Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Viðtal um matseld í Fréttablaðinu 15. desember. 

„Vinir okkar hjóna voru alltaf að biðja um þessa eða hina uppskriftina svo við gáfum bara út matreiðslubók eitt árið,“ segir Sigurður Árni Þórðarson, sóknarprestur í Hallgrímskirkju.

Matreiðsluáhuga Sigurðar Árna Þórðarsonar, sóknarprests í Hallgrímskirkju, má rekja til æskuáranna þegar hann gerði sér grein fyrir því að elda mætti silung með mismunandi hætti og að krydd væri undraefni. „Foreldrar mínir ræktuðu fjölbreytilegt grænmeti. Svo var ég á unglingsárum stórveiðimaður norður í Svarfaðardal og týndi marga tugi lítra af berjum á haustin. Það er platveiðimaður sem ekki lærir að gera að fiski og elda.“

Inn á vef sínum www.sigurdurarni.is, birtir Sigurður m.a. greinar, pistla og hugvekjur en líka ýmsar ljúffengar uppskriftir. „Vinir okkar hjóna voru alltaf að biðja um þessa eða hina uppskriftina svo við gáfum bara út matreiðslubók eitt árið og gáfum vinum og fjölskyldumeðlimum í jólagjöf. Þar sem óskirnar héldu áfram og ég var með heimasíðu var auðvelt að smella inn uppskriftum sem eru þarna í bland við hugleiðingar um lífið, prédikanir, þjóðmál og annað sem prestur skrifar um.“

Mikilvægt að borða saman

Eiginkona Sigurðar, Elín Sigrún Jónsdóttir, er að hans sögn betri bakari en hann og líka næmari á uppskriftir. „Hún veit að ég er mikill matfaðir og vil helst elda og hafa marga í kringum mig og gefa mörgum að borða. Því sendir hún mér uppskrift um miðjan dag eða kaupir hráefni og tilkynnir mér að hún hafi fundið þessa góðu uppskrift. Ég verð kátur þegar maturinn er góður, allir borða og standa upp frá borðum með hrós á vörum.“

Starf sóknarprests getur verið mjög annasamt og vinnudagar langir. Góður matur í góðum félagsskap skiptir því Sigurð miklu máli. „Í kirkjunni stöndum við prestarnir við borð, altarið. Og í safnaðarheimilum kirkna eru borð og samfélag. Jesús Kristur var veislukarl. Hann er minn maður. Kirkja er í þágu lífsins. Að borða saman er mikilvægt, samtölin eru mikilvæg og við snertum hvert annað tilfinningalega þegar við eigum samfélag. Það vissi Jesús Kristur og ég tek mark á því, líka heima.“

Áhugi á Biblíumat

Miðjarðarhafsmaturinn, bæði hráefnin og kryddin, eru uppáhald Sigurðar. „Biblíumatur er sértækt áhugaefni og mig langar til að dýpka þekkingu mína á klassísku hráefni fornaldar því það er heilsufæði nútímans. Ég verð í Berkeley í Kaliforníu næstu mánuði og mun örugglega fara á heilsumarkaðina á San Fransisco-svæðinu.“

Uppskriftin sem Sigurður gefur lesendum er Maríukjúklingur sem hann segir  vera biblíumat. „Mig grunar að María, móðir Jesú, hafi verið hrifin af svona mat. Hún hefði getað eldað réttinn því hráefnin voru til í þessum heimshluta á uppvaxtarárum Jesú Krists. Og biblíumatur er alltaf hollur og rímar við heilsufæði nútímans.“ 

Til hvers aðventa?

Sex ára drengur sat í kirkju. Söngvar aðventunnar og jólaundirbúnings seitluðu inn í vitund hans. Og minnið brást honum ekki, textarnir frá því í fyrra komu úr sálargeymslunni og hann söng með. Barnakórarnir heilluðu líka alla í kirkjunni. Augu drengsins ljómuðu þegar hann sneri sér að mömmu sinni og sagði með barnslegri einlægni: “Mikið er gaman að lifa.” Mamman sagði mér svo frá þessari jákvæðu upplifun barnsins.

Aðventan er komin. Þessi tími sem er “bæði og” en líka “hvorki né.” Aðventan er samsettur tími, sem krefst ákvörðunar um hvað skal vera í forgangi. Álagið getur verið mikið og margt sem þarf að framkvæma fyrir jólin. Kröfur, sem fólk gerir til sjálfs sín og sinna á þessum tíma, geta verið miklar og úr hófi. Áður en þú druknar í verkum er ráð að þú staldrir við og spyrjir: “Til hvers? Má ekki sumt af þessu bíða? Er ekki allt í lagi að fresta því, sem er ekki alveg aðkallandi?” Á aðventu er ráð að muna eftir tvennunni: Að vera eða gera. Hvort er mikilvægara að lifa eða strita, klára verk eða njóta lífs, upplifa eða puða? Við prestar heyrum oft á fólki tala um við ævilok að dótið og eignirnar hafi ekki fært þeim djúptæka lífshamingju. Dýrmæti lífsins væri fólkið þeirra, maki, börn, barnabörn og vinir. Getur verið að á aðventu sé mikilvægast að vera með sjálfum sér, fólkinu sínu og vænta hins guðlega?

Veistu hvað aðventa þýðir? Orðið er komið af latneska orðinu adventus. Það merkir koma, að eitthvað kemur. Við, menn megum leyfa okkur að hlakka til og vona. Það er einn af undraþáttum lífsins að við megum í læstum aðstæðum vinna að því mál leysist, vænta að lausnin komi. Í aðkrepptum aðstæðum megum við vona að úr rætist, að inn í myrkar aðstæður nái ljós að skína.

Aðventan þarf ekki að vera puðtími heldur getur verið tími hins innri manns. Aðventan má vera tími eftirvæntingar þess að lífið verði undursamlegt. Boðskapur jólanna er um þá dásemd að allt verður gott. Og á aðventunni megum við undirbúa innri mann, skúra út hið óþarfa og vænta komu hins fagnaðarríka. Aðventan er tími til að núllstilla lífið til að við getum tekið við undri lífsins, að hið guðlega verði. Og við getum sagt við fólkið okkar, sem við elskum. Mikið er gaman að lifa.”

Forseti Eistlands í Hallgrímskirkju

Kersti Kaljulaid, forseti Eistlands er á Íslandi á þingi stjórnmálakvenna. Hún hefur áður komið til Íslands og þekkir Reykjavík. Svo sagði hún Íslendingunum í gærkvöldi að hana langaði að heimsækja Hallgrímskirkju. Ragnar Þorsteinsson, starfsmaður utanríkisráðuneytisins, hafði samband og þar sem við þjónum fólki sagði ég að sjálfsagt væri að taka á móti henni. Nokkrum mínútum eftir  settan tíma kom forsetinn gangandi, í fylgd starfsfólks og öryggisvarða. Hún vildi fremur ganga frá Hörpunni en aka.

Kersti Kaljulaid brosti þegar hún kom að kirkjunni. „Ég hef verið hér áður,“ sagði hún og við gengum inn. Það var margmenni í kirkjunni. „Það er dásamlegt að upplifa ljósið“ bætti hún við og gekk rösklega fram að kórtröppum. Fylgdarfólkið stoppaði við fremstu bekki. Það varð enginn fyrirlestur yfir hópi heldur töluðum við, fjarri hinum, um söng og frelsi, kirkju og mannlíf. Ég hreifst af því á sínum tíma að Eistar sungu sig til frelsis og gaf forsetanum frelsissöngva íslensku þjóðarinnar, Passíusálmana. „Takk, takk“ og hún skoðaði bókina með áhuga. Svo fórum við yfir sameiginlega reynslu af Rússum. „Það herti okkur að þurfa að glíma við þá.“ Þegar við vorum búin að ræða um ljós og birtu arkitektúrs, dást að orgelhljómi kirkjunnar vildi hún fara upp í turninn. “Hálfa leið til himins og til baka?“spurði ég. „Já, og endilega til baka líka.“ Svo hleypti amerískt par okkur fremst í röðina og fylgdarfólk og tveir íslenskir öryggisverðir fórum í lyftunni upp. Eistarnir voru kátir, voru þakklátir fyrir að móttakan var afslöppuð, hlógu hjartanlega í lyftunni enda tekur svolítinn tíma að fara hálfa leið til himins. Forsetinn leit yfir borgina og dáðist að útsýninu. „En gaman að sjá borgina frá þessum sjónarhól.“ Svo var farið niður að nýju. Ekki hægt að láta forseta Íslands bíða.“ Kvaddi með virktum. „Þetta var gaman, en allt of stutt heimsókn,“ sagði hún. „En þá kemur þú aftur“ svarði ég. „Já, svo sannarlega. Þið Íslendingar eigið svo mikið í okkur, það er svo gott á milli þjóða okkar. Og takk fyrir að taka svona vel á móti okkur,“ sagði Kersti Kaljulaid. Opinberar heimsóknir eru oftast ánægjulegar en þessi var sérlega skemmtileg. Stíft form er stundum til hjálpar en  Eistar og Íslendingar þora oftast að fara út fyrir rammann. Takk fyrir mig líka. 

Jólin á leið inn í breytingarskeið

Þórdís Lilja Gunnarsdóttir tók viðtal við mig fyrir jólablað Fréttablaðsins. Það kom út 28. nóvember, 2017. Viðtalið er hér að neðan. Þórdís hafði fyrst og fremst áhuga á að ræða tengsl fjölmenningar og kristni og hvaða afleiðingar samfélagsbreytingar hefðu fyrir kristna hátíð jólanna. Það er stefið og mál viðtalsins.

Um hvað snúast jólin hjá nútímamanninum?

Almennur tilgangur undirbúnings og jólahalds fólks á Íslandi er að bæta líf, heimili og samfélag. Innkaupin, atið, tónleikarnir, hlaðborðin, gjafirnar og boðin eru til að gera lífið betra. Jólin eru tími hinnar opnu jákvæðni, vonar og vilja til að gott gerist. Hið sértæka er svo að trúin er opin fyrir að tími og eilífð kyssast.

Er ekki út úr korti að halda jól og tjalda öllu til fyrir háheilagt aðfangadagskvöld ef maður segist ekki trúa/trúir ekki á Guð og hans einkason, Jesú Krist?

Nei. Öllum er sameiginlegt að vilja hið góða fyrir sig, ástvini sína og samfélag. Jól hafa ytri ramma sem er almennur en síðan setur fólk inntak í þann ramma. Jólin geta verið hátíð allra á miðjum vetri hvort sem fólk trúir á Guð eða ekki. En trú og lífsskoðanir notum við svo til að leggja okkar eigin merkingu í viðburði og æviskeið. Við þörfnust gleðigjafa á mesta myrkurtímanum, óháð lífsskoðunum. Hvernig svo sem við skilgreinum líf og tilgang þess geta jólin hresst upp á lífsgleðina.

Sem kristin þjóð halda Íslendingar einkar svipmikil og hátíðleg jól, en hvað verður um blessuð jólin ef æ fleiri ganga af trúnni?

Ég hef ekki áhyggjur af jólunum. Hefðir eru slitsterkar og og það er frumþáttur mennskunnar að sækja í ljós og gleði. Fólk heldur áfram að halda hátíðir, en viðhorf breyta að einhverju leyti inntaki þeirra og réttlætingum. Jólin eru ekki á útleið heldur á leið inn í breytingaskeið. Fjölmenningin hefur áhrif á okkur en ætti ekki að eyðileggja gleðiefni þjóðarinnar, s.s. jólin. Það eru ótrúlega margar skoðanir í samfélagi okkar um hefðir og venjur, en við þurfum að koma okkur saman um lykilhátíðir. Jólin eru ein þeirra.

Jólin eru mörgum uppáhaldstími ársins og flestir hætta seint að finna til barnslegrar tilhlökkunar fyrir jólahaldinu. Missum við ekki mikilvægan hluta af ævigöngunni ef allt í einu yrðu engin jól, sem er einmitt sá brunnur kærra minninga sem flestallir sækja í með trega og söknuði?

Það verða væntanlega jól flestra áfram, tilhlökkun og upprifin stemming, hvernig svo sem þjóðfélag Íslendinga þróast. En kristnir menn, hindúar, múslimar, efasemdarmenn og fólk flestra lífsskoðana gætu sameinast um að á Íslandi séu jólin hátíð og í þágu flestra. Jólin gegna mikilvægu þjóðarsálarhlutverki. Það er því að illa gert að ráðast á jólahald. En það er hins vegar þarft að gagnrýna allt sem er óhóflegt og falskt. Jólin eiga ekki að vera yfirborðsleg heldur gleðileg.  

Kristnir menn fá fjölmarga frídaga út á kristna trú, bæði á stórhátíðum kirkjunnar og sennilega mætti telja helgidaginn sunnudag með, 52 sunnudaga á ári. Er réttlætanlegt að veita frí frá vinnu út á Jesú Krist ef maður þvertekur fyrir tilvist Guðs og það að vera kristinnar trúar?

Hvíldardagurinn varð til fyrir þúsundum ára af því fólk þarfnast hvíldar. Og var réttlætur með gilda- og trúartengingum. Vinnutími er þó í samtíð okkar samningamál aðila vinnumarkaðarins og hátíðir  kristninnar eru enn mikilvægar í þeim samningum. Trú og þar með kirkjan leggja áherslu á gott mannlíf og umhyggju gagnvart fólki, hafna þrældómi og hvetja samfélag og einstaklinga til að nota frí til lífsbóta. Breyttar þarfir mismunandi lífsskoðana þarf að ræða. Kristnir menn vilja halda í sínar hátíðir, en það er hins vegar ekki sjálfgefð að þær séu þríheilagar.

Jól tróna hæst í einlægum hjörtum barnanna, en hvað segjum við börnunum um ástæður þess að við skreytum, þrífum, bökum, gefum jólagjafir og höldum hátíð, ef ekki er fyrir fæðingu Jesúbarnsins?

Það á alltaf að segja börnum satt. Þau sem aðhyllast kristni minna á fæðingu Jesúbarnsins og skýra út merkingu þess að Guð elskar náttúruna og þar með mennina. Þau sem eru guðlaus segja börnum frá sinni lífsskoðun en geta samt haldið friðarhátíð. Öll ættum við að skýra út fyrir börnum okkar að fólk hefur mismunandi skoðanir og að við þurfum að rækta með okkur virðingu fyrir mismunandi siðum.

Er hræsni að halda jól ef maður er ekki kristinnar trúar?

Nei, það er hægt að halda jól á mismunandi forsendum. Allt fólk þarfnast hátíða um mikilvægustu gildi lífsins. Og jólin eru það fangvíð að þau geta faðmað eða spannað það sem flestir vilja og þarfnast.

Hvaða skilaboð senda þeir út í samfélagið sem setja jólaljós í glugga og skreyta allt hátt og lágt á aðventunni og um jól, ef þeir segja Guð ekki vera til?

Skilaboðin til forna voru að ljós hjálpaði fólki að rata til byggða. Í nútímanum eru ljósin tjáning um að við menn erum eitt þó við séum ekki eins. Okkar hlutverk er að bera ljós og frið á milli. Og kristinn maður trúir að Guð sé sama sinnis.

Fæddist Jesúbarnið á jólum, er frásagan örugglega sönn?

Jól eru haldin á mismunandi tíma í mismunandi heimshlutum. Orþódoksa kirkjan, í gríska og rússneska heiminum, heldur t.d. jól síðar en við í okkar heimshluta. Enginn veit nákvæmlega hvenær Jesús fæddist og ég efast um að hann hafi fæðst aðfaranótt 24. desember árið 0. Fæðingartíminn skipti raunar litlu máli meðal fólks í fornöld. Hátíðartími miðvetrarins var notaður til að minnast fæðingar ljóssveins himinsins. Þegar tíma fer að lengja er góður tími til að gleðjast og táknmálið virkar.

Hvers vegna eigum við að varðveita og halda jól um aldur og ævi?

Meðan við þráum gott líf virka jólin sem vonarhátíð, að dauðinn deyji og lífið lifi. Ég á afmæli á Þorláksmessu og það er gaman að fagna hverju árinu sem líður – og fagna svo jólunum og opna fyrir að allur heimur er gefinn ljósinu en ekki myrkrinu. Ég trúi ekki að veröldin sé í tröllahöndum heldur góðum höndum Guðs og að framtíðin sé raunverulega opin.

Viðtal við Þórdísi Lilju Gunnarsdóttir. Fréttablaðið – jólablað 28. nóvember, 2017.

 

Jólakertið

Vilhjálmur Eyjólfsson á Hnausum í Meðallandi skrifaði æviminningar Einars Einarssonar, oddhags völundar og djákna í Grímsey. Vilhjálmur var vinur minn og ég tölvusetti handrit hans sem var síðar prentað í Dynskógum, héraðsriti Skaftfellinga. Þessar minningar eru hinar merkustu og vænst þykir mér um jólaminningu Einars djákna. Hún er hér að neðan. Nú erum við samverkamenn í Hallgrímskirkju, við Grétar Einarsson, sem er sonur djáknans, mikill dug- hug- og öndvegismaður. 

Jólakertið

eftir Einar Einarsson, djákna.

Það var aðfangadagskvöld jóla og ég hef líklega verið fimm eða sex ára. Það var gott veður og tungsljós, en all mikið frost. Foreldrar mínir höfðu lokið útiverkum. Þetta voru ekki mikil útiverk því skepnurnar voru fáar. Faðir minn gaf kindunum en mamma hrossunum, sem voru aðeins tvö. Og hún var búin að sjóða hangiketið. Búin að baka flatbrauð, steikja kleinur og vinna fleiri eldhúsverk, sem hátíðinni heyrðu til, steypa tólgarkerti og brjóta spýtur í eldinn, til að þurfa ekki að gera það á jóladag. Þá var barið að dyrum og mamma fór til dyra. En gesturinn var góðkunningi okkar, sem átti heima í sveitinni, ekki langt frá okkur og var nú að fara heim til sín. Í hægri hendi hélt hann á einhverju, sem var vafið inn í gljápappír. Ég varð allur að augum og eyrum og gesturinn rétti mér pakkann. „Þú verður að fara vel með þetta,“ sagði gesturinn. „Það má ekki detta. Það getur verið brothætt. Þetta er gjöf, jólagjöf til þín frá huldukonu.“ Ég stóð þarna með pakkann í höndunum, hissa og hálfhræddur. Oft hafði ég heyrt um huldufólk og vissi, að það var gott fólk, en það varð að umgangast það með sérstakri góðvild, annars gat maður haft verra af. Það mátti ekki kasta steinum út í lofið eða einhverjum hlutum, án þess að vita hvað fyrir væri. Þetta gilti auðvitað gagnvart öllum lifandi verum. En okkur var sagt, að forðast þetta vegna huldufólksins. Það mun hafa verið áhrifameira. Í syðri hluta baðstofunnar voru sauðkindurnar og kýrin, værðarleg og jótrandi. Þeim hafði verið gefið betra hey en vanalega og bráðum mundu þau fara að sofa eins og við. Þrátt fyrir jólagjafirnar gaf ég mér tíma til að koma til dýranna og gæla við þau. Ekki gleymdi ég vini mínum, gamla hrútnum. Ég hafði fengið að gefa honum tuggu af góðu heyi og nú vildi hann láta klóra sér. Ég gerði það eins vel og ég gat og svo sagði ég við hann „gleðileg jól.“

Hátíðin nálgast og við erum búin að skipta um föt. Í baðstofunni loguðu 3 ljós, tveir lýsislampar og einn olíulampi, táknmál heilagrar þrenningar. Svo kemur mamma með matinn og hann er betri en venjulega. Og skepnurnar fengu líka betra hey þetta kvöld. Eftir kvöldmatinn var húslesturinn lesinn. Var það jólapredikun úr Vídalínspostillu. Ég sat á vinstra hnénu á pabba og fletti fyrir hann blöðunum, um leið og hann las. Eitt sálmavers var sungið á undan og eftir, pabbi gerði það. Hann hafði mikinn róm og sterkan. Og nú var auðvitað sjálfsagt að skoða jólagjöfina frá huldukonunni. Auðvitað trúði ég þessu, sem hann Eyvi sagði, vinnumaður Stefáns á Hnausum. En seinna komst nú upp, að jólagjöfin var frá Guðlaugu í Króki. Hann Eyvi hafði alltaf gaman að einhverju smáskrítnu. Þegar ég hafði tekið gljápappírinn utanaf kom í ljós stórt og fallegt kerti. Það var gulbrúnt með stórri gylltri rós og úr vaxi, ekki tólg eins og ég var vanastur. Svo fékk ég fleiri gjafir frá nágrönnunum. Og auðvitað varð að kveikja á kertinu undir eins. Ég horfði hugfanginn á ljósið, það var fallegra en á tólgarkerti. Samt gaf ég mér tíma til að koma til vinar míns gamla hrútsins. Ég hafði fengið að gefa honum tuggu af góðu heyi um kvöldið. Nú varð ég aðeins að klóra honum og segja við hann „gleðileg jól.“ Svo fór ég að horfa á kertið mitt. Það var siður, að hafa allt sem rólegast á aðfangadagskvöld. Menn töluðu saman eða lásu í bókum hver fyrir sig. Og svo var einnig heima. Og friður jólanna lagðist yfir gömlu baðstofuna mína, þar sem menn og dýr lögðust til svefns á sömu hæð, aðeins smáhindrun að dýrin kæmust ekki til okkar. Pabbi gekk betur frá kertinu, að það dytti ekki og þau fóru að sofa, en ég vakti og horfði á kertaljósið.

Tíminn leið og ég lá á koddanum og starði á kertið mitt og dýrðina úti fyrir. Jólanóttin var björt en öðru hvoru svifu snjóflugur hægt til jarðar. Tungsljósið glitraði í frostrósum á glugganum og það grillti í puntinn, sem var fyrir utan gluggann. Oft hef ég séð jólaskraut, en alltaf finnst mér, að þetta hafi verið fegurst. Smátt og smátt fannst mér ljósið á kertinu verða skærara og verða eina ljósið og mér fannst punturinn og frostrósirnar breytast í skóg. Það voru grænir grasfletir milli trjánna og þarna milli trjánna svifu litlar hvítar verur. Þær bentu mér til sín og mér fannst, að þær gætu náð mér til sín á þennan hátt. Ég heyrði undurfagran söng, svo fagran, að slíkan söng hef ég aldrei heyrt hvorki fyrr né síðar. Það var ekki venjulegur söngur, orðaskil greindust ekki. þetta voru hljómar án orða, eða var það söngvar lífsins, tónar eilífðarinnar. Ég þokast að glugganum og svo er ég kominn út í græna jörð. Ég er á milli trjánna hjá litlu hvítu verunum. Svo man ég ekki meira. Ég gleymdi stund og stað. Þegar ég vaknaði um morguninn var kominn bjartur dagur. Kertið mitt var auðvitað löngu útbrunnið. Aðeins kveikurinn lá enn samanhringaður í skálinni, sem kertið var sett í. Síðan þetta gerðist er langur tími liðinn, margir tugir ára. Samt man ég þetta eins og það hefði skeð í gær. Og enn í dag finnst mér eins og að aldrei hafi slokknað á þessu dásamlega kerti, jólakertinu mínu, sem huldukonan gaf mér. Svo bjartur getur helgidómur góðra minninga orðið. Og þegar ég ætla að fara að sofa á aðfangadagskvöld, þá finnst mér ennþá, að nú sé kertið mitt komið, stóra gulbrúna kertið með fallegu rósinni.