Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Hvönn sem englahvönn

Þetta er jurt englanna, já og líka erkiengla. Hún heitir á latínunni  Angelica archangelica, engla – erkiengla, eins og þurfi að ítreka engileðli, engiláhrif, engilráð. Að baki nafninu er reynsla fólks í þúsundir ára. Jurtin var ætihvönn, notuð til næringar, líka notuð til kryddunar í víngerð og til að bragðstilla rótsterka drykki. En það var lækningamáttur plöntunnar sem tengdi hana helst við engla. Klaustrin og kirkjumiðstöðvar voru lækningastöðvar fortíðar. Þar voru laukagarðar. Lækningajurtir voru ræktaðar, lyf þróuð og reynd. Kristnistöðvarnar voru eins og englar – til að bæta líf fólks.

Fyrirtækið Saga Medica varð til eins og arftaki laukagarðanna. Á þeim bæ hefur hvönn verið notuð til að bæta líðan og heilsu. Þráinn Þorvaldsson og fleiri stofnuðu fyrirtækið til hagsbóta fyrir fólk. Ég legg til að Þráni verði veitt fálkaorðan og hvönn verði í framtíðinni kölluð englahvönn.  

Vinir mínir í Noregi kalla hvönnina Tromsö-pálma. Hvaðan kemur nafn rússnesku borgarinnar Arkangelsk? Frá nafni englahvannar eða frá hinum himnesku sendiboðum Guðs? 

Myndina tók ég við Ægisíðu. Í forgrunni er hvönn og engilbjört ljóssúla hnígandi sólar speglast í Skerjafirðinum.

 

Hrafn in memoriam +

Hrafn kom reglulega í Hallgrímskirkju síðustu vikurnar – til að kveðja og opna inn í eilífðina. Þegar hann fór í næst-síðasta sinn sagði hann. „Þú kannt að hlusta.“ „Og þú að tala“ svaraði ég. Hrafn hló og þakkaði fyrir að hafa fengið viðmælanda í hliði himinsins til að kanna djúpin. Skáldpresturinn er þarna að baki honum og svo líka færeyski kútterinn. Hrafn kvaddi fallega og hefur nú siglt inn í hvíta skuggan. 

Handverkið mikla

Hundruð barna komu í Hallgrímskirkju laugardaginn 20. ágúst. Þau fóru í kirkjuna, horfðu upp í hvelfingarnar og hlustuðu á organistana spila á orgelmaraþoni. Sum kveiktu á kertum og mörg lituðu Hallgrímskirkju á blöð sem mynduðu kórónur fyrir börn. Við stigann úr forkirkjunni var búið að koma fyrir mikilli þrykkstöð fyrir unga fólkið. Þar báru þau liti á lófana og þrykktu síðan á risastóran myndflöt. Þegar leið á daginn varð til mikið handverk barna framtíðarinnar. Vissulega spurðu einstaka sem voru komin til fullorðinsára: „Má ég líka?“ Verkið er litfagurt og formsterkt verk framtíðarfólksins. Mörg þeirra fóru út í menningarnóttina með kirkjukórónu sem þau höfðu smellt á höfuðið.

Kristný Rós Gústafsdóttir og Ragnheiður Bjarnadóttir sáu um barnadagskrána.

England er yfirlýst

England er ekki grænt heldur yfirlýst. Margar stórár heimsins líða fyrir þurrka og hita. Vatnskerfi yfirborðs eru víða veikluð. Flutningar á ám hafa víða farið úr skorðum, ekki má vökva flatir eða gróður. Við fórum fjögur til Oxford í nokkurra daga ferð. Úr flugvélinni sást vel hve England var skrælnað. Flatirnar við Christ Church og Bodleian-bókasafnið voru dauðar og á siglingu á Thames þurfti skipperinn að vanda sig til að taka ekki niðri. Hann sagði yfirborðið hálfum metra lægra en í venjulegu ári. Þakklæti fyrir lífsvatnið barðist hið innra með mér við óttann við umhverfisvanda áranna sem koma. Oxford er dásamleg en jörðin er að verða jafn gul og dreymandi spírur borgarinnar.

Myndin er af Bodleian-safninu í Oxford. Flatirnar skrælnaðar. Myndir sáþ

 

Blómstrandi stríðsmenn

Verk Steinunnar Þórarinsdóttur á Hallgrímstorgi vekja athygli allra sem fara í kirkjuna. Margir stilla sér upp við fígúrurnar, snerta þær eða faðma. Sum taka sjálfur eða einhver ferðafélaganna smellir af. Steinunn stillti upp pörum á torginu. Á móti nöktum, kynlausum og varnarlausum verum eru brynjaðar verur sem eru tákn stríðsmanna allra alda. Spennan er áþreifanleg. Brynjuð mennin verða líka táknmyndir árásarþjóða sem stríða gegn vanmáttugri nágrönnum. Margir nefna Rússa og Úkraínu.

Brynjur vekja viðbrögð. Sýningin er í hugum margra ávirk þátttökusýning um stríð og frið, mennsku og ofbeldi og andstæður í lífi manna, hópa og þjóða. Það eru þó ekki aðeins tilfinningar og hugsanir sem vakna. Nokkur vildu bæta við listaverkin! Viðbætur eru tjáning. Í vikunni voru stríðsmennirnir allt í einu komnir með blóm í hendur og fang. Gróðurinn fór þeim mun betur en vopnin. Það var sem friðspillarnir vildu allt í einu gefa nöktum nágrönnum sínum blóm fremur en mæta þeim í herklæðum. Friðarblóm? Segðu það með blómum, var slagorð fyrir áratugum. Er ekki gæfulegra að blómstra en beita vopnum? Hernaður deyðir en gróandinn er tákn lífs. Á torginu fyrir framan Hallgrímskirkju verða gjörningar alla dag og suma daga blómstra stríðsmennirnir.