Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Rauðspretta, koli eða smálúða

Þessi matur er dásamlegur og hátíðarfiskréttur.  Fyrir fjóra:

800 gr. smálúðu, kola- eða rauðsprettu-flök

250 gr ferskir sveppir

1 gulur laukur

2 dósir niðursoðnir tómatar

300 ml. grænmetiskraftur

2 dl þurrt hvítvín

1 1/4 tsk salt

300 gr mjúkt smjör (200 gr í steikingu og 100 gr. í fiskrúllurnar – sjá neðar)

2 tsk. estragon

1 dl rjómi

Fínskera sveppina og laukinn. Látið renna af tómötunum. 

Bræða smjör á pönnu. Brúna sveppina og laukinn hægt.

Láta tómatana og grænmetiskraftinn út í ásamt víni og vatni. Sjóða undir loki í ca. 10 mín.

Breiða úr fiskflökunum á bretti og strá salti yfir. Blanda smjöri og estragoni saman og láta eina smjörlíkpu á hvert fiskflak. Rúlla þeim síðan saman eða leggja saman. Festið þau síðan saman með tannstöngli eða ómeðhöndluðum trérprjóni.

Blanda smjöri og rjóma í sósuna.

Leggið fiskinn síðan í sósuna og láta malla í í ca. 10 mín. undir loki, en án þess að sjóði.

Berið fram með hrísgrjónum og salati.

Takk Áslaug Björgvinsdóttir fyrir að miðla okkur þessari uppskrift frá Svíþjóð.

 

Gera eða vera

Hugleiðing í hádegisbænum 18. apríl 2020 er hér að neðan. Upptaka er að baki þessari smellu

Ekki snerta, ekki taka í hendur, halda sér langt frá öðrum. Þetta sem er svo langt frá því sem okkur hefur verið kennt og þykir svo mikilvægt. Okkur er gert erfitt fyrir að gera það sem við vildum svo gjarnan, knúsa fólkið okkar, fara í sund eða á fundina sem gera okkur gott eða sækja menningarlíf sem er okkur til eflingar. Hvað getum við gert? Við megum ekki eða getum ekki gert það, sem við erum vön að gera. Við neyðumst til að hægja á okkur. Á þessum tíma þegar kerfi mannanna brenglast neyðumst við til að staldra við. Og hvað getum við þá gert?

Já, við vitum auðvitað að hamingjan er ekki í hasarnum. Hamingjan er handan við atið. Hún kemur þegar við erum. Þegar við hömumst við að gera gleymum við gjarnan að vera. En hvernig getum við þá verið? Lífið færir okkur svo dásamlega margt, sem við megum taka eftir í rólegheitunum. Við getum opnað vitund gagnvart puttum okkar, hárinu eða heilsunni. Við getum strokið nefið, dregið að okkur andann til að finna lungun fyllast og lyktina í umhverfi okkar. Við getum andað djúpt og hugsað um fólkið í krinum okkur og það besta sem við höfum notið í lífinu. Við getum leyft myndum af þeim sem við elskum – eða höfum elskað – að koma fram í huganum. Og hvað er það merkilegasta sem við höfum heyrt eða gildi sem eru okkur dýrmætust? Og við getum hugsað um það sem okkur finnst best. Um hverja þykir þér vænst um?

Að vera er að sækja í visku og frið sem hinir fornu Hebrear kölluðu jafnvægi kraftanna. Að vera á sér trúarlega dýpt. Jesús hvatti fólk til að fylgja honum, trúa honum. Að vera er að virða dýptir lífsins sem við köllum Guð? Viljum við það?

Gera eða vera. Þetta er viðfangsefni allra alda og niðurstaða spekinga aldanna og trúarbragðanna, að lífsleiknin er ekki fólgin í puði og hasar. Þetta var það sem siðbót Lúthers snerist um og Hallgrímur Pétursson túlkaði vel í Passíusálmunum. Menn þurfa ekki að afreka neitt til að ná prófi Guðs. Það er Guð, sem afrekar og við megum lifa, anda og vera í því ástarríki. En skiptir þá engu hvað við gerum? Jú svo sannarlega. Hið fyrsta er að vera Guðs og hið annað er svo að gera vel. Að gera gott blíðkar ekki Guð heldur er það algerlega nauðsynlegur þáttur lifandi Guðstrúar. Guð árangurstengir ekki heldur elskutengir. En af því Guð elskutengir árangurstengir trúmaðurinn. Gerið svo vel að vera.

Hugleiðing í hádegisbæn í Hallgrímskirkju laugardaginn 18. apríl, 2020. Myndskreytti upptöku íhugunarinnar. Ég tók allar myndirnar nema þá síðustu – af kirkjuturningum. Saga, dóttir mín, tók hana. 

Árni Svanur 47

Afmælisdagur. Vinur minn og velgerðarmaður, Árni Svanur Daníelsson á afmæli. Hann er vitur, fjölfræðingur, óáreitinn, tillitssamur, vinnuforkur og samviskusamur. Hann hefur góða baksýn og menningarlæsi. En svo hefur hann líka áhuga, tilfinningu fyrir hræringum tíma, kirkju og samfélags. Hann les vel mynstur, strauma og fólk og er alltaf opinn gagnvart breytingum og möguleikum. Ég hef löngum dáðst að hve vel Árni Svanur þolir álag, áreiti, streitu, hrokafullt fólk og alls konar vitleysisgang. Í miðju ati hefur hann húmor, yfirsýn og sér leiðir úr vandkvæðum og möguleika. Gefst aldrei upp. Það er einstakt og eftirsóknarvert að vera í liði með honum. Í fyrirstöðu sér hann jafnvel möguleika. Hann er leiðtogi. Svo er hann flestum tölvuglöggari og gott að njóta kunnáttu hans þegar vélarnar skrölta, símarnir klikka og öppin skelfa. Árni Svanur byggði upp vefi þjóðkirkjunnar, uppfærði prestastéttina um mörg tækniþrep og í guðfræðiopnun og menningarlæsi. Svo varð hann snemma afar skarpur guðfræðingur. Það var mikið lán að hann gekk í þjónustu þjóðkirkjunnar og jafnframt missir þegar hann fluttist erlendis. En Lútherska heimssambandið hefur notið visku hans og kunnáttu. Ég er sá lánsmaður að hafa notið vináttu Árna Svans Daníelssonar og notið hæfileika hans og velvildar. Guð laun. Hamingju- og blessunaróskir til þín, Kristínar Þórunnar og barna.

Myndir Sig. Árni

 

Vigdís Finnbogadóttir á afmæli

Alla mína tíð hefur Vigdís verið álengdar, stundum nær og stundum fjær. Hún átti heima í nágrenni mínu í bernsku og var alltaf elskuleg okkur börnunum í hverfinu. Ég heillaðist eins og flestir af frönskukennslunni og svo fylgdist ég álengdar fjær með störfum hennar. Meðan atkvæði voru talin eftir forsetakjörið var ég í húsinu við hlið heimilis hennar, hjá Þóri Kr. og Bíbí. Svo þegar dagaði fórum við út á stétt og fögnuðum þegar Vigdís gekk út (sjá mynd Þóris Guðmundssonar). Svo varð Vigdís nánast heimilisvinur þegar fóstri minn Halldór Reynisson varð óvænt forsetaritari. Hún var gjöful í samskiptum þegar ég bjó í Skálholti, studdi starfið og staðinn þar. Svo þegar ég og fjölskylda mín bjuggum á Þingvöllum þjónaði ég Vigdísi oft í opinberum heimsóknum. Aldrei bar nokkurn skugga á því Vigdís hafði lag á að lyfta formsamverum í hæðir hlýju og gleði.

Einu sinni var ekki hægt að fara með Noregskonung í Borgarfjörð vegna veðurs. Þá varð stórkostlegt skrall í stofunni heima hjá okkur. Davíð Oddsson og Jón Baldvin fóru á kostum og Vigdís stýrði gleðinni. Þau konungshjónin söguðu að þau hefðu aldrei upplifað slíka partígleði. „Þið eruð svo fullkomlega afslöppuð í kátínu ykkar“ sögðu þau við mig og leið svo vel í hlýjunni handan formalismans. Oft voru börnin nærri opinberum gestum og alltaf hafði Vigdís lag á að leyfa þeim að vera þátttakendur. Hún nýtti alltaf möguleikana til lífsbóta og gleðiauka – og allir nutu.

Yngri drengirnir mínir fylgdust svo með Vigdísi þegar hún heimsótti Ástríði, dóttur sína, og fjölskyldu hennar á Tómasarhaganum. Svo þegar þeir fengu reiðhjól vorum við, fjölskyldan, einu sinni að koma frá Norræna húsinu hjólandi. Vigdís rölti úti með dótturbörnum sínum og svo illa vildi til að annar drengjanna hjólaði á hana. Þeim brá báðum en Vigdís var meira með hugann við hræðslu drengsins en eigin áverka. Hún fullyrti að hún væri óslösuð, en drengurinn fylgdist reglulega með hvort hún stingi nokkuð við þegar hann sá hana síðar. Svo var ekki, honum til léttis. Honum þykir ekki gott að vera strítt á að hafa hjólað Vigdísi niður. Vigdís hefur líklega kysst fleiri karla á Íslandi en aðrar konur en enginn karlanna hefur hjólað hana niður nema sonur minn. Vigdís efldi alltaf alla, stækkaði fólk í kringum sig og gaf íslendingum trú á möguleika sína og getu. Takk Vigdís – Guð geymi þig.

Svart hvíta myndin er mynd Þóris Guðmundssonar. Hina myndina tók ég í dag er við Hörður Áskelsson vorum á leið frá Hallgrímskirkju á leið heim og gengum fram hjá heimili Vigdísar, Aragötu 2. Við blessuðum íbúann. Einhver höfðu stráð blómum á stéttina. Fagurt.

Lífið lifir

Kristur er upprisinn – Kristur er sannarlega upprisinn. Þetta er hin forna páskakveðja um, að dauðinn dó og lífið lifir. Kveðjan þarf að berast sem víðast, heyrast sem best og ná inn í grunn lífs okkar. Fréttin varðar okkur öll, mennina, en líka allt líf, líka lífið í hreiðrum fugla, í moldinni, sjónum, ám og slímhúð mannanna.

Fyrir tæpu ári síðan stóðum við nokkur við leiði neðst í Fossvogskirkjugarði. Fallegt duftker ástvinar var þegar komið að gröfinni. Sólin skein og geislar hennar þrengdu sér milli greina og umvöfðu kerið. Þröstur sat á steini og fylgdist með okkur. Ástarsöngvar annarra fugla heyrðust úr trjánum umhverfis. Til okkar barst líkaflugvélahljóð og bílaniður. Vorflugur voru komnar á kreik. Ástvinirnir færðu sig að gröfinni. Þegar við ætluðum að byrja athöfnina var allt í einu hækkað í útvarpi í bíl, sem var við gröf nálægt okkur. Mannlegi þátturinn var að byrja á RÚV og fjörleg músík hljómaði. „Þetta er forspilið“ sagði ég og ástvinirnir kinnkuðu kolli brosandi. Útfararstjórinn hljóp af stað til bílstjórans og bað um að fjörið yrði dempað. Svo var hægt að halda áfram. Öll voru tilbúin til síðustu kveðju. Ég las úr sálmabók Jesú, Davíðssálmunum, sem tjá allar mannlegar tilfinningar. Kerið fór í jörð og ég mokaði fyrstu skóflufyllunum. Síðan komu synir hins látna og molduðu. Hin líkamlega kveðja.

Þegar grafarholan var nánast full kom þrösturinn fljúgandi. Hann settist við fætur mér og leitaði að möðkum í moldinni. Það var undursamlegt, að sjá þennan fiðraða vin, fullkomlega rólegan og óhræddan. Var þetta teikn, kannski engill? Fleiri ástvinir komu og mokuðu. Fuglinn veik ávallt til hliðar þegar moldin féll, en smeygði sér svo niður í holuna á milli mokstra. Ég beygði mig og setti nokkra maðka til hliðar og þrösturinn þakkaði fyrir sig með höfuðhneigingu. Svo fullmokuðum við. Þrösturinn þjappaði og maðkhreinsaði. Þá blessuðum við og krossuðum, komum fyrir blómum, horfðum hvert á annað, síðan upp í himininn og táruðumst svolítið. Sólin kyssti okkur öll.

Þrösturinn leitaði að fæðu fyrir ungviði sitt á gröfinni. Dauðinn er hluti af lífinu og líf sprettur af gröf. Orðin í 104. Davíðssálmi leituðu á mig: „Öll vona þau á þig að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma. Þú gefur þeim og þau tína, þú lýkur upp hendi þinni og þau mettast gæðum.“ Ég prédikaði ekki yfir fuglunum þennan daginn, en fuglinn prédikaði stórkostlega um Guð og dýrmæti lífsins. Jarðsetning duftkers varð stund upprisunnar. Þrösturinn velti steinum frá tilfinningalegum grafarmunnum. Já, dauðinn dó og lífið lifir.

Á þessum páskum er hugur okkar með öllum þeim, sem eru veik, af kórónaveirunni eða öðrum sjúkdómum. Þeim eru margir dagar langir föstudagar. Margir standa álengdar fjær og hafa áhyggjur af þeim sem eru sóttsjúkir og berjast við veikindi. Og blessað veri allt það fólk sem sinnir hinum veiku. Hin örsmáa kórónaveira hefur kastað álagaham á heimsbyggðina, veiklað kerfi, opinberað vit og mikilvægi þekkingar og fagemennsku en líka vitgrannt vald, sem ekki lætur stjórnast af mannúð, kærleika og umhyggju. Liðið ár og þessi sóttartími hefur dýpkað vitund margra um, að mannkyn og náttúra eru eitt. Menn geta valdið miklum spjöllum og eyðilagt líf og lítil veira getur sett mannlíf þúsunda milljóna úr skorðum. Við menn og lífvefnaður heimsins erum eitt og verðum ekki slitin í sundur. Okkur ber að virða betur hið fíngerða samspil lífheimsins og vera ábyrg.

Kristur er upprisinn er erindi dagsins. Það fagnaðarerindi á erindi við líkamlega sjúkt en líka heilbrigt fólk, en einnig veirur og bakteríur, lofthjúp og sjó, jökla og ár, fiska og fugla. Dauðinn dó en lífið lifir er boðskapur um að föstudagurinn langi er ekki niðurstaða tilraunar um líf á jarðarkúlu okkar. Lífið lifir er erindi páskanna og varðar allt og alla. Líf okkar manna er ekki tilvera til dauða heldur lífs. Fuglinn í dauðaholunni prédikaði um lífið, að öllu er vel fyrir séð og að við erum blessuð.

Kristur er upprisinn – Kristur er sannarlega upprisinn. Guð gefi þér gleðilega páska.

Meðfylgjandi mynd tók ég af þrestinum við matarleit á gröfinni. Sigurður Árni Þórðarson