Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is. Þá var talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is Sá vefur er nú lokaður.

Oppenheimer

Barbenheimer er óvæntasta gos menningarinnar þennan seinni hluta júlímánaðar. Tvær myndir voru frumsýndar vestan hafs sama daginn. Önnur var um Oppenheimer, stjórann í bombugerð Bandaríkjamanna. Hin var um Barbie. Eftirvæntingarspenningurinn vegna frumsýninga mynda var nefndur úr samtvinnun nafna myndanna og varð því Barbenheimer en líka Oppenbarbie og sfrv.

Barbie og bomban hafa verið hluti af lífi margra okkar í þessum heimshluta. Barbie var til í mörgum útgáfum á bernskuheimili dætra minna. Klæðaskápar barbíanna var litríkur og margar stundir voru notaðar til að búa til ævintýraveraldir þar sem Ken kom jú gjarnan við sögu. Ég sat stundum með Kötlu, Sögu og jafnvel vinkonum þeirra og gleymdi mér í dúkkó. Barbie dætra minna var ekki bara hin veiklaða og afmyndaða heldur voru þær feministar líka enda nutu stúlkurnar jafnræðisuppeldis. Svo breytti bomban sem búin var til í Los Alamos heimssögunni, ekki aðeins með hinum hræðilegu árásum á Hirosima og Nagasaki heldur opnaði heimsvá og setti rauðar línur sem of margir hafa verið að leika sér með og við síðan. Nú fléttast saman þessi langa saga Barbie og Oppenheimer.

Ég var búinn að lesa um Barbenheimer í vefmiðlum heimsins og var því uppýstur þegar sonur minn bauð mér í bíó í gærkvöldi. Hann hafði ekki áhuga á Barbie, kannski minni en vert væri. En ég hafði líka meiri áhuga á Oppenheimer en ljóskunni. Svo fórum við saman í Laugarásbíó, fengum okkur popp og biðum með hinum nördunum. 80% þeirra sem voru í bíó voru karlkyns og ég hef aldrei séð fyrr á opinberum stað að það var löng biðröð á karlaklósett í hléi en engin á kvennaklósettið! Ég þykist vita hlutfallið sé öfugt á Barbie.

Christopher Nolan er meistari og fer með áhorfendur gjarnan inn í höfuðið á söguhetjunum og þar með inn í okkkar eigin höfuð. Myndin byrjaði bratt, tímaflakki var beitt, hratt farið milli innri heima og hinna ytri. Heimsgallerí snillinga eðlisfræðinga tuttugustu aldarinnar var kynnt. Einstein, Heisenberg, Bohr og svo voru allir hinir þarna líka. Farið er á milli Harvard, Cambridge, Leiden, Göttingen, Washington og Los Alamos. Við fáum innsýn í stjórnmálasögu Bandaríkjanna frá þriðja áratugnum og fram á þann sjöunda, hvernig vinstri öflin vestra voru barin niður með ofsóknum. Við verðum vitni að því hvernig erfðasynd læðist um alla menningu og að enginn er óhultur fyrir henni. Mörk manna eru feiknavel teiknuð, sem og mæri menningar, fræða og einstaklinga. Svo fáum við örnámskeið í skynjun og heimssýn Oppenheimers. Hann var tungumálaséní og áhugamaður um trú og trúarheimspeki. Í höndum hans sjáum við Wasteland T. S. Elliot sem er tákn fyrir okkur sem höfum áhuga á bókmenntum og hugmyndasögu. Oppenheimer var ekki aðeins fljótur að læra hollensku og þýsku heldur las sanskrít sér til gagns og þar með trúarbókmenntir hindúa. Bíllinn hans bar nafn hindúísks guðs og hann gaf gjarnan vinum sínum Bagavad Gita og þótti speki þess dýpri en hinnar vestrænu. Hin opna persónugerð Oppenheimers er vel tjáð í myndinni og líka leitin að festu í siðferði, lífsmynstri, einkalífi, vísindum og pólitík heimsins. Oppenheimer var maður á mærum, heillandi, opinn en samt hinn tragíski snillingur. Hann var enda gjarnan með hugann við Guð sem tortýmanda en ekki lífgjafa. Guðsmyndin er ekki aðeins vörpun á himinn sálarinnar heldur skilgreinir og mótar líðan og vegferð fólks (sbr. „Ég er dauðinn …“ ) Fyrir trúmenn, áhugamenn um trúarbrögð og menningu er margt eftirminnilegt í myndinni. Sprengjustaðurinn í Los Alamos kallaði Oppenheimer Trinity – þrenningu. Stöðugt leitaði á hug minn meðan ég horfði á myndina hve djúpið í grísk-kristinni hefð og auðvitað gyðingleg áhrif voru mikil í lífsafstöðu Oppenheimers.

Þekking á notkun kjarnorku breytti sögunni og myndin útlistar vel afneitun stjórnmálamanna heimsins á breytingunni og rauðu línunum sem ekki má fara yfir. Trumann er ekki lofaður en JFK fær þumal. Þar sem ég naut bandarískar akademíu og menningar í nokkur ár þótti mér hrífandi að fylgjast með túlkun Nolans á samskiptum vísindamannanna og stjórnmálamanna. Og Einsteinspekin fór svo með okkur út í sumarnóttina um mörk manna og orsakir viðburða og hvata til vekefna. Það er ekki sjálfgefið að lánast að túlka flókna vísinda-, menningar- og persónusögu en mér hugnaðist hvernig Nolan vann með efnið. Leikurinn í myndinni var stórkostlegur og Cillian Murphy (Peaky Blinder-kallinn), Emily Blunt, Matt Damon og Robert Downey Jr. voru frábær og mér kæmi mjög á óvart ef eitthvert þeirra fengi ekki Óskar fyrir. Músíkin var fín en hljóðið og líkamleg áhrif í ofursal Laugarásbíós voru mikil. 

Hvað margar stjörnur fyrir Oppenheimer? Níu og hálfa af tíu. En hvað gefið þið Barbie margar? Hvað gerum við með þessi tvö? Þau eru áhrifavaldar og okkar er að bregðast við menningu, siðferðisspurningum, já öllum stórmálum lífsins. Kannski ég bjóði drengnum á Barbie. 

Rannsókn á lygi – og ást

Hvað gerist þegar fals mótar sál og samfélag? Hvernig verpist veruleikinn þegar lygin tekur yfir? Hvernig farnast fólki þegar það er kramið af kerfisvaldi sem aðeins leyfir eina túlkun og eina skipan veraldar – en ekki fjölbreytileika?

Ekki gleyma mér er minningabók Kristínar Jóhannsdóttur sem fjallar um þessi stóru stef. Í bókinni rifjar hún upp námstíma sinn í klofnu Þýskalandi, í Freiburg, Leipzig og Berlín. Námstími erlendis er jafnan umbrotatími í lífi fólks og var í lífi Kristínar mjög dramatískur. Hún segir frá námsgreinum sem hún stundaði. Samanburður á menntunaráherslum báðum megin járntjalds er athyglisverður. Kristín teiknar upp pólitík og með sérlega athyglisverðum hætti samfélagsgerð hins kommúníska þjóðfélags. Svo læðist ástin og tengslin við fólk á milli lína og litar allar blaðsíður Ekki gleyma mér. Þrá, miklar tilfinningar, snerting, unaður, eftirsjá, sorg koma við sögu.  

Það sem snart mig m.a. í bók Kristínar er líf í lygi. Ekki lygi einstaklingsins heldur samfélagi lyganna sem síðan gerir fólk falskt. Samfélagið í Stasi-landinu austan járntjalds var hræðilegt kúgunarsamfélag. Fólkið var alls konar en samfélagsgerðin var á kostnað lífsgæða og lífshamingju. Allir sem bjuggu austan tjalds voru hugsanlega njósnarar. Tortryggnin læddist því um. Ástin var full af grun um svik. Óttinn við fals var alltaf með í för og alls staðar. Lífið var hamið í samfélagi lyganna. Lygasamfélag varð harmafélag og tilfinningalegt sóunarfélag. Samfélagsgerðin bjó til sorgbitið fólk. Barnið dó en hefði mátt lifa. Líf hefði geta orðið hamingjuríkt en grunsamfélag lyginnar hindraði. Bók Kristínar Jóhannsdóttur Ekki gleyma mér er heillandi og vel skrifuð minningabók sem opnar margar gáttir. Opinská úrvinnsla höfundar er trúverðug. 

Við reynum öll að vinna úr aðstæðum, tengslum, tilfinningum og stöðu í samfélagi. Við veljum og stundum úr óljósum kostum í flóknum aðstæðum. En líf í lygi er líf í álögum og leiðir til óhamingju og áfalla. Stasilandið var vont samfélag fólks og það féll. Ekkert samfélag er fullkomið en okkar er skyldan að beita okkur fyrir að þjóðfélag og samfélagsgerð þjóni sem flestum og tryggi möguleika fólks til að elska, tengjast, vinna, menntast og nýta hæfni og gáfur sem best. Samfélag er félag um það sem við eigum saman; gildi, mennsku, menningu, frelsi og ábyrgð. Stasilandið féll en skammsýnir villumenn reyna gjarnan að búa til eigin hömlulönd, hvort sem það er Pútínland, Trumpland, XI-land, ofbeldisfjölskylda á Akureyri eða meðvirknisfjölskylda í Hlíðunum. Ástin fæddist í Stasilandi en veslaðist upp og dó. Ástin lifnar alls staðar þar sem fólk er og á að fá að dafna, nærast og lifa.

Kristín Jóhannsdóttir: Takk fyrir heiðarleikann og þar með merkilega bók sem vekur marga þanka um dásemdir lífsins.

Meðfylgjandi mynd er af forsíðu bókarinnar. 

Ég talaði um Stasilandið í prédikun fyrir nokkrum árum og hægt að nálgast ræðuna að baki þessari smellu.

Guð sem yrkir heiminn, líf og menn

Bókmenntaunnendur þekkja orðið “póesía,” Orðið, sem notað er um ljóð í mörgum tungumálum, er af sömu rót. En að baki öllum póetískum ljóðnefnum og ljóðafleggjurum er hið fallega gríska orð poiesisποίησις. Það er ekki aðeins snoturt á blaði, heldur þrungið fallegri merkingu. Það táknar ekki aðeins að stafla orðum í ljóð, heldur líka hitt að búa til með höndum, vinna, kalla fram líf og hlúa að því. Að ljóða er að gera, að skapa, framkvæma. Að ljóða er líka það að tengja himin og heim.

Meðal Grikkja og Hebrea var póesía ekki aðeins huglægt verk, heldur náði til fóta, handa, starfa, sköpunar, já raunveruleika og lífsbaráttu fólks. Handverk fólks var aldrei sálarlaus iðja heldur átti sér líka andlegar víddir. Þessi speki er hagnýt. Handverk við tölvu, í eldhúsi, garði, námi, við bleyjuskipti, já öllu ati lífsins á sér andlega hlið. Hin dýpsta speki sem við kunnum að hugsa lifir ekki nema hún eigi sér hagnýta skírskotun í pólitík, í listum og í deiglu samfélagsins. Lífið er eitt og fólk fornaldar vissi að lífið á sér framvindu, bæði andlega og efnislega. Allt er tengt og allt er á hreyfingu. Lífið var og er gjörningur, samfelld póesía.

Í öllum bókum Biblíunnar er minnt á, að Guð er ekki fjarlæg, upphafin vera, heldur ástríðupersóna, sem elskar, grætur, faðmar, gleðst og syrgir. Samkvæmt kristninni er Guð svo tengdur að þegar allt var brotið í mannheimi sat Guð ekki hjá heldur kom til að þurrka tár, lækna mein og skapa grundvöll lífsins. Guð skapar fólk til frelsis og yfirgefur okkur aldrei þrátt fyrir okkar bresti. Já, Guð er stórskáldið sem yrkir heiminn, yrkir mennina, nýtur lífsins, er sjálfur hin mikla póesía lífsins, líka þegar allt er þrotið, búið, týnt og brotið. Fagnaðarerindið er hin mikla póesía Guðs að lífið er góður gerningur, póesía elskunnar. Þegar lífi lýkur er þessi ljóðmögur mættur, opnar fangið og leyfir öllu fólki, já allri sköpun sinni inn í himininn.

Textinn er úr minningarorðum frá 2008. Meðfylgjandi mynd tók ég á sýningu á verkum Birgis Andréssonar.

 

 

Maríuerla

Maríuerlan – motacilla albaer – er dásamlegur fugl. Fyrir fjórtán árum gerði maríuerlupar hreiður á leynistað sem við fjölskyldan þekkjum. Síðan hefur verið orpið þar á hverju ári. Öll vorin hef ég velt vöngum yfir hvort þau kæmu og vitjuðu heimahreiðursins. Eitt vorið komu þau seint en komu þó að lokum og mér var létt.  Ekki veit hvort það eru sömu fuglarnir sem hafa ratað svona vel og áfallalaust frá V-Afríku á hverju ári eða bara fundvísir snilldarfulgar sem leita að fallegum, fæðuríkum stað með góðu útsýni og færum leiðum fyrir smáfugla í flugnámi eða á flótta undan ránfuglum. Kannski er þetta ættaróðal sem kynslóðir vitja. En dásamlegir eru ungar þessa árs sem störðu á mig þegar ég færði símann að þeim til að taka mynd. Mamman var skelkuð álengdar fjær – með gogginn fullan af mat til að færa ungviðinu. Ég flýtti mér því og sagði henni að óttast ekki. Hún flaug strax til þeirra þegar ég fór. Lífið lifi.

Myndin hér að neðan er frá sama stað árið 2010. Þá voru sex ungar í hreiðrinu en fimm í ár.  Svo er önnur af áhyggjufullu foreldri að fylgjast með ljósmyndaranum nærri hreiðrinu. 

CR7 – Cristiano Ronaldo

Til heiðurs CR7. Fótafimi Ronaldo er óumdeild, einbeitni hans og fagmennska. Við feðgar deilum oft um knattspyrnu og höfum ólíkar skoðanir á félögum, iðkendum, stjórum og hvað skiptir mestu máli í boltanum. En við erum sammála um að Ronaldo er einn mesti íþróttamaður okkar tíma. Ég dáist að því hve mikla töfra karlinn hefur í tánum en hef í gegnum tíðina stundum verið rasandi yfir sjálfhverfu kappans og furðað mig á að hann hafi ekki enn unnið með sársauka litla drengsins. Orðið svona herfilega misþroska. En svo gekk hann inn á Laugardalsvöll og var góður við börnin og íþróttagoð. CR7 var sólin í stjörnuliði Portúgala. Við klöppuðum öll honum lof og tjáðum þakklæti fyrir hið góða – en hitt ekki. Markið hans var óþarfi en hann hefur enn töfra í tánum. Myndirnar tók ég í Laugardal 20. júní á landsleik Íslendinga og Portúgala.