Fons auglýsti áhugaverðan viðburð í hátíðarsal HÍ, reyndar Fons Juris, bókaforlag sem gefur út lögfræðirit. Fontur í kirkju fær nafn af latneska orðinu fons sem merkir lind. Og Fons Juris merkir þá væntanlega fontur réttarins, uppspretta laganna. Það er merkilegur viðburður þegar gefin er út ný bók fræðimanna um eignarétt og auðlindir, efni sem ég hef íhugað síðustu ár. Tilefni viðburðarins var hundrað ára afmæli vatnalaganna og hálfrar aldar afmæli lagastofnunar. Einn höfundanna var skólabróðir minn og félagi.
Ég hef áhuga á vatni, seitlandi, streymandi, æðandi, fyssandi en líka djúpvatni jarðar. Ég dáðist að vatnalögunum frá 1924 þegar ég las þau fyrst fyrir nokkrum árum. Mér þóttu þau vönduð lagasmíð, vissulega klassísk að stofni en framsýn, skýr lög. Svo ég ákvað að sækja viðburðinn og hlusta á frummælendur tala um vatn, auðlindir og réttarsögu.
Ég hef lengi haft áhuga á lögum og sögu þeirra. Guðfræðingur, sérmenntaður í vestrænni hugmyndasögu, kemst ekki hjá að skoða hvernig hugmyndir voru og eru færðar í búning gilda, reglna og laga og hríslast í æðakerfi og koma fram í athöfnum samfélagsins. Kona mín er lögmaður og skarpur lögfræðingur. Við ræðum því oft um lög og túlkun þeirra. Ég þekki einnig marga dómara og lögmenn. Þegar ég gekk upp kringlugangbrautina að aðalbyggingu HÍ spurði dómari mig, líka á göngu: „Hvert ertu að fara? Ertu á leið á vatnsþingið?“ Ég játaði og hann horfði á mig furðu lostinn – spurði svo hvaða erindi ég ætti á slíkan viðburð, hvort ég væri ekki að villast á milli fræðaboxa! Mér fannst spurningin jaðra við að væna mig og að vera boðflenna. Ég minnti hann á að erindi Guðs væri við alla veröldina, við tærnar á honum, miðjuna, hjartað, heilann, öll fræði og líka trjáhríslurnar við hlið hans – og tók um axlir hans. Hann hló, lét sér segjast og vissi sem var að ég væri ólíkindatól. Svo óuðu og hóuðu nokkrir dómarar og lögmenn við mér við aðaldyr HÍ. Hæstaréttardómari sagði – „já bara gamli sóknarpresturinn minn.“ Svo spurði hann varfærnislega hvort ég væri enn í starfi. Ég upplýsti að mín sókn væri allur heimurinn. Hann lét gott heita. Já, vatn er líka mín sókn, hluti af raunheimi Guðs og lífríki veraldar.
Fjölda fólks dreif að. Dagskráin var upp á skjá í hátíðasalnum. Frummælendur brostu feimnislega og salurinn fylltist kliði og fólki. Stemmingin var eins og á prestastefnu eða árshátíð. Sýna sig og sjá aðra meðfram fræðaþáttum og starfsskyldum. Það var fössari í salnum – veitingalyktin barst af neðri hæðinni og upp í sal. Forsætisráðherrann var sagður vera í önnum (væntanlega átt við Jóna L&G) og ráðuneytisstjórinn sagðist hafa fengið þá óumbeðnu frægð að halda ávarp að boði ráðherrans. Tala hans var glimrandi frásögn um þróun vatna-nýtingar og reglna. Svo flutti Víðir Smári Petersen, einn af höfnundum nýju eignarréttarbókarinnar III, gott yfirlit um vatnalöggjöfina áratugina fyrir setningu þeirra árið 1924. Hann reifaði samfélagslegslegar forsendur, lagaþróun og norsk og sænsk áhrif á hina íslensku löggjöf. Hann sagði frá eignarhaldsreglum og vatnsmálum skv. Grágás og Jónsbók. En hann nefndi ekkert um þróun löggjafar og forsendur vatnaréttarins í Evrópu frá fornöld og fram til nítjándu aldar. Mér þótti það merkilegt, grunsamlegt og furðulegt. Af hverju sagði hann ekkert um þá vísdómslind? Var sú hún honum frosin eða jafnvel ókunn? Ókunnugleiki?
Í kringum mig byrjuðu málþingsgestir að munda símana sína, eins og málefnið væri ekki áhugavert. Sessunautur minn, lögmaður, andvarpaði og sagði að það væri best þegar þessir fyrirlestrar væru stuttir og hann svaraði tugum skilaboða meðan þingið stóð. Annirnar maður og álagið!
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, flutti erindi um vatn og orku. Erindi hans var gott og mér þótti loflegt að hann rökstuddi og ítrekaði mikilvægi þess að allir hagaðilar fengju notið arðs af nýtingu vatnsauðlindarinnar til að ekki færi illa. Hörður talaði af virðingu um nærsamfélög fossa og jarðvarma sem síst hafa notið ágóða auðlinda. Hann talaði sem praktískur tæknimaður sem vill halda áfram vframkvæmdum en losna við óþarfa, óþægilega og hamlandi andstöðu í héraði. Skiljanlega.
Eyvindur G. Gunnarsson fjallaði um réttarpólitík vatnalaga. Tölvan hans hafði allt aðra skoðun á röðun efnis en eigandinn svo fyrirlesturinn breyttist úr fræðalestri í baráttu manns við sjálfstæða tækni sem tekur völdin. Lagapúki eða dómaradraugur? Félagar fyrirlesarans hlógu fyrst en tóku svo flestir fram síma sína. Mér þótti efnið hins vegar merkilegt óháð brengluninni og tók myndir af upplýsandi glærum til að skoða síðar. En Eyvindur, ekki frekar en Víðir Smári, tengdi sögurýni sína við þróun evrópsks réttar, fons juris. Ég var orðinn hissa og spurði mig hvort menntun í lögum á Íslandi væri svo þröng að íslenskir fræðimenn á sviði lögfræði viti ekki af uppsprettum vestræns vatnsréttar í rómverskri löggjöf? Kannski þarf ég að senda erindi til lagastofnunar? En símarnir voru á lofti og fundarmenn farnir að ókyrrast í sæti – enda veitingar í vændum.
Aðalheiður Jóhannsdóttir kom næst í pontu og ræddi um nýjar áherslur varðandi vatn og nýtingu þess. Hún lýsti hvaða lög og reglugerðir hefðu bæst við vegna EES-samningsins. Hún gerði vel grein fyrir nýjungum og fyrirlesarinn hlaut lof fyrir stuttan fyrirlestur.
Við lok málþings þakkaði Jón Atli Benediktsson, háskólarektor, Lagastofnun og sagði líf og rannsóknir lagadeildar og lagastofnunar aðalmál háskólans.
Mér þótti áhugavert að vera þarna í hátíðasalnum í hópi lögfræðinga. Nokkrir heilsuðu mér hlýlega enda maður konu minnar. Sumir höfðu leitað til mín varðandi prestsþjónustu og þá verða oft djúp tengsl sem ekki rofna. En mér fannst eins og meirihlutanum þætti þetta vera búblufundur sem einkum lögspakir ættu erindi á. En lög eru aldrei einkamál og lögfræðingar hafa ekki einkarétt hvorki á vatnalöggjöf né lögum yfirleitt. Lög eru mál allra landsmanna, raunar allra manna í veröldinni. Og þar sem ég hef áhuga á lögum og fons juris hafði ég löngun til að hlusta og læra. Ég hafði bara gaman að furðu manna að ég skyldi sækja svona þing en ég hafði þó mestan áhuga á inntaki fundarins. Ég ætla að skoða nýju bókina en ég ætla líka að skoða betur hvort íslenskir lögfræðingar hafi tapað sambandi við uppsprettu lögfræðinnar, fons juris, í rómverskum rétti. Vatnsréttur á Vesturlöndum hefur greinst í tvennt, annars vegar löggjöf sem er byggð á rómverskum, ríparískum rétti og svo hins vegar þróaðist amerískur vatnsréttur með sínum hætti frá Rómarhefðinni. Þeir lögfræðingar sem héldu fyrirlestra á málþingi lagastofnunar og bókaútgáfunnar tengdu deilur um vatnsrétt við vinstri-mennsku og hægri-mennsku en ekki við hina gömlu löggjöf Rómverja sem hefði verið mun eðlilegra. Það er grunnfærnisleg sögutúlkun en skiljanleg ef menn skortir söguyfirlit. Mig grunar því eftir þennan hátíðarviðburð og aldarafmæli vatnalaga að lögfræðikennsla á Íslandi sé orðin of einhæf eða þröng og skorti söguvitund og söguþekkingu. Er lögfræði okkar Íslendinga búblufag úr tengslum við stóru visulindirnar? En vonandi er grunur minn rangur. Ég mun skoða lögfræði vatnsins sem er stórmál varðandi heitt, kalt, rennandi og sofandi vatn. Vatnið er efni lífsins.
Takk Lagastofnun, Fons Juris og HÍ.
Myndirnar: Kennimyndin er af fossinum Dynjandi. Hin myndin er af glæsilegu og inntaksríku listaverki Finns Arnar í Hámu. Þar er mikill fons!
Um hina nýju bók um eignarétt og nýtingu auðlinda.