Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

+ 24 og sjón Guðs

Ég heyrði undursamlega sögu – fyrr í mánuðinum – hjá gleraugnasnillingnum, sem ég fer til þegar mig vantar spangir eða ný gler. Hann sagði mér, að hann hafi einu sinni verið kallaður til að útbúa gleraugu handa ungum dreng, sem var með svo brenglaða sjón, að hann hafði aldrei séð neitt nema í þoku. Í augum hans rann allt út í eitt, í óljósa, ófókuseraða litasúpu. Hann hafði aldrei getað beint sjónum sínum að neinu sérstöku, ekki séð puttana sína, hlutina í kringum sig eða brosandi andlit foreldra sinna. Augnlæknirinn og sjóntækjasérfræðingurinn ræddu um hvernig gler þyrfti til svo einhver bót yrði á sjón drengsins og niðurstaðan var að það þyrfti að vera gler í plús 24! Þegar gleraugun voru tilbúin fór vinur minn með þau til drengsins, sem lá vakandi og starði í óreiðu lita og forma. Augu hans hvörfluðu til og tilveran var úr fókus. Svo setti hann gleraugun varlega á drenginn. Honum varð greinilega mikið um því hann stirnaði upp, starði stjarfur fram fyrir sig og svo – allt í einu – breiddist stórkostlegt bros yfir allt andlit hans. Tilveran hafði allt í einu fengið form, litirnir aðgreindust og umhverfið birtist honum. Hann sá. Kraftaverkið hafði orðið og líf hans breyttist. Gleraugun breyttu öllu – einfalt tæki en afgerandi fyrir þroska, líðan og hamingju.

Jól og síðan áramót. Hvernig verður tíminn og lífið? Óskiljanleg litasúpa eða tími til vaxtar og gleði? Engir fræðingar munu færa okkur hamingju. Við kaupum ekki frið og fögnuð. En við getum kallað hann fram og skapað. Við getum gefið af okkur og orðið öðrum til lífsbóta. Vaxandi hlutahyggja veldur tilfinningadoða fólks varðandi hamingjuleiðir. Sjálfhverft fólk hlutgerir ástvini sína og hættir að sjá þá sem undur lífs. Við þurfum að sjá, meta, virða og rækta. Hamingjan er alltaf heimafengin og vex við góð samskipti, athygli, nánd, hlustun og góða sjón.

Helgisaga jólanna varðar ekki að við trúum hinu ótrúlega, sögum um vitringa, himindansandi engla og glimmersögu úr fjárhúsi, heldur að við sjáum með hjartanu og virðum vonir okkar og djúpþrá. Hvaða hugmyndir sem við höfum um Guð og trúarefni þráum við samt öll hið djúpmennska í boðskap jólanna. Tákn jóla vísa til dýpta, speki og gilda, sem veröldinni eru lífsnauðsyn. Þegar við leyfum okkur að vera sem ljóssækin börn eða horfum með hrifningu í augu ástvina erum við á hamingjuleiðinni. Sömuleiðis þegar við vitjum drauma okkar, sem við höfum lært að kæfa, með raunsæi. Jólin eru tími gjafa, en stærsta gjöfin sem við getum öðlast og opnað er lífsundrið, að tilveran er ekki leiksoppur myrkra afla og tilvera til endanlegs dauða, heldur þvert á móti, að nóttin er rofin barnsgráti Guðsbarnsins, sem er merkingarvaki allrar veraldar. Þegar lita- og formsúpa lífsins skerpist muntu uppgötva að alla tíð var það, sem persónudjúp þitt þráði.

„Maður sér ekki vel nema með hjartanu. Það mikilvægasta er ósýnilegt augunum” sagði refurinn í spekibókinni Litla prinsinum. Við þurfum ekki að horfa á hið yfirborðslega í jólasögunni og alls ekki taka hana bókstaflega. Við megum frekar leggja okkur eftir inntaki en umbúnaði, merkingu en ekki ásýnd.

Drengurinn, sem fékk sjónina, er nú orðinn fullorðinn. Honum hefur farnast vel. Hann var séður af góðum foreldrum og góðum fagmönnum. Það er mikilvægt að sjá og vera séður. Og í hinu stærsta samhengi skiptir aðalmáli að sjón Guðs er í góðu lagi. Við erum ekki týnd í litasúpu milljarða manna eða sólkerfasúpu geimsins heldur erum við séð hvert og eitt. Við erum metin, skilin og virt. Guð sér okkur og kemur til okkar til að setja allt í fókus í veröldinni, náttúrunni og lífi fólks. Guð sér þig skýrt, í öllum litum, allar víddir þínar og brosir við þér.

Samastað syninum hjá

Gleðileg jól. Hvað veitir gleði og hvað kallar fram mesta hamingju? Hvernig tengjust við fólki, lífi og sjálfum okkur? Hvernig lifum við?

Fyrr í þessum mánuði lést maður, sem ég þekkti. Hann stóð alla tíð lífisins megin, þjónaði fólki og veitti þúsundum heilsubót. Hann varð fyrir áföllum í lífinu en bugaðist ekki heldur þroskaðist í eldi lífsreynslunnar. Hann var vitur maður og mat gæði lífsins mikils. Meðal annars hafði hann áhuga á tónlist og fólkið hans söng. Svo brast heilsa hans og fyrr á árinu var ljóst að komið væri að lífslokum. Undir það síðasta gat hann ekki lengur talað. Síðustu vikurnar komu börn og ástvinirnir til hans og sungu fyrir hann og umvöfðu hann elsku. Lífi hans lauk nú á aðventunni. Síðustu dagana sungu þau fyrir hann aðventu- og jólasálma. Vonarstef aðventusálmanna hljómuðu. Gleðiefni jólasálmanna liðuðust að grunnri öndun hins deyjandi manns. Svo var komið að Heims um ból, erkisálmi íslenskra jóla. Og dóttir hans söng jólasálminn fyrir föður sinn. Í síðasta versinu lést maðurinn og fór inn í himininn.

Um hvað fjallar síðasta erindið í Heims um ból? Það er um englasönginn frá himnum. Og líka um frið á jörðu því Guð umvefur þau, sem eiga sér samastað hjá syninum – eru vinir Guðs, vinir Jesú Krists. Þegar dóttirin söng „samstað syninum hjá“ fór faðir hennar inn í himininn. Tíminn endaði og eilífðin byrjaði. Barnið, sem fæðist á jólum, kom til hins deyjandi manns. Þeirra samastaður var hinn sami.

Sálmar jóla

Sálmurinn Heims um ból er jólasálmur. Guðspjallssagan í Biblíunni er jólasálmur líka. Allir jólatextarnir eru ljóðrænar tjáningar um hið mesta og besta, sem hægt er að tjá. Eru þessir textar blekkingasögur og ótendar við lífið, glimmersögur sem sem eru fyrir börn og hrifgjarnt fólk? Nei. Þessir textar eru um það sanna og mikilvæga. Jólasagan er vissulega litrík. En það er engin ástæða til að taka skynsemi úr sambandi til að njóta hennar og virða. Jólaboðskapurinn er ekki fyrst og fremst um meyjarfæðingu, um vitringa, englaskara eða að Jesús fæddist í Betlehem. Þetta eru atriði varðandi umgjörð fremur en inntak. Erindi jólanna varðar ekki heldur hvort Jesús Kristur fæddist árið 1, árið 0 eða 4 árum eða 6 fyrir tímatal okkar. Helgisögur eigum við ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega. Trúin leitar að inntaki að baki bókstaf sögunnar – þarf að kafa í merkingu, meiningu, en staldra ekki í forskála sögunnar. Veruleiki helgisögu varðar gildi og dýpt.

Skilja helgisögu

Hvernig eigum við að nálgast og túlka helgisögur? Fólk fortíðar gerði sér vel grein fyrir staðreyndum og túlkun. Ytri veruleiki væri eitt en síðan mætti sjá mynstur, dýpri sannindi, viðmið og siðgildi menningar og einstklinga. Þau kunnu að greina að meginmál og aukaatriði. Þau skildu flest hvenær saga var krydduð og hvernig flokka ætti í viðburðasögur, viskusögur, kennslusögur, skemmtisögur eða siðkennsludæmi. Saga er meira en samsuða nokkra atriða um hvar, hvenær, hvernig og af hverju. Við þörfnumst meira en bara staðreynda til að líf okkar öðlist gildi og við njótum þess. Ást okkar á fólki verður hvorki vakin né kæfð vegna staðreynda einna. Lífið er meira en efnisveruleikinn.

Þegar við lesum klassík, hvort sem er Biblíuna eða rit fornaldar, er vert að muna að lengi voru sögur og viðburðir marglaga og oft fjórþrepa. Það var túlkunarháttur, sem vestræn kristni tók í arf úr v-asísku og grísku samhengi. Hið fyrsta var, að nálgast viðburði í ljósi staðreynda, rétt eins og góðir fræðimenn og fjölmiðlafólk gera. Önnur túlkunarvídd var spávíddin sbr. allir textarnir í gamla testamentinu sem sögðu fyrir um uppfyllingu í Jesú Kristi – nú eða rannsóknir náttúruvísindamanna um mengun, sem hafa forspárgildi varðandi þróun veðurfars og þróun lífs á plánetu okkar. Þriðja merkingarlagið varðaði siðvit og andlega visku. Rétt eins og við verðum fyrir áhrifum frá þroskuðu fólki getum við gert annað fólk fortíðar að viðmiðum okkar á lífsgöngunni og hvernig við getum orðið ábyrgari í athöfnum og samskiptum við aðra og náttúruna. Svo er síðasta víddin og varðar framtíð, hinstu tíma og eilífðina. Samstaðurinn í eilífðinni hefur áhrif á hvernig við lifum í þessu lífi.

Staðreyndir þurfa samhengi. Öll þörfnumst við næringar líkama, en líka andlegt fóður og gjöfula menningu og réttlátt samfélag. Við erum ekki einvíddar heldur fjölvídda. Merking er alls konar, söguleg og staðreyndir en líka andleg, siðferðileg, samfélagsleg, tilfinningaleg og trúarleg.

Jólasagan er helgisaga. Og slíkar sögur eru flétta stefja, ímynda og minna, sem þjóna boðskap eða virkni helgisögunnar. Við megum reyna að skræla burt það, sem ekki hefur í okkar samtíð skiljanlega skírskotun til hins guðlega. Forðum voru kraftaverk talin skýr tákn um Guðsnánd, en eru það ekki lengur. Vitringar voru tákn um stórviðburði og þjónuðu þar með ákveðnu hlutverki mikilvægis. En þannig er það ekki lengur. Svo var þjóðmenning og túlkunarhefð að baki í Biblíunni, sem var eins og stýrikerfi, sem stjórnaði hvaða atriði varð að nefna til að hægt væri að gera skiljanlega dulkóðun merkjakerfisins, hvernig átti að segja hlutina til að samhengið væri ljóst. Þetta var túlkunarhefðin, sem stýrði skilningi.

Mál hjartans og lífsviskan

Í spekibókinni Litla Prinsinum segir refurinn við drenginn þessi merkilegu orð: “Hér er leyndarmálið. Það er mjög einfalt: Maður sér ekki vel nema með hjartanu. Það mikilvægasta er ósýnilegt augunum.”

Við ættum ekki að láta hið yfirborðslega í jólasögunni rugla okkur og ekki taka söguna bókstaflega. En hvernig eigum við þá að skilja hana alvarlega? Þegar allt er skoðað og líka með hjartanu er boðskapurinn að Guð elskar. Guð tjáir þá ást með róttæku móti, ekki aðeins skriflega, bréflega eða með fréttatilkynningu í helgri bók. Guð sendir ekki fyrirskipanir og skoðanabombur eins og gamaldags einvaldur, heldur kemur – í eigin persónu. Þegar við játumst veruleika þess, að Guð er og elskar, verður nýr samastaður okkar til. Við verum börn tíma en líka eilífðar, að við megum lifa hamingjuna í samskiptum við fólk og náttúru og líka lifa í opnum tengslum við himininn.

Hvert barn – hver lifandi mannvera – getur skilið með hjartanu. Sannindi lífsins verða ekki bara túlkuð með vitsmunum, heldur lifuð á dýptina. Engin stærri gjöf fæst í lífinu, heldur en þegar sagt er við okkur og tjáð með margvíslegu móti: „Ég elska þig.“ Í því ljósi megum við hugsa og lifa guðssambandið – og tjá hvernig Guð er: Guð elskar ákaft og ævinlega. Í trú  lærir þú að skynja, að alltaf er Guð að tala – á öllum stundum lífsins, á álagstundum, á hátíðum, með börnum, þegar þú faðamar ástvini þína. Alltaf eru skilaboðin þau sömu, tjáningin hin sama: „Ég elska þig. Mig langar til að vera þinn og langar til að þú sért mín og minn.”

Samastaðurinn

Þegar við syngjum jólasálmana syngjum við um ást himinsins á heiminum. Og þegar Heims um ból er sungið kyssir himinn heim. Og því er undurfagurt þegar lífi lýkur í ómfangi sálmsins – að eiga heima, hvílustað hjá Guði. Það er margvídda mál að fara úr tíma og inn í líf himins, fara úr fangi ástvina inn í Guðsfangið. Þú ert elskuð og elskaður, þú mátt njóta þess að lifa, njóta þess sem þér er gefið, horfa í augu fólksins þíns og sjá í þeim undur lífsins. Samastað syninum hjá. Gott líf í heimi og gott líf í veröld Guðs. Orðið varð hold og bjó með oss. Jól þessa heims og annars. Guð gefi þér gleðileg jól.

Íhugun Hallgrímskirkju jóladag 2019.

Meðfylgjandi mynd er eftir Karolínu Lárusdóttur og ég hef aðeins enskt heiti hennar: Wondrous Happenings.

Stjörnur og snjókorn Hallgrímskirkju

Á aðventunni fríkka bekkir Hallgrímskirkju. Bekkjaendarnir hafa síðustu ár verið skreyttir með hvítum, hekluðum snjókornum. Erla Elín Hansdóttir, sem er kunn að kennslu í Kvennaskólanum og störfum í þágu Hallgrímskirkju, er líka hannyrðakona. Fyrir mörgum árum vantaði skreytingu á aðventunni og þá gerði hún stjörnur úr pappír, sem voru notaðar til fegrunar á aðventutónleikum og í helgihaldi jólanna. Stjörnurnar voru gerðar í fjórum stærðum og vöktu gleði þeirra sem sóttu kirkjuna. En í troðningi slitnuðu þær niður og viðkvæmar stjörnur úr pappír aflöguðust. Erlu Elínu varð því ljóst, að þær myndu ekki duga í mörg ár. Hvað var til ráða? Hún fann góða hekluppskrift að stjörnu og það varð til að hún heklaði marga tugi af hvítum stjörnum. Vinkonur hennar í prjónaklúbbi hrifust af og lögðu lið og nærri eitt hundrað stjörnur fæddust. Þær voru síðan hengdar á enda kirkjubekkja og á nokkrum vel völdum stöðum í kirkjunni og líka á orgelið.

Í vitund margra Íslendinga er stjörnuskinið fegurst á jólanótt þegar birtan endurspeglast í fannbreiðum og snjóflygsum. Þegar Erla Elín fann bók árið 2014 með eitt hundrað hekluppskriftum hófst nýtt ævintýri. En nú voru það uppskriftir að snjókornum. Erla Elín heklaði fjölda snjókorna, sem hafa blasað við þeim sem hafa síðan komið í Hallgrímskirkju á aðventu og jólum.

Margir sem hafa sótt athafnir og tónleika á aðventu og jólum hafa heillast af þessum fögru handarverkum. Kirkjur á Íslandi hafa notið hannyrða og stuðnings kvenna. Hallgrímskirkja hefði ekki verið byggð ef dugmikilla kvenna hefði ekki notið við. Áfram verða undrin vegna þess að hugsjónakonur þora. Erla Elín Hansdóttur er ein þeirra. Snjókornin hennar birtast í Hallgrímskirkju á aðventu og sofandi stjörnur vakna til jólagleðinnar.

 

Sannur Keflvíkingur + Ásbjörn Jónsson

Ásbjörn fór á Heklu í október síðastliðnum. Á tindinum hélt hann stoltur á trefli og þar stóð: Sannur Keflvíkingur. Það var satt, hann var heilshugar í stuðningi sínum og samstöðu með samfélagi sínu. Síðustu vikurnar, sem hann lifði, notaði hann þverrandi krafta til að tryggja, að öll verkefni hans í þágu Keflavíkur yrðu í góðum höndum. Ásbjörn lauk sannarlega því sem honum var falið að sinna.
 
En Ásbjörn var ekki bara trúr Keflavík og Suðurnesjum. Hann var sannur í verkum og tengslum. Fjölskyldumaðurinn var traustur og heimilisbragðurinn gleðilegur. Þau Auður voru vinir og sálufélagar og voru dætrum sínum náin.
 
Ásbjörn var trúmaður og kirkjumaður. Hann var kjörinn til setu á kirkjuþingi og þar kynntist ég hversu vel hann vann. Hann var kjörinn til setu í kirkjuráði. Ásbjörn var glöggur, hagsýnn og mjög fundvís á leiðir úr vanda og lagði til farsælar lausnir. Honum var mjög í mun að tryggja, að kirkjunni væri stjórnað með skilvísum hætti. Jafnvel síðustu vikur ævinnar var hann á vaktinni og var uggandi um nýjan fjárhagssamning ríkis og kirkju.
 
Börnin nutu líka athygli Ásbjarnar. Einu sinni hittumst við á leið til Kaupmannahafnar. Þau Auður voru á leið til sinna dætra og ástvina og við kona mín vorum með strákana okkar. Drengirnir heilluðust af þessum brosmilda og káta vini foreldranna. Skömmu síðar kom hann í heimsókn með fangið fullt af leikföngum til að gleðja drengina. Ásbjörn var sannur vinur og ræktaði vinasambönd.
 
Styrkur og geta Ásbjörns blasti við öllum, sem kynntust honum. Einstakt er hvernig hann við ævilok gekk frá öllum endum, kvaddi félaga sína og vini og lauk öllum sínum verkefnum. Þrotinn að kröftum kom hann í heimsókn til að kveðja okkur hjón og fjölskyldu okkar. Með hlýju í augum þakkaði hann fyrir tengsl, samhug og gleðimál. Ásbjörn var sannur í trú sinni og lífstengslum. Ekki aðeins sannur Keflvíkingur, heldur sannur gæfumaður, sem sárt er saknað. Guð geymi hann.

Þessa mynd hér að neðan tók ég af Ásbirni í ferð á Lúthersslóðir sumarið 2012. 

Paradísarmissir – Paradísarheimt

Heimur Biblíunnar er dramatískur og litað er með sterku litunum um stærstu mál mannkyns og heims. Á síðari árum hefur mér þótt mengunarmál heimsins væru orðin svo dramatísk að þau væru orðin á biblíuskala. Margt sem skrifað hefur verið um þau efni hefur minnt á heimsendalýsingar Biblíunnar. Biblíutenging kom enn og aftur upp í hugann við bóklestur liðinnar viku. Ég lauk að lesa nýju bók Andra Snæs Magnasonar, Um tímann og vatnið. Það er áleitið rit um stóru málin, um náttúruna, meðferð okkar og ábyrgð á stórheimili okkar, jarðarkringlunni. Andri Snær skrifar ekki aðeins eins raunvísindamaður heldur segir persónulegar og blóðríkar sögur og opnar fyrir lífsviskuna, sem varðveitt er í trúarritum og helgidómum heimsins.

Missir og heimt

Í fyrstu bók Biblíunnar er lýst, að heimurinn var skapaður sem hamingjureitur. Heimurinn var Paradís. Síðan er harmsagan um hvernig menn spilltu heilagleika náttúrunnar og klúðruðu stöðu sinni. Og þessi lýsing er ekki náttúrufræði heldur listræn tjáning, erkiljóð, sem miðlar sársauka mannkyns yfir að hafa ekki staðið sig og skemmt það sem var gott. Sem sé paradísarmissir. Biblían tjáir, að menn hafi æ síðan leitað að paradís. Svo lýsir Biblían líka hamingjutímabilum þegar mannlíf var í jafnvægi, heilbrigði ríkti, allir höfðu í sig og á og friður ríkti.

Í langri sögu hebrea varð Jerúsalem miðja paradísar. Hún var tákn um að allt væri gott og rétt. Stórþjóðir tímanna réðust á smáþjóðina, sem hafði Jerúsalem að höfðuvígi. Saga hennar varð saga paradísarmissis eða paradísarheimtar. Sögurit Gamla testamentsins rekja paradísarleitina, spámannaritin spegla hana og í Sálmunum eru mikil ljóð sem tjá paradísarmissi en líka von. Á tímum herleiðingar og ofbeldis fæddist þráin eftir lausn. Messíasarvonir vöknuðu þegar kaghýddir hebrear þræluðu í hlekkjum. Það er á spennusvæðinu milli paradísarmissis og paradísarheimtar, sem Jesús Kristur kom í heiminn til að leysa úr fjötrum. Guðspjöllin eru um opnun paradísar, öll rit Nýja testamentisins sem og síðan öll helg saga síðan. En mennirnir eru samir við sig. Allir einstaklingar endurtaka frumklúðrið í sköpunarsögunni, allir síðan, í öllum samfélögum og þjóðum allra alda. Við erum börn, sem líðum fyrir missi paradísar en leitum að paradís.

Í Biblíunni er Jerúsalem paradís, ef ekki í raun þá sem táknveruleiki. Og um borgina er skáldlega talað og grafískt um að sjúga af huggunarbrjósti hennar og njóta nægta. Guð veitir Jerúsalem velsæld og færir henni ríkidæmi. Allir njóta, börnin líka. Jerúsalem biblíunar er nothæft tákn um náttúru í samtíð okkar.

Um tímann og vatnið

Bók Andra Snæs Magnasonar er bók um paradísarmissi, en líka um hvað við getum gert til bjargar. Hún er glæsilega skrifuð en líka óumræðilega þungbær. Ég varð að taka mér nokkurra daga hlé á lestrinum því illvirki manna gagnvart jarðarkúlunni eru opinberuð með svo lamandi hætti, að mér varð illt. Sókn okkar manna í gæði hefur skuggahliðar. Neysla, iðnvæðing, landbúnaðarbreytingar, orkunoktun og lífsháttabreytingar hafa breytt paradís jarðarkúlunnar í sjúka lífveru með ofurhita, sjúkling með dauðann í augum og æðum. Loftslagsvá ógnar lífi stórs hluta mannkyns. Risastór gróðursvæði hafa skaddast eða eyðst, vatni hefur verið og er áfram spillt um allan heim. Vegna athafna manna hafa dýrategundir dáið eða eru í hættu og lífríki riða til falls. Fíngert jafvægi hefur brenglast. Hópar og þjóðir fara á vergang, friður spillist, lífið veiklast. Paradísarmissir. Og ef við notum stóru stef Biblíunnar getum við dregið saman allt það, sem Andri Snær útlistar að Jerúsalem sé herleidd og flekkuð og deyji ef ekkert verður að gert.

Erindi kristni og mengun

Hin miklu klassísku rit Biblíunnar, trúarbragðanna og klassíkra bókmennta mannkyns draga upp stórar myndir um merkingu þess að lifa sem manneskja í samfélagi og fangi jarðar. Við kristnir menn höfum endurtúlkað allt sem varðar það líf. Guð er ekki lítill smáguð þjóðar í fjarlægu landi, heldur Guð sem skapaði þessa jarðarkúlu og alla heima geimsins, elskar lífið sem af Guði er komið, liðsinnir og hjálpar. Paradísarmissir og paradísarheimt varða sögu Guðs og er raunar saga Guðs. Nú er svo komið, að kristið fólk veit og skilur, að Jesús Kristur kom ekki aðeins til að frelsa Jóna og Gunnur, þ.e. mannkyn, heldur líka krókódíla, kríur og hvali, vatnsæðar heimsins og himinhvolfið einnig. Við menn – í græðgi okkar og skeytingarleysi – erum dugleg við að skemma lífvefnað jarðarkúlunnar. Nú þurfum við að stoppa, hugsa, dýpka skilning okkar og þora að breyta um kúrs. Við jarðarbúar, við Íslendingar líka, höfum seilst í alla ávexti aldingarðsins, höfum breytt skipulaginu og klúðrað málum svo harkalega, að við höfum tapað paradís.

Þegar Jerúsalem féll í fornöld, sem var reyndar nokkuð reglulega, komu fram spámenn til að vara við, setja í samhengi, vekja til samvisku, hvöttu til að snúa við, taka sinnaskiptum, iðrast. Alltaf var Guð með í för þegar rætt var um lífið. Bók Andra Snæs er ekki klassískt spámannsrit heldur nútímalegt, eftir-biblíulegt viskurit um, að mengun er mál okkar allra. Við erum kölluð til verka. Við höfum ekki lengur þann kost að búa um okkur innan múra afneitunar. Við getum í afneitun varið okkur sem erum komin á eldri ár en við megum ekki og eigum ekki að taka þátt í að eitra fyrir börn okkar og afkomendur. Vandinn er svo stór, að börnum okkar er ógnað. Við getum vissulega ekki bjargað heiminum ein en við getum öll gert margt smátt. Paradísarmissir er ekki eitthvað sem varðar hina – en ekki okkur. Missirinn er okkar allra. Við erum heimsborgarar og hlutverk okkar er paradísarheimt.

Framtíðin kallar. Ungt fólk um allan heim gegnir kallinu og stendur vörð um líf, heilbrigði og ábyrgð. Það eru ekki aðeins Greta Thunberg sem beitir sér, heldur milljónir ungs fólks um allan heim, líka Íslendingar. Í þessari viku verður æskuþing haldið um aðalmál íslenskra unglinga. Og miðað við viðtöl liðinna daga við unglingana munu þau ræða um hvernig megi bregaðst við mengunarmálum. Ég er djúpt snortinn af elsku og heilindum framtíðarfólksins. Í boðskap þeirra – og Andra Snæs einnig – heyri ég vonarboskap sem varðar lífið. Guð kallar til starfa að við njótum og verndum Jerúsalem náttúrunnar – verndum lífmóður okkar. Jesús býður ekki aðeins okkur að koma til sín heldur kemur til okkar og er með okkur. Guð stendur með lífinu og erindi kristninnar er paradísarheimt.