Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Hrauntúnsgangan

Þjóðgarðurinn á Þingvöllum er helgistaður og fræðslustaður þjóðar um náttúru, sögu og menningu. Gunnar Grímsson, landvörður og fornleifafræðingur á Þingvöllum, hefur rannsakað götur og stíga í Þingvallalægðinni og fundið gamlar leiðir sem voru týndar.

Gunnar stýrði fræðslugöngu sunnudaginn 27. júlí 2025 í Hrauntún og að fjárhelli og hraunskýlinu Gapa í austurhluta Þingvallalægðarinnar. 140 manns komu (verkfræðingurinn taldi), nutu frábærrar fræðslu, náttúrufegurðar og veðurblíðu. Gunnar er ekki aðeins góður sögumaður, fræðimaður og landvörður heldur líka hugmyndaríkur fræðari. Sísí, kona hans, bakaði brauð fyrir allan söfnuðinn. Og af því hefð var fyrir í Hrauntúni að gefa ferðafólki brauð með kæfu matbjó Gunnar kæfu og smurði bakkelsi Sísíar. Þegar hann útdeildi brauðinu og Þorgeir Adamsson, landvörður, kleinum var eins og mettunargjörningur Jesú við Galíleuvatn væri uppfærður til nútímans við Þingvallavatn.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir bætti við sögum um Sigurveigu Guðmundsdóttur í Hrauntúni en Ingibjörg Sólrún skrifaði ævisögu hennar: Þegar sálin fer á kreik. Við fengum svo sannarlega innsýn í líf fólksins í Hrauntúni og Þingvallasveit. Gamall Þingvallafræðari var stoltur af metnaði starfsmanna þjóðgarðins, getu og snilld. Glæsilegt og loflegt – takk fyrir.

Vefheimild um Hrauntún: “Sumar í Hrauntúni – Sigurveig Guðmundsdóttir“ – Lesbók Morgunblaðsins, 34. tbl. 22.12.1984, bls. 39-41. Viðtalið við Sigurveigu um mannlífið í Hrauntúni og karlana þrjá var birt í heild á vefsíðunni: https://ferlir.is/82198-2/

Í hinni frábæru bók Sigrúnar Helgadóttur um Þingvelli eru skemmtilegar lýsingar á sögu Hrauntúns og mannlífi

Trú á grjóti

„Hvíl þú heill í helgum friði.“ Þessi fagra bæn er á legsteini í kirkjugarðinum við Þingeyrarklausturskirkju. Áhugavert er að hvíld var Íslendingum fyrri tíðar í huga er þeir hugsuðu um himininn. Vinnulúið fólk þarfnaðist næðis frá puði og svefns til að vera heilt sjálfu sér, öðrum og Guði. En himinímyndir eru ekki lengur pása frá puði – heldur hvað? 

„Hvíl þú heill í helgum friði“ er ekki aðeins bæn heldur varðar líka heimsmynd. Líf íslensks alþýðufólks á fyrri öldum var baráttulíf og hvíld handan dauða var ekki hræðilegt heldur fremur vonarmál og jafnvel eitthvað til að hlakka til. Að hvíla í friði var að verða heil manneskja á ný – laus úr hrammi erfiðis, sorgar og þrautar – í faðmi Guðs.

En hvað merkir hvíld okkur í dag? Í samtímanum eru himinmyndir sjaldan tengdar svefni, bið og þögn. Þær eru fremur um nærveru, merkingu og samband. Á legsteinum og minningamörkum eru gjarnan setningar sem tjá nánd og framhald tengsla þrátt fyrir skil dauðans:

„Alltaf hjá okkur“

„Minning þín er ljós sem aldrei slokknar

„Alltaf elskuð – aldrei gleymd“

Nútímafólk er ekki eins líkamlega þreytt og fyrri tíðar fólk. Við þráum ekki hvíld frá puði eða störfum heldur þörfin fremur andleg þörf fyrir merkingu, tilgang og lífsfyllingu. Við þörfnumst nándar, lifandi minningar, tengsla og elsku.

Orð á grjóti eru gluggi til fortíðar – og inn í okkur líka.

Hvað viltu setja á legsteininn þinn? Svarið er lykill að því hvernig þú hugsar, þarfnast og vonar. 

 

Sigurður Norland í Hindisvík – náttúruverndarfrömuður

Þórir Kr. Þórðarson, lærifaðir minn í Biblíufræðum, sagði mér frá því að hann og Jakobína Finnbogadóttir heimsóttu Sigurð Norland í Hindisvík. Þórir var hrifinn af klerkinum á Vatnsnesinu, lærdómi hans, náttúrspeki og heimssýn. Þau Bíbí töluðu svo eftirminnilega um Hindisvík og náttúrufegurð svæðisis að hrifning þeirra snart mig. Hafði umhverfisguðfræðingurinn Sigurður áhrif á umhverfissýn þeirra? Þórir Kr. hlustaði alltaf á vitringa.  

Við Jón Kristján, sonur minn, fórum saman um Hveravelli og norður Kjalveg. Hann langaði að skoða Húnavatnssýslur og við vitjuðum helgidóma og dýrmæta sýslunnar og fórum m.a. fyrir Vatnsnes. Ég sagði syni mínum m.a. frá prestunum sem höfðu þjónað Tjörn, m.a. þeim Róberti Jack, þeim kúnstuga knattspyrnuklerki, og Sigurði Norland. Við horfðum heim að Hindisvík og fórum að Tjörn. Kríurnar vöruðu eindregið við að við færum heim á staðinn en alla leið ætluðum við. Kirkjan var læst,  skellótt og döpur en kirkjugarðurinn var nýsleginn. Ég fann fljótt leiði Sigurðar Norland og sá líka leiði Friðriks og Agnesar sem dæmd voru fyrir morðin á Illugastöðum í sömu sveit (sem margir hafa skrifað um og Hannah Kent eftirminnilega í Náðarstund).

Sigurður Norland fæddist  í Hindisvík 16. mars, 1885. Hann varð stúdent frá MR vorið 1907 og hélt svo utan og fór fyrst til Skotlands og síðan til Íslendingabyggða í Kanada. Sigurður varð svo góður enskumaður að hann gat ort  eftirminnilega hringhendu á ensku til að útskýra gerð og snið ferskeytlunnar fyrir enskumælandi útlendinga:

She is fine as morn in May,

mild, divine and clever,

like a shining summer day,

she is mine forever.

Þetta „she is mine forever“ varðaði ekki hjónalíf því enga átti Sigurður konu og ekki börn heldur önnur en sóknarfólkið. En Guð, söfnuðir hans, hestar, selir og náttúran í öllum sínum undravíddum voru viðmælendur Sigurðar í Hindisvík. Hann nam klerkleg fræði í Prestaskólanum og var sá síðasti sem útskrifaðist frá þeirri merku menntastofnun áður en hún rann inn í Háskóla Íslands við stofnun hans og þá sem guðfræðideild. Sigurður var vígður til prestsþjónustu í Vopnafirði en fór svo í heimahagana á Vatnsnesi. Hann vildi ekki sitja prestssetursjörðina á Tjörn heldur valdi að búa með móður sinni í Hindisvík utar á nesinu. Sigurður keypti svo jörðina þegar móðir hans lést árið 1919. Um tíma var hann prestur í Rangárvallasýslu en leitaði heim á ný og þjónaði Vatnsnesingum til ársins 1955. Ættmenni Sigurðar eiga paradísina Hindisvík nú. 

Sigurður var hestamaður og ræktaði frægt kyn sem var kennt við Hindisvík. Einhvers staðar sá ég að bláeygir hestar væru til í þeim stofni en ég veit fyrir víst að Sigurður var ekki talinn bláeygur í lífinu. Sigurður var hugsjónamaður og kunnur fyrir tillögur um verndun sela og hvala. Árið 1940 friðaði hann selalalátrið í Hindisvík. Sigurður var þekktur fyrir framúrstefnulegar hugmyndir sínar um náttúruvernd og var af ýmsum talinn fyrsti náttúruverndarmaður Íslands. Vænn þjónn Guðs, manna og náttúru. Guð blessi minningu Sigurðar Norland.

Mynd mín af legsteini sr. Sigurðar í kirkjugarðinum á Tjörn á Vatnsnesi, 20. júlí 2025.

Ef einhver lesenda þessarar greinar man Sigurð eða kann sögur um hann og hans fólk þætti mér vænt um að fá tilskrif á s@sigurdurarni.is

 

 

 

Listaverkin í Hrauntúni

Hrauntúnsfólkið í Þingvallahrauni iðkaði hleðslulist. Halldór Jónsson, sem fyrstur var bóndi í Hrauntúni á 19. öld, var svo kunnur fyrir meistarahleðslur að hann hafði atvinnu af. Þessi túngarðshleðsla í Hrauntúni í Þingvallahrauni er listaverk. Hrafnabjörg í baksýn. Með lögum um helgistað þjóðarinnar á Þingvöllum var fjárbúskapur lagður af innan marka þjóðgarðins. Engin búskapur hefur verið í Hrauntúni frá 1936 og hleðslurnar hafa staðist hristing jarðar og skjálfta tímans.

Einfaldast er að ganga í Hrauntún frá Sleðaás-bílastæðinu austan við Bolabás. Þar byrjar svonefnd Réttargata sem sameinast svo reiðleiðinni frá Ármannsfelli. Lengd Réttargötu í Hrauntún er 1,4 km.  Og þau sem vilja ganga lengri leiðir er t.d. hægt að ganga í Skógarkot frá Hrauntúni. Hrauntún og Skógarkot eru miðjur alheimsins þegar gengið er um Þingvallahraun. Útsýn er stórkostleg til fjallanna sem ramma inn Þingvallakvosina. Og í þeim fjallahring eru sjö gerðir eldfjalla!

Heimagerð skordýrafæla – chili–hvítlaukur-edik

Salatræktun okkar er lífræn og því sækja skordýr í plöntunar. Til að varna árásum er hægt að nota lífrænar varnir. Hér er uppksirft að ljómandi góðri skordýrafælu. 

2–3 stór hvítlauksrif, rifin eða pressuð

1 lítill rauður chili (eða ½–1 tsk chili-duft)

1 lítri volgt vatn

1 teskeið mild uppþvottasápa (ilmlaus – hjálpar úðanum að loða við kálblöðin)

1 tsk eplaedik

 

Leiðbeiningar

Hvítlaukur og chili sett í pott með vatni – sjóða í 5–10 mínútur.

Vökinn látinn kólna og agnirnar síðan sigtaðar frá.

Vökvinn settur í úðabrúsa og hrist fyrir notkun.

Notkun

Úðað beint á laufblöð, bæði ofan á og undir.

Endurtekið 1–2 sinnum í viku eftir þörfum.

Prófa fyrst á lítinn hluta plöntunnar til að tryggja að hún þoli úðann.

Ekki er úðað í sólskini – getur valdið brunablettum.

Látta líða 1–2 daga frá úðun áður en salatið er borðað og skola vel fyrir neyslu. Verði ykkur að góðu.