Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is. Þá var talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is Sá vefur er nú lokaður.

Ferming Svansí ömmu

Svanfríður Kristjánsdóttir fæddist á Brautarhóli í Svarfaðardal 22. mars 1910.  Í dag er því 107 ár frá fæðingu hennar. Þórður, sonarsonur hennar, tók þetta viðtal við hana árið 2003 þegar leið að fermingu hans. Og þau sátu saman, hún á tíræðisaldri og hann á leið inn í manndómsárin. Það var heillandi sýn. Í aðdraganda fermingar er merkilegt að strekkja tímann og sjá allt í stóra samhenginu. 

Svanfríður fermd á Völlum

Ég fermdist þegar ég var fjórtán ára.  Það voru nú allir fermdir á þeim aldri þá. Ég fæddist 1910 svo þetta hefur verið 1924. Ég var fermd á hvítasunnu. Ég hafði gengið til prestsins á Völlum fyrir ferminguna. Pretsturinn, sr. Stefán Kristinsson, spurði okkur út úr í kirkju og hlýddi okkur yfir. Ég kunni nú marga sálma, milli fjörutíu og fimmtíu sálma. En sumir krakkarnir kunnu fáa sálma. Flestir fermingarkrakkarnir höfðu metnað og vildu kunna sem flesta, því presturinn vildi það nú líka.

Fermingarmessurnar voru alltaf fjölmennar. En á þessum hvítasunnudegi var hríðarveður. Það var nú troðfull kirkja samt og þurfti að setja inn aukastóla. Börnin voru miklu fleiri í sveitinni þá en nú er orðið. Systkinin voru mörg á öllum bæjum.

Ég var í hvítum kjól og mér var kalt. Kjóllinn var svo þunnur og fínn. Ég átti ekki kjólinn og hann var fenginn að láni. Fermingarkjólarnir voru hvítir og ónothæfir fyrir aðra daga og voru því lánsföt. En ég fékk svo sparikjól fyrir önnur tilefni. Og þetta var áður en kyrtlarnir komu. Ég var í dönskum skóm, sem kallaðir voru. Þeir voru svartir og ágætir. Við fórum út að Völlum þar sem presturinn bjó og svo skiptum við stelpurnar um föt inn á kontór prestsins. Vinkona mín var með kyrtil og í skautbúning.

Þegar við vorum búin að fara í fermingarfötin gengum við út í kirkju með fjölskyldum okkar. En við fengum sérstakt sæti í messunni. Þegar stólræðan var búin var sunginn fermingarsálmur: “Lát þennan dag, ó Drottinn, nú.” Þá færðum við okkur upp að altarinu og settumst þar. Presturinn hélt ræðu númer tvö, fermingarræðuna, og talaði beint til okkar allra. Svo vorum við fermd. Við þurftum ekki að svara prestinum með öðru en jáyrði því yfirheyrslur voru búnar í spurningum. Svo tók presturinn í hönd okkar um leið og hann var búinn að ferma. Það var engin altarisganga í guðsþjónustunni, en svo var í vikunni á eftir gengið til altaris.

Þetta var eftirminnilegur dagur og ég tók ferminguna mjög alvarlega. Við vinkonurnar – og ég held allir krakkar á þessum tíma – tóku fermingarheitið alvarlega. Við vildum tilheyra Guði og vera hans. Það var engin veisla. En börnunum, sem fermdust, og foreldrum þeirra var boðið inn á prestssetrið. Svo þegar við vorum komin heim skipti ég um föt. Það var nú sauðburður á þeim tíma svo allir voru að sinna skepnunum. Ég fór að ná saman kindunum sem voru úti. Það var ekki vonskuveður en nauðsynlegt að koma skepnunum inn.

Það var ekki til siðs að gefa margar gjafir á þessum tíma. En ég fékk fermingarkort og Gísli bróðir hafði keypt notað úr, sem hann gaf mér. Pabbi og mamma gáfu mér kind. 

Já, hver er nú óskin til Þórðar? Jú ég vil að fermingardrengurinn haldi það sem hann lofar, haldi sér við Guð og verði góður og nýtur maður. Það er mest hamingjan að gera það.

Þórður Sigurðarson tók þetta viðtal við Svansí ömmu, 5. apríl, 2003, daginn fyrir fermingu hans. Hún var fermd á Völlum í Svarfaðardal og hann í Neskirkju í Reykjavík. Viðtalið var birt í minningabók um Svanfríði Kristjánsdóttur. Myndin af Þórði hér að ofan var tekin á gönguferð á  Rima, en amma hans hafði oft farið áður upp á þetta mikla fjall. Brosmyndin af mömmu er tekin sumarið 1953. Kristín, systir mín, stendur hjá móður sinni óléttri og fagnandi við Litlabæjarhlöðuna við hlið húss okkar við Tómasarhaga. Yfirlitsmyndin við upphaf greinar er af Rimum. Þar má sjá bæina sem tengjast fjölskyldu og sögu Svanfríðar, Brautarhól þar sem hún er fædd, Gröf, Skriðu, kirkjustaðinn Velli, næst utan við Brautarhól, Uppsali, Hánefsstaði og síðan aðra bæi utar í dalnum. Hinum megin ár glittir í Húsabakka og kirkjustaðinn Tjörn. 

Vatn

Hvað var í kringum þig, var þitt nærsamhengi, þegar þú varst fóstur í móðurkviði? Það var vatn. Þú svamlaðir og fórst kollhnísa í legvökva. Hátíðnihljóðin, sem bárust eyrum þínum alla daga, voru frá hinu hraða rennsli blóðsins, vökvans, í æðum móður þinnar og í takti við slátt hjartans sem dældi. Svo þegar legvatnið fór var ekki lengur hægt að lifa inní mömmu – þá fæddist þú. Síðan varstu baðaður eða lauguð í vatni. Móðurmjólkin var að mestu vatn. Þú varst og ert vatnssósa. Svo héldu elskuarmar á þér við skírnarlaug. Glitrandi vatnið í fontinum var borið að kolli þínum og orðin um föður, son og heilagan anda voru nefnd með nafninu þínu.

Síðan hefur vatnssagan haldið áfram. Þú hefur verið í vatni og notið vatns. Í þér er mikið vatn, sem hefur lengi verið til, jafnvel tugi milljóna ára. Það hefur farið um líkama fiska, sóleyja, hvala, trjáa, tígrisdýra, apa, snigla, kaktusa og jafnvel risaeðla. Það hefur borist um allan heim, verið í Jórdan og mörgum jökulám, verið í Kyrrahafinu, Dauðahafinu, Rauðahafinu, vatninu í Krossá. Meðan þú lifir finnur þú fyrir vatnsbúskap líkama þíns. Vatnið er lífinu nauðsynlegt. Líf okkar slokknar ef vatnið hverfur eða fúlnar.

Margir elska vatn og vötn, veiðimenn, fagurkerar og trúmenn allra hefða. Auður djúpúðga var svo elsk að sjónum að hún vildi láta jarða sig í flæðarmáli. Merkilegt, flestum hryllir við ef grafir fyllast af vatni. En af hverju skyldi hin vitra, kristna, Auður hafa sótt til sjávar? Getur verið að vatn hafi eitthvað með Jesú að gera? Getur verið að við þurfum að sjá hið djúptæka í hinu yfirborðslega, greina trúarleg gildi í hinu hvunndagslega?

Skírn Jesú og vatn veraldar

Þegar Jesús vildi skírast var hann sér fullkomlega meðvitaður um, að skírn hans væri ekki með sama móti og iðrunarskírn þeirra sem flykktust til Jóhannesar við Jórdan. Skírnaróskin markar upphaf starfsferils hans. En Jesúskírnin er ekki heldur hin sama og okkar. Jesús skírðist ekki heldur til lífsins eins og við, ekki að endurnýjast eins og við, ekki að losna úr viðjum sorans eins og við. Skírn Jesú var upphaf frelsisverks hans sem gerir skírn okkar mögulega. Skírn Jesú var og er lind, uppspretta í eyðimörk, árstraumur, sem mótar umhverfi og er forsenda gróðurs, sem kenndur er við himininn. Skírn Jesú hefur áhrif á allan heiminn, ekki bara eyðimörk, heldur líka blautsvæðin.

Á miðöldum gátu menn séð í Jórdanskírn Jesú helgun allra vatna heimsins. Jesús helgar allt sem er, gerir það heilagt. Vatnið notum við svo í hinu kirkjulega samhengi skírnarinnar til að helga lífið. Í bikarnum er vatnið helgað þér til blessunar. Í því er helgað vatn og þú mátt því leyfa þér og lífi þínu að blómstra. Af því veröldin er Guðs sköpun, blessuð af Jesú eiga kristnir menn að verja vatn veraldar, vernda og hreinsa. Lífið þarfnast þess. Jesús var skírður – ekki aðeins til að gefa mönnum líf heldur gefa allri veröld líf, vatninu líka.

Vatnsvernd fjær og nær

Vatn hefur verið misnotað og mengað um allan heim. Víða er vatnsskortur og vatnsvernd er æ brýnna mál alls mannkyns. Við ættum að styðja Hjálparstarf kirkjunnar við að gera brunna á vatnsvana svæðum. Mengun er víða gífurleg, sjór og vötn eru svo illa spillt, að fólk getur ekki farið út í vatnið til að baða sig, hvað þá lotið niður og drukkið. Meira en einn milljarður manna hefur ekki aðgang að nægu og hreinu vatni. Ýmsum tegundum platna, skordýra og dýra er ógnað vegna vatnsmengunar, uppistöðulóna og námavinnslu.

Við þurfum að innræta okkur þá frumreglu, að aðgangur að hreinu vatni séu mannréttindi. Vatnsvernd er lífsvernd. Við berum ábyrgð á lífsgæðum barna okkar, ófæddum kynslóðum. Kirkjan gegnir ábyrgðarhlutverki í náttúruvernd og við berum öll ábyrgð í þeirri þjónustu.

Notum vatnsdag til að íhuga köllun okkar til verndar og blessunar vatns. Land, fólk, vatnssósa sköpun Guðs er heilög.

 

 

Emmý Lynn skírð

Emmý Lynn var skírð í Hallgrímskirkju 19. mars. Foreldrarnir búa í Falkirk í Skotlandi. Sandra Ögn Agnarsdóttir er mamman og pabbinn Michael Dean Cullis. Það var skemmtilegt að undirbúa skírnina með þeim og afar og ömmur, langamma og fjölskyldufólkið kom fagnandi til kirkju og til athfnar. Sólin lék sér helgidóminum. Og þegar Sandra kom með Emmu að fontinum opnaði hún augun og hvelfingin, gluggarnir og ljósleikurinn birtist í augunum – hún var með himinn í augum. Petra og Michel lásu biblíutextana. Og annað þeirra notaði Iphone sem ritningu – og textinn var frá United Bible Society!  Andreas Costa og Rakel Ósk Steindórsdóttir eru guðfeðgin. Skír er himneska og Emmý Lynn er ekki aðeins barn Íslands og Skotlands, ekki aðeins barn tímans heldur líka borgari eilífðar. Takk Sandra og Michael og Guð geymi ykkur öll. 

Eyland og lífland – Sigríður Hagalín Björnsdóttir og Móse

 

Ein af merkilegustu bókum sem ég las í vetur er Eyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur. Ég heillaðist af hugmyndaauðgi og dýpt þessarar skáldsögu. Söguþræðinum verður ekki lýst í nokkrum setningum, en þó hægt að upplýsa að í sögubyrjun dettur Ísland úr sambandi við útlönd. Engar flugvélar koma til landsins eða fara, engin skip heldur. Öll fjarskiptasamskipti rofna og Íslendingar verða allt í einu einir í veröldinni. Hvað verður um hinn hluta veraldar er ekki vitað. Sjónum er aðeins beint að Íslendingum í algerri einangrun í langan tíma, sem leiddi til hruns, raunar algers og rosalegs kerfishruns.

Eyland er vel heppnuð bók um risastóra hugmynd, saga á mörgum plönum og um mörg mál. Hvað skiptir ríki mestu máli? Hvað heldur þjóðfélagi saman? Hver er uppspretta laga og réttar? Hvað verður um einstaklingana þegar menningin springur? Hvernig bregst fólk við þegar samfélagskerfin brotna? Hvaða siðferði býr í menningunni? Eyland lýsir vel að menning verndar líf en líka hvað stutt er í villidýrið í mannfólkinu og hve menningin er viðkvæm og brotnar auðveldlega.

Boðorði tíu

Lexía dagsins talar inn þetta spurningaflóð. Biblíutextinn í annarri Mósebók er samandregin viska og niðurstaða samfélags sem hafði upplifað langvarandi kerfishrun. Og slík lífsspeki verður til í uppgjöri við áföll, átök og jafnvel hryllilega reynslu. Þessi texti dagsins er um það sem við köllum boðorðin tíu. Mörg okkar munum úr biblíusögunum dramatíska sögu um hvernig boðorðin voru klöppuð á steintöflur á Sínaífjalli. Það er helgisagan og slíkar sögur eru yfirleitt stutta útgáfa viðburðanna. Helgisögur eru samandregnar og einfaldaðar táknsögur um mikla viðburði og flókið ferli. Lífsspeki eins og í boðorðunum er hins vegar niðurstaða langrar þróunar og mikillar reynslu þó niðurritun gæti hafa verið snögg. Munnleg geymd kemur á undan ritverkum. Viskan sprettur fram og nær viðurkenningu vegna þess að fjöldi fólks og jafnvel margar kynslóðir hafa lent í vondum málum, orðið fyrir hruni, upplifað að þjóðfélag verður að hafa grunnreglur, lög og rétt og meginreglur um siðferði til að villidýrin í mann-og dýraheimum valdi sem minnstum skaða. Siðferði, lög og reglur eru til að fólk geti notið lífsins. Og hegðunarreglur og samfélagsskipulag er huti af menningu. Menning er alltaf þau andlegu klæði sem menn koma sér upp til að skýla sér fyrir næðingi og hryllingi í lífinu.

Boðorðin urðu ekki til í hirðingjasamfélagi heldur meðal fólks sem hafði reynslu af lífi í þorpum og bæjum og hafði þróað flókið þjóðfélag hvað varðar atvinnu, samskipti, landbúnað og samskipti við aðrar þjóðir. Og þessi lífsspeki hinna fornu hebrea var síðan notuð meðal Gyðinga og vegna kristninnar flutt út til allrar heimsbyggðarinnar. Boðorðin eru uppspretta, fons, hugmynda sem hafa seitlað um allan heim. Við Íslendingar höfum notað þessi speki í uppeldi um aldir og við mótun menningar okkar. Orðin tíu eru byggingarefni í löggjöf heimsins. Boðorðin eiga sér afleggjara og endurvinnslu í löggjöf nútímans. Hin djúpa mannúð og mannvernd þeirra hefur haft áhrif á gildandi mannréttindabálka, sem varða vernd allra, kvenna og karla, barna og fullorðinna, óháð lit, kynferði og trú. 

Um hvað?

Um hvað eru boðorðin? Manstu þau? Jú, þau eru tíu og upphafið er: „Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi…“ Sem sé, Guð er guð vegna verka í sögu, vegna tengsla sem gögnuðust lifandi fólki í raunaðstæðum þeirra. Og mörg okkar muna einnig að nafn Guðs eigi ekki að leggja við hégóma. Það merkir að við ættum ekki að hæðast ekki að hinu heilaga. Svo muna flest að einhver staðar í boðorðunum er rætt um að heiðra foreldra, virða makann og halda ekki framhjá, stela ekki og girnast ekki.

Eining en samt tvær víddir

Eiginlega má skipta orðunum tíu í tvennt. Annars vegar orð um Guð og hins vegar orð um menn. Hvaða boð fjalla um Guð og hver þeirra eru um menn? Jesús þekkti vel boðorðin og samhengi þeirra og hvernig mætti túlka þau með ýmsum hætti. Jesús var ekki fastur í formi eða smáatriðum. Hann var óhræddur að skoða hið gamla efni og færa í nýtt samhengi. Ástæðan nýtúlkunarinnar var að Jesús var með huga við þarfir fólks, ekki bara einhvers hóps heldur allra og í öllum flokkum og stéttum. Og með andlegar og líkamlegar þarfir fyrir augum dró Jesús saman öll boðorðin. Þessi samdráttur eða samþjöppun Jesú á öllum boðorðunum setti hann saman í það sem við köllum tvöfalda kærleiksboðið. Og hvernig er það? Í stuttu útgáfunni er það: „Elska skaltu Drottin, Guð þinn … – og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Fyrri hlutinn er einfaldlega guðsáhersla boðorðanna. Þar er guðsvirðingin tjáð. Seinni hluti er í samræmi við seinni hluta boðorðanna og varðar mannvirðingu og mannvernd – að við eigum að virða og elska fólk – alla.

Kærleiksboðið í krossinum

Og krossar heimsins minna á það sama – á þessar tvær víddir boðorðanna. Lóðrétta tréð minnir okkur annars vegar á tengslin til Guðs. Trúin er elskan til Guðs. Lárétta tréð minnir okkur síðan á tengslin og umhyggjuna gagnvart samferðafólki okkar, þessum sem Biblían kallar náunga okkar. Og náttúran er líka náungi okkar. Boðorðin eru um lífið, ekki aðeins þig, heldur um fólk, alla menn og lífríkið allt. Skordýr, fuglar, plöntur og maðkar eru systur okkar og bræður. Okkur er falið að vernda mannheim, en líka náttúruna. Neðsti hluti krossins er í jörð.

Lögin verða til

Börn og unglingar vita vel hvað gerist ef engar reglur væru til. Þegar þau eru spurð segja þau alltaf að þá yrði allt vitlaust og ofbeldi tæki við. Það er einmitt í samræmi við lýsingu Sigríðar Hagalín Björnsdóttur í bókinni Eyland. Ef engar reglur stýra þjóðfélaginu verður kerfishrun. Frumskógarlögmálin taka yfir og mennsk villidýr ganga laus, meiða og drepa. Reglur eru settar til að þjóna lífi og velferð. Í lögum, reglum, siðferði og menningu eru mörk lögð og gefið samhengi. Það þarf þroska til að velja lífið.

Orðin tíu í þágu okkar og lífsins

Löggjöf íslenska þjóðríkisins til forna er hin merkasta og hún átti sér líka uppistöðu í eldri lagahefð, sem rekja má alla leið suður til Sínaískaga. Þær fornu reglur, sem eru í tuttugasta kafla 2. Mósebókar hafa síðan verið túlkaðar og endurtúlkaðar, fyrst meðal hebrea, síðan í gyðingdómnum, svo í túlkun Jesú og hinni kristnu hefð. Síðan hafa boðorðin haft áhrif á siðfræði í öllum þeim heimshlutum sem hafa mótast af kristni, gyðingdómi og Islam. Og þó uxar og asnar séu ekki á eignalista okkar eru bílar, hlutir, hús og fyrirtæki komin í staðinn. Og þó það sé algerlega úrelt að líta á maka sem tæki girnist fólk yfir mörk sem ekki ætti að fara.

Fyrsta boðorðið er: “Ég er Drottinn guð þinn” er skemmtilegasta aðalorðið því það varðar meginstefnu. Hvaðan þiggur þú líf, hvar áttu þér athvarf, hver verður þér til blessunar þegar allt þrýtur, öll efni hverfa og kraftur dvín? Guð er upphaf og endir alls sem er, líka þín. Og við megum snúa okkur til Guðs í öllum okkar málum.

Boðorðin eru ekki eitthvað sem aðeins varðar Asíu eða fortíð. Þau vísa til okkar líka. Það var einu sinni karl sem lét sig dreyma og sagði við konu sína. „Mikið væri gaman að fara til Sínaí og hrópa boðorðin af fjallstindinum.” Konan hans horfði íbyggin á hann og sagði: „Ég held að það sé nú betra að vera heima og halda boðorðin!”  

Ertu sammála? Hlutverk okkar er ekki að skunda á Þingvöll eða til Sínaí heldur vera Guðs, elska – sem er mál fyrsta boðorðsins, og lifa í þeirri lífsafstöðu og leggja lífinu lið – sem er mál seinni orðanna. Það er til að hindra kerfishrun, að við verðum ekki eyland eymdarinnar heldur gott og gefandi samfélag. Guð elskar og skapar – okkar er að endurgjalda þá ást með afstöðu, lífsvörn og góðu lífi. Elska og virða.

Amen

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 19. mars, 2017, 3. sunnudagur í föstu.

Kobbi krókur og réttarríkið

Þegar Guðný selur Karli húsið sitt er gerður um söluna samningur um kaupverð, afhendingartíma og hvernig greiðslu skuli háttað. Svo fær kaupandinn eignina og ber að greiða á tilsettum tíma. En hvað gerist ef Karl kemst að þeirri niðurstöðu að hann sé bara búinn að borga nóg og vilji ekki að borga meira? Ef hugdettan er ekki í samræmi við samninginn verður Guðnýju væntanlega ekki skemmt. Samningar eru samningar og við þá verður að standa hvað svo sem fólki finnst einhverjum árum eftir að samningar eru gerðir. Ef ekki er staðið við samninga þarf að endursemja eða leiða vanefndir til lykta fyrir dómstólum. Við viljum flest að eignaréttur haldi og réttarríki blómstri.

Píratar hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að ríkið segi upp gildum samingi við þjóðkirkjuna. Risastórt eignasafn hennar var endanlega afhent ríkinu árið 1997. Ríkið tók við þessum eignum og samdi við þjóðkirkjuna um endurgjald fyrir og þeir samningar eru lagalega fullgildir. En nú finnst Pírötum að búið sé að borga nóg og ríkið eigi bara að hætta að borga. Rifta eigi samningnum en ríkið eigi samt að halda eignunum. Ef dæmið af Guðnýju og Karli er notað leggja þeir til að Karl hætti að borga Guðnýju af því honum finnist hann vera búinn að borga nóg. Með málflutningi sínum leggja Píratar til að farnar verði aðrar leiðir en gert er ráð fyrir í réttarríki. Þeim finnst að ríkið eigi að hætta að borga en halda samt “húsinu.” Í hvaða stöðu er kirkjan sett? Hún framseldi ríkinu eignirnar til að kosta laun prestanna. Greiðsla ríkisins er ekki ríkisframlag heldur endurgjald vegna kaupa á eignum þjóðkirkjunnar. Samningur um verð gildir óháð duttlungum eða síðari tíma tilfinningum.

Samningur ríkisins og þjóðkirkjunnar var gerður með fullri meðvitund og heilindum af beggja hálfu. Enginn skyldi kasta rýrð á samningamennina. Það var vissulega erfitt að meta verðgildi eignanna en sátt var um matið. Allt eignasafnið var góður hluti jarðeigna í landinu og eignirnar voru og eru verðmiklar. Hvernig á að meta eign Garðakirkju nú, þ.e. landið undir öllum Garðabæ? Hvernig á að meta land undir öllum húsum í Borgarnesi, land Borgarkirkju? Hvernig metum við verðmæti Þingvalla – þó ekki sé nema kristalstært vatnið í Þingvallahrauni? Síðan má meta kirkjujarðir um allt land út frá veiðitekjum, náttúrugæðum ýmis konar, virkjana- og ferðaþjónustumöguleikum.

Tillaga Pírata varðar að samningur réttarríkisins gildi ekki gagnvart kirkjunni. En það er mikilvægt að ríki og þjóðkirkja tali saman um um þessar eignir og afgjald. Ef meirihluti þjóðar og þings vill rifta þessum samingi þarf að ræða um hvernig það verði gert. Samingurinn varðar ekki aðskilnað ríkis og kirkju. Þjóðkirkjan er frjáls og að mestu óháð ríkinu og ríkið vill hafa sem minnst afskipti af henni. Svo fremi sem hún er ekki hlunnfarin getur þjóðkirkjan séð um eign rekstur með greiðslum sem henni ber skv. samningum við ríkisvaldið – eða með því að ríkið skili eignunum eða verðmæti þeirra til kirkjunnar að nýju.

Þessi pistill birtist í Fréttablaðinu 10. mars, 2017.