Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is. Þá var talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is Sá vefur er nú lokaður.

Afmæli og fyrsta guðsþjónustan

Á þessum degi, 14. október árið 1962, var haldin fyrsta guðsþjónustan í kirkjuskipi Hallgrímskirkju. Til þess tíma var messað í kór kirkjunnar. Á árinu 1962 hafði verið lokið að steypa upp veggi kirkjuskipsins til hálfs og undirstöður súlna í kirkjuskipinu. Þá hafði undirgólf kirkunnar verið steypt. Ákveðið var að marka þessi tímamót og lofsyngja Guði í framtíðarhelgirými Hallgrímskirkju þó ekkert væri þakið og svæðið væri ófrágengið byggingarsvæði.

Á messudeginum rigndi ákaflega og söfnuðurinn, um eitt hundrað manns, leitaði skjóls undir vinnupöllum sem stóðu við útveggina. Jakob Jónsson, sóknarprestur Hallgrímskirkju, messaði. Hann stóð í miðju kirkjuskipinu, þar sem kórtröppurnar eru nú, og naut blessunardagga himins.

Þar sem búið var að steypa upp megnið af veggjum kirkjuskipsins hófst undirbúningur að byggingu turns kirkjunnar. Að turnbyggingunni var unnið á næstu árum. Lokið var að steypa í topp í árslok 1968.

Það var meðvituð ákvörðun byggingar- og sóknarnefndar í hvaða röð hlutar stórkirkjunnar voru byggðir. Ef kirkjuskipið hefði verið fullklárað á sjöunda áratugnum hefði turnginn líklega aldrei orðið til og kirkjan hefði ekki orðið sú perla sem tíminn hefur slípað. Forsjálnin bar árangur.

Suðursalurinn í turnvængnum var vígður til helgihalds á 300 ára ártíð Hallgríms Péturssonar. Vígsludagurinn var 27. október árið 1974. Í tengslum við vígslu salarins og fyrir vígsluathöfnina var hornsteinn lagður að kirkjunni. Á skjalinu í hornsteininum segir m.a. „Drottni til dýrðar er kirkja þessi reist í minningu Hallgríms Péturssonar.“

Trump og menningarkrísa BNA

TrumpÉg horfði á kappræður forsetaframbjóðendanna í Bandaríkjunum í nótt. Sorg fyllti hjarta mitt svo dapurlegar voru þær. Mér þykir vænt um BNA og afar margt í bandarískri menningu. Ég stundaði á sínum tíma framhaldsnám í einni bestu guðfræðideild heims og í einum besta háskóla BNA. Þegar ég horfði á Donald Trump frussa úr sér hroðanum, rífa mótframbjóðandann niður í leirveltuna og að Hillary Clinton lyfti sér yfir lágkúruna fór ég að hugsa. Í þessum leðjuslag opinberaðist mér hinn djúpi vandi BNA, samfélagsgerðar og mannskemmandi óréttlæti. Að auðmaður sem höfðar til lágkúrulegustu hvata, ótta, reiði og haturs skuli ná svo langt er allri heimsbyggðinni tákn um að eitthvað er ruglað og rotið í grunni samfélagsgerðarinnar. Og í einföldustu mynd er það að auðmenn stjórna of miklu, stýra of mörgu í bandarísku samfélagi, kaupa áhrif og halda of stórum hópi lægri stéttanna niðri. Stórir hópar eru fastir í gildrum fátæktar og hafa hvorki hvata né möguleika til menntunar. Það er þessi kapítalíska gerð sem viðheldur eða eykur andstæðurnar í samfélaginu og leggur grunn að því að hatursmaður kvenréttinda, mennsku og menntunar gæti komist til valda. Í Donald Trump kristallast hrun hins bandaríska samfélags. Það verður að endurnýjast, minnka andstæðurnar, skera af öfga kapítalismans, sem ekki gengur upp, og er fólki vestra dýrkeypt og heimsbyggðinni hættulegt.

Kappræðurnar skiluðu ekki sigurvegara þó Hillary Clinton væri mun skárri en loddarinn. En þær fleyttu til mín vitund um að það er aðeins aukin menntun og bætt efnahagskerfi sem megna að mæta ótta, hatri, mannfjandskap og flatneskju sem Trump túlkar og höfðar til. Veilurnar eru opinberaðar og nú ættu vinir mínir vestra – með stuðningi og hvatningu okkar hinna – að hefja sókn til meiri samfélagsgæða. Og þar sem forsetavalið í BNA skiptir mannheim allan svo miklu máli legg ég til að heimsbyggðin fá neitunarrétt til að hafna vondu vali. Könum er ekki einum treystandi til að velja!

Hvenær byrjar dagurinn?

Einu sinni var sat gyðinglegur fræðari með nemahóp og spurði: „Á hvaða augnabliki endar nóttin og dagurinn byrjar?“

Einn neminn svaraði: „Það er þegar nógu bjart er til að hægt er að greina að hunda og kindur.“

Annar sagði: „Þegar það er nógu bjart til að sjá hvað er ólífutré og hvað fíkjutré.“

Meistarinn brást við og sagði: „Þetta eru góð svör en þó ekki hin réttu. Svarið er: „Þegar ókunnur maður kemur og við höldum að hann sé bróðir okkar og allar deilur hætta, þá er nákvæmlega stundin þegar nóttin endar og dagur byrjar.“

Og þar með lýkur þessari sögu. Hvernig líkar þér svarið? Sagan er alls ekki um skepnur eða tré, birtu eða myrkur, heldur varðar samskipti og mennsku. Að dagur byrji, þegar ókunnugur maður kemur og við sjáum í honum bróður, systur og vin og að deilur gufa upp og hverfa. Er þá endir nætur – afturelding?

Símon Peres er látinn. Hann lést í liðinni viku. Hann var einn áhrifaríkasti leiðtogi Ísraela og kom til Íslands árið 1993. Hann var eftirminnilegur, leiftrandi skarpur,  áhugasamur maður, opin kvika og ræðinn. Peres kom til Íslands í leyniferð um Norðurlönd til að afla fylgis friðaráætlun fyrir stríðandi þjóðir fyrir botni Miðjarðarhafs. Leyniförin bara árangur. Oslóarsamningurinn var undirritaður skömmu síðar. Nokkrum árum eftir þessa friðarför sagði Símon Peres viskusöguna um dagrenningu á leiðtogafundi í Davos. Hún á enn við.

Friður verður aldrei tryggður aðeins með undirritun og handsali. Þessa daga eru almennir borgar drepnir í Aleppo. Þegar dagur rís í þeirri borg vakna stríðsmenn en ekki systur og bræður. Um síðustu helgi féllu tæplega hundrað börn á aðeins tveimur dögum í Aleppo. Nóttin verður bara svartari. Hvenær dagar? Einstaklingar, hópar og þjóðir geta haldið áfram að stríða, deyða og eyða – en líka orðið fólk friðar, mennsku og elsku. Sýn trúar er að aðrir eru líka djásn og dýrmæti. Trúmenn eiga grunn í elsku og sköpunargerningi Guðs sem býr til veröld og fólk sem hefur gildi í sjálfu sér. Trúlaus sem trúandi megum við elska og virða í stað þess að óttast og hata. Dagur er á lofti þegar við virðum aðrar hefðir og óttinn minnkar. Hvenær byrjaði dagurinn? Það var þegar Guð horfði með vinaraugum á veröldina og vitjaði hennar. Amen.

Biðjum:

Guð dags og nætur, jarðar og himins, tíma og eilífaðar.

Hjálpa okkur að sjá bræður og systur hvern dag.

Gef okkur gleði himins í veröld jarðar, visku eilífðar í heimi tíma,

og dagssjón við næturlok. Amen

Kyrrðarstund í Hallgrímskirkju 6. október, 2014.

Meðfylgjandi mynd tók ég í Jerúsalem í dagrenningu í maí 2023.

Til lífs

img_3502Farðu með friði í ys og átökum heimsins.

Minnstu þeirrar kyrrðar sem er fólgin í þögninni.

Láttu þér semjast við fólk, án nokkurrar uppgerðar.

Segðu sannleikann greinilega en með stillingu.

Hlustaðu á aðra.

Allir hafa sögu að segja, sem þarfnast hlustandi huga.

Forðastu hégóma og mannjöfnuð.

Ávallt munu einhverjir verða þér óstyrkari eða ofjarlar.

Njóttu áforma þinna og árangurs í lífinu.

Sinntu starfi þínu vel, hvert sem það er.

Í því er blessun fólgin í brigðulli gæfu tímans.

Vertu varkár í viðskiptum, því veröldin er full af vélráðum.

Gættu að eigin samkvæmni.

Gerðu þér ekki upp ástúð og hlýju.

Láttu ekki kulda næða um ástina þína.

Ástin er eilífðarblómstur á akri tímans.

Öðlastu visku áranna með stillingu og án eftirsjár.

Gefðu frá þér með reisn það, er tilheyrir æskunni.

Hlúðu að andlegum styrk þínum, svo þú eigir festu í andstreymi.

Temdu þér sjálfstjórn, en einnig ljúfmennsku gagnvart eigin sjálfi.

Mundu að einmanaleiki og hræðsla eru gróðrarstía óttans.

Eins og gróður jarðar og stjörnur á himni ert þú barn alheimsins.

Þú breytist eins og hin mikla lífkeðja veraldar.

Lifðu í sátt við Guð, hver sem verk þín hafa verið

eða munu verða í sviftingum lífsins.

Mundu að þrátt fyrir sorgir og áföll er veröldin undurfögur.

Hafðu hamingjuna að stöðugu markmiði.

(Snörun sáþ á heilræðabálki. Heimildir greinir á um aldur og uppruna)

Trú, vísindi og túlkun

Það voru skrítnar myndir, sem allt í einu birtust við Skerjafjarðarströndina í Reykjavík. Einkennileg spjöld voru á prikum hér og þar. Þau, sem hjá fóru, hugleiddu og jafnvel deildu um hvað þetta væri. Lítið samhengi virtist vera í þessum uppsetningum. Svo opinberaði Morgunblaðið sannleikann. Þetta var ekki nýlistaverk heldur líkan. Á stærðfræðidegi reiknuðu krakkar í sjötta bekk Melaskóla fjarlægðir í sólkerfinu og innbyrðis afstöðu himintunglanna. Líkanið var túlkun þeirra a niðurstöðunum. Auðvitað varð að hafa hnettina í einhverjum viðráðanlegum stærðum. Þvermál stjörnueftirlíkinga var minnkað milljarðafallt. Sólin varð í þessari útgáfu 140 cm að þvermáli og Plútó aðeins 2 millimetrar. Með þessari smækkun var hægt að búa til viðráðanlega smækkun af sólkerfi og koma fyrir við Ægisíðu. Það var hægt að skoða og ganga inn í það, fá tilfinningu fyrir vegalengdum og innbyrðis afstöðu. Þetta var skemmtilegt verkefni og ágætt dæmi um hvernig farið er að í leit að skilningi á flóknum veruleika.

Módel og mál

Til að nálgast hið illskiljanlega er gjarnan búin til einhvers konar mynd til að finna samnefnara, sem dregur saman, tengir mikilvæga þætti og sýnir veruleika þess sem vísað er til. Það, sem skólabörnin gerðu, var að búa til myndræna túlkun á hlutföllum sólkerfisins. Við getum ekki ímyndað okkur skipan þess hluta vetrarbrautarinnar, sem við gistum, með því einu að horfa á stjörnur og sól. Sjónarhóll okkar brenglar og er alltaf ákveðin aðstaða og afstaða túlkunar. Stjörnuskoðarinn Immanuel Kant minnti á, að menn sæju ekki kjarna hlutanna. Sem sé við rýnum í gegnum litað gler fordóma, fyrirframgefinna skoðana og túlkana. Veruleikinn er ekki beinn og aðgengilegur. Til að skilja flókin fyrirbæri þurfum við hjálp eða milliliði til skilnings. Til þess eru sett upp líkön? Á mörgum heimilum eru til jarðarkúlur, sem hægt er að snúa og benda á hvar löndin eru og í hvaða afstöðu til annarra landa. Þessir hnettir hafa orðið mörgum til hjálpar. Hvað er svarthol? Hvernig er hægt að skýra út fyrir leikmanni gen eða DNA? Við léttum okkur skilningsferlið með því að búa til myndir, kenningar og skýringar af ólíku tagi. Þetta er það sem almennt er kallað módel. Þau eru eiginlega milliliðir til skilningsauka. Börnin úr Melaskólanum bjuggu til líkan af sólkerfi til að veita skynjun eða tilfinningu fyrir stærðum og víddum, afstöðu og skipan. Módelgerð er iðkuð í öllum greinum fræða, einnig í mannvísindum. Þótt trúmaðurinn lifi ríkulegu trúarlífi og eigi náið samband við Guð veit hann mætavel að margt er í Guði og á vegum Guðs, sem ekki liggur á lausu og ekki er skiljanlegt nema með einhvers konar millinálgun. Þeir þættir eru viðfang þessar greinar og varða eðli og mörk hins trúarlega tungumáls og þar með skilnings.

Vísindamódel

Það skiptir máli að gera sér grein fyrir hlutverki líkana, sem hér verða einnig nefnd módel. Í mörgum greinum, ekki síst raunvísindum gegna þau lýsingarhlutverki. Mörg þeirra eru smækkanir og gegna oft hlutverki útskýringa. Aðrar smækkanir þjóna forspárhlutverki. Þegar Siglingmálastofnun hannar nýja höfn er útbúinn botn og sjávarsíða og eftirlíking umhverfisins. Svo er öldugangi komið af stað. Hægt er að fylgjast með sandburði, álagi, öldufalli og straumum. Líkanið er ekki aðeins skýring eða lýsing í þessu tilviki, heldur vinnutæki til að skoða ferli. Reyndar er oft hægt að reikna nákvæmlega án líkans, en sitthvað getur komið í ljós, sem vert er að sjá með mannlegum augum. Auðvitað er hægt að reikna flesta ferla en líkan getur vakið huga, aukið innsæi og skilning og bent á þætti, sem annars hefðu ekki komið eins vel fram.

Líkön vísindanna vísa oftast til þess, sem er hægt að meta og mæla. Þeim er ekki ætlað að setja okkur leikreglur í lífinu. Þau segja okkur ekki hvernig menn eigi að hegða sér, hvað þeir eigi að gera og hvers þeir megi vona, eins og segir í meðhjálparabæn þjóðkirkjunnar. Kosningalíkön segja ekkert um gæði stjórnmála eða stefnuskrár flokka. Þau geta hugsanlega lýst því hvað fólk muni kjósa, en þeim er ekki ætlað að skera úr um hvað kjósendur eigi að velja á kjördag.

Líkön í vísindum geta mótað hvernig viðkomandi vísindagrein þróast og hvernig og hvaða skýringar eru tækar. Allar greinar fræða eiga sér túlkunarhefðir, almennt viðurkenndar skýringar og kenningar. Ef kenningar ná ekki að skýra öll dæmi eða flest atriði, sem viðkomandi kenning eða módel spannar, þarf að endurskýra eða aðlaga skýringarnar. Alla vega er nauðsynlegt að skýra undantekningar. Eftir því sem fleiri frávik koma í ljós verður í viðkomandi fræðasamfélagi aukinn, innri þrýstingur, áhugi eða vilji til að skoða nýjar leiðir og túlkanir. Stundum tekur langan tíma fyrir fræðimennina að viðurkenna, að um frávik sé að ræða. Svo getur farið að grunnhugmynd sé hent út og ný komi í staðinn.

Mismunandi túlkarnir og hlutverk

Tungumál takmarkar og mótar heim manna, opnar eða hindrar skilning og þekkingu. Mæri máls eru mæri heims og varðar allar greinar fræða og trúartúlkun einnig. Ef hið trúarlega tungumál er illskiljanlegt og bundið stirðnuðu líkingamáli, nær það ekki að snerta hjörtu mannanna.

Líkön eru notuð í vísindum almennt til skilningsuaka. Í  orðræðu trúarinnar eru þau hins vegar notuð í víðara samhengi, ekki aðeins til að auka skilning heldur einnig til að vekja vitund og móta atferli og gefa stefnu í lífi og gagnvart málum dauða og hins eilífa lífs. Vísindamódelin eru gjarnan lýsandi, “deskriptíf” en í kristninni og öðrum átrúnaði varða módel gæði þessa heims og annars. Þau eru því kvalitatíf.”Vísindaleg líkön og kenningar eiga að hafa forspárgildi. Hlutverk trúarlegra módela er ekki af því taginu. Þau flokka og greina fremur reynslu fólks en að  uppgötva nýja. Vísindamódelum er yfirleitt ekki ætlað að höfða til tilfinninga eða siðferðis manna, en það er trúarlegum módelum hins vegar ætlað. Líkönum í átrúnaði má raða upp í forgangs- eða mikilvægisröð en svo er ekki um raunvísindamódel.[1] Í ljósi munarins skiptir því öllu máli að ruglast ekki á mismunandi forsendum mismunandi fræðagreina, orðræðu þeirra og tilgangi. Fræðaforsendur eru mismunandi. Við endann skyldi upphafið skoða!

Sólkerfislíkan trúmanna

Frumlægasta og eðlilegasta málfar trúarinnar er myndmálið, sem t.d. Jesús notaði óhikað og frábærlega vel. En myndmál trúarinnar leitar ávallt túlkunar og krefst hennar raunar, alveg eins og í öðrum greinum fræða. Enginn átrúnaður, ekki frekar en aðrar greinar mannlífsins, getur reitt sig algerlega og aðeins á myndmál. Myndmálið leitar ávallt skilnings og skynsemi. Það er langur vegur túlkunar frá yrðingu Jesú um, að hann sé “vegurinn, sannleikurinn og lífið” til kenningakerfis um hvernig maðurinn frelsast. Það er langur vegur frá líkingarsögu (dæmisögu) um miskunnsama Samverjann til siðfræðikenninga um samábyrgð og mannhelgi.

Þegar trúarlíf og trúarlegt málfar er skoðað kemur í ljós, að á milli myndmáls annars vegar og hugtaka og kerfis þeirra hins vegar eru gjarnan eins konar tengjandi stýrikerfi. Þessar tengingar eru í raun módel. Hér eru þessi þau nefnd túlkar vegna vinsandi hlutverks þeirra og að þeir velja hvaða þýðingu mál fá, hvaða efni er lyft og hvað er vinsað út í túlkuninni.[2] Túlkarnir halda mörgum einkennum mynda og myndmáls, en vísa jafnframt til hugtaka og kalla raunar á kerfismyndun og röklega útfærslu. Allar hefðir og ekki síst trúarhefðir festa myndmál í sessi og kalla fram túlkun. En mikill hugsuður trúarhefðar getur valið forsendur sínar, módel eða túlka sína og hugtök. Hugsuðirnir breyta hefðunum, þegar þeir halda fram nýjum túlkum, sem hrífa og skapa nýtt inntak þar með. Þegar þeir breyta grunnlíkingum og frumforsendum hefða hafa þeir fundið upp eða haldið fram frumlegum túlk, sem er svo sannfærandi, öflugur og víðfeðmur, að hann getur komið í stað þess eða þeirra sem fyrir eru. Slíkir túlkar eru eiginlega erkitúlkar. Þegar svo öflug módel koma í stað hinna fyrri verða breytingar innan trúarhefða. Jesús Kristur bylti Gyðingdómi innan frá með því að breyta módelkerfinu eða túlkunum. Siðbreytingarmenn gera hið sama og allir miklir mótendur og hugsuðir, sem hlustað hefur verið á og fylgt.

Líking með varanlegt og kerfisbundið vald

Einfaldasta skilgreining túlks í átrúnaði er, að hann sé áhrifarík og langlíf líking. Túlkur er í raun líking, sem nær því að verða miðill myndmáls og hugtaka og miðlar jafnframt í millum þessara merkingarlaga. Túlkarnir eru n.k. kenningar um skipan mála. Þeir lýsa á skiljanlegan hátt því sem erfitt eða ómögulegt er að skilja með því að nota þau atriði eða myndir. sem menn tengjast og skynja. Túlkarnir eru þannig hjálp við skilning á hinu ósegjanlega, sem ekki verður rætt án líkingamáls.

Eins og í góðum brandara eða ljóði er stefnt saman í líkinu tveimur merkingarsviðum eða tveimur veröldum. Við samsláttinn verður til ný merking. Skilningur eða ákveðin skynjun skapast svo fremi sem túlkur er lifandi og merkingarskapandi. Orðræðan er því augljóslega hliðstæðumál, það sem kallað er “analógísk” ræða.[3] Tengslin og skilningurinn skapast, þegar túlkurinn lifir gagnvart notendum og þiggjendum sínum. Skilningur skapast að einhverju leyti í opnun og spennu, en þó ekki algerlega. Orðræðan er ekki bókstafleg eða hlutlæg, en engu að síður getur hún verið mikilvæg í tilvísun sinni.

Fyrst og fremst eru túlkar skýringartæki, farvegir fyrir skilning á ótta og gleði, hrifningu og lotningu, siðferðilegri breytni, falli og uppreisn, skipan og sköpun, sögulegum atburðum o.s.frv. Túlkarnir gefa mönnum áherslu, kalla fram ákveðna þætti en úthýsa einnig öðrum. Þeir eru, eins og Ian Barbour hefur sagt:  “Ákvarðandi ímyndir, sem túlka sértæka reynslu og benda til vegar með því að velja út atriði, skýra veruleikann og hjálpa okkur að taka eftir ákveðnum veraldarþáttum.”[4]

Túlkarnir eru eiginlega miðlar okkar eða skjáir. Þeir sía merkingu, stjórna því á hvern hátt við skiljum og meðtökum þann veruleika sem túlkurinn tjáir. Módelin, túlkarnir, eru því eins og skilvindur, sem skilja merkingu sem er mikilvæg frá annarri, sem fellur frá og jafnvel eyðist í meðförum.

Túlkarnir eru hvorki algildir eða tæmandi. Þeir kalla á nánari eftirgrenslan og ítarlegri hugsun. Þeir vísa út fyrir sig og nánast beiðast kerfismyndunar. En þar sem túlkarnir lita boðskap sinn stjórna þeir einnig eða hafa mótandi áhrif á hvernig um mál og atriði er hugsað í kjöfar miðlunarinnar. Túlkurinn gefur því málheim eða málklasa og ákveður hvaða hugtök spretta fram, eru möguleg og hvernig útfært er og bundið í kerfi.

Annars vegar hafa túlkarnir skýrleik og vísa til smáatriða. En að auki marka þeir reynslu leið og hafa ákveðnu flokkunarhlutverki að gegna varðandi alla framvinu og hugsun. Þeir gefa ekki vitsmunalega skýringu, heldur hafa lífernisafleiðingar. Þeir kalla á siðfræði og siðferði. Lifandi túlkar eru það róttækar myndir, að atferli manna, sem ganga á vit þessa veruleika, tekur einnig mið af.[5] Túlkarnir eru hagnýtir vegna þess hve víðtækir og innbyrðandi þeir eru. Þeir gefa mönnum skýringu á tilveru sinni, sjálfsímynd og stefnu í lífinu. Siðferði er því eðlileg afleiðing merkingarkerfis, sem maðurinn innlífast í ljósi túlkanna.[6]

Erkitúlkarnir

Í raunvísindum er leitast við að nota fá en skýr líkön. Í mannvísindum og trúarhefðum er hins vegar eðlilegt og nauðsynlegt að nota marga túlka. Hið sama gildir varðandi kenningar og hugmyndir einstakra guðfræðinga. Guðfræðitúlkar eru ekki hlutlægir heldur hjálp við túlkun og þýðingu merkingar. Frumlægastir og jafnframt víðtækastir eru þeir túlkar sem nefna mætti erkitúlka (root metaphors, root models), sem ákvarða stefnu allrar túlkunar og útfærslu trúarkerfisins. Erkitúlkarnir setja mörk um fjölda líkinga og hjálpartúlka, sem notuð eru og hvaða myndmál dæmist gilt og verður notað. Stjórnleysi og ruglingslegt myndmál fær vegna þessa nauðsynlega flokkun.[7]

Þessir túlkar eru frumforsendur átrúnaðarhefðarinnar. Í kristninni eru nokkrir túlkar, sem tengjast og mynda kjarna trúarhefðarinnar, t.d. líkingin af Guði föður, konunginum, dómaranum, persónunni o.fl. Þessar líkingar hafa hlotið svo miklæga stöðu, að breyting á þeim og notkun þeirra hefur afdrifaríkar afleiðingar fyrir alla trúarhugsunina. Það sem mestu skiptir er þó breyting á erkitúlk eða erkitúlkum. Stuðningstúlkar og stjórnartúlkar breytast. Jafnan eru þessir síðastnefndu túlkar nánari útfærsla og skýring á rótarlíkingu eða erkitúlk. En stuðnings- eða stjórnartúlkarnir geta einnig skapað spennu vegna rótfestu í myndmáli og verið í enhverju ósamhljóma erkitúlknum. Í því er nokkur sannleikur fólginn, að frumspekikerfi sé kerfisbundin útfærsla á frumlíkingu.

Til stuðnings

Erkitúlkarnir eru víðfeðmastir. Þeir eru tjáning á djúptækri og mikilvægri reynslu. Líkingin af persónulegum Guði er t.d. grundvallandi erkitúlkur í kristnum átrúnaði. En til stuðnings er þörf á millisstýringum, sem hér verða kallaðir stjórnartúlkar og stuðningstúlkar. Þeir hafa mismikið vægi og áhrif, en stýra hvað í trúarhefðinni verður fyrirferðarmikið og hvað minna virði. Stjórnartúlkarnir þjóna hlutverki styrkingar eða veikingar.[8] Dæmi um stjórnartúlk er líkingin af Guði sem föður, sem er síðan útfærð í sonartúlknumn. Drottinlíkingin er útfærð í líkingunni af þjóni, sem er útlistuð með ýmsu móti í kristninni og varðar skilning og túlkun á eðli og hlutverki manna. Móðurlíkingin á sér stuðningstúlk í barnslíkingunni; ástmögur á sér túlk í hinu elskaða, húsbóndi í eiginkonulíkingu, húsbóndi í stuðningstúlknum þræll o.s.frv.

Erkitúlkarnir eru ávallt víðfeðmastir og stærstir í sniðum. Þeir hafa í sér fólgna mesta túlkunarmöguleika. Þessir túlkar eru takmarkalausir og í raun óhrekjandi varðandi innsta kjarna. Ef breytt er um erkitúlk í átrúnaði er búið að stofna nýjan átrúnað. Ef menn ætla t.d. að skera burt boðskapinn um persónulegan Guð úr kristninni er botninn dottinn úr allri túlkun, allt trúarvitið farið og menn detta úr kristninni. Hins vegar er túlkunarfjölbreytni og breyting möguleg vegna breytinga á stjórnartúlkum og stuðningstúlkum. Breyttar aðstæður og gildaþróun samfélagsins hafa áhrif á hvort fólk skilur og samþykkir grunnatriði átrúnaðar. Jafnréttisáherslur hafa t.d. haft mikil áhrif á notkun stjórnartúlka og stuðningstúlka í kristninni. Ef menn hafa ímigust á feðraveldi og híerarkískri röðun er ljóst, að stjórnartúlkarnir um Guð sem konung, Guð sem herstjóra, Guð sem heimsstjóra, Guð sem dómara og föður eiga undir högg að sækja og veikjast. Þegar vegið er einhverjum túlk hefðarinnar er ekki vænlegt að vega að gagnrýnendum, heldur er eina ráðið að bregðast við með skapandi guðfræði. Trúarviska er ekki fólgin í herkænsku heldur fremur næmi á möguleika vanmetinna túlka. Til að endurskýra og endurlífga guðfræðitúlkun verða burðarmiklir túlkar að koma í stað þeirra sem hafa lifað sinn blómatíma. Í því er fólginn vandi allra þeirra sem vilja tefla fram “betri” eða “réttari” guðfræði, að túlkarnir verða að vera nægilega öflugir og vísa til almennrar reynslu fólks. Ef aðeins er vísað til sértækrar reynslu verður túlkunin vart annað en skoðun sértæks hóps.

Stjórnartúlkarnir og stuðningstúlkarnir eru ekki eins víðtækir og erkitúlkarnir og eiga við eða vísa til takmarkaðri og ákveðnari merkingarsviða. Því skapast túlkunarfjölbreytni í mismunandi hefðum og innan sjálfra hefðanna.[9] Erkitúkarnir eru megintilraunir til að umfaðma veröld og reynslu í mynd og orðum. Þeir eru nánast verundarviðbragð, sem er fólgið í að skoða allt með sem víðastan hring í huga, í ljósi ákveðins hugtaks eða líkingar.

Síðast á merkingarferli átrúnaðar eru hugtök.[10] Hugtakavinnsla hneigist til skýrrar og klárrar merkingar. Myndmálið er hins vegar flóknara og spennufylltara. Bæði myndmál og hugtök eru nauðsynleg í lífi og hugsun kirkjunnar. Sallie McFague segir á einum stað: “Myndmál elur hugtök, en hugtök aga myndmál. Ímyndir án hugtaka eru blind, hugtök án myndmáls eru geld.[11]

Nokkrum dögum eftir að sólkerfislíkanið á Ægissíðu var sett upp fauk sólin um koll og síðar út í buskan og aðrir hlutar fóru líka á flakk. Líkön breytast, ef ekki af völdum vinda veraldar þá af mönnum þegar ný hugsun eða þekking myndast. Svo verður í vísindunum og guðfræðin er ekki óumbreytanleg fremur en önnur fræði mannanna. Túlkun á guðsreynslunni þarf að endurskoða og skilgreina á hverri nýrri tíð.

Heimildir

Barbour, Ian. 1974. Myths, Models and Paradigms: A Comparative Study in Science and Religion. New York: Harper & Row.

Geertz, Clifford. 1973. Interpretation of Cultures. New York: Basic Books.

McFague, Sallie. 1982. Metaphorical Theology: Models of God in Religious Pluralism. Philapdelphia: Fortress Press.

[1] Sallie McFague 1982:107.

[2] Vel væri hægt að nefna þessi módel miðla eða greina, en ég vel fremur að nefna þau túlka, vegna þess að módelin túlka, þ.e. vinsa, sniðla og greina að. Að þýða frá einu máli yfir á annað er túlkun og frá einu merkingarsviði yfir á annað er túlkun sömuleiðis.

[3] Ian Barbour 1974:49

[4] Ian Barbour 1974:6,16.

[5] Mannfræðingurinn Clifford Geertz hefur ágætlega fjallað um hvernig siðferði tekur mið af táknveruleika, hvernig “mood” og “motivation” tengjast. Clifford Geertz 1973:90, 97, 194-230, 126-27.

[6] Ian Barbour 1974:6,14.

[7] Sallie McFague 1982:28,105.

[8] Um afstöðu Paul Ricoeur, sja Sallie McFague 1982:110.

[9] Ian Barbour 1974:84.

[10] “…abstract notion, ideal or thought… …Speculative, systematic statement of relationships underlying certain phenomena, organizing ideas into an explanatory structure.” Sallie McFague 1982:25.

[11] Sallie McFague 1982:25.