir smáhring eigin þarfa og aðstæðna. Sögurnar verða nærsýnar og harmhneigðar. Með ellinni veikjast varnir og hverfa jafnvel. Gallar koma í ljós, sálarsprungur stækka og gleypa lífsgæðin. Þá fjarar lífið út en grjótið verður eftir í fólki.

Börn eru dásamlegir afréttarar og hvatar til lífs og gleði. Afstaða og tilraunir barna þjóna þroska þeirra. Leikjasókn þeirra er ekki aðeins í þeirra þágu, heldur megum við læra af þeim og efla spuna í lífi okkar, sem eldri erum. Leikur í hjónalífi þeirra, sem hafa verið gift lengi, er meðmælanlegur. Prufið bara og aldrei of seint. Og það er afar fátýtt að fólk deyji af undrun og fögnuði, en gáski í tjáskiptum gerir oft kraftaverk. Fróðleikssókn er í anda lífssóknar barna. Verkefni hvers manns er vinna að hamingjunni. Okkar eldri er að setja mörk og markmið, en börnin kenna okkur líka stórkostlegar kúnstir og sýna okkur aðferðir lífsleikninnar.

Jesús Kristur miðlaði trausti, hann var barnavinur. Hann hafði ekki aðeins þá afstöðu að börn væru leir til að móta, heldur benti á hæfni og skapandi leit sem væri til eftirbreytni. Temjum okkur því opna og einlæga sókn þeirra. Hvernig er himnaríki? Það birtist í gleðileik barnanna.

Börn og ástvinir eru flestum mestu dýrmæti lífsins. Þau gefa lífi okkar lit, sögur, ævintýri og auðvitað líka vandkvæði. Líf án skugga er blekking. Brandarar, spenningur yfir veðri og náttúru, tilraunir, spurnargleði, vilji til að skoða og þroskast eru einkenni bernskunnar. Við megum gjarnan temja okkur undrun. Börn eru hæfir kennarar í símenntun hinna eldri. Að vera með börnum skerpir okkur til lífs. Til að vera nálægur börnum og tengjast þeim verðum við að þola hið bernska, að hrífast, gleðjast, gráta og hlægja. Þetta varðar fólk á öllum aldri, líka þig. Leikur er list lífsins. Börn opinbera undur lífsins.

Bænir

Guð gefi þér leikandi lífsgleði og góðan dag.

Morgunorð – morgunbæn RÚV 2. október 2014.

Ótti og von

KanósiglingHvaða tilfiningar vakna í þér með dagin framundan? Er þetta dagur tækifæranna og framkvæmda? Eða dagur óttans? Eða dagur vona?

Einu sinni var ég í sænska skerjagarðinum í fríi. Við fjölskyldan sigldum með systur og mági á skútu milli eyjanna. Það var skemmtilegt að setjast við stýrið og venda, vinna með vindi og upplifa krafta náttúrunnar. Við syntum í sjónum og bjuggum vel. Það var dekrað við okkur.

Ég á tvíburastráka og þeir voru sjö ára á þessum tíma. Eitt kvöldið var þeim boðið í kanósiglingu. Veðrið var undursamlegt, sjórinn spegilsléttur, fuglarnir sungu, smáfiskurinn kom upp í yfirborðið og gáraði lítillega speglun himins í vatni.

Kanóbáturinn sveif sem á skýjum í vatninu. Svo hurfu bátsverjar sjónum mínum og ég vissi hvaða leið þeir ætluðu. Og ég treysti skippernum vel til ferðar með drengina mína. Svo leið tíminn og bátsferðin varð lengri en ég hafði átt von á og svo tók að rökkva og ég fór að verða órólegur. Hafði eitthvað komið fyrir, hafði þeim hlekkst á. Óttinn læddist að með húminu og ég gekk á ströndinnni og skimaði eftir þeim. En ég sá engin merki um þá, heyrði ekki til þeirra – það var eins og sjórinn hefði gleypt þá. Og óttinn læddist inn í mig með fullum krafti. Hafði bátnum hvolft? Ég kallaði upp í himininn og bað um hjálp.

Þegar óttinn kemur finnur maður hvað skiptir máli og ástin hamast. Ég mátti ekki til þess hugsa að nokkuð kæmi fyrir þá, að þeir hyrfu í hafið. Þegar drengirnir mínir týndust í sænsku kvöldhúmi í skerjagarðinum fann ég hve ég elskaði drengina mína hamslaust og heitt. Mér til mikils léttis hafði ekkert hættulegt hent þá, bænin hafði verið heyrð. Þeir höfðu breytt um kúrs og lent í ævintýrum. Þeir voru í góðum höndum, vel var fyrir öllu séð, lífið hafði bara breyst á ferðinni. Allt fór vel.

Byrjar þú þennan dag í von eða ótta? Þú mátt vita að þessi dagur verður merkilegur dagur. Og svo er vinur á himnum sem elskar og vill að þú skiljir og vitir að þú ert stórkostlegur eða stórkostleg. Sá vinur heyrir vel, er nærri og allir eiga í honum góðan stuðning fyrir siglingar daganna.

Bæn – Faðir vor

Guð gefi þér óttalausan og góðan dag.

Morgunorð og bæn Rúv 29. september 201