Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is. Þá var talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is Sá vefur er nú lokaður.

Fyrsti liður í …

Pabbi var slappur. Hann var lagður inn á Landspítalann þegar farfuglarnir komu og birkið brumaði. Þegar ég vitjaði hans átti hann erfitt með að festa augu á mér eða tjá líðan sína. Það var eins og hann stæði í skugga og hluti persónunnar væri horfinn. Þegar ég kvaddi hann á ganginum sagði hann bless, stóð svo og horfði á eftir mér. Pabbi stóð í sömu sporum þegar ég leit um öxl við enda gangsins og veifaði til hans. Þegar ég rölti vestur Bergstaðastræti hömuðust þrestirnir við hreiðurgerðina í trjánum í Þingholtunum en ég var dofinn af ugg. Daginn eftir dó pabbi, inn í vorbirtuna. Ég var bara 23 ára og allt í einu var tíminn breyttur.

Ég vissi alltaf hvar ég hafði pabba, þekkti næmt fegurðarskyn hans, listást, reglusemi og verkaga. Hann var fyrirsjáanlega fullkominn í mörgu en alls ekki í málum nándar. Hann raðaði skónum óaðfinnanlega, meðhöndlaði bækur eins brothætta dýrgripi og hefði verið skekinn ef hann hefði greitt einhverjum fimm aurum of lítið. Hann stóð alltaf við sitt og öll loforð. Hann var fínn í tauinu, keypti bara vandaða skó – helst Lloyds – og burstaði þá af blíðlegri alúð. Hann umgekkst fólk af tortrygginni virðingu, horfði vel en spurði aldrei um líðan eða viðhorf. Hann sökkti sér í stóru sögur heimsins. Hann hafði áhuga á réttlætismálum og pólitík, fór á sýningar og dró mig með. En hann spurði ekki um túlkun mína. Hann hafði engan áhuga á vinum mínum eða tilfinningamálum unglingsáranna. En ég vissi að hann studdi mig í flestu sem ég bardúsaði. Já, fyrirsjáanlega fullkominn í því sem hann gerði en fyrirsjáanlega ófær um að tjá ást með orðum eða snertingu. Svo þegar hann dó sagði hann bara bless og hvarf af braut sinni í veröldinni. Mig grunaði að eitthvað væri óskýrt og jafnvel ósagt.

Pabbi var traustur en af hverju var hann ekki nálægur? Fór hann á mis við eitthvað í uppeldinu? Kunnu foreldrar hans ekki að strjúka, faðma, hugga, næra og kyssa hvort annað og drenginn sinn? Mér þótti grunsamlegt að pabbi vildi ekki tala um ættfólk sitt og  foreldra. Hann sagðist vera fyrsti liður í ætt en ég skildi að fleiri spurningar mínar væru tilgangslausar og yrði ekki svarað.

Eftir að pabbi lést fór ég að leita að skyldfólki og upplýsingum til að greina erfðir, persónumótun og úrvinnslu. Afi dó ári áður en ég fæddist og amma dó sex árum fyrr. Með hjálp uppflettivefja netsins komast ég að því að afi, kallaður Dóri í bænum, hafði keypt kot á Grímsstaðaholti í Reykjavík árið 1893. Þá var hann kvæntur Sigríði en hún dó eftir stuttan hjúskap þeirra. Nokkrum árum síðar kynntist hann Guðbjörgu ömmu og hún eignaðist tvíbura sem dóu áður en pabbi kom í heiminn. Ártöl og nöfn læddu að mér grun um að afi og amma hafi verið sorgarfólk sem átti jafnvel erfitt með að næra lítinn dreng tilfinningalega. En þau hafa líklega verið vænar manneskjur því þau tóku tvö fósturbörn og komu þeim til manns auk pabba.

Á hverju vori fórum við, fjölskyldan, og hreinsuðum leiði í Suðurgötukirkjugarði og plöntuðum stjúpum og morgunfrúm. Ég hélt að þar væri legstaður bæði afa og ömmu. Það var ekki fyrr en mörgum áratugum seinna að ég komst að því að gröf ömmu var í Fossvogskirkjugarði. Þangað fórum við aldrei. Af hverju? Svo uppgötvaði ég líka að leiði afa var við hlið fyrri konu hans. Þá dagaði á mig að fjölskyldusagan væri óuppgerð. Afi hafði væntanlega elskað þá konu meira en þá seinni. Pabbi tjáði aldrei biturð í garð foreldra sinna því hann talaði aldrei um þau og var bara fyrsti liður í ætt. Ég vissi þó að pabbi var ósáttur við að foreldrar hans studdu hann ekki til háskólanáms. En hafi hann verið þeim reiður orðaði hann ekki slíkar tilfinningar. Foreldrar mínir töluðu mikið saman en pabbi ræddi jafnvel ekki við móður mína um uppvöxt sinn. Hann hafði sjálfur átt konu sem dó barnlaus áður en þau mamma urðu par og eignuðust okkur systkinin. Fyrri hjúskapur pabba var ekki leyndarmál en bernska hans var hjúpuð þögn.

Við systkinin ólumst upp við hefðbundin kynjahlutverk. Mamma var hjarta heimsins og risastór faðmur. En pabbi var dugmikill vinnuþjarkur og sá um efnislega aðdrætti og ytri ramma heimilisins. Hann laðaðist – held ég – að elskugetu og persónustyrk mömmu sem bætti upp getuleysi hans til nándar. Hann varð eins og fylgitungl plánetu. En af hverju varð pabbi svona dulur um tilfinningar en fyrirsjáanlega vandvirkur og traustur? Það fólk er dáið sem getur ráðið fjölskyldurúnir pabba. En arfur hans er ekki horfinn. Ég veit af honum í mér og systur minni og sé nákvæmnismanninn og fagurkerann stundum birtast í viðbrögðum og látæði barna okkar. En frásagnir mömmu og ættmenna, skrásettar minningar fólks og greftrunarstaðir hafa sannfært mig um að pabbi var ekki fyrsti liður í ætt heldur skilgetið afkvæmi sorgar. Afi var bitinn sorg eftir dauða fyrri konu sinnar. Hvernig tókst amma á við missi tvíbura? Kannski hafði afi ekki neitt aflögu hið innra til að styðja hana í missinum? Depurð hefur líklega lamað Guðbjörgu ömmu. Þegar lesið er í tölur um missi, barnadauða, dauðsföll til lands og sjávar er saga afa og ömmu saga langrar sorgarhefðar. Og pabbi var ekki fyrsti hlekkur í keðju sorgarinnar. Hann varð einfaldlega að reyna að lifa af dapurlegar aðstæður. Hann var eina barnið í kotinu á Grímsstaðaholti í mörg ár og varð að spjara sig, mannast, læra störfin og móta sér stefnu. Hann var hvorki strokinn né kysstur en naut ramma, skjóls og fæðis til vaxtar. Hann varð líklega einbeittur reglumaður til að hemja misvísandi tilfinningar. Mamma sá síðar um allt hitt. Pabbi var fyrirsjáanlega skilvirkur og góður í sínu. Svo stóð hann þarna á ganginum á Lansanum og vissi að hann var að hverfa af sporbaug sínum. Skugginn var í augum hans og hann var á leið inn í myrkrið. Hann talaði ekki um tengslin við mig eða ást sína. Hann vissi að fjölskyldufólkið hans myndi lifa af þótt hann hyrfi. Við værum ekki fyrsti liður í ætt sorgar heldur ástar.

Skráð í október 2024. 

Mannamál

Ég heyrði smellina í kjallarakarlinum þegar hann var á leið upp stigann. Hann skellti lausa tanngarðinum upp í efri góminn við hvert tröppuskref. Munnmúsíkin boðaði vindlareyk, ræðuhöld og kaffidrykkju í eldhúsinu okkar. Hann kom sér fyrir í pabbastólnum við borðsendann í eldhúsinu. Mamma umbar hann þó hann væri hávaðasamur en húsmóðirin á miðhæðinni lokaði á hann. Mamma opnaði alla glugga til að reykurinn af Bjarnafrávogi- og Hofnar-vindlunum hans bærist sem fyrst út, gaf honum sterkt kaffi og hlustaði svo á hann, talaði lítið og andmælti sjaldan. Hann talaði niður komma og aðra heimskingja heimsins, sagði frá verktakasnilld sinni og stórlöxum sem hann hafði veitt. Þegar hann var búinn að reykja, drekka tvo bolla og nota þúsundir orða til að tala niður heimsósómann stóð hann á fætur og lagði af stað ofan frá efri hæðinni í þríbýlishúsinu og niður í kjallaraíbúð sína. Hann gómsmellti líka alla leið niður og lokaði á eftir sér þegar hann fór úr forstofunni okkar kjallaramegin. Reykurinn, reiðin og orðin liðuðust um íbúðina. Mamma pírði augu lítillega þegar hún loftaði út og hreinsaði hugann. Ég þagði.

Svo hringdi elsti bróðir mömmu oft í hana rétt eftir að karlinn var farinn. Þá settist hún niður og hallaði sér aftur í símastólnum á ganginum. Það brakaði lítillega í stólnum þegar hún teygði úr fótum. Hún hélt svörtu símtólinu að betra eyranu. Glaðværðin streymdi úr tækinu og kaffiþjónninn umbreyttist í káta unglingssystur. Hún skellti á læri þegar stóri bróðir sagði henni sögur úr Svarfaðardal og hló hjartanlega. Þegar hún lagði á brosti hún, stóð svo á fætur og undirbjó hádegismatinn syngjandi.

Pabbi kom heim í hádeginu með steypulykt í hárinu. Mamma baðaði hann blíðuorðum sem linuðu orðlausa þreytu hans. Mamma fékk málið þegar skrúfað var fyrir útvarpið eftir hádegisfréttir. Hún talaði við pabba og okkur systkinin með hlýjum umhyggjuorðum, ólíkum þeim sem hún notaði í vindlakófinu.

Vinkonur mömmu, reyklausar og jákvæðar, komu oft í heimsókn og fengu síðdegiskaffi. Ég lék mér á gólfinu að leikföngum mínum en leit stundum upp og horfði á varir þeirra, hvernig þær geifluðu þær og bleyttu með tungunni. Orðasveimur þeirra var mismunandi. Sumar töluðu mikið en aðrar vönduðu sig við svör og spurningar. Nokkrar smjöttuðu á orðum sínum og þótti gaman að hlusta á sjálfar sig. Þær klöppuðu á koll minn, létu nokkur orð falla en töluðu ekki við mig enda svaraði ég ekki. Ég horfði í augu þeirra, íhugaði og þagði.

Einn morguninn kom kjallarakarlinn og var vanstilltur. Gómasólóið var hávært þann daginn og óvinir heimsins, kommarnir, fyrirferðarmiklir. Svo sagði hann: „Hann talar ekkert þessi drengur þinn! Er hann eitthvað skertur?“ Roði spratt fram í kinnum mömmu sem svaraði með snöggu nei-i. Þegar gómsmellirnir hljóðnuðu fór hún niður tröppurnar og læsti. Hún opnaði ekki kjallaradyrnar næsta dag og ekki heldur næstu vikur. En mamma var eins og Guð, gaf annan séns en var að lokum nóg boðið og lokaði endanlega. Reykurinn hvarf og taktföstu gómahljóðin líka.

Mörgum árum síðar sagði mamma mér að ég hefði verið seinn til máls og ekki talað fyrr en þriggja ára. Hún hefði verið orðin áhyggjufull um drenginn sinn. Spurning karlsins í kjallaranum hefði því meitt hana. En skömmu síðar hefði ég allt í einu byrjað að tala. Ég hefði raðað orðunum fallega og heilastarfsemin virtist eðlileg. Ekkert babl heldur skýrar og meitlaðar setningar. Ég hefði verið altalandi og orðaforðinn furðumikill. „Hefurðu einhverja skýringu af hverju þú talaðir svona seint?“ spurði hún. Já, ég mundi vel ástæðuna. Ég horfði á munnana, varirnar, vindlana, hlustaði og hugsaði. Ég ímyndaði mér að öllum væri skammtaður hámarks fjöldi orða rétt eins og allir lifðu ákveðinn tíma. Orðin væru takmörkuð gæði. Kvótinn gilti fyrir alla og orð væru dýr. Ég ætlaði ekki að misnota orðin mín heldur nota þau vel.

13. október 2024

Helgi Gíslason

Helgi Gíslason bauð mér í heimsókn á vinnustofu sína í Gufunesi. Helgi var í stuði og ég gleymdi bæði tíma og sjálfi og varð pínlega seinn á fund síðdegis! En þakkarvert, skemmtilegt og nærandi er flæðandi samtal um mikilvægustu málin; listina, sjálf, trú, orð, hrifvalda, lífgjafa, tengsl, ódeili og eilífð, efni, dýptir, ógn, ljós – já stóru stefin í lífinu. Svo skoðuðum við seríu Helga um píslarstöðvar. Ég var með myndavél í fanginu og ýtti stundum á tökutakkann og nokkrar myndir lifðu eftir samtalið sbr. þessar meðfylgjandi. Ekki aðeins magnaður myndlistarmaður Helgi heldur líka hrífandi persóna í samtali. .

Tallinn-undrið

Danski fáninn féll af himni og Danir unnu orrustuna. Leiðsögumaður okkar í Tallinn í Eistlandi fór á kostum, lýsti undri frá 13. öld og það fór mýtólógískur skjálfti um tilheyrendur. Sögurnar voru skemmtilegar og hlátrarnir hljómuðu. Ég sneri mér við og tilbúinn í fleiri ævintýri. Og þá sá ég Pál í Húsafelli, þann stórkostlega listamann, og við Elín mín eigum meira segja skúlptúr eftir hann. Svo sá ég Helga í Lúmex og kirkjusmið, sem ég dái mjög. Hann hefur ljóshannað tvö hús, sem ég hef átt. Svo var þarna Dagný, prestsfrú, í Reykholti, forkur og sérlega skemmtileg kona. Þar sem hún fer er ekki lengi að bíða Geirs Waage. Jú, hann kom í sínu fínasta pússi. Dannebrog féll á Tallinn og þessir vinir mínir birtust sprelllifandi og með nokkra Dannebrog-furðu í augum. Þessir riddarar himinsins féllu ekki af himni si svona og fluvélalaust niður á kastalahæðina í Tallinn, heldur voru þau til að fagna opnun húss til heiðurs Arvo Pärt sem ég met flestum tónskáldum meira. En dóttir Dagnýjar og Geirs er tengdadóttir meistarans Pärt. Heimurinn lítill? Nei, hann er stór og fullur af ævintýrum. Undrin verða á hverjum degi og okkar er að njóta. Takk fyrir líf dásemdanna.

Minning frá 13. október 2018. 

Jarðljós

Gerður Kristný kom í gættina hjá okkur, brosti og rétti fram nýjustu ljóðabókina, Jarðljós. Bókin brosir við manni og opnar faðminn ákveðið og innilega. Ég las bókina alla í gærkvöldi og svo aftur í dag. Og stefni að því að lesa hana alla á morgun því hún hún á margþætt erindi. Og þannig eru góðar bækur og allar sem við köllum klassískar.

Það er kyrra í þessari bók, ekki stilla eða lognmolla heldur fremur laðandi dýpt. Bókin er ekki ljóðabálkur heldur í stefjum og hlutum. Gerður Kristný fer víða. Hún vitjar hörmulegra atburða, náttúruundra, níðingsverka, ljóðar um kraftaverk og ljósbrunna lífs og veralda. Hún er snillingur merkingarsnúninga – alvöru skáld hefur smekk og getu til slíks. Gott dæmi er ljóðið Blíða:

Himinsvellið brestur

sólin laugar sveitir

leysir ísa

stuggar burt skuggum

 

Enn erum við minnt á

að við fæðumst úr myrkri

og hverfum um síðir

þangað aftur

 

Um stundarsakir

lögum við okkur

að ljósinu

Gerður Kristný vinnur oft með sögulegt efni og líka inntakið í goðsögum. Þegar hún vísar til einstaklinga er merking þeirra og lífs fléttuð svo sagan verður ávirk og kemur okkur við. Mér þótti vænt um hve mörg ljóðanna voru táknsterk. Ljóðlist Gerðar Kristnýjar er marglaga og djúpið að mínu viti í þeim er trúarlegt, ekki í þröngri merkingu heldur víðfeðmri. Veröld Gerðar Kristnýjar er ekki einföld heldur litrík og þrungin merkingu. Í henni eru undrin ekki gestir. Og minni trúarbragðanna eru nýtúlkuð og smellt í skapandi samhengi. Þessi ljóð smætta ekki heldur opna möguleika og leiðir. Biblíuleg dauða- og lífs-saga verður í meðförum hennar hnyttin nútímasaga. Í þessari bók er laðandi efni sem á örugglega eftir að rata í jólahugleiðingar. Frábær bók og ég segi takk fyrir mig og mun áfram ausa af þessum ljósabrunni.