Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Sorgin – skuggi ástarinnar

Sorg er ekki sjúkdómur heldur einn af þáttum heilbrigðs lífis. Sorg er sársauki sem verður þegar við missum einhvern sem er okkur mikilvægur og við elskum. Dauði, skilnaður, ósætti, tengslarof og vinslit valda sorg.

Ástin er meginþáttur heilbrigðs lífs. Allir vilja elska en enginn syrgja. Ef við viljum losna við sorg og söknuð ættum við að sleppa því að elska. Þau syrgja ekki sem hafa aldrei elskað. En sorg er jafn eðlilegur þáttur lífsins og ástin. Sorg er gjald elskunnar. Sorg er skuggi ástarinnar.

Enginn verður fullsáttur við missi en sorgarvinnan leiðir oftast til að fólk lærir að lifa við missinn. Syrgjandi kemst á það stig að geta líka notið gleði á ný þrátt fyrir að lífið hafi breyst. Yfirþyrmandi verkefni syrgjenda er að læra ný hlutverk og finna sér jafnvel nýjan tilgang. Sorgarþróun er gjarnan lýst sem mynstri sem kallað er sorgarferli. Fyrsta skrefið er áfall. Hið annað er einhvers konar aðlögun að missinum. Þriðja skrefið varðar að taka þátt í lífinu að nýju. Sorgarferli er því ekki aðeins áfall heldur vegferð með litríkum tilfinningasveiflum. Sterkar tilfinningarnar eru eðlileg viðbrögð heilbrigðs fólks í hræðilegum aðstæðum.

Þegar fólk missir verða flest dofin af högginu. Sum festast í afneitun. Áfallið getur verið svo mikið að fólk verður sem lamað af drunga áður en bataferlið hefst. Að syrgja er ekki sjúklegt heldur fremur merki um að tilfinningar eru heilbrigðar en ekki búnar að jafna sig á áfallinu. Tilfinningadoði sem einkennir fyrstu daga og vikur missis er kæling sálar. Stundum tekur langan tíma að þýða sálarfrostið. Vegna dofans kemst fólk oft í gegnum útfarartíma án þess að bugast. Þegar kulda leysir svo, eins og í náttúrunni á vorin, verður flóð í sálinni. Það er jafnan tímabil mikils sársauka. Þá hellist yfir syrgjendur raunveruleiki missis. Margir upplifa að vera illa áttuð og einmana.

Söknuður er langlífur. Læknar tíminn sárin? Nei, tíminn læknar ekkert ef ekkert er gert. Eins og líkamleg sár þarfnast sálarsárin hreinsunar og ummönnunar. Það hjálpar að tala um látna ástvini okkar, skrifa niður minningar um þau, skoða myndir af þeim, minnast viðburða og líka skondinna, áhrif þeirra á okkur, rifja upp það sem þau kenndu okkur og gerðu fyrir okkur eða það sem þau gerðu ekki fyrir okkur og er sárt. Að tala um heilsumissi, skilnað, vinslit og áföll er erfitt en mikilvægt. Tilgangurinn er að hreinsa sárin.

Hver hafði mest áhrif á þig og gerði þig að þeirri manneskju sem þú ert? Var það móðir eða faðir, afi eða amma, maki eða börn? Var eitthvert þeirra kunnáttusamur kúnstner sem efldi þig? Hver varð þér vitringur eða dýrlingur? Var eitthvert þeirra sem varð þér hlýr faðmur, skjól og hálsakot sem þú áttir víst í flóknum og köldum heimi? Var einhver sem bjargaði þér í aðkrepptum aðstæðum eða hjálpaði þér þegar þú þarfnaðist þess? Dragðu upp í huganum myndir af fólki sem hafa haft áhrif. Dagar minninga eru dagar lífs.

Birtist í Morgunblaðinu 9. nóvember, 2020 

Framtíðarfólk

Af hverju að senda fólk og fé til Afríku – eða einhvers annars hluta heimsins til að kynna fólki Jesú Krist, kristna trú, kristinn sið? Er það til að bæta heiminn og þjóna fólki? Kristniboðsdagur þjóðkirkjunnar er í dag og hefur verið haldinn frá árinu 1936. Söfnuður Hallgrímskirkju styður hjálparstarf og kristniboð. Sigurður Árni segir frá ferð til Eþíópíu og Keníu í frásögn að baki þessari smellu.

Síbót

Bergmál hamarshögganna berst til okkar á þessum degi. Í dag, 31. október, á svonefndum siðbótardegi, eru liðin meira en fimm hundruð ár frá því að munkurinn og háskólakennarinn Marteinn Lúther við negldi á dyr hallarkirkjunnar í Wittenberg 95 tesur sínar. Og þessar tesur Lúthers voru um miðlæg efni í kristinni trú. Tesa er setning eða setningar með einni meginhugsun. Og af hverju negldi hann trúarhugmyndir sínar á dyrnar. Kirkjuhurðin var við aðalgötuna í bænum þar sem allir áttu leið um. Kirkjuhurðin var auglýsingaskilti eða heimasíða þess tíma. 

95 tesur Lúthers höfðu gríðarleg áhrif því að hann fjallaði um viðkvæm málefni sem deildar meiningar voru um. Dugmiklir fjárplógsmenn fóru um héruð og seldu grandalausum kvittanir fyrir syndaaflausn. Þetta voru svonefnd aflátsbréf og hluti ágóðans af sölunni átti að fara til að byggja Péturskirkjuna í Róm. Þessi útsmogna fjárföfnunaraðferð kom við Lúther, sem hafði komist að þeirri niðurstöðu að enginn páfi eða mannlegur máttur gæti opnað dyr himinsins. Aðeins Guð væri megnuður þess. Verðbréf manna væru einskis virði og það væri ekki hægt að múta Guði. Þess vegna hefði Jesús Kristur komið, dáið, brotið múra dauða, sektar og opnað nýjar dyr himins, búið til nýjan gjaldeyri og kúrs fyrir mannkyn. Þessi guðfræði, sem Páll postuli kenndi t.d. í Rómverjabréfinu, Ágústínus kirkjufaðir og ýmsir fornkirkjuvitringar skrifuðu um og prédikuðu líka, hafði fallið í skuggann í puði og stofnanavæðingu og valdasókn kirkjunnar.  

Þegar aflátssali seldi góðhjartaðri skósmiðskonu bréf upp á að hún fengi örugga hraðferð inn í himininn var Marteinn Lúther löngu búin að móta sér skoðun um trú, eðli hennar og fagnaðarerindi. Honum var nóg boðið og ætlaði ekki að láta fjárplóga rugla saklaust sóknarfólk hans. Það var því ekki aðeins guðfræðingurinn heldur einnig presturinn og sálusorgarinn Lúther sem mótmælti óprúttinni sölu á bréfum að lyftunni alla leið inn í Paradís. Lúther vissi að athæfið og réttlætingarnar áttu sér ekki stoð í Biblíunni. Hann sýndi líka að Biblíutúlkun kirkjunnar væri á villigötum. Hann vænti þess að hreinlynt og skynsamt kirkjufólk myndi viðurkenna hið augljósa. Þetta var baksvið og samhengi tesanna 95 á hallarkirkjuhurðinni.

Páfavaldið brást hart við Lúther og útskúfaði honum. Valdafólk gefur jú aldrei eftir vald sitt og stöðu fyrr en í fulla hnefa. Slagurinn varð harður og blóðugur og varð til að íbúar norðurhluta Evrópu urðu það sem kallað hefur verið mótmælendur, sem og meirihluti íbúa Norður Ameríku. Kirkjudeildir um allan heim, hvort sem þær eru lútherskar eða eiga sér aðra sögu, rekja upphaf til munksins sem negldi bréf á kirkjudyr í Wittenberg. Hamarshöggin bergmála í menningu heimsins æ síðan. Að vera kristin kirkja er að stunda siðbót. og það verkefni er sístætt. Og erindi siðbótar, kristninnar, er stöðug verðandi, vernda og bæta, ekki aðeins siðinn heldur þjóðfélag, kirkju, lífshætti  = síbót. 

Myndina af Lúther tók ég í safni í Wittenberg. 

Ástin og ártíð

Í dag er 346. ártíð Hallgríms Péturssonar sem lést 27. október 1674. Hallgrímur var frábært skáld, mikilvægasta trúarskáld Íslendinga. Stærsta kirkja þjóðarinnar er táknkirkja mannsins og trúar hans. En af hverju skyldi Hallgrímur Pétursson hafa orðið svo elskaður meðal formæðra og forfeðra okkar? Margt kom til, skáldskapurinn vissulega – en líka maðurinn og ævi hans. Hann var hæfileikastrákur, sem fór þó í hundana. Hann týndist þó ekki alveg bölvandi og ragnandi í Glückstad, heldur reis upp og nýtti hæfileika sína. En það var ekki bara bókmenntaperlan Passíusálmar, sem varð til að kynslóðir Íslendinga elskuðu hann, heldur margþátta ástarsaga Guðríðar og Hallgríms. Þeirra smellur er eins heillandi og ástardrama getur orðið. Þau voru jaðarfólk sem létu ekki buga sig. Henni var rænt, var herleidd, flekkuð en varðveitti í sér undur og ást. Og svo sveinninn, sem hafði týnst í járnsmiðju í Evrópu en var svo settur til að kenna íslenskum leysingjum frá N-Afríku kristinn sið að nýju. Ástin blómstraði. Þau áttu erfiða daga en brotnuðu ekki heldur elskuðu og líf þeirra bar ávexti. Þau áttu börn en dauðinn fann þeirra hús. Ástarsaga Hallgríms og Guðríðar varð eiginlega jarðteinasaga á eftir-kaþólskum tíma um hvernig dýrlingar verða til, hvernig þeir elska þrátt fyrir hatur, lifa í reisn þrátt fyrir mótlæti, þroskuðu andlegt heilbrigði þrátt fyrir hræðileg veikindi og sýndu andlegan styrk þrátt fyrir holdsveiki. Stór og heillandi ástarsaga. Klassík.

Og það er sú ástarsaga sem er gluggi að safaríkum lífsvísdómi Passíusálma. Þar er sögð saga Guðs hins stóra og rismikla. Þar er uppteiknuð mynd af Guði umhyggjunnar en ekki hinum reiða guði. Guð sem kemur en er ekki fastur á tróni fjarlægs himins. Guð sem líknar og er vinur en ekki óvinur. Passíusálmarnir urðu guðspjall Íslands. Sálmarnir uppfylltu andlegar þarfir og svo var bókin lögð á brjóst látinna, eins og vegabréf fyrir himinhlið.

Hvað gladdi þig mest þegar þú varst að alast upp? Hvað hefur fært þér mesta ánægju æ síðan? Er það ekki ástin, kærleikurinn, menningin, siðvitið, listin og fólkið sem elskar þig? Þessi félagslega fæða sem fæst í fjölskyldum og heillyndu uppeldi, jafnvel þar sem margt er brotið og í skralli.

Átakalaust líf er ekki hið eftirsóknarverðasta. Mikilvægt er að muna að sorg er skuggi ástarinnar. Ef við viljum aldrei syrgja ættum við aldrei að elska. Sorgin fylgir alltaf miklum ástarsögum. Við mannfólkið erum kölluð til að elska, njóta, hlægja og fagna. Við erum ferðalangar á vegi ástarinnar í þessum heimi. Þegar við minnumst ártíðar Hallgríms Péturssonar, minnumst við ástarsögu hans og Guðríðar og fjölskyldu þeirra. En sú saga var í fanginu á stóru ástarsögunni, sem Hallgrímur ljóðaði svo vel um – ástarsögu Guðs. Guð elskar, Guð kemur, Guð umfaðmar alla veröld og þig líka. Líka þegar myrkrið umlykur þig.

Sextug og stofnaði fyrirtæki fyrir fólk

Elín mín stofnaði fyrsta fyrirtækið sitt sextug – og blómstrar. Vegna myglu á fyrrverandi vinnustað ákvað hún að velja heilsuna fremur en vinnuna. En fólk hleypur ekki í störf þegar það er komið á sjötugsaldurinn. Hún skoðaði atvinnumöguleikana og fór svo í langa göngu og spurði sjálfa sig hvað hún vildi gera? Hver væri ástríða hennar og hvað henni þætti skemmtilegast? Þegar hún kom heim tilkynnti hún mér að hún ætlaði að stofna sérhæfða lögfræðiþjónustu fyrir fólk sem stæði á krossgötum og væri að íhuga búsetuskipti. Áherslan yrði að þjóna 59+. Hún kynni lögfræðina, hefði brennandi áhuga á fasteignamálum og vildi þjóna fólki. Ég þekkti glampann í augum hennar. Hún var ákveðin, búin að taka stefnuna. Nei, hún hafði engan áhuga á að stofna fasteignasölu því það væri nóg af slíkum. En það vantaði algerlega að þjónustu við fólk áður en það færi á fasteignasöluna og væri að hugsa og meta kostina. Það þyrfti að þjóna fólki sem væri á krossgötum, spyrja það spurninga um óskir, drauma og þarfir. Hún væri nú líka markþjálfi og gæti farið inn í stóru málin. Og svo væri gott að fagmaðurinn hjálpaði við að meta og vega kostina með fólki áður en það færi í leiðangurinn. 

Ég dáðist að hvernig Elín Sigrún gekk í verkin, allt frá fyrstu hugmynd til blússandi rekstrar. Þegar hugmyndin kom skoðaði hún möguleika og útfærslur, kjarnaði svo umfang, viðfangsefni og þjónusturamma. Hún leysti út lögmannsréttindin og gerði samninga við fasteignasölur sem hún hafði góða reynslu af og treysti. Svo kom nafnið Búum vel. Hún skráði fyrirtækið og skráði líka nokkur lén hjá ISNIC, skráningaraðila íslenskra heimasíðna. Svo fór hún á erlendar hönnunarsíður og teiknaði merki eins og hún væri grafískur hönnuður. Svo var það heimasíðan. Elín ákvað að gera þetta bara sjálf frekar en að flækja málin með vefsíðuhönnuðum. Hún valdi wix-umsýslukerfi í stað word-press sem ég kann á. Ekki gafst hún upp þó alls konar hindranir yrðu og um tíma hvarf grunnur sem hún var búinn að vinna. Hún kláraði vefnaðinn og nú er síðan komin upp. Slóðin er www.buumvel.is

Elín Sigrún veit að margir óttast að taka ákvarðanir um peningamál, lagagerninga og fasteignaviðskipti. Margir skelfast þegar lesa þarf samninga og smáa letrið og óttast að gera afdrifarík mistök. Nú nýtir Elín sína fjölþættu þekkingu og reynslu og aðstoðar fólk við að meta kostina varðandi búsetuskipti og vinna pappíra í tengslum við skilnaði eða dánarbú. Fólk fær sinn einkalögmann. Fasteignasölurnar lækka sölugjaldið því vitað er hve þjónusta Elínar skilar fólki miklu öryggi, gleði og farsæld á álagstíma búsetuskipta. Sem sé lækkun þóknunar fasteignasalanna eru laun Elínar.

Það hefur verið sérstaklega skemmtilegt að fylgjast með Elínu stofna fyrirtækið Búum vel og verða vitni að því hve fagnandi hún gengur til starfa og þjónar fólki af mikilli fagmennsku, alúð og hlýju. Og það vermir þegar fólk tjáir djúpt þakklæti fyrir að hún tryggði að það seldi vel og gerði góð kaup og klúðraði ekki fjármálum sínum. Öryggi er aðalmál í fasteignaviðskiptum.

Búum vel er algerlega ný vídd í þjónustu við fólk sem er á krossgötum, ekki aðeins á Íslandi heldur er svona lögmannsþjónusta einstök. Hugmyndin kemur ekki frá útlöndum, hún kom af himnum og í kollinn á Elínu Sigrúnu Jónsdóttur á göngu við sjóinn. Það verður enginn svikinn af Búum vel og stefna Elínar er að fólk eigi að búa eins og vel og það vill. Hún er til þjónustu reiðubúin.

Allt er sextugum fært. Já, Elín Sigrún er fyrirmynd okkur eldra fólkinu og til fyrirmyndar í störfum. Og tímalínan þessi: Tala fyrst við Elínu Sigrúnu og þar á eftir að tala við fasteignasölurnar. Fá sinn eigin lögmann en borga ekkert meira.

Skrifstofa Búm vel verður í nýsköpunarhúsinu Grósku, húsinu við hlið Íslenskrar erfðagreiningar. Það verður væntanlega tekið í notkun í lok nóvember 2020.