Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Listaverkin í Hrauntúni

Hrauntúnsfólkið í Þingvallahrauni iðkaði hleðslulist. Halldór Jónsson, sem fyrstur var bóndi í Hrauntúni á 19. öld, var svo kunnur fyrir meistarahleðslur að hann hafði atvinnu af. Þessi túngarðshleðsla í Hrauntúni í Þingvallahrauni er listaverk. Hrafnabjörg í baksýn. Með lögum um helgistað þjóðarinnar á Þingvöllum var fjárbúskapur lagður af innan marka þjóðgarðins. Engin búskapur hefur verið í Hrauntúni frá 1936 og hleðslurnar hafa staðist hristing jarðar og skjálfta tímans.

Einfaldast er að ganga í Hrauntún frá Sleðaás-bílastæðinu austan við Bolabás. Þar byrjar svonefnd Réttargata sem sameinast svo reiðleiðinni frá Ármannsfelli. Lengd Réttargötu í Hrauntún er 1,4 km.  Og þau sem vilja ganga lengri leiðir er t.d. hægt að ganga í Skógarkot frá Hrauntúni. Hrauntún og Skógarkot eru miðjur alheimsins þegar gengið er um Þingvallahraun. Útsýn er stórkostleg til fjallanna sem ramma inn Þingvallakvosina. Og í þeim fjallahring eru sjö gerðir eldfjalla!

Heimagerð skordýrafæla – chili–hvítlaukur-edik

Salatræktun okkar er lífræn og því sækja skordýr í plöntunar. Til að varna árásum er hægt að nota lífrænar varnir. Hér er uppksirft að ljómandi góðri skordýrafælu. 

2–3 stór hvítlauksrif, rifin eða pressuð

1 lítill rauður chili (eða ½–1 tsk chili-duft)

1 lítri volgt vatn

1 teskeið mild uppþvottasápa (ilmlaus – hjálpar úðanum að loða við kálblöðin)

1 tsk eplaedik

 

Leiðbeiningar

Hvítlaukur og chili sett í pott með vatni – sjóða í 5–10 mínútur.

Vökinn látinn kólna og agnirnar síðan sigtaðar frá.

Vökvinn settur í úðabrúsa og hrist fyrir notkun.

Notkun

Úðað beint á laufblöð, bæði ofan á og undir.

Endurtekið 1–2 sinnum í viku eftir þörfum.

Prófa fyrst á lítinn hluta plöntunnar til að tryggja að hún þoli úðann.

Ekki er úðað í sólskini – getur valdið brunablettum.

Látta líða 1–2 daga frá úðun áður en salatið er borðað og skola vel fyrir neyslu. Verði ykkur að góðu. 

 

Þingvallavatn, vatnasvið, gróður og líf

Vatnasvið Þingvallavatns nær frá Langjökli í norðri til Hengils í suðri, um 55 km., frá Lyngdalsheiði í austri að Botnssúlum og Mosfellsheiði í vestri. Samtals er vatnasviðið um eitt þúsund ferkílómetrar, um 1% Íslands. Auk náttúrufegurðar og þróunarsögu Þingvallasvæðisins er vatn þess ómetanleg auðlind. Þingvalla- og Brúarársvæðið ofan Brúarfoss er helsti lindarvatnsbanki Íslands. Lindarvatn, háhitasvæði og raforka munu lengi verða Íslendingum ómetanlegt búsílag, ef notkun fer saman við ábyrga verndun svæðisins.

Þingvallavatn í tölum

Hæð Þingvallavatns yfir sjávarmáli er 100,6 m. (102,4 m. samkv. Sogsneti). Vatnasvið Þingvallavatns fylgir fjallahringnum, sem girðir Þingvallasigdældina af. Vatnið er 83,5 km2 að flatarmáli (86 ferkm. með eyjum), eða um 1/12 vatnasviðsins. Meðaldýpi er 34,1 m. Mesta dýpi, nærri Sandey, er um 114 m. og er því talsvert neðan sjávarborðs. Árssveiflur yfirborðs voru eftir 1960, við upphaf reksturs Steingrímsstöðvar, allt að einum meter, en eru nú um 20 cm. Í Þingvallavatni eru um 3 km3 vatns.

Úr Þingvallavatni rennur vatnsmesta lindá landsins, Sogið, yfir 100 rúmmetrar á sekúndu. Í vatnið renna þó aðeins lækir og þrjár smáár. Aðstreymi vatnsins er því mest úr lindum og gjám, aðallega við norðurhluta vatnsins. Mesta og tignarlegusta aðveituæðin er Silfra, sem veitir um 64% í vatnið. Þá er Vellankatla vatnsmikil, 22% aðrennslis. Sjá má lindirnar við vatnsbakka. Aðalhluti vatnasviðs er fjalllendið norðan vatns. Elsta vatnið hefur fallið á Langjökulsvæðið, farið djúpt í jörð og jafnvel niður í möttul jarðar á 8 km. dýpi og kemur að hluta upp við Vellankötlu. Hluti þess vatn féll jafnvel sem snjór eða regn á miðöldum. Vegna langferðar um hraun, sem tekur allt að tíu ár, er vatnið ríkt að efnainnihaldi og er ástæðan fyrir fjölbreytni og kröftugu lífríki vatnsins þrátt fyrir kulda þess. „Frjó eru vötn undan hraunum.“ Úrkoma á Hengilsvæðinu er um 2500-3000 mm. á ári, um 2800 mm. falla á Súlur, en 1300-1400 mm. á sjálft Þingvallavatn og umhverfi þess.

Myndun Þingvallavatns

Þingvallasvæðið er eitt af sérkennilegustu vatnasvæðum heims. Trúlega sjást hvergi glöggar skil og hreyfingar Ameríku- og Evrópuflekanna. Sprungulínurnar í landslagi Þingvallasvæðisins eru sýnilegar öllum sem fara um svæðið. Saga Þingvallavatns er saga átaka íss, eldgosa, stórfljóta og jarðskorpuhræringa. Við ísaldarlok lá jökultunga allt suður í Úlfljótsvatn. Jökullón stóðu 65 metrum hærra en núverandi vatnsyfirborð og skildu eftir hjalla og jökulgarða. Jökull hopaði síðan og yfirborð vatnsins lækkaði og skildi eftir ummerki í 35 og 10 metra hæð yfir núverandi vatnsborði. Skjaldbreiður gaus fyrir um tíu þúsund árum og tók fyrir rennsli jökulfljóta suður Þingvallalægðina. Síðar gaus í Hrafnabjargarhálsi, Eldborgum, og hraunin runnu, sem eru umhverfis norðurhluta vatnsins. Síðasta gosið varð fyrir um tvö þúsund árum þegar Nesjahraun rann og Sandey myndaðist. Vegna flekahniks hafa miklir landskjálftar orðið á Þingvallasvæðinu og land sigið. Á níu þúsund árum hefur land sigið við Almannagjá um 40 metra en gliðnun í sigdældinni allri er um 70 metrar. Í jarðskjálftum árið 1789 var sig í Vatnsviki og nærri Almanngjá frá 1,2 – 1,4 metrar á aðeins hálfum mánuði. Mest var sigið í Vatnskoti, 2,8 m. og túngarðsendinn er á því dýpi. Hólmarnir í vatninu sunnan Þingvallabæjar eru túnleifar Þingvallaklerka. Meðalsig við Þingvallabæ er nær hálfur cm. á ári.

Lífið í vatninu

Um þriðjungur vatnsbotns er gróðri þakinn. Lággróður er mikill á hörðum botni út á 10 m. dýpi. Kransþörungabelti er á leðjubotni á 10-30 m. dýpi, mikill skógur af allt að meters háum plöntum. Þetta belti er mjög mikilvægt fyrir dýralíf og þar með fiska. Um 150 tegundir plantna eru á botni. Um 120 þúsund dýr lifa á hverjum fermetra við vatnsbakka. Þar sem vatnið er dýpst, á Sandeyjardýpi, lifa um 10 þúsund dýr á hverjum fermetra. Um 1000 vatnabobbar lifa á hverjum fermeter á búsvæði bobbans. Í vatnsbolnum lifir jurtasvið um mánaðartíma áður en það fellur til botns og verður að seti. Lesa má gosasögu síðustu alda í þessu seti. Svifdýr lifa á jurtasvifi en fiskur nýtir sér síðan svifdýrin. Gróðurframleiðsla vatnsins er a.m.k. 30 tonn á ári af þurrmeti. Þingvallavatn er eina vatnið í heiminum, sem alið hefur fjögur afbrigði af bleikju. Þau eru murta, sílableikja, svartmurta og kuðungableikja. Auk bleikjunnar eru í vatninu urriði og hornsíli.

Samantekt SÁÞ 1994. Myndin er frá hitadeginum mikla, 14. júlí 2025, en þá var hitinn við Hrauntún í Þingvallahrauni um 30°C en opinber hiti veðurstofumælisins 28,1°C.

Ljómandi upplýsingar um vatnasviðið eru á vef Þingvalla að baki þessari smellu.  Bókin Þingvallavatn: Undraheimur í mótun er dásamleg uppspretta þekkingar á vatninu. Fjölmargir höfundar okkar bestu fræðimanna á viðkomandi fagsviðum. 

Ármannsfell er Helgafell Þingvellinga

Ingólfur Arnarson, landnámsmaður, upplýsti Ármann úr Dalmannsdölum að upp frá Hrafnabjörgum fyrir ofan skóga væru sagðir landkostir og fé væri þar feitara en annars staðar. Ármann settist að í Þingvallasveit og var Ármannsfell kennt við hann. Hann hafði fé sitt í helli eins og aðrir Þingvallabændur. Þegar hann lést varð hann hinn hollvættur manna og líka eftir að kristnin komst á og hétu menn á hann sér til stuðnings. Ármannssaga yngri er samin upp úr þjóðsögum og Ármannsrímum Jóns lærða. Sagan var fyrst gefin út árið 1782. Þegar þjóðfrelsisbarátta Íslendinga hófst á 19. öld notuðu Balvin Einarsson og félagar Ármann í Ármannsfelli til að ávarpa þjóðina og brýna til baráttu. Hann var því enn nothæfur hollvættur og Ármannsfell Helgafell héraðs og þjóðar. Mörg okkar eigum okkar Helgafell, öll höfum við þörf fyrir ármann í lífinu og heppin erum við sem njótum bæði ármanns og helgafells.

Bjartar nætur – þroskasaga Dostojevskí

„Pabbi, ég mæli með að þú lesir Bjartar nætur eftir Dostojevskí,“ sagði Ísak, sonur minn. Hann hafði verið að lesa bókina á kvöldin eftir göngudaga þeirra bræðra hátt í svissnesku Ölpunum – og hreifst. Það eru forréttindi að börnin manns rétta manni bækur til samtals. Ég var áður búinn að puða í Karamazov-bræðrunum sem er þroskaverk Dostojevskís og varð forvitinn um þetta æskuverk sem hann gaf út aðeins 27 ára.

Mér þótti margt forvitnilegt við Bjartar nætur, m.a. sögusvið Pétursborgar. Nærri hálf milljón manna bjó í borginni þegar sagan gerðist fyrir miðja 19. öld. Dostojevskí lýsir m.a. hvernig borgarbragurinn breyttist þegar fjöldi fólks fór í sumarhallirnar og sveitasetrin – dacha. Mér kom á óvart hve stór yfirstéttin var og að sumarfjörið hefði færst út í sveitirnar í kraganum umhverfis borgina. Mér þótti líka áhugavert að lesa um hvernig næmur og ungur maður glímdi við samskiptareglur og hvernig siðferðismótun ungra kvenna gat orðið í rússneskri borg í vexti. Bókin varð mér marglaga fræðslurit.

Sagan er þroskasaga og tímaramminn er aðeins fjórir sólarhringar. Söguhetjan er ungur maður sem glímir við einsemd, tengslaleysi en dreymir um djúptengsl. Hann gengur fram á snökktandi konu og síðan er sagt frá samskiptum þeirra og samtölum. Samfundirnir flétta saman strengi og þræði merkingar. Í sögunni er heimspekileg dýpt, guðfræðileg næmni og tilvistarleg nákvæmni sem er forsmekkur síðari sálarspegla Dostojevskís og rússneskra skáldsagna.

 Í guðfræðilegum skilningi má lesa söguna sem leit að ást sem er óháð yfirráðum eða eignarhaldi. Draumadrengurinn speglar tengslaþorsta – en hann elskar án þess að krefjast. Ást hans er handan allrar kröfu. Þetta er ekki saga um brostnar vonir heldur sálarsaga um að gildi djúprar reynslu jafnvel þótt hún vari stutt. Elskuhugsun kristninnar er jú að gjöf hafi gildi þótt hún sé ekki endurgoldin. Þegar stúlkan, Nastenka, velur elskhugann í stað söguhetjunnar bregst hann hann ekki við með sjálfhverfri reiði heldur þakklæti: „Blessuð sért þú fyrir þessi fjögur kvöld hamingju.“ Afstaðan er jákvæð en ekki neikvæð krafa. Þakklæti í sorg líknar og læknar.

Bjartar nætur á norðurslóð eru ekki bara sjónarspil heldur tákn um andlega vídd sem Dostojevskí orðar og nýtir. Sumarnætur eru honum trúarlegar, sýna ljós í myrkri einsemdar. Ljós í trúarhefð Biblíunnar opinberar, afhjúpar og stingur jafnvel. Draumajói Dostojevskís lifir í ljósinu og verður meðvitaður um eigin einangrun. Sagan verður n.k. helgiganga ungs manns á leið lífsvisku og þroska. Hann sér sig, hlutverk sitt og líf í nýju ljósi. Hann lærir að bregðast við eigin innri manni, öðru fólki og samskiptum með nærfærni og mildi. Ástaráfallið verður honum til þroska. Lífið er vegferð opinberunar.

Guðfræðilega má lesa Bjartar nætur sem dæmisögu um blessun, þetta sem kallað er náð á máli kristninnar. Í þessari sögu er náðin tengd hinu fínlega og birtist í samtölum, viðkvæmum samverustundum, mildi elskunnar, snertingu og reynslu augnablikanna. Boðskapur Dostjojevskís er að hið guðlega birtist fólki sem þorir að reyna og sjá. Jafnvel stuttir samfundir fólks sem glímir við lífsmálin geta orðið helgistundir sem veita þroska. Eilífðin birtist líka í augnablikunum.

Í anda rómantískra forvera eins og í sögu Goethes um Werter unga lifir sögupersónan í tilfinningauppnámi. En þroskasaga Dostojevskís lýkur ekki með sjálfsvígi heldur þroskaglímu við sorg og áfall. Sögur Dostojevskís fara alltaf á dýptina, líka þessi æskusaga hans. Hún á því enn erindi til fólks sem lætur sér ekki nægja skorthugsun efnishyggju eða einhæfni sjálfhverfunnar.

Takk Ísak – mögnuð saga – Dostó er djúpur.

Ég las ensku Penguin-útgáfuna sem heitir White Nights í þýðingu Ronald Meyer. Íslensk þýðing Arnórs Hannibalssonar, þess mæta og góða kennara míns, heitir í hans útgáfu Vornætur: Úr endurminningum draumóramanns og kom út árið 1998.