Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is. Þá var talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is Sá vefur er nú lokaður.

Fætur söngvarans í helgidóminum

Flestir fara úr útiskónum þegar þeir koma heim. En fáir fara úr skónum þegar þeir koma í kirkju. Einn vina minna gerir það þó reglulega þegar hann fer í kór Hallgrímskirkju en er á sokkaleistunum. Á sönghátíðinni á fjórða sunnudegi í aðventu var einn söngvaranna sem kom bæði skólaus og sokkalaus í Hallgrímskirkju. Kristófer Kvaran, vinur minn frá Neskirkjuárunum, var vita sokka-og skólaus í kór kirkjunnar og söng í stóra kórnum og líka með Kór Neskirkju. Kristófer sleppti oft skóm og sokkum á Neskiurkjuárum mínum svo mér kom ekki á óvart að sjá tær hans og hæla að nýju. En skóleysið rifjaði upp fyrir mér enn og aftur versið í annarri Mósebók: „Komdu ekki nær, drag skó þína af fótum þér því að staðurinn, sem þú stendur á, er heilög jörð.“ Kristófer söng fagurlega og fætur fagnaðarboðans eru fagrir – eins og segir í Biblíunni líka (Jes. 52.7). 

Um fætur og fótþvotta er rætt í þessari prédikun. 

Lausn frá embætti

Ég óska lausnar frá embætti sóknarprests Hallgrímskirkju. Þannig var beiðnin sem ég sendi stjórnsýslu kirkjunnar um að ég óskaði að láta af starfi sóknarprests. Ég fékk svar til baka frá biskupi að mér væri veitt lausn. Ég lýk því brátt störfum sem prestur í þjóðkirkjunni og sóknarprestur Hallgrímskirkju.

Ég man að þegar ég hóf prestsþjónustu í Skaftafellssýslu var allt svo nýtt, allt var í fyrsta sinn og líka meðal Þingeyinga síðar. Svo var flest nýtt í Neskirkju og margt þurfti ég að læra þegar ég hóf störf í Hallgrímskirkju. En nú er fæst nýtt heldur allt síðast. Nú er aðventuguðsþjónustan á sunnudag sú síðasta á æfi minni sem prests. Síðasta „miðnæturmessan“ og síðasta jólaguðsþjónustan á annan í jólum. Ég prédika í síðasta sinn á gamlársdag og nýársmessan verður sú síðasta á minni æfi – líklega. Síðast er allt öðru vísi en í fyrsta sinn. Hvorki verra né betra en allt annarar merkingar. Í mínu tilviki er ég ekki að stoppa eða deyja heldur virða breytinguna, finna til og hugsa í gegnum hana. Opna til nýs lífs. Ég er að byrja þriðja æfiskeiðið og tíminn er opinn. Frelsið er róttækt.

Óska lausnar – en lausnar frá hverju? Orðfæri kirkjunnar eins og opinberrar stjórnsýslu er um þunga eða byrðar sem hægt er að létta af fólki. Okkur prestum eða djáknum er veitt lausn því embætti er byrði þess að bera ábyrgð á kirkjulegri þjónustu við ákveðinn hóp fólks og í ákveðnum aðstæðum. Stólan er tákn oksins og sett á axlir hins nývígða. En byrði mín hefur verið létt því ég hef virt inntak trúmennskunnar og skorður frelsisins. Nú verður skyldunum brátt létt af og ég ræð mínum tíma sjálfur, geri það sem ég hef mest gaman af, sinni því sem ég hef sett til hliðar jafnvel í áratugi, skrifa um það sem brennur í sinni eða blæðir í hjarta og geng þær leiðir sem kalla. Af mér verður létt embætti en ekki reisunni með Guði, ástvinum, fólki og öðrum skemmtikröftum lífsins.

Hvað ætla ég að gera? Ég ætla að læra meira og læra margt nýtt, fara lengra og breyta mörgu. Gefa út postilluna sem ég er að klára, úrval predikana minna. Svo langar mig líka til að ganga portúgalska Jakobsveginn í vor með elskunni minni. Drama kristninnar er lífið. Bakpokinn verður ok á öxlum og frelsið í fótum, hjarta og huga.

Meðfylgjandi mynd tók ég á norðurleið Camino – Jakobsveginum á Spáni. Nýr vaxtartími viðarteinunganna á aprílakrinum. 

Saknaðarilmur

Hvernig er lyktin af sorg og látinni móður? Hvernig er lyktin af ást? Saknaðarilmur er saga Elísabetar Jökulsdóttir og er um móðurmissi og tilfinningar og minningar sem vakna við uppgjör og úrvinnslu. Sagan teiknar upp flóknar persónur dóttur og móður og hvernig þær lifðu og höfðu víxlverkandi áhrif á hvora aðra. Sagan er átakanleg frásögn um sorgardýptir og blæbrigði. Saknaðarilmur hreif mig. Hún tjáir að höfundur hefur unnið með vanda sinn og náð sátt. Þetta er átakanleg bók en líka hrífandi uppgjör sem allir geta lært af.

Í Saknaðarilmi gerir dóttir upp við móðurina, gjafir hennar, umhyggju en líka hörku og kulda í samskiptum. Myndin sem Elísabet dregur upp af móður sinni er mótsagnakennd. Harkan í samskiptum þeirra særir en ástarleitin hrífur. Stundum er elskan harðhent og jafnvel ofbeldisfull. Andstæður persónu móðurinnar ríma síðan í túlkun á þverstæðum í persónu Elísabetar. Sannleikurinn í samskiptum þeirra var ekki einnar víddar heldur marglaga.

Mikill hraði er í málsmeðferð og stiklað er á milli tíða og skoðunarefna. Sumir kaflarnir eru aðeins nokkrar línur en aðrir lengri. Flestir ljóðrænir og merkingarþrungnir og sumir expressjónískir. Saman teikna þessi kaflabrot mynd  af erfiðum uppvexti, áföllum, misskilningi, baráttu, gjafmildi, hæfileikum, harðræði, misþroska, sálarkreppum, margræðum persónum í samskiptum og svo öllu hinu venjulega líka.

Saknaðarilmur er líka saga um hvernig áföll hafa kreppt að fólki og lemstrað. Herpt fólk á erfitt með að rækta ást og þegar allur tími og athygli fer í að bregðast stöðugt við nýjum vanda vorar seint. Ástarteppa eða ástarherpingur er slæmur uppvaxtarreitur hamingjunnar.

Saga Elísabetar tjáir með mikilli einlægni harkalega reynslu og kreppt samband móður og dóttur. Bókin er ekki aðeins vel skrifað bókmenntaverk heldur ljómandi samtalsefni fyrir fólk sem hefur áhuga á samskiptum kynslóða og menningu fjölskyldna. Svo er bókin merkilegt rit um framvindu sorgar og hvernig má vinna með og jafnvel græða kalbletti sálarinnar. 

Ég velti vöngum yfir hvernig erfið lífsbarátta mótar fólk og jafnvel afmyndar. Fátæka Ísland bjó til krumpað fólk sem skilaði herpingi aldanna áfram til framtíðarkynslóða. Syndir mæðra og feðra bárust og berast áfram, ekki bara í erfðamengi heldur líka í menningu fjölskyldna, ætta og þjóða. Barátta Íslendinga við fátækt skilaði fátækt í samskiptum, fáum faðmlögum og fátækt í ástartjáningum. En þrátt fyrir allt er manneskjan mesta undrið og elskan leitar upp í okkur öllum. Þá ilmar.

Hann var mér norður, suður – austur og vestur

Síminn sönglaði, skilaboð bárust frá Noregi. Vinkona í Þrándheimi hafði verið beðin að lesa eitthvert viðeigandi ljóð við útför vinar. Og vinkonan norska bað um hjálp. Hvað ljóð væri hægt að lesa við útför elskaðs vinar? Hávamál eða eitthvað eftir norskan höfund? Það ljóð, sem var mér þá stundina efst í huga var ljóðið sem var flutt við útför í kvikmyndinni Fjögur brúðkaup og jarðarför. Ég fletti upp að nýju hinu magnaða ljóði Wystan Hugh Auden Funeralblues og minntist stórkostlegs flutnings John Hannah á þessu ljóði í kvikmyndinni þegar hann kvaddi maka sinn. Hvaða tilfinningar vakna þegar maður missir ástina sína? Hvernig breytist veröldin við dauða?

Vinkona mín las ljóðið á enskunni og heillaðist af hljóðlátum krafti þess. Svo fletti hún upp norskum þýðingum þess. En þar sem engin þeirra snart hana snaraði hún sjálf ljóðinu á nýnorsku – og flutti við útför vinar síns í gær. 

Glóðin í texta Auden er persónuleg og hefur sértæk en mismunandi áhrif. Engin íslensku þýðinganna snart mig heldur svo ég umorðaði líka. Það varð ekki þýðing orða eða efnisatriða heldur fremur snörun tilfinninga í þessu sorgarljóði Auden. Djúpsvartur harmur og tilfinningar fólks í sorg eru líkar á öllum öldum og í mismunandi aðstæðum. 

Útfararblús

Stöðvið tímann, kastið símum.

Hendið beini í hundinn og kæfið gjammið.

Stöðvið glamrið – syrgjendur nálgast.

Lyftið kistu við dempaðan bumbuslátt.

 

Hann er dáinn. Þotur veina á flugi

og krota andlátsfregn á himinskjáinn.

Fregnin fer um samfélagsvefinn.

Fánar í hálfa stöng.

 

Hann var mér norður, suður – austur og vestur,

allar helgar og vinnuvikur.

Hann var mér dagar, nætur, mál og músík.

Ég hélt að ástin væri eilíf – en hvílík blekking!

 

Stjörnur daprast. Slökkvið á þeim.

Hyljið tungl og drepið sól.

Sturtið hafi og eyðið gróðri.

Engin gleði framar, ekkert líf.

Sorgin er skuggi ástarinnar og tárin flæðandi sorg. Viltu fara á mis við að elska? Fæst vilja afsala sér þeim glitrandi þætti hamingju og lífs. Sá syrgir aldrei sem aldrei hefur elskað. Ef við viljum losna við eða forðast að harma kaupum við þá sorgleysu dýru verði því þá megum við ekki elska neitt í þessum heimi.

Sorg er ekki sjúkdómur, hún er hluti af lífinu, ást sem hefur misst elskuna sína eða vin. Veröldin missir lit og allt skekkist. Ástvinamissir skilgreinir veröldina, efnisheiminn og merkingu alls. Þá hrynja lögmál heimsins og allt breytist, litir verpast, mál og merking hliðrast. Sorgin málar allt, líka skýin.

Sterkar tilfinningarnar eru eðlileg viðbrögð heilbrigðs fólks í hræðilegum aðstæðum. Læknar tíminn sárin? Nei, tíminn læknar ekkert. Eins og líkamssárin þarfnast sálarsárin hreinsunar og ummönnunar. Guð elskaði og himininn fylltist sorg yfir dauða sonarins á krossi. Guð lifir sig í sorg manna og skilur sársauka. Dauðinn dó, en lífið lifir. Því endar líf ástvina þinna ekki í tómi endanlegs dauða heldur í ástarríki eilífðar. Guð hefur opnað allar gáttir dauðans með lífsmætti sínum. Því máttu fela Guði ástvini þína, ást þína, sorg þína og tilfinningar. Svo máttu falla í fang Guðs í þínum dauða – og fæðast inn í ást eilífðar. Sorgin er skuggi ástarinnar en ljós Guðs lýsir upp alla skugga og nærir ástina.

Bæn: Guð: Ver okkur norður, suður – einnig austur og vestur, allar helgar og vinnuvikur. Ver nærri daga, nætur og í máli og músík.

 

Rúnar Reynisson

Getur það verið? Er Rúnar Reynisson raunverulega sextugur? Það getur varla verið. Hann sem er eins og unglingur! Jú, mikið rétt hann fæddist á árinu 1962. Sextugur og sívökull öðlingur.

Ég vissi af Rúnari frá unglingsaldri en kynntist honum fyrst vel þegar við vorum báðir starfsmenn þjóðgarðins á Þingvöllum. Hann var landvörður, gekk í öll verk og var alltaf jafn brattur og ötull. Honum mátti treysta til smárra verka sem stórvirkja. Ég minnist næturvaktar fyrstu helgar í júlí þegar unglingarnir í Reykjavík fengu fyrstu útborgun sumarsins og ákváðu að breyta þjóðgarðinum í útihátíð. Þá var gott að njóta ráðsnilldar Rúnars. Hann horfði óhræddur í augu drukkinna unglinga og hjálpaði þeim að finna svefnpokana sína. Hann bognaði ekki undan hrópum dekraðs stráks úr bænum sem hótaði okkur að pabbi hans myndi reka okkur úr starfi á Þingvöllum. Pabbinn alvaldi kom og sótti son sinn og bað okkur margfaldlega afsökunar á látunum í syninum. Rúnar hélt húmornum í stórræðunum, lægði öldur, kom fólki til hjálpar og leysti alla hnúta greiðlega og farsællega. Á Þingvöllum varð Rúnar meira en landvörður, nánast landvættur. Þaðan í frá vissi ég að Rúnar væri lífslistamaður.

Það kom mér ekki á óvart að Rúnar varð skapandi kirkjumaður. Guðfræðinámið kom honum að gagni í fræðslustarfi kirkjunnar. Hann þorði að hugsa og spyrja nýrra spurninga um starfshætti kirkjunnar og guðfræði. Hann var í framvarðasveit þeirra sem efldu fjölskyldustarf þjóðkirkjunnar á níunda áratug síðustu aldar og síðan. Það var Nessöfnuði mikið happ að Rúnar kom til starfa í Neskirkju. Hann var og hefur verið burðarás í kirkjustarfi í Vesturbænum. Þegar sóknarnefnd og prestum Neskirkju varð ljóst hve fjölhæfur Rúnar var breyttist starf hans. Auk fjölskyldustarfsins var honum falið að stýra skrifstofu kirkjunnar. Skrifstofustjórinn Rúnar hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Neskirkju á þriðja áratug.

Ég var svo lánssamur að starfa með Rúnari í Neskirkju í áratug. Ég dáðist að geðprýði hans í miklum önnum, fjölþættum gáfum hans, óbrigðulum húmor, æðruleysi gagnvart kjánaskap samferðafólks eða sprikli okkar félaga hans, sköpunarkrafti og einbeittum metnaði hans fyrir hönd starfa sinna og safnaðar og heilindum og helgun í starfi.

Rúnar hefur alla tíð kunnað að tjá sig. Af því hann var frjór og íhugull greinandi hafa margar hugmyndir hans ratað í hugleiðingar og prédikanir presta Neskirkju. Margt af því sem Rúnar lagði til í fermingarfræðslu og öðru fræðslustarfi varð að veruleika af því hann gat útfært og sá leiðir.

Á seinni árum hefur Rúnar haft möguleika á að vinna að listsköpun. Tvær myndlistarsýningar hans í Neskirkju, eins og ólíkar og þær eru, hafa opinberað þroskaðan listamann.

Vegna þess hve náið við unnum saman í áratug fylgdist ég með fjölskyldumanninum Rúnari. Honum hefur alla tíð verið umhugað um að þjóna fólkinu sínu og gert með elskusemi og hlýju. Nú hefur hann komið börnum sínum til manns og manndóms. Ástin á heima hjá Rúnari.

Við sem höfum notið Rúnars Reynissonar eigum honum mikið að þakka – ekki aðeins samverkafólk í Neskirkju heldur söfnuður hennar, vesturbæingar og þjóðkirkjan. Fyrir hönd okkar Elínar Sigrúnar og fjölskyldu segi ég: Takk Rúnar Reynisson fyrir gjöfula samfylgd. Guð laun.

18. nóvember, 2022. Myndir sáþ.