Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Málnotkun og kynjað málfar

“Sex inclusive language – Guidelines.” Talsverður bunki af blöðum, námsskrám, upplýsingum og leiðbeiningum var lagður í hendur nýnemanna í guðfræðideild Vanderbiltháskóla haustið 1979. Þetta var eitthvað á skjön við allt hitt: “Sex-inclusive language – Guidelines.” Hvað er nú það?

Að baki kynbundu máli

Ég man eftir að ritið olli nokkrum heilabrotum og var ljóst að þetta var alls ekki einhver klámbæklingur! Formlegur og virðulegur frágangur skjalsins, sem bar skjaldarmerki háskólans og nafn sómakærrar guðfræðideildar á forsíðunni, tók af allan vafa um að þetta skyldi íhuga og taka alvarlega. Við nánari skoðun kom í ljós að um var að ræða leiðbeiningar fyrir nemendur og alla starfsmenn um mál og tengsl þess við kyn og kynferði.

Þannig var það í mínum gamla skóla í Suðurríkjum Bandaríkjanna á níunda áratug síðustu aldar. Þá var þessi guðfræðideild búin að ræða málnotkun guðfræði og kirkjumállýskur í mörg ár, búin að taka á fordómum, vinna með varnir kennara og nemenda og ræða kosti og óskosti. Ákveðið hafði verið með fullum stuðningi flestra kennara og starfsmanna deildarinnar að kynniðrandi mál skyldi ekki nota í skólanum. Einu gilti hvort það var í samræðum skólastofunnar, tímaritgerðum, prófum, kappræðum, deildarfundum eða fyrirlestrum.

Þetta var á þeim árum þegar Mary Daly var varla þekkt nema í þröngum faghópum, kvennguðfræði var í fósturlíki og í miðri meðgöngu. En þarna var einfaldlega öflugur hópur kennara, karla og kvenna, sem slátraði mörgum heilögum kúm, var tilbúinn að hugsa ný mál og frá nýjum forsendum. Svo var ekki verra að deildarforseti þá var Sallie McFague, sem síðar varð einn kunnasti málgreinir kvennaguðfræðinnar.

Að læra nýtt mál og skapa nýjan heim

Mér fannst ekki erfitt að aðlagast þessum leiðbeiningum. Ég var að læra að lifa í nýju tungumáli, enskunni. Þetta var bara eins og reglur um greini eða viðtengingarhátt, eitthvað til að æfa sig á, gera mistök, prufa nýtt og innlifast síðan. Þannig var um fleiri, sem kunnu sex-exclusive mál, höfðu lært að segja bræður þegar átt var við systkin, hann um einstakling þegar ekki var vitað um kyn og hann um Guð þegar ekkert var verið að ýja að kyni Guðs eða hlut kynferðis í trúarlegri upplifun. Umræður urðu vissulega um kynjatungu, málið handa kynja og mál beggja eða allra kynja. Plaggið “Sex-inclusive language – guidelines” hafði áhrif og breytti orðfæri, gerði fólki mögulegt að hugsa á nýjan máta og prufa nýjar brautir og hugmyndatengingar.

Hin spámannlega rödd kennaranna varð til að efla þor til nýsköpunar á engi andans. Hún hefur enn áhrif, því ég reyndi að innræta mér að nota mál kynja á íslensku líka og gildir einu að orðið Guð er skv. hefðinni karlkyns. Umorðun er möguleg. Við verðum ekki, erum ekki nauðbeygð, að segja hann um Guð, þegar Guð hefur verið nefndur einu sinni. Ég varð upptekinn af hinni spámannlegu vídd á sínum tíma og gerði mér grein fyrir hvað Vanderbilt-guðfræðideildin var á undan sinni samtíð, kirkjum og skólum um öll Bandaríkin og er reyndar enn.

Til góðs að heyra spámannsrödd

Æ síðan hef ég litið svo á að mikilvægt væri að leggja ekki stein í götu þeirra, sem vilja að mál kirkjunnar og guðfræðinnar á Íslandi sé meira mál en karla. Rödd þeirra er spámannleg og mætti hlusta á og hvetja okkur til að íhuga, hvort við erum hamin af andlegum höftum, með þunga andlega bakpoka óþarfra fordóma úr málinu um Guð og þar með okkur menn. Vissulega er eðlilegt að nota tungumálið vel, en það er óþarfi á láta kyn orða eyðileggja guðfræði og öfluga trúartúlkun. Ég geri mér grein fyrir muninum á málfræðilegu kyni og öðrum notkunarmöguleikum tungumálsins en málfræðilegt kyn á ekki að stjórna hvernig handankynsmál eru skilin og túlkuð. 

Þegar ég heyri sterk viðbrögð við endurskoðun máls kynja spyr ég mig: Er þarna á ferð forherðing í trúarefnum, skortur á vilja til að heyra rödd hrópanda í eyðimörkinni, andóf gegn iðrunarferlinu í sinninu? Ef svo er þá er alvara á ferð og nauðsynlegt að skrifa ritið: „Mál kynja í íslensku þjóðkirkjunni – leiðbeiningar“ og setja svo merki þjóðkirkjunnar á forsíðuna, afhenda guðfræðinemum á fyrsta ári, prestum við vígslu, próföstum við innsetningu og sóknarnefndarmönnum um allt land. Og kannsku setja í starfsreglur kirkjunnar? Gæti verið að dýrkun Guðs myndi eflast og skilningur á fjölbreytni mannlífsins og dýrmæti hverrar mannveru einnig?

Ávarp SÁÞ á þingi um kynjað málfar.

 

You’ll never walk alone

Liverpool FC er Englandsmeistari 2020.

Er þú brýst fram gegn bylnum
berðu höfuðið hátt
óttastu ei myrkrið
né ógn þess og mátt.

You’ll nvever walk alone er söngur Liverpool í Englandi og tugir þúsunda syngja hann hástöfum á leikjum. Helgi Símonarson, frændi minn á Þverá í Svarfaðardal, sagði mér fyrst frá þessum söngsálmi Púlara. Hann var kennari og bóndi fyrir norðan og líka mikill áhugamaður um fótbolta og sérstaklega Liverpool. Og hann varð elsti stuðningsmaður Liverpool í heimi, náði 105 ára aldri. Árið 2000 var fullyrt í leikjaskrá Liverpool að hann væri elsti stuðningsmaður félagsins í heiminum.

Liverpool-liðið er merkilegt. Það hefur orðið kraftaverk, eiginlega upprisa í því liði. Það er að nýju orðið eitt besta fótboltafélag í heimi. Blómaskeið félagsins var fyrir mörgum árum. Þá vann liðið frækna sigra heima og erlendis. En það sem fer upp kemur niður. Í mörg ár var liðið gott meðallið í ensku úrvaldsdeildinni. En svo réð Liverpool Jürgen Klopp til að byggja upp. Og síðan hefur hann endurnýjað liðsandann og smitað gleði til stuðningsmanna. Óháð fyrsta eða öðru sætinu í Englandi eða fyrsta eða öðru sætinu í Meistaradeild Evrópu er liðið orðið eitt það besta í heimi – að nýju.

Af hverju skyldi það vera – og af hverju hefur prestur áhuga á anda fótboltaliðs? Klopp og Kristur tengjast nánum böndum. Það getur haft – og á að hafa – áhrif á líf fólks að trúa á Guð. Svo er ekki alltaf því fólk er mismunandi. Sumir nota, misnota trú eftir þörfum, en aðrir leyfa trú að móta afstöðu sína og samskipti við fólk. En þegar allt er eðlilegt skilar trú mannvinsemd og hlýrri afstöðu og tengingum veröldinni.

Í viðtali var Jürgen Klopp spurður hvernig velgengnin skipti hann sjálfan máli? Klopp svaraði einfaldlega: „Ég er kristinn. Ég er ekki aðalkarlinn heldur einn af mörgum. Við erum lið.“ Þetta er kjarnamál. Að vera kristinn hefur afleiðingar, á að hafa afleiðingar og móta hvernig kristinn maður beitir sér í lífi og starfi, tengist öðrum og lítur á sjálfan sig í tengslum. Klopp hefur frá unglingsárum tekið trú sína alvarlega og í samskiptum við fólk tekur hann afleiðingum af hvað trú merkir. Allir, sem fylgjast með fótbolta, hafa séð hvernig Klopp umgengst annað fólk af virðingu. Hann byggir upp liðsheild. Hann er náinn leikmönnum, brosir til þeirra, eflir sjálfstraust þeirra, tekur utan um sína menn, er mjög skapríkur og einbeittur í störfum en alltaf ræður mannvirðing för, tillitssemi, hógværð og heildarhugsun. Og hvort sem hann tapar eða vinnur virðir hann alltaf mótherjana, talar vel um þá bæði fyrir leiki og eftir leiki. Kristur hefur áhrif á Klopp – og það er þess vegna að Liverpool er upprisið. Kristur hefur áhrif og má hafa áhrif.

Hvað merkir að vera kristinn – að trúa á Guð? Það merkir að við erum hluti af heild. Við erum ekki nafli alheimsins, við erum ekki svarthol eigingirninnar, sem allt sogar til sín. Okkar hlutverk er að styðja aðra, líta ekki á okkur sjálf sem miðju veraldar, heldur sem mikilvæga þátttakendur í stóru teymi fólks. Þegar við skiljum það skiljum við betur eðli tengsla og trúar.

Við mannfólkið erum einstök og dýrmæt. Lífsverkefni okkar eru að rækta siðvitund, visku, mannvirðingu og góð tengsl, við sjálf okkur og fólkið okkar. Kristin trú er ekki vitsmunasamþykki kenninga heldur líf. Að trúa á Jesú Krist er að lifa í tengslum við Guð og menn, sjá sig í samhengi og glepjast ekki til að trúa að maður sé betri, snjallari og klárari en allir aðrir. Stuðningsmenn Liverpool syngja hástöfum: „You´ll never walk alone.“ Það eru orðin sem standa yfir Shankley-hliðinu á Anfield. Sú tjáning rímar við meginstef kristninnar. „Þú ert aldrei einn.“

Fótboltinn getur fallið,. Nú er Liverpool á toppnum en svo getur gengið þess fallið síðar. Allt getur hrunið í kringum okkur – en þó erum við ekki eða verðum yfirgefin. Guð er yfir og allt um kring. Til að verða afburðamaður í fótbolta krefst æfinga. En til að þið verða afburðamenn í lífinu hjálpar að vera eins og Klopp, taka mark á trú og leyfa henni að móta samskipti og líf. Kristur hefur áhrif.

Til hamingju púlarar með titilinn. You’ll never walk alone. 

Vatnaskáldið Pétur M. Jónasson

Pétur M. Jónasson er eitt hundrað ára í dag. Pétur er einhver áhugaverðasti vísindamaður Íslendinga síðustu áratugina. Ég kynntist Pétri vel þegar ég bjó og starfaði á Þingvöllum. Pétur hefur í marga áratugi vakað yfir velferð Þingvallavatns, stýrði stórkostlegum rannsóknum, sem fjöldi fræðimanna stundaði á vatninu. Svo hafði hann góð og gefandi tengsl við Þingvellinga, fólkið í sveitinni. Ég fór margar ferðir með Pétri og hann hafði alltaf stund til að fræða, kynna, örva og hvetja. Og þar sem ég hef alla tíð haft áhuga á vatni og hafði á menntaskólaárum ákveðið að verða vatnalíffræðingur var stutt á milli okkar. Mér fannst Pétur hugaður og marksækinn, skapandi hugsjónamaður, hugmyndaríkur og ég hreifst af sveitahúmor hans og manngæsku.

Einhvern tíma sagði ég að Pétur væri vatnaskáld. Sú nefning var síðan notuð sem heiti á heimildamynd um Pétur. Mér þótti vænt um að hafa náð að gefa honum þessa einkunn sem tjáir víddir hans, að hann var ekki bara niðurlútur fræðingur heldur upplitsdjarfur leiðtogi og veitull höfðingi. Myndin af okkur Pétri er tekin 8. ágúst 1993. Skemmtilegt viðtal við Hilmar J. Malmqvist um Pétur á vef RÚV https://www.ruv.is/…/…/thingvallavatnsrit-tileinkad-dr-petri Svo er hér að baki þessari smellu kynning á nýju Þingvallariti sem gefið er út til heiðurs Pétri. 

Ég þakka fyrir samfylgd með Pétri M. Jónassyni, þakka hvernig hann tók á móti samverkamanni þegar ég kom til Hilleröd, þakka fyrir hönd fræða og náttúru Íslands. 

Pétur lést í október 2020. Yfirlit um líf, fræði og störf sjá dánarkynningu í mbl https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/10/13/andlat_dr_petur_m_jonasson/

Guð sem ert faðir og móðir alls sem er

Myndskeið er að baki þessari smellu

Guð sem ert faðir og móðir alls sem er

Kenn okkur að vera synir og dætur, sem tala við þig, að hræðast ekki í návist þinni. Kenn okkur heilindi í samskiptum við þig, í orðum, verkum og vinnu, heima og að heiman. Alls staðar ert þú – þar sem við erum vilt þú vera nærri. Gef okkur vilja til að horfa í spegil lífssögu okkar, opna fyrir reynslu nýjunga, margbreytileika, nýrra möguleika, dýptar – opna fyrir þér.

Guð sem talar í náttúrunni

Gef okkur vitund um fegurð daggardropa, blómknúppa, grasnála, opnandi brums, syngjandi fugla. Kenn okkur að skynja návist þína í litum, lykt, verðandi og hræringum náttúrunnar. Lof sé þér fyrir sköpunarverkið allt, sögur, orð, sólstafi og djúpsvart myrkur, fyrir fjölbreytileika veraldar, marglita menningu, ólíkt fólk, nánd og fjarlægðir, smákorn og sólir.

Guð – líf kirkjunnar

Úthell blessunaranda þínum yfir alla þjóna hennar. Við biðjum fyrir starfsfólki, barnastarfi, fyrir kirkjuvörðum, listafólki, biskupum, söngvurum, prestum, organistum, djáknum sóknarnefndarfólki, sjálboðaliðum, messuþjónum – já öllum þeim sem gegna þjónustu í kirkju þinni.

Guð sem ert uppspretta lífs

Við biðjum um siðvit, jöfnuð og réttæti í samfélagi okkar. Gef að mannvirðing einkenni samskipti okkar og tengsl. Hjálpa okkur að rækta frið og virða vit, þekkingu og sannleika. Við biðjum þig að gefa öllum þjónum almennings vernd og þjónustuanda. Gef dómurum speki til réttlátra dóma, löggjöfum skarpskyggni og ríkisstjórn vits og forseta blessun þína. Við þökkum þér fyrir samfélag okkar og menningu, fyrir öll sem hér búa og starfa. Hjálpa okkur að axla ábyrgð á velferð fólks, á byggð og landi, lífi og heimi, heiminum þínum, sem þú elskar og frelsar.

Guð sem sem vitjar allra

Við biðjum þig að blessa hin sjúku og nefnum nöfn þeirra í hljóði …

Við biðjum fyrir hinum sorgmæddu og deyjandi. Við biðjum fyrir þeim sem eru í fangelsi, í fjötrum skulda, í greipum fíknar eða feni samfélagsins. Ver með þeim og leys bönd þeirra. Ver með fjölskyldum þeirra.

Þú mikli Guð
Hjálpa okkur að sjá í reynslu daganna að þú ert með í för, þú gengur okkur við hlið, þú fylgir okkur í sorginni, þú brosir við okkur í augum ásvina og elskunnar. Þú ert okkur við hlið. Hjálpa okkur að lesa sögu okkar sem samfylgdarför, að líf okkar hefur ávallt verið fólgið í sögu þinni, okkar smásaga er brot hinnar stóru sögu, sem þú hefur sagt og heldur áfram að segja okkur, meðan þú yrkir veröldina. Þökk fyrir að við megum lifa í þeirri sögu sannleikans um okkur og þig.

Guð vors lands

Þú hefur skapað okkur til frelsis og ábyrgðar. Í þínar hendur felum við alla viðleitni til að byggja og móta réttlátt þjóðfélag. Kenn okkur að bera virðingu fyrir skoðunum og sjónarmiðum annarra. Lát okkur aldrei gleyma því að heimurinn er stærri en okkar eigin byggð og og land. Þú ert öllu valdi, öllum heimi æðri. Allt skapar þú, allt leysir þú og allt blessar þú og helgar. Þinn er mátturinn og dýrðin að eilífu. Amen.

2020 Bæn á bænadegi þjóðkirkjunnar. Hallgrímskirkja 5. sdepáska.

 

Neskirkja, sókn, bygging og líf

Kona, sem kom í Neskirkju, leit í kringum sig og sagði: „Þetta er falleg kirkja. Hún er svo stílhrein, ekkert auka sem flækir.“ Ungur drengur stóð við kórtröppurnar skömmu síðar og sagði hugsi: „Þessi kirkja er ekki eins og kirkja á að vera.“ Og af því honum þótti kirkjan ekki nægilega kirkjuleg væri hún þar með ekki heldur falleg. Hvenær er kirkja fögur? Smekkur fólks er mismunandi og því er afstaða þess til fegurðar kirkju með ýmsu og ólíku móti. Um húsgæði má deila og líka hafa á þeim mismunandi skoðanir. En kirkjuleg fegurð varðar ekki aðeins útlit, efni, liti eða form, heldur fremur að kirkja er hús Guðs. Það er aðalatriði og kirkjulegt skilgreiningaratriði handan smekks einstaklinga. Kirkja er hús fyrir samfélag, fyrir mikilvægustu söngva lífsins og bestu orð veraldar. Kirkja er veruleiki og samhengi þess að himin og jörð kyssast. Fegurð kirkju er frá Guði. Neskirkja er því fallegt hús því hún er hús Guðs. En að auki er kirkjuhúsið einnig merkilegt byggingar- og menningar-sögulegt djásn. 

Sérstæð en hentug kirkja

Neskirkja hefur gjarnan verið nefnd fyrsta nútímakirkjan á Íslandi. Á byggingartíma og fyrstu árum þótti hún framúrstefnuleg og ókirkjuleg. En þeim, sem sækja helgihald Neskirkju og kynnast henni, ber saman um að hún er meira en tískubóla og þolir vel harða smekkdóma tíðanna.

Kirkjan er nú friðlýst hið ytra, enda þykir bygging hennar marka tímamót í íslenskri byggingarsögu. Efnt var til samkeppni um teikningu kirkjunnar árið 1944 og hlaut Ágúst Pálsson, húsameistari, fyrstu verðlaun. Ekki var þó byggt eftir frumtillögunni því margir óttuðust, að söfnuðurinn myndi ekki geta staðið straum af kostnaðinum við stora byggingu. Ágúst var því beðinn að minnka breyta upprunalegri tillögu og minnka bygginguna. Hann varð við beiðninni og byggingaframkvæmdir hófust árið 1952 og stóðu í fimm ár. Neskirkja var vígð á pálmasunnudegi 1957 og pálmasunnudagur þar með kirkjudagur hennar.

Mörgum þótti tillaga Ágústs sérstæð, enda er kirkjan ósamhvef, asymmetrísk. Aðalinngangur kirkjunnar er frá norðri en ekki vestri eins og í flestum kirkjum á Íslandi. Blaðadeilur urðu um byggingarskipulagið. Fullbyggt þótti flestum kirkjuhúsið nýstárlegt, rúmgott og húsgerðin hentug fjölbreytilegu safnaðarstarfi. Ágúst var harmónikuleikari og má jafnvel sjá í Neskirkju stíliseraða harmóníku, hugvitsamlegan spuna með form dragspilsins. Suðurglugginn er sem bassablokkin, kirkjuskip sem belgur og forkirkja eins og hljómborðið. Ef svo er túlkað má sjá í innkomu fólks í forkirkju hjómupphaf, síðan verður tónlist þegar menn eru í kirkju og í samverkan við Heilagan anda. Neskirkja er því n.k. hljóðfæri til andlegra tónsmíða. Það var því ekki undarlegt, að Ágúst skyldi leggja mikla áherslu á Neskirkju hefði góðan hljóm.

Í Neskirkju var safnaðarheimili tengt kirkjubygginguni sjálfri í fyrsta skipti hérlendis. Á upphaflegu teikninguni var gert ráð fyrir mun stærri sal en gerður var. Val á efni var í samræmi við tímann, t.d. timburplötur á veggjum, tex í lofti, flúrperur fyrir hina óbeinu lýsingu kirkjunnar og linoleumdúkur á gólfum. Vandað var til búnaðar. Auk kirkjubekkjanna voru stólar Arne Jacobsen, ”Sjöan,” keyptir, en höfðu þá ekki hlotið lof og frægð, sem síðar varð. Kirkjan á enn megnið af þeim stólum, sem nú hafa þjónað fólki vel. Þeir eru nú eiginlega antíkmunir og minna á natni og listræna alúð þeirra, sem ákvörðuðu búnað við upphaf. Skoðanir á kirkjubekkjunum voru frá upphafi ólíkar. Einhverjum þóttu sætin líkjast um of sætum í kvikmyndahúsum og þau jafnvel vera óeðlilega þægileg!  Slíkar gagnrýnisraddir eru nú alveg hljóðnaðar.

Söngloftið, sem nú er horfið, var í kór kirkjunnar og setti svip á kirkjuskipið. Kirkjuloftið hækkar frá vestri til austurs en kyssir ekki hinn háa kórvegg. Yfir altarinu er loft mun hærra en yfir öðrum hluta kirkjuskipsins og miðlar með hljóðlátu táknmáli sínu hvað er æðst og hæst.

Við hönnun kirkjunnar hugði Ágúst Pálsson mjög að birtuflæði kirkjunnar og þar með gluggaskipan. Allir gluggar kirkjuskipsins, 40 smágluggar og 1 stórgluggi, vísa að kór hennar. Nærri altari er hinn mikli suðurgluggi, sem varpaði ljóshafi yfir kórinn. Í sólskini varð oft heitt í kórnum á messutíma og brann á prestum og söngfólki og perlaði á ennum! Þegar steindur gluggi Gerðar Helgadóttur var settur upp í þennan glugga árið 1990 var girt fyrir hitasviftingar en einnig óheft ljósflæði. Kirkjan varð ekki eins ljósrík og hún var fyrstu áratugina, en litaflóðið varð oft stórkostlegt um og eftir hádegið á sólardögum. Það var bónus breytingarinnar. Taka varð Gerðargluggann niður vegna viðgerða og hefur hann ekki verið settur upp aftur. Þegar dökkt gler gluggans hindraði ekki lengur ljósflæðið heillaði marga hve birti í kirkjunni. Því hefur ekki verið eining um hvort setja eigi gluggann upp að nýju. 

Úti og inni

Hússtærðin var minnkuð frá upphafstillögu. Við það breyttust form kirkjunnar og jafnvel sködduðust. Á norðurhlið hússins gætir t.d. nokkurs ósamræmis, einkum í hlutföllum safnaðarheimilishlutans og tengingu hans við kirkjuskipið sjálft. Kirkjuskipið var stytt og lækkað og raskaði sú minnkun nokkuð jafnvægi hússins miðað við upphafstillögur.[i]

Safnaðarheimili var byggt á árunum 2002-04. Gerð og lögun þess hefur bætt fyrir smækkun kirkjunnar. Kirkjan nýtur viðbótar safnaðarheimilins og saman mynda húsin samstæða heild. Hönnuðir safnaðarheimilis voru VA-arkitektar og höfð þeir hugmyndina um þorpið að leiðarljósi. Kirkjan er sem þorpskirkja sem stendur við torgið. Milli kirkju og safnaðarheimilis er brú eins og lækur lífsvatnsins liðaðist um grænar grundir kirkjulóðarinnar. Frá torginu liggur síðan gata með vinnustöðum, misstórum og sveigjanlegum vinnurýmum, á báðar hendur. Safnaðarheimilið er afar bjart og rímar vel við kirkjurökkrið.

Nokkrar breytingar hafa verði gerðar á kirkjunni. Árið 1990 var lokið við endurbætur utan sem innan. Kross á turni var þá endurnýjaður og turninn styttur. Krossinn varð tvíarma, en var áður fjórarma. Breytingin var ekki til bóta og vert að færa til upphafsskipunar að nýju. Innanstokks hafa einnig orðið nokkrar breytingar. Fyrst voru söngsvalir kirkjunnar stækkaðar svo rýmra yrði um kórinn. Altari kirkjunnar var einnig fært frá vegg.

Orgel

Í kirkjuna nýbyggða var keypt þýskt, tuttugu og einnar raddar orgel. Þegar það var sett upp kom í ljós, að það var síðra en stefnt hafði verið að. Áttu organistar oft í vandræðum með orgelið, þrátt fyrir að vel væri jafnan hugsað um það. Var talað um, að orgelið væri orðið svo dintótt að organisti kirkjunnar, Reynir Jónasson, væri sá einni sem kynni á kúnstir þess.

Ákveðið var árið 1999 að kaupa til kirkjunnar nýtt orgel af þýsk-bandaríska orgelsmiðnum Fritz Noack í Boston. Orgelið er 31 radda, rómantískt orgel. Orgelsmiðurinn fylgdi smíðinni eftir með greinargerð: „Það var fljótlega ákveðið að orgelið fyrir Neskirkju yrði að henta fyrir breitt svið orgeltónlistar, fyrir guðsþjónustur, undir kórsöng og fyrir tónleika góðra orgelverka. Spilaborð orgelsins er skilið frá til þess að organistinn geti stjórnað kórnum en tengingar eru undir kórgólfinu. „Registur“ orgelsins eru rafstýrð. Neskirkjuorgelið er sambland af klassísku, evrópsku orgeli og amerísku 19. aldar orgeli, en útkoman er nútímaorgel…”

Með tilkomu nýs orgels voru gerðar breytingar í kirkjuskipi. Söngsvalinar voru fjarlægðar og stað teppis á gólfi kórsins komu steinflísar. Spónpanill á  kórvegnum var einnig fjarlægður og veggurinn sléttaður og hvítmálaður. Í kirkjunni hefur aldrei verið altaristafla heldur einfaldur kross á kórvegg. Ástæðan er áhrif frá kirkjuarkitektúr látleysis.

Gluggar

Í kirkjunni hafa verið tveir steindir gluggar Gerðar Helgadóttur. Eldri glugginn er í forkirkjunni og var fullgerður árið 1967. Glugginn var gjöf Kvenfélags Neskirkju til að minnast 25 ára afmælis safnaðarins. Þóra Kristjánsdóttir segir svo um gluggan: “Í höndum Gerðar varð glugginn eins konar gátt út í hina stóru veröld fyrir utan. Í stað þess að sjá út á Melana og ys og þys hins daglega lífs, er sjónum manna beint að æðri vídd.  Glugginn er alsettur þykku handskornu gleri sem er fest saman með blýi og hefur Gerður málað í glerið með svörtu á stöku stað til frekari áherslu. Neðst er rönd í jarðarlitum, – brúnum, gulum, og grænum. Þá taka blárri fletir við í ótal litbrigðum, svo og hvítir og einstaka rauðir. Sumir hafa séð í þessum litbrigðum heilagt fjall og vatn, – aðrir fiska, það er að segja tákn Krists, allt eftir næmi og innsæi hvers og eins. Þannig vildi Gerður hafa þessa gátt, að hver skoði hana út frá sinni sál og trúarþörf.”[ii]

Fljótlega var hugað að framhaldi að samvinnu við Gerði og gerði hún að minnsta kosti þrjár tilögur um steindan glugga inni í kórnum. Glugginn er 12 metra hár og liðlega þrír og hálfur á breidd og því yfir fjörutíu fermetrar. Gerður lést áður en hún gat fylgt hugverki sínu úr hlaði. Þegar til átti að taka fannst aðeins ein tillaga í safni hennar og var hún notuð. Glugginn var helgaður í október 1990. Þóra segir um þennan glugga:  ”Tillaga Gerðar um himinbláan glugga, í himinsins ótal litbrigðum, var sjálfgefin. Þessi gluggi er einnig gátt, en nú býður listakonan ekki upp á neitt val. Hér sjá menn ljós í myrkrinu, kross hátt á himninum, ljós eftir myrkur.”[iii]

Grænir litir og blá litbrigði og skipan gluggans má túlka sem vísun í byggð Haga og Mela á landrönd nessins í víðáttum hafs og himins. Gluggin er sem vottur um líf og lífsþrá í faðmi hafs og himinbláma. Glugginn er tvískiptur. Í miðju hans er lína, n.k. sjóndeildarhringur. Neðan hans má sjá veröld og umhverfi safnaðar kirkjunnar. Ofan hans er himinhvelfing, dýrðarveröld, heimur Guðs, sem umfaðmar veröld og menn. Rauðu og gulu litirnir laða, vekja íhugun um sálir og eilífð, ljós og líf.

Glugginn er yfirgnæfandi og fjölbreytilega blár. Bláir litir hafa í kirkjulistinni gjarnan verið tengdir aðventunni, hinnar bíðandi veraldar og Maríu, móður Jesú. Í ljósi blámans má túlka gluggan sem glugga aðventu en líka jóla. Á efri hluta gluggans er ljóskross, sem beinir huga til kross Jesú Krists. En vegna tengingar bláu litanna við aðventu má túlka ljóskrossinn líka sem stjörnu jólanna, Betlehemsstjörnuna, sem skín myrkri og þurfandi heimsbyggð á hinni helgu nótt.

Báðir gluggarnir, þ.e. í kór og forkirkju, voru unnir á verkstæði Oidtmann í Linnich[1] í Þýskalandi. Stóri glugginn er enn í viðgerð eða hefur ekki verið settur upp vegna þess hve glugginn myrkvar kirkjuskipið. 

Kristur og bænir

Í andyri kirkjunnar er Kristslíkneski úr tré sem Ágúst Sigmundsson skar. Myndin sýnir Jesú sem breiðir út faðm sinn mót þeim sem gengur í guðshúsið. Á síðari árum hafa bænaskálar verið settar á steinaltarið frammi fyrir líkneskinu. Æ fleiri koma fyrir kertum, kveikja og gera þar bæn sína. Hin rúma forkirkja hefur því á síðari árum orðið staður tilbeiðslu fremur en fatahengi.

Samhengi sögunnar

Nessöfnuður er eldri kirkjuhúsinu og munar 17 árum. Dómkirkjusöfnuðinum var skipt upp og í fjóra hluta árið 1940.[iv] Þá var Nesprestakall stofnað. Kirkjan átti að þjóna Melum, Högum og líka öllu Seltjarnarnesi og fékk þaðan nafn sitt. Upphaflega var Nessókn allt svæðið vestan og sunnan Hringbrautar og Miklubrautar. Seltjarnarnes varð sjálfstæð sókn árið 1974. Nú eru innan sóknarmarka byggðin sunnan og vestan Hringbrautar og flugvallarins ásamt Skerjafirði og að bæjarmörkum Seltjarnarness. Dómkirkjusókn teygir anga suður fyrir Hringbrautina á einum stað. Aðalbygging Háskólans og Þjóðminnjasafnið ”tilheyra” Dómkirkjusvæðinu, en engir eiga lengur lögheimili í þeim byggingum svo tota Dómkirkjunnar er táknræn en íbúalaus.

Prestar, organistar, djákni og helgihald

Í liðlega tvo áratugi þjónaði aðeins einn prestur sístækkandi Nessöfnuði. Annað prestsembætti var stofnað og lagt til safnaðarins árið 1963 og prestakallið varð þar með tvímenningsprestakall. Þegar sókn var stofnuð á Seltjarnarnesi 1974 þjónuðu Nesklerkar þeim áfram eða til ársins 1988, en þá fengu Seltirningar sinn prest er Seltjarnarnesprestakall var stofnað.

Fyrstu sautján árin var Nessöfnuður án kirkju. Háskólakapellan, sem vígð var á stofnári safnaðarins árið 1940, og skólinn á Seltjarnarnesi voru guðsþjónusturými safnaðarins og nýtt fyrir giftingar, skírnir og greftranir. Þá var heimili prestsins mikið notað til athafna, eins og algengt var á Íslandi á þessum árum.

Fyrsti prestur kirkjunnar var Jón Thorarensen og þjónaði hann söfnuðinum frá 1940 allt til 1972 eða í 32 ár. Frank M. Halldórsson var kosinn árið 1963 sem sóknarprestur þegar sóknin var gert að tvímenningsprestakalli og þjónaði til 2004 og því allra Neskirkjupresta lengst. Árið 1972 tók Jóhann S. Hlíðar við embætti af sr. Jóni og þjónaði hann til ársins 1975. Þá tók við Guðmundur Óskar Ólafsson og naut söfnuðurinn starfa hans í nítján ár eða allt til ársins 1994. Halldór Reynisson kom til starfa árið 1994 og þjónaði með hléum til ársins 2001. Örn Bárður Jónsson hóf störf í söfnuðinum í fjarveru sr. Halldórs árið 1998, var valinn prestur 2001 og sóknarprestur árið 2004 og fékk lausn frá embætti 2016. Árið 2004 var Sigurður Árni Þórðarson kjörinn prestur safnaðarins og þjónaði til ársloka 2014. Skúli Sigurður Ólafsson var valinn sóknarprestur og kom til starfa í Neskirkju í febrúarbyrjun 2016. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir var valinn prestur í maí sama ár, þ.e. 2016. 

Neskirkju hefur haldist vel á klerkum sínum aðeins níu prestar hafa verið skipaðir til þjónustu í söfnuðinum frá upphafi. Margir aðrir prestar hafa þjónað í afleysingum. Þá hefur Neskirkja orðið mikilvæg uppeldismiðstöð þjóðkirkjunnar, því margir guðfræðingar hafa fengið þjálfun í starfi kirkjunnar og notið hennar í prestsþjónustu síðar. Sigurvin Jónsson, þá æskulýðsprestur, var vígður árið 2011 og þjónaði söfnuðinum sem æskulýðsprestur þar til hann fór utan til doktorsnáms en kom síðar til prestsstarfa og kennslu á Íslandi. 

Kristín Bögeskov var vígð árið 1995 til djáknaþjónustu í Neskirkju og starfaði einkum við heimaþjónustu á vegum safnaðarins.

Rúnar Reynisson hóf störf við Neskirkju fyrir þremur áratugum sem æskulýðsfulltrúi. Síðari ár hefur hann verið skrifstofustjóri og framkvæmdastjóri kirkjunnar. 

Við kirkjunna hafa aðeins þrír organistar starfað frá upphafi eða yfir fimmtíu ár. Þeir eru Jón Ísleifsson frá 1940 til 1973, Reynir Jónasson frá 1973 til 2002 og Steingrímur Þórhallsson frá 2002.

Lífslán Neskirkju

Neskirkja hefur búið við prestalán og notið góðra starsmanna. En veraldlegt aðallán hennar er fólkið sem sækir kirkju sína, vitjar hennar og notar, hvunndags, á hátíðum, gleðistundum og dögum sorgar. Neskirkja er í miðju sóknarinnar ásamt með öðrum mikilvægum stofnunum hverfisins. En hún er líka í miðju vitundar meiri hluta fólks í hverfinu og hefur jafnan notið velvilja. Afar stór hópur þjónar kirkjulífinu. Hin síðari ár eru á annað hundrað manns árlega sem gefur af tíma sínum til að vinna að einhverjum þætti safnaðarstarfsins. Allt leggst þetta saman í andlegt kirkjuhús sem fólk, söfnuður, prestar og hús þjóna. Og það er fallegt því það er ríki Guðs.

Texti og myndir: Sigurður Árni Þórðarson. Þetta var skrifað fyrir nokkrum árum og ég bætti aðeins við upplýsingum um nýja presta Neskirkju. 

[1] http://www.glasmalerei-oidtmann.de/

[i] Hörður Ágústsson,  “Neskirkja,” Nessókn – Afmælisrit 50 ára, Reykjavík: Neskirkja, 1990, s. 14.

[ii] “Ljósið í myrkrinu: Um steinda glugga Gerðar Helgadóttur í Neskirkju,” Nessókn – Afmælisrit 50 ára, Reykjavík: Neskirkja, 1990, s. 15.

[iii] Sama rit, s. 15.

[iv] Reykjavíkurprestakalli, þ.e. dómkirkjusókn, var skipt í fjögur prestaköll með lögum frá 7. maí 1940. Hallgrímsprestakall varð tvímenningsprestakall en Laugarnes- og Nesprestakall urðu einmenningsprestaköll. Prestskostningar í öllum sóknunum voru 15. desember sama ár er sr. Jón Thorarensen varð efstur í kosningu til embættis prests Neskirkju.