Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Skáldaliljur

Lilja Sólveig Kristjánsdóttir var kvödd í maí fyrir sex árum. Hér er formáli minn að ljóðasafni Lilju, sem var gefið út þegar hún varð áttræð. 

Brautarhólsfólkið sótti kirkju á Völlum. Allur barnahópurinn fór með foreldrunum Kristjáni og Kristínu. Lilja Sólveig kom sér fyrir á suðurbekk við hlið mömmu. Sr. Stefán steig í stólinn eftir guðspjallssálm og hóf predikun sína. Þriggja ára stelpuskottið fylgdist með flugum í gluggakistunni. Augnalokin þyngdust og kirkja, helgihald og fólk varð eitt. Kirkjusvefninn hefur löngum verið sætur. En draumurinn leystist upp allt í einu þegar farið var að syngja sálminn “Á hendur fel þú honum…” Lilja glaðvaknaði og spratt upp. Þetta kunni hún og tók undir sem mest hún mátti. Þegar fyrsta erindinu lauk beið hún ekki eftir lokum kúnstpásu organistans og kantórsins við orgelið, heldur rauk af stað í annað erindið. Mjó barnsröddin hljómaði um kirkjuna áður en nokkur annar kirkjugestur byrjaði sinn söng. “Ef vel þú vilt þér líði…” Hún steinþagnaði, fylltist skelfinu og hélt að messan væri alveg eyðilögð! Boðskapur sálmsins hafði engin áhrif á smásöngvarann. “Hann styrkir þig í stríði og stjórnar öllu best!” Eftir messuna faldi hún sig í pilsi mömmu og hélt að fólkið, sem talaði um sönginn hennar, væri að stríða sér. Sálmasöngvarinn Lilja Sólveig hætti þó ekki eftir þetta fyrsta vers í lífinu, heldur orti eigin ljóð um Guð og mann á efnisskrá safnaðarins. Undir þau vers tóku margir síðar.

Blómin við ævigötuna

Í þessari bók eru ljóð og sálmar Lilju, sem hún hefur falið á hendur góðu fólki og Guði. Stökur og ljóð hafa orðið til í erli daganna. Að yrkja hefur verið Lilju dægradvöl og hugsvölun. Þá hefur Lilja þýtt mikinn fjölda sálma og eru sumir í þessari bók. Það var úr nokkuð vöndu að ráða að velja hvað skyldi í bókina og hvað ekki. Hér eru í bland stökur og ljóð bernskunnar og lífsviskuljóð hinnar lífsreyndu, draumarnir um sveitina og vonarlandið handan raunheims. Ljóð, sem hafa sprottið upp við ýmsar aðstæður ævinnar, fá að fljóta með sem sýnisljóð um líf og ljóðvinnslu Lilju. Hún hefur ort alla ævi og hvert tímabil ævinnar á sér eigin stef og draga dám af viðfangi æviskeiðanna. En sameiginlegt einkenni er Guð og barátta trúarinnar, sem síðan litar hvernig Lilja hefur túlkað líf og lífsþættina. Snemma lærði Lilja að yrkja til að sefa harm og veita sorg í skilvísan farveg ljóðanna. Hún gat því notað skáldskapinn í eigin sálgæsluskyni. Þótt hún færi leynt með gáfu sína varð æ fleirum ljóst að Lilja gat sett saman nothæfa sálma til söngs. Margir urðu til að leita til hennar með þýðingar. Lilja hefur aldrei kunnað vel að segja nei og því voru gjarnan einhverjir erlendir sálmar á borðinu. Þá átti að syngja í næstu viku á samkomu! Hún mátti því oft beisla skáldafákinn með hraði og þýða. Hún var því undir nokkru álagi. Skáld hafa aldrei verið sjálfsalar. Svo kvakar Lilja lítillega, að þetta hafi ekki verið nógu gott allt, sumt eiginlega ónothæft!

Lífið og skrefin

Lilja Sólveig Kristjánsdóttir fæddist á Brautarhóli í Svarfaðardal 11. maí árið 1923. Hún var sjötta í röðinni og langyngst systkinanna. Elstur var Gísli og síðan komu Filippía, Sigurjón, Svanfríður og næstyngstur var Sigurður. Saga fjölskyldunnar var árangursrík baslsaga, sem lituð var heimiliselsku, vinnusemi, menntasókn og söng, en ekki síst trúrækni. Um það bera líka vitni hin almennu, kristilegu mót, sem haldin voru á Brautarhóli á árunum 1940-48. Systkinin veittu Lilju athygli, örvun, umhyggju og kenndu henni líka. Þó þau væru sum laus við komu þau heim til lengri eða skemmri dvalar. Munnhörpur og orgel voru til á heimilinu. Heimilisfólkið söng í rökkrinu, ekki síst ættjarðarljóð. Sálmar voru síðan sungnir á undan og eftir húslestri kvöldsins og svo auðvitað á sunnudögum ef ekki var farið til kirkju. Fjölskyldan var söngelsk, mamman var fljót að læra lög og pabbinn var kunnur kvæðamaður. Systkinin lærðu fjölradda söng í kirkjunni og höfðu gaman af. Á stilltum haustkvöldum fóru þau jafnvel í sönggönguferðir. Raddirnar hljómuðu vel saman, en tenór var þó enginn. Björt sópranrödd Lilju naut sín í þessum fjölradda kór. Söngur systkinanna barst um dalinn og einu sinni hélt heimilisfólkið á næsta bæ að ekki væri lengur hægt að slökkva á útvarpinu, þegar söngurinn hætti ekki! Vísnagerð var eðlileg heimilisiðja, sem nýttist sem jólagjöf eða gleðigjafi á tímamótum.

Skólar og menntun

Eins og annars staðar á Íslandi á þriðja og fjórða áratug tuttugustu aldar var bernskuheimilið mikilvæg mennta- og kennslustofnun, þegar skólaganga var stopul. Þá var betra að alast upp á heimili sem sótti í menntun. Heimilisfaðirinn var m.a. bóksali og bækur komu því í Brautarhól. Lilja Sólveig sótti unglingaskóla í heimadal sínum á árunum 1937-39. Hún fór síðan til náms í Menntaskólanum á Akureyri, tók próf beint í annan bekk og varð stúdent 1945. Á menntaskólaárunum stríddi Lilja við veikindi. Ekki mátti tæpara standa, þegar hún var síðan skorin eða öllu heldur brotin upp á Landakoti haustið 1941. Var hér nokkurs konar upphaf að veikindum, sem Lilja hefur glímt við alla tíð. Vegna heilsubrestsins ráðlögðu læknarnir Lilju að fara ekki í það háskólanám, læknisfræði, sem hún hafði hug til. Hún fór því heim og kenndi svarfdælsku ungviði einn vetur frammi í dölum. Fór hún því næst í hannyrðaskóla í Kaupmannahöfn veturinn 1946-47 og þaðan aftur heim og kenndi unglingum á Dalvík. Síðan vann hún á skattstofunni á Akureyri og þá fékk hún hina illvígu Akureyrarveiki árið 1948 og lá rúmföst í marga mánuði. Eftir það lá leiðin til Reykjavíkur til lækninga og hún kenndi við gagnfræðaskólann við Lindargötu frá 1949 og til ársloka 1951.

Predikarinn í Noregi

Sigurður skólameistari á Akureyri vildi að Lilja lærði guðfræði og yrði fyrsti kvenpresturinn á Íslandi. En hann var á undan sinni samtíð og það var ekki í tísku að konur væru prestar. En þótt Lilja settist ekki við fótskör kennara guðfræðideildar rannsakaði hún ritningarnar. Námið var í norsku samhengi. Hún fór til Noregs í ársbyrjun 1952 og hóf nám á biblíuskóla norska heimatrúboðsins. Í skólanum hennar, sem er rétt norðan við kóngshöllina í miðborg Osló, undi hún vel hag sínum í eitt og hálft ár. Lilja var þrítug þegar hér var komið sögu. Útlendingurinn hafði reynst öflugur leiðtogi. Lilju var því falið að verða umreikandi predikari og æskulýðsfulltrúi í Buskerudsýslu vestur af Osló. Gerðar voru miklar kröfur til þess fólks, sem þeim störfum gengdi og segir nokkra sögu um stöðu Lilju. Hún ferðaðist víða og predikaði á samkomum. Um tíma var hún einnig að störfum í Östfold og Vestfold. Hún sinnti sálgæslu ungu fólki í sálarnauð, reyndi að greiða úr lífsgátum yngri sem eldri og var öllum engill hins góða málstaðar Guðs. Hún bjó á heimilum fólks og bast mörgum vinaböndum. Þau bönd hefur hún treyst alla tíð og bera bréf og kort hennar fyrir jól hálfri öld síðar öflugt vitni um tengslahæfni og ræktarsemi Lilju.

Heim

Lilja hefði eflaust dvalið lengur í Noregi ef Sigurður bróðir hennar hefði ekki sent henni bréf árið 1955. Faðir þeirra var þá löngu fallinn frá, bróðir hafði flutt burt og móðir þeirra komin á áttræðisaldur. Einhver varð að sjá um móður og búrekstur. Lilja brást ekki kalli og varð bústjóri á Brautarhóli. Fjórum árum síðar kallaði sami bróðirinn aftur til hennar, en nú til kennslustarfa á Laugum í Reykjadal. Þar var hún á árunum 1959-62. Síðan var hún skólastjóri á húsmæðraskólanum á Löngumýri einn vetur, þegar þjóðkirkjan tók við stofnuninni. En þjónusta Lilju varð styttri en áætlað hafði verið. Enn hindruðu veikindi hana í starfi. Hún fór heim, yfir í Svarfaðardal enn að nýju. Hún var gjaldkeri Dalvíkurhrepps á árunum 1963-64. Þá fór hún suður til Reykjavíkur og hefur búið þar síðan. Fyrst starfaði hún á rannsóknarstofu Borgarspítalans, sem var til húsa í Heilsuverndarstöðinni. Vorið 1971 varð Lilja safnvörður í Listasafni Einars Jónssonar og starfaði þar á þriðja áratug. Var Lilju einkar lagið að opna hinn trúarlega heim Einars. Margir muna leiftrandi og grípandi leiðsögn hennar.

Siguringi

Myndlistarsýning í Bogasalnum árið 1965 varð Lilju afdrifarík. Hún féll fyrir fallegri mynd af Hrafnabjörgum í Þingvallasveit, sem Siguringi E. Hjörleifsson hafði málað. Hún keypti myndina og svo hreifst hún líka af listamanninum fjölhæfa. Siguringi og Lilja gengu í hjónaband árið 1967. Þau voru bæði fullþroska þegar þau kynntust og áttu hamingjurík ár saman. Heimili þeirra á Sóleyjargötu 15 var hús sumarsins í lífi beggja. Enda máluðu þau það glöðum og björtum litum og það var fullt af tónlist, hljóðfærum, tónsmíðum, kveðskap, blómum, myndum og glaðværð. Siguringi ljóðaði til konu sinnar á fjölbreytilegan hátt. Jafnvel uppvask eftir matinn varð ævintýri líkast. Bæði voru hraðyrkjandi og Siguringi mátti hafa sig allan við, svo snögg var Lilja að botna og svara fyrir sig. Svo var hlegið og skrifaðar niður bestu stökurnar. Svo kom lagstúfur í framhaldinu. Í öllum verkum voru þau samhent. Þau voru bæði ræktunarfólk, hlúðu að litskrúðum blómagarði, sáðu og uppskáru ríkulega af grænmeti og  potuðu furuskinnum og birkihríslum í jörð þeirra, Hamraborg, í Árnessýslu. Tíminn þeirra saman var ríkulegur en allt of skammur, aðeins rúm átta ár. Siguringi féll frá í júlí 1975, langt fyrir aldur fram. Nokkur af hinum rismiklu sorgarkvæðum í þessari bók urðu til við fráfall hans og þegar sorgin vitjaði Lilju.

Ljóð og stíll

Ljóðin hennar Lilju eru dagbókarskrif hennar. Hún hefur ritað gleðiefni, sorgarefni, vonir, drauma og skref daganna. Það er samhengi í öllu, sem hún hefur skrifað og Lilja veitir okkur innsýn í sál sína og hugarheim. Kátlegum kvæðum og hreinum tækifærisljóðum hefur þó verið sleppt í þessari útgáfu og því verður ekki vikið að þeim hér.

Góði Jesú, gefðu mér,

að geta sofnað rótt í þér,

Meðan heilög höndin þín,

heldur vörð og gætir mín.

Þessa kvöldbæn samdi Lilja, þegar hún var tíu ára. Bænin vísar með efni og tökum fram á þann veg sem Lilja fór. Sami boðskapur blasir við í ljóðum hennar, um góðan og umhyggjusaman Guð og trúartraust. Með árunum dýpka sálmar og ljóð með lífsreynslu og skuggarnir verða jafnframt skarpari. Trúarlegur boðskapur er í öllu samhljóða hinni klassísku, kristnu kenningu. Ljóðunum er ekki ætlað að brjóta nýjan guðfræðiakur og í þeim er málfar klassískrar trúarhefðar á Íslandi. Lilja fékk í arf tilbeiðslu Passíusálma og Brautarhólsfólkið var sammála um að fólk tengist Guði persónulegum böndum. Trú þess var ekki ópersónulegur siður eða formlegur rammi, heldur náið samband við Guð. Trú var því barátta lífsins og traust. Öll veröldin er af Guði og fyrir Guð. Ef til er prótestantísk vinnuhugsun í ljóðum Lilju þá varðar hún boðunarhlutverk manna. Hlutverk mannsins í heiminum er að lifa í Guði og í því er einnig fólgið að leiða aðra til Guðs.

Svipuð atriði má einnig greina í náttúruljóðum Lilju, sem eiga sér samsvörun og efnislegt innrím við sálma. Náttúran í Liljuljóðum er vitnisburður um skapara, sem gleðst yfir fjölbreytni, fegurð, árstíðum, smáblómi í klaka og lækjarbunu. Allt verður tilefni íhugunar og mönnum til lærdóms. Sólargeislinn er geisli frá Guði og skugginn í náttúru og mannlífi á sér einnig sama upphaf. Jafnvel frostrósir eru líking um líf manna. Ljósið, sem bræðir frerann og rósir frostsins, er frá Guði. Oft notar Lilja jurtalíkingar til að ræða um manninn. Hún talar um rósir og græna sprota. En það vekur athygli að hún talar ekki um liljur. Kannski er hún of hógvær til að fara svo beina leið. Líkingar og myndir hennar úr jurtaheimi eru því almennt um fólk og hún er ein af mörgum í þeim stóra hópi, frammi fyrir Guði.

Eins og margir á undan Lilju lýsir hún náttúrunni, ekki síst svarfdælskri náttúru, með því að nota fjallkonulíkingar. Lilju verður oft hugsað til konunnar, sem greip í klæðafald Jesú. Hún trúði og Jesús reiknaði henni það til réttlætis og hún varð heil. Lilja setur sig í spor þessarar konu og hún sér í henni tákn fyrir sig.

Krossferill

Mörg ljóð Lilju hefur sorg meitlað. Lilja hefur ort sér til léttis og ljóðin eru hennar sorgarlyftur eða höfuðlausnir. Af ljóðunum er ljóst að Lilja átti erfitt með að sætta sig við að missa heilsuna á unga aldri, verða að stara í sjó brostinna vona. Ljóðið Vonbrigði eftir 17 ára stúlku er sláandi. Það fjallar um vonarfley ævinnar, sem rennur að feigðarósi! Síðar urðu til harmljóðin: Það kom maður með ljá og Söknuður. Ljóð við dauðsföll og til flutnings við húskveðjur eru nokkur og bent skal á ljóð, sem Lilja samdi við dauðsfall föður síns árið 1944.

Ljóst er af því hvernig Lilja yrkir um Jesú Krist að hún lifir sig í feril hans. Vegna veikindasögu hefur hún, kannski betur en margir, gert sér grein fyrir þjáningardjúpi og einsemdarbaráttu Jesú. Hún fylgir Jesú eftir á píslargöngunni. Í honum á hún einnig samfylgdarmann, sem ekki víkur frá henni. Nokkur verndarkvæði um engla hefur Lilja einnig samið. Þessi túlka návist Guðs og að við menn erum aldrei yfirgefnir í erfiðleikum okkar.

Syndavitund, hlekkir, kvíði og breiskleiki koma víða fyrir í Liljuljóðum. Hún hefur í veikindum alla tíð vonað, verið sér meðvituð um að Guð leysir fjötra, styrkir vilja og réttir fólk við. Upprisuboðskapurinn á erindi við fallið fólk og sjúkt. Lilja speglar vel að maðurinn er flekkaður og breyskur. En það er áhugavert að sjá hversu víða Lilja talar um kvíða, friðleysi, ótta og öryggisleysi. Er það vegna þess að það er kona sem yrkir og þorir að tala um tilfinningar? Ekki er reynt að sópa yfir tilfinningarnar og þær eiga sér auðvitað ákveðinn túlkunarramma. Þá talar Lilja víða í ljóðum og sálmum um einstaka hluta líkamans til að ræða um Guðstengslin. Er það vegna þess að heilsubrestur Lilju hefur vakið með henni skynjun um mikilvægi þess að allur líkaminn og allar sálargáfur séu tengdar? Er hún sér meðvituð um að allt getur þetta horfið manninum og því mikilvægt að allt sé Guði helgað?

Guð og barnslegt traust

Guð er vinur Lilju, góður og umhyggjusamur. Það er alveg greinilegt að Lilja hefur í sínum uppvexti átt góðan, blíðan og elskulegan föður. Föðurbresti er ekki að finna í kveðskap Lilju. Guðsmyndin er heil og ósprungin föðurímynd og í samræmi við reynslu af sterkri móður og hlýjum föður á Brautarhóli. Það eru önnur mál en kynjun guðsmyndarinnar, sem hafa dregið að sér athygli Lilju í gegnum tíðina. Maðurinn er víðast túlkaður í mynd barnsins eða þess, sem þiggur. Áberandi í ljóðum Lilju er traust til að Guð geri gott úr vanda, leiði á betri veg, bæti úr, bræði hjarn mannlífsins og gefi gróanda í lífi hennar og annarra. Einu gildir frá hvaða æviskeiði ljóðin eru, ávallt getur Lilja talað sem barn við og um Guð. Hvað er maðurinn annað en þiggjandi allra gæða? Og himinninn er ávallt hið mikla takmark, hinn mikli faðmur sem allt leitar til, allt stefnir að. Ljóslíkingar eru algengar í tengslum við Guð. Í því nýtur Lilja skáldskaparhefðarinnar. Áhugaverð eru stjörnuljóð hennar. Hún biður stundum til stjörnu á himni. Einhver myndi sjá í þeim ljóðum kaþólsk áhrif. En þegar Liljuljóðin eru skoðuð í heild kemur í ljós, að eðlilegast er að túlka stjörnuljóðin guðmiðlægt, þ.e. að stjarnan sé Guð fremur en María, dýrlingur, maður eða engill.

Lilja er sú kona sem hefur ort flesta sálma í sálmabók þjóðkirkjunnar, frumorta og þýdda. Sálmarnir eru þó aðeins þrír. Betur má ef duga skal og er þess að vænta að hlutur kvenna aukist mjög við næstu endurskoðun. Margir sálma Lilju eiga erindi í söng kirkjunnar. Það er engin ástæða til að hætta við fyrsta versið. Liljuljóðin eru mörg vers og flest má syngja kirkjunni. Engin þarf að skammast sín fyrir þann söng, ekki höfundurinn, ekki kórinn og ekki söfnuðurinn.

Hurðarspjald og hjartablöð

Það var ánægjulegt að velja ljóðin með Lilju og ræða við hana um inntak og efnisskipan. Þá uppgötvaði ég nýjar víddir móðursystur minnar, sem ég taldi mig þó þekkja vel fyrir. Fyrir það er ég þakklátur. Á kápunni er mynd af hurðarspjaldinu á heimili Lilju. Með þessari bók lýkur hún upp, ekki aðeins heimilinu, heldur hjartaveröld sinni. Innan við dyrnar sjáum við liljurnar, sem kenndar eru við hvítasunnu. Það er við hæfi, enda Lilja fædd skömmu fyrir þá hátíð anda, huggunar og þýðingar. Líf hennar hefur snúist um ljóðlist himins og jarðar. Á málverkum genginna meistara heldur Gabríel erkiengill gjarnan á lilju þegar hann boðar Maríu tíðindin um þunga hennar. Hlutverk Lilju Sólveigar hefur einnig verið að boða gleðiboðskapinn og vera boðberi himins. Þá er upplýsandi einnig að hvítasunnuliljan er kennd við skáldskap í latneska blómaheitinu, narcissus poeticus. Dyrum er upp lokið. Liljuljóðin eru skáldaliljur áttræðs afmælisbarns til syngjandi fólks og íslenskrar kirkju.

Sigurður Árni Þórðarson. Formáli Liljuljóða.

Júlía og jurtirnar

Í dag skírði ég Júlíu Ósk sem býr í húsinu í grænmetisgarðinum hennar mömmu við Tómasarhaga í Reykjavík. Júlía Ósk tók svo sannarlega þátt í skírninni, setti hendina í vatnið og var vel áttuð. Mamma hefði haft gleði og gaman af þessari efnilegu og ákveðnu konu. Og mér þótti afar vænt um að fá að vitja hennar, fjölskyldu hennar og hússins sem var byggt í þessum garði bernsku minnar. Hugurinn leitaði aftur.

Garðurinn var gróðurvin hverfisins frá miðri tuttugustu öld og frægur fyrir gæðakál, ofurrófur og gulrætur sem krakkarnir í nágrenninu laumuðust í. Mamma skammaðist ekki yfir rófnastuldi heldur taldi þvert á móti mikilvægt að koma vítamíni í ungviðið. Svo var í garðinum ræktað alls konar vel ilmandi krydd og fjöldi kartöflutegunda því mamma var tilraunakona eins og góðir ræktunarmenn eru. Hún hreifst af fjölbreytileika og litríki gróðurs og mannlífs. Þegar mamma hafði ræktað í garðinum í hálfa öld seldi hún lóðina, fylgdist svo með húsbyggingu og blessaði framtíðaríbúa. Mér þykir vænt um að fá að skíra fallega stúlku sem þar býr nú, ausa hana vatni, biðja henni blessunar sem og fjölskyldu hennar. Hún er óskabarn.

Garðrækt mömmu vakti athygli og Þjóðviljinn flutti þá fregn, að kona í Vestubænum ræktaði dýrustu karftöflur á Íslandi. Blaðið birti mynd af garðinum á dýrmætri byggingarlóð við Tómasarhagann og því augljóst að konan var mamma. Verktakar og lóðaþurfandi framkvæmdamenn komu í röðum og báðu um lóðina. Pabbi vísaði þeim brosandi á mömmu. Svo hringdu aðrir og spurðu hvort þeir gætu ekki fengið þessa óbyggðu lóð. Og enn vísaði pabbi á mömmu. Þar fengu framkvæmdamenn heimsins fullkomlega skýr svör. Nei, þeir gætu ekki fengið þessa lóð af því að hún væri notuð til kartöflu- og kál-ræktar. „En hættið þið ekki bráðum þessari garðrækt, þetta er jú byggingarlóð?“ „Nei,“ sagði mamma ákveðin. „En gætuð þið ekki fengið betra garðaland hjá borginni?“ spurðu þeir enn. „Nei,“ svaraði mamma alveg skýrt. Það var alveg sama hvað skynsemi heimsins spurði um, hvað byggingamennirnir buðu og hvað praktískt hyggjuvitið bar upp. Garðurinn var ekki falur fyrir byggingu af steinsteypu og járni, heldur viðkvæmar byggingar jurta, sem nutu verndar, athygli, ástúðar og elsku mömmu.

Við pabbi og Kristín systir vorum vön atlögum hinna lóðargírugu og kipptum okkur ekki upp við áganginn. En svo komst ég að því að nágrannarnir gerðu grín að mömmu. Krakkarnir báru þessar fréttir og miðluðu af kostgæfni böðulsins. „Mamma þín er skrítin því hún ræktar kartöflur. Getur hún ekki keypt þær út í búð eins og mömmur okkar? Eða kálið? Það fæst líka í KRON.“ Þegar við systkin bárum upp þessi eineltisefni settist mamma niður með syni og dóttur við eldhúsborðið og skýrði málið. Mamma var eldri en flestar hinar mömmurnar og hún hafði líka þroskað með sér stefnu og lífsleikni. Hún tilkynnti okkur slök og með hlýju í augum að henni væri alveg sama um hvað fólki fyndist um svona ræktun. Hún skýrði út að fólkið í sumum húsunum við götuna héldi að það væri fínna að vinna ekki moldarvinnu og vera ekki eins og fólkið í sveitinni. En því miður hefði það bara ekki skilið meira og verið þroskaðra en þetta. Svo hló mamma bara að Þjóðviljanum og nágrannaviljanum. Hún væri ræktunarkona sem hefði gaman af jurtunum og að auki væri það gott fæði sem hún byggi til. Hún væri frjáls, veldi sér atvinnu, sparaði heimilinu peninga sem við gætum notað í eitthvað skemmtilegt í stað þess að kaupa kartöflur og kál.

Þá var það skýrt og klárt. Mamma notaði tækifærið til að kenna eðli smáborgaraháttarins, mikilvægi góðrar næringar, neysluvenjur, rekstur heimilis og mikilvægi frelsis og sjálfstæðis. Svo ræktaði hún sitt dýra kál, seldi í KRON og Sölufélag garðyrkjumanna og sauð niður afganginn til vetrarins. Mamma var græn í hugsun og svo var það auðvitað alveg sjálfgefið að Guð elskaði afstöðu hennar og starf. Kartöflurnar hennar voru betri en annarra, kálið hennar stórvaxnara og ljúffengara en í búðinni. Mamma var í leynibandalagi með Guði, sem skapar og elskar fólk sem ræktar og hefur áhuga á lífríkinu. Svo fengu nágrannarnir sendingu úr garðinu þegar haustaði, ekki til að breyta hugsun þeirra, heldur af því maður deilir með öðrum gæðum garðs og heims. Ræktun er siðlegt mál og félagslegt.

Svo var ramakvein og harmað á Tómasarhaganum þegar mamma nálgaðist nírætt og treysti sér ekki lengur til rækta í öllum 500 fermetrunum eins og áður. Þá tók hún skrefið og seldi garðinn. En hún átti enn horn í gömlu lóð afa míns og ömmu, Litlabæjarlóðinni. Mamma tók svo upp úr þremur kartöflubeðum síðasta haustið sem hún lifði! Grænt er sálarvænt.

Guðspjall dagsins og boðskapur Biblíunnar varðar líf og ræktun og að mannlífið væri tengt lífgjöf Guðs. Mamma þekkti gleðiboðskap Jesú að lífið þarfnast næringar og alúðar. Plöntur og menn þarfnast heilbrigðs samhengis. Menn þrífast best þegar flæði lífsnæringar er óheft. Guð ræktar vel og mennirnir njóta. Skírnarþegi dagsins er alinn upp í ræktuðu samhengi garðsins hennar mömmu. Í moldinni urðu máttarverk, allt ræktaðist vel og hluti af áburðinum voru elskulegar bænir móður minnar. Júlía Ósk er blessuð í dag og fjölskylda hennar líka. Ég held að græn elska mömmu lifi enn og bænirnar hennar skili enn blessun. Já blessun fylgi Júlíu sem er óskabarn og öllu hennar góða fólki. Ræktunin heldur áfram.

Saffran, hrísgrjón og sætkryddað, hægeldað lamb

Litríkur matur og fjölbreytilegur matur þjóðanna fyrir botni Miðjarðarhafs heillar mig. Elín Sigrún, kona mín, og Yotam Ottolenghi sannfærðu mig um að það er lokkandi að skreyta mat og leyfa litum að brosa þegar matur er borinn fram. „Plenty is more“ á betur við mig en matarstefnan „less is more.“ Heba Helgadóttir kom í heimsókn á laugardag og opnaði masterclass.com fyrir okkur Elínu. Við skemmtum okkur svo við að horfa á tvo þætti með meistara Yotam. Litir fylltu höfuð okkar og svengdin magnaðist. Ég var svo marga klukkutíma í kokkhúsinu og eldaði. Meðfylgjandi er mín útgáfa af hægelduðu lambalæri Ottolenghi sem er kryddað með sætmeti og kryddi sem margir tengja kökubakstri. Hrísgrjónin, undir írönskum áhrifum, eru hluti uppskriftarinnar. Hægeldun er meðmælanleg. Þau sem meta svínakjöt meira en lambakjöt geta notað uppskriftina. Uppskrifin miðuð við sex til átta.

Hráefni fyrir kjötsteikingu

1,2 kg lambabógur eða læri úrbeinað

Salt og pipar

Tvær msk ólífuolía

8 hvítlauksrif

50 gr engifer, afhýddur og grófskorinn

3 tómatar grófskornir

1 gulur laukur grófskorinn

1 jalapeno eða rautt chili (fræhreinsað) grófskorið

20 gr kóríander, lauf og stilkar grófskorið

1 msk malað broddkúmen – cummín (ruglið ekki saman við kúmen)

1 msk malaður kanill

1 ½ tsk allrahanda

150 gr grísk jógúrt (ekki beint úr ísskáp heldur við herbergishita)

5 gr steinselja

Hráefni fyrir hrísgrhjónaréttinn

400 gr hvít basmatihrísgrjón (látin liggja í vatni amk klukkustund eða heila nótt)

1 tsk saffransoð

30 gr smjör

5 negulnaglar

3 heilar kanilstangir

Salt

Hráefni fyrir bragmikla og litríka skreytingu

60 gr sultanarúsínur (ljósi liturinn er mikilvægur fyrir litasprengjuna en auðvitað hægt að nota venjulegar rúsínur eða kúrenur)

20 gr barber – eða gojiber (sem maður linar í heitu vatni)

2 msk eplaedik

30 gr smjör

80 gr skornar (þver eða langsum) hvítar möndlur

Salt

5-10 gr kóríanderblöð grófskorin

10 gr steinselja grófskorin

Forhita ofninn á 165 °C fyrir þriggja tíma steikingu, lægra fyrir lengri steikingu. Skera kjötið í hnefastóra bita, þurrka og krydda með salti og pipar. Olía í stóran pott sem má setja í ofninn. Setja á meðalhita og þegar olían er orðin heit er kjötið steikt á alla kanta og þar til það er brúnað. Þá er kjötið sett til hliðar á fat.

Hvítlaukur, engifer, tómatar, laukur, jalapeno eða chilli og kóríander sett í matvinnsluvél og grófsaxað. Gætið að mauka ekki alveg heldur leyfa hráefnunum að halda sér. Gróft maukið svo sett á pönnuna og steikt á meðalhita í nokkrar mínútur. Bætið síðan við broddkúmeninu við (cummín), kanil einnig og allrahanda. Sjóðið í þrjátíu sekúndur. Komið svo kjötbitunum fyrir ofan á maukinu, þremur bollum af vatni, slatta af salti og pipar. Lok yfir og sett í ofn. Steikt í þrjá klukkutíma – má vera lengur en þá þarf að lækka hitann.

Eftir steikingu er fatið tekið út, safinn settur í skál, kjötið sett í fatið að nýju og hluti safans/mauksins sett yfir kjötið. Fatið, án loks, sett í ofninn aftur og steikt í hálfa klukkustund. Safinn í botni fatsins veiddur upp með ausu nokkrum sinnum á þessum hálftíma og hellt yfir bitana. Kjötið og þykkt maukið á helst að vera orðið brúnt í lokin. Tekið úr ofninum og sett til hliðar til að kjötið taki sig.

Þegar klukkutími er eftir af steikingunni er hægt að huga að hrísgrjónum og áleggsmaukinu.

Búið til saffranvatn, 100 ml sjóðheitt vatn yfir 1 tsk saffran (gætið að því að saffranvatnið slettist út ekki því liturinn er sterkur). Látið standa þar til búð er að sjóða hrísgrjónin.

Smjör er sett í pott og brætt. Á meðan er allur vökvi látinn renna af hrísgrjónunumn. Síðan eru grjónin sett út í bráðið smjörið og hrært í svo grjónin séu þakin smjörbráðinni. 3 bollum af vatni bætt út í, salti einnig. Lokið sett á og þegar suðan er komin upp er hitinn lækkaður niður eins og hægt er og soðið í 15 mínútur. Þá er hitinn tekinn af og potturinn látinn standa með hrísgrjónunum í aðrar 15 mínútur.

Meðan hrísgrjónin sjóða er skreytingin útbúin. Setjið sultan-rúsínurnar og berin í skál með eplaedikinu og látið marinerast í amk 15 mínútur. Setjið smjör á steikingarpönnu og bræðið við meðalhita. Setjið hvítt möndlukurlið (skornar möndlurnar) í smjörið og steikið þar til möndlurnar eru orðnar gullnar að lit. En brennið ekki. Takið af hitanum. Hellið af afgangsediki af blöndu rúsínum og berjum og setjið á möndlupönnuna ásamt með kórðíander og steinselju. Hrærið saman.

Takið hrísgrjónin úr pottinum og setjið á stórt fat. Fletjið út hrísgrjónin á fatið. Notið teskeið til að sletta út saffranvatni hér og þar á hrísgrjónin og notið svo gaffal til að hræra í kringum saffransletturnar til að sumt af hrísgrjónunum verði gult en annað hvítt. Hrísgrjónin eiga að vera mislit og það gefur réttinum ævintýralegan blæ.

Setjið kjötið í skál og góðan hluta mauksins í skál. Notið tvo gafla til að rífa sundur meira bitana. Ef eitthvað af hjötinu lítur illa út (húð eða sinar) má setja það til hliðar til nota síðar. Bætið grísku jógúrtinni út í og blandið öllu saman. Allt fer síðan í útflattan bing ofan á hrísgrjónin á stóra fatinu. Síðan er berja-, möndlu- og kryddblöndunni dreift yfir kjötið.

Ef eitthvað vantar upp á litríkið má skera ofurlítið af kóríander og steinselju til að setja ofan á alla dýrðina. Afgangur af steikingarmauki má nota sem viðbótarsósu. Setjið þá ofurlítið af grískri jógúrt út í og hrærið.

Þessi frábæri réttur er góð útgáfa af lambakjötsrétti. Guli saffranliturinn minnir á að dauðinn dó og lífið lifir. Sem sé páskar allt árið.

Þökkum Drottni, því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen.

Þingvallakirkja

Þingvallakirkja er smá en lykill að dyrum hennar er stór. Helgistaðurinn Þingvellir eru stórir en kirkjan er miðjan. Kirkjan var reist sumarið 1859 og vígð á jóladegi sama ár. Kirkjusmiður var Eyjólfur Þorvarðarson frá Bakka á Kjalarnesi en hann smíðaði einnig kirkjuna í Brautarholti á Kjalarnesi. Þingvallakirkja er með bindingsverki og í sama stíl og flestar timburkirkjur frá miðri 19. öld. Listasúð er á kirkjunni að utan, en spjaldaþil innan stokks. Þegar von var á konunungi árið 1907 var smíðaður nýr turn á kirkjuna. Fyrstu áratugina var kirkjan bikuð að utan, en var máluð á síðasta áratug 19. aldar. Mætti huga að bikun að nýju þegar kirkjunni verður næst gert gott til.

Úttekt 1860

Í úttekt á hinni nývígðu Þingvallakirkju segir í prófastsvísitasíu frá 1. júlí 1860: „Kirkjan er tæplega eins árs, vel byggð úr eintómu timbri. Hún er á lengd rúmar 12 álnir og á breidd rúmar 8 álnir, stafasætin 3 3/4 ál. í 5 stafgólfum. Sætisstofa í þremur fremri stafgólfum, en íbjúg súðshvelfing yfir þeim tveim innri. Hún er þiljuð innan súþarþili  til hliða í brúnása, innri gaflinn upp undir hvelfingu en fremri gaflinn upp undir bita. Altarið er lágaltari. Knéfallið er að ofan fóðrað með grænu klæði… …Til kirkjunnar er allt sem vandaðast og pryðilega frá öllu gengið.“

Besta umsjón og umhirða

Fimm árum síðar eða 1865 var lögð rennisúð á kirkjuna og turninn. Þá var turninn klæddur með timbri, en hafði áður verið varinn með þakdúk, sem reyndist illa og hefur væntanlega lekið. Næstu ár er í vísitasíugerðum sagt, að kirkjan sé góðu ástandi og njóti bestu umsjónar og umhirðu, enda hefur hún sjálfsagt notið þess að prestsaugun voru á kirkjunni og ferðamenn gistu í henni! Við úttekt vegna prestaskipta 1879 (sr. Símon Beck lést og sr. Jens Pálsson tók við embætti) sjá úttektarmenn enga galla. En tveimur árum síðar var farið að bera á fúa í listum.

Árið 1884 var gert við kirkjuna. Allt ytra þakið var tekið af henni, einnig allt innra þakið á suðurhlið og nokkuð af innra þakinu á norðurhlið. Var það timbur sem ekki var fúið síðan notað og nýju bætt við. Þá var einnig rifið það af turni, sem var rotið og fúið. Turnþak, turnveggir og allt kirkjuþakið voru þakin norskum spæni.

Árið 1890 var farið að ræða um að mála þyrfti kirkjuna. Ætlunin var að drífa í því strax það sumar. En ekki varð þó úr fyrr en þremur árum síðar, rétt fyrir vísitasíu Hallgríms Sveinssonar biskups árið 1893. Yfirvofandi biskupskoma hefur gert mörgum kirkjum gott. Í vísitasíugerð segir, eftir að getið er nýmálunar m.a.: „Kirkjan er yfirhöfuð lekalaus og í allgóðu standi. Þó vottar fyrir bilun á gólfslám í kórnum, sömuleiðis er grundvöllurinn ókalkaður og sumsstaðar dálítið bilaður og þyrfti að bæta úr því innan skamms.”

Þingvallakirkja skekktist í skjálftunum árið 1896. Þá fór að bera á fúa og hafði prestur góð orð um, að hann ætlaði að járnverja kirkjuna á næstu árum. Fyrir vísitasíu 1901 var grunnur steinlímdur, gert við bilanir á suðurhlið og austurgafli og þá var farið að járnverja því suðurhliðin var komin með járn. Þó spónn hafi verið farinn að bila eftir 17 ára álag var kirkjan lekalaus við aldamótin 1900. Á næstu árum var svo bætt við þakjárni utan á kirkjuna. Kirkjan var því um tíma nokkuð sundurgerðarleg.

Laglegur Rögnvaldarturn

Þegar prófastur vísiteraði árið 1905 sagði hann að honum þætti kirkjan of sviplítil og lagði fram teikningar húsameistara ríkisins að kirkjuturni. Áætlunin var samþykkt og 9 álna hár turn var síðan byggður. Efst var „ … kúla og þar uppaf stöng og vindhani með ártali.” Ártalið 1907 var miðað við turngerðina og hefur síðan ruglað fólk um aldur kirkjunnar.Til að auka dýrðina var turninn málaður ljósgrár að neðan en rauður að ofan og “… er yfirleitt mjög laglegur.” segir prófastur í vísitasíugerðinnni.

Þrátt fyrir góða hirðu fór margt að bila á öðrum og þriðja áratug 20. aldar, en lítið var þó gert. Ástæðan var “dýrtíð og fátækt kirkjunnar.” Árið 1915 voru stokkar undir gólfi kirkjunnar eru orðnir lélegir og þröskuldur farinn að fúna. Fleira var að og metið svo, að ekki yrði undan viðgerðum vikist. Bætt er við „…ef kirkjan verði ekki endurbyggð bráðlega” svo ástandið hefur ekki verið gott. En kostnaður skyldi greiðast af landsfé, „ … þar sem kirkjan standi á svo fornfrægum stað.” Ekkert varð þó úr stórviðgerðum. Tillögur voru svo gerðar um að rífa kirkjuna og byggja “almennilega” kirkju úr steinsteypu. Úr þeirri framkvæmd varð þó ekki og dittað var að kirkjunni í tengslum við Alþingishátíðna 1930. Fyrir lýðveldisstofnun var að nýju rætt um hvort rífa ætti gömlu kirkju og byggja nýja, þ.e. úr steinsteypu. Mín skoðun er að Þingvallakirkju þyrfti að gera sem upprunalegasta í útliti, þ.e. bika hana, þótt halda mætti í turninn af arkitektúrsögulegum ástæðum.

Hver á kirkjuna?

Þingvellir voru lén (beneficium) og sátu prestar Þingvallastað, líklega allt frá elleftu öld. Eftir að 1928-lögin um helgistaðinn (þjóðgarðinn) Þingvelli tóku gildi hefur Þingvallanefnd farið með húsbóndavald á Þingvöllum. Ráðbreytingin ruglaði og ekki var ljóst hver réði hverju í málum kirkjunnar. Af varð reiptog milli heimafólks og Reykjavíkurvaldsins eins og það var stundum kallað. Oftast var þó góð samvinna þó stundum væri nuddað. Tilefnin voru ýmis, t.d. lýðveldishátíðin 1944 og hundrað ára afmæli kirkjunnar árið 1959, þröngbýli á prestsetrinu, sem Þingvallanefndarmenn hirtu oft ekki um, þegar nefndin réð fyrir einni burst bæjarins.

Árið 1962 var rætt á fundi sóknarnefndar hver ætti Þingvallakirkju og grafreitinn. Ákveðið var að skrifa biskupi til að fá úr þeim spurningum skorið. Tilefnið var m.a. hver ætti að sjá um viðhaldið og viðgerðir á kirkjunni. Þingvallanefnd hafði ráðist í framkvæmdir án samráðs við sóknarnefnd. Síðan hefur ríkisvald, þ.e. Þingvallanefnd, gætt þess að eiga góða samvinnu við heimafólk í Þingvallasveit. Hefur kirkjunni jafnan verið vel við haldið síðustu áratugina, málað hefur verið reglulega og gert við skemmdir.

Frá og með 1953 sátu prestar Þingvelli og allt til 1997. Þá yfirtók Þingvallanefnd, f.h. ríkisins, prestssetrið og breytti því í mótttökuaðstöðu forsætisráðherra og aðstöðu fyrir starfsmenn þjóðgarðsins. Lögin um þjóðgarðinn (frá 1928) breyttu ekki eignarstöðu Þingvalla. Þeir voru kirkjueign þótt lögin feli ríkinu umsjón. Þingvallalögin eru því lög um nýtingu fremur en um breytingu á eignarhaldi. Ríkið hefur í flestu verið góður ráðsmaður Þingvalla, en þarf að æfa sig reglulega í tillitssemi við eiganda staðar, kirkjuhússins, þjóðgarðs og Þingvallajarðar. Óbyggðanefnd vann ágæta skýrslu með úrskurði sínum um þjóðlendur í Árnessýslu. Nefndin kvað ekki upp úr með eignarhald Þingvalla. En ríkið eignast ekki kirkjulendur þótt því hafi verið falin ráðsmennska í nokkra áratugi.

Instrumenta et ornamenta

Predikunarstóllinn er frá 1683 en fríkkaður af Frank Ponzi á seinni hluta tuttugustu aldar. Árið 1883 var í vísitasíugerð getið, að kirkjunni hafi verið gefin klaka-öxi! Oddhaginn Einar Jónsson gerði skírnarsáinn, en kvenfélagið í hreppnum gaf hann kirkjunni. Tinfat, sem hékk á vegg og var notað við skírnarathafnir, hvarf úr kirkjunni nærri miðri 20. öld. Sögur fóru af hvarfinu og m.a. að það hafi verið notað sem púnsfat á heimili í Reykjavík. Orgel var fyrst keypt til Þingvallakirkju 1911 fyrir samskot safnaðarfólks og fyrir arð af tombólu.

Getið er í vísitasíu árið 1911, að altaristafla eftir Anker Lund hafi verið gefin kirkjunni, líklega 1896. Saga er að baki. Smekkur heimafólks í Þingvallasveit hafði breyst frá því Ófeigur Jónsson, Heiðarbæ, hafði smíðað töflu um 1834, gert liti og málað síðan altaristöflu. Ekki allir voru sáttir við hinn næfa stíl og hangikjöt á borði fyrir framan Jesú Krist. Að frumkvæði Kristjáns, bónda og hreppstjóra, í Skógarkoti var ný tafla hins afkastamikla málara Anker Lund keypt. Gömlu töflunni var svo komið í verð. Ferðagarpurinn Disney Leith, sem oft gisti í Þingvallakirkju, keypti hana og fór með til Englands. Hún gaf töfluna sem minningargjöf til sóknarkirkju sinnar, St. Peters, í Shorewell á Wight-eyju. Þar var hún og gleymdist flestum þar til farið var að undirbúa ellefu alda byggðarafmæli Íslands árið 1974. Eftir nokkra leit fannst hún og var gefin kirkjunni að nýju. Eftirgerð prýðir hina ensku kirkju, ljómandi vel unnin tafla og ástæða til að leggja krók á leið til eyjarinnar og vitja þessarar Þingvallasögu í Englandi. Báðar töflurnar, Ófeigs og Nasarenatafla hin danska Anker Lund, eru nú á austurgafli Þingvallakirkju.

Heimildir:

Máldaga-Inventaríi-og Reikninga-bók Þingvallakirkju frá 1829 – 1959.

Vísitasíugerðir biskupa: Pjeturs Pjeturssonar, 1874; Hallgríms Sveinssonar, 1893 og Þórhalls Bjarnarsonar, 1911.

Matthías Þórðarson, Lýðveldishátíðin,  m.a. bls. 271.

Skoðun Svavars Þorvarðarsonar og Aðalsteins Maack frá 3. nóv. 1989 (tilv. húsameistara K031191.STH.).

Um leitina að Ófeigstöflunni í Englandi og Disney Leith gerði Magnús Magnússon skemmtilega heimildarmynd sem er aðgengileg á youtube. Sjá https://www.youtube.com/watch?v=yKyGS6DsxSY

Meðfylgjandi myndir. Katla, Saga og Þórður uppáklædd til að fagna dr. Richard von Weizsäcker forseta Þýskalands 17. júlí 1992. Einkennismyndin er frá 1993 og Þórður er í fangi mér að fagna gestum. 

EXIT

Ég var sjö ára gamall. Vorið var komið og börnin í götunni voru úti. Það var fjör á Tómasarhaganum. Eldri strákar sem ég þekkti komu og vildu sýna okkur krökkunum inn í bílskúr við götuna. Það var galsi í hópnum og ævintýraleiðangur hófst. Strákarnir opnuðu skott á bíl sem þar var og einn úr hópnum sneri sér að mér og skipaði mér að að klifra upp í skottið. Ég hlýddi og þá var skottlokinu skellt aftur. Ég var strand í myrkrinu og æpti: „Sleppið mér út!En strákarnir hlógu. Svo heyrði ég að þeir fóru, lokuðu bískúrshurðinni og allt hljóðnaði. Á nokkrum mínútum hrundi tilveran. Ég hafði verið úti, í birtu og undir berum himni frelsis og gleði. Allt í einu var ég strand í myrkri og bjargarlaus. Ópin skiluðu engu. Ekkert skínandi exitmerki vísaði veg í myrkrinu. Engin neyðarútgangur og ógerlegt að opna læsingu á skottlokinu. Mér tókst ekki heldur að spyrna því upp. Ég vonaðist til að ég myndi finnast en hversu langan tíma myndi það taka? Myndi ég vera týndur í bílnum heila nótt? Hvað átti ég að gera? Ná í felgulykil og berja mig til frelsis, æpa þar til einhver heyrði? Eða bíða, hlusta og biðja um Guðshjálpina? Ég komst að því að það væri það eina sem ég gæti gert. Eftir klukkutíma í líflausri og illa lyktandi farangursgeymslunni kom einn af sökudólgunum og opnaði skottið. Hann hljóp svo burt. Ég brölti úr fangelsinu. Mikið var frelsið stórkostlegt, birtan undursamleg og súrefnið svalandi sem streymdi niður í lungun. Upprisa. 

Lokun

Innilokun er vond og getur valdið fólki djúptækum sálarskaða. Lokun getur verið með margvíslegu móti í lífi okkar manna. Við getum lokast í ofbeldissambandi eða í fangelsi fíkna. Vonska fólks getur farið illa með viðkvæmar sálir. Valdakerfi og hagsmunakerfi geta kramið. Áföll, veikindi og slys verða mörgum fjötrar. Kærleiksskert fólk kremur.

Oft hefur verið spurt hvað væri það hræðilegasta við það sem fólk túlkar sem helvíti? Svarið hefur löngum verið að þar væri engin neyðarútgangur, ekkert exit. Hið hræðilegasta af öllu skelfilegu erlokaður veruleiki. Dauðinn. Jesús var lagður í holu. Lífið var farið. Steini var velt fyrir hellismunnan. Engin útleið, engin flóttaleið, ekkert exit. Líkami Jesú var lokaður inni. Hann var þó ekki einn heldur í hlutverki sem fulltrúi allra manna. Í hinum fyrsta Adam voru allir menn og í Jesú voru sömuleiðis allir. Allt búið, engin útleið?

Út

Nútíma hús er svo gerð að fólk á ekki að geta lokast inni. Neyðarútgangar eru í byggingum, líka kirkjum. Til að leiðbeina fólki eru sett upp flóttaleiðarmerki. Á þeim er gjarnan mannvera á hlaupum. Þar er líka ör fyrir stefnu og oftast ljós reitur sem dyratákn. Svona merki eru líka í flugvélum og skipum. Merkin eru græn á Íslandi og í mörgum löndum erlendis en víða eru líka til rauð merki. Neyðarútgangur stendur á sumum hinna íslensku. Erlendis stendur gjarnan EXIT á merkjunum. Þau eru vegvísar sem er ætlað að leiðbeina þó dimmt sé, rafmagn farið og reykur fylli hús.

Flóttamerkin eru til að hjálpa í neyð. Þeim má treysta og stefnan út úr ógninni er gefin. En hvað um þegar við rötum í andlegar ógöngur? Eru til einhver græn leiðarmerki sem vísa veg? Jesús Kristur var ekki haminn af neinum festum. Grafhvelfingin hélt honum ekki föngnum. Dauðinn dó en lífið lifir. Opnun er einkenni lífs. Trúin sér í Jesú Kristi leiðina út úr heftingum. Ekkert myrkur er honum of myrkt, enginn sálarkreppa er honum ofraun. Engin ástarsorg er honum ókunn. Ekkert vinnupuð er honum framandi. Ekkert ofbeldi er honum fjarlægt. Hann er við hlið fólks í skottum lífsins, í hellum sorgarinnar og í lífleysu vonskunnar. Hann heldur í hendi okkar þegar við dettum, tekur á móti þegar við hrösum. Við erum laus úr skottinu því Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn. 

Páskar 2021