Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is. Þá var talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is Sá vefur er nú lokaður.

Biblíuvers – minnisvers fyrir fermingu og lífið

Fermingarungmenni velja oft minnisvers fyrir fermingarathöfn. Hér er einn listi sem velja má úr en hann er þó er ekki tæmandi. Á hverju ári velja fermingarungmennin vers utan allra lista og vegna þess að þau hafa lesið eitthvað í Biblíunni sem hefur snert þau eða hrifið.

1Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir. Fil. 4:13

2Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er lögmálið og spámennirnir. Matt. 7:12

3Ákalla mig á degi neyðarinnar, og ég mun frelsa þig, og þú skalt vegsama mig. Sálm.50:15

4Biðjið, og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Matt. 7:7

5Drottinn er góður, miskunn hans varir að eilífu og trúfesti hans frá kyni til kyns. Sálm. 100:5

6Drottin er ljós mitt og fulltingi, hvern ætti ég að óttast? Drottinn er vígi lífs míns, hvern ætti ég að hræðast? Sálm. 27:1

7Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. Sálm. 23:1

8Drottinn er réttlátur á öllum vegum sínum og miskunnsamur í öllum verkum sínum.. Sálm. 145:13b

9Drottinn er vörður þinn, Drottinn skýlir þér, hann er þér til hægri handar. Sálm.121:5

10Drottinn er öllum góður og miskunn hans hvílir yfir allri sköpun hans. Sálm. 145:9

11Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu, hann mun vernda sál þína. Sálm. 121:7

12Drottinn, þú ert minn Guð. Ég vegsama þig, ég lofa nafn þittþví að þú hefur unnið furðuverk, framkvæmt löngu ráðin ráð sem í engu brugðust. Jes. 25:1

13Ef Drottinn byggir ekki húsið erfiða smiðirnir til ónýtis. Sálm. 127:1

14En Guði er enginn hlutur um megn. Lúk. 1:37

15Engill Drottins setur vörð kringum þá er óttast hann og frelsar þá. Sálm. 34:8

16Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Jóh. 10:11

17Ég hef Drottin ætíð fyrir augum, þegar hann er mér til hægri handar hnýt ég ekki. Sálm. 16:8

18Ég vil lofa Drottin á meðan ég lifi, lofsyngja Guði mínum meðan ég er til. Sálm. 146:2

19Ég vil þakka þér, Drottinn, af öllu hjarta, kunngjöra öll máttarverk þín. Sálm. 9:2

20Ég vil vegsama Drottin alla tíma, ætíð sé lof hans mér í munni. Sálm. 34:2

21Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá. Sálm. 37:5

22Gott mannorð er dýrmætara en mikill auður, vinsældir eru betri en silfur og gull. Orðskv. 22:1

23Guð er oss hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum. Sálm. 46:2

24Hann veitir kraft hinum þreytta og þróttlausum eykur hann mátt.  Jesaja 40:29

25Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. Jóh. 14:1

26Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar. Sálm. 121:2

27Í friði leggst ég til hvíldar og sofna því að þú einn, Drottinn, lætur mig hvíla óhultan í náðum.  Sálm. 4:9

28Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Jóh. 1:1

29Í þínar hendur fel ég anda minn, þú frelsar mig, Drottinn, þú trúfasti Guð! Sálm 31:6

30Jesús mælti: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.” Jóh. 11:25

31Jesús sagði: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins. Jóh 8:12

32Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.” Jóh. 14:6

33Kenn mér að gera vilja þinn því að þú ert Guð minn, þinn góði andi leiði mig um slétta braut. Sálm. 143:10

34Kærleikurinn breiðir yfir allt, trúir öllu , vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. I. Kor 13:7

35Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Matt. 11:28

36Lát engan líta smáum augum á æsku þína en ver fyrirmynd trúaðra í orði og hegðun, í kærleika, trú og hreinlífi. I. Tim. 4:12

37Leitið Drottins meðan hann er að finna, ákallið hann meðan hann er nálægur. Jesaja 55:6

38Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra. Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var. Fil. 2:4-5

39Lofa þú Drottin, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans. Sálm 103:2

40Náð mín nægir þér því að mátturinn fullkomnast í veikleika. II. Kor. 12:9

41Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur. Sálm. 145:8

42Og Jesús sagði við alla: „Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kross sinn daglega og fylgi mér. Lúk. 9:23

43Óttast eigi því að ég er með þér, vertu ekki hræddur því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með sigrandi hendi minni. Jes. 41:10

44Sá sem ástundar réttlæti og kærleika öðlast líf, velgengni og heiður.  Orðskv. 21:21

45Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda. Sálm. 51:12

46Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Jóh 3:16

47Sælir eru friðflytjendur, því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða. Matt. 5:9

48Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá. Matt. 5:8

49Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa. Matt. 5:5

50Sælir eru miskunnsamir, því að þeim mun miskunnað verða. Matt. 5:7

51Sælir eru þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, því að þeir munu saddir verða. Matt 5:6

52Varðveit mig sem sjáaldur augans, fel mig í skugga vængja þinna. Sálm. 17:8

53Varðveit mig, Guð, því að hjá þér leita ég hælis. Sálm. 16:1

54Vegur Guðs er lýtalaus, orð Drottins er hreint, skjöldur er hann öllum sem leita hælis hjá honum. Sálm. 18:31

55Vísa mér veg þinn, Drottinn, að ég gangi í sannleika þínum, gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt. Sálm. 86:11

56Þakkið Drottni því hann er góður, því miskunn hans varir að eilífu. Sálm. 107:1

57Þér eruð vinir mínir ef þér gerið það sem ég býð yður. Jóh. 15:14

58Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum. Sálm. 119:105

59Þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig. Sálm. 23:4

60Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla. I. Kor. 13:1

61Þú ert von mín, Drottinn, þú, Drottinn, ert athvarf mitt frá æsku, Sálm. 71:15

62þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. . . . Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Mark. 12:30-31

63Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð. Jer. 29:11

64Því að ég, Drottinn, er Guð þinn, ég held í hægri hönd þína og segi við þig: „Óttast eigi, ég bjarga þér.“Jesaja 41:13

65Því að orð krossins er heimska þeim er stefna í glötun en okkur sem hólpin verðum er það kraftur Guðs. I. Kor 1:18

66Því að þín vegna býður hann út englum sínum til þess að gæta þín á öllum vegum þínum. Sálm. 91:11

Kanntu þetta?

05Merkilegar og mikilvægar stiklur í kristninni eru.

Gullna reglan: Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. (Matt. 7.12)

Litla Biblían
: Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. (Jóh. 3.16)

Tvöfalda kærleiksboðorðið
: Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.
 (Lúkas 10.27)

Signing: Í nafni Guðs + Föður og Sonar og Heilags anda. Amen.

Bæn Jesú Krists 

Faðir vor, þú, sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni. Gef oss í dag vort daglegt brauð. Og fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum. Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu. Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu. Amen. (Matt. 6.9-13)

Trúarjátningin: 

Ég trúi á Guð, föður almáttugan, skapara himins og jarðar. Ég trúi á Jesú Krist, hans einkason, Drottin vorn, sem getinn er af heilögum anda, fæddur af Maríu mey, píndur á dögum Pontíusar Pílatusar, krossfestur, dáinn og grafinn, steig niður til heljar, reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum, steig upp til himna, situr við hægri hönd Guðs föður almáttugs og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða. Ég trúi á heilagan anda, heilaga almenna kirkju, samfélag heilagra, fyrirgefningu syndanna, upprisu mannsins og eilíft líf. Amen.

Boðorðin tíu: 

  1. Ég er Drottinn Guð þinn. Þú skalt ekki aðra Guði hafa.
  2. Þú skalt ekki leggja nafn Guðs þíns við hégóma.
  3. Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan.
  4. Heiðra skaltu föður þinn og móður.
  5. Þú skalt ekki mann deyða.
  6. Þú skalt ekki drýgja hór.
  7. Þú skalt ekki stela.
  8. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.
  9. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns.
  10. Þú skalt ekki girnast konu náunga þins, þjón, þernu, uxa, asna né nokkuð það sem náungi þinn á. (2.M 20.1-17)

Bænvers

Bænin má aldrei bresta þig,

búin er freisting ýmislig.

Þá líf og sál er lúð og þjáð,

lykill er hún að Drottins náð.

 

Vaktu, minn Jesú, vaktu í mér,

vaka láttu mig eins í þér.

Sálin vaki, þá sofnar líf,

sé hún ætíð í þinni hlíf.

 

Vertu, Guð faðir, faðir minn,

í frelsarans Jesú nafni,

hönd þín leiði mig út og inn,

svo allri synd ég hafni.

Jesús er sætt líf sálnanna

heimild sagnaheimarÞegar ég kom frá messugerð í Hallgrímskirkju og loknum viðtölum 1. sunnudags eftir þrettánda beið mín póstur frá Báru Grímsdóttur, tónskáldi. Hún var í messu og hlustaði grannt, ekki bara á góðan söng Mótettukórsins og spilerí Björns Steinars Sólbergssonar, heldur líka á ræðing klerks í stól. Og prédikunin fjallaði um myndir og Jesúnálgun og trúarskiling fólks, sem er mismunandi og áhrifatengdur tímanum. Íhugunarsálmur sr. Jóns Þorsteinssonar í Kirkjubæ kom í hug hennar og því sendi hún hann áfram. Sr. Jón var merkisklerkur, vel skáldmæltur, og er kunnur í sögunni vegna píslarvættis hans í Tyrkjaráninu. Jón var prestur í Eyjum þegar Alsíringar réðust á Eyjar og var hann hálshöggvinn. Íhugunarsálmur Jóns sýnir innlilega trúarinnlifun, frumlútherska Jesúáherslu og líríska getu höfundarins. Klifunin er vissulega sérstæð, hugnast ekki öllum en Hallgrímur notaði það besta og fór vel með aðferðina síðar. Jón er augljóslega fyrirboði , forgengill, en ekki eftirmaður Hallgríms Péturssonar, sem breytti öllum Jesúkveðskap Íslendinga til skerpu og batnaðar. Barnsleg einlægni Jóns Þorsteinssonar hreif mig.

Jesús er sætt líf sálnanna

eftir sr. Jón Þorsteinsson (1570 – 1627) frá Kirkjubæ í Vestmannaeyjum

Jesús er sætt líf sálnanna,
Jesús er best ljós mannanna,
Jesús er hunang hjartnanna,
Jesús er unan eyrnanna.

Jesús er lömdum lækning dýr,
Jesús er veikum hressing hýr.
Jesús klöguðum kvittan skír,
Jesús hræddum kastali nýr.

Jesús er villtum vegur beinn,
Jesús sárum græðari hreinn.
Jesús er aumum aðstoð einn,
Jesús er Guðs húss styrktarsteinn.

Jesús er ríkum æran fest,
Jesús er aumum upphaf mest.
Jesús er ekkjum aðstoð flest,
Jesús er börnum forsvar best.

Jesús er gleði guðhræddra,
Jesús er huggun sorgmæddra.
Jesús er líf endurfæddra,
Jesús er styrkur nýgræddra.

Jesús er höfuð limana,
Jesús er víntréð kvistanna.
Jesús er hænan unganna,
Jesús er hirðir sauðanna.

Jesús er góðra frelsari,
Jesús er illra dómari.
Jesús er Satans sigrari,
Jesús er dauðans eyðari.

Jesús er fæðan hungraðra,
Jesús er friður ofsóttra.
Jesús er brunnur örþyrstra,
Jesús er kraftur vanfærra.

 

Jesús er ungum menntin mæt,
Jesús er gömlum girndin sæt.
Jesús bugnuðum björg ágæt,
Jesús allra vor allt umbæt.

Ó, Jesú, sanna andarlíf,
ó, Jesú, vert mín staðföst hlíf,
ó, Jesú, hjá mér ætíð blíf,
ó, Jesú, frá mér Satan dríf.

Ó, Jesú góði, unn mér fá,
ó, Jesú, þína dýrð að sjá.
Ó, Jesú, haf mig æ þér hjá,
ó, Jesú, svo þig lofi eg þá.

Ó, Jesú, girnd mín innilig,
ó, Jesú, prýði minnilig.
Ó, Jesú fríði, eigðu mig,
ó, Jesú blíði, eg á þig.

Ó, Jesú sálna eilíft hnoss,
ó, Jesú, fyrir þinn deyð á kross,
ó, Jesú, fyrir þinn undafoss,
ó, Jesú Kristi, hjálpa oss.

Ó, Jesú, þína annastu hirð,
ó, Jesú, þína kvölunum firrð.
Ó, Jesú, sé þér ætíð skýrð,
ó, Jesú, heiður, lof og dýrð!

+ Guðmundur Kristinn Klemenzson +

List fagfólks er að læra hlutverk sitt vel, skilja það og vera því svo innlifað að afstaða sé skýr og viðbrögð fumlaus og eðlileg í breytilegum og oft krefjandi aðstæðum. Lögfræðingurinn lærir sín lög, túlkanir og þjálfast í að beita hinni lögfræðilegu nálgun. Sagnfræðingurinn skýrir aðstæður í nútíma með hjálp sögutúlkunar. Verkfræðingurinn greinir snarlega tæknivíddirnar og hvernig hlutirnir virka. Við lærum okkar fag ef við leggjum á okkur erfiði mótunarinnar og kunnum svo að beita hinum fræðilegu tólum og tækjum. Þegar best lætur verðum við listamenn í okkar grein, vissulega bundin af kvörðum og óbrotnum hefðum greinarinnar en þó frjáls til að skapa og í samræmi við ferla fræða og iðnar.

Kannt þú þitt hlutverk?

Hvert var hlutverk Guðmundar Kristins Klemenzsonar? Læknarnir, hjúkrunarfræðingarnir og sjúkraliðarnir segja sína sögu. Hann kunni svo sannarlega sín fræði, var afburðamaður á sínu sviði, jafnvel listamaður í lækningum. Svo valdi hann sér önnur hlutverk líka og gegndi ýmsum. Hann var afar vel að sér á sviði sagnfræði, lagði m.a.s. á sig að læra alla röð rómversku keisaranna og ártölin líka! Þekking hans var svo mikil og nákvæm að hann gat leiðrétt kennarana í menntó í ýmsum greinum. Hann átti sér ýmis hlutverk í einkalífinu, var undursamlegur og natinn sonur, umhyggjusamur bróðir og frændi. Svo lagði hann sig eftir að iðka hinar gúrmetísku listir og þó hann ætlaði sér ekkert aðalhlutverk þar nutu vinir hans veislunnar – og fjölskyldan einnig.

Hlutverk Guðmundar

Af hverju var hann svona góður í því sem hann tók sér fyrir hendur? Af hverju gat hann svona margt? Ég hlustaði á sögurnar sem ástvinir hans sögðu og svo staldra ég alltaf við uppeldið. Faðir hans var þessi mikli leikhúsmaður og móðir hans stóð öflug við hlið manns síns. Þau lögðu upp úr að börnin þeirra nytu góðrar menntunar, næðu að virkja máttinn hið innra, lærðu til hvers væri ætlast, næmu framvindu lífsþáttanna, skildu samhengi hlutanna, kynnu til verka, nærðu sinn innri mann – lærðu hlutverk sín vel. Og Guðmundur hlaut miklar gáfur í vöggugjöf. Í hann var mikið lagt og af honum var mikils að vænta. Fyrr var sagt um mikinn Íslending – og það er við hæfi að sletta latínu þegar Guðmundur, Rómarsögusnillingur, er kvaddur. Hann var “ingenio ad magna nato.” Þeim er nóg er skilja.

Hver voru hlutverk Guðmundar? Hvert er hlutverk þitt? Hvernig lifir þú? Undrastu lífið? Er lífið þér kraftaverkalaust – eða samfellt, undursamlegt drama og kraftaverk? Lifir þú lokað eða opið? Guðmundur kunni öll hlutverk hinna afmörkuðu ferla – hann var góður vísindamaður – en svo átti hann í sér opnanir, skynjanir og vitund um það sem meira er. Tilvera hans var ekki rulla á sviði sem maður romsar upp úr sér eða iðkar, heldur stærri. Líf hans var líf í plús og í anda plúsa hins stórfenglega. Við getum vissulega lært hlutverk okkar en ef við lifum þröng förum við á mis við dramað og hið merkilega. Köllun þín er hver? Þorir þú að lifa, en ekki bara skrimta – þorir þú að njóta, upplifa og ganga á nýjar slóðir? Það er hin trúarlega nálgun – hlutverk trúarinnar.

Nú kveðjum við Guðmund Klemenzson og hugsum um af hverju, til hvers og hvernig getum við lifað stórt og mikið? Gagnvart áfallinu er mikilvægt að staldra við, þakkar fyrir allt það sem Guðmundur lagði til og leyfa því að verða þér til lífs og lífsbóta.

Ævistiklur

Guðmundur Kristinn fæddist 9. nóvember árið 1969 og var því aðeins 46 ára er hann lést. Foreldrar hans voru Guðrún Guðmundsdóttir og Klemenz Jónsson. Hún var fulltrúi á skrifstofu Þjóðleikhússins og hann leikari og einn af burðarstólpum í leikhúslífi þjóðarinnar, við Þjóðleikhúsið, hjá Ríkisútvarpinu og víða um land. Guðrún og Klemenz eignuðust þrjú börn og á löngum tíma. Það var því mikið lagt í hvert þeirra þriggja. Elstur er Ólafur Örn, hagfræðingur, sem fæddist árið 1951. Hann er kvæntur Ingu Aðalheiði Valdimarsdóttur. Sæunn fæddist árið 1956. Hún er starfsmaður Landsbanka Íslands og maður hennar er Hallur Helgason. Guðmundur var langyngstur og fæddist þegar systir hans var komin á unglingsár og stóri bróðir að hverfa til útlanda í heim fræðanna. En vel var hlúð að drengnum og hann fékk það í veganesti sem dugði vel. Og eldri systkinin gættu stubbsins og tengdust honum því nánum böndum, sem aldrei slitnuðu þó þau væru langdvölum langt frá hverju öðru. Og Guðmundur tengdist systkinabörnum sínum og hafði hug við velferð þeirra.

Guðmundur var vesturbæjarmaður, Reykvíkingur og heimsborgari. Fyrstu æviárin bjó fjölskylda hans á Bræðraborgarstíg og síðan á Eiðismýri. Og af því foreldrarnir vildu börnum sínum góða menntun og Klemenz þekkti skólastarfið í Ísaksskóla fór Guðmundur þangað eftir upphafs-ögun á leikskólanum Grænuborg. Svo tóku við hamingjuár í skólum vesturbæinga, Melaskóla, Hagaskóla og síðan MR.

Og hann fékk líka hlutverk í leikhúsinu. Klemenz, faðir hans, leikstýrði leikritinu Dýrin í Hálsaskógi og var á höttum eftir skýrmæltu barni í hlutverk bangsastráksins. Og hann fann leikarann heima við eldhúsborðið. Og Guðmundur lærði ekki aðeins hlutverk sitt heldur líka með hvaða hætti öll dýrin í skóginum geta verið vinir og hvernig sú vinátta getur rofnað. Og leikurinn lagði grunn að fjárhagslegu sjálfstæði drengsins. Eftir fyrsta leiksigurinn voru ýmis hlutverk í boði. Guðmundur lék í nokkrum barnaleikritum og í bíómyndinni Veiðiferðin. Og þó einhver ykkar eigið erfitt með að ímynda ykkur eða sjá Guðmund fyrir ykkur sem pönkara lék hann einn slíkan í gamanseríunni: Fastir liðir, eins og venjulega: Léttur fjölskylduharmleikur í sex þáttum sem sýndur var í Sjónvarpinu haustið 1985. Hann gat því brugðið sér í ýmis hlutverk.

Guðmundur varð öflugur námsmaður. Hann var marksækinn og einbeittur í námi. Það sem fangaði hug hans varð honum mikils virði og því brilleraði hann í öllu sem honum þótti skemmtilegt. Og hann var alhliða í námsgetu sinni, mundi allt sem hann vildi leggja á minni, skildi vel stærðfræði og tungumálanám lá líka vel fyrir honum. Ingenio ad magna nato. 

Menntaskólaárin voru honum gleðilegur tími, hann eignaðist góða og trausta vini og Gummi Klemm ræktaði vináttuna. Guðmundur horfði í kringum sig með áhuga, íhugaði pólitík og hafði skoðanir í þeim efnum sem öðrum, las ítarefni utan skólabókanna og drakk í sig menningarefnin.

Þar sem Guðmundur var afburðanemandi stóðu hönum allar fræðdadyr opnar eftir að hann lauk stúdentsprófi frá náttúrufræðideild MR árið 1989. Hann fór í læknisfræði og lauk prófi frá lænadeild HÍ árið 1995. Hann hafði engin orð um námsárangurinn sjálfur og þegar bróðir hans hans spurði: „Hver var hæstur“? þá svaraði Guðmundur hálfsnúðugt: „Hver heldurðu“ og meira þurfti ekki að segja í þeim málum.

Svo var kandídatsárið og Guðmundur vann sem deildarlæknir og umsjónardeildarlæknir á svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítalans í tvö ár. „Farðu vestur, ungi maður“ var sagt vestra og Guðmundur fór til Madison og stundaði framhaldsnám í University of Wisconsin og lauk námi þar árið 2002.

Og Guðmundur var ekki aðeins á toppnum á Íslandi. Þegar hann tók ameríska læknaprófið varð bið á að hann fengi niðurstöðu úr prófinu. Ástæðan var sú að hann var svo hár að það þurfti að tvífara yfir prófið til að sannreyna að einkunnin væri rétt. Síðan tóku við tæplega 2 ár á Mayo Clinic í Rochester, Minnesota. Svo fór Gummi Klemm heim og frá 2003 starfaði hann sem svæfinga- og gjörgæslu-læknir á Landspítala við Hringbraut og m.a. var í hjartasvæfingateyminu.

Síðustu árin var Guðmundur í sérnámi á vegum norrænu svæfinga og gjörgæslusamtakanna og beindi sjónum sérstaklega að svæfingum og deyfingum þungaðra kvenna. Guðmundur hafði gaman af veru og vinnu á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn sl. veur þar sem hann starfaði um tíma í tengslum við nám sitt. Hann skrifaði greinar í sínu fagi. Hann hafði ætíð mikinn faglegan metnað og þótti gott að fá birt efni  – sem hann og samstarfsfólk hafði unnið – í bestu læknablöðunum.

Hvaða hlutverki gengdi Guðmundur á spítalanum? „Hann var einn af okkar bestu mönnum,“ sagði læknir á svæfinga- og gjörgæsludeildinni. Hann hafði gott samband við fólk, deildin var eins og stórfjölskylda sem hann naut. Hann var ákveðinn, vel tengdur, mikill fagmaður og lét sig fólk varða, hikaði ekki við að taka erfiðar ákvarðanir í þágu lífsins – og tók nærri sér veikindi og bágindi fólks. Kollegar í Félagi svæfinga- gjörgæslulækna hafa stofnað minningarsjóð til  að styðja lækna til framhaldsnáms í greininni. Sjóðurinn ber heiti Guðmundur Klemenzsonar. Það er vel og loflegt framtak vina hans og samstarfsfólks.

Að kveðja og gera upp 

Það er sárt að kveðja góðan félaga, öflugan fagmann, hlýjan fjölskylduvin sem fellur frá á miðjum aldri. Hvernig gerir þú upp og hvaða áhrif hefur uppgjörið á líf þitt? Kveddu fallega og notaðu færið til að íhugaða þín hlutverk. Leyfðu minningunum að flæða og vitjaðu allra víddanna. Kallaðu fram í huga og hið innra allar myndirnar af Guðmundi.

Manstu ferskleikann sem fyldi honum, jafnvel gustinn? Manstu fagurkerann, matgæðinginn og sommelier-þekkinguna? Tókstu eftir næmni og viðkvæmu fegurðarskyni hans? Og merktir þú fínu strengina í sál hans sem hann flíkaði ekki? Og vissir þú af nægjusemi hans?

Manstu hinn faglega styrk en líka hina persónlegu hógværð. Manstu þekkingu hans á orustum og Rómarsögu? Hann var líka vel heima í tónlistarsögu – auðvitað – því hann hafði ríkulega listaæð sem hann virti og naut.

Manstu hinar ákveðnu pólitísku skoðanir Guðmundar? Hann tók virkan þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins. Hann var ekki aðeins bundin við torfuna heldur las sér til og var vel heima í alþjóðastjórnmálum.

Og svo voru allar ferðirnar sem hann fór um heiminn eins og pílagrímur í leit að merkingu, já kraftaverki sögu og samtíðar. Hann var tilbúinn að fara um langan veg og milli landa til að gleðja foreldra sína og styðja þau eða vini þeirra á ferðalögum. Guðmundur var einstaklega natinn sonur og líka vinur foreldravinanna. Hann sótti í suður – ekki til að flatmaga á ströndinni heldur í menningarheima sögunnar. Hann skoðaði ekki bara borgir og minjar frá rómverskum tíma og þrautkannaði sögu hins mikla pólitíska veldis sem kennt er við Róm. Og það er miður að hann skyldi ekki hafa verið fenginn til að stýra námskeiði í Rómarsögu í háskólanum. En hann var ósínkur á sýn sína, staðreyndir og túlkun um minjar, sögu og samtíð.

Mannstu mannvirðingu Guðmundar? Hann setti sig aldrei á háan hest heldur við hlið fólks, virti alla, sjúklinga, kollega, samstarfsfólk, ástvini og börn. Hann gerði aldrei grín að fólki heldur lagði fremur gott til en hitt.

Og nú er hann farinn. Hann fer aldrei í göngutúr með hundinum Galdri og Ólafi bróður til að ræða stjórnmálaviðhorfið. Hann veiðir ekki lengur harðfisk úr vasanum til að gleðja hvutta. Og hann grillar ekki nautalundir fyrir þig eða býr til sósu frá grunni, flettir ekki upp Gordon Ramsey eða Michelin. Hann bjargar engum framar í aðgerð á Lansanum. Hann hlustar aldrei framar á undaðsmúsíkina í the Godfather eða hlustar og horfir á Monicu Belucci. Hann fer ekki framar í rannsóknarferðir um Berlín, Taormina, New York eða á stjörnuveitingastaði heimsins. Nú er það stórsagan og gastronomía himins.

Og það er vert að þú vitir sem ekki var öllum ljóst að Gumundur Kristinn Klemenzson leit svo á að lífið væri stærra en efnaferlar og efnisveruleiki. Hann hafði í sér undur barnsins gagnvart lífinu, trúði að til væri meira en það sem séð verður. Hann var trúaður. Hann hafði hlutverk í því stóra drama sem þessi veröld er og hinn trúaði stækkar með afstöðu sinni.

Jesús Kristur fór vel með hlutverk sitt og breytti tragedíu heimsins í huggulegra stykki sem hefur meira að segja góðan endi. Mummi – Gummi Klemm – lék ekki aðeins mismunandi hlutverk heldur var í burðarhlutverki í drama margra. Og nú er hann farinn – burt af skurðstofunni og úr eldhúsinu og upp á stóra sviðið í eilífðinni. Þar eru allir vinir, veislan er mikil, dramað gengur upp, allir lifa og hlægja – líka Guðmundur.

Guð geymi hann og styrki ástvini hans. Guð geymi þig.

Amen.

Kveðjur hafa bortist frá Deisu Karlsdóttur og bróður hennar Jóni Karlssyni og fjölskyldu í Gautaborg. Þá biðja fyrir kveðju Þorsteinn Gíslason og fjölskylda en þau eru erlendis.

Minningarorð í útför Guðmundar K. Klemenzsonar, Hallgrímskirkju, 21. desember, 2015. Bálför. Erfidrykkja á Grand hótel við Sigtún.

Sálarskúringar

Ég íhugaði mynd af manni með samviskubit í vikunni, smellti henni inn á facebook og spurði um leið hvort samviskubit væri úrelt. Nokkrir vina minna brugðust við og einn lagði til að samviskubit væri það að sjá eftir einhverjum færslum á facebook. Það væri commenta-sektarkennd. Annar sagði að aðalmál samviskubits væri hugarhreinsun, kaþarsins. Hvað eru mörg ykkar sem fáið samviskubit? Ég bið ekki um að þið réttið upp hendi heldur fremur að þið íhugið eigin mál.

Samviskubit

Einar Jónsson, myndhöggvari gerði ekki aðeins Kristsstyttuna í Hallgrímskirkju heldur fjölda annarra verka. Hann gerði magnaða mynd af manni með samviskubit. http://www.lej.is/news/35/57/Samviskubit-1911-1947/ Einhver vera rígheldur í augnalok mannsins og heldur augunum uppglenntum. Önnur vera hvíslar í eyra vesalings mannsins, sem virðist frávita af skelfingu. Samviska heilbrigðs fólks hefur áhrif.

Hvernig er samviska þín? Þarftu stundum að gera hreint hið innra? Heilbrigt fólk reynir að gera upp sín mál og mistök, en óheilbrigt fólk kann bara að þykjast. Flest okkar þekkjum einhver sem hafa beðist afsökunar en þó án þess að hjarta fylgi með. Þegar upp kemst að fyrirtæki, stofnanir eða einstaklingar hafi brotið af sér eru oft ráðnir spunameistarar til að draga athygli frá hinu ranga og reyna að upp á ímyndina. Volkswagensvindlið fyrr á árinu er nærtækt dæmi. Varajátningar iðka margir af því að þeim hefur verði ráðlagt af almannatenglum að lágmarka skaða.

En rangt er rangt og að allir lenda í einhverju misjöfnu einhvern tíma. Allir lenda í einhverju klúðri á ævinni. En mér hefur komið á óvart hve mörg reyna – óháð réttlæti og heiðarleika – að vernda hagsmuni, stjórnmálaöfl, félög eða fjölskyldu með því að tjalda sýndartjöldum. Þegar menn hafa brotið af sér eða gert mistök eiga menn að taka sinnaskiptum og biðjast afsökunar. Ekki til að lágmarka skaðann í hinu ytra heldur af því að þannig hegðar heilbrigt fólk sér. Það er lífsverkefni ábyrgs manns og alger köllun hins trúaða. Við eigum að vera heillynd í samskiptum við ástvini okkar, fjölskyldu, vini, vinnufélaga og samfélag. Óhreinindi safnast í lífi allra og hreinsun þarf að fara fram.

Jóhannes

Þess vegna sprettur Jóhannes skírari fram á aðventunni sem málsvari heiðarleikans. Hann er skúringameistari sálarinnar. Skírarinn þótti svo rosalegur útlits og honum hefði verið hent út alls staðar nema á grímuballi. Hann var girtur úlfaldahárskápu og með belti um sig miðjan, bruddi engisprettur, fór í villibýflugnabúin til að ná sér í hunang og flugnasveimurinn fylgdi honum líklega. Við yrðum smeyk að mæta slíkum manni á Grettisgötunni.

Á aðventunni skúrum við íbúðir okkar og hreinsum fyrir jólin. En frásögnin um Jóhannes skírara varðar ekki Ajax, Þrif eða brúnsápu. Nei, boðskapur Jóhannesar er að við þörnumst sálarskúringa. Iðrumst, gerum gott, verum heil og göngum ekki á rétt annarra. Jólatrúin er ekki góður fílingur eða hástemmdur tilfinningabrími heldur varðar ábyrgð og gera gott. Við sjáum ekki barnið vel í Betlehem ef sálarsjónin er léleg. Því sprettur þessi Jóhannes fram í kirkjum heimsins á aðventunni til að minná að við þörfnumst þess að losa okkur við það sem er vont. Hann rífur í augnlokin og glennir upp augun, hvíslar í eyru okkar sannleikanum. Viljum við hreinsa?

Víddir iðrunar

Iðrun getur verið opinber eða á einkasviðinu. Þjóðir og hreyfingar reyna að gera upp hræðileg mál, forystumenn hafa tjáð iðrun, beðist afsökunar eða fyrirgefningar. Forsætisráðherra Breta baðst t.d. afsökunar á, að Bretar hefðu ekki staðið sig þegar kartöflufár herjaði á Írland á sínum tíma. Bandaríkjaforseti viðurkenndi, að svartir menn hefðu verið misnotaðir í opinberri rannsókn á sífilis. Hann baðst afsökunar á athæfninu. Norska kirkjan, sem brást Sömum, hafði síðar dug til að viðurkenna brot sín og baðst fyrirgefningar. Kirkja Krists á að standa með fórnarlömbum ofbeldis og iðrast ef hún bregst.

Þrenna iðrunar – inn, út og upp

Svo eru einkajátningarnar, sem við prestarnir heyrum þegar fólk kemur til að létta á sér og reyna að rísa upp að nýju. Stór hluti þjóðarinnar hefur farið í meðferð vegna einhverrar fíknar. Sá hópur og öll þau er vilja vinna með sinn innri mann eru meðvituð um að sálarskúringar eru mikilvægar. Það er hollt að muna eftir að iðrun á sér margar víddir.

Fyrst er innhliðin, hvernig við játum afbrot okkar gagnvart sjálfum okkur. Engin iðrun gengur upp nema einstaklingurinn vilji horfa á misgerðir sínar. Mörg eru svo sjálfhverf, að þau megna ekki að viðurkenna brot sín heldur kenna alltaf öðru um. Þekkir þú einhver sem forðast að axla ábyrgð með því að kenna öðrum um eigin mistök? Það þarf sálarstyrk til að viðurkenna afbrot og biðjast afsökunar.

Svo er úthlið iðrunar – að játa út á við, gagnvart öðru fólki, félögum þjóð, veröldinni.

Síðan er uppvídd iðrunarinnar. Það er þriðja víddin og hún varðar Guð. Trúlaus maður hefur ekki þetta algera viðmið en trúmenn reyna að rækta með sér þá vitund að varajátning og sýndariðrun séu einskis virði. Guð sér og er hið endanlega viðmið.

Þetta er þrennan – iðrunarþrennan, inn, út og upp! Allir sem þekkja 12-sporin vita að fólk sem iðrast reynir að gera upp afbrotin með því að bæta fyrir gerðir sínar. Iðrunarþrennan ber ávöxt.

Styrkur og úthverfing

Margir halda, að ef maður tekur samviskubit alvarlega og iðrast verði maður aumingjalegur og lúkkið verði slæmt. Þá sé maður eins og ræfill. En að iðrast er alls ekki það að gera lítið úr sjálfum sér, heldur þvert á móti að vaxa, vera svo mikill að þora að horfast í augu við bresti sína, viðurkenna athæfi sem er rangt, vera maður til að tala um það ranga sem hefur verið gert – og þar með þroskast og eflast.

Á málum Vesturlanda eru ýmis hugtök um það að iðrast, orð sem merkja eftirsjá, sorg, einhvers konar eftirádepurð (repentance, contrition, regret, remorse, remorsefulness, ruefulness, sorrow, sorrowfulness, pangs of conscience, self-reproach, shame, guilt, compunction). Ég held, að íslenska orðið iðrun sé það myndrænasta og besta af öllum þessum orðum. Það er tengt orðinu iður, innyflum, því sem er innan í okkur. Að iðrast er að fara inn á við og úthverfa, að leyfa öllu sem er hið innra að koma í ljós. Hinu illa – hversu ógeðslegt sem það kann að vera – er komið út í dagsljós sannleikans. Þegar búið er að kasta því upp er það nefnt og þau, sem hafa orðið fyrir barðinu eru beðin fyrirgefningar.

Trúarvíddin

Jóhannes skírari vildi fá menn til að skilja, að Guð horfir á hjarta mannsins. Guð vill, að menn séu meira en tæki í leikriti samfélagsins. Jesús horfði aldrei á útlit manna, heldur í djúp augna, leit á innræti að baki varnarháttum. Trúin setur innri mann í forsæti og spyr um heiðarleikann. Við getum flikkað upp á status á facebook en flýjum aldrei kærleiksdóm Guðs. Menn geta með brelluviti lengt leik í samfélagsleikritinu, en aldrei aukið hamingju sína með prettakúnst gagnvart Guði.

Aðventan er hreinsunartími. Við reynum að ná blettunum. Ekkert þrifafyrirtæki tekur að sér að þrífa sál þína, engir sálfræðingar, ekki AA hreyfingin, ekki A. Smith og ekki kirkjan. Aðeins Guðs góði andi kann og getur þrifið sál þína, þinn innri mann. Og þau þrif verða ekki nema þú viljir og leyfir hreingerninguna. Í þessari messu förum við með syndajátninguna. Þá getur þú opnað og sagt Guði: „Ég er til, þú mátt koma og gera allt skínandi hreint.“ Iðrun er fólgin í að sjá að sér, hverfa af villu síns vegar og hefja nýtt líf. Það er á þínu valdi og Guð er góður skúrari, lagar commentasektarkenndina og kann sálarhreinsun. Hefur þú sektarkennd – Jóhannes bendir á leið til bóta. Sálarskúringarnar eru verk Guðs.

Hallgrímskirkju 13. desember, 2015. 3. sunnudagur í aðventu.