Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Kletturinn Alcatraz

 

Hvenær erum við innan hrings mennskunnar og hvenær utan hans? Hvenær erum við tengd öðrum og hvenær ekki? Hvernig líður manni, sem er greindur frá mannfélagi, kippt út úr menningunni og færður nauðugur út í eyju, sem enginn má heimsækja nema með sérstöku leyfi og undir ströngu eftirliti? Hvernig líður manni, sem fjölskylda hans segir skilið við vegna glæpa og er síðan einagraður með siðlausum morðingjum? 

Alcatraz-eyja er í San Francisco-flóa, einangruð en er þó fyrir allra augum. Eyjan blasir við af öllu flóasvæðinu. Hún sést vel frá austurlandinu, t.d. Berkeley. Þegar gengið er um hafnarsvæðið í San Francisco sést hún vel, enda aðeins um tveggja kílómetra fjarlægð frá landi. Og þegar maður röltir yfir Golden Gate-brúna – eða ekur yfir – horfir maður niður á hana. Fyrrum var eyjan fuglaparadís. Vegna einangrunar var svo farið að nota klettinn til að hýsa fanga. Á fjórða áratug tuttugustu aldar var byggt rammgert öryggisfangelsi til að hýsa hættulegustu fanga Bandaríkjanna. Reglan í bandarískum fangelsum var einföld: „Hegðaðu þér vel annars verðurðu sendur á Alcatraz.“ Þar var endastöðin, sem ekki var hægt að flýja (hugsanlega hafa þó þrír sloppið). Á sjöunda áratugnum ákvað Robert Kennedy að leggja fangelsið af.

Ég heimsótti Klettinn með þremur sonum mínum og konu minni. Við höfðum séð hasarkvikmyndir, sem áttu að gerast þar eða lesið um fjöldamorðingjana sem þar voru vistaðir. Við fórum frá bryggju 33 San Francisco-megin. Og það var eins og að fara um borð í flóabátinn Baldur. Það gustaði á leiðinni yfir sundið og hrollurinn leitaði í kroppinn. Þungur straumur var og er í sundinu og hann var ein af ástæðunum fyrir að setja fangelsi í eyjuna. Það var og er yfirmannleg þrekraun að synda til lands vegna strauma.

Við gengum upp í eyjuna. Mannvirkin voru stór en skemmd vegna viðhaldsleysis. Við heyrðum leiðsögumenn segja sögu þrenginga, sem var allt öðru vísi en saga lífseyja eins og Flateyjar, Hríseyjar eða Vestmannaeyja. Á Alcatraz var líf fólks í bið. Kletturinn var ekki fyrir mannlíf, heldur til að vernda mannlíf fyrir ólánsmönnum, sem voru færðir út úr lífinu af tillitssemi við hina. Þarna voru þeir úti, með byssur á sér, undir eftirliti og fjarri lífinu.

Þjóðgarðastofnun Bandaríkjanna stýrir heimsóknum í eyjuna og gerir vel. Eins og aðrir gestir fengum við heyrnartól fyrir leiðsögn og stýrðum sjálf hversu hratt eða hægt við fórum. Sögurnar um fanga og tilfinningar þeirra voru sterkastar. Við komumst að því að á hátíðadögum barst ómur frá skemmtunum frá landi. En þegar veröldin hló varð harmur fanganna þungur. Þegar glaumurinn í landi barst út og í eyrun skar í hjarta og einsemdin varð stingsár.

Einn fanginn sagði frá því, að fjölskyldan hafði algerlega snúið baki við honum. Hann hafði komið óorði á fókið sitt. Honum var útskúfað, hann var náðarlaust úrhrak. Hann var morðingi í versta fangelsi Bandaríkjanna. Hann var utan hrings mennskunnar. Öll tengsl við hann voru rofin, engin bréf bárust, engin símtöl heldur og engin kom. Náðarlaus maður vænti einskis en beið aðeins endisins. Honum brá því þegar honum var tilkynnt, að hann hefði fengið heimsókn og ætti að fara að glerinu. Þar var komin systir hans. Yfirgefinn maður og ósýnilegur sem enginn yrti á nema sem fanga til frambúðar. En allt í einu var honum kippt inn í hringinn. Systir kom út úr dimmu fjölskylduútskúfunnar, fór yfir sund, upp á klett, virti lánalausan bróður viðlits, sá hann og yrti á hann. Að einhver skyldi vitja hins útskúfaða var honum djúp upplifun og breytti lífi hans. Maðurinn var uppreistur í kröm sinni. Hans var vitjað. Náðin var ekki ekki horfin.

Hvnær ertu í sambandi og hvenær ertu einmana? Hvenær ertu innan hrings og hvenær utan? Við höfum þörf fyrir tengsl, að vera séð, heyrð og virt. Mennska okkar varðar tengsl við fólk. Við þörfnust frelsis, inn á við, meðal fólks og upp á við – andlega.

Kletturinn og öll fangelsi heimsins eru tákn um menn á nöfinni. Hvað er maðurinn og hver er mennskan. Ertu séð ertu virt? Sér þig einhver, metur þig og jafnvel elskar?

„Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna,
tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar,
hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,
og mannsins barn að þú vitjir þess?
Þú gerðir hann litlu minni en Guð,
krýndir hann hátign og heiðri … “

Við erum á rófi einsemdarinnar. Við erum sandkorn á strönd eyjar í tíma. En þó við séum einmana, óséð og enginn mannvera hlusti – erum við samt dýrmæti, sem Guð man eftir, virðir og metur. Aldrei utan Guðshringsins.

Klókir fuglar

Vinur minn sagði mér frá því að hann hefði séð máv fljúga með skel í kjaftinum og sleppa svo yfir fjörugrjótinu. Skelinn féll og brotnaði. Og það var það sem fuglinn vildi. Mér þótti þetta merkileg saga um klókindi svangs fugls sem ekki réð við að opna skel sem fiskurinn lokaði. Svo vorum við synir mínir á leið við vesturenda flugbrautarinnar Skerjafjarðarmegin. Þá sáum máv koma fljúgandi frá sjó með eitthvað í kjaftinum og stefna að flugbrautinni. Ég sagði mínum mönnum að fylgjast með fuglinum. Við sáum hann hækka sig þegar komið var yfir malbikið og svo sleppti hann. Já, mikið rétt það var skel sem maskaðist á flugbrautinni. Mávurinn flaug niður, settist að snæðingi og hóf sig svo til flugs heldur mettari. Þeir eru klókari mávarnir en ég hafði ímyndað mér í einfeldninni. Hefur þú orðið vitni að klókum mávi við skeljabrot?

Hve hratt er hægt að brjóta boðorðin?

Hefur einhver brotið öll boðorðin náast á sömu mínútunum? Flestir segja nei, það sé ekki mögulegt. Ísrael, þjóð Móse, gleymdi bæði Guði og mannasiðum við fjallsrætur Sínaí og dansaði í kringum gullkálfinn og þá molnuðu orðin tíu. Móses mölvaði báðar steintöflur boðorðanna og braut þar með öll boðorðin! En það eru ekki margir svo margbrotnir sem Móses. Öllum verður þó einhvern tíma hált á freistingasvellinu.

Á vefnum er til skondin stuttmynd, sem  fjallar um mann, sem tókst að brjóta öll boðorðin frá því að hann vaknaði og áður en hann var fullklæddur.  Maðurinn varð meira að segja öðrum manni að bana fyrir algera slysni, vegna þess að hann var á röngum stað. Eitt brot leiðir af öðru.  Þetta kostulalega myndband er að baki smellunni

Gildi Íslendinga og boðorðin

Hvernig er ellefta boðorðið? Dr. Þórir Kr. Þórðarson kenndi gamla testamenntisfræði í HÍ og spurði nemendur sína þessarar spurningar. Nemendurnir könnuðust ekki við neitt slíkt í Biblíunni svo Þórir svaraði sjálfur: „Þið skuluð ekki vera leiðinleg!“ Og svarið og afstaðan er túlkun á boðorðunum, í fullkomnu samræmi við áherslu þeirra á að lífið eigi að vera gott og skemmtilegt. Trúarhefð Gyðinga og síðan kristninnar er um gleðifréttir, fagnaðarerindi.

Eru boðorðin í Biblíunni gleðimál? Eru þau hagnýt fyrir lífið eða neikvæð bönn? Hafa fornir vegvísar Biblíunnar gildi fyrir allt fólk og á öllum tímum? Þetta eru spurningar sem við prestar Hallgrímskirkju tökum alvarlega. Við munum í prédikunum ræða um gildin í  samfélagi okkar og gildi boðorðanna í messum næstu vikurnar. 27. janúar verður fyrsta boðorðið íhugað og það síðasta í messunni 7. apríl. Verið velkomin í Hallgrímskirkju. Hvernig eru þín boðorð?

Irma Sjöfn Óskarsdóttir og Sigurður Árni Þórðarson, prestar Hallgrímskirkju

Litir messuskrúða og helgisiða – litúrgía :)

Í messuskrúða og helgihaldi þjóðkirkjunnar hafa síðust áratugi aðallega verið notaðir fjórir litir, grænn, hvítur, rauður og fjólublár. Litanotkun þjóðkirkjunnar verður fjölbreytilegri og ríkulegri með meiri tengslum við erlendar kirkjudeildir og meiri þekkingu á helgihaldi og helgisiðum.  Þeir litir sem notaðir eru í helgihaldi kirkna heimsins eru margir. Hér er yfirlit en þó ekki tæmandi listi.

Konungblátt

Konungbláminn er litur konungsins og notaður til að fagna hinum konungborna. Er einnig tákn næturhiminsins sem stjarna jólanna birtist á og minnir því á Jesúkomuna. Ég mæli með að blátt verði notað á aðventutímanum og þá til aðgreiningar frá fjólubláa litnum á föstunni fyrir páska. Aðventutíminn er tími eftirvæntingar og biðarinnar eftir að Jesús Kristur fæðist í heim manna.

Skærblátt

Táknar gjarnan himininn. Í ýmsum greinum kristninnar er skærblámi tákn fyrir Maríu, drottningu himinsins og stjörnu hafsins. Skærbláminn táknar einnig frumvötnin í 1. Mósebók, vötnin við upphaf heimsins.

Bleikt

Táknar gjarnan gleði og hamingju. Í ýmsum kirkjudeildum er bleikt notað á þriðja eða fjórða sunnudegi í aðventunni fyrir jól og þá til að tákna gleði og fögnuð vegna væntanlegrar fæðingar Jesú Krists. Svo má gjarnan verða einnig á Íslandi.

Rósrautt

Notað til að tákna gleði og hamingju og er líka notaður í stað bleika litarins á þriðja eða fjórða sunnudegi í aðventu.

Hvítt

Hvítt táknar gjarnan hreinleika, fullkomleika og heilagleika. Hvítt er notað á hátíðum kirkjuársins, fyrsta sunnudegi í aðventu, aðfangadegi og jóladögunum (nema öðrum jóladegi, þ.e. á Stefánsmessu), þrettándasunnudegi, skírdegi, páskum og eftir páska, þrenningarhátíð og allra heilagra messu o.fl. Einnig víða í kirkjum heimsins notað við skírnir, giftingar, vígslur og einnig við útfarir og þá sem tákn upprisu.

Silfrað

Stundum notað – vegna skærleika – í stað hvíta litarins.

Gyllt

Tákn gleði, hátignar og hátíðar. Gyllti liturinn gjarnan notaður til að tákna návist Guðs. Oft notað með hvítum á hátíðum, ekki síst á jólum og páskum. Oft notað sem viðbótarlitur á öðrum hlutum kirkjuársins.

Gult

Guli liturinn er ljóstákn og notað um návist Guðs. Tákn um endurnýjun og sem vonarlitur, gjarnan tengt upprisu Jesú. Notað gjarnan í stað gyllts eða hvíts og stundum sem viðbótarlitur með öðrum lit á ýmsum tímabilum kirkjuársins, t.d. páskum.

Grænt

Grænt táknar gjarnan líf, vöxt og viðgang og von. Notað á Íslandi á tímanum eftir þrettánda og fram að föstu, sem og langa tímabilið eftir þrenningarhátíð og að mestu til loka kirkjuársins. Grænn er mest notaði litur kirkjuársins á Íslandi.

Ljósgrænn

Ljósgrænn stundum notaður sem ígildi hins græna. Í sumum kirkjudeildum er ljósgrænn notaður á föstunni fyrir páska en grænn notaður á tímanum eftir hvítasunnu.

Fjólublár

Fjólublár táknar gjarnan þjáningu, iðrun yfirbót, undirbúning og sorg. Þetta er algengasti föstuliturinn. Stundum notaður sem konungslitur. Hefur verið notaður á Íslandi á jólaföstu líka og er hinn eiginlegi föstulitur skv. handbók kirkjunnar. Ég legg til að við leggjum hann af sem aðventulit og notum bláan í hans stað eins og margar mótmælendakirkjur gera.

Vínrauður

Vínrauður er tákn þjáningar og er oft notaður í stað fjólubláa litarins. Gamlir rómanskir höklar á Íslandi voru gjarnan í þesum lit.

Grátt

Grár er litur ösku og gjarnan litur sorgar og iðrunar. Í ýmsum kirkju heimsins er þessi litur notaður á öskudegi og á föstu sem og á dögum föstu og bæna.

Svartur

Svartur táknar dauða og sorg. Svartur er notaður á föstudeginum langa. Aldrei notaður sem viðbótarlitur með öðrum litum. Svartur gjarnan notaður í stólur sem notaðar eru við útfarir.

Rauður

Rauður er litur nándar Guðs, litur baráttu trúarinnar og jafnvel fórna sem menn færa vegna trúar sinnar, þ.e. píslarvættis. Þá er rauði liturinn blóðtákn. Rauður er litur hvítasunnunnar, kristniboðsdags og minningardaga, t.d. Stefánsdags ef hann er haldinn hátíðlegur 2. jóladag. Kaþólikkar nota stundum rautt á pálmasunnudegi til að minna á yfirvofandi dauða Jesú.

Samantekt SÁÞ