Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Palma er í plús

Íslendingar tala um Majorkaveður og flestir skilja að það er gott veður. Frá 1958 fóru Íslendingar í sólarlandaferðir til „Mallorca.“ Veðrið var lofað, ódýrt vín líka og líflegt strandlíf. En er það allt og sumt? Eru íbúar eyjarinnar ódýrt vinnuafl í þjónustu sólarþyrstra N-evrópubúa? Við, fjölskyldan, höfum farið í sólarferðir til Florída, Kanarí, meginlands Spánar, í Eyjahafið gríska og til Portúgal og Ítalíu en aldrei til Majorku. En svo opnaðist möguleiki. Elín Sigrún, kona mín, fann fallega íbúð í Palma sem eigandinn vildi gjarnan lána okkur. Svo við slógum til og fórum í viku.  

Við vorum heppin. Íbúðin var í hjarta gömlu Palma, rétt hjá Chopin-torginu og við Nikulásarkirkjuna við Mercat-torg. Í þessum borgarhluta er engin bílaumferð. Göturnar eru þröngar og skýla vel gegn brennandi sólarhitanum í ágúst. Borgin er svo miklu ríkulegri en mig óraði fyrir. Sagan er þykk og fjölbreytileg enda Palma siglingaborg frá því í fornöld og stjórnsýslumiðstöð stórrar eyjar með tengsl við nærliggjandi stórveldi. Márarnir byggðu glæsilegar byggingar á miðöldum og þegar þeir misstu völdin var byggt áfram í stórveldisstíl. Þessar byggingar eru áhugverðar og skemmtilegt og lærdómsríkt að skoða. Baðstrendur eru nálægar og fljótlegt að ganga eða hjóla frá bænum á ljómandi strendur með góðri þjónustu. Sigling með fallegri og klettóttri strönd flóans er meðmælanleg. Við fórum eins slíka ferð á katamaran og nutum veislu um borð og syntum í sjónum. 

Majorka tengist íslenskri sögu fyrri alda. Þegar leysingjar „Tyrkjaránsins“ komu úr barbaríinu í Norður-Afríku voru þeir sendir til Palma á leið til Kaupmannahafnar. Ég hugsaði því um Guðríði Símonardóttur, konu Hallgríms Péturssonar, þegar ég gekk um hafnarsvæðið (og ég mæli með hinni frábæru reisubók Guðríðar eftir Steinunni Jóhannesdóttur). Glæsilegar byggingar hafa verið á Majorku um aldir og allt til þessara daga hefur verið bætt við. Nýja ráðstefnuhöllin er eins og Harpan í Reykjavík – mikið mannvirki. Kirkjurnar eru stórkostlegar og stutt á milli þeirra. Skoðunarferðatemun geta verið ólík og mörg. Palma verður seint fullkönnuð. 

Ég heillaðist af íbúðinni okkar. Hún er lokuð út mót götum og veröldinni en skipulögð í kringum ljóskjarna sem veitir birtu í öll herbergi. Húsagerðin þjónar því að halda hita úti á sumrin og hita inni á vetrum en tryggja ljósflæði um allt. Í hjarta Palma fara allir ferða sinna fótgangandi. Því er kyrrð í borgarhlutanum. Stutt er í allar verslanir og stórmarkaðir eru nærri. 

Palma var svo miklu ríkulegri en mig hafði órað fyrir. Þjónustan við okkur aðkomufólkið var slök og óáreitin, byggði á gömlum merg. Veitingahúsin eru mörg, alls konar, ekki aðeins í miðborginni heldur á Granda – hafnarsvæði – þeirra Palmabúa líka. Eldamennskan mjög góð og víða heillandi. Palma hefur flest sem ferðafólk við Miðjarðarhaf óskar eftir. Listalífið er fjölbreytilegt og hvergi í heiminum hef ég séð eins mikið af góðum listagalleríum á litlu svæði og í Palma – og hef ég farið víða. Áhugaverðar sérverslanir eru ótrúlega margar og staðfesta þykka og söguríka menningu. Palma er snyrtileg, vel skipulögð hafnar-, ferðamanna- og menningar-borg. Hún er litrík, glaðvær, slök, vellíðandi, glæsileg og elskuleg. Palma er ekki bara borg hins góða veðurs heldur borg gæða á svo mörgum sviðum. Alicante er fín, Valencia og Kanarí líka en Palma er betri. Við vorum öll sammála um að Palma var mun ríkulegri en við áttum von á. Okkur leið vel í hjarta Palma – gömlu borginni – og við viljum gjarnan koma aftur og dvelja þá í sama hjarta Palma – gönguhlutanum fremur en á hótelasvæðinu. Palma er í algerum plús. Takk Púma og takk Palma . 

Myndir okkar frá Palma eru á slóðinni að baki þessari smellu.

 

 

 

Ljóskeilan í miðjunni

Í miklum hita sá ég einu sinni nunnur og presta í Assisi forðast að ganga í sólinni og þau gættu þess að vera alltaf í skugganum. Það var dálítið fyndið en ég skildi að með hoppum og stikli reyndu þau að forðast hitann. Ég hef gengið um Jerúsalem, Akka, Genúa, Róm, Malaga, Palma og fleiri suðrænar borgir og furðað mig á hve þétt húsin standa. Svo uppgötvaði ég að í þrúgandi hita er hagkvæmt að stutt sé milli húsa því þau verða fólki, dýrum og húsum skjól. Þau standa svo þétt svo sólskinið skíni sem minnst á vegfarendur og byggingar. Í skuggasundunum er þægilegra að ganga og sitja en í brennandi sólskini og steikjandi hita. Á suðrænum slóðum er mikilvægara að huga að hita og kulda en birtu. Því eru borgirnar í suðrinu með merkjum hugsandi skipuleggjenda. Á norrænum slóðum er mikilvægara að tryggja sem mest ljós en vörn gegn hita. Því er ólánlegt að byggja þéttstæð háhýsi í okkar heimshluta. Þá er ofuhitaarkitektúr ranglega laumað inn eða smyglað í ljósþurfandi byggðir. Þorp og borgir á að skipuleggja til að þjóna fólki og góðri líðan þess.

Í sumar fengum við fjölskyldan lánaða íbúð í gamla hluta Palma, hjarta borgarinnar. Húsið er aldrað, líklega nokkur hundruð ára. Hverfið er enn eldra og með þröngum götum sem halda brennandi sumarhitanum frá og hindra skyndikælingu á vetrum. Íbúðin er dásamleg og hefur verið gerð upp nostursamlega og smekklega. En ég furðaði mig á skipulagi hennar og húsanna í þessum gamla borgarhluta. Litlir gluggar með opnanlegum hlerum eru götumegin og mót suðri og allir svo gerðir að hægt er að loka þeim, bæði til að hindra ofurbirtu og hitamók sumardaganna en líka hitamissi í vetrarkuldum. Í miðju íbúðarinnar er enginn miðjugangur eins og í mörgum íslenskum íbúðum tuttugustu aldar. Í miðju húsanna í Palma er hins vegar ljóskeila. Húsin eru með miðjustrokk sem opinn er frá neðstu hæð og uppúr – tvær til fjórar hæðir. Gler er allan hringinn kringum ljóskeiluna. Á hæðunum hafa íbúar komið fyrir blómakerjum í strokknum og við hann. Innan við gluggana er síðan gangur sem nær í kringum ljóskeiluna og gengið er í herbergi, eldhús, baðherbergi og stofur þaðan í frá. Vissulega voru margar íslenskar íbúðir skipulagðar með hringgöngu en án ljóskeilu í miðju. Vissulega eru til síðari tíma ljóskeiluhús, eitt er í götunni þar sem ég bý og oft hef ég komið í hús með „japanskri“ miðju. Þessi Palma-útgáfa er áhugaverð og íhugunarefni. Brunahita haldið úti, vetrarkulda líka en ljósflæðið tryggt inn með ljóskeilu. Ljós frá miðju og svo inn í vistarverur. Skipulagið rímar við sólmiðju og guðsmiðju veraldar. Heillandi.

 

 

Þunglyndi, sorg og Davíð konungur

Ég var beðinn um að skrifa greinarstubb um sorg og fór að skoða nokkra biblíutexta. Löngum hefur mönnum verið ljóst mikilvægi þess að geina á milli þunglyndis og sorgar. Ekki aðeins í hinum klassíska gríska og rómverska heimi heldur líka hebresk/gyðinglega. 

Ástæður þunglyndis og sorgar eru yfirleitt ólíkar og úrvinnslan líka. En auðvitað geta þunglyndi og sorg ofta fléttast saman. Davíð konungur var tilfinningavera og hægt er að sjá í sögu hans tvær víddir tilfinningaúrvinnslu. Ég mun ekki ræða sögu Davíðs eða tilfinningaúrvinnslu í Biblíunni í greininni í vinnslu en mér þótti áhugavert að sjá að Biblían er svona kostarík. 

Í Davíðssálmi 38 er þunglyndi lýst:

Ekkert er heilbrigt í líkama mínum
vegna reiði þinnar,
ekkert heilt í beinum mínum
sakir syndar minnar.
Misgjörðir mínar hafa vaxið mér yfir höfuð,
þær eru byrði sem ég fæ ekki borið.
Ódaun leggur af sárum mínum,
það grefur í þeim sakir heimsku minnar.
Ég er beygður og mjög bugaður,
eigra um harmandi daginn langan.
Brunasviði er í lendum mér 
og ekkert er heilbrigt í líkama mínum.
Ég er lémagna og sundurkraminn,
styn í hjartans angist.

Ljóðið hefur oft verið eignað Davíð konungi. Hver höfundur er skiptir ekki máli fyrir túlkunina en Davíðssálmarnir tjáir allar tilfinningar manna. Þunglyndi hefur verið kunnugt og þungbært öllum kynslóðum mankyns. En sorg og sorgarferli er annað en depurð. Þegar Sál konungur og Jónatan vinur Davíðs dóu syrgði hann þá ákaflega og samdi sorgarljóð en ekki þunglyndisljóð. Í 2. Samúelsbók segir svo í fyrsta kafla:

Hetjurnar eru fallnar
mitt í orrustunni,
Jónatan veginn á hæðunum.
Ég harma þig,
Jónatan, bróðir minn.
Þú varst mér mjög kær.

Síðan er unnið úr áfallinu, brugðist við dausföllunum og stefnt fram á veginn. Áfallið var raunverulegt, tilfinningauppnámið mikið, tár féllu og vinna varð úr sorginni. Þunglyndi þarf að vinna með til að ná jafnvægi í lífinu. En sorgarhús verða oft fæðingardeildir visku. 

Veit einhver vina minna hvort greint er á milli sorgar og þunglyndis í forn-íslenskum bókmenntum?

Myndina tók ég af pálma við Jaffastræti í Jerúsalem. 

Gangan í Ásbyrgi

Ég hafði ekki hugmynd um gönguleiðina frá gestastofunni í Ásbyrgi. Við fórum með Jöklu vestanmegin og komum í Ásbyrgi. Fyrst fórum við í sjoppuna og nærðumst. Afgreiðslufólkið var fjölþjóðlegt og þegar ein konan var búin að afgreiða stóran ferðahóp settist hún niður og fór að hekla jólasveina sem voru í röðum í gluggakistum. Hrífandi. Södd og sæl settumst við inn í bíl til að keyra á bílastæðið nærri tjörninni. En þar sem við áttum langa dagleið fyrir höndum spurðum við hvort hleðslustöð væri í sveitinni. Já, mikil ósköp, hún væri við gestastofuna. Þangað fórum við og landvörðurinn lagði til að við legðum bílnum við hleðstöðina og gengjum inn að tjörn. Hún skoðaði okkur og mældi upp og niður og sá að við vorum öll göngufær! „Þið farið bara yfir golfvöllinn og þarna sést gönguleiðin,“ sagði hún og benti til vegar. Við smelltum hleðslutittnum, klónni, í bílinn og gengum af stað, yfir golfvöll, í átt að 60 metra háu klettastálinu og síðan inn í dásamlegan skóg. Sól, söngur skógarþrasta, ymjandi og fjölbreytilegur skógargróður, ljósfangandi rjóður, hamingjusamur hundur og brosandi fólk. Blágresi, einiber, aðalberjakoppar og fýll í klettum auk auðnutittlinga í skógi! Þvílík gönguleið – og ég hafði ekki hugmynd um hana! Alltaf hefur verið gaman að fara að Botnstjörn, fosshylnum stóra, en gönguleiðin jók mjög á Ásbyrgisunaðinn í þetta sinn. Þar sem margt var að skoða undi mitt fólk sér vel meðan ég skaust útúr til að sækja bíl. Reyndar húkkaði ég mér far út að gestastofu. Það voru elskuleg hjón frá Akureyri sem leyfðu mér að sitja í húsbíl þeirra á útleiðinni. Hann hafði verið í skóla á Laugum og sagði mér skemmtisögur af stjóra, þ.e. Sigurði frænda mínum (sem ég heiti í höfuðið á) og Stefaníu fóstru minni, Sigurði á Grenjaðarstað og fleirum. Bíllinn okkar var orðinn fullhlaðin og við líka og ókum af stað til nýrra ævintýra. Þetta var óvænt og óskipulagt ævintýri í Ásbyrgi og ég mæli svo sannarlega með Ásbyrgisgöngu. Og ljómandi að hlaða bílinn á meðan.

 

 

 

Oppenheimer

Barbenheimer er óvæntasta gos menningarinnar þennan seinni hluta júlímánaðar. Tvær myndir voru frumsýndar vestan hafs sama daginn. Önnur var um Oppenheimer, stjórann í bombugerð Bandaríkjamanna. Hin var um Barbie. Eftirvæntingarspenningurinn vegna frumsýninga mynda var nefndur úr samtvinnun nafna myndanna og varð því Barbenheimer en líka Oppenbarbie og sfrv.

Barbie og bomban hafa verið hluti af lífi margra okkar í þessum heimshluta. Barbie var til í mörgum útgáfum á bernskuheimili dætra minna. Klæðaskápar barbíanna var litríkur og margar stundir voru notaðar til að búa til ævintýraveraldir þar sem Ken kom jú gjarnan við sögu. Ég sat stundum með Kötlu, Sögu og jafnvel vinkonum þeirra og gleymdi mér í dúkkó. Barbie dætra minna var ekki bara hin veiklaða og afmyndaða heldur voru þær feministar líka enda nutu stúlkurnar jafnræðisuppeldis. Svo breytti bomban sem búin var til í Los Alamos heimssögunni, ekki aðeins með hinum hræðilegu árásum á Hirosima og Nagasaki heldur opnaði heimsvá og setti rauðar línur sem of margir hafa verið að leika sér með og við síðan. Nú fléttast saman þessi langa saga Barbie og Oppenheimer.

Ég var búinn að lesa um Barbenheimer í vefmiðlum heimsins og var því uppýstur þegar sonur minn bauð mér í bíó í gærkvöldi. Hann hafði ekki áhuga á Barbie, kannski minni en vert væri. En ég hafði líka meiri áhuga á Oppenheimer en ljóskunni. Svo fórum við saman í Laugarásbíó, fengum okkur popp og biðum með hinum nördunum. 80% þeirra sem voru í bíó voru karlkyns og ég hef aldrei séð fyrr á opinberum stað að það var löng biðröð á karlaklósett í hléi en engin á kvennaklósettið! Ég þykist vita hlutfallið sé öfugt á Barbie.

Christopher Nolan er meistari og fer með áhorfendur gjarnan inn í höfuðið á söguhetjunum og þar með inn í okkkar eigin höfuð. Myndin byrjaði bratt, tímaflakki var beitt, hratt farið milli innri heima og hinna ytri. Heimsgallerí snillinga eðlisfræðinga tuttugustu aldarinnar var kynnt. Einstein, Heisenberg, Bohr og svo voru allir hinir þarna líka. Farið er á milli Harvard, Cambridge, Leiden, Göttingen, Washington og Los Alamos. Við fáum innsýn í stjórnmálasögu Bandaríkjanna frá þriðja áratugnum og fram á þann sjöunda, hvernig vinstri öflin vestra voru barin niður með ofsóknum. Við verðum vitni að því hvernig erfðasynd læðist um alla menningu og að enginn er óhultur fyrir henni. Mörk manna eru feiknavel teiknuð, sem og mæri menningar, fræða og einstaklinga. Svo fáum við örnámskeið í skynjun og heimssýn Oppenheimers. Hann var tungumálaséní og áhugamaður um trú og trúarheimspeki. Í höndum hans sjáum við Wasteland T. S. Elliot sem er tákn fyrir okkur sem höfum áhuga á bókmenntum og hugmyndasögu. Oppenheimer var ekki aðeins fljótur að læra hollensku og þýsku heldur las sanskrít sér til gagns og þar með trúarbókmenntir hindúa. Bíllinn hans bar nafn hindúísks guðs og hann gaf gjarnan vinum sínum Bagavad Gita og þótti speki þess dýpri en hinnar vestrænu. Hin opna persónugerð Oppenheimers er vel tjáð í myndinni og líka leitin að festu í siðferði, lífsmynstri, einkalífi, vísindum og pólitík heimsins. Oppenheimer var maður á mærum, heillandi, opinn en samt hinn tragíski snillingur. Hann var enda gjarnan með hugann við Guð sem tortýmanda en ekki lífgjafa. Guðsmyndin er ekki aðeins vörpun á himinn sálarinnar heldur skilgreinir og mótar líðan og vegferð fólks (sbr. „Ég er dauðinn …“ ) Fyrir trúmenn, áhugamenn um trúarbrögð og menningu er margt eftirminnilegt í myndinni. Sprengjustaðurinn í Los Alamos kallaði Oppenheimer Trinity – þrenningu. Stöðugt leitaði á hug minn meðan ég horfði á myndina hve djúpið í grísk-kristinni hefð og auðvitað gyðingleg áhrif voru mikil í lífsafstöðu Oppenheimers.

Þekking á notkun kjarnorku breytti sögunni og myndin útlistar vel afneitun stjórnmálamanna heimsins á breytingunni og rauðu línunum sem ekki má fara yfir. Trumann er ekki lofaður en JFK fær þumal. Þar sem ég naut bandarískar akademíu og menningar í nokkur ár þótti mér hrífandi að fylgjast með túlkun Nolans á samskiptum vísindamannanna og stjórnmálamanna. Og Einsteinspekin fór svo með okkur út í sumarnóttina um mörk manna og orsakir viðburða og hvata til vekefna. Það er ekki sjálfgefið að lánast að túlka flókna vísinda-, menningar- og persónusögu en mér hugnaðist hvernig Nolan vann með efnið. Leikurinn í myndinni var stórkostlegur og Cillian Murphy (Peaky Blinder-kallinn), Emily Blunt, Matt Damon og Robert Downey Jr. voru frábær og mér kæmi mjög á óvart ef eitthvert þeirra fengi ekki Óskar fyrir. Músíkin var fín en hljóðið og líkamleg áhrif í ofursal Laugarásbíós voru mikil. 

Hvað margar stjörnur fyrir Oppenheimer? Níu og hálfa af tíu. En hvað gefið þið Barbie margar? Hvað gerum við með þessi tvö? Þau eru áhrifavaldar og okkar er að bregðast við menningu, siðferðisspurningum, já öllum stórmálum lífsins. Kannski ég bjóði drengnum á Barbie.