Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Bertel Thorvaldsen

Hádegisbænir voru í Hallgrímskirkju kl. 12 á Þorláksmessu 2020. Þrátt fyrir að stutt væri til jóla og annir í öllum húsum kom hópur fólks í kirkju. Fjöldinn var þó innan viðmiða sóttvarnalænis og ráðherra. Meðal viðstaddra var Ólafur Egilsson, fyrrum sendiherra. Eftir bænir kom hann til mín brosandi og rétti mér pakka. „Mig langar til að færa þér bók á afmælisdegi þínum“ sagði hann. „Áttu afmæli?“ hljómaði þá frá nokkrum sem stóðu nærri. Ég sá svo að þetta var nýja bókin um Bertel Thorvaldsen. Ég bað Ólaf að skrifa fremst í bókina. Svo áttaði ég mig á að bókin var endurútgáfa og hafði fyrst komið út í lok seinni heimsstyrjaldar. Höfundurinn var Helgi Konráðsson sem ég vissi að hafði verið prestur í Skagafirði því ég hafði þjónað fólkinu hans. Ég vissi líka að ég hafði séð frumútgáfu bókarinnar og mundi að kjölurinn var blár og vandað hafði verið til útgáfunnar.  

Svo fór ég heim með þessa nýju, fallegu bók. Hún beið mín í góðu yfirlæti með hinum jólabókunum. Seinni partinn í janúar fékk ég næði til að lesa og stundum upphátt fyrir konuna mína. Ég heillaðist af kyrrlátri, hófstilltri alúð og aðdáun höfundar á söguhetjunni Bertel Thorvaldsen. Bókin er vel skrifuð og farið í sauma á flestum álitaefnum. Spurningum er svarað um sögu og persónu Thorvaldsens, um íslenskan bakgrunn, ættboga, bernsku, nám, mótun hans sem listamanns og hvernig fátækur verkamannssonur gat brotist til náms og orðið einn helsti listjöfur og menningarstjarna Evrópu 19. aldar. Ég furðaði mig líka á að skagfirskur prestur á fyrri hluta 20. aldar – í miklum önnum prestsstarfs og kennslu – skuli hafa lagst yfir Thorvaldsensfræðin, farið í saumana á álitaefnum og ferðast um heiminn til að skoða staði og staðhætti á slóðum Thorvaldsens, skrifað og komið út þessu mikla ritverki í miðri heimstyrjöld. Ég dáist að afreki Helga og lof sé honum.

Hvernig bók er Bertel Thorvaldsen – ævisaga? Hún rekur bakgrunn og segir sögu Thorvaldsens frá upphafi og til enda. Þetta er engin jarðteinasaga um dýrling sem höfundur dáir án vitundar um breiskleika. Helgi mótar ásýnd Thorvaldsens af alúð listamannsins, nánast meitlar hann í orðastein, segir frá kostum og göllum söguhetjunnar, málar persónueinkennin skýrt, forðast ekki skuggana heldur metur og rýnir eins vel og hann getur og skýrir forsendur sínar. Þetta er ævisaga en það er fræðaleitandi prestur sem greinir. Þetta er þó ekki súper-útfararræða. En Helgi naut þess við skrifin að hafa oft jarðað og skrifað minningarorð um látið fólk. Hann þekkti hvernig hægt væri að gefa í skyn í stað þess að fella ógrundaða dóma um álitamál. Fræðimenn um líkræður presta geta því séð í þessari bók þroskuð og fræðilega vel unnin minningarorð. Bókin er þó ekki skrifuð sem kristileg bók. Forsendurnar eru fremur menningarlegar og þjóðernislegar en kirkjulegar. Bókin er skrifuð á árunum fyrir stofnun lýðveldisins. Hún þjónar m.a. því hlutverki að tengja Thorvaldsen við menningu Íslands, sýna að Ísland gæti lagt til manns sem færi á toppinn í menningu heimsins, sem var mikilvægt þegar fólk var að æfa sig í sjálfstæði þjóðarinnar. Helgi naut þess að vera mótaður prestur sem kunni til fræða og verka og gat að auki lagt menningu Skagfirðinga lið sem og mótun þjóðernisvitundar í aðdraganda lýðveldisstofnunar. Að bókin var af útgefendum skilin sem framlag til sjálfstæðibaráttunnar sést á umslagi eða bókarhlíf 1944-útgáfunnar. Þar segir: Bertel Thorvaldsen mestur listamaður Norðurlanda. Listgáfa hans var af íslenzkum rótum runnin.

Bók Helga um Bertel Thorvaldsen opnaði mér ýmsa heima. Þó ég hafi kynnt mér hugmyndasögu tímans eftir upplýsingu þekkti ég ekki nema fáa í heimi höggmyndalistar Evrópu þess tíma. Mér þótti merkilegt að fylgjast með hvernig listamenn urðu til um og eftir aldamótin 1800, hvernig þeir þjónuðu fólki, hreyfingum og þjóðum á miklum pólitískum, menningarlegum og hernaðarlegum umbrotatímum. Thorvaldsen vann fyrir fólk þvert á ýmsar átakalínur. Á sóttvarnatíma þegar við fórum ekki í utanlandsferðir var skemmtilegt að kynnast ferðaháttum fyrri tíðar og fara allar langferðirnar um Evrópu með Thorvaldsen á sjó og á landi. Þetta voru raunverulegar langferðir og sumar voru margra mánaða ferðir. Fjölskyldumálum Thorvaldsens er lýst, kvennamálum og tengslum. Presturinn greinir varkárni höfundarins, prestsins, við skrifin og skort á dýpri skýringum. Af hverju voru tengsl Thorvaldsens eins og þau voru? Menningarlífið í Róm er skemmtilega uppteiknað og skapandi spennan milli kristni og grískrar hefðar, fagurfræði og speki. Svo kemur goðafræði Norðurlanda við sögu og nafnið Þór – enda maðurinn Thor-valdsen. Þróun hugmynda Thorvaldsens er lýst og hve trú skipti hann æ meira máli eftir því sem hann kynntist fleiri konum og aldur færðist yfir og hann fékk fleiri verkefni fyrir kirkjur. Tilurð og samhengi myndverkanna í Frúarkirkjunni er skýrð. Færni handverksmannsins Thorvaldsens er vel lýst enda maðurinn upprunalega oddhagur smíðasveinn. Við lestur bókarinnar uppgötvaði ég hvernig breytingar urðu á nálgun, hugsun og aðferðum myndhöggvara á tíma Thorvaldsens sem skýrði fyrir mér hvað gerðist síðar og af hverju maður eins og Einar Jónsson spratt fram á Íslandi. Menningarsaga Kaupmannahafnar, þ.e. tímabilsins frá 1770 til 1850, er sögð og Thorvaldsen gegnir þar merkilegu hlutverki. Skírnarfontar Dómkirkjunnar og Akureyrarkirkju koma við sögu og hvernig Miklabæjarkirkja tengist og á tilkall eða pant í fonti Dómkirkjunnar.

Ég sat svo við og las og las. Hin agaða ást Helga Konráðssonar á viðfangsefni sínu heillaði, getan til að skrifa, ótrúlega litríkt viðfangsefni, mikil fræðsla og hve bókin var allt öðru vísi en ég hélt að hún væri. Hún hélt mér við efnið. Ólafur Egilsson og fleiri eiga þakkir skildar fyrir að koma þessari bók út að nýju. Bjarni Harðarson, útgefandi, fyrir metnaðinn, Skagfirðingum og fleirum fyrir að styrkja útgáfu þessa rits um Skagfirðing og skrifaðri af Skagfirðingi. Myndirnar sem bættust við þessa útgáfu eru til bóta og skýringar. Formáli Guðna Th Johannessonar er líflegur og eftirmáli Stefano Grandesso, listfræðings, hinn merkasti og opnar listasöguna fyrir okkur lesendum.

Þegar ég var kominn af stað að lesa sótti æ sterkar að mér að ég þekkti ekki bara kjöl bókarinnar. Ég vissi að ég hafði ekki lesið bókina en þóttist eiga hana. Svo ég fór í bókahvelfinguna í kjallara húss okkar. Og mikið rétt þarna var komin fyrri útgáfan og Lilja Sólveig Kristjánsdóttir og Siguringi Hjörleifsson höfðu átt bókina og frá þeim kom hún til mín. Svo lentu bækurnar saman á stofuborðið, glæsileg stríðsútgáfan frá 1944 og svo þessi fallega bók næstu kynslóðar. Þær kystust, góðar báðar. Takk Ólafur Egilsson. Ég mæli svo sannarlega með æfisögu Helga Konráðssonar um Bertel Gottskálsson Thorvaldsen, Skagfirðing. Vinir mínir geta fengið aðra hvora bókina að láni. 

Umfjöllun Hreins S. Hákonarsonar um bókina er hægt að nálgast að baki þessari smellu

Myndina af Kristsstyttu Thorvaldsens í Frúarkirkjunni tók ég í október 2017.

 

 

 

 

Guði að kenna?

Fjöldi fólks hvarf í svelg skriðunnar í Gjerdrum. Og Norðmenn spyrja. Af hverju? Við Íslendingar spyrjum gagnvart snjóflóðum og aurskriðum vetrarins: Af hverju? Næsta spurning er oft: Höfum við gert eitthvað af okkur? Heimsbyggðin spyr í nærri ársgömlu heimsfári: Af hverju? Voru gerð einhver mistök? 

Stórar spurningar kalla á stór svör. Sum varða mistök manna og rangar ákvarðanir. En svo vakna líka trúarspurningar. Í leikriti Shakespeare um Lér konung er spurt hvort mennirnir séu eins og flugur, sem guðirnir leiki sér að því að deyða. Er Guð valdur að dauðaskriðum? Er Guð að leika sér að því lauma veirum á milli lífkerfa á votmörkuðum í Kína og inn í mannheima til að gera tilraunir með fólk eða kannski bara skemmta sér? Er Guð eins og skapillur risi, harðbrjósta ofurvera sem ekki virðir reglur. Er það sá Guð sem við þekkjum og trúum á? Nei, svo sannarlega ekki.

Af hverju leyfir Guð að þetta komi fyrir? Fólk spyr, þegar áföllin dynja yfir, sjúkdómar æða, slys verða og ástvinir deyja. Glíma við sorg og merkingu þjáningarinnar er sístæð. Á öllum öldum hafa menn reynt að skilja hið óskiljanlega, botna í sorginni og leita trúarlegra raka. Í Biblíunni eru margar Guðsglímurnar vegna þjáningar, t.d. sagt frá hinum guðhrædda Job sem ekki skildi af hverju Guð leyfði að hann þjáðist án tilefnis. Trúarhefðirnar reyna að svara hinum stóru spurningum um illsku og þjáningu.

Einhæfni í guðstúlkun

Var Guð í heimsfaraldri og flóðum? Spurningin varðar Guðsímyndina og þær myndir, sem við notum til að túlka Guð. Ef Guð er í okkar huga sem einræðisherra er ekki einkennilegt að spurningin um Guð í flóðinu vakni. Slík mynd af Guði túlkar gjarnan bókstaflega hugtök um almætti og alvitund Guðs og önnur álíka. Síðan eru einnig oftúlkaðar líkingar af Guði sem heimssmið, konungi, herforingja, heimsarkitekt, tyftara, dómara og stríðsherra. Ef allt er tekið saman og menn varpa síðan yfir á Guð bókstafsskilningi á þessum hlutverkum í heimi manna verður til ímynd af guði sem allt skipuleggur fyrirfram. Guð sem hefur í höndum sér allt til góðs og ills í heimi, guð sem skipuleggur fæðingu og dauða hvers manns. Sem sé, þá vakna allar hinar djúptæku og skelfilegu spurningar um af hverju guð leyfi flóð og heimsfár. Gagnvart slíkum guði er eðlilegt að menn spyrji: Af hverju guð? Og gagnvart þeim guði er eðlilegt að menn segi: “Fyrst þú ert svona vil ég ekki lengur trúa á þig. Þú ert vondur!”

Hin kristna sýn

Jesús breytti öllum forsendum, skipti út bæði stýrikerfi trúarinnar og öllum forritum. Hann breytti hinum gyðinglega boðskap um sértækan guð þjóðar eða kynþáttar sem útvaldi sumt fólk en hafnaði öðrum, valdi fólk til lífs og aðra til slátrunar. Sá Guð, sem Jesús opinberaði í orði og verki var persóna elskunnar, sem var tilbúinn að fórna öllu í þágu ástarinnar. Sá Guð fylgdist með höfuðhári og hamförum en ávallt í ljósi elskunnar. Það er slíkur Jesús sem ég sé í Biblíunni og starfi kristninnar um allan heim og á öllum öldum.

Því fer fjarri að allir sem kenna sig við Krist séu mér sammála. Í kristninni má greina margar túlkunarhefðir. Þær trúarútgáfur eru ekki allar jafnfagrar.[i] Í þeim verstu hefur Guð verið túlkaður sem orsök og samhengi erfiðleika, sjúkdóma, hamfara og dauða. Slíkur guð sprettur fram í hugum þröngt hugsandi manna.

Frelsið

En ef Guð elskar hvað gerir þá Guð? Í kvikmyndinni Bruce Almighty fær söguhetjan innsýn í vanda þess að vera Guð og fær jafnvel að leika hlutverk Guðs. Í ljós kemur að Guð hefur gefið mönnum frelsi til að ákveða og leggur á það þunga áherslu að alls ekki megi skerða það frelsi. Kvikmyndin tjáir ágætlega að við menn eru frelsisverur.

Við þennan boðskap vil ég bæta að náttúran er með sömu einkennum. Vissulega lýtur hún leikreglum náttúrulögmála og þróunarferla. En þar ríkir líka frelsi og samspil. Við skulum ekki vanmeta þann þátt eins og fram kemur skýrt í svo sértækum viðburðum eins og heimsfaraldri eða skriðuföllum. Í mannheimi hefur fólk frelsi til að ákveða stefnu og gerðir. Vitaskuld erum við bundin af skorðum erfða og aðstæðna en frelsið er ótrúlega mikið samt. Í ljósi þessa getum við nálgast allan hrylling heimsins.

Guð beitir ekki inngripsvaldi. Guð sleppir ekki veirum lausum að geðþótta, hristir ekki jarðskorpufleka heinsins, ýtir ekki af stað skriðum í fjöllum eða þrýstir á kvikleir til að kalla fram hrun íbúðabyggða. Ég þekki engan ábyrgan guðfræðing eða trúmann sem heldur slíku fram. Slík guðsmynd er aðeins í hugum brenglaðra sem aflaga guðsmynd að eigin þörfum og þrám, hvað sem það kostar.

Kærleiksmáttur

Hvað þá? Hver er hlutur Guðs? Guð er sá andlegi kraftur sem á öllum augnablikum beitir kærleiksáhrifum sínum, varpar upp möguleikum, í efnaferlum náttúrunnar, í huga einstaklinga, í góðum samhug hópa og þjóða – já mannkynsins alls. En á öllum þrepum og stigum getur efni, náttúruferlar, einstaklingar, hópar og þjóðir brugðist við með réttu eða röngu móti eða blöndu af hvoru tveggja í einhverjum hlutföllum. Hlutverk manna og þar með talið stjórnvalda er að sinna kalli til öryggis. Til okkar er kallað sem einstaklinga, samtaka, þjóða og mannheims að rétta hjálparhendur þegar þarf og styðja í úrvinnslu hörmunganna.

Hinn hvetjandi Guðsnánd

Menn hafa notað hugtakið almætti til að tjá mátt Guðs. En Guð er ekki eins og mennskur alræðisforstjóri eða einræðisherra veraldar. Í Guði sjá kristnir menn dýpri og mennskari veruleika nándar. Guð tekur þátt í baráttu fólks, grætur með þeim sem syrgja og hlær með hinum fagnandi. Því varð þessi makalausa sendiför Guðssonarins inn þennan heim til að samsamast öllu lífi manna, leysa úr viðjum og bjarga.

Guð skelfist og stendur með með óttaslegnu fólki í skriðubyggðum Ísands. Guð stjórnar ekki atburðarásinni, en Guð líður ferlið með sköpun sinni. Guð er ekki ofvirkur heldur samvirkur. Guð er ekki eins og kúgandi móðir eða harður pabbi sem neyðir börn sín. Guð ofstjórnar ekki heldur meðstýrir. Guð tekur ekki af sköpun sinni frelsi heldur bendir á ábyrgð. Guð hefur ekki yfirgefið sköpun sína, heldur styður með kærleikskrafti sínum.

Faraldur og umhverfisvá eru ekki refsingar af himnum, ekki hefndaræði guðlegrar reiði. Breytingar í náttúrunni og hamfarir má skýra með rökum fræða og almennrar dómgreindar. En áföll kallar á næmni og hvetur til öflugs viðnáms gegn siðferðisbrotum. Guð er að starfi en ekki sem íhlutandi Guð, heldur sem nálæg systir eða bróðir sem stendur við hlið manna, hvetur til starfa, styður þegar við föllum, hvíslar að okkur huggunarorð þegar við höfum misst og yfirgefur okkur aldrei, þótt við bregðumst. Guð er nærri.

[i] Ég bendi á rit Pjeturs Pjeturssonar, biskups á Íslandi á 19. öld, sem dæmi um skelfilega trúarhugsun. „Guð og þjáningin í Pjeturspostillu : „En lof sé þér líka, líknsami faðir! fyrir sóttir og sjúkdóma“ Kirkjuritið 67 (3): 2001.

Nýr tími Bandaríkja Norður Ameríku

Ljós mun lýsa –

ef við þorum að horfa

ef við þorum að spegla það

Tímaskil urðu í heiminum 20. janúar. Tímabili lyganna lauk og nú er runninn upp tími til að segja satt um menn og málefni. Tímabil sundrungar, aðgreiningar og sérhyggju er að baki og mikilvægt að gott fólk taki til hendi og sameinist um að leggja góðu lið. Hvað tekur við er óljóst. 

Innsetningarathöfnin við þinghúsið var einföld en heillandi. Kona er varaforseti Bandaríkjanna í fyrsta sinn. Glerþakið var tjakkað upp. Lady Gaga söng þjóðsönginn með stæl. Ekki skemmdi kjóllinn hennar og friðardúfan sem minnti á dúfu Picasso. Amy Klobucher smitaði gleði yfir að eldurinn væri slökktur og nýr tími fæddur. Vettlingar og föðurland Bernie Sanders vermdu og skemmtu. Ræða Jo Bidens sannfærði að stjórnsýslan verður skilvís en ekki lemstruð af bræðisköstum síðustu ára.

Þetta var ekki bara byrjun heldur líka útfararathöfn. Af öllu sem sagt var og gert á þessari innsetningarhátíð var ljóðið sem Amanda Gorman samdi og flutti um opnun. Hún nefndi vanda og verkefni, litaði og færði til, lokaði og opnaði. Það er frjálst fólk sem yrkir og gengur svo vasklega inn í nýjan tíma. Ljóð Gorman sem er að baki þessari smellu. Fíkjutré Biblíunnar hafa skotið nýjum rótum.

Ljós mun lýsa –

ef við þorum að horfa

ef við þorum að spegla það

Myndina tók ég  um kl. 16 þegar innsetningarathöfnin í Washington var að hefjast. 

Vitringar, kóngar eða vitleysingar?

Helgisöguna um vitringana sem komu til Maríu, Jósefs og Jesú á ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega. Svona sögur á ekki að kreista því þá brotnar allt, líka skilningurinn. Þetta er ekki saga um gull, reykelsi eða myrru og ekki heldur um bull, ergelsi og pirru. Í þessu hljóðvarpi tala ég um vitringahelgisöguna.

Nýr tími

Tímaskil geta orðið ágeng og vakið miklar tilfinningar. Mér er minnistætt þegar einn drengja minna var sjö ára og yfirkominn af tímaöng. Hann fylltist af depurð yfir glötuðum tíma. Hann sá svo óskaplega eftir gamla árinu sem kæmi aldrei til baka. Hann var lostinn harmi yfir að gleðitíminn væri farinn og aldrei væri hægt að lifa hann aftur. Við foreldrarnir tókum drenginn í fangið og töluðum um víddir og takt tímans og möguleika lífsins. Þá var líka gott að tala um hvað afar og ömmur, við foreldrar og allir hinir ástvinirnir hugsum og gerum gagnvart tortímanda tímans. Eftir gamlárskvöld kemur nýr dagur og nýir möguleikar. Tíminn er ekki búinn heldur opinn. Til að tákna það breiðum við á nýársdegi hvítan dúk á borð nýársdags. Blóm dagsins væru hvít til að tákna að dagurinn væri upphaf nýs og óspjallaðs tíma. Meira segja litur kirkjunnar á þessum degi væri hvítur til að minna okkur á að framtíðinn væri opinn faðmur. Hvítt gegn myrkvaðri glatkistu fortíðar til að minna okkur á að hið liðna er farið. En tíminn er opinn.

Nýr tími merkir að við erum frjáls. Hvað um tíma nýs árs í vinnu, í einkalífi og í samskiptum? Er eitthvað sem bindur hug og líf? Þarf að losa festur, opna tabú og segja satt? Hver er djúplöngunin? Hvað viljum við gera við tímann, hvernig næra sjálf og stæla líkama? Kostur hvers tíma og hvers dags er að vera farþegi eða við stýrið í eigin lífi.

Skáldið bað: „Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.“ Það er verkefnið. Viturt hjarta – fyrir líf og dauða, fyrir gleðistundir, hörmungartíma og hamingjuvegi. Guð hefur úthlutað gáfum og gæðum til að vinna verkin og vit til að greina úrræðin. Guð hefur skapað tímann og okkur mannfólkið svo listilega að okkur er það mögulegt. Framundan er nýr tími, ómengaður og hreinn tími. Tímaöng varðar fortíð en fögnuður hæfir framtíð. Gleðilegt nýtt ár 2021.

Myndina tók SÁÞ eftir helgihald í Hallgrímskirkju á nýársdegi. Myndin er af bílrúðu við Hnitbjörg, safn Einars Jónssonar. Textinn er Gleðilegt nýtt ár 2021.