Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Jón Dalbú Hróbjartsson – afmæli

Þá dettur mér Jón Dalbú Hróbjartsson í hug þegar ég heyri góðs manns getið. Hann er velgerðarmaður minn og fyrirmynd. Í dag á Jón Dalbú afmæli.  Hann fæddist 13. janúar, 1947.

Ég hef þekkt hann frá því á sjöunda áratug síðustu aldar og notið leiðsagnar og vináttu hans þaðan í frá. Hann er ekki aðeins mannkostamaður, dugmikill, framtakssamur frumkvöðull og hugmyndaríkur leiðtogi heldur líka þroskaður trúmaður. Í honum býr hrein og hrífandi þjónustulund sem nýttist prestsþjónustu hans með einstöku móti og til eftirbreytni. Manngæska Jóns Dalbú hefur alla tíð blasað við öllum sem hafa kynnst honum. Góðvildin er honum gefin í vöggugjöf og uppeldi en hann ræktaði með sér einstaka mannvirðingu sem hrífur alla sem sjá gullið í fólki. Því hefur Jón Dalbú verið svo elskaður og farsæll í einkalífi og opinberum störfum. Hann þjónaði sem prestur í fjörutíu ár og gegndi afar mörgum ábyrgðarstörfum. Vegna mannvirðingar hans hefur hann alltaf lyft öðrum og lofað. Með hug og dug samfara mannelsku hefur Jón Dalbú alla tíð komið málum áfram og hvatt til stórvirkja. Svo er Jón Dalbú sérlega músíkalskur og vel spilandi píanóleikari. Kona Jóns Dalbú er Inga Þóra Geirlaugsdóttir, mannkostakona, sem hefur eflt mann sinn og hvatt til dáða með elskublik í augum.

Takk og til hamingju með daginn kæri vinur.  

Myndin er tekin þegar prestaskipti urðu í Hallgrímskirkju í lok árs 2014. Jón Dalbú lét af störfum eftir 17 ára þjónustu í Hallgrímskirkju  og ég hóf þjónustu 1. desember 2014. 

Ástríki

Róbert, prestur, kom til Íslands í fyrsta sinn eftir fjörutíu og fjögur ár erlendis til að jarðsyngja vinkonu sína. Saga hans og vina hans er um leitina að merkingu, hamingju, tengslum, sambandi og ást. Enginn er dæmdur í þessari sögu heldur eru mismunandi aðstæður fólks túlkaðar af hispurslausri mannúð. Í henni er hlý mýkt þótt söguhetjurnar hafi gert margt misjafnt í aðkrepptum aðstæðum.

Bókin er ástrík. Hún  er margþátta spennusaga en líka þroskasaga og glæpasaga. Flækjan er þétt. Allt á sér samhengi og aðrar og dýpri skýringar en hinar yfirborðslegu. Fjölskyldan á Sóleyjargötunni er væn og heimilið athvarf vinum dótturinnar á heimilinu. Bernska vinanna var erfið. Annar hafði misst föður og hinn fór á mis við pabba. Föðurleysið í sorg eða fjarveru er eitt af íhugunarstefjum þessarar bókar. Við Njarðargötu býr þýsk móðir annars vinanna og með mörg leyndarmál, mikla upphafssögu og líka ástarsögu. Svo er það MR, JB-vískí menntaskólaáranna og mótun í flóknum og ógnandi aðstæðum. Miðbæjarlífið var og er alls konar. Framtíð ungmennannan mótaðist af ytri og innri rökum. Einn fór eftir stúdentsprófið til náms í kaþólskum prestaskóla í München, annar í lögfræði og ein í listnám. Svo eru sögur allra listilega fléttaðar saman. Sagan er að sumu leyti menningarsaga Reykjavíkur í hálfa öld.

Mér þótti áhugavert að fylgjast með söguhetjunum fara um Þingholtin, á Sóleyjargötu, í hús við Njarðargötu, í kirkjur bæjarins og líka Hallgrímskirkju. Þau fóru í ferðir að styttum bæjarins. Vera klerksins í Heidelberg færði lykt af rósum í vit mín og minningar frá skóladögum hrísluðust um mig þegar ég reyndi að staðsetja prestinn í samhengi þeirrar dásamlegu borgar. Eldamennska kemur oft við sögu og skemmti matmanninum en svo urðu afkomendur kokkanna vegan! Vínþekking er orðinn fasti í íslenskum bókum og svo er í þessari líka það ríkulegur húmor að sommelierinn skýrir út bragðgæði appelsíns og malts jólanna.  Miðbæjarlýsingar eru okkur hagvönum í þessum hluta Reykjavíkur gleðigjafar. Göturnar eru þræddar, farið um Hljómskálagarð, Hólavallagarð, að Köllunarstyttunni við Landakotskirkju og Pomona skoðuð í Einarsgarði, kaffihúsin nýtt í Miðbænum sem og skautasvellið á Ingólfstorgi.

Eftir „fjörutíuogfjögur“ ár kemur klerkur svo „heim “ – til baka til að embætta en líka kveðja vinkonu sína, leita að svörum og gera upp. Við kynnumst persónum í gegnum bréfin sem gengu á milli og smátt og smátt opnast stór og mikil saga, mikil leyndarmál, djúptæk átök, miklar tilfinningar og flókin örlög sem eru túlkuð og skýrð. Vel mótaðar persónur og eðlileg viðbrögð þeirra í ólíkum hlutverkum sem smellpassa.

Sagan fór vel af stað og hreif. Ég undraðist hvernig hverju laginu á eftir öðru var svipt frá og óvæntar víddir opnuðust og skýrðu jafnframt af hverju það gerðist sem fyrr var kynnt í bókinni. Sem besti reyfari hélt sagan spennu allt til enda. Síðustu blaðsíðurnar galopnuðu, flækjan gekk upp, púslið lagði sig og heildarmyndin blasti við og öðru vísi en búast mátti við.

Þetta er saga um ást. Útleitandi ást og innleitandi líka. Ástarsókn einstaklinga er vel teiknuð og líka þessi þvert á mæri. Svo er ást Guðs einn af ástarþráðum sögunnar. Manneskjan verður ekki bara til við mök heldur í flóknum vef samskipta. Samskipti eiga sér einnig mörk. Sum eru brotin í þessari sögu og þá verða átök, blóð rennur og sorglegir atburðir verða. Slíku tengist þögn, hylming, ótti, kaupskapur, misnotkun, ofbeldi, þjónusta, fyrirgefning og önnur stórstef mennskunnar og þar með kristninnar. Óvæntasta bók ársins sem ég mæli með. Bókaútgáfan Ástríkur gefur út þessa ástríku bók. Til hamingju Steindór Ívarsson. Ég bíð eftir næstu bók.

Moritz og englaverksmiðjan

Moritz Halldórsson var mér huldumaður. Ég hafði aldrei heyrt um hann og aldrei rekist á hann í sagnfræðigrúski mínu. Og hef þó lesið tugi þúsunda blaðsíðna um íslenska sögu seinni hluta nítjándu aldar og byrjun þeirrar tuttugustu sem og sögu íslenskra vesturfara í Kanada og Dakóta.

Konan mín las nýjustu bók Ásdísar Höllu Bragadóttur og allt í einu kom Moritz í mitt hús og með talsverðum látum. Ég náði ekki miklu sambandi meðan hún var að lesa en fékk þó að vita að Moritz hefði verið sonur Halldórs Friðrikssonar í Lærða skólanum og hinnar dönsku konu hans. Halldór var vissulega einn af helstu frömuðum mennta og menningar Reykjavíkur seinasta aldarfjórðung nítjándu aldar. Ég mundi eftir að garðurinn hans – eða öllu heldur konu hans – var keyptur þegar bygging Alþingishússins var undirbúin. En Moritz? Hver var hann og hvað varð um hann? Svo þegar ég náði sambandi sagði kona mín mér að þetta væri stórmerkileg saga um líf og harmsögu Moriz sem hefði farið utan og lært til læknis og praktíserað í Kaupmannahöfn. Hann hefði svo verið dæmdur til fangavistar fyrir aðild að fóstureyðingu og tengst stofnun sem reyndist vera englaverksmiðja – aftökustöð barna. Já, þetta hljómaði dramatískt og ég undraðist – raunar furðaði mig á – að ég hefði ekki heyrt söguna fyrr. En það voru ástæður, saga þessa fólks var þögguð niður, hún var svo rosaleg.

Þegar kona mín var búin að lesa settist ég við á nýjum morgni nýs árs 2022 og las bókina í einum rykk meðan nýársveðrið gekk yfir og bann var við helgihaldi og mannfundum. Sagan byrjaði hratt, var svo listilega skrifuð að eiginlega var ekki hægt að leggja hana frá sér. Menningarþróun á Íslandi og í Danmörk er vel spegluð og túlkuð. Heimildavinnan er aðdáunarverð og dramatískt líf Moritz ber svo sannarlega uppi fléttuna og söguna um hann og ástvini hans. Við fáum að kynnast þróun Kaupmannahafnar og pólitískum átökum sem ég vissi talsvert um. Svo fáum við innsýn í þróun vændis og fóstureyðinga sem og þróun fangelsismála sem ég vissi minna um en er mikilvægt til að skilja framvindu og líf fólks. Hvað áhugaverðast er að í sögunni er spegluð og túlkuð vel staða kvenna og hvað var til bragðs fyrir þungaðar konur. Staða Jóhönnu, konu Moritz, var ekki einföld en hún var stöndug eiginkona sem brást við áföllum sem hetja. Ég las með áfergju, grét með Moritz og Jóhönnu á fangelsistímanum og fylgdist svo með þeim vestur um haf að reyna að koma sér fyrir í landi sem þau voru hrakin til. Draugar fortíðar fylgdu þeim. Áföllin hverfa ekki si svona, leysast ekki upp og lífið verður sjaldnast einfaldara hinum megin úthafsins. Grasið er ekki grænna hinum megin. Lífið í smábæ í Dakota var öðru vísi en í Kaupmannahöfn eða Reykjavík en aldrei einfalt. Saga Ásdísar Höllu er stórsaga, gæðabók. Mæli með henni. Takk Ásdís Halla.

Læknirinn í Englaverksmiðjunni. Saga Moritz Halldórssonar. Eftir Ásdísi Höllu Bragadóttur, Veröld 2021

 

Jóhanna og Hallgrímur

Börn Jó­hönnu Berg­mann og Hall­gríms Smára Jóns­son­ar komu þeim á óvart á gull­brúð­kaups­dag­inn þeirra. Jó­hanna og Hall­grím­ur voru gef­in sam­an í hjóna­band í Hall­gríms­kirkju 20. sept­em­ber ár­ið 1969 eða fyr­ir fimm­tíu ár­um. Á þeim tíma var ekki bú­ið að taka nú­ver­andi kirkju í notk­un held­ur sögðu þau já-in sín í kapellunni þar sem nú er kórinn. 50 ár­um síð­ar tóku tvö börn þeirra sig til og bjuggu til óvissu­dag fyr­ir for­eldra sína sem byrj­aði með heim­sókn í spa og dekri. For­eldr­arn­ir höfðu enga hug­mynd um hvað gert yrði en treystu börn­um sín­um full­kom­lega. „Eft­ir veislu­mat í há­deg­inu var hald­ið af stað og far­ið upp á Skóla­vörðu­holt og inn í and­dyri kirkj­unn­ar en þar beið þeirra skrýdd­ur prest­ur. Þá fóru þau að hlæja og gerðu sér grein fyr­ir að heim­sókn­in í kirkj­una væri ann­að og meira en að kíkja í kirkj­una og minna á að í kórn­um hefðu þau nú ver­ið gift,“seg­ir Sig­urð­ur Árni Þórð­ar­son, prest­ur í Hall­gríms­kirkju.

„Gull­hjón­in, börn­in þeirra, af­kom­end­ur og vin­ir kveiktu á kert­um við kirkju­inn­gang. Prest­ur­inn spurði hvort þau vildu halda áfram að elska hvort ann­að og efla. Og þau sögðu já, já. Tár komu á hvarma allra sem voru við­stadd­ir og áð­ur en yf­ir lauk var þetta orð­in fimm klúta gleði­við­burð­ur,“ seg­ir hann.

Jó­hanna seg­ir að þetta hafi ver­ið skrít­inn en stór­skemmti­leg­ur dag­ur sem kom þeim hjón­um mik­ið á óvart. Þetta var óvissu­ferð hjá börn­un­um sem varð að dá­sam­leg­um degi. Þau voru bú­in að und­ir­búa dag­inn ótrú­lega vel og allt gekk upp. „Barna­börn­in sungu fyr­ir okk­ur en við eig­um tvö börn, tengda­börn og fjög­ur barna­börn. Einnig var syst­ir manns­ins míns og dótt­ir henn­ar þarna. Mér fannst voða skrít­ið að sjá þær í kirkj­unni og varð ekki síð­ur undr­andi þeg­ar séra Sig­urð­ur birt­ist í full­um skrúða,“seg­ir Jó­hanna og hlær. „Við hjón­in vor­um ekki með nein­ar svona hug­leið­ing­ar. Vin­kona mín og mað­ur henn­ar end­ur­nýj­uðu heit­in á Flórída og við töl­uð­um um hvað það væri snið­ugt. Senni­lega hafa börn­in heyrt það úr því þau tóku upp á þessu. Ég mæli hundrað pró­sent með end­ur­nýj­un á heit­inu, þetta var eins og brúð­kaups­dag­ur, allt svo flott,“seg­ir hún. „Þeg­ar við geng­um inn í kirkj­una réttu barna­börn­in mér brúð­ar­vönd. Hann var ná­kvæm eft­ir­lík­ing af brúð­ar­vend­in­um sem ég bar á brúð­kaups­deg­in­um fyr­ir fimm­tíu ár­um. Einnig var brúð­ar­t­erta á borð­um hjá dótt­ur minni eft­ir at­höfn­ina í kirkj­unni,“seg­ir Jó­hanna en það voru ekki bara tár á hvörm­um fjöl­skyld­unn­ar þenn­an dag held­ur einnig túrista sem voru að skoða kirkj­una.

Hall­grím­ur Smári, var fyrsta barn­ið sem skírt var í ný­vígðri Hall­gríms­kirkju ár­ið 1949. Þess vegna fékk hann Hall­gríms­nafn­ið. Svo naut hann kirkj­unn­ar þeg­ar hann gekk í hjóna­band. Jó­hanna rifj­aði upp dag­inn, við vígsluna og hló þeg­ar minn­ing­arn­ar þyrl­uð­ust upp. „Það var dá­sam­legt að kveðja þau við kirkju­dyrn­ar.“

Fréttablaðið 26. október 2019.

 

Ert þú jólasveinn?

Er aðventan ónýt? Það sem áður var tími ögunar og eftirvæntingar er orðinn nautnatími. Fólk er ekki eins upptekið undirbúningi jóla heldur að gera vel við sig. Er það ekki í lagi? Það er enginn kristileg eða kirkjuleg nauðsyn að aðventan sé tími föstu og dempaðrar gleði? Tímar breytast og áherslur líka. Aðventan þarf ekki að vera fjólublá og langdregin þjáningartíð. Aðventutíminn má vera tími gleði, til að kveða dýrt, hugsa nýjar hugsanir og teygja sig inn í framtíðina. En þegar menning breytist – og mennirnir þar með – er skynsamlegt og jafnvel lífsnauðsynlegt að henda ekki – tapa ekki mikilvægum sögum, stofnum í menningunni, siðviti eð viskuhefðum.

Í textum dagsins er lögð áhersla á réttlæti. Von um frið er tjáð. Þegar trúmenn tala um vanda er hjálp Guðs einnig færð í tal. Endir heims er endir ófriðar og réttlæti Guðsríkis er í nánd. Um aldir hefur það merkt að við gætum okkar á því sem spillir. Erindið er persónlegt og menningarlegt – að við hjálpum Guði – alla vega leyfum Guði að búa til góðan heim, frið og réttlæti. Og aðventutími Íslendinga hefur um aldir verið tiltektartími í hinu ytra og innra til að taka sem best á móti undri jólanna. Til að þjóna hlutverki tiltektar aðventunnar urðu til sögur, atferli, áherslur og svo hefðir. Í dag skoðum við merkilegan þátt í hefð okkar Íslendinga til að tala um aðventu og dýpri rök hennar og tákn.

Ertu jólasveinn?

Margir hópar koma í kirkjurnar á aðventutímanum. Fyrir nokkrum árum tók ég á móti leikskólabörnum og fór þá í messuskrúða til að fræða börnin um kirkjuliti og hlutverk klæðanna sem prestur skrýðist í helgihaldinu. Lítil stúlka kom til mín þar sem ég stóð í skrúðanum. Hún horfði upp og niður og mældi mig allan út og spurði svo full trúnaðartrausts: „Ert þú jólasveinn?” Hún gerði sér grein fyrir, að jólasveinar gætu verið mismunandi og kannski væri þessi skrýddi karl einn af jólasveinunum. Hún var ekki alveg viss hverju húmn ætti að trúa. Já, aðventutími er líka tími jólasveinanna – og okkar.

Mismunandi jólasveinar

Hefur þú einhvern tíma hugsað um hvaða hlutverki jólasveinar gegna og hvað þeir merkja? Við þekkjum mismunandi tegundir, íslenska og erlenda – þessa mólituðu innlendu og rauðu erlendu. Svo eru til skandinavískir nissar og ýmsar aðrar útgáfur. Þeir eiga sér sína sögur og upphaf. Heilagur Nikulás (sánkti Kláus), upphaflegi jólasveinninn, bjó í Tyrklandi. Svo eru til keltneskir jólasveinar og svo eru rætur sumra hefðanna í vættaátrúnað og fleiri menningardjúpum. En hvaða hlutverki þjóna íslensku jólasveinar? Hver er merking þeirra? Og ekki síst – hver er merkingin sem við hefðum gott af að íhuga og hugsa? Geta jólasveinar orðið okkur til íhugunar og visku á aðventutíð og í aðdraganda jóla? Já og íslensku jólasveinarnir eru áhugaverðari en flestir hinna rauðuklæddu og erlendu – ekki síst vegna þess, að þeir eru eins og kennsludæmi. Þeir eru þegar dýpst er skoðað tákn og dæmi fyrir uppeldi og mótun. Hlutverk þeirra er kannski fyrst og fremst að kenna okkur eitthvað um lífið, ógnir og tækifæri. Þeir eru víti til varnaðar í lífsleiknináminu.

Gefa eða stela?

Hið fyrsta sem við megum taka efir er að hinn hvítskeggjaði og rauðklæddi Coca-Cola-Kláus er gjafmildur, gefur gjafir. En gáfu íslenskir jólasveinar í gamla daga eitthvað? Nei, þeir gáfu ekki heldur stálu. Þeir færðu aldrei gæsku og velferð í bæinn. Það er kannski skuggsækni sem gerir þá svo merkilegt og spennandi íhugunarefni til að hjálpa okkur að hugsa á aðventu.

Afætur og óheillakarlar

Jóhannes úr Kötlum gerði ráð fyrir, að jólasveinarnir hafi verið þrettán, en ekki “einn og átta.” Talan þrettán var ekki tilviljun, heldur óhappatala um langan aldur. Sveinarnir komu einn og einn til byggða, sem var ógæfulegt og tákn hins afbrigðilega. Jesús sendi t.d. lærisveina sína tvo og tvo saman í ferðir. Það er hið eðlilega. En jólasveinarnir eru ekki í erindagerðum fagnaðarerindisins. Þeir komu í mannheim til að spilla, skemma og valda óskunda. Þeir voru afætur og óheillakarlar sem þjónuðu sundrungu – syndinni.

Hverjir voru fyrstir? Það voru Stekkjarstaur og Giljagaur. Og hvað gerðu þeir? Þeir réðust að skepnunum, en þær voru lífsgrundvöllur fólks, undirstaða atvinnulífsins. Stekkjarstaur hrelldi kindur og hinn síðari fór í fjósið og gerði skepnum og vinnufólki illt. Þegar sveinarnir höfðu ráðist að útvörðum heimilisins, skepnunum, fóru þeir að sækja að heimilinu sjálfu. Stúfur, Þvörusleikir og bræður þeirra stálu öllu matarkyns í húsum. Börn og fullorðnir urðu fyrir aðkasti. Jafnvel heimilisdýrin urðu fyrir vonskunni, því Askasleikir stal innansleikjum sem dýrum voru ætlaðar. Mannfólkið varð fyrir beinum árásum: Hurðarskellir hindraði svefn vinnulúinna manna.

Síðasti jólasveinninn, Kertasníkir, gerði hinstu atlögu að jólakomunni. Þegar ljóshátíðin mikla var að ganga í garð, reyndi þessi fulltrúi myrkursins að stela kertum úr bænum. Kertastuldurinn varðar hvorki meira né minna en tilraun til að hindra komu jólanna. Kertin og jólaljósin voru og eru tákn um, að heimurinn er ekki lengur myrkraveröld, táradalur, heldur staður vona, vegna þess að Guð kemur í heiminn og heldur vörð um lífið. Á jólanótt voru jólasveinarnir aðgerðalausir, útslegnir í ljósaflóði guðskomunnar, en síðan fóru þeir að drattast á brott.

Lífsbarátta og ábyrgð

Hinn gamli heimur ljóslítilla torfbæja er vissulega að baki. Sú veröld, sem speglast í þjóðsögum okkar, ljóðum og trúarlífi var veröld óvissu. Aðsteðjandi öfl sóttu í mat og mátt. Líf fólks var ótryggt og þarfnaðist sífelldrar baráttu og aðgæslu til að öryggi yrði tryggt. Með það í huga megum við skoða og skilja sögu jólasveinanna. Þeir sóttu að undirstöðum – í skepnuhjörðina, í mat og lífsbjörg fólks. Jólasveinarnir eru því eiginlegar ímyndir lífsbaráttu og glímu við að láta ekki myrkrið ná völdum. Sagan um þá er áminning um, að huga þurfi vel að dýrum, passa þurfi mat og alla umgjörð mannlífs. Allir skyldu leggjast á eitt til að tryggja að myrkrið næði ekki að ráða og kyrkja. Ljósið skyldi fá að koma í heiminn. Eru þetta ekki allt sístæð viðfangsefni, vernda dýr gegn dýraníðingum, tryggja mat, velferð fólks og gæta að ofbeldisseggjum og siðblekktu eða siðskertu fólki? Hvað er raunverulega til að bæta samfélag og efla hamingju einstaklinganna?

Trúði fólk tilveru jólasveinanna? Tók fólk þessar sögur bókstaflega? Voru afar okkar og ömmur – gengnar kynslóðir – voru þau kjánar? Nei, engu meiri kjánar en við. Þau vissu vel, að sögurnar um skrítnu sveinana voru ekki sögur um raunverulegar verur, heldur sögur um dýpri gildi. Þau notuðu sögurnar til uppeldis og þetta fólk var vant að vinna úr táknmáli. Þau vissu og skildu að þetta voru kennslusögur, áminningar um aðgæslu í lífinu, bæði í hinu innra sem hinu ytra. Það tók ekki sögurnar um jólasveina bókstaflega heldur fremur alvarlega. Eins og við ættum að temja okkur gagnvart öllum klassísku stórsögum heimsins – ekki bókstaflega heldur skoða á dýptina.

Er jólasveinn í þér?

Aðventan er ekki ónýt þó breytt sé. Verkefni allra að mannast er sístætt þó rammi sé nýr og aðstæður séu aðrar en áður. Hvernig reynist fólk sem á að gæta samfélagsins og á að gæta þinna hagsmuna? Hvernig stjórna þau, sem eiga fyrir fólki og fjármunum að sjá? Eru engir jólasveinar á ferð? Er einhver, sem reynir að plata þig á þessum sölutíma í aðdraganda jóla? Hverjir eru jólasveinarnir? En spurðu þig líka þeirrar spurningar, hvort jólasveinn sé jafnvel innan í þér? Ert þú jólasveinn?

Við, Íslendingar, eigum merkilega spekisögu fyrir undirbúninginn – fyrir andlega vinnu aðventunnar. Okkur sést jafnvel yfir raunsæi þessara sagna í hraða og erli aðventudaganna. Sannleikur um lífið verður ekki pakkaður inn. Reyndu að sjá hver er Giljagaur, Þvörusleikir og Kertasníkir samtíðar. Hverjir reyna að eyðileggja afkomu fjölskyldu þinnar, ná fjármunum, hamingju, heilsu og svifta þig og þína gleði?

Aðventa – tími væntingar. Aðventan er til undirbúnings jólanna. Við megum gjarnan fara að baki ati og ásýnd og tala um hið djúpa og mikilvæga. Við getum notað tímann til að greina vonda jólasveina hið ytra sem innra. Jólahaldi tengist fleira en gjafir. Jólasveinarnir eru tákn um að hætt er við þjófnaði – að margir reyna að stela tíma þínum, rósemd, gleði, friði, lífshamingju þinni. Þá gildir að velja vel og rétt.

Hvað gerir þú á jólum? Hverjum tekur þú á móti? Jólasveinunum, sem taka frá þér ljósið eða sveini jólanna sem gefur þér lífsljós? Sem trúmaður hefur þú frelsi til að velja. Í því er ríkidæmi þessa lífs og ábyrgðarmál okkar manna fólgið. Guð gefi þér og þínum gæfu til visku á aðventu og síðan gleðileg jól – að Jesúbarnið komi til þín, gefi þér ljós og verði þér leiðarljós í lífi og dauða.

Hugleiðing 5. desember 2021. Annar sunnudagur í aðventu.

Meðylgjandi mynd tók ég af flugveifu á Reykjavíkurflugvelli í blíðviðrinu 4. des. 2021. Jólasveinsmyndina tók Árni Svanur Daníelsson og myndina fékk ég af myndasíðu þjóðkirkjunnar á Flickr.