Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Lambalæri – langsteikt

15 tíma lambakjöt er stórkostlegur veisluréttur. Steikingin var vissulega ekki í fimmtán tíma heldur hefst undirbúningur daginn áður en ástvinir eða félagar setjast til snæðings. Það er ljómandi að marínera yfir nótt og  hægelda svo yfir daginn. En svo er auðvitað hægt að stytta sér leið – búa til kryddhræringinn fyrir hádegi og steikja síðdegis. Perlubygg  – frá Vallanesi – hentar sem meðlæti. Og meðmælanlegt er að gera góða rauðvínssósu eða sveppasósu með. Krækiberjasulta er við hæfi. Svo er auðvitað persónuval hvort og hvaða tegund af grænmeti er notað með.

Handa 8

2,25 kg lambalæri – eða lambabógur

1 msk ristuð kóríanderfræ (eða malað kóríaner)

1 tsk flögusalt,

6 hvítlauksrif marin

1 tsk svartur pipar,

1 tsk múskat,

1 tsk rósmarín, þurrkað

2 tsk timían, þurrkað

Myljið kóríanderfræin í mortéli, bætið saltinu við og myljið áfram, bætið svo hvítlauknum saman við og hrærið. Bætið öllu kryddinu og timían saman við og slettu af ólífuolíu og blandið síðan vel. Skerið krossmynstur í kjötið með beittum hníf (1-2 mm) og nuddið svo marineringunni þar sem þið skáruð og yfir allt kjötið. Hjúpið kjötið með smjörpappír og tvöföldu lagi af álþynnu og leyfið að marinerast. Þegar komið er að steikingu er ofninn hitaður í 170°C (með viftu) og steikt í 4 tíma eða þar til kjarnhitinn er um 60°C. Leyfið kjötinu að hvíla í 20 mínútur áður en það er skorið.

Á berjatímanum blanda ég saman lúku af krækiberjum, skvettu af balsamediki og rauðvínsslettu, hræri saman og set yfir kjötið síðasta hluta steikingarinnar. Þessi hræringur myndar fallega húð og áferð svo kjötið er glæsilegt þegar það kemur úr ofninum. Ásýnd skiptir máli í matargerð og á að vera í samræmi við bragðgæðin.

Bæn: Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen. 

Bakaður þorskur með möndlusmjöri

Reyndar má nota alls konar fisk í þennan rétt en þorskurinn er gjarnan á borðum míns heimilis. Eldaði þennan rétt í kvöld fyrir stórfjölskylduna og meðlætið var nýuppteknar kartöflur og salat úr garðinum. „Besti fiskur sem ég hef borðað“ voru ummæli. Svo bakaði Elín berjaköku úr nýtíndum bláberjum og krækiberjum. Himneskt.  

Fyrir fjóra.

Hráefni

  • 4 þorskflök
  • Fínt sjávarsalt eða borðsalt og svartur pipar
  • 7 msk smjör
  • ½ bolli skornar möndluflögur
  • 1 lífræn sítróna – rifinn börkur og síðan skorin í tvennt
  • 1 msk smátt saxaður graslaukur (og aðeins meira til skrauts)

Matseld

  1. Hitið ofn í 230°C. Leggið fiskflökin á eldfast fat og saltið og piprið. Skerið 1 msk af smjörinu í bita og setjið á fiskinn. Bakið í 7–11 mínútur eða þar til fiskurinn er mjúkur og eldaður í gegn.
  2. Meðan fiskurinn er í ofninum: Bræðið 6 msk af smjörinu á stórri pönnu á meðalhita. Hreyfið pönnuna þar til froðan hverfur og smjörið verður ljósbrúnt (ekki brenna) – þetta tekur um 3–7 mínútur.
  3. Takið pönnuna af hitanum og bætið möndlunum út í. Þær byrja strax að brúnast. Hrærið þær í heita smjörinu þar til þær verða gullinbrúnar, um 2 mínútur. Setjið pönnuna aftur á vægan hita ef þær þurfa meiri lit. Bætið safa úr hálfri sítrónu, helmingnum af rifna sítrónuberkinum, graslauknum, ½ tsk salti og ¼ tsk pipar út í. Smakkið og bætið við meira af sítrónusafa og salti ef þarf.
  4. Hellið möndlusósunni yfir eldaða fiskinn. Skreytið með meira af graslauk og sítrónuberki. Berið fram heitt með seinni sítrónuhelmingnum með til hliðar (má skera í báta ef vill).

Þökkum Drottni, því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen. 

Laxinn í Soginu

Helgi Bjarnason, 16 ára veiðikló, veiddi Maríulaxinn sinn í Soginu á veiðidegi Alviðru 17. ágúst. Helgi lyfti fiskinum stoltur og sleppti honum svo í fljótið að nýju. Fjöldi fólks kom í Alviðru til að fræðast um Sogsveiðar og njóta ráðlegginga og kennslu leiðsögumanna Stara, leigutaka árinnar. Síðan var haldið til veiða og sex laxar komu á land á þessum veiðidegi. Veiðidagur Alviðru er haldinn árlega. 

Seinni hluta sumars hafa engin laxanet verið í Ölfusá sem varð til að auka laxgengd í Soginu og öðrum ám í efri hluta vatnasviðs Ölfusár. Öllum löxum sem veiðast í Soginu er sleppt til að efla Sogsstofninn.

Myndin af Helga er af vef veida.is og þar er hægt að kaupa veiðileyfi í Soginu. Tekjur af Sogsveiðinni eru nýttar til reksturs og uppbyggingar í Alviðru sem er fræðslusetur Landverndar.

Hestur, Eldgjá og undur jarðar og heims

Eldgjá – á mesta hamfarasvæði heims. Þegar ég bjó í Ásum í Skaftártungu á níunda áratug síðustu aldar fór ég og smalaði með sveitungum mínum afréttinn. Þegar Eldgjársvæðið var smalað sat ég á hestbaki nærri Ófærufoss. Hvasst var, hesturinn kvikur og fældist að lokum við gjárbarminn. Við vorum báðir í hættu, hrossið og ég. Mér lánaðist þó að snúa klárinn niður, róa hann og teymdi hann síðan þægan og bljúgan. Atgangurinn rifjaðist upp er ég kom að og í Eldgjá um helgina. Engin rosi þann daginn – né í sál minni – aðeins djúp lotning gagnvart undri jarðar og heims.

Rimpað á Hornströndum

Hálfrar aldar minning – saumspretta lagfærð fyrir messuferð í Staðarkirkju, Aðalvík á Hornströndum. Viðgerðin heldur enn og kirkjan stendur – en gleraugun farin í eyðingu tímans. Við vorum saman þrír guðfræðinemar og tæknimaður – dásamlegt kombó. Þræddum allar víkur, klifum fjöll, kynntumst kraftmiklu fólki og nutum gestrisni þess, skoðum stríðsminjar, ræddum djúpmálin og fengum að sofa í aðalhorninu hjá vitaverðinum á Horni. Sigldum svo hugsi og sælir undan huliðshjálminum til Ísafjarðar, saumsprettausir. Mannlíf, dýr og undur við Íshafið lifa í minningu. Þegar myndirnar koma úr kafinu finn ég enn lyktina úr lynginu, sé brosandi augu fólksins og alls konar gamlar hugsanir banka upp á.