Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Guð söngsins

endurnýjunGef að við mættum syngja þér nýjan söng.
Þú hefur gert dásemdarverk – gef okkur rödd, mál og söng í lífi okkar.
Gef að söngur um ást þína megi hljóma í öllu því sem við iðjum. Þökk fyrir öll þau sem hjálpa okkur að syngja um þig og til eflingar gleði í heimi.

Blessa samfélag okkar Íslendinga.
Legg þú verndarhendi á forseta, ráðherra, þingmenn og dómara.
Gef þeim réttlæti og þjónustuanda og vit til að greina milli eigin hags og almannahags.

Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn. Drotinn heyr vora bæn

Guð frelsis og lækningar
Þökk fyrir páska – fyrir að lífið lifir – að þú lifir.
Vitja allra þeirra er þjást og syrgja, sakna og gráta.
Styrk þau öll og veit þeim von.
Gef þeim trú, traust, björg og blessun.

Við biðjum fyrir öllum þeims sem eiga um sárt að binda í Nepal.
Vitja allra þeirra sem eru ofsóttir fyrir trú á þig í þessum heimi.

Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn. Drotinn heyr vora bæn

Góði Guð
Blessa þú heimili okkar.
Gef okkur vit til að viðurkenna mistök okkar
og kraft til að biðjast fyrirgefningar þegar við höfum brotið af okkur,
mátt til að styðja heimilisfólk okkar til góðra starfa.

Gef að heimili okkar mættu vera vaxtarreitir til hamingju,
iðkunarstaðir góðra gilda og glaðvær vettvangur fyrir fólk.
Opnir staðir söngsins og faðmar fyrir hina grátandi.

Gef að við mættum lifa með þér og vera farvegir þínir.

Gef að við megum lifa í ástarsögu þinni og miðla henni í lífi okkar.

Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn. Drotinn heyr vora bæn

Amen.

Bæn á söngdegi, cantate, 4. sd. eftir páska, 3. maí, 2015

Sr. Birgir Ásgeirsson kveður Hallgrímssöfnuð

BirgirPrestaskipti verða í Hallgrímskirkju á næstunni. Sr. Birgir Ásgeirsson varð sjötugur 9. mars síðastliðinn og kveður Hallgrímssöfnuð í messu 22. mars. Birgir hefur þjónað sem prestur Hallgrímskirkju frá árinu 2006 og verið prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra síðustu fjögur ár. Birgir var vígður til Siglufjarðar árið 1973 og varð sóknarprestur í Mosfellsprestakalli árið 1976. Frá 1990 og í fimm ár var hann sjúkrahúsprestur og frá 1996 prestur Íslendinga í Kaupmannahöfn og þjónaði einnig Íslendingum í Svíþjóð um tíma frá 1997. Birgir var sjúkrahúsprestur frá árinu 2002 þar til hann varð prestur Hallgrímskirkju.

Sr. Birgir á að baki afar farsælan feril sem prestur þjóðkirkjunnar. Að auki hefur hann starfað hjá ýmsum félögum, samtökum og fyrirtækjum og verið kallaður til ábyrgðarstarfa. Birgir er kunnur fyrir sálgæslufærni og nýtur virðingar fyrir lagni í stjórn kirkjumála í Reykjavík. Í Hallgrímskirkju hafa prédikanir hans og hugleiðingar vakið verðskuldaða athygli.

Eftir kveðjumessuna, sem hefst kl. 11 eins og barnastarf kirkjunnar, verður kaffi á könnu og kaka á borði í Suðursal kirkjunnar. Allir eru velkomnir. Hallgrímssöfnuður þakkar sr. Birgi Ásgeirssyni frábæra þjónustu.

Andri Fannar Guðmundsson – minningarorð

4Myndin á forsíðu sálmaskrárinnar er yndisleg. Andri lá á maganum meðprinsessurnar sínar á bakinu. Þau voru að leika sér á hoppubumbu á sundlaugarsvæðinu nálægt heimli þeirra í Sviss. Eins og þið sjáið brosti Andri út að eyrum og dætur hans ærsluðust og hlógu. Þetta er hamingjumynd og mynd af því hvernig hægt er að lifa vel í heimi en líka á himni. Lífið er skemmtilegt þegar við lifum því með leik og gleði. Þá tengjust við sjálfum okkur og þjálfum okkur fyrir veruna í eilífðinnni sem er heimur hins fullkomna frelsis. Alla æfi erum við að æfa okkur fyrir leik himinsins. Börnin eru best í leiknum – þau kunna aðferð eilífðar. Og í Andra bjó leikgeta. Hann má vera okkur fyrirmynd í að iðka gleðina og leika okkur, hafa gaman af því að lifa. Hver dagur, hver stund er gjöf til að njóta og ástvinir til að elska og næra.

Andri var þegar sem barn áræðinn og jafnvel hvatvís. Figgi, síðar fóstri hans, skrifaði skemmtilega sögu um Andra sex ára. Þá heillaðst Andri af stórum jeppa og gaf sig á tal við eigandann og spurði hvort hann mætti ekki koma með í smárúnt á þessum glæsilega bíl. Jú, jú það var heimilt og rúnturinn varð bílstjóranum ógleymanlegur því drengurinn talaði án afláts, spurði margs og kom viðmælanda sínum fyrir sjónir sem fróður, fullorðinslegur og skemmtilegur. Og fjörið í Andra hefur ekki verið til ills því Birna móðir hans og jeppaeigandinn tóku saman skömmu síðar og fóru síðar í langan rúnt um Afríku.

Upphaf og samhengi

Andri Fannar var vormaður, hann fæddist 11. maí árið 1981. Foreldrar hans eru Birna Guðbjörg Hauksdóttir og Guðmundur Örn Flosason. Andri hóf nám í grunnskólanum á Siglufirði. Hann var fljótur að kynnast fólki, hikaði ekki við að gefa sig á tal við eldri sem yngri. Andri var kotroskinn og þótti ekki verra að geta komið viðmælendum til að hlægja. Eitt af mörgu sem eftir honum er haft frá æskuárum er þessi ágæta og fyndna sjálfskynning. Hann sagði: „Ég heiti Andri Fannar Guðmundsson og pabbi minn heitir Snorri.“ Sumir viðmælendur urðu að blikka augum nokkrum sinnum til að ná snilli drengsins!

Systkini Andra komu eitt af öðru og hann gekkst svo sannarlega við því hlutverki að vera góður bróðir. Og það var ekki bara Rannveig eða hin systkinin sem voru ánægð með stóra bróður heldur var hann alla tíð afar stoltur af þeim og var tilbúin að hringja yfir þveran hnöttinn bara til að segja hve stoltur hann væri af systur sinni eða kátur með bróður.

Andri eignaðist stóran systkinahóp og varð systkinum sínum kraftmikil fyrirmynd í margvíslegu tilliti. Hann hafði áhrif á menntunarsókn þeirra og það var mikilvægt. Systkini Andra sammæðra eru auk Rannveigar – Stefán Haukur Friðriksson, Margrét Marsibil Friðriksdóttir og Eirikur Hrafn Þrastarson. Systkini Andra samfeðra eru Margrét Helga, Fjóla Dröfn og Flosi Gunnar. Stjúpsystkini hans eru Guðbjörg Oddný Friðriksdóttir, Ásgrímur Már Friðriksson, Helgi Phoonsawat Guðmundsson og Óli Phoonsawat Guðmundsson.

Namibía

Lífið á Sigló var dásamlegt en svo ákváðu móðir og stjúpi að nú væri kominn tími til enn stórkostlegri ævintýra. Fjölskyldan flutti til Namibíu í suðvestur-Afríku og þar bjuggu þau í rúmlega fimm ár. Andri hóf nám í enska skólanum í Swakopmund. Andri var jafn snöggur að eignast vini þar eins og á Siglufirði, en kannski hefur hann nú ekki vaðið upp í næsta stórjeppann og beðið um að far á rúntinn.

Hann var snöggur að ná valdi á enskunni í skólanum og umfram flesta aðra lagði hann sig líka eftir Afrikaans og gat því talað við fólk af flestum stigum og stéttum. Andri var sjálfum sér trúr, stóð fast á réttlætismálum, hikaði ekki við að tala skýrt við kennara eða hvern sem var ef þess var þörf.

Aðstæður barnanna voru góðar, ströndin nærri, eyðimörkin á hina hönd og þó iðandi af forvitnilegu lífi. Eðlurnar urðu eftirlætisveiðidýr þeirra systkina og margra barna. Viðskiptavitið spratt upp. Andri setti á stofn verslun og seldi allt mögulegt og álagningin var talsverð. Andri vissi vel hvað þurfti til að viðskiptavinir yrðu kátir með kaupin en hann gæti þó hagnast á viðskiptunum.

Namibía var ekki aðeins ljúf fyrir uppvaxandi börn, heldur fjölbreytilegur fræðsluvettvangur eða skóli varðandi gildi, samskipti kynþátta og menningarhópa.

Afríkuferðin mikla

Andra var fyrr og síðar mikilvægt að njóta frelsis. Hann mat einnig víðáttu og hina opnu möguleika. Fjölskylda Andra lauk Namibíudvöl sinni með mikilli Afríkuferð, og óku eiginlega frá Namibíu til Íslands. Þau óku suður frá Namibíu til Góðrarvonarhöfða og þaðan síðan upp með austurströndinni, þvert yfir Afríku og síðan upp með vesturströndinni til Marókkó, óku yfir eyðimerkur og vel gróðið land, í gegnum hættur, voru á flótta undan óðum fíl, þurftu að gæta sig á fólki sem vildi kaupa eitt barnið úr bílnum, kynntust ótrúlega fjölbreytilegu landslagi í menningu fólks og náttúru. Ferðalagið tók átta mánuði en varð eiginlega mótandi skóli til lífs fyrir Andra og þau öll sem sátu í bílnum. Þetta var tími sem skilaði innsýn Andra í líf margra, einstaklinga, hópa og þjóða – efldi skilning hans á menningu – en líka á að fólk er líkt þótt skinnið sé ólíkt og menningin fjölbreytileg.

Forvitni, hispursleysi, kátína, brosandi augu og þor tengdu Andra við fólk á öllum breiddargráðum og lengdarbaugum. Og fullorðinn var Andri ekki aðeins Íslendingur heldur heimsborgari, jafnhæfur í plássi á Íslandi og í afrísku þorpi, jafn kunnáttusamur í háskólum heimsins, stórbönkum veraldar eða í kælinum í Hagkaup. Mömmu og pabba, fóstrum, ömmum og öllum ástvinum lánaðist að virkja mátt drengsins svo vel að Andri naut sín, nýtti hæfileika sína til vaxtar og varð þroskaður maður, sem var tilbúinn að njóta og lifa vel. Lof sé þeim öllum – ykkiur öllum – þið lögðu svo vel til hans.

Nám og störf

Eftir að Andri og fjölskylda komu heim akandi og siglandi frá Afríku hóf hann nám í Hólabrekkuskóla í Reykjavík. Þaðan lauk hann grunnskólaprófi vorið 1996. Síðan lá leiðin í Fjölbrautaskólann í Breiðholti og þaðan lauk hann stúdentsprófi árið 2001. Andri vann með námi og kom sér jafnan vel enda hafði hann áhuga á því sem hann var að gera og gekk með krafti í verkin hvort sem það var að puða í Hagkaup eða aðlaga Credit Suisse að nýjum reglum um bankaleynd. Andri hóf starfsferil sinn sem kerrustrákur hjá Hagkaupum og Högum árið 1998 og vann sig snarlega upp í stjórnunar- og ráðgjafastöðu meðfram fullu námi.

Eftir stúdentspróf hellti Andri sér í sálfræðinám við Háskóla Íslands. Og Andri stefndi alltaf til stjarnanna og útskrifaðist með afburðaeinkunn árið 2005. Þetta var á þeim árum þegar skörpustu heilarnir voru metnir og veiddir. Andri vakti athygli í bankaheiminum og þó hann hefði stefnt á framhaldsnám í Harvard var hann til í að staldra við í bankageiranum. Hann vann hjá Glitni á árunum 2006-2008. Um tíma var hann einnig stundakennari við HÍ og HR. Andri fór svo til frekara náms, ekki þó í Bandaríkjunum heldur í Barcelona. Andri lauk MBA-námi frá Navarra-háskólanum árið 2010. Í tengslum við námið var Andri í starfsþjálfun hjá Johnson&Johnson í Stokkhólmi sumarið 2009. Og þrátt fyrir kreppuna sem reið yfir fjármálaheiminn eftir 2008 stóðu Andra ýmsar dyr opnar. Hann fékk vinnu í Zürich hjá Credit Suisse og þar starfaði hann til dánardags – og er sárt saknað bæði persónulega og faglega.

Glæsilegur ferill – glæsilegur maður.

Sara og dæturnar

3Svo er komið að þætti Söru Sturludóttur. Andri heillaðist af henni og hún varð konan hans og drottning. Það var gaman að hlusta á Söru segja frá hversu kunnáttusamur Andri var í fíngerðri list ástalífsins, hvernig hann fékk símanúmerið hennar, hringdi í hana, bauð henni í mat, eldaði eins og Michelinkokkur, aldrei ágengur en heillandi. Svo þegar Andri vissi að hann væri að missa Söru vestur bjó hann til rómantíska helgi fyrir þau og hún fór vestur í sumarvinnuna með ástina í hjartanu. Svo fóru þau að búa og giftu sig. Kannski var Andri ekki í upphafi með hugann við barneignir en hann var alltaf til í að ræða málin og svo gerðist undrið. Birna Sif kom í heiminn 12. nóvember 2008 og Kristrún Elma fæddist svo 26. mars árið 2012.

Andri var frábær pabbi, líflegur, glaður og uppátækjasamur. Hann sinnti krefjandi vinnu vel en svo þegar hann kom heim sinnti hann öllum konunum sínum heils hugar og nálægur. Og það var gaman hjá þeim. Hann tók fullan þátt í heimilishaldinu og galdraði fram veislur.

Og Andri naut leiksins, naut þess að hoppa með dætrum sínum og hann átti ekki í nokkrum erfiðleikum með að fara einn með þær báðar í sund. Flestir feður hefðu hikað – en ekki Andri – hann var margra manna maki í því sem hann tók sér fyir hendur.

„Pabbi er dáinn – ég get ekki séð hann eða snert hann“ sagði Birna Sif við mig – opineyg og ærleg. „En pabbi verður alltaf hjá mér samt“ – bætti hún við.

Og það er hjartaslítandi að hugsa um þessar fallegu stúlkur föðurlausar og Söru Andralausa. Guð geymi þær og gætið þeirra vel og sláið hring elsku og umhyggju um þær allar.

Takk Sara hvernig þú umlaukst Andra með ást þinni alla tíð og leyfðir honum að njóta hamingju til hinstu stundar. Hann vildi ekki fara inn eilífðina strax því hann var svo hamingjusamur í tíma. En hann hvarf inn í leik og gleði himins með hamingju í hjarta – elskaður.

Kveðjur

Þið eru mög sem kveðjið Andra í Hallgrímskirkju í dag. Mörg eru erlendis, eða utan bæjar og komast ekki til útfararinnar en biðja fyrir kveðjur til þeirra sem hér eru. Það gera Þorkell Kristinsson og fjölskylda, einnig systkinin Ásgrímur, Anna Lind og Sunna Lilja sem eru erlendis. Sömuleiðis Una Þórey Sigurðardóttir á Akureyri, Sara og Margrét og Birgitta í Danmörk, Eyþór Guðmundsson, Ellen Kristjánsdóttir og Kristján Kirstjánsson, KK. Sömuleiðis hef ég verið beðinn að geta hve gott samfélag Margrét Helga amma Andra átti við hann og hve þau efldu hvort annað.

Minningarnar

Á krossgötum vakna allar minningarnar um Andra. Leyfðu þeim að koma fram með krafti, leyfðu tilfinningum að flæða, segðu skemmtisögur af honum í erfidrykkjunni á eftir.

Hvernig manstu Andra?

Manstu hve góðhjartaður hann var? Manstu hve félagslega fær hann var – og fljótur til að tengja?

Manstu að hann hafði lítinn tíma fyrir rugl? Og átti ekki í neinum erfileikum með að tjá skoðun sína og ekki heldur gagnvart yfirmönnum? Manstu hve lausnamiðaður Andri var?

Manstu fótboltaáhugann? Og að hann var Arsenalmaður – átti jafnvel fágætar Arsenaltreyjur?

Manstu músíkina hans – hann gat hlustað á Bob Dylan hvar og hvenær sem var, alla Afríkuferðina – og æ síðan. Svo var hann svo klókur að hann giftist Söru – eins og Dylan. Manstu hin sem hann hafði gaman af, Bruce Springsteen, Emmylou Harris og alla hina gullbarkana? Leyfðu músíkinni hans með öllum hjartanálægu textunum að flæða til þín.

Manstu músíkina sem Andri bjó til sjálfur? Hann spilaði í böndum og barði húðirnar af mikilli kúnst, og gat m.a.s. sungið með trommuslættinum sem er ekki öllum gefið.

Manstu hvað Andri las, áhuga hans á Churchill og aðdáun hans á Margaret Thatcher? Hann var vel heima í stjórnvisku járnlafðinnar og gerþekkti æviferil hennar!

Manstu eldhússnilli Andra? Jafnvel nú á síðustu jólum þegar mjög var af honum dregið eldaði Andri. Sósan sem hann gerði mun lifa í minningu fjölskyldunnar. Og manstu hvað hann borðaði? Andri vissi alveg að rjómi og smjör hefur aldrei eyðilagt nokkurn mat!

Manstu einbeittnina í námi, hvað hann lagði hart að sér og uppskar ríkulega? Manstu kappsemina í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur? Það var ástæða fyrir að Andri var kallaður víkingurinn á Spáni – virtur og metinn!

Manstu hvernig hann tengdist þér, talaði við þig, var alnálægur og hafði mikinn áhuga á þér og fólkinu þínu?

Manstu hinn snögga og stundum kostulega húmor hans. Hann gat jafnvel skemmt um hið óskemmtilega. Hann mátaði Barbífót við sig þegar hann var orðinn einfættur. Þegar hann var orðinn mjög veikur lék hann sér í Fifa-fótbolta á X-boxið og spilaði við frænda sinn ungan og puttalipran. Þegar Andra ógnaði staðan og sá fram á tap sagði hann við frændann með blik í augum. „Þú matt ekki vinna mig – ég er með krabbamein.“ Andri tapaði aldrei skopskyni og allt lá undir – líka lífið. Það eru bestu húmoristarnir sem ná því stigi.

Manstu hve auðvelt hann átti með leiki og búa til ævintýri með systkinum sínum og ástvinum? Þeir leikir áttu sér engin takmörk, hann varð í þeim lögfærðingur, dómari og bisnismógull.

Manstu uppátækin – segðu frá þeim. Leyfðu lífsgleði hans að lifa.

Inn í himininn

Nú er Andri farinn. Hann segir þér ekki snarpan brandara, fylgist ekki með Alexis Sanches, býr ekki til fleiri sósur, sér ekki á færi snilldarlausn fyrir banka heimsins. Hann ekur ekki af stað í þriggja tíma ökuferð með prinsessurnar sínar bara til þess eins að prufa nýja sundlaug einhver staðar í Þýskalandi. Og hann tekur ekki stefnuna út í víðáttuna til að fara til Vladivostok – eins og hann sagði stundum.

Andri lifði hratt, betur en við flest, áorkaði meiru á aldarþriðjungi en flestir á langri æfi. Hann var hamingjumaður, skapaði hamingu, lagði svo margt gott til lífsins og hverfur alltof fljótt inn í himinn Guðs. En við megum þakka fyrir Andra, þakka fyrir prinsessurnar hans, þakka fyrir undrin sem hann framkallaði fyrir ástvini og samferðafólk.

Hvernig ætlar þú að glíma við missinn og sorgina? Gerðu það með því að leggja rækt við lífið, leikinn, gleðina og ástina. Þá verður Andri með þér í anda. Og leyfðu honum að fara inn í himininn. Suður í Afríku lærði hann að trúa á Guð. Og þegar hann nálgaðist vistaskiptin talaði hann mikið og einlæglega við Guð. Ræktað talsamband þjónaði undirbúningi hans undir förina inn í eilífðina. Og Guð er besti félaginn í ferðum í tíma en líka á himni. Alltaf vinur, alltaf nærri.

Guð geymi Andra í leik eilífðar. Guð geymi Söru, Birnu Sif, Kristrún Elmu, foreldra hans, systkini, fóstursystkini og alla ástvini. Guð geymi þig.

Amen.

Eftir að þessari athöfn var Andri jarðsettur í kirkjugarðinum á Görðum á Álftanesi. Erfidrykkja í safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju.

Minningarorð flutt í Hallgrímskirkju 20. janúar, 2015.

 

 

Jósef og stóru draumarnir

JósefAðalpersónur jólasögunnar eru María og Jesúbarnið. Svo koma auðvitað við sögu hirðar, vitringar og englar. En svo er Jósef þarna líka. Þó hann sé næstum ósýnilegur í helgileikjum skóla og kirkju er hann þó miðlægur í upprunasögunni.

Það var Jósef, sem studdi heitmey sína á förinni til Betlehem. Hann hentist inn á alla gististaðina og fékk afsvör. Það var hann, sem tók á móti barninu þegar það kom í heiminn, skildi á milli og batt fyrir naflastreng. Hendur hans hafa eflaust skolfið þegar hann hélt á smálífinu í lúkunum og vafði klæði um barnið til að varna að næturkælan næði því. Hann hefur sett það í móðurfang þegar María bar það fyrst að brjósti.

Jósef hafði atvinnu af smíðum, en við vitum ekki hvað hann smíðaði eða hvernig verkmaður hann var. Væntanlega var Jósef ekki mállaus, en þó er ekki eitt einasta orð haft eftir honum í Biblíunni. Jesús var fullkominn snillingur í samræðum og örlátur í samskiptum og væntanlega hefur Jósef lagt til þeirrar hæfni.

Maðurinn á bak við konuna

Aukaleikarinn í jólasögunni er í raun aðalleikari. Hann var maðurinn á bak við konuna. Hann rataði í siðklemmu og brást stórmannlega við vanda festarkonu sinnar. Vegna manndóms og karlmennsku kastaði hann af sér karlrembunni og ákvað að axla ábyrgð á aðstæðum þeirra Maríu. Hann veik sér aldrei undan að taka erfiðar ákvarðanir og fara langar leiðir og ferðir ef það mætti verða til að vernda líf og hamingju fjölskyldu hans. Jósef er raunar fyrirmynd um karlmennsku í jafnvægi. Í miðju glimmerskreyttrar draumafrásögu er saga um sterkan mann, sem þorði. Sá Jósef hafði karlmannslund í lagi. Jósef var fyrirmyndarmaður sem þorði, gat og vildi.

Draumar Jósefs

Brasilíski ritjöfurinn Paulo Coelho opnaði augu mín fyrir hve fáir draumamenn eru í Nýja testamentinu. Í Gamla testamentinu er fjöldi drauma og draumspakra – en í því nýja fyrst og fremst Jósef. Í guðspjöllunum er aðeins sex sinnum sagt frá draumförum. Í fjórum af þessum sex tilvikum var það Jósef sem dreymdi. Hann var tengdur dýptum tilverunnar og tók mark á sínum innri manni. Draumar hans breyttu afstöðu hans, skoðun og stefnu. Því var lífi Jesú bjargað.

Í fyrsta lagi ákvað Jósef að skilja ekki við Maríu vegna óléttunnar. Samkvæmt sið, venjum og stöðlum samtíðarinnar hefði Jósef átt að rifta trúlofuninni. En hann hlustaði á draum sinn og þorði að gera annað en það, sem nágrannar hans ætluðust til. Svo dreymdi hann í Betlehem, að hann ætti að drífa sig með sitt fólk til Egyptalands. Ættmennin hafa væntanlega álitið það galið – vera maníukast – að rjúka í slíka óvissuferð með ungabarn. Og maður með snefil af bisnissviti hefði ekki hlaupið svo frá verkum sínum og skyldum. En Jósef var reiðubúinn að hlusta á kall til heilla þótt það kostaði hann mikið. Í þriðja skiptið fáum við að heyra af þessum draumajóa þegar hann var búinn að koma sér fyrir í Egyptalandi, var væntanlega í góðri vinnu og átti til hnífs og skeiðar. Enn einu sinni hlustaði hann á boðskap, sem þó kom honum illa. En hann lagði í´ann og enn einu sinni fékk hann bendingu í draumi um að stoppa ekki í Jerúsalem á leið heim í þorpið í Galíleu.

Draumur Guðs

Aðalpersónur í jólasögunni og þar með í allri kristninni eru María og Jesús. En vert er að taka eftir og sjá líka hinn trausta Jósef. Hann var ekki bara flottur, heldur glæsilegur. Ég met mest hve vel tengdur hann var sínum innri manni. Hann þorði að breyta um skoðun. Hann þorði, vildi og gat axlað ábyrgð í vondum aðstæðum, tryggði og efldi þar með líf annarra, ekki aðeins síns fólks heldur veraldarinnar. Að hlusta á drauma er okkur nauðsyn og veröldinni lífsnauðsyn.

Draumar Jósefs voru merkir. Þeirra megum við vitja okkur til gagns. En við megum gjarnan fara í gegnum þá og vitja enn stærri drauma, raunar stærsta draums veraldar. Það er draumur Guðs um hamingju, gleði og réttlæti handa öllum mönnum: Þú ert í þeim draumi og þú ert ekki aukapersóna. Guð dreymir þig, bæði daga og nætur, dreymir að þér líði vel, að þú njótir elsku og hamingju, í einkalífi og vinnu.

Þegar Jósef tók með skjálfandi höndum hið litla líf í fangið birti Guð og auglýsti elskugerð veraldar, túlkaði drauminn um lífið og heiminn. Hið varnarlausa barn tjáir sögu um, að Guð lætur sig varða veröldina, vitjar fólks í raunverulegum aðstæðum en ekki bara í andlegri heilaleikfimi.

Vitjaðu draumsins þíns

Hver er draumur þinn? Hvers væntir þú? Á jólum og við áramót megum við gjarnan setjast niður, leyfa kyrrunni að koma. Hlustaðu á drauminn um gleðiefni þín, köllun þína. Hvert er þitt hlutverk? Hvað getur þú gert til að þú lifir vel? Hver er lífshamingja þín? Er eitthvað í lífi þínu, sem hindrar að þú sért hamingjusamur eða hamingjusöm?

Vegna þess að Jósef hlustaði á drauma sína bjargaði hann Maríu, Jesúbarninu og hamingju sinni. Guð dreymir þig og sá draumur situr í þér – býr í þér allt frá því að naflastrengur þinn var skorinn og bundinn – draumurinn um lífshamingju. Það er draumur til lífs.

Leita Guðs en sjá menn


KórÍ þessari viku hef ég nokkrum sinnum gengið inn langan kirkjugang Hallgrímskirkju – og alla leið upp að altarinu. Á mánudaginn síðasta hóf ég prestsþjónustu í þessu húsi og í þágu Hallgrímssafnaðar og þessa dagana er mér flest nýtt. En framgangan og upp að altarinu var ekki ný fyrir mér og rifjaði upp óvænta og sterka upplifun þegar ég gekk í fyrsta sinn fyrir altari kirkjunnar.

Hver er miðjan í kirkjunni? Flestar kirkjur eru svo skipulagðar, að nálgast altari veki tilfinningu fyrir mikilvægi. Miðjan, staður hins heilaga er jafnan á áhrifaríkasta bletti rýmisins. Þegar þangað er komið finnur fólk, að það er statt á „heitum“ reit, sem trúmaðurinn kallar heilagan stað.

Þið, sem hafið gengið inn kirkjugang Hallgrímskirkju vitið vel, að leiðin er löng, ferðalag sem gefur tilefni til skynjunar og hugsana.

Kórgluggarnir veita ljósi greiða leið og kórinn er jafnan bjartasta rými kirkjunnar á messutímum að degi. Því er það eins og að halda inn í ljósríkið að ganga að altarinu – og auðvitað enn fremur þegar sól skín. Sjónlínurnar í kirkjunni eru mikilvægar og stýra úrvinnsu upplifunarinnar.

Hvað sérðu þegar þú situr á kirkjubekknum og horfir inn í kórinn? Þú sérð ekki bíla, hús eða mannlíf heldur himinn – ef ekki bláan, þá leik skýja og stundum leik ljóssins í skýjabólstrum. Kórinn verður því upphafinn ljósveröld. Og kirkjan verður eins og forskáli himinsins. Augun leita fram og upp og hlið himins opnast. Sjá himins opnast hlið… segir í sálminum (sem er yfirskrift þriggja tónleika Mótettukórsins þessa dagana).

En hvað sér presturinn í kórnum? Ég gekk fyrir altarið áðan og þá breyttist útsýnin. Það, sem sést í kórnum, sjáið þið ekki sem eruð í kirkjunni. Sjónsvið prestsins er allt annað en sýn safnaðarins. Við altarið leita augun ekki lengur upp í himininn, til skýja eða himinljósa. Augun leita þvert á móti fremur niður! Upp við altarið sér maður beint út og niður um lága gluggana í bogahring kórsins. Frá altarinu blasa við borg, hús og mannlíf. Þessa borgarsýn hefur söfnuðurinn ekki og fjöllin eru í fjarska sem sjónarrönd

Þetta er raunar makalaus útsýn og áminning fyrir prest og önnur þau sem eiga erindi í kór og að altari. Þegar komið er í hið allra heilagasta breytist sjónsviðið. Fyrir augliti Guðs sér maður menn! Þetta skipulag kirkjunnar má verða okkur öllum til íhugunar og visku hvernig við megum skilja og túlka Guð, veröld, menn og kirkju. Þegar við komum næst Guði förum við að sjá með nýjum hætti. Við lærum að sjá með augum Guðs sem er ekki upptekinn af eigin upphöfnu dýrð, heldur tengslum við sköpun sína og menn – við þig.

Guð þráir að tengjast þér, tala við þig, vera vinur þinn og eiga trúnað þinn. Það merkir að Guð er meðal manna. Þegar menn leita Guðs sem ákafast þá opnar Guð mönnum sýn til systra og bræðra, mannlífs og náttúru. Við menn erum kölluð til að elska – ekki aðeins að elska Guð – heldur fólk, hvert annað og þjóna öðrum. Þegar við sjáum Guð beinir Guð sjónum okkar að veröldinni, sem þarfnast okkar og verka okkar.

Hinn starfandi Guð

Í guðspjalli dagsins hljómar skýrt og klárt boðið: Vakið. Í þessum stutta guðspjallstexta er það m.a.s. þrítekið. Vakið. Að trúa er ekki að sofna frá þessum heimi og vakna til annars, heldur lifa glaðvakandi og vera til taks fyrir hið góða, sem Guð gefur – vaka fyrir Guð. Trú er ekki að skutlast frá jarðlífi til einhverrar geimstöðvar eilífðar. Í öllum bókum Biblíunnar er dregin upp vekjandi mynd af Guði, að Guð er ekki fjarlæg vera, heldur ástríðuvera sem elskar, grætur, faðmar, syrgir og gleðst.

Samkvæmt kristninni er Guð altengdur – þegar allt var brotið í mannheimi svaf Guð ekki heldur kom sem barn, mennsk vera til að þurrka tár, lækna mein og skapa grundvöll lífsins. Guð skapar fólk til frelsis og yfirgefur menn aldrei þrátt fyrir bresti. Fagnaðarerindið er, að lífið er góður gerningur Guðs, verk elskunnar.

Niður er leiðin upp!

Kirkjugangurinn og leiðin að altarinu er til íhugunar á aðventu. Leiðin fram og upp er jafnframt niður. Leiðin til jóla, leiðin upp í himininn er alltaf í gegnum mannheim. Leið elskunnar til Guðs er vegleysa nema um raunheim mennskunnar.

Himinhopp trúarinnar verða engin nema með því að lifa með ábyrgð meðal þurfandi manna. Trú, sem ætlar sér bara að veita mönnum gott símasamband við Guð í hæðum – en tengir fram hjá fólki í vandræðum – er guðlaus og þar með trúleysa.

Guð elskar og því eiga menn að elska menn. Það er undur byltingarinnar, sem hófst við komu Jesú Krists. Elska varðar það hugrekki að segja nei við öllu því, sem hemur og kúgar fólk. Að elska Guð er að elska hvert annað, á ljósum dögum þegar allt gengur vel og líka á myrkum dögum veikinda og sorgar. Við erum kölluð til að elska – jafnvel það, sem okkur hugnast ekki.

Þegar þú gengur inn í Hallgrímskirkju horfir þú til himins og þegar þú ferð alla leið að altarinu sérðu veröldina. Þannig er hin kristna afstaða táknuð og ferð trúmannsins í veröldinni. Að horfa upp til Guðs leiðir til að þú ferð að horfa á veröldina með augum Guðs og með elsku Guðs.

Aðventa

Hvar ert þú stödd? Hvar ertu þú staddur á aðventu? Hvernig getur aðventan nýst þér? Er margt sem þú þarft að puða við? Hefur þú áhyggjur af einhverju, af fólkinu þínu, sjálfum þér – eða sjálfri þér?

Ógnar þér allt sem þú átt eftir að gera? Hvernig er ferðalagið þitt? Ertu á leið inn einhvern kirkjugang? Hvað sérðu fyrir þér? Leitar þú í ljósið, ertu á leið að altari lífsins?

Aðventan er í samtíma okkar orðinn tími anna og undirbúnings. Fagnaðarefni kristnninnar er að við þurfum ekki að umbylta veröld okkar til að Jesús Kristur komi til okkar – hann fæddist jú ekki heima heldur í óvæntum aðstæðum, annars staðar en skipulagt hafði verið. Guð kemur til þín óháð ati og önnum. Guð kemur ekki til þín vegna þess að þú verður búin með öll verkin, heldur jafnvel þvert á skipulagið. Aðventan er eftirvæntingartími. Þú mátt opna huga, vænta og vona – það eru stef aðventunnar.

Af hverju heldur þú að Jesús hafi komið í þennan heim? Af því Guð horfir á mennina og lætur sig þig varða. Að elska Guð er jafnframt að elska mennina – að verða augu, afstaða, hendur og faðmur Guðs í heimi. Það er að vaka. Gakktu fram til Guðs og þá sérðu heiminn.

Amen.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 7. desember, 2014. 2 sd. í aðventu.

Textaröð: B

Lexía: Jes 35.1-10


Eyðimörkin og skrælnað landið gleðjist,
öræfin fagni og blómstri.
Eins og dverglilja skal hún blómgast,
gleðjast, gleðjast og fagna.
Vegsemd Líbanons veitist henni,
skart Karmels og Sarons.
Menn munu sjá dýrð Drottins og vegsemd Guðs vors.
Styrkið máttvana hendur,
styðjið magnþrota hné,
segið við þá sem brestur kjark:
„Verið hughraustir, óttist ekki,
sjáið, hér er Guð yðar, hefndin kemur,
endurgjald frá Guði,
hann kemur sjálfur og bjargar yður.“
Þá munu augu blindra ljúkast upp
og eyru daufra opnast.
Þá stekkur hinn halti sem hjörtur
og tunga hins mállausa fagnar.
Já, vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni
og lækir í auðninni.
Glóandi sandurinn verður að tjörn
og þyrst jörðin að uppsprettum.
Þar sem sjakalar höfðust við áður
sprettur stör, reyr og sef.
Þar verður breið braut
sem skal heita Brautin helga.
Enginn óhreinn má hana ganga
því að hún er ætluð lýð Guðs að fara um
og heimskingjar munu ekki villast þar.
Þar verður ekkert ljón,
ekkert glefsandi rándýr fer þar um,
þar verður þau ekki að finna.
Þar munu aðeins endurleystir ganga.
Hinir endurkeyptu Drottins hverfa aftur
og koma fagnandi til Síonar,
eilíf gleði fer fyrir þeim,
fögnuður og gleði fylgja þeim
en sorg og mæða flýja.

Pistill: Heb 10.35-37


Varpið því eigi frá ykkur djörfung ykkar. Hún mun hljóta mikla umbun. Þolgæðis hafið þið þörf, til þess að þið gerið Guðs vilja og öðlist fyrirheitið. Því að:
Innan harla skamms tíma
mun sá koma sem koma á og ekki dvelst honum.

Guðspjall: Mrk 13.31-37


Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða.
En þann dag eða stund veit enginn, hvorki englar á himni né sonurinn, enginn nema faðirinn. Gætið yðar, vakið! Þér vitið ekki nær tíminn er kominn. Svo er þetta sem maður fari úr landi, skilji við hús sitt og feli þjónum sínum umráðin, hverjum sitt verk. Dyraverðinum býður hann að vaka. Vakið því, þér vitið ekki nær húsbóndinn kemur, að kveldi, á miðnætti, í óttu eða dögun. Látið hann ekki finna yður sofandi þegar hann kemur allt í einu. Það sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið!“