Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Gátan ráðin, uppgötvun dagsins á aldarafmæli!

Í dag gerðum við Elín dásamlega uppgötvun sem gladdi okkur mjög. Og það var mun skemmtilegra að það var í dag en ekki á morgun eða í gær. Já, saga dagsins er aha-saga sem ekki aðeins kætti okkur heldur fjölmarga aðra líka. Við fórum í Hönnunarsafn Íslands til að hlusta á fyrirlestur um heimilishönnun á Íslandi. Söfn eru eins og heimili staðir fyrir fagra hluti en líka furður lífsins og uppgötvanir.

Þá er það inngangurinn. Tveir hestar voru fyrir augum mér og fjölskyldunnar alla bernsku mína. Foreldrar mínir byggðu hús við Tómasarhaga á árunum 1955-56 og vönduðu til alls frágangs, s.s. dyra og kverkaskreytinga. Straumar tímans í innanhúshönnun höfðu áhrif því foreldrar mínir þorðu að nota nýstárlega liti og líka efni á veggi, s.s. flísar á gangvegg. Það sem kannski vakti furðu flestra sem komu á heimili okkar var stór og stílíseruð hestamynd sem máluð var á háan vegg í stigaganginum. Einn svartur og annar hvítur hestur prjónuðu á bleikum veggnum. Allir sáu myndina og margir töluðu um hana því slík ámáluð mynd var ekki í öðrum húsum hverfisins. Þegar ég var búinn að horfa á myndina í mörg ár spurði ég mömmu hver hefði gert hana. Hún sagði að það hefði verið þýskur málari og nefndi þýskt nafn sem ég þekkti ekki. Og ég gleymdi nafninu.

Svo kom að því að veggirnir á stigaganginum voru orðnir óhreinir og málningin talsvert máð. En hvað átti að gera? Mála yfir hestamyndina? Nei, það vildi mamma ekki og það var tímafrekt nákvæmnispuð að mála með fínum pensli að útlínum hestanna. En það hófst. Þegar mamma dó var íbúðin svo seld og raunar þrisvar síðan en hestamyndin sérstaka hefur lifað af hræringar tímans og endursölur íbúðarinnar. Nýir eigendur hafa vilja halda í myndina og því ekki málað yfir. En oft hefur verið rætt um hver hafi teiknað hana, af hverju og í hvaða samhengi.

Og þá erum við komin að ferð okkar í hönnunarsafnið í Garðabæ. Auglýst hafði verið að Sigríður Sigurjónsdóttir, forstöðumaður safnsins, myndi segja frá sýningarmunum. Við ákváðum að fara, vorum eiginlega dregin áfram. Þegar við vorum búin að skoða safngripi benti Sigríður á skemmtilega muni Einars Þorsteins arkitekts og hönnuðar. Svo sagði hún að þó það hefði ekki komið fram í auglýsingu væri dagurinn merkilegur því verið væri að rannsaka verk hönnuðar Hótel Sögu. Þar sem hann ætti aldarafmæli í dag, 22. október, væri við hæfi að við fengjum að kynnast vinnu safnins við skráningu og myndatöku á verkum þessa manns. Við færðum okkur í annað rými og sáum blöð á vegg með skissum og myndum. Ég hugsaði strax með mér – hmmm þýskur teiknari og hönnuður á Íslandi! Gæti verið að þarna væri hestamálarinn kominn? Strax sá ég að hann hafi verið snjall teiknari og ljóst að hann málaði áhugaverðar myndir á veggi íbúða í skissum sínum. Ég benti Elínu á og við vorum spennt að sjá framhaldið. Ég færði mig innar og þar var hún! Fyrirmyndin að hestamyndinni á Tómasarhaga 16. Ljómandi vel teiknuð mynd af prjónandi svörtum og hvítum hestum með brúnbleikan bakgrunni. Blaðið var grófrúðustrikað og augljóslega til að hægt væri að stækka myndina án þess að raska hlutföllunum. Þessi fundur frummyndar og teiknara var eins og stórkostleg uppgötvun – kraftmikil tenging nútíðar og bernsku. Tímamismunurinn upphafinn í gleði uppgötvunarinnar.

Teiknarinn hét Lothar Grund. Hann var þýskur og fæddist árið 1923 og kom til Íslands um 1950 og hafði atvinnu af leiktjaldamálningu og teikningu. Hann hafði mikil áhrif á innanhúshönnun Hótel Sögu á árunum 1961-63. Lothar teiknaði logó hótelsins, útiskilti, matseðla og prentefni og gerði skissur að húsgögnum, fyrirkomulagi og flestu því prýddi Bændahöllina og hótelið innan dyra. Hann teiknaði t.d. barinn sem var seldur nýlega til Vestmannaeyja, líka stjörnumerkjahringinn í lofti Grillsins og flest annað sem hannað var fyrir þetta stórhýsi sem nú er í umsjón HÍ.

Frummyndin sem við sáum á hönnunarsafninu var gerð 1956. Lothar Grund málaði hana strax á steinvegginn því hún var komin þegar við fluttum inn síðla sumars það ár. Hann hefur líka verið ráðgefandi um litina sem foreldrar mínir ákváðu að nota því litapaléttan var öðru vísi en í öðrum húsum á svæðinu. Ég horfði á skissur Lothars Grund á hönnunarsafninu og þekkti litina í íbúð okkar frá vinnuskissunum og myndunum sem okkur voru sýndar í Garðabænum.

Af hverju hestar? Kannski var Lothar Grund áhugamaður um hesta? En ég sá þó enga hesta í skissum fyrir höll bændanna! Það var enginn sérstakur hestaáhugi á bernskuheimili mínu en hestar voru til og notaðir á uppeldisheimilum beggja foreldra minna. Foreldar pabba bjuggu í steinbæ sem nú er Tómasarhagi 16b. Afi var vatnspóstur í Reykjavík og því var hesthús aftan við húsið sem pabbi byggði í landi foreldra sinna. Kannski var myndin í stigaganginum virðingarvottur um búskaparhefð ömmu og afa? Eða kannski bara passaði hestamyndin vel lögun gangveggjarins? Hver veit?

Lothar átti aldarafmæli í dag og fékk þessa tengingargjöf. Gleðin hríslaðist um okkur Elínu að finna frummyndina. Bóel Hörn Ingadóttir er að skrá og ljósmynda verk Lothar Grund og henni og Sigríði þótti þetta skemmtileg afmælisgjöf til Lothars á aldarafmæli hans.

Kannast einhver ykkar sem lesið þessa frásögn við fleiri verk Lothars Grund í heimahúsum? Ef svo er, vinsamlegast hafið samband við starfsfólk Hönnunarsafns Íslands. Það er að safna upplýsingum. Takk Sigríður og Bóel fyrir okkur og til hamingju með Lothar Grund 100.

Upplýsingar um Lothar Grund, fjölskylduhagi og verk má lesa í minningargreinum í Morgunblaðinu um hann sem eru að baki þessari smellu.  Þar kemur fram að Lothar var kvæntur Önnu Þorbjörgu Halldórsdóttur. Þau eignuðust synina Pétur Adólf Garðar, Atla Halldór og Alfreð. Þegar ég var búinn að birta frásögn hér að ofan fékk ég að vita að Anna Þorbjörg tengdist Sigurði Skarphéðinssyni, vini föður míns, sem tengdi Lothar og hann saman. Og svo fóru prjónandi hestar á veginn.

Grein um Lothar Grund er í Tímanna safn, hátíðariti Landsbókasafnins, sem kom út 2024. 

Deyja Kain og Abel báðir?

Íhugun dagsins er um átök Kain og Abel. Harmsaga þeirra er sem þrástef í sögu þjóðanna fyrir botni Miðjarðarhafs og læðist inn í huga minn þegar Ísraelar og Palestínumenn fremja hryllingsverk liðna daga og fimm hundruð manns deyja í sprengingu í sjúkrahúsi á Gaza. Er óumflýjanlegt að blóð bræðra, kvenna og barna renni úr svöðusárum og í jörð allt til söguloka mannkyns? Í fjórða kafla 1Mós er þetta vers: „Þá sagði Kain við Abel, bróður sinn: „Göngum út á akurinn.“ Og er þeir voru á akrinum réðst Kain á Abel, bróður sinn, og drap hann.“ Kennimenn Gyðinga hafa löngum vitað að þessi hörmulega bræðrasaga er erkisaga og þar með táknsaga um deilu hópa og þjóða. Stríð Kain og Abel geisar enn í deilu Palestínumanna og Ísraela. Í gyðinglegu riti sem var skrifað fyrir upphaf Íslandsbyggðar var deila þeirra íhuguð og spurt um hvað þeir hafi rifist. Upphafið var að þeir ákváðu að skipta heiminum á milli sín. Sem sé hroki og sókn í vald og ríkidæmi. Það að fara yfir rétt og siðleg mörk. Annar tók landið og hinn tók lausafé. Annar sagði: „Ég á landið sem þú stendur á.“ En hinn sagði: „Ég á fötin sem þú ert í. Farðu úr þeim.“ Af varð rifrildi og Kain drap bróður sinn. Báðir fóru offari og þá kemur dauðinn snarlega. Svo eru til aðrar sögur um að bræðurnir hafi báðir dáið í átökunum. Það er hin hörmulega staða Ísraela og Palestínumanna. En er einhver önnur leið en að annar falli eða báðir? Er þjóðarmorð eina lausn stríðsins. Eða geta báðir lifað og lært að virða gildi hins og þeirra fólks? Er það ekki eina raunhæfa leiðin, að breyta stríðstólum í ræktunartæki og læra að elska ekki bara börnin sín heldur líka börnin í landinu.

Myndina tók ég við grafirnar í Jerúsalem vestan í olíufjallinu nærri Getsemanegarði. 

Þú, skugginn hvíti

Þegar sólin sest,
hæðir stækka,
fjöll verða risar,
myrkrið sækir að
og loppur teygja sig til mín
sé ég þig.

Þegar líf vinar fjarar út,
andartökin hverfa,
sláttur hjartans hættir,
kroppurinn slaknar,
kólnar og dofnar.
Þá sé ég þig birtast.

Þegar sorgin svertir,
vonin er brostin,
ástin lemstruð,
umhyggjan vanvirt
og höndin slegin.
Þá sé ég þig, sannleiksperla.

Þegar ljósið hverfur
og allt verður risavaxið
í löngum skuggum.
Þegar myrkrið faðmar
breytir þú öllu.
Þú ert skugginn hvíti.

sáþ 2012

Minning þeirra blessi

Þetta eru Tamar og Jonatan og börn þeirra Shachar, Arbel og Omer. Þau bjuggu á Shir Oz samyrkjubúinu skammt frá Gaza. Þau voru myrt í loftvarnabyrginu sem þau höfðu farið í til að vera í skjóli fyrir eldflaugum. En þau voru í engu skjóli fyrir morðingjum sem höfðu farið yfir landamærin til að elta uppi borgara Ísraels, skjóta þá, stinga og niðurlægja. Hver drepa, börn – jafnvel kornabörn, ömmur, afa, foreldra sem verja börn sín, almenna borgara? Það er hin djúpa og hræðilega spurning sem knýr á og verður að svara. Ég hlustaði á Íslending fagna innrás Hamas-samtakanna í Ísrael. En engin afbrot eða ofbeldisverk í fortíðinni réttlæta þessa tegund morðæðis. Illvirki eru alltaf illvirki. Hrottaverk Hamasliða eru hliðstæða Úteyjarmorðanna og árásarinnar á tvíburaturnana í New York. Lík fólks voru tekin, hent á jeppa og síðan ekið með þau um Gaza eins og sigurtákn. Þvílík mannfyrirlitning, þvílík brenglun. Morðæði Hamas hefur líklega endalega gert út um tveggja ríkja tilraunina fyrir botni Miðjarðarhafs. Nú verður að búa til nýjan tíma fyrir Ísraela og Palestínumenn. Megi minningin um Tamar, Jonatan, Shachar, Arbel og Omer blessa framtíðina. Blóð þeirra og allra hinna myrtu hrópar upp í himininn og út í mannheima. 

Með Guð í vasanum – eða ekki?

María Reyndal er öflugur höfundur og leikstjóri. Er ég mamma mín? er meðal þeirra merkilegu verka sem hún hefur skrifað. Það hafði djúp áhrif á marga og varð ýmsum tilefni til að hugsa um eigið líf, mótun og áhrif. María hefur nú skrifað nýtt leikrit sem heldur áfram að skoða tengsl eða þó fremur tengslaleysi mæðgna og fjölskyldufólks. Titill leikritsins Með Guð í vasanum dró okkur Elínu Sigrúnu í leikhús. Þegar upp var staðið var enginn Guð í vasanum hvorki á söguhetjunni né í leikritinu. Heitið er því smellubeita án innstæðu.

Ása er söguhetja og burðarpersóna verksins. Við kynnumst smátt og smátt persónu hennar, öldrunarferli og heilabilun. Varnarhættir og viðbrögð Ásu eru túlkuð og oft með spaugilegu móti. Ást Ásu á tónlist verður henni til styrks en tónlistariðkunin líka flóttaleið. Átakanleg ferð Ásu inn í óminni heilabilunar er sálarslítandi. En ferðarlýsingin fer þó aldrei á dýptina en er túlkuð með smáhúmor og nokkrum klisjulegum kynningum.  

Hin ýmsu lífshlutverk dóttur Ásu eru opinberuð í framvindunni og að hún kiknar undan þeim. Dóttirin fær sálarþyngsli í arf frá móður og ömmu og líður og farnast illa. Hún er í stöðugri baráttu við móðurina en reynir þó að gera gagn og tryggja velferð hennar. Hefð kvenna í þrjá ættliði er heilabilun og hryllingur hennar í lífi einstaklinga og fjölskyldu. Sólveig Arnarsdóttir leikur dótturina með trúverðugum hætti. Hlutverkið er grunnt og Sóveig hafði því ekki úr nægilega miklu að moða.

Alter-egó Ásu fær sérstakt hlutverk sem birtist í að því er virðist yfiskilvitlegri helgiveru. Ég hélt að veran ætti að vera guðleg nánd en svo kom í ljós að hún var brengluð sjálfsmynd Ásu. Englisguðinn varð því grynnri en búast hefði mátt við af fyrri hluta verksins. Vegna heilabilunar er Ása upptekin af sjálfhverfum minningum og á í vandræðum með tengsl. Sjálfsmynd hennar er því grunn og sú helgi sem leikstykkið gefur þessu alter-egó gufar upp. Persónan sem túlkar sjálfsmyndina verður því að engu. Spennandi persóna í fyrri hluta verksins hrundi og skaddaði framvindu verksins. Katla Margrét Þorgeirsdóttir lék Ásu snilldarlega en er fyrir minn smekk of ung í þetta hlutverk fyrir gamla konu með heilabilun. Ég skil vel að söng- og leikhæfni Kötlu hafi freistað leikstjórans en valið gekk ekki upp.

Kristbjörg Kjeld lék gamla vinkonu Ásu og var pottþétt í sínu hlutverki. Svo voru Rakel Ýr Stefánsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson í ýmsum litríkum hlutverkum og skiluðu sínu með sóma. Leikmynd og búningar Brynju Björnsdóttur framúrskarandi og lýsing Pálma Jónssonar sömuleiðis.

Leikritið Með Guð í vasanum er ekki fullburða, heldur fremur eins og fínt uppkast að leikverki. Eftir er að dýpka persónur, djúptengja við ættarsögu, ættarfylgjur, gildi, trú og ótta fólks við heilabilun. Búið er að safna saman ýmsum skondnum setningum eins og uppistandari gerir gjarnan. En eftir er að vinna úr góðum efniviði og búa til dýpri heild. Sýningin er kliður af klisjum.

sáþ 30. september, 2023. Kynningarmynd Borgarleikhússins á Með Guð í vasanum.