Fyrir mörgum árum fór að vitja konu, sem hafði ekki lengur fótavist. Þegar við höfðum rætt saman um stund, reis hún upp við dogg í rúmi sínu, horfði alvörugefin á prestinn sinn og spurði: “ Er það rétt, að presturinn skjóti engla?” Ég hváði við og hún endurtók: “Er það rétt, að presturinn skjóti engla?” Til skýringar bætti hún við, að hún hefði heyrt, að presturinn hefði gengið til rjúpna, henni væri illa við slíkt og teldi það löst á ráði allra manna og hvað þá klerks. Já, ég viðurkenndi að ég hefði skotið svoleiðis engla og hún áminnti sálgæti sinn að hætta slíku. Síðan hef ég ekki skotið engla mér vitandi. Sjokkspurning hinnar öldruðu konu hafði tilætluð áhrif. Ekki held ég þó, að það sé dauðasynd að skjóta rjúpur. Öll nærumst við á því, sem lifað hefur og gefur öðru líf. Það er einn þátturinn í speki hinnar kristnu hefðar um líf Jesú og lífgjöf heimsins.
Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar
113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.
Vegir Drottins
Hvað er trú og hvernig kemur hún fram? Hvernig er Guð? Hefur guðstrú einhver áhrif á siðferði fólks? Og ef svo er hvað gerir trúað fólk og hvernig bregst það við lífskreppum? Getur verið að trú sé stundum hindrum í samskiptum? Eða eru kreppur fólks fremur tengdar geðrænum sveiflum fólks en hugmyndum þess eða lífsskoðun? Það eru svona spurningar sem eru að baki þáttaröðinni, sem sýnd var í ríkissjónvarpsstöðum Norðurlanda haustið 2018. Sýndir voru tíu þættir í fyrri umferð, en sú seinni enn ekki verið sýnd á Íslandi, hvað sem verður.
Í Vegir Drottins er fylgst með litríkri en furðulegri prestsfjölskyldu í Danmörku. Ég þekki margar prestsfjölskyldur, íslenskar sem erlendar. Sumar eru skrítnar – en þessi prestsfjölskylda í Kaupmannahöfn er ólík öllum þeim, sem ég þekki. En dramatíkin verður nú að hafa eitthvað til að vinna með. Góð saga á ekki að líða fyrir sannleikann eða jafnvel trúverðuleikann. Og Vegir Drottins er ekki um raunverulega fjölskyldu og ekki heldur um danskt kirkjulíf. Heldur hvað?
Flest fer úrskeiðis í lífi Jóhannesar prests, fjölskyldu hans og söfnuði. Lestir mannanna eru fyrirferðarmiklir og talsverður skortur er á dyggðum. Fjölskyldufaðirinn er drykkjurútur, litrík týpa en bæði nærsýnn og þröngsýnn í guðfræði. Svo heldur þessi íhaldsami og sjálfumglaði karl framhjá konunni sinni. Þau eiga tvo syni sem eru ólíkir. Sá yngri er hlýðinn gæðadrengur sem tapar áttum, viti, ráði og rænu eftir að hann varð konu að bana í herþjónustu erlendis. Og hann deyr í lok tíunda þáttar, verður fyrir bíl og helst að skilja að sektin, sem hann bar, hafi orðið honum til dauða. Eldri sonurinn er vargur í samskiptum, en tekur þó sönsum þegar hann fer út fyrir kassa fjölskyldulífsins og opnar fyrir visku og húmor austursins. Svo er það mamman, sem hefur þjónað karli sínum og kerfum hans alla tíð. Hún hefur ekki hlustað vel á sjálfa sig fyrr en norsk tónlistarkona spilar upp tilfinningar hennar. Það dagar á prestsfrúna, að hún hafi bælt hneigðir sínar. Í dramatískri flækju þáttanna gerist margt og hraðinn er mikill. Stóru spurningar um lífið þyrlast upp. Hver er tilgangur með þessu lífi? Hvernig eigum við að lifa sem manneskjur? Hver eru tengsl mín við aðra? Hvað með Guð? Er Guð farinn, dáinn, úreltur? Eru vegir Guðs órannsakanlegir, þ.e. ófærir eða kannski óvæntir?
Um valdið sem brotnar
Í þáttunum verðum við vitni að því þegar djúptækar breytingar verða og gamall heimur hrynur. Jóhannes, fjölskyldufaðirinn, er tákn fyrir úrelt karla-valdakerfi. Það stenst ekki lífið, menningarlegan fjölbreytileika, breytt samfélag, innflytjendastraum og breytt samfélagsviðmið. Gamli presturinn stenst ekki siðferðilega, guðfræðilega eða félagslega. Hann bregst öllu og öllum, sjálfum sér, konu sinni, sonum og þar með Guði, sem hann notar sem einhvers konar vonaregó sjálfs sín. Og Jóhannes prestur er æpandi tákn, um úrelta valdastofnun trúmála og þegar dýpst er skoðað valdastofnanir almennt.
Trú?
Eru þættirnir um trú og Guð? Nei, ekki sérstaklega. En kirkja og trú kemur oft við sögu vegna þess að það er prestsfjölskylda en ekki forstjórafjölskylda sem er notuð til að tala um samfélagsbreytingar, gildaþróun og breytt lífsmynstur fólks, sem reynir á samskipti og tengsl. Þættirnir Vegir Drottins eru minna um Guð og trú en um fordóma og úrelt gildi, sem leiða fólk í ógöngur, siðferðiskrísur og samslátt gilda og hugmynda á breytingatímum vestrænna samfélaga. Stofnanir, og þar með talin kirkjustofnun, höndla illa að þjóna fólki í kreppum og á hraðferð í tilraunum með gildi. Tröppustofnanir þjóna oft fremur þörfum stjórnenda og eigenda en þörfum fólks. Kirkjur í hinum vestræna heimi mega gjarnan muna að yfirmenn, kirkjueigendur, hafa tilhneigingu til að nota stofnun í eigin þágu. Í þáttunum er trú túlkuð, sem flótti frá lífinu fremur en aflvaki lífs fólks í lífsbaráttu. Trú í þessum þáttum aðskilur fólk frekar en tengir saman í samfélag, sem er skilgreining kirkju. Trú í þessum þáttum lengir bil milli fólks og skaðar hið mannlega, sem er andstæða klassísks trúarskilnings kristninnar.
Aðalpersónan hefur einfeldningslega afstöðu til trúar, siðferðis og lífs. Hann lifir í aðskildum siðferðisheimum. Á góðum dögum getur Jóhannes prestur haldið smellnar ræður, en svo lemur hann fólk óhikað með þröngsýnum boðskap lífsfjarlægrar bókstafshyggu. Hann réttlætir alls konar bresti og eigin óra með trú og guðstengslum. Trúartúlkun þáttanna er því fremur sjúkleg en heilbrigð. Í prestsfjölskyldunni eru blóðböndin sterk þó allt sé í rugli. Allir hafa sínar þarfir og upplifanir, sem þó er ekki unnið úr. Þar er hreyfikraftur þáttanna. Þetta er lemstruð fjölskylda, sem passar að ræða ekki erfiðu málin og tabúin. Og kannski eru margar nútímafjölskyldur þannig. Fólk vill vel, vill vera gott við hvert annað, stendur saman á tímum áfalla en á erfitt með að höndla aðalmál lífsins og vinna í gegnum vandamálin.
Skíthælar
Vegir Drottins fjalla sýna hve fólk getur verið miklir skíthælar. Söguhetjur þáttanna eru sjúkar. Annar sonurinn, sem virðist góður, er morðingi. Hann deyr að lokum vegna brots, sem ekki var unnið með. Áföll í lífinu deyða. Hinn sonurinn snýr baki við trú og siðferði og verður sjálfhverfur notandi fólks. Honum er þó ekki alls varnað fremur en mörgum dólgum heims. Þættirnir fjalla um spillt vald, valdastofnanir og frekju fremur en um kærleika. Þó prestakraginn hafi verið hengdur á þessa þætti eru þeir um hið sammannlega en ekki sérkirkjulega.
Sýndarlíf og völd
Vegir Drottins sýna okkur sýndarmennsku marga í samfélagi okkar. Leikrit fólks, sýndargerningar, gagnvart öllum öðrum verða að halda áfram. Allir eiga og verða að leika sitt hlutverk samkvæmt stýrikerfi hins drottnandi stjórnanda. Og þegar þarfir vanhæfs stjórnanda og spilltrar stjórnar stýrir ferð fer illa. Vont vald spillir. Hið illa veldur böli og dauða. Fjölskyldan í þáttunum gæti verið hvaða valdafjölskylda sem er, peningafólk, eigendur fyrirtækis með marga í vinnu, pólitísk valdafjölskylda. Staða og vald spilla þegar eftirlit og ganrýni fær ekki að hreinsa vitleysu og spillingu. Prestar eiga trúnaðarsamtöl við fólk á ögurstundum lífs og vita að í öllum fjölskyldum er eitthvað rotið í pokahorninu. Margir burðast með stór og óuppgerð mál, sem grátið er yfir þegar mismikið elskaðir fjölskyldumeðlimir deyja.
Elskan mest?
Hver elskar mest? Það er eiginlega mamman. Hún elskar karlinn sem er ómögulegur, drengina sína sem eru um margt mjög misheppnaðir, hún elskar líka norsku vinkonu sína. Hún talar ekki stöðugt um Guð en þjónar í kærleika.
Sonurinn Ágúst er einfeldningurinn. Hann vill vel og hegðar sér vel. Reynir að þóknast en er veikur í ósjálfstæði sínu. Hann höndlar ekki sekt og vinnur ekki úr. Í þúsundasta lið… sekt kynslóðanna kemur fram í honum og á honum. Hann deyr vegna sektar sinnar en kannski annarra líka. Getur einn dáið fyrir marga? Ágúst er sem fulltrúi ungs fólks. Hann leitar að hlutverki en misskilur sjálfan sig, stöðu sína og hlutverk, og stendur utan við líf fólks.
Húmor og leikur
Mér hefur lengi þótt húmor fléttast um allt hið danska samfélag. Og hlýja kímni hefur oftast liðast inn í danskar kvikmyndir og þætti. En furðulegt nokk, það vantar alveg húmor í Vegi Drottins. Í starfi presta sem eru alltaf við mörkin, dauða og fæðingu, kreppur og stórhátíðr er hláturinn eins eðlilegur og hinn djúpi grátur. Samtöl verða því gjarnan snarpdjúp. Í kviku fólks er myrkur og ljós, reiði og hlátur. En í samtölunum í þáttunum eru flest samtöl yfirborðsleg og án sveiflu, dýptar og húmors. Það eru fáir prestar sem eru svoleiðis. Í þessum þáttum er heilmikið talað um Guð en mjög lítið um hvernig trú hefur áhrif á gott líf. Fjölskyldudramað stýrir öllu og svo er trú og Guð eins og uppfylliefni.
Þættirnir eru sjónræn veisla. Myndatakan er flott, myndmálið kraftmikið og flæðandi táknmálið vekur marga þanka. Stjörnufans danskra leikara kemur fram. Lars Mikkelsen er frábær leikari, en karlinn, sem hann leikur verður heldur leiðigjarn þegar á líður. Ann Elenora Jörgensen túlkar prestsfrúna vel á leið hennar út úr meðvirkni og til sjálfsvirðingar. Simon Sears er skemmtilega frakkur og sveiflar sér milli andstæðna manns í leit að sjálfi, heilbrigði og trú. Adam Price er óumdeilanlega meistari.
+ Helgi Sigurðsson +
Helgi var tákn um tímann. Hann stóð við búðarborðið, með allar veggklukkurnar að baki sér og varð sjálfur taktur eða tímapúls. Þau, sem fóru um Skólavörðustíginn, sáu hann og gott ef Helgi var ekki sem hin menska ásjóna tímans, laðandi, hlýlegur og viðmótsgóður. Og svo þegar úrin okkar töpuðu sínum slögum og duttu út úr tímanum fórum við til Helga með gripina. Og hann sagði stundum: „Komdu eftir klukkutíma.“ Helgi átti alltaf ráð, lagaði og hreinsaði gangverkið. Og margir klóruðu sér í höfðinu yfir lága verðinu hjá honum. Stundum var jafnvel erfitt að fá að borga og eins og úrsmiðnum væri beinlínis gerður greiði að komið væri með klukku og bilaðan pendúl til hans. Klukkurnar lifnuðu í höndum Helga og svo sagði hann sposkur skömmu áður en hann lokaði búðinni sinni: „Það getur enginn stöðvað tímann.“ Og nú er þessi vökumaður miðborgarinnar farinn, taktur Skólavörðustígsins er orðinn annar. Hvað gerði hann við mörg úr og hvað seldi hann margar klukkur? Hvað sá hann aumur á mörgum og efldi lífslöngun þeirra? Það veit enginn, en nú er hann að læra takt eilífðarinnar. Hann leiðir vonandi Eddu sína eða ræðir við son sinn, syndir á eilífðartíma í laugum himinsins og kannski skreppur hann á eitthvert skemmtiskak á gleðivíkum? Það stoppar enginn eilífðina.
Upphaf, fjölskylda og nám
Helgi Hreiðar Sigurðsson fæddist í Reykjavík 5. febrúar árið 1934. Móðir hans var Júlía Ósk Guðnadóttir (30. júlí 1907 – 3. feb. 1996) og Sigurður Jónsson (24.12. 1901 – 19.2. 1975). Systkinin voru þrjú. Helgi var elstur. Sigurður Jónas fæddist 1939 og Jóhanna Guðný árið 1940. Nú eru þau öll látin og eilífðin hefur umfaðmað þeirra tíma.
Helgi bjó á barnsaldri og unglingsárum hér í nágrenni Skólavörðuholtsins, í Mjóuhlíð og á Leifsgötu. Austurbæjarskóli varð hans skóli. Sem unglingur fór hann í sveit á Seljaland undir Eyjafjöllum og synti í Seljavallalaug. Þegar hann hafði aldur til og fann meistara, sem vildi taka við honum, hófst merkileg vegferð Helga. Hann lærði hjá Jóhannesi Norfjörð HF og byrjaði úrsmíðanámið árið 1952 – í miðjum miðbænum, í Austurstræti 14, þar sem Kaffi París er núna. Helgi sagði síðar frá, að verkstæðið hafi verið á þriðju hæðinni, en búðin var á götuhæð. Hjá því stönduga fyrirtæki vann hann í fjögur ár, tvö voru námsár og síðan önnur tvö og þá var hann fullveðja úrsmiður. Eftir það stofnaði hann eigið verkstæði og var fyrst til húsa í Morgunblaðshúsinu í Aðalstræti. Þar var fjölskrúðugt mannlíf og húsið var vísir að fyrsta mollinu í Reykjavík. Síðan færði Helgi sig yfir á Vesturgötu 3 og árið 1967 upp á Skólavörðustíg, í Pfaffhúsið. Helgi varð margoft fyrir því að brotist var inn í verslun hans, en því tók hann sem hverju öðru hundsbiti og af æðruleysi. Hélt bara útsölu ef þýfið fannst. Helgi var áður en yfir lauk búinn að starfa á sjöunda áratug í sínu fagi og á Skólavörðustígnum í hálfa öld. Og nú kveðjum við hann í þessari kirkju sem blasti við Helga í hvert einasta sinn, sem hann kom til vinnu eða fór út fyrir dyr síns vinnustaðar. Þetta hlið himins var sjónarrönd Helga meirihluta lífs hans.
Lífið í miðborginni
„Við stoppum ekki tímann,“ sagði hann. Helgi varð eins og klettur í straumi tímans í miðbæjarlífinu. Og hann gætti að því, að tíminn yrði skemmtilegur, glaðlegur, vinsamlegur og til góðs. Helgi eignaðst vini í kaupmönnum og starfsfólkinu í Miðbænum. Hann mætti á Prikið í Bankastrætinu í byrjun dags og hitti Miðbæjarfélagana, fékk sér kaffi, rabbaði um pólitík eða stórmál samfélagsins, hló með vinum sínum og treysti böndin. Mannlífið var litríkt og Óli blaðasali kom við og kastaði kveðju á hópinn og kom út blöðum. Helgi var hlýr í samskiptum og kollegarnir, sem áttu í samkeppni um hylli og krónur kúnanna, voru vinir hans en ekki andstæðingar; Garðar Ólafsson, Magnús Baldvinsson, Carl A Bergmann og Kornelíus. Helgi lánaði þeim tæki og varahluti þegar þá vanhagaði um eitthvað og þeir lánuðu honum sömuleiðis. Já, Helgi var líka vinur Guðnýjar og Guðmundar á Mokka, Höskuldar á Barónsstígnum, Ófeigs og Hildar, Önnu Maríu og allra þeirra sem versluðu og sinntu þjónustustörfum í þessum hluta bæjarins. Þessir sömu vinir úr nágrenninu voru honum mikill stuðningur alla tíð og líka þegar vinnþrekið minnkaði í lokin. Þökk sé þeim öllum.
Fyrirmyndarborgari
Það var gaman að koma til Helga, hann var svo kumpánlegur og vinsamlegur og tók að sér listamenn og lífskúnstnera. Steingrímur Sigurðsson, Ketill Larsen og Stórval voru vinir Helga og sátu stundum lengi. En svo fóru hinir kaupmennirnir að fara, vinir hans líka, seldu fyrirtæki sín og létu frá sér starfsstöðvar sínar. En Helgi hélt áfram og varð eins og lifandi kennileiti og tákn um fyrri tíma en líka samhengi fortíðar og framtíðar. Svo var hann fyrirmyndarborgari – á svo mörgum sviðum. Þrautseigja Helga vakti athygli og hlýja hans var rómuð. Það var því eðlilegt að þegar Helgi varð áttræður og enn með eigin rekstur á Skólavörðustígnum, að vinir og fulltrúar Reykjavíkurborgar mættu fyrir framan verslun hans – honum að óvörum – til að færa honum blóm, heiðra hann og syngja fyrir hann.[i]Helgi átti stóran þátt í að gera Skólavörðustíginn að þeirri frábæru verslunargötu sem hún varð. Í lokin var hann orðinn óformlegur en óumdeildur heiðursborgari Reykjavíkur. En hann var ekkert á því að hætta. „Ég er ekki búinn að skrifa uppsagnarbréfið og er ekki viss að ég myndi taka við því. Það er enn gaman að fara í vinnuna á morgnanna“ sagði hann.
Sundgarpurinn
Helgi var ekki aðeins fulltrúi tímans heldur keppti við klukkuna líka. Helgi var einn mesti afreksmaður Íslands í sundi á tuttugustu öld. Hann lærði að synda í Sundhöllinni, sótti hana alla tíð og synti hraðar en aðrir. Helgi gekk í Sundfélagið Ægi nýfermdur unglingurinn og byrjaði að keppa 1950. Hann var nýorðinn 17 ára þegar hann setti fyrsta Íslandsmet sitt. Það var í 800 metra skriðsundi. Og metið setti hann 22. mars, sama dag og hann er jarðsettur, nú 68 árum síðar. Svo bætti hann sama ár Íslandsmetin í 1000 metrunum og 15000 metra skriðsundi. Næstu árin var Helgi skriðsundskóngur Íslands og setti met í millivegalengdum í skriðsundi. Alls setti Helgi tíu Íslandsmet, vann afreksmerki ÍSÍ og komst á verðlaunapall á Norðurlandamóti, enda einn af bestu sundmönnum Evrópu á þeim tíma. Helgi var ekki aðeins frægur fyrir tímana sína heldur líka fyrir hve fallega hann synti. Þessi fagursundmaður varð oftar sundkóngur Íslands en aðrir sundmenn. Helgi synti hraðast, fegurst og nú fer hann skriðið í eilífðarstraumi. Ég hef verið beðinn um að bera ykkur kveðju frá Sundfélaginu Ægi og frá Sundsambandi Íslands.
Edda Sigrún og fjölskyldan
Og svo varð glæsikonan Edda, sem varð á vegi Helga. Henni leist alls ekki á hann þegar hún sá hann fyrst því hann var svo óhreinn. En svo þegar hann hafði farið í bað og hún sá glæsimennið, hreinan og strokin, þá komu stjörnurnar í augu hennar og hann heillaðist af henni. Þau horfðu á hvort annað alla tíð, urðu par síðan – alla æfi – hvað sem á dundi og á dagana dreif. Og jafnvel í svefni leiddust þau og þegar eitthvert barna eða barnabarna sváfu uppí hjá þeim leiddust þau yfir barnið á milli. Og þegar veikindin skildu þau að síðustu árin sat Helgi hjá Eddu sinni og hélt í hönd hennar. Hann elskaði hana alla tíð og hún elskaði hann „Dassa sinn.“[ii]
Þau Edda Sigrún og Helgi bjuggu við barnalán og eignuðust fimm börn. Fjögur þeirra eru á lífi. Sigurður er elstur. Síðan kom Grétar í heiminn skömmu síðar, en Grétar lést á jólum árið 2016. Nokkra ára hlé varð á barneignum eftir fyrstu strákana en svo kom seinna hollið: Helgi Hafsteinn, Edda Júlía og Sigrún Gréta. Sigurður er læknir, Grétar var úrsmiður og starfaði lengi með föður sínum, Helgi Hafsteinn er læknir í Hollandi, Edda Júlía er kennari og Sigrún Gréta er lögildur fasteignasali. Út af þeim Eddu og Helga er nú orðinn mikill ættbogi.
Helgi og Edda voru afkastamikið dugnaðarfólk. Það gegnir reyndar furðu hve mikill kraftur var í húsa- og bygginga-málum þeirra. Þau Helgi byggðu í Rauðagerði með Sigurði og Júlíu, foreldrum Helga, og stuttu síðar í Stóragerði og ein byggðu þau 1973 stórt fjölskylduheimili í Hlyngerði. Þau tóku líka til hendinni við húsbyggingar eða húsaviðgerðir á Stokkseyri, við Skerjafjörð, á Seltjarnarnesi og í Garðabæ.
Minningarnar
Hvaða minningar áttu um Helga? Leyfðu þeim að synda flugsund inn í vitund þína. Manstu glettnina, kímnina, jákvæðnina og skyndibrosin, sem breiddust yfir andlit hans. Manstu kviku hreyfingarnar hans, hvernig hann smellti úrsmiðsauganu fyrir hægra augað, beygði sig yfir fíngert úrverkið og hve fimlega fingur hans sneru eða beittu smátólum úrameistarans? Manstu örsmá tannhjól eða varahluti, sem hann bjó til svo hægt væri að koma dýrmætum klukkum í gang að nýju? Manstu húmorinn hans? Og skylduræknina? Vissir þú hve natinn faðir hann var? Hann var óvenjulegur pabbi af sinni kynslóð, smurði nesti og kaffibrauð, skipti á rúmum og passaði ungana sína vel. Hann gekk í öll verk, nema eldamennsku!Svo var hann natinn afi.
Manstu félagsmálamanninn, í Úrsmiðafélaginu, sundhreyfingunni og Frímúrarareglunni? Manstu skíðamanninn og skíðastílinn hans? Manstu ljúfmennskuna, tillitssemi við nágranna og samkeppnisaðila? Manstu snyrtimennskuna? Eða glaðlyndið? Og hve flottur hann var? Í litríkum fötum, litríkur maður. Og myndin af honum við splunkunýjan Citroen Pallas, á leið til Íslands með Gullfossi, sýnir vel glæsileikann. Fulltrúar Reykjavíkurborgar töluðu gjarnan um Helga sem fyrirmynd annarra í umhverfisfegrun og að hann hreinsaði upp sígarettustubba og tyggjóklessur og gætti að umhverfi verslunar sinnar. Manstu hve umhyggjusamur Helgi var gagnvart þeim, sem voru við útkant mannlífsins? Manstu traustið, sem Helgi sýndi fólki? Og hve örlátur hann var? Og svo gladdist hann þegar hann gat gefið vinum sínum fisk þegar hann kom af sjó. Manstu fimi Helga? Og manstu hvað hann átti erfitt með að loka versluninni? Það var eiginlega bara tvennt, sem réttlætti að hann skellti í lás. Það voru útför ástvinar eða að hann væri að fara á sjó með Sigga. Á trillunni leið honum vel, en vildi þó alls ekki fara fyrr en síðdegis. Þá setti hann miða á útidyr búðarinnar: Er farinn á sjó! Það þótti Helga fullgild skýring á, að ekki var hægt að komast í klukkurnar.
Lokin og nýtt upphaf
Og nú er hann á eilífðarstíminu. Nú smellir hann ekki glerauganu fyrir hægra augað framar. Hann leiðir ekki Eddu sína á þessari jörð, heldur einhvers staðar á himneskum Skólavörðustíg. En minningarnar um hann lifa. Brosið hans og hlýja lifir í menningu Íslands og minningu ástvina hans. Enginn stöðvar tímann – og ekki heldur dauðann þegar hann kemur. Nú hefur pendull Helga stöðvast. Hann selur okkur ekki framar Rhythm, Seiko, Citizen eða Orient og alls ekki Rolex. Líf Helga er fullnað, verkin hans líka. Klukkusmiðurinn besti á himnum hefur sagt: „Gott, þú góði trúi þjónn.“ Sekúndur Helga eru orðnar að tikki í tímahafi eilífðar. Við þökkum fyrir líf, tíma, stundir og verk Helga H. Sigurðssonar og biðjum Guð að geyma hann og blessa í himni sínum.
Guð geymi þig og blessi.
Amen.
Kistulagning og útför. Hallgrímskirkja, föstudaginn, 22. mars, 2019. Erfi í safnaðarsal kirkjunnar. Jarðsett í Garðakirkjugarði.
HELGI H. SIGURÐSSON Kt 050234-4799
Helgi H. Sigurðsson fæddist í Reykjavík 5. febrúar 1934. Hann lést á Hrafnistu í Reykjavík laugardaginn 16. mars 2019. Foreldrar Helga voru Sigurður Jónasson, ritsímavarðstjóri frá Seyðisfirði, f. 24.12.1901, d. 19.02.1975 og Júlía Ósk Guðnadóttir húsmóðir, f. 30.07.1907, d. 03.02.1996. Helgi ólst upp hjá foreldrum sínum og tveimur systkinum, lengst af í Mjóuhlíð 4 í Reykjavík. Bróðir Helga var Sigurður Jónas Sigurðsson f. 05.03.1939, d. 07.05.2017 og systir hans var Jóhanna Guðný Sigurðardóttir, f. 26.10.1940, d. 15.12.2013. Helgi kvæntist Eddu Sigrúnu Ólafsdóttur héraðsdómslögmanni 25. september 1955. Edda Sigrún lést 13. mars 2017. Helgi og Edda Sigrún eignuðust 5 börn: 1) Sigurður Helgason, læknir, fæddur 27. apríl 1955, giftur Rannveigu Halldórsdóttur fædd 19. júní 1955 og eiga þau þrjá syni, Halldór Hauk, Helga og Matthías Þór. 2) Grétar Helgason, úrsmiður f. 14.01.1958, d. 24.12.2016. Kona hans var Erla Jónsdóttir fædd 29. apríl 1958 og eignuðust þau fjögur börn, Lindu Rún, Hildi Eddu, Helgu Láru og Daníel. 3) Helgi Hafsteinn Helgason, læknir, fæddur 10. janúar 1969. Kona hans er Fjóla Grétarsdóttir fædd 19. mars 1968. Börn þeirra eru Ásta Karen, Haukur Steinn og Lilja Dögg. 4) Edda Júlía Helgadóttir, kennari, fædd 28. janúar 1970 og hún á 3 börn, Andra Má, Sigþór Árna og Teklu Ósk með fyrrum sambýlismanni Bjarna Jóhanni Árnasyni. 5) Sigrún Gréta Helgadóttir fasteignasali fædd 8. september 1971 og á hún dótturina Eddu Sigrúnu Jónsdóttur með fyrrum sambýlismanni Jóni Kristni Garðarssyni.
[i]Frásögn og myndbrot frá 2014 má sjá að baki þessari slóð: https://www.visir.is/g/2014140209440
[ii]Um Eddu Sigrúnu: https://www.sigurdurarni.is/efni/edda-sigrun-olafsdottir/
Vatn í veröldinni
Dagurinn er 22. mars, dagur vatnsins en líka afmælisdagur móður minnar. Hún þakkaði fyrir og blessaði vatnið og bar djúpa virðingu fyrir fegurð þess og hlutverki. Vatnið er æðakerfi lífsins og mennskunnar.
Af hverju hefur þú svona mikinn áhuga á vatni? Vinir mínir hafa stundum spurt mig þeirrar spurningar. Mér hefur alltaf þótt vatn heillandi, hreyfingin, speglun vatns, gegnsæi, hringrás vatnsins. Þegar ég var strákur í Vesturbænum tók ég mig til og fékk gefins dekkjaslöngur hjá körlunum á Landleiðum þar sem nú eru Stúdentagarðarnir. Blés upp og batt saman og bjó til bát, sem ég síðan sigldi við Þormóðsstaðafjöruna. Og móðir mín var ekkert að skipta sér af þessu fyrr en systir mín datt í sjóinn – af slöngubátnum – og kom holdvot og köld heim. Í sveitinni gekk ég með bæjarlæknum til að skoða vatnsmagnið, hvernig hann nagaði bakkana, laumaði sér milli steina og kom síðan úr djúpinu og hló við sólu. Ég var heillaður af vorflóðum, hvernig snjórinn blotnaði og lyppaðist niður og bunurnar skoppuðu niður brekkurnar og föðmuðu aðrar og af varð mikill vatnadans. Mér fannst heillandi að fylgjast með hvernig Svarfaðardalsá flæddi yfir bakka og allur hinn mikli dalur varð vatnaveröld. Mér þóttu merkileg stíflumannvirkin, sem bændurnir í dalnum höfðu byggt til að geta veitt vatni yfir engi.
Í hjarta og sinni
Þegar ég var tíu ára vakti frændi minn mig snemma og sagði mér að nú ætti ég að drífa mig í fötin því værum að fara að veiða. Hann kunni tökin, kenndi mér að kasta og sjaldan hefur straumurinn orðið jafnsterkur í taugum mínum þegar stór bleikja kippti í og ég var nærri búinn að missa stöngina í hylinn. Svo varð ég veiðimaður. Hvergi leið mér betur en við straumvatn. Það laðaði, heillaði, og snart einhver djúp hið innra. Milli mín og vatnsins voru tengsl. Á menntaskólaárunum ákvað ég að ég ætlaði í líffræði og sérhæfa mig í vatnalíffræði. En eftir veikindi og lífsháska þegar ég var 19 ára sneri ég við blaðinu og í stað þess að læra allt um vatnið fór ég í guðfræðinám og lærði allt um vatn lífsins. En meðan blóðið hefur runnið um hjarta mér hefur vatnið farið þar um. Alla tíð hef ég heillast af vatni, hugsað um vatn, snert það, dáðst að því og leyft því að vera inntak, umhverfi, áhugaefni og dýrð. Vatnið hefur aldrei farið mér úr sinni en ég hef notið þess í öðrum skilningi en kannski hefði orðið í líffræði. Ég hef skírt fjölda barna. Ég hef útdeilt víni, sem er mestu leyti vatn, í altarisgöngum. Ég hef reynt að túlka hið lifandi vatn himins á jörðu í ræðu minni og starfi. Ég er af vatni, þjóna vatni, nýt vatns og leyfi vatninu að heilla og næra mig. Vatn er dýrmæti heimsins og ekkert lifir án vatns. Við erum öll vatnsfólk. Og erum af vatnsfólki komið. Afi minn var vatnspóstur í Reykjavík. „Þetta kemur allt með kalda vatninu,“ var sagt. Og það er mikilvægt og varðar í raun allan heiminn.
Vatnið og sagan
Vatn hefur verið lífgjafi en líka valdur að dauða í sögu okkar Íslendinga. Stórár eru á landi og flóð hafa orðið. Í eldgosum hafa mikil flóð myndast, t.d. þegar gosið hefur í Mýrdalsjökli og Vatnajökli. Í Kötlugosi getur vatnsflóðið orðið með mestu fljótum heims. Íslendingar hafa sótt sjó og á fyrri öldum létu hlutfallslega fleiri látið lífið á hafi en í styrjöldum annarra þjóða.
Vatn er stórmál í Biblíunni og hvernig má annað vera þar sem þjóðirnar fyrir botni Miðjarðarhafs voru sífellt að glíma við þurrk og fá nægilegt vatn fyrir sig og búsmala sinn. Vatn hefur verið misnotað og mengað um allan heim. Víða er vatnsskortur og vatnsvernd er æ brýnna mál alls mannkyns. Mengun er víða gífurleg, sjór og vötn eru svo illa spillt, að fólk getur ekki farið út í vatn til að baða sig, hvað þá lotið niður og drukkið. Meira en einn milljarður manna hefur ekki aðgang að nægu og hreinu vatni. Ýmsum tegundum platna, skordýra og dýra er ógnað vegna vatnsmengunar, uppistöðulóna og námavinnslu. Og hvað er prestur að skipta sér af vatnsmálum, sem mörgum þykja vera fyrst og fremst spurning um pólitík? Trúin hefur alltaf eitthvað að segja um stóru mál lífsins. Guðfræðin og þmt siðfræðin reyna að skoða mál skipulega og móta ígrundaða stefnu á forsendum kærleika og ástar sem kristnin kennir við Guð.
Við erum vatn
Þegar við fæðumst erum við að þremur fjórðu hlutum vatn – og við erum blaut það sem eftir lifir æfinnar. Ef við ofþornum deyjum við og hið sama gildir um flestar lífverur. Líf allra manna á öllum tímum og alls staðar er háð vatni. Ekkert annað kemur í stað vatns. Vatnið umlykur Jörðina, er í gufuhvolfinu, andrúmsloftinu. Það er regnið, sem bylur á okkur þegar rignir og snjórinn sem hvíttar tilveru okkar í frostatíð. Vatn flæðir í lækjum, ám, vötnum og neðanjarðar. Það er í hafinu, í jöklum á landi og í vötnum. Það gufar upp og dansar upp í andrúmsloftið, myndar ský og þar með hina stórkostlegu hringrás sem íklæðir Jörðina. Vatnið er ekki bara klæði Jarðarinnar, heldur líka undraefnið, blóðið og fjallamjólkin í æðakerfi heimsins sem nærir líf hinnaar bláu plánetu.
Vatn Jarðar 1,4 milljarðar rúmkílómetra
Samtals er vatn Jarðarinnar 1,4 milljarðar km3, í sjó, neðanjarðar, í öllu rennandi vatni heimsins, ís og jöklum og andrúmslofti. Vatnskerfi Jarðarinnar minnkar ekki eða stækkar því andrúmsloftið hindrar að vatn flæði út í geiminn. Nærri 97% vatns er saltvatn í sjó. Ferskvatn er tæplega 3%, um 35 milljón km3.[i]Megnið af ferskvatni er neðanjarðar eða frosið. Innan við 1% vatns jarðarinnar myndar hringrás vatns, um 11 milljón km3 eða nærri 0,77% vatns. Það er því fyrst og fremst rigning og snjókoma sem endurnýja og hreinsa vatnsbirgðir jarðarkúlunnar. Það eru því aðeins 34 þúsund rúmkílómetrar sem nýtast mönnum og lífi sem endurnýjanlegar birgðir vatns. Megnið af nýtanlegu ferskvatni heimsins er svonefnt grunnvatn og er í iðrum jarðar. Það eru grunnhlotin, sem ekki hreyfast mikið vegna þess að berg lokar þetta vatn inni eins og skálar eða poka neðanjarðar. Ofankoma bætist ofan á þessar vatnsbirgðir og yfirflóðið eru gjarnan í lindum. En til eru lokuð vatnskerfi, sem ekki bætist í vegna ofankomu. Þegar farið er að bora niður á þessa grunnvatnsgeyma og dælt upp úr þeim hefur víða verið gengið harkalega á birgðirnar.
Vatnsskortur
Íslendingar búa yfirleitt ekki við vatnsskort en hins vegar getur komið fyrir, vegna sérstakra aðstæðna eða áfalla, að vatn spillist.[ii]En vansskortur er verulegur og ógnvænlegur víða um heim. Þegar hver maður fær til nota minna en eitt þúsund rúmmetra á ári er um vatnsskort að ræða.[iii]Vatnsstreita ríkir á þeim svæðum þar sem vatnsnotkun er umfram 25% hinna endurnýjanlegu vatnsbirgða.[iv]Veigamikil ástæða vatnskreppu er mannfjölgun. Á hverju ári fjölgar mannkyni um 80 milljónir. Vatnsnotkun jókst alla tuttugustu öldina tvöfalt á við fjölgun fólks. Ástæðan var stóraukin iðnaður, orkuöflun og óhófleg vatnsnotkun og jafnvel sóun í hinum ríku hlutum jarðarkringlunnar. Á næstu áratugum má búast við, að mannfjölgun verði mest í suð-austur Asíu og Aríku sunnan Sahara. Mannfjöldinn leitar í borgirnar og þær munu jafnvel tvöfaldast frá 2020 til 2030.[v]Þessi mikla mannföldaaukning mun ganga á vatnsbirgðir og ef heldur svo fram sem horfir verður gengið freklega á grunnvatnsbirgðir sem ekki ná að endurnýjast. Ef vatn þverr mun fólk deyja eða halda út í óvissuna og gríðarlegir mannflutningar verða inn á vatnsríkari svæði veraldar,t.d. Evrópu og Ameríku. Um 2 milljarðar fólks býr við vatnsskort eða um fjórðungur mannkyns. Í Norður Afríku og Vestur Asíu býr um 60% íbúa við vatnsskort og búast má við miklum áföllum og fjöldadauða á þessum svæðum þegar að sverfur.[vi]Með loftslagsbreytingum hefur ástand vatnsmála sums staðar versnað mjög. Sjúkdómar hafa breiðst út og barnadauði hefur aukist. Fráveitumál eru víða í ólestri og menga vatnsból, ár og læki um víða veröld.
Grunnvatn
Megnið af ferskvatnsbirgðum heimsins er grunnvatn, sem er um sextíu sinnum meira en yfirborðsvatn.[vii]Grunnvatn rennur um jarðveg og gljúpt berg og myndar gjarnan risastór stöðuvötn og yfirborðsvatn rennur í og fyllir upp ef grunnvatn rennur einhvers staðar úr. Þessi stóru vatnsgímöld eru kölluð grunnvatnshlot. Sum þeirra eru lokuð af neðanjarðar og njóta engrar eða lítillar aðveitu að ofan. Grunnvatn er oftast ósýnilegt en yfirborðsvatn sést. Ef grunnvatn flæðir er það á hægri hreyfingu en yfirborðsvatn flæðir hratt. Um helmingur ofankomu fer í læki, ár og fljót, en helmingur ofankomu gufar upp á jörðinni. Þegar grunnvatnsgeymar fyllast flæðir vatn út í lindum, uppsprettum. En þegar dælt er úr grunnvatni er hætta á að dælt sé meira en sem nemur áfyllingu ofankomu. Hættan er að vatnstakan breyti því jafnvægi sem náttúra á viðkomandi svæði hefur skapað og lifríkið skaddist. Plöntur og lífverur sem sem aðlagast hafa eða þarfnast flóðanna geta orðið fyrir skaða af flóðaleysinu.
[i]Ef vatn Jarðarinnar væri rétthrndur ferningur myndi hver hlið vera um 1120 km á lengd.
[ii]Samanber vandi vatnsveitu Ísafjarðar 2017 og gerlamengun í vatni Gvendarbrunna 2018 og 2017.
[iii]Shiva 2002.
[iv]Palanappian and Gleick 2009, 1) og heimasíða Sameinuðu þjóðanna.
[v]UNESCO Water Newsletter NO249 2011.
[vi]https://sustainabledevelopment.un.org/sdg6
[vii]Barlow og Clarke 2002.
Að ræna maka sinn
Ég hef orðið vitni að þjófnaði, líka ráni þar sem ofbeldi var beitt. Og svo þekki ég marga, sem hefur verið stolið frá. Minning um stuld, rosalegan þjófnað, hefur sótt á mig síðustu daga og hún kemur úr minningasafni námsára minna í Bandaríkjunum.
Kínversk hjón byrjuðu á sama tíma og ég í doktorsnámi við Vanderbilt-háskóla í Tennesse. Ég veitti þeim enga sérstaka athygli í fyrstu. En svo voru þau í einu námskeiði með mér. Þá reyndi ég að ræða við þau og komst að því að þau komu frá Hong Kong. Bæði höfðu lokið BA-prófi í heimaborg sinni. Þar kynntust þau og þar ætluðu að vera þegar doktorsnáminu lyki í Ameríku. Karlinn var skráður á sama fræðasvið og ég; trúfræði, trúarheimspeki og hugmyndasögu. Ég reyndi ítrekað að ræða við hann, en hann virtist forðast samtöl. Ég hélt að hann væri bara feiminn og óframfærinn. Kona hans var hins vegar í Nýja-testamentisfræðum og strax á fyrstu vikunum furðaði ég mig á, að hún sótti tíma með bónda sínum en þaut svo í eigin tíma á milli. Karlinn hlustaði í tímum en skrifaði ekkert niður og talaði aldrei ótilneyddur. Konan var hins vegar þeim mun iðnari, skrifaði glósur af miklum móð, hlustaði með öllum líkamanum en sagði fátt. Aldrei sóttu þau fundi utan tíma né komu í samkvæmi nemenda. Þetta kínverska par var mér og félögum mínum fullkomin ráðgáta.
Svo leið tíminn. Kínverski karlinn hikstaði eitthvað í verkefnaskilum og kennararnir höfðu áhyggjur af honum, en frú hans skilaði öllu og stóð sig vel. Svo kom langur og lýjandi prófatími, en þá varð sprenging. Einn daginn hentist sú kínverska inn í skóla og inn á skrifstofu eins kennarans. Hún var í miklu uppnámi, bólgin af gráti og sagði: „Ég get ekki meira. Ég er búin. Ég er að fara yfirum.“ Sagan kom svo í bútum og milli ekkasoga, táraflóða og angistarhljóða. Eiginmaður hennar var af yfirstéttarfólki kominn. Hann var vanur þjónustu og óvanur að leggja hart að sér. En eiginkonan var hins vegar vön að vinna og hafði alltaf komið sér áfram vegna eigin verðleika. Hún var klára stelpan í hópnum og hann féll fyrir snilli hennar og getu. Og svo þegar þau fóru að tengjast fannst henni sjálfsagt að hjálpa honum með námið því hann var raunverulega hjálpar þurfi. Vegna þjónustu hennar fór honum að ganga skár í háskólanum í Hong Kong og kláraði prófin. Þau gengu í hjónaband áður en þau fóru til Ameríku. Þegar þangað var komið gekk karlinum illa að aðlagast. Hún varð að vinna flest verk. Honum fannst, að þar sem hún væri konan hans yrði hún að aðstoða hann. Hún varð því ekki aðeins rúmfélagi, kokkur, þvottakona, sendill, kennari og sálfræðingur heldur ritarinn hans líka. Hann ætlaðist til að hún kláraði það, sem hann kom ekki í verk. Hún varð að sækja tíma með honum til að tryggja að hann skildi og skrifa svo ritgerðir fyrir hann líka. Doktorsnám er full vinna en að klára tvöfalt doktorsnám sem þræll er ógerningur. Karlinn varð fúll, beitti konuna ofbeldi og hún brotnaði niður.
Kennararnir, námsráðgjafarnir og starfslið skólans vann úr þessu skelfilega máli, virti sögu konunnar og ræddi við mann hennar. Þeim var báðum veitt aðstoð. Konan gat ekki búið við harðræðið og þráði frelsi. Hún komst að þeirri niðurstöðu að leiðir yrðu að skilja. Hann myndi aldrei sætta sig við uppreisn hennar og að hún „niðurlægði“ hann. Hún skildi því við karlinn. Honum var vísað úr skóla og sneri heim til Hong Kong með skömm. Hann hafði stolið frá konu sinni frelsi, gleði, lífshamingju, sjálfsvirðingu, ást og stofnaði til nauðungar og þrældóms hennar. Að lokum gat hún ekki meira og vildi ekki lengur láta stela af sér, ræna sig. Að skilja við manninn var eina leið konunnar úr þrældóminum.
Þú skalt ekki stela. Sjöunda boðorðið er ekki bara um peninga og eignarrétt. Andi orðanna varðar manngildi og lífsgæði, sem eru mikilvægari en peningar eða efnisgæði. Jesús túlkaði boðorðin með vísan til hins mikilvægasta. Það eru Guð og menn eins og sést í tvíþætta kærleiksboðinu. Gyðingar hafa um aldir vitað og kennt að fólk skiptir meira máli en fjármunir. Við megum læra af og ættum að útvíkka túlkun okkar á sjöunda boðorðinu. Við megum ekki stela fólki, ekki stela af fólki né heldur ræna það.