Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is. Þá var talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is Sá vefur er nú lokaður.

Hrífurnar á Brautarhóli

Heyskapur á Brautarhóli um 1970. F.v. Sigurður M. Kristjánsson, skólastjóri á Laugum og bóndi á Brautarhóli, Stefanía Jónasdóttir, kona hans, Kristín Þórðardóttir og Kristján Tryggvi Sigurðsson, sonur Stefaníu og frænda, og ónefndur kálfur. Bændur í Gröf að hirða af árspildunni, veiðimaður að veiða í Grafarhyl Svarfaðardalsár – gæti verið Gísli á Hofsá eða Stefán Jónsson, fréttamaður og faðir Kára. Búið á Brautarhóli var stórt miðað við hektarafjöldann. Því voru allir skikar á Bratuarhóli slegnir, líka mýrlendið. Víða var þó svo blautt að handsnúa varð, deiglendið leyfði ekki vélarnotkun. Við, Sigurður frændi og nafni, jafnvel slógum sumt með elsta laginu, með orfi og ljá. Það var ilmandi góð lykt af mýrarstörinni og alltaf svolítið ryk. Heyskapur var hátíðartími.

Krem úr bývaxi og úr Borgarfirði

Elín Sigrún, kona mín, var beðin að halda fyrirlestur um erfðarétt, erfðaskrár og kaupmála fyrir eldri borgara í uppsveitum Borgarfjarðar. Hún tók beiðninni ljúflega, dagurinn var ákveðinn og ég bauðst til að aka fyrirlesaranum í félagsheimilið Brún í Bæjarsveit. Veðrið á fundardegi var hið besta og héraðið var heillandi fagurt. Eftir að formlegri dagskrá lauk var sest niður og kaffið var gott og veitingarnar stórkostlegar. Sögur flugu og hlátrar ómuðu. Ég hitti Magnús B. Jónsson, fyrrum skólastjóra bændaskólans, og rifjaði upp með honum skemmtilega heimsókn guðfræðinema í Hvanneyri og Borgarfjörð fyrir nær hálfri öld! Það var gaman að sjá blikið í augum Magnúsar. Jói í Litla Hvammi, borðfélagi minn, sá þurrkblett í lófa mínum og spurði hvað ég notaði til mýkingar. Ég viðurkenndi að tilraunir hefðu ekki skilað handmýkt. Hann taldi að bývaxið frá Litla Hvammi gæti dugað og sagði mér frá býflugum þeirra hjóna og kremgerð. Með gleði í hjarta, hlátra í eyrum og kvöldsól í augum ókum við svo suður. Nokkrum dögum síðar kom ég heim og þá var bíll að leggja við húsið okkar. Þar var kominn Jói í Litla Hvammi og án þess að gera boð á undan sér. Með bros í augum rétti hann mér krukku með bývaxkremi og bað mig að prufa hvort það hefði jákvæð áhrif á exemblettinn þurra. Síðan hef ég notað áburðinn frá Litla Hvammi og viti menn – þetta er besta kremið – undrasmyrsl. Svo er það drýgra heldur annað krem. Þurru blettirnir skána og ég lofsyng hjónin og býflugurnar í Litla Hvammi. Og lyktin – maður minn – hún er dásamleg og minnir mig á faðm Borgarfjarðar og skemmtilegt og umhyggjusamt fólk. Takk fyrir.

Jónsmessan

Messa hvaða Jóns er Jónsmessan? Sigurðssonar, Gnarr, Vídalíns, Arasonar eða Vilhjálmssonar? Nei, messa Jóns er messa skírarans Jóhannesar Sakaríasonar sem skírði bæði Jesú og fjölda annarra iðrunarskírn. Nafnið Jóhannes er til í mörgum útgáfum t.d. Jón, Hans, John eða Jon. Jónsmessa er messudagur Jóhannesar skírara. Til hans er sjónum beint um allan hinn kristna heim á þessum tíma kirkjuársins. Kirkjuárið hefur hrynjandi og skipan. Það er engin hending að boðberi frelsarans og fyrsti Jesúprédikarinn skuli eiga sér messudag á bjartasta tíma ársins. Jóhannes skírari gegndi lykilhlutverki í fjölskyldu og sögu Jesú. Hlutverk hans var að þjóna Jesú Kristi. Hvenær er svo messudagur Jóhannesar? Jú, nákvæmlega hálfu ári fyrir jól, fæðingarhátíð Jesú Krists. Það er engin tilviljun heldur viðurkenning á hlutverki Jóhannesar í sögu kristninnar og sögu heimsins. Hann var ekki ljósið sjálfur heldur ljósvísir sem beindi fólki til heimsljóssins.

Náttúrumessan

Birtutími þessara júnídaga er unaðslegur. Það er ekki aðeins messað í kirkjum heldur er Guð með græna og lipra fingur þessa dagana. Á okkar norðlægu slóðum er messuhald náttúrunnar stórkostlegt á hinum ljósa tíma. Fuglakórar syngja í hinni miklu dómkirkju sköpunarverksins. Tré breiða út lauffingur sína mót himinhvelfingu og barrfingur beina sjónum í hæðir. Blærinn hvíslar miskunnarbænir og golan syngur sálma í kvistinum. Þeyrinn bræðir frera á fjöllum. Vatnið streymir og verður næring alls lífs og myndar jafnvel kraftgefandi dögg á nóttu. Um æðar smáplantna fer næring og messuskrúði náttúrunnar tekur fram öllu litríki tískuheims og litagnótt messuklæða og kirkjuhúsa. Egg í hreiðri eru eilífðartákn. Þegar litlir goggar gera á þau göt er það líka vitnisburður um að lífið lifir og Guð man eftir djásnum sínum. Guð kemur sjálfur og fæðist sem barn í heimi. Sól sumarsins skín skært og lengi en þó er hún aðeins endurkast birtunnar frá fæðingu frelsarans. Messuhald Jóhannesar og guðsþjónusta náttúrunnar tekur mið af ljósinu sem kom í heiminn. Þannig megum við sjá hringrás lífsins, daga okkar sjálfra og allra viðburða sem endurvarp þess ljóss sem Guð er. Á myrkasta tíma fæðist guðssonurinn. Hinum megin á hringferli ársins er Jóhannes þegar sólargangur er lengstur á norðurslóð. Vegna þess að náttúran hvíslar um Guð sáu mæður og feður kirkjunnar ástæðu til að Jóhannes fengi stöðu í kirkjuárinu hálfu ári á undan fæðingu Jesú.

Sólarhátíð

Jónsmessan er kristin hefð og hefur fengið kristna túlkun. En að baki henni er líka flókin hátíðahefð. Sólstöðuhátíðir hafa verið haldnar í þúsundir ára. Fólk hefur verið meðvitað um gjöf birtu, ljóss og samhengis við líf og fagnað og stillt sig inn á gleðibylgjur helgidóms náttúrunnar. Guðsþjónusta náttúrunnar hefur kallað á hátíðir manna til lífsstyrkingar. Arfur menningar er bæði mikilvægur og merkilegur og lífsvinsamleg kristni reyndi fremur að styrkja hið jákvæða fremur en að reyna að eyða hefðum og siðum að óþörfu. Þar sem náttúran syngur sína sálma á júnítíma sumarsólstaðna var hægt að tengja það sem rímaði í kristinni helgisögu við hátíðir fólks og fá út heild. Hvað var það í sögu Jóhannesar sem rímaði við náttúruhátíðina? Það er vatnið og helgun vatns. Vitað er að víða við Miðjarðarhaf og einnig norðar í Evrópu hefur vatn verið mikilvægt í hátíð miðsumarsins. Fólk sótti til vatns, að ám, lindum, lækjum og hafi og baðaði sig og helgaði. Á Jónsmessunótt töldu margir að vatn yrði ofurkröftugt og gott til lækninga. Þjóðsögur Íslendinga enduróma þessa gömlu hefð með sögum um að það gerði fólki gott að velta sér í dögg Jónsmessunætur. Kraftaverk voru álitin gerast á þessari máttarnótt hins lengsta sólargangs. Álagahamir féllu af sjávarverum á landi, steinar flutu upp og aðrar furðu urðu.

Postuli náttúrunnar

Jóhannes skírari benti ekki á sjálfan sig heldur Jesú. Það var hið mikilvæga trúarhlutverk hans sem er öllum kristnum mönnum fyrirmynd. Sú guðsþjónusta og hlutverk speglast í sögum um Jóhannes. Meistarinn kom til Jóhannesar til skírnar. Kristnir menn hafa síðan talið að þar með hafi allt vatn verið helgað. Það var sem sé ekki Jesús sem græddi á skírninni heldur veröldin öll. Allt vatn var helgað. Þessi blessun leiddi til afstöðu Auðar djúpúgðu sem vildi að hún yrði jarðsett í flæðarmáli. Þar væri helgur reitur vegna þess að Jesús hefði helgað vatn veraldar í skírn sinni. Jóhannes skírari er því postuli vatnsins og postuli náttúrunnar. Þess vegna var hann hentugur til að helga miðsumarshátíðir hins forna heims. Sólstöðuhátíðir urðu Jónsmessur. Náttúruhátíðir urðu Jesúhátíðir því sólarbirtan varð endurvarp heimsljóssins sem Guð birti í Jesú Kristi. Jóhannes var tengillinn sem beindi sjónum að guðssyninum.

Sólardagar hjálpræðis

Helgisagan um fæðingu Jóhannesar er sögð í Nýja testamenntinu. Faðir hans, Sakaría, var sagður hafa misst mál á meðgöngunni. En hann fékk hins vegar málið aftur þegar Jóhannes fékk nafn. Nafn er mikilvægt og skilgreinir. Jóhannes og öll önnur nöfn sama stofns merkja að Guð sé góður. Hlutverk Jóhannesar var að boða það guðseðli með því að beina sjónum að heimsljósinu. Sálmurinn sem faðir hans flutti þegar hann fékk málið að nýju segir mikla sögu.

„… þú munt ganga fyrir Drottni að greiða vegu hans og veita lýð hans þekkingu á hjálpræðinu sem er fyrirgefning synda þeirra. Þessu veldur hjartans miskunn Guðs vors.
Hún lætur upp renna sól af hæðum að vitja vor
og lýsa þeim sem sitja í myrkri og skugga dauðans
og beina fótum vorum á friðar veg.“

Boðskapur á sumarsólstöðum er að frelsari er mönnum fæddur. Allir dagar eru sólardagar. Sólin hefur löngum verið túlkuð sem ímynd Guðs eins og sést vel í miðaldakveðskap svo sem Sólarljóðum. Matthías Jochumsson minnir okkur á að „…í sannleik hvar sem sólin skín er sjálfur Guð að leita þín.“ Þegar Jónsmessunóttin kallar er Guð að benda á Jesú Krist. Þegar hrossagaukar syngja vængjasálma sína ljóða þeir um heimsljósið. Þegar lækur hjalar í hvammi eða foss þrumar í gljúfri má heyra rödd engilsins forðum við Jórdanskírn: „Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.“ Jónsmessa er góð.

Ísland, Þorleifur jarlaskáld og stóru draumarnir

Þorleifur hét maður, hann var vígamaður og skáld og lifði fyrir  meira en 1000 árum. Um hann var fléttaður skemmtilegur þáttur, Þorleifsþáttur jarlaskálds, sem er í safni Íslendingaþátta. Þorleifur var fæddur á Íslandi og leitaði sér frama erlendis. Honum varð vel ágengt í þeim efnum. Hann var mikill fyrir sér en ekki allra, átti í útistöðum við jarl í Noregi og konung í Danmörk og notaði skáldagáfuna til áhrifa. Hann var raunar svo mikið kraftaskáld hann gat orkt kláða og óværu yfir menn og óvinir hans eða mótstöðumenn misstu jafnvel hár og skegg af hans völdum og með fulltingi skáldskaparins. Þorleifur bakaði sér óvild og óvinur hans sendi leigumorðingja til Íslands til að myrða hann. Þorleifur var veginn á Þingvöllum og var þar heygður. Haugur hans var þekktur sem örnefni og er nærri þar sem nú er vegurinn heim á Þingvallastað. 

Hallbjörn smala dreymir skáld

Víkur þá sögunni að smalanum Hallbirni á Þingvöllum. Honum var oft hugsað til mikilmennisins og hélt sig oft nærri haugnum og svaf jafnvel á honum um nætur. Kom Hallbirni í hug að lofa haugbúann með dýru kvæði. En smalinn var ekki skáld og átti því erfitt með að semja til heiðurs skáldinu svo sómi væri að. En hann náði þó að semja fyrstu línu af kvæði sínu, fyrsta vísuorðið, sem hann flutti haugbúanum aftur og aftur. Það hljóðar svona: „Hér liggur skáld.” En meira megnaði hann ekki og hélt þó skáldskapariðju sinni áfram og langaði til að bæta meiru við þetta eina: „Hér liggur skáld.”

Þorleifur jarlaskáld var enginn gunga í lífinu og það er sem haugbúanum hafi leiðst andleg teppa smalans. Nótt eina sofnaði smalinn og dreymdi að haugurinn opnaðist og glæsilegur maður kæmi út og talaði til hans á þessa leið: „Hér liggur þú og vildir kveða lof um mig, sem þér er ekki gefið. Nú er annað hvort að þú munt verða skáld, en hætta ella þessum tilraunum. Ég mun kveða vísu. Ef þú manst hana þegar þú vaknar muntu verða þjóðskáld og yrkja lof um höfðingja.“ Síðan fannst smalanum að haugbúinn bæði togaði í tungu hans og flytti honum gott kvæði. Smalinn vaknaði, mundi kvæðið, fór heim í bæ og sagði frá. Allt gekk eftir og smalinn hlaut lof, heima og erlendis. Og gott orð þjóðskáld!

Haugbúinn og smalinn

Þátturinn um Þorleif jarlaskáld er ritaður af kristnum manni – það sést af orðfæri og siðaboðskap þáttarins. Þetta er ævintýri og væntanlega setta saman sem skýring á örnefni á Þingvöllum (etiólogísk saga). Nokkur grunnstef hafði skrifarinn, sem hann gerði úr skemmtilega flækju. Upp af merkingarhafi þáttarins rísa þeir svo tveir haugbúinn og smalinn. Annars vegar fjármaðurinn, sem við yfirsetu dreymdi stóra drauma. Staða hans var slík, að honum voru allar bjargir bannaðar nema að dreyma. Svo leitaði hann athvarfs hjá haugbúanum. Og svo kom þrástefið og draumastef hans:„Hér liggur skáld.“ Svo má æfa að auminginn verði öflugur. Undrið varð. Skáldið rauf þögn og friðarhöfn sína, dró úr stráknum tunguna og dengdi yfir hann kvæði. Þar með var honum gefinn skáldskapur, sem var og er lykill að öllum veröldum. Saga smalans var saga um draum Íslendinga í ellefu hundruð ár, stílfærð saga, en þó táknsaga um draum aðkrepptrar þjóðar. Þetta er saga til íhugunar og brýningar.

Við vorum

Menningarstíll þessarar þjóðar var löngum að liggja á haug fortíðar, mæra gullöld, leita fyrirmynda í þátíð – helst löngu liðinni fortíð. Og þó fjárástin hafi búið í mörgum dreymdi líklega marga smalana um að siga fé út í buskann í síðasta sinn, hleypa heimdraga, vinna lönd og afla sér virðingar. Þjóð okkar Íslendinga var sem sveinninn í margar aldir og stamaði sama stefið: Við vorum þjóð, við vorum menn, við vorum skáld. En ekkert gerðist, draumurinn um ljóðið lifði, um glæsileika, auð og frægð. Það er draumurinn um manndóm, um skapandi sjálfstæði, um kyngi orðs, að lífið er meira en brauðstrit og hlaup á eftir rollum. Hér liggur skáld, hér liggur þjóð. Undrið varð. Íslensk þjóð varð sjálfstæð og stofnaði eigið lýðveldi. Síðan hefur verið togað í tungu á fólki, æfingar í sjálfstæðistilburðum hafa skilað skoplegum furðugjörningum á ýmsum haugum, sigrum í sumu – en líka óskáldlegum ósigrum. Það tekur langan tíma fyrir þjóð að æfa sig í sjálfsögðum málum frelsisins, í sjálfstæði – að vera þjóð. 

Verkefni þjóðar

Ekkert ríki lifir án gilda. Engin menning þroskast án merkingarvefs og engin mannvera getur orðið mennsk án þess að klæðast því sem menning gefur. Hvað er menning okkar og hvað verður okkur til hjálpar? Hvernig reiðir trú af og þeim gildum sem kristnin hefur nært þjóð okkar með í á annað þúsund ár. Framundan er meiri fjölbreytni í trúarefnum á Íslandi en verið hefur. Ég hef ekki áhyggjur af fólki, sem aðhyllist aðrar trúarhugmyndir en hefðbundnar kristnar. En ég óttast skeytingarleysi gagnvart trú og gildum og fólki sem fellir groddadóma um trúarleg efni, heldur fram kjánafullyrðingum þvert á raunveruleika og grefur undan virðingu fyrir gildum. Virðum aukna fjölbreytni, en látum ekki ruglast af groddatúlkun á trú og siðum, gildum og gæðum. Verum raunsæ og látum ekki blekkjast af andróðri gegn kristinni trú, kristnum siðalærdómi, kristinni mannvirðingu og kristnu raunsæi. Íslensk þjóð hefur þörf fyrir þann boðskap til lífs.

Fortíðin er liðin, skáld fortíðar liggja í haugum sínum og gröfum. Börn samtíðar dreymir nýja drauma og vilja gjarnan yrkja nýjan tíma með gjörðum sínum. Smalarnir eru margir, sem vilja búa til framtíð úr eigin smæð og smekk. En við megum aldrei tapa sambandinu við gildi fortíðar, annars fer illa. Við eigum ekki gefa eftir hina kristnu mannsýn og jákvæðu heimssýn, hið kristna líf – þá fer hörmulega. En ef við hins vegar munum ljóð fortíðar, ljóð landsins, munum og iðkum lífsvisku Jesú Krists í vöku okkar og verkum þá mun farnast vel. Þá verðum við skáld, þá verðum við fullveðja, þá náum við eðlilegum þroska sem mun skila okkur því sem við viljum vera og lifa vel.

Forsíðuefnið á WSJ

Vinur minn hringi í mig og spurði: „Veistu að þú ert á forsíðu Wall Street Journal?“ Nei og ég kom af fjöllum og mundi ekki eftir neinu rosalegu sem ég hefði sagt eða gert sem gæti ratað á forsíðu erlends stórblaðs. Vinurinn bætti við að ég blandaði mér í pólitík og væri á gráu svæði í Evrópumálunum. Þá mundi ég að ég hafði stuttu áður hitt erlendan blaðamann í fylgd Þóris Guðmundssonar. Við höfðum rætt tengsl Íslands við útlönd og áhrifin á menningu okkar sem var og er mér ofarlega í huga. Charles Goldsmith, blaðamaðurinn, hafði svo skrifað langa grein sem rataði í heimspressuna 30. maí 1994. Tilvitnun í prest við Almannagjá hafði farið á forsíðuna vinum mínum hér og ytra til skemmtunar. Mogginn dró svo saman efni Wall Street Journal-greinarinnar í blaðinu 1. júní. Jón Helgason, sá mæti Skaftfellingur, þingmaður og Þingvallanefndarmaður, sá ástæðu til að hrósa mér fyrir að koma Þingvöllum í heimsfréttirnar. Og Jón fullyrti að utanríkisráðuneytið gæti ekki kvartað. 

Í moggagreininni segir: „Tilvistarkreppa. Íslendingar finna fyrir vaxandi einangrun meðan Evrópa og Bandaríkin draga úr tengslunum.“ „Frá lítilli kirkju skammt frá þeim stað þar sem elsta starfandi þing veraldar var stofnað rýnir séra Sigurður Árni Þórðarson á mörk tveggja heima, hrífandi gjá sem markar misgengið milli amerísku og evrópsku jarðhniksflekanna,“ segir í upphafi greinarinnar, sem er sögð skrifuð á Þingvöllum. „Jarðvegurinn hér sígur um hálfan sentímetra á ári en [presturinn] hefur meiri áhyggjur af hinu breytta pólitíska landslagi.“ „Ameríka er að færast í vesturátt og meginland Evrópu færist í austur og ég hef áhyggjur af því að við Íslendingar sökkvum hér á milli þeirra,“ er haft eftir séra Sigurði. Blaðamaðurinn, Charles Goldsmith, segir prestinn ekki einan um þessar áhyggjur.“  

Svo var í greininni í WSJ rætt ítarlega um austurstefnu Evrópu og vesturstefnu Bandaríkjanna. Það var þá. Nú er allt breytt. Almannagjá er önnur en fyrir þrjátíu árum. Náttúrukraftarnir breyta landinu en áhyggjur mínar varðandi menningarþróun eru aðrar nú. Þrjátíu árum síðar sker Evrópa ekki á vesturtengsl og er svo sannarlega ekki lengur á leið í faðm austursins. Skelfilegt stríð geisar í Úkraínu. Rússland er að grafa sér pólitíska, menningarlega og efnahagslega gröf þessi misserin undir pútínskum zar. Evrópa hervæðist og pólitík og menning skautast. Í Bandaríkjunum hriktir í menningarstoðum og ekki ljóst hvers konar ræði bandaríska þjóðin muni búa við eftir næstu kosningar. Nató er öðru vísi nú en fyrir aldamót og heimspólitíkin er allt önnur en í lok tuttugustu aldar. Mengunarmál, flóttamannavandi og stríð eru ofurverkefni næstu ára. Presturinn hefur enn áhuga af breytingum í  pólitík, en áhyggjurnar eru minni og ærðuleysið er meira nú en þá. Þingvellir eru dýrmæti sem mega rata í heimspressuna reglulega.