Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Lasarusar heimsins

Lasarus Biblíunnar á sér marga nafna í heiminum. „Litli Lasarusinn minn“ segja sumir ástríkir foreldrar við veik börn sín. Og dýraeigendurnir skrifa á facebook að litli lasarusinn sé veikur – og eiga þá gjarnan við kisa eða hvutta. Lasarusarnir eru víða. Meira að segja í Hallgrímskirkju, fyrir framan skrifstofur prestanna, er Lasarus. Hann birtist í litríkri og glæsilegri mynd Karólínu Lárusdóttur, sem sýnir Biblíupersónuna Lasarus í Betaníu. Sá Lasarus er fyrirmynd og forveri flestra Lasarusa heimsins og er frægur fyrir að hafa dáið en síðan lifnað við. Á mynd Karólínu sést Lasarus koma út úr gröf sinni og Jesús tók á móti honum með uppréttar hendur. Ættingjar hins lifnaða Lasarusar standa forviða hjá og svo er fólk og pálmar í bakgrunni. Guli eyðimerkuliturinn sýnir þurrt og heitt umhverfið. Myndin er áhugaverð og minnir á að lífið er sterkara en dauðinn. Lasarusar eru til lífs. Lasarusarsögur er endurfæðingarsögur.

Lasarus – vinur Jesú

Í texta þessa sunnudags er sagt frá hinum upprunalega Lasarusi. Í guðspjöllunum eru reyndar til tveir menn með því nafni og þeir hafa ekki verið sami maðurinn. Annar er betlari í kennslusögu Jesú um hvað væri alvöru ríkidæmi og gott líf. En svo er það hinn Lasarusinn og sá var ekki bara sögupersóna heldur raunverulegur maður og vinur Jesú. Hann bjó í þorpinu Betaníu sem var um þriggja kílómetra fjarlægð frá Jerúsalem. Þau bjuggu þrjú saman, hann og systur hans sem hétu Marta og María. Marta hefur síðustu áratugina oft verið nefnd Martra Smarta. María var hin systirin, ein af nokkrum Maríum í guðspjöllunum en Betaníu-María var hvorki móðir Jesú né María Magdalena. Systkinin í Betaníu voru öll vinir Jesú og hann kom því reglulega við hjá þeim þegar hann var á ferð. En svo dó Lasarus skyndilega og fyrir aldur fram. Jesús var fjærri þegar hörmungarnar dundu yfir en kom svo þremur eða fjórum dögum eftir útförina. Jesús harmaði vin sinn og grét. En svo varð atburðarás sem Jóhannes guðspjallamaður segir af íþrótt sagnamannsins. Það er ofursaga um mann sem dó og var færður í gröf sína. Þrátt fyrir líkur og lögmál lifnaði líkið við og Lasarus kom fram úr gröf sinni, lifandi í líkklæðum. Endurfæddur.

Trailer um Jesú

Sagan er stíliseruð og þegar grannt er skoðað virðist hún ekki aðeins vera um vin Jesú heldur jafnvel fremur um hann sjálfan. Sagan er eiginlega bæði spegilsaga – með efnisatriðum sem eiga við um meistarann, en líka kjörnuð spásögn um líf, dauða og upprisu Jesú. Sagan um Lasarus er nánast eins og kynning á upprisuferli Jesú, eins og trailer um Jesú, stytt útgáfa til kynningar á aðalmálunum. Lasarus gefur til kynna hver Jesús Kristur er. Hann væri Guðs, ofurmaður, ofurheilari, lífsmátturinn. Lasarus sem var sprelllifandi vinur dó í blóma lífsins – en lifnaði aftur. Endurfæðingin, upprisan, verður þar sem Jesús Kristur fær að lífga.

Við vitum ekkert meira um þennan holdgaða uppvaking. En af því guðspjöllin eru fámál um framhaldið hafði ímyndunarafl fólks aldanna heilmikið að spinna úr. Því eru til fjölmargar sögur um hvað varð um Lasarus. Ein er að stjórnvöld landsins hefðu ætlað sér að koma honum í gröfina að nýju. Hann hefði því orðið að flýja því það gekk ekki að maður sem hefði verið dauður gengi um. Ein sagan segir að hann hafi orðið biskup lærisveina Jesú á Krít. Svo er líka til helgisögn um að Lasarus hafi farið alla leið til Marseille í Frakklandi og orðið þar fulltrúi Jesú og kirkjuleiðtogi. Svona sögur urðu til vegna þess að helga varð kirkjustarf í dreifingunni við Miðjarðarhaf. Og það var auðvitað betra að stofnandinn eða leiðtoginn hefði verið vinur Jesú. Það gaf vægi.

Áhrifasagan

Sem sé ekki bara Marta smarta, María milda heldur líka Lasarus líflegi og tvílífi. Áhrifasagan er mikil í tvö þúsund ára sögu kristninnar. Ekki bara er talað um litla Lasarusa. Fjöldi málara hefur málað Lasarus. Söngvar, sálmar og ljóðflokkar hafa verið samdir og sungnir. Meira að segja David Bowie notaði stefið um Lasarus í söng sem hann flutti skömmu fyrir dauða sinn. Dostojevsky fjallaði um Lasarus, líka Herman Melville í Moby Dick. T.S. Eliot ljóðaði um hann. Svo kemur Lasarus víða fyrir í afþreytingarefni síðustu áratuga, kvikmyndum og þáttaröðum,  Casper, X-files og tímaritum um Batman. Og alls konar efni ber nafn Lasarusar. Einn þátturinn í Designated Survivor ber nafn hans. Jafnvel í steingervingafræði er nafnið Lasarus notað um þá steingervinga sem koma fyrir eftir að lífverurnar hefðu átt að vera útdauðar. Sem sé þessar sem lifðu lengur en þær áttu að hafa möguleika á. Áhrifasaga Biblíunnar er þykk og margvísleg og Lasarusarstefið er um að dauðinn dó en lífið lifir. Við menn erum Lasarus og kannski allt lífríki sköpunarverksins líka. Hvað um endurlífgun þess?

Stóri Lasarus?

Síðustu daga – þegar ég hef verið að horfa á fallegu Karólínumyndina – hefur sagan um Lasarus fléttast saman við umhverfisáherslur kirkjuársins. September og fyrri hluti október er tími hinnar grænu kirkju. Þjóðkirkja íslands – eins og margar stóru kirkjudeilir heimsins minna á – að sköpunarverkið, jarðarkúlan okkar, líður. Hún er orðin Lasarus, veikluð vegna skeytingarleysis, græðgi og spillingar. Jesús Kristur stóð alltaf með lífinu og kirkja hans þiggur þá afstöðu í arf, játar mistök sín og syndir og reynir að taka sönsum og kallar til endurfæðingar, til nýrrar vitundar um stóru verkefnin; standa með fátækum; tryggja mannréttindi, réttlæti, frið og velsæld allra. Kirkjurnar hafa játað og kennt að við menn erum meðábyrgir fyrir heimshlýnun og mengun vatna heimsins. Okkar sök er plastúrgangur sem ekki aðeins drepur lífverur hafsins, heldur er farinn að berast í blóðrás fóstra í móðurkviði og í mjólk mæðra sem gefa börnum sínum brjóst. Allt í einu sá ég Lasarus líka í náttúrunni.Mengunin er alls staðar og sjúdómurinn versnar. Þessi fallega náttúra er sjúk vegna aðgerða okkar manna. Ef ekkert verður að gert mun hún smátt og smátt deyja. Hún er orðin Lasarus, vinur Jesú, en dauðvona.

Ég man eftir því að þegar ég var barn og lá heima í flensu kom mamma stundum að rúminu mínu og sagði blíðlega við mig: „Litli Lasarusinn minn.“ Einhvern tíma mótmælti ég ávarpinu og sagði henni að ég héti ekki Lasarus og vildi ekki vera litli Lasarus. Mamma benti mér þá vinsamlegast á að Lasarus í Biblíunni hefði verið mjög lasinn, hann hefði meira að segja dáið en samt hefði hann fengið nýtt líf. Lasarusar heimsins hefðu möguleika og von. Svo bætti mamma við að Guð gæfi okkur líf, heilsu, blessun og endurfæðingu. „Litli Lasarusinn minn.“ Ég sá samhengið að við værum í góðum höndum og fannst jafnvel að mér liði heldur skár. En náttúran er ekki litli Lasaarusinn heldur stóri Lasarusinn. Við viljum ekki að fyrir henni fari eins og Lasarusi í Betaníu, að hún þurfi að deyja til að lifna aftur því sá dauði væri dauði alls lífs. Guð sem faðir og móðir elskar litla Lasarusa og þann stóra líka. Ef Lasarusarsagan var trailer um Jesú er saga Jesú um veröldina líka. Við erum aðilar að mengun sem krossfestir og útrýmir dýrategundum og plöntutegundum. En okkar hlutverk er að vinna með Guði svo stóri Lasarus lifi og hressist. Nú erum við kölluð til að næra lífið en ekki dauðann – ganga erinda lífsins og þar með Guðs.

Amen. Prédikun í Hallgrímskirkju, 19. september, 2021. Þriðja textaröð. Choir of Clare College í Cambridge söng í athöfninni. Myndin meðfylgjandi er ljósmynd mín af Karólínumyndinni. 

Lexía: Job 5. 8-11, 17-18
Ég mundi leita til Guðs
og leggja mál mín fyrir hann
sem vinnur ómæld stórvirki,
kraftaverk sem ekki verður tölu á komið.
Hann gefur jörðinni regn
og sendir vatn yfir vellina.
Hann upphefur smælingja
og syrgjendum verður hjálpað.
Sæll er sá sem Guð leiðbeinir,
sá sem hafnar ekki ögun hins almáttka
því að hann særir en bindur um,
hann slær en hendur hans græða.

Pistill: Fil 1.20-26 
Það er einlæg löngun mín og von að ég verði ekki til smánar í neinu, heldur að ég hafi þann kjark nú eins og ávallt að sýna með lífi mínu og dauða fram á hve mikill Kristur er. Því að lífið er mér Kristur og dauðinn ávinningur. En eigi ég áfram að lifa á jörðinni, þá verður meiri árangur af starfi mínu. Ekki veit ég hvort ég á heldur að kjósa. Ég á úr tvennu vöndu að ráða: Mig langar til að fara héðan og vera með Kristi því að það væri miklu betra. En ykkar vegna er nauðsynlegra að ég haldi áfram að lifa hér á jörðu. Og í trausti þess veit ég að ég mun lifa og halda áfram að vera hjá ykkur öllum, ykkur til framfara og gleði í trúnni. Þá kem ég aftur til ykkar og þið finnið enn betur hvílík upphefð það er að fylgja Kristi.

Guðspjall: Jóh 11.32-45
María kom þangað sem Jesús var og er hún sá hann féll hún honum til fóta og sagði við hann: „Drottinn, ef þú hefðir verið hér væri bróðir minn ekki dáinn.“ Þegar Jesús sá hana gráta og þau gráta, sem með henni komu, komst hann við, varð djúpt hrærður og sagði: „Hvar hafið þið lagt hann?“ Þau sögðu: „Drottinn, kom þú og sjá.“ Þá grét Jesús. Þau sögðu: „Sjá, hversu hann hefur elskað hann!“ En nokkrir sögðu: „Gat ekki sá maður sem opnaði augu hins blinda einnig varnað því að þessi maður dæi?“ Jesús varð aftur mjög djúpt hrærður og fór til grafarinnar. Hún var hellir og steinn fyrir. Jesús segir: „Takið steininn frá!“ Marta, systir hins dána, segir við hann: „Drottinn, það er komin nálykt af honum, það er komið á fjórða dag.“ Jesús segir við hana: „Sagði ég þér ekki: Ef þú trúir munt þú sjá dýrð Guðs?“ Nú var steinninn tekinn frá. En Jesús hóf upp augu sín og mælti: „Faðir, ég þakka þér að þú hefur bænheyrt mig. Ég vissi að sönnu að þú heyrir mig ávallt en ég sagði þetta vegna mannfjöldans sem stendur hér umhverfis til þess að fólkið trúi að þú hafir sent mig.“ Að svo mæltu hrópaði hann hárri röddu: „Lasarus, kom út!“ Hinn dáni kom út vafinn líkblæjum á fótum og höndum og með sveitadúk bundinn um andlitið. Jesús segir við fólkið: „Leysið hann og látið hann fara.“ Margir Gyðingar sem komnir voru til Maríu og sáu það sem Jesús gerði tóku nú að trúa á hann.

11. september

„Pabbi. Hvar varstu þegar flugvélarnar flugu á tvíburaturnana í New York og Pentagon?“ Sonur minn settist niður með okkur foreldrum til að spyrja um minningar, líðan, stað og túlkun á skelfilegum atburðum sem urðu 11. september 2001. Nú eru liðin tuttugu ár frá flugránunum og voðaverkunum. Staður og stund eru brennd í hugann. Þegar stórviðburðir verða læsast minningar gjarnan í huga – maður man hvar maður var, hvernig litir í umhverfinu voru, hvaða hljóð hljómuðu og hvernig líðanin var. 

Árásin á Bandaríkin

Minningarnar komu með hraði. Við vorum í Rethymno á Krít. Það var ógnvekjandi þegar íslenskur nágranni okkar kom hlaupandi og æpti skelfingu lostinn: „Rússarnir voru að ráðast á Bandaríkin.” Tíðindin voru ótrúleg, ég átti bágt með að trúa að Rússarnir væru dólgarnir en gerði mér grein fyrir að eitthvað hræðilegt hefði orðið. Svo ég settist við sjónvarpið og horfði stjarfur á skjáinn. Eitthvað dó hið innra og annað kom, kjánaöryggið fór og friðarsóknin fæddist. Heimurinn var breyttur. Í fyrsta sinn í marga áratugi hafði vopnum verið snúið gegn Bandaríkjunum með öflugum hætti. Islam var notað sem ástæða árasar, tylliástæða.

Kristni og Islam

Á þessum minningardegi er vert að staldra við. Hver eru tengsl kristni og Islam? Hvernig eigum við fólk af ólíkum toga, uppruna, gildum og trú að búa og lifa saman í framtíðinni? Viljum við að stríðs- og ofbeldissaga eigi sér framhaldslíf? Eða getum við bætt samskipti fólks í framtíð svo atburðir af þessu tagi verði ekki endurteknir og fyrirbyggjandi aðgerðir verði í samskiptum til að betur verið lifað? Er Islam framtíðarógn? 

Árið 1990 sat ég með kunningja mínum á kaffihúsi í Tallinn í Eistlandi. Þá voru Sovétríkin enn til. Kommúnisminn hélt hernámsþjóðum sínum í heljargreipum og ástandið í baltnesku ríkjunum var brothætt. Mikill spenna var milli fólks af rússneskum uppruna og hinna, sem voru af Eistar að uppruna. Rússneskir unglingar, fulltrúar herraþjóðarinnar, fóru um Tallin, með ofbeldi. Löggæslan var í molum og unglingagengið rændi og barði alla sem fyrir urðu, útlendinga sem Eistana. Það var beinlínis hættulegt að fara aleinn um miðborg Tallinn, jafnvel um hábjartan dag. Félagi minn á kaffihúsinu benti á gengið og sagði: „Þau eru bara að nýta sér aðstæður, sem eru að hverfa. Þó mér sé ekki vel við Rússana held ég að þeir verði tannlausir í heimsmálunum. En það eru múslimarnir og Islam sem verða framtíðarógn heimsfriðarins.“ Og bætti hann við „Rússland mun ekki skelfa neinn – Sovétríkin eru að baki og kalda stríðið er að þiðna.“

Orðin frá Tallinn leituðu á huga minn þegar ég sat við skjáinn og sá seinni vélina fljúga á tvíburaturninn í New York. Það var ekki hægt að kenna Islam um djöfulæði Osama bin Laden eða þeirra, sem drápu flugmenn, farþega, sjálfa sig og fólk í turnum. Mörg hryðjuverk og stríð heimsins tengjast múslimum eða eru rökstudd með vísan í Islam. Allt verður þetta til að grýlugera Islam og efna til óvinagerðar, þ.e. að gera múslima að “hinum” – þessum hættulegu, að óvinum. Og svo kemur jafnan í kjölfarið áróður um að kristin Vesturlönd eigi í stríði við múslimskan hluta heimsins. Þetta eru klisjur til stuðnings hernaði vestrænna þjóða og það er þannig málflutningur sem illmennið notaði til að réttlæta voðaverk sín í Osló og Útey í Noregi. Enginn skyldi hrapa að ályktunum og einfeldningslegum niðurstöðum í svo flóknu máli. En enginn skyldi heldur vera kjáni í trúarefnum heldur.

Stríðandi Islam

Islam er áberandi í heimsfréttunum, en þó eru þau sem teljast til þess átrúnaðar aðeins fimmtungur mannkyns. Talsverður hluti stríða síðustu árin hefur verið í nafni Allah. Er allt fylgjendum spámannsins Múhameðs að kenna? Ef við hugum að nærumhverfi okkar er hlutur múslima íhugunar virði. Af 350 hryðjuverkum í Evrópu hafa þeir vissulega komið við sögu.

3% og alhæfingar

Ég spurði fermingarbörnin eitt sinn hve hátt prósentuhlutfall voðaverka í okkar heimshluta væri hægt að kenna múslimum. Þau giskuðu á múslimar ættu aðild að helmingnum, en staðreyndin er þó, að aðeins 3% hryðjuverka í Evrópu er hægt að kenna fylgjendum Islam. Það eru hins vegar alls konar þjóðernissinnar og fulltrúar menningarkima, sem vinna megnið af ódæðisverkunum. Það merkir, að við eigum að fara okkur hægt í að fella dóma um, að múslimarnir séu vondir. Þeir eru ekki verri en aðrir, ekki verri en við. Það er ekki átrúnaðurinn sem er orsökin heldur átakakúltúrinn sem magnaður er þar sem spenna ríkir milli þjóðarbrota og menningarkima. En trú er af vondum mönnum oft notuð sem áróðurstæki.

Hvaða gildi? 

Kristnin hefur lagt áherslu á manngildið en það gera sanntrúaðir múslimar líka. Friðarsókn og virðing fyrir lífinu er í grunni allra trúarbragða heimsins. Kristnir vilja ekki hryðjuverk og ofbeldi, en það vilja múslimarnir ekki heldur. En það eru hins vegar aðstæður víða í hinu múslimska samfélagi, sem valda óróa og við þeim verður að bregðast. Vestræn ríki hafa margar skyldur í stjórn heimsmála og verða að bregðast við með yfirveguðu viti. Leiðarstjörnur þess vits eru trúarlegar og siðferðilegar. Meðal þeirra eru manngildi og réttur einstaklinganna, sem við Vesturlandamenn ættum að verja, sem og höfuðgildi hinnar kristnu hefðar. En mörg stríð eru háð vegna hagsmuna og fjármuna, en ekki vegna ástar á manngildi og verndun mannréttinda. 

Ræktun friðar

Friður nær fremur að haldast þegar fólk kynnist, deilir kjörum, talar saman og reynir að skilja menningu, þarfir, áherslur, gildi og vonir. Vegna átaka hafa trúarleiðartogar kristinna og múslima reynt að lægja öldur og lina spennu víða um heim. Í krepptum aðstæðum t.d. í Egyptalandi, Nígeríu, Skotlandi og Indónesíu hafa hófsamir reynt að hemja hina herskáu og mynda stuðpúða á milli. Í Noregi stóðu múslimar og kristnir saman að útför eftir drápin í Útey. Í Jerúsalem hafa Gyðingar, kristnir og múslimar bundist samtökum til að létta spennu og plægja friðarakurinn. Heimsráð kirkna, Lútherska heimssambandið og ýmis samtök kristinna kirkna hafa víða um heim beitt sér fyrir samræðu til friðar. Ofbeldið skilar aldrei lausn heldur magnar og skemmir. Þegar fólk deilir kjörum og talar saman fæðist friður. 

Heima

Heimsmálin eru eitt og viðbrögð okkar á heimaslóð eru annað. Íslendingar eiga að láta kristin og mikilvæg vestræn gildi stýra för. Við höfnum og eigum að hafna kúgun kvenna, sem meðal annars hefur birst í hryllilegum heiðursmorðunum. Við eigum að bregðast hart við öllum ofbeldisseggjum og koma þeim undir manna hendur. Við þörfnumst fræðslu um grunngildi samfélags og trúar og ræða þau sem víðast. Við eigum að veita innflytjendum möguleika á að bera saman gildin í gamla landinu og hinu nýja og læra að skilja hvað er rétt og hvað ekki, hvað er leyfilegt og hvað ekki. Orð eru til alls fyrst. Samtöl og samskipti tengja.

Yfirborðslegt frjálslyndi er ekki gæfulegt í samskiptum fólks með ólíkan bakgrunn. Við þurfum að stuðla að sem flestir kynnist menningu innflytjenda, siðum og trú – og öfugt. Og skólarnir eiga að vakna til vitundar um skyldu sína í þeim efnum. Skólayfirvöld og opinberir aðilar verða að gera sér grein fyrir að við þurfum jákvætt trúfrelsi í landinu en ekki neikvæðni sem elur af sér ótta og tortryggni. Jákvætt trúfrelsi hvetur til að fólk læri að meta fjölbreytileika og hræðast ekki átrúnað og menningu annars fólks. Neikvætt trúfrelsi er það þegar reynt er að banna trúartákn og trúariðkun í almannarýminu, banna búrkur og krossa og trúariðkun á opinberum vettvangi. Neikvætt trúfrelsi skddar samféag manna, samskipti og eðlilegan fjölbreytileika. En jákvætt trúfrelsi elur á umburðarlyndi og gleði yfir að lífið er litríkt. 

Ógnin og ábyrgðin 

Það kom í ljós að spádómsorð vinar míns í Tallin rættust um Islam og múslímsk áhrif. Flogið var á tvíburaturnana. Árásin varðaði ekki bara Bandaríkjamenn heldur allan heiminn. Fólkið sem dó, um þrjú þúsund manns, var frá um níutíu þjóðlöndum. Árásin varðar heimsbyggðina og líf okkar allra. Raunar flugu þessar flugvélar ekki aðeins inn í turnana heldur inn í okkur börn jarðar. Bláeygri tíð lauk og við erum kölluð til að horfa opineyg og raunsæ á aðstæður erlendis og heima. Forðumst einfeldningslega túlkun af því tagi sem gerir fólk af annarri trú að hinum, að vondu fólki, óvinum. Temjum okkur þá almennu nálgun að fólk sem er “öðru vísi” hefur sama rétt og auðvitað sömu skyldur og við. Viðurkennum því að múslimar eru manneskjur með líka getu og sömu þrá og við hin. Verum umhyggjusöm, höfnum vitleysunni, hryllingnum og ofbeldi. Iðkum kærleika, leggjum okkar lóð á vogarskálar og gerum það með óttaleysi og umhyggju fyrir fólki. Leyfum flaugum elskunnar að fljúga um heiminn. Þannig verkar Guð.

(byggt á hugleiðingu í Neskirkju 11. september 2011)

Jóhannes Pálmason heiðraður

Á aðalfundi Hallgrímssafnaðar, sunnudaginn 5. september síðastliðinn, var Jóhannes Pálmason heiðraður sérstaklega. Jóhannes hefur þjónað sóknarnefnd Hallgrímskirkju lengur en allir aðrir nefndarmenn frá því sóknin var stofnuð fyrir liðlega áttatíu árum. Jóhannes var formaður sóknarnefndar í þrjá áratugi. Hann hefur nú látið af störfum sem formaður og framkvæmdanefndarmaður. Við formennsku tók Einar Karl Haraldsson. Vegna óska starfsfólks og sóknarnefndarfólks verður Jóhannes þó áfram sem varamaður í sóknarnefnd næstu tvö ár. Í ávarpi mínu á aðalfundinum sagði ég meðal annars: „Jóhannes hefur verið öflugur leiðtogi sóknarnefndar og haft afskipti af öllum helstu stórmálum Hallgrímskirkju. Hann var lykilmaður sögu Hallgrímskirkju í áratugi, m.a. við stjórnvölinn þegar Klaisorgelið var keypt og unnið var að stórviðgerð á turni kirkjunnar, lóð kirkjunnar mótuð og Hallgrímstorg gert og haldið áfram með frágang kirkjuhússins. Jóhannes kom rekstri, fjármálum og skipulagi í stjórnýslu kirkjunnar í gott horf sem og skjalamálum og skjalageysmlu. Hann beitti sér fyrir að sóknarnefnd fundaði reglulega og skipulega. Hann opnaði sóknarnefnd og tryggði að varamenn væru kallaðir til funda og öxluðu ábyrgð sem fullveðja sóknarnefndarmenn en ekki aðeins menn til vara. Jóhannes hefur alla tíð verið öflugur samstarfsmaður prestanna og starfsfólksins, hlustað vel á skoðanir samstarfsfólks og beitt sér fyrir að fé væri til eiginlegra kirkjustarfa en færi ekki allt í steinsteypu, tæki og viðgerðir. Hann hefur reynt hugmyndir, spurt opinna spurninga þegar álitaefni komu upp og þorði líka að segja nei þegar illa áraði. Jóhannes er hugsjónamaður og hefur alla tíð þorað að hugsa stórt, heimilaði stórvirki og studdi ötullega kirkjustarfið og þmt listastarfið. Starf í sóknarnefnd er ólaunað sjálboðastarf. Í Hallgrímskirkju er formennska krefjandi og afar tímafrek vegna umfangs þjónustu kirkjunnar. Það var Hallgrímssöfnuði og Hallgrímskirkju mikil gæfa að Jóhannes Pálmason leiddi starf sóknarnefndar í þrjá áratugi á miklum uppbyggingartíma. Lof sé honum og þökk sé Jóhönnu Árnadóttur konu hans fyrir stuðning og störf í þágu kirkjunnar. Í starfi Jóhannesar Pálmasonar hefur verið gjöful guðsþjónusta.“

Og persónulega vil ég bæta við að Jóhannes Pálmason hefur verið í öllum okkar samskiptum einstaklega gjafmildur, öðlingur, hreinskiptin, skemmtilegur, hvetjandi og hugumstór. Nafnið Jóhannes merkir að Guð er góður, náðugur. Og Jóhannes hefur í störfum og lífi verið öflugur guðsmaður. Lykilmaður í sögu Hallgrímskirkju. Takk Jóhannes. 

Fegurst í heimi

Er Hallgrímskirkja falleg kirkja? Hvað sýnist þér? Þegar þú horfir í kringum þig, inn í kór, upp í hvelfingarnar, hver er þá niðurstaðan? Er kirkjan fögur? Hvað finnst þér um staðsetningu kirkjunnar í borgarlandslaginu? Hvernig líkar þér þegar þú kemur frá Keflavík og sérð Hallgrímskirkjuturninn og kirkjuskipið nánast sigla ofar borginni? Í vikunni keyrði ég um Kjalarnesið og mér þykir alltaf heillandi þegar Hallgrímskirkjuturn ber nákvæmlega við Keili. Þá verður samstilling formanna og kraftanna.

Hvað er falleg kirkja? Fegurð má vissulega skilgreina með margvíslegu móti og frá öðrum sjónarhólum en hinum fagurfræðilegu – estetísku. Er Hallgrímskirkja falleg? Kirkjuhúsið kitlar augu margra. Ljósflæðið hrífur og formfegurðin líka. Mörgum þykir kirkjan vera bæði fjarskafögur og innanfögur. Arkitektaskólar eru farnir að senda fólk til Íslands til að skoða kirkjuna og byggingarlist Guðjóns Samúelssonar. Mörgum í sókninni þykir vænt um kirkjuna og eiga dýrmætar minningar héðan um stóratburði lífsins, skírnir, fermingar, giftingar og útfarir og minnast annarra hátíða og viðburða. Sum þeirra tala líka um hvað það hafi verið gaman að klifra í stillönsunum. Fjöldi Íslendinga, utan sóknar, sækir þjónustu til þessarar kirkju.

38

Meðal ferðafólksins er kirkjan vinsæl og aðdráttarafl. Fjölmiðlar heimsins og matsaðilar hafa lyft henni í hæðir topplistanna. Árið 2015 valdi t.d. hið heimsþekkta Architectural Digest Magazine Hallgrímskirkju eina af tuttugu fegurstu trúarbyggingum heims. Ári síðar útnefndi the Guardian kirkjuna sem eina af tíu mikilvægustu íhugunarhúsum í heimi. Ferðavefurinn Big Seven Tra­vel birt­ir ár­lega lista yfir fimm­tíu fal­leg­ustu bygg­ing­ar heims. Listi þessa árs, 2021, hef­ur nú verið birt­ur og Hall­gríms­kirkja er í 38. sæti á list­an­um. 127 þúsund ferðamenn tóku þátt í að raða á list­ann.Ekkert annað hús á Norðurlöndunum komst inn á hann. Sem sé Hallgrímskirkja er skv. þessum lista fegursta hús Norðurlanda. Mörgum þykir óperuhúsið í Sydney fagurt en Hallgrímskirkja er fyrir ofan það á listanum.

Hvað er falleg kirkja?

Fyrir nokkrum árum kom ég í Frúarkirkjuna í Kaupmannahöfn. Thorvaldsensskúlptúrar kirkjunnar eru hrífandi og gerð byggingarinnar er laðandi. Ég var á kirkjufundi í Kaupmannahöfn. Við stóðum saman uppi á svölum tveir samverkamenn í fjölþjóðlegum kirknasamtökum og ræddum um kirkjuna. Ég spurði vin minn, finnskan biskup: „Finnst þér þetta falleg kirkja?“ Hann horfði á mig hugsi, blikkaði augum meðan íhugaði spurninguna og svaraði svo brosandi og ákveðið: „Þetta er hús Guðs. Þetta er kirkja. Þar með er hún falleg.“ Ég spurði frá sjónarhóli fagurfræði og bygingarlistar og um smekk mannsins. En sá finnski svaraði guðfræðilega. Viðmiðið hans var trúarlegt. Það sem þjónar Guði er fallegt. Og slík er afstaða hins kristna. Það sem þjónar Guði, þjónar lífi, eflir gæði í lífi fólks. Og frá sjónarhóli Guðs er fallegt skilgreint róttækt. Við þurfum að temja okkur þennan trúarsnúning til að skerpa smekk, augu, skynjun, tengsl og túlkun. Hver er smekkur Guðs?

Hlutverkin og aðalmálin

Hallgrímskirkja er margt og gegnir mörgum hlutverkum. Hún er pílagrímastaður. Vegna þess að hún er orðin fræg um allan heim koma hingað ferðamenn. Hún er leiksvið ljóss og skugga og gott ómhús tónlistar. Í þessu hliði himins hefur fólk svo náð að tengja við uppsprettur lífsins, sjálft sig og verðandi tímans. Alla daga þegar kirkjan er opin sækir fólk í þetta hlé til að tengja við djúpið. Hér er gott að íhuga, gott samband. Það sem mikilvægast er að hér er Guð, friður, Andi Guðs. Við sem hér störfum gerum okkur grein fyrir mikilvægi þess að þjóna fólki, vera fólki útréttir armar himins, eyru hins hjálpandi kærleika, augu hins umhyggjusama. Hlutverkin eru margvísleg og flókin. Oft erum við ekki viss um hvaða leið eigi að fara. En þegar allt er skoðað og skilgreint er meginhlutverkið skýrt. Kirkjan er hús Guðs. Hún er falleg því hún þjónar því hlutverki að vera tengill Guðs og manna. Hún er ekki utan þjónustusvæðis heldur getur fólk tengt.

Smekkur Guðs

Smekkur fólks er mismunandi. Um gæði húsa hefur fólk og má hafa á mismunandi skoðanir.Við deilum ekki um smekk. En kirkjuleg fegurð varðar ekki aðeins útlit, efni, liti eða form, heldur fremur andlegan veruleika – að kirkja er hús Guðs. Það er aðalatriðið og skilgreiningaratriði sem er handan smekks einstaklinga og sprengir öll þröng og einstaklingsbundin viðmið. Guðsdýrkunin og guðstengslin skilgreina allt. Og það er raunar stórkostlegt að breyta um fegurðarskyn og merkingartúlkun, og læra að horfa á allt með hætti guðssýnarinnar, endurskoða gildi alls sem er í kringum okkur og í okkur líka. Ertu fallegur? Ertu falleg? Fegurðardrottning heimsins? Á topplistanum? Já, þannig horfir Guð á þig – þú ert djásn í heimi og lífi.

Alla daga og á öllum árum þarf kirkja Jesú Krists að fara yfir hvað er við hæfi í lífi kristninnar og þar með kirkjunnar. Er þjónusta við ferðamennina í samræmi við hlutverk kirkjunnar og hvernig megum við efla tjáninguna um að fólk sé elskað og Guð sé nær fólki en vitund og hjartsláttur þess? Er hægt að styrkja eitthvað í kirkjustarfinu til að þjóna betur hamingjuleit fólks á ferð? Geta sýningar, tónleikar, listin og reksturinn þjónað mönnum og Guði betur? Getum við bætt þjónustu við söfnuðinn með nýjum starfsþáttum og starfsháttum? Er mannahaldið í samræmi við að þetta er fallegt hús Guðs?

Mér þykir Hallgrímskirkja falleg kirkja, en fallegust er hún þegar hún verður því fólki sem sækir kirkjuna heilagur staður. Kirkja er hús fyrir samfélag, fyrir mikilvægustu söngva lífsins og bestu orð veraldar. Kirkja er veruleiki og samhengi þess að himin og jörð kyssast. Kirkjuhúsið Hallgrímskirkja er merkilegt byggingar- og menningar-sögulegt djásn, 38. fegursta hús heims skv. smekk fjölda ferðamanna. Ytri ásýnd kirkjunnar er mikilvæg en fegurð kirkjunnar verður best skilgreind í ljósi trúar og guðstengsla. Guð er fegurðin í fyllingu sinni. Allur heimur og allt líf þiggur fegurð og merkingu frá þeirri uppsprettu. Að húsið er hús fyrir bæn merkir að kirkjan er heitur reitur tengsla Guðs og manna. Þegar kirkja er vettvangur faðmlags Guðs og lífs er kirkja bænahús.

Hvað er fallegt og hvað er mikilvægt? Fólk getur metið hluti, málstað og fólk misjafnlega en í samhengi Guðs breytast öll viðmið. Menn eru misjafnt metnir í misvitru samfélagi fólks. En smekkur Guðs er annar og um hann verður ekki deilt heldur. Þegar Guð horfir er fólk fallegt. Guð býr ekki til lista yfir fallega fólkið og svo hina sem ekki eru falleg. Við erum elskuð, falleg, á topplista Guðs. Þegar Guð horfir á okkur erum við stórkostleg. Af hverju? Vegna þess að við erum Guðs börn. Já kirkja er falleg því hún þjónar Guði en svo er það makalausa að Guð elskar fólk meira en hús. Þú komst í fallegt hús en við megum vita að við í okkur býr fegurð himinsins. Þú ert fögur og fallegur því þú ert ástvinur Guðs. Já musteri Guðs.

Hallgrímskirkja 5. september. 14. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Aðalfundur Hallgrímssafnaðar. 

Dans vatnsins

Sólskinið kyssti okkur, skútufólk, á siglingu um sundin milli Koster og Strömstad í Svíþjóð. Skyndilega varð skýfall. Ofsarigning á sólskinsdegi og í skamman tíma. Þegar fossinn að ofan byrjaði kyrrði sjóinn. Öldugangurinn snarminnkaði þegar risadroparnir skullu á yfirborð sjávar og rugluðu sjávarbylgjurnar. Ofankoman stillti mátt að neðan og frá hlið, eins og jafnvægi kraftanna kæmist á, kannski til að dans vatnsins yrði sem bestur. Ekki aðeins menn, fuglar og dýr dansa. Vatn dansar líka á krossgötum samfundanna. Vatnsballettinn var hrífandi, samstilling allra krafta. Það er gömul, sprelllifandi speki Biblíunnar að til að lífið sé gott skuli kraftar samstillast. Við, menn, eru kallaðir til að beita okkur í þágu þeirrar samstillingar en líka gleðjast og hrífast þegar hún verður. Í þessum vatnsdansi fannst mér ég skynja húmor Guðs. Þetta var vitjun dagsins.