Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is. Þá var talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is Sá vefur er nú lokaður.

Manngildi útlendinga

Í Biblíunni eru ekki aðeins sögur um fólk sem lifði fyrir tvö þúsund árum. Sögur Biblíunnar eru ekki bara gamlar sögur heldur sögur fyrir framtíð og nútíð. Þær eru sögur um okkur. Þær eru ekki úreltar – eins og grunnhyggnir halda – heldur sögur sem eru svo kraftmiklar og lífseflandi að þær móta. Biblíusögurnar eru klassískar, þær eru erkisögur. Ein þeirra er saga Rutar í Gamla testamentinu. Í Rutarbók er heillandi frásögn um fólk, gildi, ábyrgð, val, ást, flóttafólk og hvernig hægt er að bregðast við útlendingum. Eru þessi stef úrelt? Nei, þau varða vanda og val í nútíma.

Sagan hefst meira en þúsund árum fyrir Kristsburð. Fólk var á ferð, eiginlega á flótta frá Jerúsalem til landsvæðis austan Jórdandals. Þar settist að hebresk kjarnafjölskylda, foreldrar og tveir drengir. Strákarnir uxu upp. Fjölskyldan kom sér fyrir og aðlagaðist umhverfinu það vel að ungu mennirnir gengu að eiga nágrannameyjar. Heimastúlkurnar gengu í hjónaband með útlensku strákunum. En svo urðu hörmungar. Pabbinn og báðir synirnir dóu. Konan varð ekkja sem og ungu tengdadæturnar. Krísan var alger. Í karlstýrðu samfélagi voru þeim flest sund lokuð. Ekkjan ákvað að fara heim á gömlu slóðirnar í Ísrael. Og ungu konurnar sem voru barnlausar urðu að velja lífsstefnu. Önnur varð eftir en hin fór með gömlu konunni. Hún axlaði ábyrgð umfram alla skyldu. Sú unga gekk í verkin til að bjarga sér og tengdamóður sinni. Hún var svo öflug í framgöngu að hún hreif fólk í nágrenni Jerúsalem. Svo varð merkileg ástarsaga, með pólitískum snúningum, siðferðilegum, trúarlegum og menningarlegum pælingum. Rut var ábyrg í einu öllu, lifði með reisn í ómögulegum aðstæðum og var reynd í flestu. Hún var sem skírð í eldi lífsreynslunnar. Hún var trú yfir litlu sem stóru. Saga hennar er saga hetjunnar sem var síðan endursögð og væntanlega endurunnin í þágu framvindu sögu Hebrea. Það var þessi kona sem varð ættmóðir lausnar Ísraels og heimsins, formóðir Davíðs og Jesú Krists. Flóttakona varð formóðir lífsins. Það er djúpgaldur hins guðlega gjörnings, blessun elskunnar.

Rutarbók er saga um ást, um líf og reisn þrátt fyrir vanda og mótlæti. Saga um að þegar fólk axlar ábyrgð og flýr ekki geta kraftaverk orðið. Ástarjátning Rutar er ekki aðeins dýr lífstjáning heldur hefur verið endursögð um aldir, túlkað tilfinnningar fólk, orðið hvati til þroska og síðan verið tjáð í hjónavígslum fólks með alls konar og ólíka kynhneigð. Samskipti Bóasar og Rutar eru hefðarminni sem raungerast og rata til okkar í ýmsum útgáfum s.s. í samskiptum Jesú Krists og konunnar við brunninn. Jesús gaf sig á tal við útlenska konu. Biblíusögur eru lífseigar. Rutarsaga er ástarsaga um landflótta konur en endar sem saga um barn sem fæðist og bjargar heiminum. Það barn var upphaf sögu um lífið, vonar og hins góða – heimsljósið sjálft.

Í Rutarbók segir Bóas við Rut:

„Taktu nú eftir, dóttir mín. Tíndu ekki kornöx á neinum öðrum akri og farðu ekki héðan heldur haltu þig að stúlkunum mínum. Hafðu augun á akrinum þar sem piltarnir eru að skera korn og gakktu á eftir þeim. Ég hef bannað vinnufólkinu að amast við þér. Ef þig þyrstir farðu þá að vatnskerunum og drekktu af þeim sem piltarnir hafa fyllt.“ Þá féll hún fram á ásjónu sína, laut til jarðar og sagði við hann: „Hvers vegna sýnir þú mér þá góðvild að virða mig, útlendinginn, viðlits?“

Útlendingar á nýjum slóðum. Landflótta fólk í veröldinni. Rutarbók segir okkur að aðkomufólk er ekki réttlaust eða vont fólk heldur jafn lifandi og við hin. Það þráir öryggi, ást, frið, skilning þrátt fyrir að það sé útlendingar og öðru vísi. Yfir vakir Guð elskunnar sem elskar innlenda og útlenda, elskar alla jafnt og vill að við iðkum guðsástina í samskiptum og tengslum við aðra. Manngildi er ekki hluti af þjóðerni eða menningu. Manngildi er guðsgjöf.

50 ár – Heimaeyjargosið

Mamma sagði mér þegar ég vaknaði 23. janúar að gos væri hafið í Vestmannaeyjum. Við vorum öll skekin og fylgdumst með fréttum dagsins og gifturíkum flutningi fólksins í land. Við strákarnir í 6R MR fórum austur á Kambabrún til að sjá gosið og mökkinn með eigin augum. Á vegum þjóðkirkjunnar var farin skoðunarferð út í Eyjar til að skipuleggja hjálparstarf. Guðmundur Einarsson æskulýðsfulltrúi og Páll Bragi Kristjónsson hjá Hjálparstofnun kirkjunnar buðu mér að koma með. Það var skelfilegt að horfa yfir svarta Heimaey úr lofti. Þegar við lentum og komum út úr flugvélinni heyrðum við ekki aðeins gosdrunur heldur fundum þær með líkamanum. Við fórum að austurhluta gossprungunnar, sáum glóandi hraun og gosgufur voru í lægðum. Svo var farið inn í bæ og alls staðar var fólk að björgunarstörfum. Ösku var mokað af þökum og munum var bjargað. Ég var yfirkominn af undrinu að íbúarnir höfðu bjargast, hve eldjallið var nálægt og rosalegt, hve lífi var ógnað en lífshvötin fann sér farveg við margvísleg björgunarstörf. Í dag er ekki hátíðadagur heldur minningardagur. En saga Vestmannaeyja og íbúanna er upprisusaga – undursamleg blessunarsaga. 

Meðfylgjandi eru myndir sem ég tók í Heimaey í mars  fyrir nær hálfri öld. Guðmundur Einarsson, velgerðarmaður minn, fyrir framan kaupfélagið og mér sýnist sr. Ingólfur Guðmundsson vera þarna á einni myndinni. 

Kvöldbæn Gísla Kristjánssonar

Ég var að taka til í bókahillum mínum og meðal annars að skoða gamlar sálmabækur. Þá datt þessi kvöldbæn úr fyrstu sálmabók móður minnar. Bróðir hennar Gísli Björgvin Kristjánsson er höfundur. Hann var elstur sex Brautarhólssystkina, orðsnjall og hagyrðingur eins og þau öll voru. Móðir mín sagði mér að hann hefði oft sett saman vísur og þegar hann var farinn til náms í Hóla eða Kaupmannahafnar sendi hann systkinum sínum stundum kveðskapinn. Móður minni þótti undur vænt um Gísla og hefur líka þótt vænt þennan barnasálm fyrst hún geymdi hann í sálmabók sinni.  

Jesú breiddu þína blessun

yfir rúmið mitt.

Láttu blessað ljósið skína.

Lát mig vera barnið þitt.

 

Gef mig dreymi engla undur blíða

yfir mér sem vaka er sef ég rótt.

Veit ég þá að ég hef engu að kvíða.

Öllum bið ég góða nótt.

Á meðfylgjandi mynd er Gísli, höfundur kvöldsálmsins, annar frá vinstri í aftari röð. Thora, kona hans er honum á hægri hönd. Síðan er Sigurjón, þá Þórður og Svanfríður, foreldrar mínir. Í fremri röð frá vinstri eru Filippía (skáldkonan Hugrún), Kristín, amma og móðir þeirra Brautarhólssystkina, síðan Lilja Sólveig og lengsti til hægri Sigríður, kona Sigurjóns. Myndin er líklega tekin í afmæli Kristínar ömmu í janúar.

Hér að neðan er svo mynd af Brautarhólsbræðrum hinum fyrri. Gísli lengst til vinstri, Sigurjón í miðju og Sigurður Marinó til hægri. Myndin er afar lýsandi um skaphöfn og persónur þeirra bræðra. 

Jól í janúar

Úkraínumenn komu í Hallgrímskirkju á þrettándanum. Sr Laurentiy frá Kiev las og tónaði fagurlega frá altari kirkjunnar og Alexandra Chernyshova söng. Þegar komumenn heyrðu orð og söng á eigin tungu brostu þau út að eyrum. Tár sáust á hvörmum og friður settist að í sálum fólks. Jólin voru komin!

Tímatal austurkirkjunnar er annað en okkar gregoríanska. Jólin eru samkvæmt júlíönsku tímatali í janúar. Nærri tvö hundruð komu í Hallgrímskirkju til að taka þátt í aftansöng jóla. Það var eins og maður væri hrifinn burt úr iðandi, reykvísku föstudagskvöldi inn í aðra menningu og í aðra helgisiði. Það var hrífandi að verða vitni að tilbeiðslunni þrátt fyrir flugeldabombur utan kirkju sem minntu á stöðugar loftárásir Rússa á Úkraínu. Fólk kom og fór, foreldrar sinntu ungbörnum sínum og friður umvafði alla.

Birgir Þórarinsson alþingismaður fór til Úkraínu og hafði síðan milligöngu um að koma á tengslum við úkraínsku kirkjuna. Sr. Laurentiy, munkur og prestur var sendur til Íslands til að þjóna löndum sínum. Það tók hann sólarhring að komast frá heimaslóð og alla leið til Íslands. Úkraínska rétttrúnaðarkirkjan var hluti umdæmis patríarkans Kiril í Moskvu en vegna fylgispektar hans við stjórn og stríðsrekstur Pútíns hefur úkraínska kirkjan snúið sér til grísk-orþodoksku kirkjunnar. Patríark hennar og Cleantes umdæmisbiskup hennar á Norðurlöndum hafa myndað góð tengsl við þjóðkirkjuna íslensku og messuðu í Hallgrímskirkju í október 2017. Því var leitað til kirkjunnar um að vera fang fyrir jólahald Úkraínumanna.

Í Saltaranum er spurt: „Hvernig ættum við að syngja Drottins ljóð í öðru landi?” Úkraínumenn tilbiðja þó þeir séu á flótta og kirkjan er samhengi kynslóðanna. En þegar nágrannaþjóð hefur ráðist á heimalandið, flekkað það blóði þúsunda kreppir að. Það hefur löngum verið sagt að enginn sé trúlaus í skotgröfunum. En alþingsmenn, Íslendingar og íslensk kirkja styðja frelsisbaráttu og trúariðkun Úkraínumanna og annarra sem þarfnast stórs fangs. Lífið er alls konar en Guð elskar alla. Gleðileg jól í janúar og megi friður Guðs ríkja meðal manna og þjóða.

Nokkrar myndir frá hinum úkraínska aftansöng jóla er að baki þessari smellu. 

Kirkjuplattar

Á fjölsóttum heimilum til sjávar og sveita er gott að eiga marga diska. Prestur sem hefur sótt um lausn frá embætti og er á þriðja æfiskeiði lætur flest frá sér og grisjar stíft. En með hækkandi aldri leyfir maður sér að verða skrítnari en áður. Og ég safna kirkjuplöttum og nota þá sem forréttadiska. Margir fagrir og merkilegir hafa verið gerðir en mig vantar í safnið. Svona diskar eru dásamleg samtalsefni um mikilvægi kirkjustaða og kirkjuhúsa 🙂  Ég stefni að mikilli matseld og mörgum veislum og bæti í ef ég held heilsu og andlegu atgervi. Því er þörf á fleiri kirkjudiskum.

Ég á þegar þessa: Akureyrarkirkja; Bústaðakirkja; Glerárkirkja; Hjarðarholtskirkja; Hvalsneskirkja; Hveragerðiskirkja; Ólafsvíkurkirkja; Reyðarfjarðarkirkja; Sauðárkrókskirkja; Setbergsprestakall -Grundarfjarðarkirkja; Skálholtskirkja; Stykkishólmskirkja (hin eldri vígð 1879); Stykkishólmskirkja (við byggjum kirkju); Stykkishólmskirkja (vígð 1990); Úlfljótsvatnskirkja; Þykkvarbæjarklausturskirkja.

Kirkjuplattar eru margir listilega gerðir og hluti af menningarsögu Íslands. Ef lesendur þessar greinar vita af fleiri kirkjuplöttum kaupi ég gjarnan, styrki kirkjurnar og vek athygli á staðasögu, menningarsögu og sögu kirkjunnar.

Ég á þrjá Stykkishólmsplatta og meðfylgjandi er mynd af forrétti á einum. Gerið mér greiða og verði ykkur að góðu. 

s@sigurdurarni.is eða í s. 8622312