Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is. Þá var talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is Sá vefur er nú lokaður.

Heilagt rými og heilagleiki

Heimsfaraldur teygir kerfi og kremur fólk. Margir hafa misst vinnu. Fjárhagsáhyggjur reyna á. Því lengur sem fárið geisar vex spenna og sprungur koma í ljós. Veilur einstaklinga og brotakerfi menningarinnar sjást. Veilurnar eru mennskar, það sem við mennirnir erum líka. Þegar mennirnir sýna sínar verstu hliðar hríslast ótti um bæði sálir einstaklinga og samfélög.

En hið vonda er ekki hið eina. Við megum gjarnan hugsa um hina hliðina, velta öllu á hvolf og íhuga það sem er handan hins hræðilega og sefar óttann. Þetta sem er æðra, handan hins skerta eða vonda. Það getum við kallað hið heilaga. Hið heilaga samtvinnar hið besta í þessum heimi, líka manneskjurnar. Heilagleikinn er í náttúrunni, í umhyggju og gæsku mannanna, í listinni og líka í helgidómum. Kirkjurnar eru dásamlegir kyrrðarreitir á ferð okkar um menningu og land. Og hið heilaga er nær okkur en lífið sjálft.

Íhugun dagsins. Mynd SÁÞ af innri kirkjudyrum Hallgrímskirju. Glerverkið: Leifur Breiðfjörð. 

Málnotkun og kynjað málfar

“Sex inclusive language – Guidelines.” Talsverður bunki af blöðum, námsskrám, upplýsingum og leiðbeiningum var lagður í hendur nýnemanna í guðfræðideild Vanderbiltháskóla haustið 1979. Þetta var eitthvað á skjön við allt hitt: “Sex-inclusive language – Guidelines.” Hvað er nú það?

Að baki kynbundu máli

Ég man eftir að ritið olli nokkrum heilabrotum og var ljóst að þetta var alls ekki einhver klámbæklingur! Formlegur og virðulegur frágangur skjalsins, sem bar skjaldarmerki háskólans og nafn sómakærrar guðfræðideildar á forsíðunni, tók af allan vafa um að þetta skyldi íhuga og taka alvarlega. Við nánari skoðun kom í ljós að um var að ræða leiðbeiningar fyrir nemendur og alla starfsmenn um mál og tengsl þess við kyn og kynferði.

Þannig var það í mínum gamla skóla í Suðurríkjum Bandaríkjanna á níunda áratug síðustu aldar. Þá var þessi guðfræðideild búin að ræða málnotkun guðfræði og kirkjumállýskur í mörg ár, búin að taka á fordómum, vinna með varnir kennara og nemenda og ræða kosti og óskosti. Ákveðið hafði verið með fullum stuðningi flestra kennara og starfsmanna deildarinnar að kynniðrandi mál skyldi ekki nota í skólanum. Einu gilti hvort það var í samræðum skólastofunnar, tímaritgerðum, prófum, kappræðum, deildarfundum eða fyrirlestrum.

Þetta var á þeim árum þegar Mary Daly var varla þekkt nema í þröngum faghópum, kvennguðfræði var í fósturlíki og í miðri meðgöngu. En þarna var einfaldlega öflugur hópur kennara, karla og kvenna, sem slátraði mörgum heilögum kúm, var tilbúinn að hugsa ný mál og frá nýjum forsendum. Svo var ekki verra að deildarforseti þá var Sallie McFague, sem síðar varð einn kunnasti málgreinir kvennaguðfræðinnar.

Að læra nýtt mál og skapa nýjan heim

Mér fannst ekki erfitt að aðlagast þessum leiðbeiningum. Ég var að læra að lifa í nýju tungumáli, enskunni. Þetta var bara eins og reglur um greini eða viðtengingarhátt, eitthvað til að æfa sig á, gera mistök, prufa nýtt og innlifast síðan. Þannig var um fleiri, sem kunnu sex-exclusive mál, höfðu lært að segja bræður þegar átt var við systkin, hann um einstakling þegar ekki var vitað um kyn og hann um Guð þegar ekkert var verið að ýja að kyni Guðs eða hlut kynferðis í trúarlegri upplifun. Umræður urðu vissulega um kynjatungu, málið handa kynja og mál beggja eða allra kynja. Plaggið “Sex-inclusive language – guidelines” hafði áhrif og breytti orðfæri, gerði fólki mögulegt að hugsa á nýjan máta og prufa nýjar brautir og hugmyndatengingar.

Hin spámannlega rödd kennaranna varð til að efla þor til nýsköpunar á engi andans. Hún hefur enn áhrif, því ég reyndi að innræta mér að nota mál kynja á íslensku líka og gildir einu að orðið Guð er skv. hefðinni karlkyns. Umorðun er möguleg. Við verðum ekki, erum ekki nauðbeygð, að segja hann um Guð, þegar Guð hefur verið nefndur einu sinni. Ég varð upptekinn af hinni spámannlegu vídd á sínum tíma og gerði mér grein fyrir hvað Vanderbilt-guðfræðideildin var á undan sinni samtíð, kirkjum og skólum um öll Bandaríkin og er reyndar enn.

Til góðs að heyra spámannsrödd

Æ síðan hef ég litið svo á að mikilvægt væri að leggja ekki stein í götu þeirra, sem vilja að mál kirkjunnar og guðfræðinnar á Íslandi sé meira mál en karla. Rödd þeirra er spámannleg og mætti hlusta á og hvetja okkur til að íhuga, hvort við erum hamin af andlegum höftum, með þunga andlega bakpoka óþarfra fordóma úr málinu um Guð og þar með okkur menn. Vissulega er eðlilegt að nota tungumálið vel, en það er óþarfi á láta kyn orða eyðileggja guðfræði og öfluga trúartúlkun. Ég geri mér grein fyrir muninum á málfræðilegu kyni og öðrum notkunarmöguleikum tungumálsins en málfræðilegt kyn á ekki að stjórna hvernig handankynsmál eru skilin og túlkuð. 

Þegar ég heyri sterk viðbrögð við endurskoðun máls kynja spyr ég mig: Er þarna á ferð forherðing í trúarefnum, skortur á vilja til að heyra rödd hrópanda í eyðimörkinni, andóf gegn iðrunarferlinu í sinninu? Ef svo er þá er alvara á ferð og nauðsynlegt að skrifa ritið: „Mál kynja í íslensku þjóðkirkjunni – leiðbeiningar“ og setja svo merki þjóðkirkjunnar á forsíðuna, afhenda guðfræðinemum á fyrsta ári, prestum við vígslu, próföstum við innsetningu og sóknarnefndarmönnum um allt land. Og kannsku setja í starfsreglur kirkjunnar? Gæti verið að dýrkun Guðs myndi eflast og skilningur á fjölbreytni mannlífsins og dýrmæti hverrar mannveru einnig?

Ávarp SÁÞ á þingi um kynjað málfar.

 

You’ll never walk alone

Liverpool FC er Englandsmeistari 2020.

Er þú brýst fram gegn bylnum
berðu höfuðið hátt
óttastu ei myrkrið
né ógn þess og mátt.

You’ll nvever walk alone er söngur Liverpool í Englandi og tugir þúsunda syngja hann hástöfum á leikjum. Helgi Símonarson, frændi minn á Þverá í Svarfaðardal, sagði mér fyrst frá þessum söngsálmi Púlara. Hann var kennari og bóndi fyrir norðan og líka mikill áhugamaður um fótbolta og sérstaklega Liverpool. Og hann varð elsti stuðningsmaður Liverpool í heimi, náði 105 ára aldri. Árið 2000 var fullyrt í leikjaskrá Liverpool að hann væri elsti stuðningsmaður félagsins í heiminum.

Liverpool-liðið er merkilegt. Það hefur orðið kraftaverk, eiginlega upprisa í því liði. Það er að nýju orðið eitt besta fótboltafélag í heimi. Blómaskeið félagsins var fyrir mörgum árum. Þá vann liðið frækna sigra heima og erlendis. En það sem fer upp kemur niður. Í mörg ár var liðið gott meðallið í ensku úrvaldsdeildinni. En svo réð Liverpool Jürgen Klopp til að byggja upp. Og síðan hefur hann endurnýjað liðsandann og smitað gleði til stuðningsmanna. Óháð fyrsta eða öðru sætinu í Englandi eða fyrsta eða öðru sætinu í Meistaradeild Evrópu er liðið orðið eitt það besta í heimi – að nýju.

Af hverju skyldi það vera – og af hverju hefur prestur áhuga á anda fótboltaliðs? Klopp og Kristur tengjast nánum böndum. Það getur haft – og á að hafa – áhrif á líf fólks að trúa á Guð. Svo er ekki alltaf því fólk er mismunandi. Sumir nota, misnota trú eftir þörfum, en aðrir leyfa trú að móta afstöðu sína og samskipti við fólk. En þegar allt er eðlilegt skilar trú mannvinsemd og hlýrri afstöðu og tengingum veröldinni.

Í viðtali var Jürgen Klopp spurður hvernig velgengnin skipti hann sjálfan máli? Klopp svaraði einfaldlega: „Ég er kristinn. Ég er ekki aðalkarlinn heldur einn af mörgum. Við erum lið.“ Þetta er kjarnamál. Að vera kristinn hefur afleiðingar, á að hafa afleiðingar og móta hvernig kristinn maður beitir sér í lífi og starfi, tengist öðrum og lítur á sjálfan sig í tengslum. Klopp hefur frá unglingsárum tekið trú sína alvarlega og í samskiptum við fólk tekur hann afleiðingum af hvað trú merkir. Allir, sem fylgjast með fótbolta, hafa séð hvernig Klopp umgengst annað fólk af virðingu. Hann byggir upp liðsheild. Hann er náinn leikmönnum, brosir til þeirra, eflir sjálfstraust þeirra, tekur utan um sína menn, er mjög skapríkur og einbeittur í störfum en alltaf ræður mannvirðing för, tillitssemi, hógværð og heildarhugsun. Og hvort sem hann tapar eða vinnur virðir hann alltaf mótherjana, talar vel um þá bæði fyrir leiki og eftir leiki. Kristur hefur áhrif á Klopp – og það er þess vegna að Liverpool er upprisið. Kristur hefur áhrif og má hafa áhrif.

Hvað merkir að vera kristinn – að trúa á Guð? Það merkir að við erum hluti af heild. Við erum ekki nafli alheimsins, við erum ekki svarthol eigingirninnar, sem allt sogar til sín. Okkar hlutverk er að styðja aðra, líta ekki á okkur sjálf sem miðju veraldar, heldur sem mikilvæga þátttakendur í stóru teymi fólks. Þegar við skiljum það skiljum við betur eðli tengsla og trúar.

Við mannfólkið erum einstök og dýrmæt. Lífsverkefni okkar eru að rækta siðvitund, visku, mannvirðingu og góð tengsl, við sjálf okkur og fólkið okkar. Kristin trú er ekki vitsmunasamþykki kenninga heldur líf. Að trúa á Jesú Krist er að lifa í tengslum við Guð og menn, sjá sig í samhengi og glepjast ekki til að trúa að maður sé betri, snjallari og klárari en allir aðrir. Stuðningsmenn Liverpool syngja hástöfum: „You´ll never walk alone.“ Það eru orðin sem standa yfir Shankley-hliðinu á Anfield. Sú tjáning rímar við meginstef kristninnar. „Þú ert aldrei einn.“

Fótboltinn getur fallið,. Nú er Liverpool á toppnum en svo getur gengið þess fallið síðar. Allt getur hrunið í kringum okkur – en þó erum við ekki eða verðum yfirgefin. Guð er yfir og allt um kring. Til að verða afburðamaður í fótbolta krefst æfinga. En til að þið verða afburðamenn í lífinu hjálpar að vera eins og Klopp, taka mark á trú og leyfa henni að móta samskipti og líf. Kristur hefur áhrif.

Til hamingju púlarar með titilinn. You’ll never walk alone. 

Vatnaskáldið Pétur M. Jónasson

Pétur M. Jónasson er eitt hundrað ára í dag. Pétur er einhver áhugaverðasti vísindamaður Íslendinga síðustu áratugina. Ég kynntist Pétri vel þegar ég bjó og starfaði á Þingvöllum. Pétur hefur í marga áratugi vakað yfir velferð Þingvallavatns, stýrði stórkostlegum rannsóknum, sem fjöldi fræðimanna stundaði á vatninu. Svo hafði hann góð og gefandi tengsl við Þingvellinga, fólkið í sveitinni. Ég fór margar ferðir með Pétri og hann hafði alltaf stund til að fræða, kynna, örva og hvetja. Og þar sem ég hef alla tíð haft áhuga á vatni og hafði á menntaskólaárum ákveðið að verða vatnalíffræðingur var stutt á milli okkar. Mér fannst Pétur hugaður og marksækinn, skapandi hugsjónamaður, hugmyndaríkur og ég hreifst af sveitahúmor hans og manngæsku.

Einhvern tíma sagði ég að Pétur væri vatnaskáld. Sú nefning var síðan notuð sem heiti á heimildamynd um Pétur. Mér þótti vænt um að hafa náð að gefa honum þessa einkunn sem tjáir víddir hans, að hann var ekki bara niðurlútur fræðingur heldur upplitsdjarfur leiðtogi og veitull höfðingi. Myndin af okkur Pétri er tekin 8. ágúst 1993. Skemmtilegt viðtal við Hilmar J. Malmqvist um Pétur á vef RÚV https://www.ruv.is/…/…/thingvallavatnsrit-tileinkad-dr-petri Svo er hér að baki þessari smellu kynning á nýju Þingvallariti sem gefið er út til heiðurs Pétri. 

Ég þakka fyrir samfylgd með Pétri M. Jónassyni, þakka hvernig hann tók á móti samverkamanni þegar ég kom til Hilleröd, þakka fyrir hönd fræða og náttúru Íslands. 

Pétur lést í október 2020. Yfirlit um líf, fræði og störf sjá dánarkynningu í mbl https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/10/13/andlat_dr_petur_m_jonasson/

Guð sem ert faðir og móðir alls sem er

Myndskeið er að baki þessari smellu

Guð sem ert faðir og móðir alls sem er

Kenn okkur að vera synir og dætur, sem tala við þig, að hræðast ekki í návist þinni. Kenn okkur heilindi í samskiptum við þig, í orðum, verkum og vinnu, heima og að heiman. Alls staðar ert þú – þar sem við erum vilt þú vera nærri. Gef okkur vilja til að horfa í spegil lífssögu okkar, opna fyrir reynslu nýjunga, margbreytileika, nýrra möguleika, dýptar – opna fyrir þér.

Guð sem talar í náttúrunni

Gef okkur vitund um fegurð daggardropa, blómknúppa, grasnála, opnandi brums, syngjandi fugla. Kenn okkur að skynja návist þína í litum, lykt, verðandi og hræringum náttúrunnar. Lof sé þér fyrir sköpunarverkið allt, sögur, orð, sólstafi og djúpsvart myrkur, fyrir fjölbreytileika veraldar, marglita menningu, ólíkt fólk, nánd og fjarlægðir, smákorn og sólir.

Guð – líf kirkjunnar

Úthell blessunaranda þínum yfir alla þjóna hennar. Við biðjum fyrir starfsfólki, barnastarfi, fyrir kirkjuvörðum, listafólki, biskupum, söngvurum, prestum, organistum, djáknum sóknarnefndarfólki, sjálboðaliðum, messuþjónum – já öllum þeim sem gegna þjónustu í kirkju þinni.

Guð sem ert uppspretta lífs

Við biðjum um siðvit, jöfnuð og réttæti í samfélagi okkar. Gef að mannvirðing einkenni samskipti okkar og tengsl. Hjálpa okkur að rækta frið og virða vit, þekkingu og sannleika. Við biðjum þig að gefa öllum þjónum almennings vernd og þjónustuanda. Gef dómurum speki til réttlátra dóma, löggjöfum skarpskyggni og ríkisstjórn vits og forseta blessun þína. Við þökkum þér fyrir samfélag okkar og menningu, fyrir öll sem hér búa og starfa. Hjálpa okkur að axla ábyrgð á velferð fólks, á byggð og landi, lífi og heimi, heiminum þínum, sem þú elskar og frelsar.

Guð sem sem vitjar allra

Við biðjum þig að blessa hin sjúku og nefnum nöfn þeirra í hljóði …

Við biðjum fyrir hinum sorgmæddu og deyjandi. Við biðjum fyrir þeim sem eru í fangelsi, í fjötrum skulda, í greipum fíknar eða feni samfélagsins. Ver með þeim og leys bönd þeirra. Ver með fjölskyldum þeirra.

Þú mikli Guð
Hjálpa okkur að sjá í reynslu daganna að þú ert með í för, þú gengur okkur við hlið, þú fylgir okkur í sorginni, þú brosir við okkur í augum ásvina og elskunnar. Þú ert okkur við hlið. Hjálpa okkur að lesa sögu okkar sem samfylgdarför, að líf okkar hefur ávallt verið fólgið í sögu þinni, okkar smásaga er brot hinnar stóru sögu, sem þú hefur sagt og heldur áfram að segja okkur, meðan þú yrkir veröldina. Þökk fyrir að við megum lifa í þeirri sögu sannleikans um okkur og þig.

Guð vors lands

Þú hefur skapað okkur til frelsis og ábyrgðar. Í þínar hendur felum við alla viðleitni til að byggja og móta réttlátt þjóðfélag. Kenn okkur að bera virðingu fyrir skoðunum og sjónarmiðum annarra. Lát okkur aldrei gleyma því að heimurinn er stærri en okkar eigin byggð og og land. Þú ert öllu valdi, öllum heimi æðri. Allt skapar þú, allt leysir þú og allt blessar þú og helgar. Þinn er mátturinn og dýrðin að eilífu. Amen.

2020 Bæn á bænadegi þjóðkirkjunnar. Hallgrímskirkja 5. sdepáska.