Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Megi þau …

Hugsum til Úkraínumanna sem ráðist var á – megi styrkur þeirra verða óskertur.

Hugsum til kvennanna og barnanna sem eru á flótta – megi gæfan umlykja þau.

Hugsum til allra þeirra sem geta ekki flúið eða farið – megi æðruleysið efla þau.

Hugsum til þeirra sem syrgja og gráta – megi þau finna frið.

Hugsum til allra þeirra sem eru kvíðin og stríðandi – í Úkraínu og um allan heim –  megi samheldni okkar umvefja þau.

Hugsum til þeirra Rússa sem eru ósátt við árásarstríð – megi þau finna farveg fyrir afstöðu og friðarsókn.

Hugsum um okkur sjálf, okkur sem hóp, samfélag og þjóðfélag –  megi okkur lánast að efla hvert annað til dáða, aðgerða, fegurðar, söngs, ástar og lífs.

Meðfylgjandi mynd: Sigurður Páll Sigurðsson. 

Efndir – mögnuð þroskasaga

Í skáldsögunni Efndir eftir Þórhildi Ólafsdóttur kemur Elísabet til baka úr lífsreisum sínum um skóla og menningarstofnanir Íslands og fjarlægðanna. Hún vitjar heimahaga, kemur heim í mannlausan og yfirgefinn bæ á norðlensku nesi, sem gæti verið Vatnsnes. Elísabet segir fjölskyldu og vinum að hún ætli að vera einhvern tíma á ættaróðalinu til að jafna sig á áföllum og kannski eiginlega lífinu. Svo fara svipir fortíðar að mæta henni, formæður og forfeður. Elísabet segir sögu þeirra af listfengi og elsku og andar fara á kreik. Söguhetjan vitjar sjálfrar sín, leitar að bernskugötum og tilfinningum liðinna daga þegar hún var að alast upp í stórfjölskyldu á hjara veraldar. Við fylgjumst með Elísabetu fara í nám, ferðast um heiminn, eignast erlendan mann, eignast dóttur sem varð ekkja og vinna og lifa. Svo kemur hún til baka úr lífsferðinni þegar skil eru orðin og vinnulífinu er lokið. Hvað er að koma heim? Hvað er heima og hvenær? Getur maður einhvern tíma fundið sjálfan sig, barnið í sér og veru sjálfs sín? Fann Elísabet sjálfa sig eða þarf maður bara að sætta sig við skuggamyndir dýpri sannleika eða veruleika?

Efndir er afar vel skrifuð bók. Textinn túlkar og umvefur vel. Framvinda bókarinnar er sem djúpt og breitt fljót fremur en léttskoppandi lækur af hæðum og niður hlíðar tímaleysisins. Þetta er bók um lífsbaráttu, hve lífið er stutt, hve fljótt fennir í sporin, um flæði lífsins, verpingu tímans, hve liðnar kynslóðir eru fljótar að gleymast þótt grafirnar þeirra séu merktar og aðgengilegar í kirkjugörðunum. Þetta er bók mikilla tilfinninga, djúpköfunar og eftirsjár. Framtíðin er sem næst lokuð. Það er engin opinberunarkafli helgiritasafns í lokin heldur fremur æðruleysi endisins. Stefjavinnsla er dásamleg og öguð. Táknin eru nostursamlega valin, uppteiknuð og túlkuð.

Dómar um málfar og málbreytingar íslenskunnar eru hnyttnir og stundum fyndnir. Náttúrulýsingar hinnar heimkomnu heimskonu eru laðandi. Lýsingarnar tjá í bókinni vaxandi náttúrunánd, sem er tákn þess að færast nær sjálfum sér en áður var. Mér þótti áhugavert að beygur og óttaefni lífsins voru fremur tengd hinu yfirskilvitlega og dulræna en náttúrunni. Náttúran í öllum sínum myndum er vettvangur til að lifa í og með og auðvitað virða til að komast af.

Sálgreiningartímar er sérmál. Frásagnir af þeim læða að grun um að hjá sálgreininum hafi verið meira létt á en að sálarflækjur hafi verið greiddar eins og net voru greidd við Miðfjörð í bernsku höfundar. Tæknileg samtöl verða aldrei til að færa fólki líf en góðir spyrjendur geta auðvitað hjálpað til. Sálgreiningar bókarinnar tjá firringu fólks inn á við, í samskiptum og úrvinnslu lífsbaráttu. Þróun tilfinningatúlkunar kemur vel fram og því er bókin merkileg sem þroskasaga einstaklings.

Mikið er af alls konar merkilegu þjóðfræðiefni í þessari bók, hvernig fólk lifði, hver voru störf þess, tengsl kynja og hlutverk og samskipti. Mat og matarafstöðu er lýst og hvernig var að læra að lesa með bandprjónaðferð. Stiklað er á hugmyndum um karlmennsku og hvernig konur verða fyrir eða bregðast við í sögu og samtíð. Einelti í sláturhúsi á sjöunda áratugnum er nístandi vel lýst. Bókmenntir og ýmsir höfundar koma við sögu. Innsýn er veitt í mun á hugmyndum fólks til lífsgæða, annars vegar frá Austur-Evrópu og hins vegar Íslandi kalda-stríðstímans. Hugmyndir fólks eru menningarskilyrtar og því ekki auðvelt að breyta hömruðum skoðunum. Í ljós kemur að velviljaði franski strákurinn sem vill fá innsýn í landbúnaðarmenningu var ófær um að skilja og tengja. Fólk er fullt af fordómum sem lita og því skilur það ekki aðra eða framandi menningu. Tónlistarnotkun og innlifun var merkileg í bóikinni. Bach-notkunin breyttist. Svo var Lúther túlkaður eins og hann væri Calvin en áherslum siðbótarmannanna hefur jú oft verið víxlað.

Mikið er fjallað um sorg og missi. Bókin hverfist um þann möndul. Sorgin heggur stykki úr fólki segir á einum stað og bókin fjallar um ýmsa kosti sorgarinnar. Atferli og viðbrögð Elísabetar varða áföll og úrvinnslu og að missir varpar ekki aðeins skuggum yfir líf heldur verður sem net sem ekki sleppir. Samskipti við ástvini og kunningja eru um margt tjáning á getu eða getuleysi fólks gagnvart þeim sem eru djúpt niðri af hvaða ástæðum sem það er, missi eða geðlægð.

Elísabet gengur um land bernsku sinnar eins og til að rifja upp spor sín og fólksins hennar. Til að nálgast landið og söguna sameinast hún jörðinni í tjaldútilegum sem vekja grunsemdir nágranna og sveitunga um að þessi íslenska einsetukonu úr útlandinu sé ekki heil. Elísabet fer að laga gömul mannvirki liðinnar tíðar eins og til að vitja þeirra sem farin eru. Hún fer í gamla kartöflugarð bernskunnar og við fáum innsýn í að amma réð meiru en mamma hennar í garðinum enda mamma aðkomukona. Garðurinn var sem sé tákn um vald og skipulag þess. Oft er vikið að goggunarröðum í bókinni, í lífi fólks, samskiptum kynja, mismunandi aldri og meðal dýranna.

Vinur minn gaf mér bókina Efndir. Ég hafði jarðsungið báða foreldra höfundar bókarinnar, Halldóru og Ólaf. Ég hafði kynnst þeim og tengst þeim og þótti vænt um þau. Ég hafði hlustað á sögur þeirra frá Vatnsnesinu og hafði því tilfinningu fyrir mannlífi, lífsbaráttu og staðháttum þar nyrðra við hið ysta haf. En þessi baktenging vék fljótt þegar ég byrjaði að lesa. Bókin er sjálftætt listaverk, skáldsaga, sem krefst nýrrar nálgunar og persónulegri. Mér þótti líka heillandi að lesa þessa bók vegna tilfinningavinnu gagnvart eigin uppvexti. Hvar er heima og hvernig? Spírall er betri lýsing á lífsreisum okkar en hringur eða lína. Við verðum fyrir reynslu í uppvexti og mótun sem er mismikið unnin og afgreidd og fer með okkur út í at lífsins. Við förum um dali og fjöll lífsins en komum til baka, þó ekki eins áður heldur með alls konar pinkla, túlkun, þroska, gildi og lesti í farteskinu. Ferð Elísabetar heim og norður á nesið er ekki endurkoma barnsins eða endurfundir við barnið. Hún fann margt úr bernsku sinni, veiddi úr minni sínu, hafði gert upp við sumt og annað ekki. En hún var á nýjum stað. Að vitja sjálfs sín, virða sögu sína og gera upp er verkefni okkar allra. Að lifa vel er ekki að lifa átakalausu lífi, heldur að lifa með alúð, virða sjálf, aðra, sögu, menningu, náttúru og trú og bregðast við þeim og lífsáföllum með einurð. Flóttlaus heimför er besti lífsmátinn. Það eru bestu efndirnar.

Bókin er sérstæð og fallega unnin. Skriða gaf út. Snæfríð Þorsteins braut um og með áhugaverðum hætti. Síðurnar eru ekki hvítar heldur litaðar. Svartur borði er handhægur til að smella í opnu þegar hlé verður á lestrinum. Ég rakst ekki á neina ásláttarvillu sem er fátítt í bókum og segir mikið um vandvirkni og nostrið sem þessi bók hefur notið. Hún hefur fengið að hvíla í öruggu fangi höfundar áður en hún hélt út í heiminn.

Takk Þórhildur Ólafsdóttir.

Minningarorð um Ólaf Þórð Þórhallson:

https://www.sigurdurarni.is/2013/08/30/olafur-thordur-thorhallsson-minningarord/

og Halldóru Kristinsdóttur:

https://www.sigurdurarni.is/2013/02/08/halldora-kristinsdottir-minningarord/

Sonur minn

Guilli er öðru vísi en hinir strákarnir í Barcelona. Hann hefur ekki áhuga á fótbolta, forðast boltaleiki en er glaður, brosmildur og þorir að lifa sig inn furður lífsins. Kennarinn í skólanum spurði í tíma hvað krakkarnir vildu verða þegar þau yrðu stór. Svörin voru fyrirsjáanleg nema svar Guilli. Krakkarnir vildu gjarnan verða leikarar, íþróttahetjur eða annað álíka. En Guilli vildi verða Mary Poppins, ekki eins og Mary Poppins heldur raunverulega ofurhetjan sjálf. Kennarinn varð forvitinn, skildi að það var eitthvað að baki sem vert væri að ræða. Hún fékk skólasálfræðinginn í lið með sér. Sagan er síðan sögð frá mismunandi sjónarhornum, kennarans, sálfræðingsins, Guilli og Manúel, pabba hans. Við fáum tilfinningu fyrir fjarverandi Amöndu, hinni heillandi, ensku, móður Guilli sem var flugfreyja og hafði yfirgefið þá feðga til að vinna í Dubai. Svo er veitt innsýn í venjulegt skólalíf í Barcelona og hve vel starfsfólkið vinnur og gengur í hin flóknustu og vanþakklátustu verk. Vandi fjölmenningarsamfélagsins er kynntur með hlýju og næmni. Lesandinn fær að skyggnast í líf, hætti og verkefni barns í pakistanskri fjölskyldu í næsta húsi við Guilli. Þar ríkja gamlir siðir hins múslímska feðraveldis og níu ára dóttir á heimilinu var lofuð gömlum frænda. Vandi Manúels, pabbans, er kynntur og æ ljósar verður að sonurinn Guilli er getumikill og skynugur. Hann reynir að halda öllum þráðum saman sem pabbinn megnar ekki. Leyndarmálið er opinberað sem verður til að feðgarnir ná saman, fara að vinna með tilfinningar sínar og líf fólksins heldur áfram. Sonur minn er marglaga, heillandi og litrík saga um fólk sem reynir að fóta sig í flóknum aðstæðum.

Höfundur er Alejandro Palomas. Þýðandi Sigrún Á. Eiríksdóttir. Drápa 2021.

Bless 333

Langri, góðri og fullkomlega átakalausri sögu lauk í dag, 2. febrúar, kyndilmessu, 2022. Faðir minn hafði snemma á tuttugustu öld leigt sér bankahólf nr. 333 í Landsbankanum í Austurstræti í Reykjavík. Hann fór einstaka sinnum með verðmæti – eða sótti – sem hann taldi vísara að geyma á góðum stað. Aldrei voru seðlar, demantar, gull eða mynt geymd í þessu hólfi heldur fjölskylduskjöl og tilfinningadýrmæti. Þegar faðir minn lést axlaði móðir mín ábyrgðina og leigði hólfið áfram. Svo þegar hún lést tók ég við. En bankahólf fóru úr tísku meðal fólks af minni kynslóð. Því sagði bankinn upp þessum viðskiptum við okkur hólfafólkið. Í síðasta sinn opnaði ég bankahólf foreldra minna í dag, tók fjölskylduskjal úr kassanum, kom honum svo fyrir í hólfinu að nýju og afhenti starfsmanni bankans báða lyklana, sem gengu að hólfinu.  Þar með var sögunni lokið. Lips 333 hefur lokið þjónustu sinni. 

Það var alltaf gaman að fara niður í bankahvelfingu LÍ. Hólfin brostu við komufólki og mig grunaði að það sem væri í þeim gæti sagt mikla sögu og jafnvel blóðríka. Stundum var þar neðra fólk sem fór leynt með gerðir sínar og var alvarlegt og jafnvel flóttalegt við frágang sinna hólfa. Lips í Dordrecht gerði þessi þjófheldu hólf, sem aldrei hafa verið rænd. Það væri nú kannski ástæða til að taka upp svo sem eitt innbrot í banka áður en bankinn lætur kasta burt þessum miklu hirslum? Hugmynd fyrir kvikmyndafólk? Svo ættu gullsmiðirnir að geta fengið parta til að geyma dýrmætin? Ég tók mynd af lyklunum tveimur sem voru afhentir í dag. Undir þeim er krónubudda föður míns sem hefur varðveitt lyklana síðustu áratugina.

Takk Landsbanki Íslands. Bless 333.

Kyndilmessa

Við tendrum ljós á kyndilmessu. Ljós fyrir Guð sem gefur ljósið, ljós fyrir Maríu, guðsmóðurina, ljós fyrir Guðssoninn sem er kominn og ljósið lýsir fyrir öll þau er leita heimsljóssins. Ljósið er okkur öllum tákn um samhengi lífsins og að við lifum í ljósinu.

En kyndilmessa í hinum vestræna heimi er líka veðurdagur og spádagur um árferði. Groundhogday er slíkur dagur vestan hafs og meðal germanskra þjóða er víða spáð í veður sbr. húsgangurinn:

Ef í heiði sólin sést 

á sjálfa kyndilmessu, 

vænta snjóa máttu mest 

maður uppfrá þessu.

En kyndilmessa er ekki aðeins spádagur um veðurfar næstu mánaða, snjóalög eða vorkomu heldur dagur ljóssins. Í hinu kristna túlkunarsamhengi er kyndilmessa fjörutíu dögum eftir jól. Þar er rammi í kristninni, sem á sér reyndar mun eldri rætur í hreinsunarreglum hins hebresk-gyðinglega samfélags. Fjörutíu dagar voru mæðraorlof kvenna í Palestínu við upphaf hins kristna tímatals. Þá fóru foreldrar nýbura upp til Jerúsalem til að fara í musterið og tákna helgun, þökk og gleði yfir hinu unga lífi. Í sagnasveignum um Jesú er djúpfögur saga um Maríu og Jósef sem fóru upp til Jerúsalem til musterisferðar vegna fæðingar Jesúbarnsins. Þar hittu þau ekki bara prestana heldur líka aldurhnigið fólk sem var fannst gott að vera í guðshúsinu. Anna Fanúelsdóttir var ein þeirra og Símeon annar. Símeon hafði notið þeirrar vitrunarvisku að hann skyldi ekki fara af heimi fyrr en hann hefði séð Messías. Þegar María og Jósef komu tók Símeon sveininn í fangið og hóf upp lofsönginn sem kenndur er við Símeon. „Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara eins og þú hefur heitið mér því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt, sem þú hefur fyrirbúið í augsýn allra lýða, ljós til opinberunar heiðingjum og til vegsemdar lýð þínum Ísrael.“ Þessi gjörningur var undarlegur og vakti furðu foreldranna.

Kyndilmessa, candlemas, er ljóshátíð. Ljós voru kveikt og voru notuð sem tákn á föstutímanum sem fer í hönd. Ljósin voru gjarnan helguð og blessuð á þessum tíma. Ljósin minna á ljós heimins, Jesú Krist sem kom og kemur. Hinum megin föstu verður svo borið ljós í hlið himins þegar páskarnir koma, tákn um að dauðinn dó en lífið lifir.

María bar barnið í musterið. Aldraða fólkið söng Guði dýrð og vitnaði um framtíðina. Ljósið var komið í heiminn. Kyndilmessa er fyrir ljóskveikingu. Tákn um ljósið sem Guð gefur.

Fyrir nokkrum árum sagaði ég niður mörg tré og gerði úr einu þeirra nokkra kyndla. Meðfylgjandi mynd er af einum.

Hugleiðing um Símoen og heimsljósið er að baki þessari smellu. https://www.sigurdurarni.is/2012/12/30/stora-upplifun/