Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Bakaður þorskur með möndlusmjöri

Reyndar má nota alls konar fisk í þennan rétt en þorskurinn er gjarnan á borðum míns heimilis. Eldaði þennan rétt í kvöld fyrir stórfjölskylduna og meðlætið var nýuppteknar kartöflur og salat úr garðinum. „Besti fiskur sem ég hef borðað“ voru ummæli. Svo bakaði Elín berjaköku úr nýtíndum bláberjum og krækiberjum. Himneskt.  

Fyrir fjóra.

Hráefni

  • 4 þorskflök
  • Fínt sjávarsalt eða borðsalt og svartur pipar
  • 7 msk smjör
  • ½ bolli skornar möndluflögur
  • 1 lífræn sítróna – rifinn börkur og síðan skorin í tvennt
  • 1 msk smátt saxaður graslaukur (og aðeins meira til skrauts)

Matseld

  1. Hitið ofn í 230°C. Leggið fiskflökin á eldfast fat og saltið og piprið. Skerið 1 msk af smjörinu í bita og setjið á fiskinn. Bakið í 7–11 mínútur eða þar til fiskurinn er mjúkur og eldaður í gegn.
  2. Meðan fiskurinn er í ofninum: Bræðið 6 msk af smjörinu á stórri pönnu á meðalhita. Hreyfið pönnuna þar til froðan hverfur og smjörið verður ljósbrúnt (ekki brenna) – þetta tekur um 3–7 mínútur.
  3. Takið pönnuna af hitanum og bætið möndlunum út í. Þær byrja strax að brúnast. Hrærið þær í heita smjörinu þar til þær verða gullinbrúnar, um 2 mínútur. Setjið pönnuna aftur á vægan hita ef þær þurfa meiri lit. Bætið safa úr hálfri sítrónu, helmingnum af rifna sítrónuberkinum, graslauknum, ½ tsk salti og ¼ tsk pipar út í. Smakkið og bætið við meira af sítrónusafa og salti ef þarf.
  4. Hellið möndlusósunni yfir eldaða fiskinn. Skreytið með meira af graslauk og sítrónuberki. Berið fram heitt með seinni sítrónuhelmingnum með til hliðar (má skera í báta ef vill).

Þökkum Drottni, því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen. 

Laxinn í Soginu

Helgi Bjarnason, 16 ára veiðikló, veiddi Maríulaxinn sinn í Soginu á veiðidegi Alviðru 17. ágúst. Helgi lyfti fiskinum stoltur og sleppti honum svo í fljótið að nýju. Fjöldi fólks kom í Alviðru til að fræðast um Sogsveiðar og njóta ráðlegginga og kennslu leiðsögumanna Stara, leigutaka árinnar. Síðan var haldið til veiða og sex laxar komu á land á þessum veiðidegi. Veiðidagur Alviðru er haldinn árlega. 

Seinni hluta sumars hafa engin laxanet verið í Ölfusá sem varð til að auka laxgengd í Soginu og öðrum ám í efri hluta vatnasviðs Ölfusár. Öllum löxum sem veiðast í Soginu er sleppt til að efla Sogsstofninn.

Myndin af Helga er af vef veida.is og þar er hægt að kaupa veiðileyfi í Soginu. Tekjur af Sogsveiðinni eru nýttar til reksturs og uppbyggingar í Alviðru sem er fræðslusetur Landverndar.

Hestur, Eldgjá og undur jarðar og heims

Eldgjá – á einu af hamfarasvæðum heims. Þegar ég bjó í Ásum í Skaftártungu á níunda áratug síðustu aldar fór ég og smalaði með sveitungum mínum afréttinn. Þegar Eldgjársvæðið var smalað sat ég á hestbaki nærri Ófærufoss. Hvasst var, hesturinn kvikur og fældist að lokum við gjárbarminn. Við vorum báðir í hættu, hrossið og ég. Mér lánaðist þó að snúa klárinn niður, róa hann og teymdi hann síðan þægan og bljúgan. Atgangurinn rifjaðist upp er ég kom að og í Eldgjá um helgina. Engin rosi þann daginn – né í sál minni – aðeins djúp lotning gagnvart undri jarðar og heims.

Rimpað á Hornströndum

Hálfrar aldar minning – saumspretta lagfærð fyrir messuferð í Staðarkirkju, Aðalvík á Hornströndum. Viðgerðin heldur enn og kirkjan stendur – en gleraugun farin í eyðingu tímans. Við vorum saman þrír guðfræðinemar og tæknimaður – dásamlegt kombó. Þræddum allar víkur, klifum fjöll, kynntumst kraftmiklu fólki og nutum gestrisni þess, skoðum stríðsminjar, ræddum djúpmálin og fengum að sofa í aðalhorninu hjá vitaverðinum á Horni. Sigldum svo hugsi og sælir undan huliðshjálminum til Ísafjarðar, saumsprettausir. Mannlíf, dýr og undur við Íshafið lifa í minningu. Þegar myndirnar koma úr kafinu finn ég enn lyktina úr lynginu, sé brosandi augu fólksins og alls konar gamlar hugsanir banka upp á. 

Gamli, freki kallinn?

Hvert er hlutverk okkar sem erum á þriðja æviskeiði? Er það að stjórna og láta alla hlýða okkur? Nei. Hlutverk okkar er að miðla því sem við höfum lært, þeim lífsráðum sem við vitum best og höfum jafnvel uppgötvað í baráttu við mestu sorg og áföll. Hlutverk okkar er að miðla visku og lífi en valda ekki ógn og dauða.

En veröldin situr uppi með gamla og freka kalla. Þeir sem ráða örlögum heimsins eru svo aldraðir að þeir eru í slag við þennan með ljáinn. Khameiní í Íran er 86 ára, Trump 79 ára, Netanyahu 75 ára, Modi 74, Pútín og Xi eru báðir 72 ára. Og þeir sprengja og vilja – já krefjast – fleiri vígvéla og heimta öflugri bombur. Trump vill að Nató leggi mun meiri fjármuni í hernaðartól sem merkir auðvitað að evrópsk ríki kaupi miklu meira af amerískum vopnaframleiðendum. Haag-fundur Nató í júní 2025 hlýddi og varð stefnufundur sprengjukallanna. Hið sérkennilega er að ekki var rætt, skoðað og síðan rökstutt hvað þyrfti mikla peninga til að tryggja varnir. Nei, bara miklu meiri peninga – ja, kannski svona 5% af vergri þjóðarframleiðslu. Engin rök, engar skýringar – bara frekjukast. Og auðvitað undirlægjuhlýðni hinna yngri leiðtoga Nató. Látum kallinn fá það – það sem hann vill. Ekki rökleg og heildstæð stefnumótun heldur undirgefni til að Nató liðist ekki í sundur. Mikill sigur? Nei.

Freku kallar öldrunarstjórnarinnar fæddust og nutu uppeldis í skjóli friðar eftirstríðsára tuttugustu aldar. Nú grafa þeir undan friði. Þau stórmál sem heimurinn glímir við eru hnattræn hlýnun, ógn við lífríki jarðarinnar, skelfileg mengun, vatnsskortur og mannréttindavá. Slagur freku kallanna við þann með ljáinn veldur þeim óbærilegri óþreyju og ofsaþrá að beita valdi, láta til sína taka með látum. Heimsendir verður hvort sem er ekki fyrr en eftir þeirra dag.

Í lok tuttugugustu aldar var Vigdís Finnbogadóttir meðstofnandi Heimsráðs kvenleiðtoga sem síðan fléttaðist inn í Madrídarhópinn. Þau voru öldungahópur leiðtoga sem þjónuðu lýðræði og mannréttindum. Nelson Mandela stofnaði síðan ráðgjafahópinn The Elders árið 2007. Öldungarnir voru leiðtogar og þjóðhöfðingjar sem höfðu látið af störfum, s.s. Kofi Annan, Jimmy Carter, Desmond Tutu, Mary Robinson og fl. Verkefni þeirra var að stuðla að friði, mannréttindum og sjálfbærri þróun samfélaga. Í starfi þeirra birtist viska og einurð sem aldur getur fært fólki – þegar unnið er með lífsreynslu í auðmýkt og af ábyrgð. Á hvorum hópi öldunga hefur heimsbyggðin meiri þörf nú – öldungunum sem blessa og stuðla að lífi eða gömlu bombuköllunum, þessum freku?

Vandinn er ekki aldurinn sjálfur, heldur hvernig ævinni hefur verið varið og til hvers. Heim okkar skortir ekki valdasækna öldunga, heldur þjónandi leiðtoga – konur og karla – sem skilja að lífsgildi felast ekki í völdum og vopnaglamri  – heldur í því hvernig fólk skilar af sér garði sínum, samfélagi og veröld. Nú er ráð að fara að skoða sögu Jesú Krists um ráðsmanninn í sextánda kafla Lúkasarguðspjalls. 

Morguníhugun 1. ágúst, 2025. 

Myndirnar veiddi ég úr heimi gervigreindar.