Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Helgisaga sem ástarsaga

Helgisögur eru aldrei bara umbúðir heldur mun fremur inntak. Þær hafa gjarnan glit og glans eins og flottir jólapakkar en það er betra að taka utan af slíkri sögu og skoða innihaldið. Fæðingarsaga Jesú er helgisaga með inntaki. Jesúsagan er ekki um hvernig heldur til hvers, ekki um hvað heldur hvers vegna, ekki um yfirborð heldur merkingu. Jólasagan er ekki frétt í blaði heldur frétt um tilgang alls sem er. Hún tjáir að tilveran er björt og góð. Hún er ekki bisnissaga eða stjórnmálasaga, ekki spekisaga né heldur dæmisaga, skáldsaga eða ljóð. Sagan um fæðingu Jesú er fyrst og fremst ástarsaga. 

Sjoppuránið í Nashville – K&M

Ég varð einu sinni vitni að vopnuðu ráni í sjoppu í borginni Nashville í Bandaríkjunum. Ég hafði farið á föstudagskvöldi til að kaupa nauðþurftir fyrir sambýlinga mína. Þegar grímuklæddur byssumaður hentist inn um sjoppudyrnar var ég eini viðskiptavinurinn í búðinni. Allt gerðist ofurhratt. Ég átti bágt með að trúa eigin augum og eyrum. Ránsmaðurinn var æstur og augnaráðið tryllingslegt. Hendur hans titruðu og skjálfandi byssan voru tákn þess að maðurinn væri til alls líklegur. Afgreiðslumaðurinn tók fyrir hjartað og staulaðist að peningakassanum. Hann gerði sig líklegan að afhenda grænt dollarabúnt. Allt í einu beindi ræninginn byssunni að mér. Mér fannst hlaupið svo stórt að það minnti helst á haglabyssuhlaup. Svo heyrði ég hann öskra: „Leggstu á gólfið með andlitið niður.“ Ég lyppaðist niður. Það var mun verra að geta ekki séð neitt eða fylgst með framvindunni. Ég vissi ekki hvort maðurinn væri líklegur til að lóga okkur afgreiðslumanninum eða hvort þetta væri þjófur sem vildi valda sem minnstum usla en ná sem mestu fé. Af því ég sá ekkert bjóst ég við hinu versta. Ég fékk sting í aftanverðan hálsinn og hnakka eins og kúla færi brátt í gegnum höfuð mitt. Ræninginn fékk féð og hljóp út. Ég staulaðist á fætur og fór að stumra yfir afgreiðslumanninum sem var enn með sáran brjóstverk og ofsahræddur. Þá sá ég að hann hafði verið með skammbyssu í afgreiðsluborðinu og skildi að hann hafði verið í spennu hvort hann ætti að grípa hana og skjóta. Ránið settist að í mér og þegar ég minnist þess finn ég enn fyrir verknum í hnakkanum og óttanum.

Skömmu síðar sá ég í kvöldfréttum sjónvarpsstöðvar í Nashville að rán hefði verið framið um kvöldið og svo var sýnt frá sjoppunni okkar hinum megin götunnar. Ég fór að glugganum og sá að maður lá á gangstéttinni. Afgreiðslumaðurinn hafði náð að ýta á öryggishnapp og lögreglan kom strax. Ránsmaðurinn féll í skotbardaga. Ég stóð við gluggann og spurði mig hvort þetta væri sá sami.

Ég var að skoða gamlar filmur frá skólaveru minni vestra og sá þá mynd af framhlið sjoppurnar. Ég umbreytti negatívunni og skoðaði myndina. Atburðurinn rifjaðist upp og verkurinn kom í hnakkann. 

Minning frá skólaárum í Nashville, TN, BNA

Vera eða gera

Sex ára drengur sat snortinn í kirkjunni. Söngvar aðventunnar og jólaundirbúnings seitluðu inn í vitund hans. Og minnið brást honum ekki, textarnir frá því í fyrra komu úr sálargeymslunni og hann söng með. Barnakórarnir heilluðu líka alla. Augu drengsins ljómuðu þegar hann sneri sér að mömmu sinni og sagði með barnslegri einlægni: „Mikið er gaman að lifa.” Mamman sagði mér svo frá þessari jákvæðu upplifun barnsins.

Aðventan er komin. Þessi tími sem er bæði-og en líka hvorki-né. Aðventan er samsettur tími, sem krefst ákvörðunar um hvað skal vera í forgangi. Álagið getur verið mikið og margt sem þarf að framkvæma fyrir jólin. Kröfur, sem fólk gerir til sjálfs sín og sinna á þessum tíma, geta verið miklar og úr hófi. Áður en þú druknar í verkum er ráð að þú staldrir við og spyrjir: Til hvers? Má ekki sumt af þessu bíða? Er ekki allt í lagi að fresta því, sem er ekki alveg aðkallandi? Á aðventu er ráð að muna eftir tvennunni: Að vera eða gera. Hvort er mikilvægara að lifa eða strita, klára verk eða njóta lífs, upplifa eða puða? Við prestar heyrum oft á fólki tala um við ævilok að dótið og eignirnar hafi ekki fært þeim djúptæka lífshamingju. Dýrmæti lífsins væri fólkið þeirra, maki, börn, barnabörn og vinir. Getur verið að á aðventu sé mikilvægast að vera með sjálfum sér, fólkinu sínu og vænta hins guðlega?

Orðið aðventa er komið af latneska orðinu adventus. Það merkir koma, að eitthvað kemur. Við menn megum leyfa okkur að hlakka til og vona. Það er einn af undraþáttum lífsins að við megum í læstum aðstæðum vinna að því mál leysist, vænta að lausnin komi. Í aðkrepptum aðstæðum megum við vona að úr rætist, að inn í myrkar aðstæður nái ljós að skína.

Aðventan þarf ekki að vera puðtími. Aðventan má vera tími eftirvæntingar þess að lífið verði undursamlegt. Boðskapur jólanna er um þá dásemd að allt verður gott. Á aðventunni megum við undirbúa okkar innri mann, skúra út hið óþarfa og vænta komu hins fagnaðarríka. Aðventan er tími til að núllstilla lífið til að við getum tekið við undri lífsins – að hið guðlega verði. Og við getum sagt við fólkið okkar, sem við elskum. Mikið er gaman að lifa.

Takk fyrir …

Guð ég þakka þér fyrir lífið og þessa undursamlegu litríku veröld. Takk fyrir síkvika verðandi spriklandi af möguleikum, fyrir dansandi sól, tunglið og stjörnurnar sem þú hefur skapað. Guð ég þakka þér hljóma heimsins, hvísl stráanna, ýlið í gluggum húsanna, blæstrokur í hári, alla tónlist heimsins. Guð ég þakka þér fyrir foreldra og tilraunir þeirra til uppeldis hvort sem þær tókust eða ekki, afa og ömmur, vini, börn og félaga. Takk fyrir elskuna sem við höfum notið í lífinu, gáfurnar sem þú hefur gefið okkur rausnarlega, hæfileikana, hjartsláttinn, hugsanirnar, lífsplúsa og púlsa. Takk fyrir vetur og árstíðir, breytilegan ljósgang, djúpmyrkur og jólaljós, matarlykt í nefi og bragðundur í munni. Takk fyrir getuna til máls og hugsunar og líka fyrir hendur til að gæla við ástvini, þvo þvotta, elda mat, prjóna, smíða, þrífa, skapa listaverk og músík. Takk fyrir krydd lífsins og munnsins, ljóð og sögur, ævintýri, gleðiefni og hlátra. Takk fyrir leik barnanna, spilandi kátínu daganna, styrka hönd í áföllum og faðm þinn í dýpstu sorgum. Takk fyrir dagana sem við njótum, tilfinningar, tengsl og gjafir sem þú og vinir lífsins gefið. Takk fyrir að við megum vera í þessari miklu fylkingu lífsins sem veitir af sér, miðlar og þakkar …

Límonaði frá Díafani

Ella Stína fór til Köben og síðan áfram til Grikklands, alla leið til Díafani á eyjunni Karpaþos milli Krítar og Rhodos. Hún var átta ára þegar Jóhanna Kristjónsdóttir og Jökull Jakobsson fóru utan með börn sín. Bókin Límonaði frá Díafaní er í hinu ytra um þá ævintýraferð. En hið innra er hún uppgjör roskinnar konu um fjölskyldudrama, tilfinningar, viðbrögð og úrvinnslu stúlkubarnsins hið innra.

Elísabet Jökulsdóttir er búin að skrifa um foreldra sína og fjölskyldu í bókunum, Saknaðarilmi og Aprílsólarkulda. Og nú heldur hún áfram að greina þætti uppvaxtar og óhamingjusamrar fjölskyldu. Ramminn er Grikklandsárið. Í Eyjahafinu var flest með öðrum stíl en á Seltjarnarnesinu. Glóaldin uxu á trjánum, geitur röltu um með bjöllur um hálsinn og litlu guðshúsin virtust sérbyggð fyrir börn. Ella Stína fór víða meðan foreldrarnir voru uppteknir við skriftir, eigið innra líf, Bakkus (eða var það Díonysos) og uppgjör við hvort annað. Löngu seinna kom Ella Stína aftur til Grikklands í rannsóknarferð sálar og uppgjörsferð.

Límonaði frá Díafani er eiginlega nýtt bindi í uppgjöri Elísabetar við foreldra sína og fjölskyldu. Ég hreifst sérstaklega af Saknaðarilmi og skrifaði um þá bók. Nýja límonaðibókin er mun síðri en lyktarbókin. Hún er vissulega lipurlega skrifuð og ferðin rammar inn minningar og uppgjör. Setningar hrífa og íhuganir hitta í mark. Myndin af grísku eyjalífi er vel teiknuð. En ég spurði sjálfan mig ítrekað hve lengi og hversu langt væri hægt að teygja lopa marinnar fjölskyldu. Hve mörg bindi má skrifa um fjarlægan en leiftrandi föður og snjalla móður með útþrá? Þrjár, fimm eða fimmtán? Frægir foreldrar, rithöfundar, stjórnmálamenn, vísindafólk, geta verið höfuðstóll góðra penna en það eru takmörk fyrir hve lengi á eða hægt er að taka af þeim sjóði. Ef farið er of langt er farið að blóðmjólka. 

Með þokkalegri einbeitni er hægt að lesa bókina á rúmlega klukkutíma. Umbrotsaðilinn hefur þurft að hafa talsvert fyrir að teyja bókina í 91 blaðsíðu. Langt er á milli málsgreina, letrið stórt og línubilið talsvert. Margar myndir eru í bókinni og lítið lesefni er á hverri síðu. En bókin slær sítrónuilmi fyrir vit og kallar fram eyjatilfinningar okkar sem elskum Grikkland. Að lestri loknum óskaði ég þess að barnið Ella Stína leysi fjötra konunnar og rithöfundarins Elísabetar. Sólgos sálna í nútíma eru ekki síður áhugaverð en gömul gos.