Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is. Þá var talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is Sá vefur er nú lokaður.

Blómstrandi stríðsmenn

Verk Steinunnar Þórarinsdóttur á Hallgrímstorgi vekja athygli allra sem fara í kirkjuna. Margir stilla sér upp við fígúrurnar, snerta þær eða faðma. Sum taka sjálfur eða einhver ferðafélaganna smellir af. Steinunn stillti upp pörum á torginu. Á móti nöktum, kynlausum og varnarlausum verum eru brynjaðar verur sem eru tákn stríðsmanna allra alda. Spennan er áþreifanleg. Brynjuð mennin verða líka táknmyndir árásarþjóða sem stríða gegn vanmáttugri nágrönnum. Margir nefna Rússa og Úkraínu.

Brynjur vekja viðbrögð. Sýningin er í hugum margra ávirk þátttökusýning um stríð og frið, mennsku og ofbeldi og andstæður í lífi manna, hópa og þjóða. Það eru þó ekki aðeins tilfinningar og hugsanir sem vakna. Nokkur vildu bæta við listaverkin! Viðbætur eru tjáning. Í vikunni voru stríðsmennirnir allt í einu komnir með blóm í hendur og fang. Gróðurinn fór þeim mun betur en vopnin. Það var sem friðspillarnir vildu allt í einu gefa nöktum nágrönnum sínum blóm fremur en mæta þeim í herklæðum. Friðarblóm? Segðu það með blómum, var slagorð fyrir áratugum. Er ekki gæfulegra að blómstra en beita vopnum? Hernaður deyðir en gróandinn er tákn lífs. Á torginu fyrir framan Hallgrímskirkju verða gjörningar alla dag og suma daga blómstra stríðsmennirnir.

Vinátta

Uppástand RÚV þessa dagana er vinátta. Á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna 2022 var þessi pistill minn fluttur á rás 1 í hádeginu, skömmu fyrir fréttir: 

Því stundum verður mönnum á.
Styrka hönd þeir þurfa þá,
þegar lífið, allt í einu – sýnist einskisvert.

Þetta hefur verið sungið á mörgum böllum. Oft hefur allur hópurinn á dansgólfinu gefið í þegar kemur að niðurlaginu um vináttuna:

Gott er að geta talað við – einhvern sem að skilur þig.
Traustur vinur – getur gert – kraftaverk.

Er það svo? Hverjir eru traustir vinir? Gera þeir kraftaverk? Og hvað er að vera vinur? Bandarískur fræðimaður hélt fram að fjórðungur Bandaríkjamanna ættu enga vini – bara kunningja, ættingja og samstarfsfélaga. Hvað um okkur? Eigum við bara kunningja eða líka vini? Kunningjar geta skemmt sér saman og talað margt, en þó ekki um viðkvæmu málin. Það gera vinir hins vegar. Kunningjar eiga sér leikreglur um mörk samskipta, en vinir tala á grundvelli trausts og trúnaðar. Kunningjar fara að mörkum hins óþægilega, en vinir þora að fara lengra vegna gagnkvæms trausts, umhyggju og heiðarleika. Kunningjar geta verið afar skemmtilegir félagar, en vinir efla hvern annan. Og reynsla mín sem prests er að þau hjónabönd dugi best þegar makar eru vinir en ekki bara félagar með aðgang að sama ísskáp og rúmi.

Í teiknimyndinni Tommi og Jenni mála bæinn rauðan er gott lag og grípandi texti sem margir krakkar hafa sungið fyrir framan skjáinn:

Ekkert jafnast á við það,
að eiga góðan vin í stað.
Að standa tveir í hverri raun
eru vináttulaun.

Þó skáldskapurinn sé ekki rismikill skilst boðskapurinn – að það sé mikilvægt vera ekki einn þegar maður á erfitt. Allir þarfnast stuðnings einhvern tíma. Í afþreyingarefni er vinátta fremur tengd börnum en fullorðnum. Þegar vinátta er gúgluð á netinu birtast aðallega myndir af bangsa, teiknimyndir eða myndir af hestum og hundum! Hvað merkir það? Eru bestu vinirnir dýr en mennirnir eru frekar kunningjar og félagar?

Maður, sem ég hef þekkt í áratugi, kom í heimsókn til að tala við mig. Við röbbuðum saman, miðluðum fréttum og fórum víða. En svo kom að því að viðmælandi minn fór inn á svið, sem var hvorki einfalt né auðvelt. Hann var kominn til að gagnrýna mig og benda mér á bresti mína. Hann sagði mér frá göllunum, sem ég gæti bætt. Ég sat á móti þessum manni, sem ég hef svo oft talað við, dáðst að, stundum pirrað mig yfir en líka hrifist af. Ég fann hversu heill hann var og talaði við mig í trúnaði. Svona talar ekki kunningi manns, heldur raunverulegur vinur. Vinur er sá er til vamms segir.

Allir þarfnast vináttu. Djúprit mannkyns tala um vinaþörf. Í Biblíunni er Guði lýst sem vini. Jesús sagði: „Ég kalla ykkur ekki framar þjóna … en ég kalla ykkur vini.” Vinirnir styðja þig í vandræðum tjá Tommi og Jenni. Og „traustir vinir geta gert kraftaverk“ var sungið á móti sól. Fjölskyldubönd hafa verið sterk á Íslandi, en mig grunar að gildi þeirra fari minnkandi og önnur tengsl fólks komi í staðinn og þá ekki síst vinatengsl. Kunningjar eru mikilvægir í lífinu en vinir dýrmæti. Áttu vin? Hverjum treystir þú fyrir stóru málunum? Traustur vinur – getur gert – kraftaverk.

Uppástand, mánudaginn 4. júlí 2022. Hljóðskráin RÚV er að baki þessari smellu.

Vatn og fræðsla

Vatn er dýrmæti. Lífið skírist í vatni. Vatn verður ekki aðeins metið til peninga – ekki frekar en lífið sjálft. Jafnvel í köldu Þingvallavatni lifa um 120 þúsund lífverur á hverjum fermetra við vatnsbakka. Það er heilt samfélag á litlum bletti og í stóru samhengi. Það lífríki er verðmætt. Göngumst við ríkidæminu og ábyrgð okkar. Gerum vatnalífi landsins gott til með fræðslu, gestastofum, almennri menntun um lífið í vatninu. Já, verndum vatnið hæfilega.

Fyrir nokkrum árum kom ég í safn í Vestur-Noregi, sem helgað er lífinu í merkilegri laxá. Þegar inn var komið var þar ekki aðeins miðlað upplýsingum um ofurfiska, sögu veiða og árnýtingar, heldur var sem einn hluti árinnar rynni í gegnum húsið.
Eins og í góðum vatna- og sjávarlífs-söfnum erlendis var hægt að ganga að stórum sýnisgluggum. Þeir veittu innsýn beint í hylinn. Þar syntu árbúarnir og hægt var að fylgjast með gerð, stærð, hreyfingum og samskiptum fiskanna. Þetta var heillandi heimur og ég hugsaði með mér: Góð hugmynd fyrir fólk, sem metur vatnið og lífið mikils – frábær hugmynd fyrir Árnesinga. Gullhringurinn – Þingvellir, Gullfoss, Geysir og Skálholt – er góður en yrði enn betri ef hægt væri í ferðarlok að skoða stórfiska á leið upp ána og fræðast um dýrmæti og nýtingu vatns. Allt vatn og líf þess er gott og við erum vörslumenn þess. Ekki er verra að fiskur í kristninni er tákn hins heilaga. Er ekki tími til kominn að Árnesingar gangist við ríkidæmi sínu, byggi laxastofu og opni fjársjóðskistu vatnaheims héraðsins. Gullið má sýna. Slíka vatnsstofu má gera í eða við Árborg. Alviðra var fyrir hálfri öld gefin af stórhug til verndar náttúru og fræðslu. Gestastofa í Alviðru við brúna yfir Sogið er kjörin staðsetning fyrir slíka gestastofu.

Lífskúlurnar

Kennslustund var að hefjast. Kennarinn rogaðist með stóra glerskál að kennarapúltinu og kom henni þar fyrir. Síðan fór hann að veiða úr fötu golfkúlur sem hann setti í glerílátið. Þegar það var orðið kúfað spurði hann áhorfendur hvort hann væri ekki búinn að fylla það. „Já,“ svaraði hópurinn í stofunni. Þá tók kennarinn kassa með föndurperlum og hellti yfir kúlurnar sem fyrir voru, hristi glerílátið svo perlurnar sáldruðust á milli golfkúlanna og settust í holrúmin á milli þeirra. „Er það núna fullt?“ spurði hann. „Jaaá,“ muldraði hópurinn, sem fylgdist með þessum óvænta gjörningi í stofunni. Enn á ný lyfti kennarinn íláti. Nú var það fata með þurrum sandi, sem hann hellti yfir það, sem fyrr var komið. Sandurinn rann á milli allra kúlanna. Ótrúlega mikið magn komst fyrir. „Er ílátið orðið fullt?“ spurði kennarinn. Nú var orðið augljóst, að ekki væri ráð að svara of ákveðið, enda tók kennarinn upp ölflösku, opnaði hana og hellti í ílátið, sem tók lengi við. Nemendurnir hlógu og kennarinn kímdi. „Er það nú fullt?“ spurði hann. „Já, já,“ svöruðu þau. Kennarinn sagði: „Mig langar til að þið hugsið um það, sem þið hafið séð, og svör ykkar.

Stóru kúlurnar – verðmætin

Golfkúlurnar eru tákn um það, sem skiptir ykkur raunverulega máli í lífinu. Það eru fjölskyldur ykkar, makar og börn, vinir, heimili, vinnan og hugðarefni. Ef þið misstuð allt annað en hélduð þessum þáttum væri líf ykkar samt ríkulegt og gott. Litlu kúlurnar, sem runnu á milli hinna stærri, eru tákin um allt það sem ekki skilgreinir hvað þú ert í lífinu, t.d. í hvaða húsi þú býrð, hvort þú átt bíl eða hvaða gerðar hann er, hvert þú fórst í sumarfrí, hvort þú nærð að fara í borgarferð í ár eða ekki og annað álíka. Sandurinn er það, sem skiptir enn minna máli, t.d. hvort þú varst búinn að taka til í bílskúrnum, þværð þvottinn í dag eða á morgun. Ef sandurinn er settur í glerskálina fyrst er ekkert pláss, hvorki fyrir smáar eða stórar kúlur. Ef við fyllum lífið af smáverkefnum og smáatriðum er ekki lengur pláss fyrir það, sem máli skiptir og veitir hamingju. Gefið gaum því, sem varðar lífshamingjuna. Leikið við börnin ykkar, gælið við ástina og munið eftir leiknum í samskiptum við fólk. Munið eftir að sinna heilsurækt, hinu andlega lífi og heimsækja foreldra ykkar. Ef þessum málum er sinnt og þau rækt verður alltaf tími til að þrífa á bak við eldavél eða taka til í kústaskápnum. Setjið lífsþættina í forgangsröð. Aðalmálin fyrst og síðan annað í gildaröð. Lífið fyrst og annað er sandur. Einn nemandinn lyfti hendi: „En hvað með vökvann sem þú helltir yfir hitt?“ “Gott að þú spurðir,“ var svarað. „Það er nú einu sinni svo að hversu gott og ríkulegt líf þitt er, getur verið ljómandi líka að setjast niður með vini þínum og fá sér bjór!“ 

Verðmætamat og forgangur
Er viska í þessari sögu? Hvað er sandurinn í lífi þínu? Gerir þú of mikið úr þrifunum eða puðinu? Fer of mikill tími af lífi þínu í hringsól og snatt? Er ekki ráð að þú staldrir við og spyrjir hvað það er sem skiptir þig verulegu máli. Hvað má hverfa, án þess að líf þitt blikni? Hvað skaðar hamingju þína? Hvað myndi algerlega kremja í þér hjartað og eyða lífsgleðinni? Er lífsskál þín full af sandi eða er þar nóg pláss fyrir stóru lífskúlurnar? Er í þér ástarkraftur? Áttu nægan nægan tíma fyrir vini, börn, hlátur, strokur og kossa? Er eitthvað, sem mætti fara eða jafnvel verður að hverfa, til að meira næði sé fyrir það sem máli skiptir? Er einhver möl og grjót sem er í leið þinni. Hver er dýptin og hvar er Guð í þínu lífi? Jesús stendur hjá þér: Ég mun gefa ykkur nýtt hjarta og leggja ykkur nýjan anda í brjóst. Brautin hefur verið rudd. Þér standa til boða stórar og smáar lífskúlur. Það neyðir þig enginn til að lifa vel, en þér er boðið í veislu lífsleikninnnar.

Trúir þú á Guð?

Blaðamaður vildi tala við prest og kom svo í Hallgrímskirkju. Samtal okkar var skemmtilegt. Í lokin fórum við inn í kirkjuskipið og kvöddumst að lokum við ljósberann hjá Kristsstyttunni. Á leiðinni fram að dyrum sneri blaðamaðurinn allt í einu við, skaust fram hjá ferðamönnunum og kom aftur til mín og spurði: „Trúir þú á Guð?“ Spurningin var frá hjartanu, einlæg spurning en ekki eftirþanki eða grunur sem braust fram. Svarið var: „Já, ég trúi á Guð. Ég væri ekki prestur ef ég tryði ekki á Guð.“ Ég stóð þarna með logandi kerti í hendi og kom því fyrir hjá ljóshnettinum. Nýtt samtal hófst og risti djúpt. Ferðamenn heimsins fóru hjá með sínar spurningar um tilgang, líf og hamingju.

Trúir þú á Guð? Spurningin laumast að okkur á vitjunarstundum og krossgötum lífsins. Þegar við glímum við breytingar verða spurningar um Guð og trú stundum ágengar. Þegar lífi fólks er ógnað verður hún að spurningu um möguleika lífs. Hvað er hinum megin dauðastundarinnar? Nánd dauðans kallar á líf. Þegar dauðinn sækir að blossar upp lífsþrá. Þegar fólk undirbýr dauða sinn og kallar til prest verða himindjúp samtöl. Á dánarbeði spyr fólk mig stundum um trú mína, hvort ég sé hræddur við dauðann og hvert framhaldið verði. Það eru ekki bakþankar heldur alvöru spurningar úr sálardjúpum.

Margir endurmeta guðstrú sína, tengsl eða tengslaleysi við Guð einhvern tíma á æfinni, sumir oft. Trú er ekki fasti heldur breytist. Trú er gjöf tengsla og trú er traust. Menn bila og geta líka tapað trausti og tengslum við Guð. Ég get ekki verið prestur í kristinni kirkju ef ég tryði ekki eða væri ótengdur Guði. Ég myndi segja af mér prestsstarfinu ef ég missti trúna. Það hafa prestar gert þegar trúin hefur horfið þeim. Guðssamband er ekki fasteign heldur lifandi samband. Það geta orðið breytingar og skil í þem tengslum rétt eins og í samböndum fólks.

Blaðamaðurinn vildi vita hvernig guðstrú tengdist öðrum lífsefnum. Mín afstaða er að trú sé ástarsamband og að trú sé best túlkuð sem ástartengsl. Tjáskipti Guðs og manns eru samskipti elskunnar. Í sambúð fólks getur ást dvínað og trú getur með hliðstæðum hætti linast og jafnvel horfið. Ástartengsl geta líka dafnað og trú getur styrkst. Trú er samband lifandi aðila eins og ástin er lífssamband. Svo var ég spurður um bæn. Svarið var og er að ég bið. Ég gæti ekki hugsað mér orðalaust ástarsamband. Mér þykir óhugsandi að tala t.d. ekki við konuna mína. Bæn er tjáning elskunnar, hlý og óttalaus. Þannig lifi ég trú sem dýpstu tengsl lífsins, að Guð er mér nær en meðvitund mín. Anda Guðs túlka ég sem áhrifavald, ekki aðeins í ferlum og lífvefnaði náttúrunnar heldur líka í tækni, veraldarvefnum, lífspúlsum menningar og öllu því sem verður í veröldinni. Svona túlka ég veruleika Guðs og það er ekkert ódýrt í þeirri nálgun.

Efi og trú eru að mínu viti tvíburasystur og vinir. Ég glími stöðugt við efasemdir mínar. Efinn hjálpar við að greina hið mikilvæga frá hinu sem er úrelt í trúarefnum. Forn heimsmynd er ekki aðalmál trúarinnar og trúmenn hljóta að fagna vísindum og aukinni þekkingu. Hlutverk Biblíunnar er ekki að færa okkur til baka í tíma heldur opna okkur framtíð. Biblíuna þarf að lesa með köldum en opnum huga. Trúarlærdóma þarf líka að skoða og skilja í sögulegu samhengi. Kirkjustofnanir breytast og jafnvel hrynja því verk mannanna eru skilyrt og stundum afar sjálfhverf. Því er vert að skoða allt sem tengist trú og trúariðkun með gagnrýnum huga. Ég dreg ekki á eftir mér gömul og úrelt fyrirmæli Biblíunnar. Ég er frjáls undan hvers konar kúgandi og lífshamlandi valdi. Ég hvorki kannast við né þekki stressaðan, skapstyggan Guð, sem er viðkvæmur fyrir mistökum og ranghugmyndum fólks. Guð reiðist ekki óvitaskap okkar manna þegar við gerum okkur rangar hugmyndir um Guð. Ég er afar gagnrýninn á lífsheftandi guðshugmyndir en ég trúi. Guð tjáir mér elsku sína í hjartslætti mínum, frumum líkamans, hrifningu daganna, faðmlögum og furðum og fegurð heimsins. Trúarspurningin berst öllum einhvern tíma. Hvernig er trú þín eða vantrú? Er allt búið þegar síðasti andardrátturinn hverfur? Hver eru ástartengsl þín við lífið? Trúir þú? Guð talar við þig því ástin orðar afstöðu og þarfnast alltaf samtals.

Messi pistill birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 5. maí, 2022. Meðfylgjandi mynd er af neðri hluta ljósbera kirkjunnar.