Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Dachau, útrýmingarbúðir og við

 

75 ár eru frá því útrýmingarherferð nasista lauk og fangar voru frelsaðir úr dauðabúðunum. Í Póllandi, Jerúsalem og Þýskalandi hafa verið haldnar minningarathafnir á þessum tímamótum. Í búðunum voru meira en sex milljónir myrtar. Gyðingar voru stærsti hópurinn, en líka þau sem voru talin óæskileg, samkynhneigðir, fólk með þroskahamlanir og pólitískir andstæðingar yfirvalda. Fólk var pyntað, kvalið, niðurlægt og myrt. Börnum var jafnvel hent lifandi inn í eldofnana og kvalaópin skáru í hlustir hinna fanganna, sem ekkert megnuðu í varnarleysi sínu annað en hlusta og æpa hljóðlausar bænir inn í eilífðina. Er nema von að fólk spyrði í kjölfar styrjaldarinnar hvort Guð væri ekki beinlínis nauðsynlegur til að gera upp sögu með þvílíkri hryllingsvídd.

Skammt utan við borgina München í Þýskalandi er Dachau, lítill staður með stóra sögu. Ég átti einu sinni leið til München og fór þá til Dachau. Ég vissi fyrirfram um staðinn og hafði kynnst fólki sem hafði misst ættingja sína í Dachau. Það er sálarslítandi að lesa helfararbækur en grípandi og nístandi að hugsa um mismunandi viðbrögð fólks í dauðabúðum. Þessar bækur halda að manni íhugun um merkingarleysi en líka lífsmöguleika. Meðal þess sem ég hafði lesið var viskubók Viktor Frankl Leitin að tilgangi lífsins, en Frankl var um tíma fangi í Dachau.

Yfir búðahliðinu var stóð: Arbeit macht frei – vinna til frelsis. En veruleikinn var annar og myrkari innan hliðs og girðingar. Þar voru óæskilegir vistaðir og þeim fargað, fólk sem var af ákveðnum kynþætti, þroskaheft eða með aðrar skoðanir en valdhafar. Meðal þeirra var hinn kunni prestur Martin Niemöller, sem benti á mannelsku Guðs sem ekki gerir greinarmun á fólki.

Skálarnir, húsin og minnismerki búðanna sögðu hljóðláta sögu sem var ávirk þeim sem höfðu næði til að hlusta á nið sögunnar og höfðu einhver tengsl við hana. Sláandi var minnismerki um kristna menn, sem höfðu dáið á þessum stað. Það var róða, magur og hrjáður Jesús Kristur hékk á krossinum. Þetta var kaghýddur og vannærður Jesús, kunnugur þjáningu, bróðir harmkvælamanna búðanna.

Gyðingaminnisvarðinn í Dachau er hús en í mynd stórs bjargs. Til að komast inn í þá byggingu varð að fara niður í jörðina og þegar inn var komið sást, að veggirnir voru bognir en komu saman á einum stað. Veggir og loft hækkuðu til þeirrar áttar, sem veggir komu saman. Þar var því hæst. Augu leituðu upp og hátt uppi var hringlaga op. Þar sást upp í himininn . Öll byggingin var myrk. Tilfinningin fyrir grjóti var sterk, þetta var eins og grafhvelfing og minnti mig á grafarhvelfingu Jesú. Ein ljósleið var þarna og það var leiðin upp í himininn. Sjónlínan, ljóslínan, var vonarlína.

Á leiðinni til Dachau voru nokkur ungmenni í sömu lest og ég sat í. Við töluðum saman á leiðinni og þau sögðu mér að þau væru á lestarferð, Interrail-reisu, í Evrópu. Þau fóru hraðar yfir en ég þegar inn í búðirnar var komið, voru snögg að skoða fábrotna svefnskálana og ég heyrði að þau sögðu hvert við annað: “Hér er ekkert að sjá.” Þau settust svo niður og fengu sér smók og fóru svo. Þau sáu aldrei neitt annað en nakta skála og nokkrar byggingar. Þau sáu aldrei hinn krossfesta Krist, sáu aldrei grafarminnismerkið um Gyðingana, þetta með ljósopinu til himins. Þau höfðu ekkert heyrt um þennan stað annað en að þetta hefðu verið fangabúðir. Þau voru snögg að sjá – að það var ekkert að sjá. Það var ekkert gert til að auka áhrifin. Áhrifin voru í huga þeirra sem komu.

75 ár frá því að Þýskalands nazismans var neytt til að hætta manndrápum. Hvað höfum við lært? Ef maður vill ekki sjá sér maður ekkert, fær sér bara sígó og fer svo. Ekkert er svo myrkt að himinbirtan megni ekki að upplýsa. 

Bæn

Guð minn, Guð minn, hví hefir þú yfirgefið mig? Ég hrópa, en hjálp mín er fjarlæg. Guð minn! hrópa ég um daga, en þú svarar ekki, og um nætur, en ég finn enga fró. Og samt ert þú Hinn heilagi. …  Til þín var mér varpað frá móðurskauti, frá móðurlífi ert þú Guð minn. Ver eigi fjarri mér, því að neyðin er nærri, og enginn hjálpar. … Endimörk jarðar munu minnast … og hverfa aftur til Drottins og allar ættir þjóðanna falla fram fyrir augliti hans.

Megi ljósið blessa þig. Megi birtan upplýsa myrkur þitt. Megi afturelding umvefja alla menn og allt líf og gefa réttlátan frið.

Byggjum svo á bjargi

Hallgríms helgu kirkju

í Herrans nafni reisum.

Verkið virðulega

vel af hendi leysum.

Látum kraft hins krýnda

Konungs hjörtun skíra.

Byggjum svo á bjargi

bænahúsið dýra.

Þetta er lokaerindið í ljóði Guðrúnar Jóhannsdóttur í Brautarholti sem hún orti þegar bygging Hallgrímskirkju var undirbúin. Ég rakst á þessa fallegu skrautrituðu útgáfu upp á vegg á skrifstofu Margrétar Bragadóttur í kirkjunni. 

Viðsnúningur – fyrirgefðu

Í gamla daga var talað um iðrun – og iðrun er það að úthverfa því sem er hið innra. Við getum notað ýmis orð um þetta ferli. Við getum talað um viðsnúning, sem verður í lífi okkar flestra með einu eða öðru móti, og við þurfum að ná heilsu og iðka heilindi til að viðsnúningur sé góður og gjöfull. Fyrirgefning er mikilvægt atriði í viðsnúningi – og varðar ákveðna þætti lífsins og ekki síst hið himneska – guðlega samhengi.

Strákurinn í Eyjum

Einu sinni svindlaði strákur á prófi. Mamman komst að glæpnum. Drengurinn varð skömmustulegur og sagði við hana. “Ég ætla að biðja Guð fyrirgefningar.” “Já, það er ljómandi,” sagði mamma. “En það er ekki nóg. Þú verður líka að fara í skólann og biðja kennarann fyrirgefningar!” Það fannst strák verra en lærði þá lexíu, að það er ekki nóg að tala. Iðrun er ekki alvöru nema hún hafi áhrif á atferli og samskipti. Iðrun er ekki privatmál heldur hefur samfélgsvídd. Iðrun er ekki einkamál.

Við gerum öll eitthvað rangt, sem hefur slæmar afleiðingar. Við segjum eitthvað, sem særir og jafnvel grætir. Við hittum fyrir viðkvæmt hjarta eða segjum eitthvað óvart, sem veldur misskilningi og jafnvel vinslitum.

Á að biðjast fyrirgefningar á slíku? Já, en hvað um þau, sem gera rangt en iðrast ekki? Er hægt að fyrirgefa þeim án þess að þau viðurkenni brotið?

Bergmann
Einu sinni horfði ég í beit á flestar kvikmyndir Ingmar Bergman og síðan á ítarefni og þar á meðal viðtal við hann. Bergmann sagði frá samskiptum sínum við kvikmyndagagnrýnanda, sem hafði gagnrýnt mjög verk hans mörgum áratugum áður. Bergman hafði greinilega þörf fyrir að ræða um þennan mann og hversu illa gagnrýnandinn hefði farið með sig, hvernig honum leið og hversu illa fjölskyldan varð fyrir barðinu. Gagnrýnandinnn var uppteiknaður sem vondur maður. En sá hafði enga möguleika til varnar því hann var löngu dáinn. Til að ekkert færi milli mála sagði kvikmyndajöfurinn ískalt, að það skipti hann engu máli þótt hann væri dáinn: “Ég vona að hann rotni í helvíti!” sagði Bergman. Sem sé fullkomið hatur. Þú hefur væntanlega hitt fólk sem hatar og getur alls ekki fyrirgefið. Hvað með það?

Svo eru þau sem eru siðblekkt eða siðblind og sjá engan skilsmun á góðu og illu – og tjá því enga iðrun. Og þessi hópur er líklega 1- 2% fólks. Áföll slíkra manna eru aðeins að fá ekki vilja sínum framgengt. En er hægt að fyrirgefa, þegar engin afsökunarbeiðni berst? Er hægt að fyrirgefa ef engin iðrun er að baki og ekkert hjartanlegt “fyrirgefðu.”

Iðrun og fyrirgefnin

Fyrirgefning varðar margt og er alls konar. Hvað átti  að gera við gamla komma austurblokkarinnar eftir fall kommúnismans? Þeir játuðu sumir brot sín með vörunum og töldu það nóg til að þeir fengju syndakvittun og möguleika til nýs pólitísks lífs. Í Suður Afríku komu margir fyrir Sáttanefndina sem þeir Mandela og Tutu stofnuðu til. Margir þráuðust við – iðruðust ekki. Oft er það svo að iðrun verður ekki fyrr en augu hinna seku eru glennt upp, eins og sjá má af iðrunarmynd Einars Jónssonar í Hnitbjörgum.

Ófyrirgefanlegt?

En svo eru tilvikin þegar krafan um iðrun sem forsendu fyrirgefningar er óraunhæf. Margt verður og fellur utan við mannlega fyrirgefningu; engin beiðni berst og enginn getur fyrirgefið. Dæmi um þetta eru svonefndir “glæpir gegn mannkyni” sem enginn getur fyrirgefið algerlega. Þjóðir og hópar geta fyrirgefið, en glæpinn er ekki hægt að gera upp. Þegar fólk var að gera upp hrylling seinni heimsstyrjaldar gerðu hinir marxísku spekingar Frankfurtarskólans sér grein fyrir að til er eilíf sekt. Horkheimir og Adorno sögðu að Guð væri “nauðsynlegur” eins og þeir orðuðu það, til að vinna úr glæpum nasismans. Þegar samskipti manna eru gerð upp stendur ávallt út af hið illa, hið ógurlega sem aðeins Guð getur tekið á. Og þar erum við komin að kviku trúar og kristni.

Afstaða Jesú – átrúnaður fyrirgefningar

Jesús umbreytti allri lagahyggju hins gyðinglega átrúnaðar, bar elsku til fólks, var elskan holdi klædd í samskiptum og benti í öllu og ávallt á þann sem elskar. Og okkar mál er að innlifast þeim veruleika í lífi, samskiptum og siðferði. Kristnin er framar öðru átrúnaður fyrirgefningar af því að guðsmynd Jesú er hin lífgefandi þvert á kalt réttlæti og endurgjaldshyggju.

Stela framtíðinni

Ég var barn í vesturbæ Reykjavíkur þegar Kúbudeilan geisaði í byrjun sjöunda áratugarins. Fréttaflutningurinn um yfirvofandi heimsenda náði til okkar barnanna. Ég varð óttasleginn og gerði mér grein fyrir að heimsendaógnin væri til framtíðar þó heimsenda hafi reyndar ítrekað verið frestað. Meðan ég enn var barn varð niðurstaðan, að ég ætti aldrei að eignast börn. Mér fannst það væri óábyrgt, ósiðlegt, að fæða börn inn í svo hættulega veröld. En Guð er húmoristi og ég hef eignast fimm börn. Guð opnar alltaf klemmdan tíma. Ég á þrjú barnabörn sem ég horfi í augun á og hugsa um framtíð þeirra og hamingju. Hvernig verður hún? Hvað get ég gert í þeirra þágu?

Nú eru áramót og hugleiðinar um fortíð og framtíð laumast inn í vitundina. Er tíminn opinn og ekkert nema möguleikar framundan á nýju ári? Eða er tími mannanna að læsast og líf heimsins í kreppu? Ég minnist margra samtala við ungt fólk á árinu. Það sem situr helst í mér eru hinar djúpu áhyggjur sem þetta framtíðarfólk hefur af velferð heimsins, náttúrunnar sem er húsið, sem við búum í. Og ég tek alvarlega framtíðarkvíða æsku heimsins og líka að mín kynslóð hafi gert hrapaleg mistök á kostnað fólks og framtíðarlífs plánetunnar. Er framtíðin ógnvængleg? Hvað er til ráða?

Fyrr á árinu söfnuðust framhaldsskólanemar hér fyrir framan Hallgrímskirkju. Unga fólkið hélt á slagorðaspjöldum – um mikilvægi loftslagsverndar. Spjöldin voru með litríkum setningum um náttúruvernd, verkefni okkar og tímann. Boðskapur þeirra hafði djúp áhrif á mig og leitar reglulega upp í hugann. Ég tók myndir af spjöldunum og fór að skoða þær aftur í vikunni. Þar segir meðal annars: „Framtíð okkar er í húfi.“ „Tíminn er á þrotum.“ „Það er löngu kominn tími á aðgerðir.“ „Það er engin planet B.“ Þetta eru ábendingar nokkurra spjaldanna. Hin sænska Greta Thunberg hefur dýpkað áhyggjur æskufólks og beinlínis ákært forystufólk heimsins fyrir að stela tíma og framtíð barna heimsins. Á loftslagsráðstefnu í haust sagði hún við sextíu þjóðarleiðtoga: „Þið hafið stolið draumum mínum og æsku með innantómum orðum ykkar.“Þegar við berum saman einróma viðvaranir vísindasamfélagsins og aðgerðir stjórnmálamanna skiljum við þunga ákærunnar og Greta Thunberg hefur rökin sín megin. Hvað með stuld framtíðar?

Loftslagsvá, plastmengun hafanna, brennandi Ástralía og skelfilegir gróðureldar á öðrum hlutum jarðarkúlunnar. Mengun hefur breytt lífkerfum heimsins og veldur streitu í samskiptum sem leiða til styrjalda og þjóðflutninga. Ótti læðist um í samfélögum heimsins og nær tökum á æ fleirum og kemur fram í alls konar skrítnum óttamyndum. Mannótti, hræðsla við aðkomna og flóttamenn, neikvæð þjóðernishyggja og vonskuathugasemdir nettrölla á samfélagsmiðlum eru tákn um aukna streitu og að menningarmengunin er líka að aukast. Framtíðin verður æ ógnvænlegri. Það er eins og dans tímans sé að hægjast. Börn heyra fréttir, unnið er með þær í skólum og æ fleiri taka viðvaranir alvarlega um klemmda eða lokaða framtíð. Hvernig getum við brugðist við, hvað eigum við að gera? Framtíðarkvíði – skiptir trú á Guð einhverju máli?

Líf beri ávöxt

Guðspjallstexti gamlársdags talar inn í aðstæður og kall tímans. Jesús segir kennslusögu, sem er skiljanleg – líka á okkar dögum. Hvað á að gera við tré, sem ekki ber ávöxt? Bændur veraldar fella slík tré. Í Jesúsögunni er tréð nytjajurt en ekki skrauttré eða gróðusett vegna flugkvíða og kolefnisspora. Grænfingraðir vita að sjúkdómar hrjá líf og farsóttir geisa í ávaxtagörðum veraldar. Þrjú geld ár er tæplega hægt að umbera en ekki fjögur. Ræktunarmenn vita að þá er næsta vel reynt. Eigandinn vill því höggva, en garðyrkjumaðurinn vill þó veita enn einn séns. Lengi skal tré reyna – rétt eins og menn.

Jesúmeiningin er, að Guð er langlyndur umfram mannlega kvarða. En líka að öllu lífi er ætlað að bera ávöxt – skila sínu láni. Það sem ber ekki ávöxt verður höggvið. Í því er hin djúpa alvara fólgin. Hvað í samfélagi okkar er árangurslaust? Hvað á að skera niður? Hvaða kröfur eigum við að gera til sjálfra okkar og heimsbyggðarinnar? Og hvað með framtíðina? Eru ábyrgðarmenn heimsins geld tré sem bara stela næringu en bera ekki ávexti?

Framtíð – og Greta Thunberg

Samkvæmt Time Magazine er Greta Thunberg maður ársins 2019 og hún hefur reyndar fengið margar viðurkenningar síðasta árið. Og hafir þú ekki enn lesið bókina um Gretu Thunberg og fjölskyldu hennar hvet ég til að þú náir þér í JPV-bókina Húsið okkar brennur. Þar er sögð merkileg saga flókins fjölskyldulífs, sem skýrir af hverju Greta er hert í eldi lífsreynslunnar. Það er hjartagrípandi bók um lífsbaráttu, en ekki bara um loftslagsmál. Greta Thuberg hefur dregið saman og bent á margar viðvaranir vísindasamfélagsins, sem er nánast einróma í ályktunum. Greta hefur orðið fyrirmynd og rödd framtíðarfólksins. Málflutningur hennar er skýr. Skólaverkfall hennar, borgaraleg óhlýðni, hefur orðið fyrirmynd um aðgerðir. Unga fólkið á Vesturlöndum hefur vaknað til vitundar um skyldur sínar gagnvart framtíð heimsins. Þessi lágvaxni risi hefur minnt leiðtoga veraldar á, að gömlu aðferðir þeirra hafi ekki skilað neinu. Of mikið væri talað í stað þess að gera það sem væri lífsnauðsynlegt. Og hún hefur ítrekað bent á að fólk heimsins, stjórnmálaleiðtogarnir, leiðtogar þjóðanna, segist elska börnin en steli samt framtíð þeirra, möguleikum þeirra.

Blessunin er alls konar

Hvað þýðir svona boðskapur við áraskil? Er nýtt ár möguleiki? Er staða Boeing-samstæðunnar orðin táknmynd um svik, blekkingar, slys og hrun heimsbyggðarinnar? Er neysla okkar, óréttlát skipting gæðanna slík, að framtíðin er að lokast mönnum? Erum við forréttindafólkið sem tré í miðri Paradís en tökum bara til okkar en skilum engum ávöxtum. Erum við á fjórða ári dómsins? Og svo endir? Greta Thunberg og framtíðarfólkið minnir okkur á, að við höfum brugðist svo harkalega að við rænum börnin okkar, líka barnabörnin okkar framtíðinni.

Tvíhyggja eða eining?

Margir ímynda sér að trú sé fyrst og fremst einkamál og varði sálarró. En Guð sérhæfir sig ekki bara í sálarmálum. Guð skiptir sér af efnaferlum í eldfjöllum, sprengingum í sólkerfum, nýjustu rannsóknum í krabbameinslækningum og mengunarmálum heimsins. Okkur hættir til að hugsa um trú í anda tvíhyggju, að hið efnislega og andlega séu andstæður og trúmenn eigi bara að halda sér til hlés frá ati heimsins. Hið andlega sé aðalmálið en líkami, efni, peningar, mengun og samfélag sé eitthvað óæðra. En slík lífsafstaða er ekki komin frá Jesú Kristi eða úr Biblíunni. Trú varðar heilsu fólks, líkamlega næringu, efnislegar þarfir, náttúru, frið og líka flóttafólk. Samkvæmt Biblíunni er hið andlega, félagslega, náttúrulega og pólitíska allt þættir sem varða Guð og trú. Hið hebresk-kristna samhengi kennir heildarhyggju. En tvíhyggja spillti þeirri heildarsýn. Það er komið að því að við hættum að rugla. Loftslagsvá, mengun náttúrunnur og skrímslavæðing stjórnmálanna eru mál sem Guð skiptir sér af og trúmönnum er skylt að beita sér í. Þegar unga fólkið talar skýrt og vísindasamfélagið einnig heyrum við rödd Guðs.

Og þá hið nýja ár. Já, framtíðin kallar. En þeim tíma er lokið, að við mannkyn höfum leyfi til að dæla árlega átta milljónum tonna af plastefnum í hafið. Við höfum ekki lengur leyfi til að drepa eina milljón fugla og eitt hundrað þúsund sjávarspendýr árlega vegna plastsóðaskapar. Hið sama gildir um útblástur sem eyðileggur jafnvægi veðurkerfa og hið fínstillta jafnvægi lífvíddanna.

Þegar þú skrúfar frá krana í eldhúsinu heima hjá þér nú á eftir streymir dásamlegt vatn frá uppsprettu lífsins. En fjórðungur mannkyns, 2 milljarðar, býr við alvarlegan og jafnvel algeran vatnsskort. Vatn er heilagt eins og fram kemur í sakramentum kirkjunnar, altarisgöngu og skírn. Jörðin er heilög, helgur garður Guðs, og það verður fellt sem spillir eða skilar ekki ávexti. Hið hræðilega er þegar fólk segist elska börnin sín og barnabörn en stelur samt af þeim. Hvað um Guð og opnun tímans?

Ant­onio Gutier­res, fram­kvæmda­stjóri Sam­einuðu þjóðanna, hefur ítrekað minnt á, að lofts­lags­breyt­ing­ar væru nú þegar spurn­ing um líf eða dauða í mörg­um lönd­um heims. Það merkir á máli trúar, að gott fólk er kallað til að láta til sín taka en ekki bara tala eins og okkur forréttindafólki vestursins hættir til. Við erum kölluð til lífs og verndar lífi. Við sem einstaklingar getum ekki bjargað heiminum, en öll getum við gert eitthvað. Á heimilum okkar og vinnustöðum, í neyslu okkar og meðferð lífsgæða, hvernig við verjum atkvæði okkar og notum peninga. Ef stjórnmálamenn og leiðtogar okkar eru geldir eins og ávaxtalaust tré eru þeir búnir að fella axardóm sjáfra sín.

Tíminn er kominn. En hvað um framtíðarkvíðann? Eigum við að játast vonleysi dómsdags? Nei. Guð er aldrei í fortíð eða bara í nútíð. Guð er lífsglaður húmoristi. Og Guð kemur alltaf úr framtíð, opnar möguleika þar sem engir voru fyrir. Guð er í lífi, lífsbaráttu, góðum verkum og lífsgöngum unga fólksins. Guð kemur þar sem vonleysið er rammast, opnar og blæs krafti í fólk. Í ómstríðri raddhviðu heimsbyggðarinnar hljóma hughreystingarorð Guðs. Í sorg hljómar hvísl vonarinnar. Gegn mengun hljóma textar vona og hugstyrkingar. Guð gefur börnum líf gegn heimsenda. Í hvert einasta sinn er ég horfi í augu barna dáist ég að lífmætti Guðs, sem hefur ekki snúist gegn tímaþjófum heims.

Boðskapurinn er einfaldur: Dauðinn dó en lífið lifir. Leggðu af meðvirkni og hættu afneitun. Opna hug þinn og hjarta. Snúðu þér til framtíðar. Fjórða árið er hafið. Við erum kölluð til verka, að bæta það sem við höfum misgert og bera ávöxt. Kristindómur er átrúnaður lífs gegn dauða. Guð kallar fram líf og nærir. Boðskapur kristninnar er upprisuboðskapur Guðs og talar til framtíðarkvíðans. Við megum gjarnan taka stefnu en Guð hefur unnið það mikilvæga áramótaheit að standa með okkur við að opna framtíð lífs á jörðu og kynslóða framtíðar.

Amen – Í Jesú nafni.

Við, prestar Hallgrímskirkju, þökkum ykkur – söfnuði, starfsfólki, sjálfboðaliðum, tónlistarfólki, vinum og nærri milljón erlendum gestum samfylgdina á árinu 2019. Verið velkomin til helgihalds og samvera í kirkjunni. Nýtt ár mikilla ævintýra er að líða og annað ár kemur. Við erum bjartsýn vegna þess að Guð opnar tíma. Lífið lifir og Guð er nærri. Komi hið nýja ár. Hlið himins er fyrir lífið og í þágu lífs.

Gamlársdagur 2019 – Hallgrímskirkja

Lexía: Hlj 3.21-26, 40-41
En þetta vil ég hugfesta
og þess vegna vona ég:
Náð Drottins er ekki þrotin,
miskunn hans ekki á enda,
hún er ný á hverjum morgni,
mikil er trúfesti þín.
Drottinn er hlutdeild mín, segir sál mín,
þess vegna vona ég á hann.
Góður er Drottinn þeim er á hann vona
og þeim manni er til hans leitar.
Gott er að bíða hljóður
eftir hjálp Drottins.

Rannsökum breytni vora og prófum
og snúum aftur til Drottins.
Fórnum hjarta og höndum
til Guðs í himninum.

Pistill: Róm 8.31b-39
Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur? Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni heldur framseldi hann fyrir okkur öll, hvort mundi hann ekki líka gefa okkur allt með honum? Hver skyldi ásaka Guðs útvöldu? Það er Guð sem sýknar. Hver sakfellir? Kristur Jesús er sá sem dáinn er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir okkur. Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Krists? … Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.

Guðspjall: Lúk 13.6-9
Þá sagði Jesús þeim þessa dæmisögu: „Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að vera engum til gagns? En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.“