Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is. Þá var talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is Sá vefur er nú lokaður.

Jerúsalem – kvikmynd Billie August

Kvikmyndin Jerúsalem byggir á samnefndri sögu sænsku skáldkonunnar Selmu Lagerlöf sem kom út í tveim bindum á árunum 1901-1902. Sagan fjallar um raunverulega atburði og segir frá því þegar hópur bændafólks frá Nås í sænsku Dölunum fluttist til Jerúsalem árið 1896 til að mæta Kristi þegar hann kæmi aftur. Lítil frétt í blaði um þennan atburð vakti áhuga Selmu Lagerlöf og hún fór bæði til Nås og Jerúsalem til að kynna sér aðstæður og leita svara við því hvað fékk bændur úr Dölunum til að rífa sig upp með rótum og halda á vit óvissunnar suður í Palestínu..

Söguþráður

Í upphafi myndar Billie August er dregin upp mynd af fábrotnu bændasamfélagi, sem tekst á við erfiða lífsbaráttuna. Undir niðri ríkir upplausn því þetta litla samfélag vantar bæði andlegan og veraldlegan leiðtoga eftir að foringi þess fórst við að bjarga börnum á fleka á beljandi fljóti. Dag einn kemur Hellgum, sænsk-amerískur predikari til sögunnar, leikinn af þeim magnaða Sven Bertil Taube. Með mælsku sinni hefur hann mikil áhrif á einstaklinga sem og bændasamfélagið í heild og fær að lokum hóp fólks til að selja eigur sínar og fylgja sér til Jeúsalem í von um frelsun þegar Jesús kemur aftur.

Inn í myndina fléttast ástarsaga tveggja aðalpersónanna, Ingmars, sem leikinn er af Ulf Friberg, og Gertrud, sem Maria Bonnevie leikur. Þau alast upp saman eftir að Ingmar hefur misst foreldra sína. Þegar ástin kviknar milli þeirra ákeður Ingmar að fara í skógarhöggsvinnu til að vinna sér inn peninga svo hann geti tekið við ættaróðali fjölskyldunnar og orðið leiðtogi í sveitarsamfélaginu líkt og faðir hans hafði verið og sveitungar hans reiknuðu með. Á meðan bíður Gertrud þolinmóð. Framtíðin virðist björt. Allt fer þó á annan veg. Karina eldri systir Ingmars, sem leikin er af eiginkonu leikstjórans Pernillu August, hefur búið á ættaróðalinu allt frá dauða föður þeirra. Hún verður fyrir sterkum áhrifum af predikun Hellgum og ákveður að selja óðalið og halda til Jerúsalem með fjölskyldu sína. Kaupandinn er bóndinn Persson. Í örvæntingu sinni svíkur Ingmar Gertrud og ákveður að giftast Barbro, dóttur Perssons (Lena Endre), til að bjarga óðalinu. Niðurbrotin er Gertrud auðveld bráð fyrir Hellgum og slæst í för með honum til Jerúsalem eftir að hafa séð Jesú í sýn.

Sveitarsamfélagið í Nås er nú enn sundraðra en fyrr og pílagrímanna í Jerúsalem beið allt annað en þeir höfðu vænst. Umhverfið var framandi og við tók erfið barátta með vonbrigðum og efasemdum. Barbro gerir sér hins vegar smám saman grein fyrir því að hún hafði farið illa með annað fólk og brotið á þeim. Hún vill reyna að bæta fyrir það og hvetur Ingmar til að fara til Jerúsalem og sækja Gertrud.

Trúarstef

Bille August sagði að kvikmyndin Jerúsalem væri í hans huga ekki trúarleg mynd heldur ljóðræn ástarsaga. Þó að rétt sé að myndin sýni ástarsögu þá fjallar hún ekki síður um mátt trúar og vonar í lífi fólks. Hún vekur einnig upp ýmsar spurningar um heimsslitavæntingar, endurkomu Krists, eðli guðsríkisins ásamt því að fjalla um mikilvæg guðfræðileg stef, s.s. synd og frelsun, ósætti og sátt, glötun og eilíft líf. Myndin segir frá venjulegu fólki, aðstæðum þess, samskiptum og örlögum. Hún dregur fram meginstef manlegrar tilveru og fjallar um trú og efa, kærleika og svik, von og örvæntingu, sekt og fyrirgefningu. Styrkur myndarinnar er m.a. sá að hún lýsir því hvernig þessir þættir koma fyrir í lífi og samskiptum fólks án þess að fella dóma um verk þess. Áhorfendur geta því dregið lærdóm af reynslu og viðbrögðum ólíkra einstaklinga.

Sálfræðileg efnistök myndarinnar eru ekki síður sannfærandi. Góður leikur dregur þá hlið vel fram. Sálarástand og tilfinningaglíma aðalpersónanna skilar sér vel. Þunglyndi Gertrud eftir að henni var hafnað er þrúgandi. Ólæknuð sár Karin skína í gegn þrátt fyrir að hún reyni að halda yfirborðinu sléttu og felldu. Barbro þarf að horfast í augu við sjálfa sig, gjörðir sínar og þjáningu og togstreitu Ingmars og það kostar innri átök. Hellgum nær sálrænum tökum á ráðvilltum einstaklingum með sefjunarmætti sínum. Þótt úrvinnslan sé sálfræðileg er hún einnig trúarleg og kemur m.a. fram í því þegar Jesús birtist Gertrud við vatnið og Karin virðist loks finna frið í Jerúsalem þótt hún hafi misst allt sem henni var kærast. Viðbrögð Ingmars þegar þjáningu hans er létt og Barbro hafði fætt honum son sýna hið sama.

Myndin fjallar þó ekki bara um sálarástand og samskipti fólks og afleiðingar þeirra heldur sýnir hún jafnframt hvernig ytri aðstæður þess hafa áhrif á líf þess og örlög og hve auðvelt það getur verið fyrir sterka persónuleika að misnota trú og traust fólks. Undir niðri býr þó spurningin sem Ingmar spyr systur sína þegar hann er kominn til Jerúsalem: Hver er það sem stjórnar lífi hvers? Það er áhugaverð tilvistarspurning sem á bæði við efni kvikmyndarinnar Jerúsalem og líf okkar flestra.

Í mynd Augusts er mikill fjöldi fólks sem áhorfandinn sér en kynnist ekki nógu vel til að geta skilið orð þess og athafnir. Nokkrar persónur eru þó eftirminnilegar og setja sterkan svip á myndina enda leikur flestra leikaranna afbragðsgóður. Hellgum, predikarinn gustmikli, er sterk persóna enda nær hann tökum á mörgum í sveitinni og fær fólkið með sér í Jerúsalemreisuna. Einhverjum kann að finnast að verið sé að gera lítið úr eða hæðast að vakningapredikurum og guðlegri köllun. Sú er þó ekki raunin.

Hellgum er fyrst og fremst dæmi um mælskan einstakling sem kann að notfæra sér aðstæður. Um leið er hann verkfæri í annars höndum. Honum tekst að gefa ráðvilltu sveitarsamfélagi ramma til að túlka veruleika sinn út frá. Sá rammi er hins vegar allur málaður með svörtum og hvítum litum. Ábyrgð sterks leiðtoga er mikil. Hann getur fallið í þá gryfju að hlutgera syndina í aukaatriðum og jafnvel leitast við að þurrka út persónueinkenni áhangenda sinna í stað þess að leiða fólk fram til þroskðarar trúar sem tekur Guð alvarlega mitt á sviði hins daglega lífs.

Ingmar er aumkunarverð persóna. Á honum hvílir sú mikla ábyrgð að feta í fótspor föður síns og verða leiðtogi bændanna í héraðinu. Aðstæður haga því þannig til að hann þarf að gera upp á milli ábyrgðarinnar gagnvart sveitarsamfélaginu og eigin tilfinninga til Gertrud. Það uppgjör hefur mikil áhrif bæði á líf hans sjálfs og fjölda annarra. Greinilegt er að Ingmar vill bæði gera það sem hann telur rétt en líka forðast að særa nokkurn. Að ná hvoru tveggja í senn er ekki einfalt mál fyrir hann fremur en aðra sem lenda í svipuðum aðstæðum. Að axla ábyrgð á eigin mennsku og manndómi er aldrei einfalt og sjaldnast augljóst í hverju skylduræni og manndómur felst.

Þrjár konur setja sterkan svip á myndina. Þar fer Gertrud fremst í flokki. Leikur Mariu Bonnevie er áhrifamikill. Með svipbrigðum og látæði sýnir hún vel sálarástand Gertrud og þær tilfinningar sem búa undir yfirborðinu, bæði vonir hennar og trúarvissu og ekki síður sársaukann, vonbrigðin og þunglyndið sem fylgja höfnuninni. Trúarleg einlægni blandast síðan sjúklegu ástandi og hún virðist ekki alltaf greina á milli raunveruleika og draums. Athyglisvert er að bera saman mynd hennar við upphaf myndarinnar og lok. Hún er einlæg, saklaus og lífsglöð í upphafi en við endi hefur erfið reynslan sett mark sitt á hana og sakleysið og lífsgleiðin virðast horfin.

Barbro er einnig áhugaverð persóna. Henni hafði hlotnast það sem hún hélt að væri ómögulegt, þ.e. óðalið og Ingmar, en sér jafnframt hverju hún hefur komið til leiðar með því að fótumtroða tilfinningar hans og Gertrud. Líf hennar er því óbærilegt, ást hennar til Ingimars fjötrar og henni finnst hún vera ofurseld ættarbölvun. Hún skilur þó að lokum mikilvægi þess að gera upp og vill jafnframt gera gott á ný það sem hún hafði eyðilagt, jafnvel þótt það kosti hana allt sem henni hafði hlotnast. Barbro er þannig margbrotin og sérstæð persóna sem dregur lærdóm af gjörðum sínum. Innst inni þráir hún sátt við sig og umhverfi sitt. Þegar þeirri sátt er náð er hún laus úr fjötrum ótta og bölvunar.

Þriðja konan er Karin, eldri systir Ingmars. Hún hefur þurft að þola marga raun og virðist líða vegna óuppgerðs sársauka og sorgar og óheilinda við bróður sinn. Hún þráir frið og tekur því fegins hendi á móti boðskap Hellgum og lítur á hann sem bjargvætt í lífi sínu. Hún væntir lausnar í Jerúsalem en verður fyrir enn meiri raunum og vonbrigðum þegar hún missir það sem henni er kærast, dóttur og eiginmann. Var vonin um frelsun og frið í Jerúsalem þá bara blekking? Í Karin endurspeglast þrá fólks eftir að finna vilja Guðs sem oft reynist svo torskilinn, þrá eftir ást Guðs sem virðist svo fjarri í hörðum heimi, þrá eftir að finna þá „Jerúsalem“ sem býr yfir lausn sem gefur frið við Guð og menn.

Myndin Jerúsalem lyftir upp og spyr fjölda spurninga um líf og samskipti fólks á öllum tímum, trú þess, von og kærleika, örlög þess og hinstu rök tilverunnar. Undir lok myndarinnar er lítið barn skírt. Í þeim gjörningi er svar við mörgum spurningum myndarinnar. Ósjálfbjarga menn í hörðum heimi finna sátt og frið við Guð, sjálfa sig og sín á milli vegna elsku Guðs, hverjar svo sem ytri aðstæður þeirra og örlög eru.

Leikstjóri: Bille August

Handritshöfundur: Bille August eftir samnefndri skáldsögu Selmu Lagerlöf.

Helstu leikarar: Maria Bonnevie, Ulf Friberg, Pernilla August,  Lena Endre,  Sven-Bertil Taube, Reine Brynolfsson, Jan Mybrand, Max von Sydow, Olympia Dukakis, Björn Granath, Viveka Seldahl, Sven Wollter, Johan Rabaeus, Mona Malm, André Beinö

Framleiðsluland: Svíþjóð

Framleiðsluár: 1996

Lengd: Kvikmynd: 168 mín. Sjónvarpssería: 220 mín.

Trúartextar:1M 2, Sl 52:2, Sl 139:9, Mt 7:14, Mt 10:37, Mt 18:3, Mt 28:18-20, Mk 13:13, Jh 10:12, Jh 20:29, Rm 6:23, Opb 19:7-8, Opb 21:10, Opb 22:17

Hliðstæður: 1M 2, Mk 6:48, Opb 21-22

Persónur í trúarritum: Jesús Kristur, Jóhannes skírari, Jóhannes postuli, Pontíus Pílatus

Guðfræðistef:

brúður Krists, bölvun, Eden, efi, eftirfylgd, eilíft líf, eldur, endurkoma Krists, engill, falsspámaður, freistingar, frelsun, fyrirgefning, glötun, heilagur andi, heimsslit, helvíti, hin nýja Jerúsalem, hreinleiki, iðrun, kraftaverk, kross Krists, kærleikur, köllun Guðs, lífsins vatn, náð, náðargjöf, opinberun, paradís, refsing Guðs, réttlæti, rödd Guðs, satan, sekt, sköpun, synd, trú, útvalning, vantrú, vegir Guðs, yfirbót, þrenningin

Siðfræðistef: Andleg kúgun, félagslegur þrýstingur, fórn fyrir aðra, flokkadrættir, fyrirgefning, heimshöfnun, náungakærleikur, ofbeldi, óvinátta, réttlæti, ritskoðun, skilnaður, útskúfun

Trúarbrögð: gyðingdómur, helgunarfjölskyldan, islam, kristni, lútherska kirkjan

Helgistaðir: kirkja, moska, trúboðshús, vígð mold

Trúarleg tákn: harpa, kross, skeifa

Trúarembætti: prestur, predikari, spákona

Trúarlegt atferli: bæn, fyrirbæn, pílagrímsför, píslarganga, sálmasöngur, skírn, trúarsamkoma

Trúarleg reynsla: afturhvarf, köllun, opinberun, sýn

Upprunalega skrifað fyrir kvikmyndavefinn www.dec.is

Kennimyndin að ofan er af Grátmúrnum í Jerúsalem. 

Hvar er djásn íslenskrar náttúru?

Krúnudjásn Íslands er svæðið að fjallabaki – frá Skaftá að Tungnaá, frá Jökulheimum og að Mýrdalsjökli. Hvergi í veröldinni er hægt að sjá svo dramatískar hliðstæður og stórkostlegar eru náttúrusmíðarnar. Við Elín Sigrún Jónsdóttir fórum með fjórum öðrum í ævintýra- og lúxusferð á vegum Hauks Snorrasonar og Höddu Bjarkar Gísladóttur. Við gistum og nutum veislumatar í Hrífunesi, gengum talsvert og fórum um á fjallabíl þeirra hjóna. Þvílík forréttindi að njóta fagmennsku þeirra, alúðar, þekkingar og snilldar. Þessi þriggja sólarhringa ferð var einhver sú eftirminnilegasta sem við höfum farið. Samfélagið var frábært og sálin er full af auðmýkt gagnvart fegurð Íslands, undri lífsins og þakklæti. Myndskeiðið, sem er að baki þessari smellu, tók Jón Hilmarsson og Haukur Snorrason birti á síðu sinni. Við vorum þarna í bílnum sem Haukur ók yfir flæðarnar á Mælifellssandi sem eru afkvæmi Brennivínskvíslar og kannski aukins hita norðan Kötlu?

Biðukollur – öldrunartákn eða lífstákn?

Það er heillandi að lúta niður og horfa á biðukollur í vindi. Strekkingurinn rikkir í bifhárin og fræin fjúka upp og oft langa leið. Stundum er flugsveitin stór. Það er jú guðlegt örlæti í fjölbreytileika sköpunarverksins. Fljúgandi fræ eru ekki dæmd dauðasveit heldur fremur líflegt hópflug. Mér hefur alltaf þótt túnfífill fallegt blóm og mismunandi vaxtar- og þroska-skeið hans vera hrífandi. Fólk sem bara sér hrörnun og dauða í biðukollum á eftir að uppgötva undur lífsins. Flugskeiðið síðasta er ummyndarferli til lífs en ekki endanlegs dauða. Biðukollur eru ekki öldrunartákn heldur lífstákn. Þær eru ekki komnar að dauða heldur fæðingu. 

Myndirnar tók ég á hlýjum strekkingsdegi 7. júlí 2024 við Skerjafjörð. Biðukollurnar stundu ekki heldur hlógu. Taxacum officinale.

Var tekinn í hópinn á fjöllum

Ég kynntist Langasjó og afrétti Skaftártungumanna í fylgd og skjóli Vals Oddsteinssonar í Úthlíð í Skaftártungu. Haustið 1983 komu nokkrir íbyggnir karlar í prestssetrið. Með rjúkandi espressókaffi í bollum upplýstu þeir að ábúendur í Ásum yrðu að smala afréttinn með öðrum sveitungum. Sem gamall sveitastrákur þekkti ég meginreglur varðandi fjallskil. En ég varð hugsi yfir viku á fjöllum, tímamissi  – ég var jú að skrifa doktorsritgerð. Karlarnir glottu yfir slíkri iðju en sögðu að ekki væri hægt að komast undan samfélagsskyldunni. Bókverkin gætu beðið. Nei, það væri ekki hægt að borga einhverjum öðrum til að fara á fjall. Ábúandinn yrði að gegna og sinna hlutverki sínu. Jamm og já og það var það. Ég var hugsi en tók til pjönkur fyrir vikuferð og gekk frá skruddum og tölvu. En fjallageimurinn fangaði mig og vitund mína. Samfélagið á fjöllum var heillandi þrátt fyrir puðið og viðurgerningur var frábær. Á gólfinu milli sofandi fjallmanna og meðal hunda í Hólaskjóli var ég tekinn í hópinn. Ég var orðinn einn af þeim en ekki lengur prestlingur í fræðageimi. Það sem ég hélt að yrði tap og missir varð mér til happs. Ég var innan hrings en ekki utan.

Valur í Úthlíð var og er höfðingi. Honum var umhugað um velferð okkar fjallmanna. Hann vildi tryggja að tafir frá doktorsritgerð yrðu ekki sárar heldur góðar – að ég kynntist dýrðarveröldinni og fengi að sjá sem mest. Þegar hann fór inn að Jökulheimum vildi hann að ég færi með. Því sá ég og hreifst af Fögrufjöllum austan við Langasjó. Fáar kindur voru á svæðinu enda gróðurrýrt. Óþarfi var því að fara á hestum um allt flæmið. En Valur átti öflugan og vel þjálfaðan smalahund sem við slepptum þegar við sáum fé. Hundurinn kunni hlutverk sitt fullkomlega, hljóp beint að ánum og hélt í þær án þess að merja þær eða meiða. Við náðum mömmunum fyrirhafnarlítið og þar með lömbunum líka. Síðan lyftum við fénu á kerru og héldum áfram leitinni. Við skimuðum og töluðum um lífið. Það var heillandi að fara um með manni sem bæði elskaði og þekkti náttúruna. Valur var veitull á sögur af dýrum, náttúrufari og afskiptum manna í þessari undraveröld. Ég smalaði líka Eldgjá og hesturinn sem nágranni minn lánaði mér fældist í rokinu á gjárbarminum. Ég náði þó að snúa skepnuna niður áður en við flugum fram af. Strútslaug, Skaftá – hvílíkar gersemar.

Seinna hringdi Valur til mín og spurði hvort ég vildi fara með honum og fleirum til sleppa seiðum í Langasjó. Skaftártungumenn vildu gera tilraun og kanna hvort fiskur gæti lifað í vatninu. Ég hef alla tíð sótt í og að vatni. Ferðir með Úthlíðarhöfðingjanum höfðu verið gjöfular og nú þurftu brúnaþungir karlar ekki að nefna skyldur eða sveitarsiði. Þetta varð ævintýraferð og við slepptum seiðum sem hafa lifað. Niðurstaðan er skýr og á íslenska ferðavefnum um veiði í Langasjó segir: „Þar er mikið að bleikju frá 1-5 pund og góð aðsaða fyrir veiðimenn í fjallaskála.

Myndin: Valur Oddsteinsson í Úthlíð að sleppa seiðum í kristaltæran Langasjó, sem er um tuttugu km. langur og allt að 75 m. djúpur. Takk Valur, Skaftártungumenn og Skaftfellingar. Myndina hér að neðan tók ég við Langasjó í júlí 2024. 

 

Brautarhólsfjölskyldan 1970

Þessi fjölskyldumynd frá Brautarhóli er líklega frá 1970. Gunnar Þór f. 1968 er í fangi himinsæls föður síns. Kristján Tryggvi f. 1962 hlær og tilefnið var barátta mín við að hemja hundinn í fangi mér til hægri á myndinni. Stefanía er einbeitt. Frændi, Sigurður M. Kristjánsson, sagði gjarnan að ég væri elsta barn þeirra Stefaníu og þau báru ábyrgð á sveitaveru minni fjórðung úr ári. Ég fór norður í Brautarhól í sauðburðinn strax í maí og fór ekki suður fyrr en í lok september í 16 eða 17 sumur. Stundum var ég kominn norður áður en þau Sigurður og Stefanía voru komin frá Laugum, þar sem frændi var stjóri í héraðsskólanum. Á þessum árum frá 1968-73 var ég ekki bara kaupamaður heldur ráðsmaður og þau frændi og Stefanía treystu mér fyrir búrekstri og fóru með börn sín á margra daga skólastjórafundi. Ég sá um mjaltir og annað sem þurfti að gera. Þá lærði ég að axla ábyrgð. Margt gat komið fyrir og einu sinni bar kýr og legið fylgdi með kálfinum. Hvað gerir aleinn unglingur í slíkum aðstæðum? Enginn dýralæknir var í dalnum þá en ég hringdi í Halldór á Jarðbrú sem kom strax. Við þvoðum legið úthvert sem best við gátum, tróðum því svo inn aftur og saumuðum fyrir. Síðan sprautuðum við pensillini í skepnuna. Henni varð ekki meint af og lifði og átti síðar marga kálfa þmt tvíbura og án úthverfs legs. En mér þótti betra þegar allir voru heima því þá stóðum við saman í stórræðum og glöddumst í tómstundum. Ég varð nyrðra ekki aðeins tvítyngdur, þ.e. mælandi á norðlensku og reykvísku, heldur líka sveitakall, náði tengslum við moldina, lífssamhengi og tímaþykkni íslenskrar bændamenningar. Ég varð líka ábyrgur og óháður móður og föður sem tryggði frelsi til ákvarðana, hugsunar og stefnu. Það lagði grunn að sjálfstæði mínu. Takk fyrir frænda og Stefaníu, Brautarhól, sveit og Svarfaðardal. Hamingjuár. Takk fyrir dásemdartíma bernsku og mótunarára.