Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is. Þá var talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is Sá vefur er nú lokaður.

… og Orðið var Ást

Sigurþór Heimisson flutti þetta ávarp á örþingi um Ástin, trú og tilgangur lífsins, laugardaginn 11. nóvember, 2023. Myndina hér að ofan tók ég af Sigurþóri við Garðana við Ægisíðu. Þar hefur Sóri búið ásamt konu sinni og fjölskyldu í aldarfjórðung. Myndin hér að neðan er af Kór Neskirkju og Sigurþór er sá lengst til vinstri á myndinni.  Báðar myndirnar líklega frá 2010. Hér á eftir er ávarpið: 

Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð.

Ég skil þetta þannig að orðið eða tungumálið sé guðdómlegt, ekki það að upphaflega hafi verið eitt orð -Guð-

Séra Sigurður er búinn að raða saman orðum í heila bók – sem ég er reyndar ekki búinn að lesa alla – en þar segir hann meðal annars frá því þegar sonunum tveimur eru gefin nöfn og hvað þau nöfn þýða. Því orð hafa merkingu, ekki í sjálfum sér heldur er það samningur milli fólks í samfélaginu hvaða þýðingu orð hafa. Við þurfum að læra tungumál til að gera okkur skiljanleg. Ef við komum í nýtt samfélag þurfum við að breyta tungumálinu sem við tölum jafnvel þó að við förum bara á milli landshluta. Á Akureyri þarf maður til dæmis að kynna sér áttirnar til að skilja hvað er átt við þegar spurt er hvort maður búi í syðri eða nyrðri endanum í blokkinni.

Við búum til ný orð yfir nýja hluti og hugtök, og hlutirnir eru í raun ekki til fyrr en þeir eru komnir með nafn. Alveg eins og börn verða fyrst hluti af samfélaginu þegar þau hafa fengið sitt eigið nafn. Þess vegna er tungumálið í sjálfu sér guðdómlegt því það er hluti af líminu sem heldur samfélaginu saman. Við búum okkur síðan til orðabækur til að útskýra hvað orðin í tungumálinu þýða.

Ég hef heyrt því haldið fram að Íslendingasögurnar og tilkoma Biblíunnar á íslensku sé ein aðal ástæða þess að íslenskan hefur breyst jafn lítið og raun ber vitni. Íslendingar lásu (og lesa enn) Íslendingaasögurnar og jafnvel biblíuna líka.

Hlutverk presta er síðan að hjálpa okkur að skilja og skilgreina orðin sem standa í Biblíunni.

Ég man að þegar ég fór að syngja í kórnum og mæta reglulega í messu voru þeir hér tveir prestarnir: Séra Sigurður Árni og Séra Örn Bárður. Mér þótti gaman að hlusta á predíkanirnar þeirra (já, já, allavega sumir í kórnum heyra predíkanirnar) mér þótti svo gaman að heyra hvað þeir höfðu ólíka nálgun á efnið sem þeir voru að fjalla um. Örn Bárður var að mínum dómi klassískari í nálgun á meðan fræðimaðurinn Sigurður Árni þótti mér persónulegri og velta upp nýjum flötum á umfjöllunarefninu.

Þess vegna ber að fagna þessari nýju orðabók Séra Sigurðar því með henni gefst tækifæri að rifja upp eða kynna sér frá grunni hugsanir og túlkanir hans á orðunum og hugsununum í Biblíunni.

Eins og nafn bókarinnar gefur til kynna (og kemur fram í fínu viðtali í Mogganum í morgun) fjallar bókin að stórum hluta um ást og boðskapinn um það að elska náungann.

Nú á tímum sjálfselsku (það er dagur einhleypra í dag, eða dagur sjálfselskra) er full þörf á að minna á að við þurfum fyrst og fremst að elska hvert annað.

Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Ást.

Trúarspurningar og trúarstyrking

Dr. Rúnar Vilhjálmsson flutti erindið hér að neðan á útgáfuþingi bókarinnar Ástin, trú og tilgangur lífsins. Þingið var haldið í Neskirkju, 11. nóvember, 2023. Rúnar er sóknarnefndarmaður í Hallgrímskirkju, kirkjuþingsmaður og prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.

   ————————

Ég vissi snemma af Sr. Sigurði Árna en kynntist honum þó ekki að ráði fyrr við hjónin urðum sóknarbörn hans er við fluttum í Hallgrímssókn. Það hafa verið ánægjuleg og gefandi kynni.

Postilla Sigurðar Árna er áhugaverð að utan sem innan. Í lifandi predikunartexta andmælir Sigurður Árni jöfnum höndum bókafstrú og óupplýstum trúarfordómum. Rauði þráðurinn í predikuninni er elska Guðs til mannsins, misjafn sem hann er, og hið gjöfula samband sem hann getur átt við Guð í Jesú Kristi. Guð vill komast í samband við manninn, sem Sigurður kallar ástarsamband.

Sigurður Árni viðurkennir að svo virðist sem menn geti hafnað Guði og komist áfram í lífinu þrátt fyrir það. En þá verða þeir skilningssljóir, því trúin umbyltir allri merkingu hlutanna, sem hefur margs konar þýðingu og afleiðingar fyrir einstaklinga og samfélag.

Sigurði Árna er það einkar lagið að tengja texta Biblíunnar við daglegt líf mannsins í samtímanum. Sem dæmi er mér minnistæður pedikunartextinn milli nýars og þrettánda sem Sigurður Árni leggur út af. Efnið er leit foreldranna að Jesú, sem eftir svefnlausar nætur finna hann loks í musterinu. Um þetta segir Sigurður meðal annars: „Forsenda þess að við getum gengið inn í guðsreynslu og lifað í guðsveru Jesú er að við viðurkennum okkar eigin leit og förum í musterið með honum … Jesús var í húsi föður síns. Finnur þú Jesú þar?“ Foreldrarnir voru að leita að hinum veraldlega Jesú en fundu annan. Um þetta segir Sigurður: „Að trúa er það persónulega mál að hitta Jesú og verða vinur hans og treysta. María og Jósef hlupu til Jerúsalem og leituðu að Jesú og höfðu sinn skilning. Við erum lík þeim. Við leitum að ákveðnum Jesú en svo mætir okkur allt annar.“

Sr. Sigurður leggur ekki áherslu á sérstæða yfirnátturulega reynslu, sem margir raunar leita að, eða sérstaka opinberun, eða langa bið eftir sérstökum skilaboðum eða fyrirmælum frá Guði. Ástæðan er einföld: Guð er hér og nú – andi hans umvefur allt hið hverdagslega líf mannsins og með augum trúarinnar sést greinilega að hann er nálægur og vill vera í stöðugu sambandi við manninn í daglega lífinu, bæði þegar vel og illa gengur. Afstöðu sinni lýsir Sigurður Árni sem pan-en-teisma sem gengur út á að Guð sé yfir og undir og allt um kring, sem þýði þó alls ekki að allt sé guðlegt. „Andi Guðs hvíslar að þér þegar þú leitar Guðs og kennir þér að sjá guðssoninn. Andinn kennir þér að sjá lífið með nýjum hætti og heyra músík veraldar sem himneska tónlist. Hann kennir þér að tala við Guð og opnar vitund um nærveru hins heilaga í öllu” segir Sigurður Árni. Og hann sér Guð að verki út um allt: Í kossi elskenda og hrósi vinar, í meini sem grær eftir uppskurð, í prédikun sem leiðir til andlegs vaxtar, og í jafnvægi krafta náttúrunnar. 

Einhverjum gæti fundist að það mætti vera meiri alvara á ferð í sumum af predikunartextum Sigurðar – því mikið er í húfi fyrir manninn að játast Kristi sem frelsara sínum og fylgja Guði. Ekki fari heldur mikið fyrir umvöndunum prestsins vegna afstöðu- og sinnuleysis manna í trúarefnum. Og þá gæti einhverjum fundist að fleira mætti segja um siðferðilega ábyrgð játanda Krists í heiminum. En þá er því meðal annars til að svara að Sigurður er ekki að tala sérstaklega inn í  lokað samfélag trúaðra, heldur beinir hann erindi sínu til margslungins samfélags samtímans þar sem gætir alls konar viðhorfa og athafna. En umfram allt þá má hér aftur vísa aftur til elskunnar og þess afls sem hún er í heiminum. Sigurður hefur mikla trú á elsku Guðs og þeim krafti hennar sem styrkir samband okkar við Guð og hvert annað hér í heimi, þó margt kunni að vera ólíkt með okkur við fyrstu sýn. Það má skilja Sigurð Árna svo að lækning heimsins meina sé háð þessu elskuríka Guðssambandi.

Bókin er læsileg og aðgengileg. Hun mun vafalítið verða lesin víða, kveikja trúarspurningar og umræðu og verða mörgum til trúarstyrkingar. Til hamingju með þessa fallegu bók.

Framsaga dr. Rúnars á örþinginu í Neskirkju 11.11. Meðfylgjandi mynd/sáþ er af fyrirlesaranum með barnbarn sitt í aðventuguðsþjónustu í Hallgrímskirkkju 2022. 

 

Tilbrigði við gult og glatt

Fæturnir taka á sprett síðasta spölinn yfir Hallgrímstorgið. Það er gott að skjótast úr strengnum inn í myndheim forkirkjunnar.  Augun leita inn altarisleiðina.  Og sjá, við dyrnar er lygilega gulur lyftari á fleygiferð.  Lyftustjórinn er organistinn, Hörður, sem óhikað rekur gaffalinn undir útstöð orgelsins á kirkjugólfinu.  Hann brosir lítillega við undrandi kirkjugesti og lyftir tækinu, rennir því og orgelhlunknum nær miðjugagni og lætur það svo síga á setstað. Þarna vill hann spila í dag.  Hörður setur stút á munninn og reyndar allt andlitið.  Það dettur á hann einhver suður-evrópskur maestrosvipur, sem hann hefur örugglega einhvers staðar þegið að láni frá tónsnillingi í ham.  Svo hneigir hann höfuð snöggt og með rykk. Þá umhverfist þykistualvaran í glens og bros breiðist yfir andlitið.  Ekkert er sagt, en atferlið er tilbrigði við gulan orgellyftara eða er þetta gjörningur?  Fyrsta verk í undirbúningi sunnudagsmessu.

Svo er tilbrigði við næsta stef.  Klukkan er ekki tíu og kórmeðlimir koma.  Sumir líða inn úr rokinu eins og svefngenglar. Lyktin og lætin laða þau beint að eldhúsi í kaffi.  Hörður stendur á miðju gólfi og veitir öllum athygli.  Einn feiminn tenór hlýtur góðlátlega athugasemd og ein úr altinum fær stroku fyrir spilerí á tónleikum í liðinni viku.  Svo er þétt handtak og umhyggjuaugu honum, sem missti ömmu sína í vikunni.  Presturinn kemur með góðan daginn og þeir samverkamennirnir eru fallegir í framan saman.  Svo fer klerkur til að stýra fræðslumorgni, en kantórinn kallar sitt fólk.  Hann tekur létt vingsspor frá Suðursal og alla leið í Norðursal.  Nokkur kórpils valhoppa með.  Dagur og messa eiga sér elskulegan undirbúning. Kantórinn sér fólkið sitt, hefur ræktað með sér hæfni til að tengja við tilfinningar samverkamanna.  Fólk skiptir máli.  Þetta fólk er ekki aðeins raddir heldur lifandi verur.  Iðkun kærleika er flottur spuni.

A-a-a-a-a, e-e-e-e-e. Ah-ah-ah-ah-ah.  Upp tónstigann, svo niður. Vindurinn hrífst með og gnauðar um gluggarifu.  Kviðvöðvarnir í kipp, leitað að þindinni og slakað á brjóststykkinu.  Varir eru teygðar í sérhljóðavinnslu, raddböndin mýkt upp, axlir í spennulausri hvíld. Líf færist í tónmyndun og hljómur hópsins skýrist.  Vantar bara einn því félagar í Mótettukór standa við sitt, svíkja ekki messusönginn. Söngstjórinn æfir fólk í að muna hvar samhengið og miðjan er.  Svo kemur lítil og kímileg saga.  Upphitun er með fjölbreytilegu móti og aldrei alveg eins.  Hörður er lítið fyrir læsta endurtekningu og kann fjölbreytni, sem rímar betur við fólk og líðan þess.

Crügerlaglína berst frá píanóinu á meðan hjartað og lífið er signt í huganum.  Flett er upp í sálmabókinni. “Nú gjaldi Guði þökk, hans gjörvöll barnahjörðin….” Aðeins sungið einu sinni.  Svo kemur miskunnarbænin: “Drottinn miskunna þú oss…”  Hvað þýðir það og af hverju þrítekið með Kristmiðju?  Þrenningin!  Og glorían svo, síðan heilsan með þínum anda!  Guðspjallssálmur með hússælu og minnt á kredóið.  Auðvitað játningin á sínum stað og svo enn einn sálmurinn. Engin ástæða til að syngja fjórraddað í safnaðarsöngnum. Hallgrímssöfnuður syngur, en svo leggja einstaklingar í kór og kirkju á hljómadjúpin.  Bach er sérstaklega æfður í tilefni dagsins.  Þá er kórinn opnaður.  Hörður stekkur upp og byrjar að stjórna.  Það þarf ekki að stoppa nema tvisvar og syngja aftur yfir.  Svona er kórverkfærið gott og agað.  Allir lesa óhikað – og treysta.  Svo eru sálmarnir sungnir sem eftir eru.  Allt búið – „gott, þið eruð yndisleg“ segir hann. Þá er farið í kaffi. Allur messuhringurinn er örugglega fetaður, fallegur gjörningur og gefur öryggi.  Kórinn er þéttur og samheldinn.  Bachhrynjandin og línan fylgir manni fram.

Messuupphaf og allar nótur á sínum stað.  Allar stillingar eru tilbúnar.  Höfuð organistans hnígur lítillega og messuferðin hefst. Fingur á loft og stóri Kláus tekur við rafboðum, þenur pípur og prelúdíutónar fylla hvelfingu.  Kórfélagar ganga til stæða sinna. Presturinn gengur fram mót altari.  Hörður skágýtur augum til kórsins meðan fætur dansa á bassanum og fingur líða yfir borð.  Í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda.  Ekki tilbrigði heldur frumstefið, sem allt er tilbrigði við, hvort sem það er nú Bach eða Þorkell, Matthías eða Lilja, kredó, predikun, borðsamfélag eða blessun.  Orðið er lesið, síðan útlagt og söfnuður gengur til guðsborðsins.  Uppréttar hendur og blessun.  Hallgrímur leggur orð á varir safnaðar með “Son Guðs ertu með sanni.”  Prestur og kór ganga fram og allir eru á leið út í veröldina með huggun í vegarnesti.

Eftirspilið er tilbrigði við lokasálm.  Organistinn spinnur úr stefinu, hljómarnir þyrlast upp og mynda stafla og stæður.  Smátt og smátt verður til tónverk í spunagleðinni.  Á miðganginum er hugsað, að það sé dásamlegt að söfnuður og kirkja njóti slíks snillings til að þjóna hinu góða erindi við veröldina.  Sólin leikur sér á norðurvegg kirkjunnar og baðar sinn góða vin á orgelstólnum.  Fætur hans dansa, kirkjugestir stoppa og guli orgellyftarinn ymur í gleði.  Gott ef ekki sést glytta í englavængi þarna uppi.  Allir glaðir, enda erindið kennt við fögnuð.

Grein mín til heiðurs Herði Áskelssyni birtist í minningarriti Mótettukórsins árið 2003. Myndirnar frá 2005 þegar Hörður kynnti Klaisorgel Hallgrímskirkju fyrir fulltrúum Porvoo-kirknasambandsins. 

Ástin, trú og tilgangur lífsins

Ekki aðeins mönnum þykir gott að elska heldur Guði líka! Í kirkjuræðum mínum hef ég hef gjarnan talað um guðsástina og ástina í veröldinni. Guðsástin er inntakið í gleðiboðskap Jesú Krists og þar með kristninnar. Lífið lifir vegna þess að Guð elskar. Sá boðskapur á alltaf erindi og svo sannarlega líka á þessum spennu- og stríðstímum.

Síðustu áratugi hef ég flutt um eitt þúsund hugleiðingar í helgistundum og sunnudagsprédikanir í kirkju. Úr þessu safni valdi ég 78 ræður í bók fyrir helgidaga ársins. Ritið nefnist Ástin, trú og tilgangur lífsins. Í því er fjallað um þrá fólks og tilfinningar, náttúruna, menningu, tilgang, sjálfsskilning, trú og efa, Guð og ástina í lífinu.

Forlagsþrenningin Bjartur-Veröld-Fagurskinna, sem Pétur Már Ólafsson stýrir, gefur postilluna út af þakkarverðum metnaði. Útgáfuhátíð verður í Neskirkju laugardaginn 11. nóvember og hefst kl. 16 með örþingi í kirkjunni um ritið og prédikun presta í kirkju. Kl. 17-19 verður síðan útgáfuhóf í safnaðarheimilinu og allir eru velkomnir.

Á örþinginu tala þessi: Elín Sigrún Jónsdóttir, Sigurþór Heimisson, Elínborg Sturludóttir, Sigurvin Jónsson, Rúnar Vilhjálmsson, Irma Sjöfn Óskarsdóttir og Ragnar Helgi Ólafsson. Þingstjóri: Vilhelm Anton Jónsson.

Ræðusöfn presta hafa gjarnan verið kallaðar postillur og af því ástin er leiðarstef ræðusafns míns hafa vinir mínir gjarnan talað um ástarpostillu. Það er lýsandi og hnyttin nefning og var lengi vinnuheiti ræðusafnsins. Ragnar Helgi Ólafsson, rithöfundur og grafískur hönnuður, bjó ritið til prentunar. Hönnun hans er í anda bókagerðar stórbóka bókaútgáfunnar Helgafells fyrir hálfri öld. Hallgrímskirkja styður útgáfuna og ég er afar þakklátur sóknarnefnd fyrir. Stuðningurinn tryggði að hægt væri að fá listamann til bókarhönnunar og vanda allan frágang. Elín Sigrún Jónsdóttir hlustaði á allar ræðurnar. Hún er ástkona mín og ást má líka tjá og iðka í samtali um trú og Guð. Halldór Reynisson las yfir handritið og gerði þarfar athugasemdir. Áslaug Jóna Marinósdóttir var öflugur málfarsráðunautur og prófarkalesari. Ég þakka þeim alúð og metnað fyrir mína hönd. Þá þakka ég samstarfsfólki og öllum þeim sem tekið hafa þátt í helgihaldi þeirra kirkna og safnaða sem ég hef þjónað. Tilheyrendur mínir hafa svo sannarlega brugðist við boðskap prédikananna og erindi, rætt um álitaefni, mótmælt sumu, samsinnt öðru og stundum krafist birtingar á vefnum. Prédikun er jú ekki einræða heldur þáttur í löngu samtali margra, ekki verk eins prests heldur samverk anda og samfélags.

Hvernig á svo að nota þessa ástarpostillu? Á kynningarborða sem fylgir útgáfunni segir: „Ég hef gaman af því að elda mat en ég nota aldrei allt kryddið í kryddhillunni í einn rétt. Þessi bók er eins og kryddsafn. Best er að nota hana oft, í smærri skömmtum eða eftir þörfum. Tilgangur hennar er að krydda lífið og næra ástina.“

 

Bækur sem allir ættu að lesa

Við, karlarnir á heimilinu, vorum að ræða um bækur. Einn sona minna hvatti mig til að gera lista bóka sem ég mælti með að þeir læsu. Þetta var ögrandi áskorun sem ég tók. Jón Kristján og Ísak fengu hann svo í afmælisgjöf á átján ára afmælinu. Listinn er hér að neðan. Hann er umdeilanlegur, ófullkominn og úr ákveðnu samhengi menningar og forsendna. 101 eru þær bækur sem allir ættu að lesa og 102 er framhaldslistinn. Bóklestur er smitandi og nú fæ ég reglulega áskoranir frá sonum mínum hvað ég ætti að lesa.  Blindur er bóklaus maður.  

101 Bækur fyrir lífið

Biblían: 1Mós, 2Mós 19-20, Slm 8, 23, 90, Mark, 1Kor 13

Barnabiblían

Kóraninn: Al-Fatihah – fyrsta súra

Laxdælasaga

Gunnar Gunnarsson: Aðventa

Antoine de Saint-Exupéry: Litli prinsinn

Viktor E. Frankl: Leitin að tilgangi lífsins

Orson Wells: 1984

Paulo Coelho: Alkemistinn

Eric-Emmanuel Schmitt: Óskar og bleikklædda konan 

102 Bækur til þroska og íhugunar

Biblían: Jes, Jóh, Post  og Ef.

Platon: Síðustu dagar Sókratesar

Platon: Menon

Platon: Gorgías

Markús Árelíus: Bókin um ellina

Hávamál

Lilja

Lao Tse: Bókin um veginn

Cervantes: Don Kíkóti

Hallgrímur Pétursson: Passíusálmar

Immanuel Kant: Hvað er upplýsing – An Answer to the Question: What is Enlightenment?

Voltaire: Birtingur

John Stuart Mill – Frelsið

Henry David Thoreau: Walden       

H. C. Andersen: Ævintýri

Þjóðsögur Jóns Árnasonar

Dostojevskí: Glæpur og refsing

Dostojevskí: Karamazovbræðurnir

Leo Tolstoy: Anna Karenína

Mika Waltari: Egyptinn

Karen Blixen: Babettes Gæstebud

Oscar Wilde: Myndin af Dorian Grey

John Steinbeck: Þrúgur reiðinnar

John Steinbeck: Austan Eden

Eric Maria Remarque: Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum

Albert Camus: Útlendingurinn

Albert Camus: Plágan           

Mikhail Bulgakov: Meistarinn og Margarita

Halldór Laxnes: Íslandsklukkan

Tómas Guðmundsson: Fljótið helga

Dalai Lama: Leiðin til lífshamingju

William Golding: Flugnadrottinn

William Heinesen: Glataðir snillingar

W. Somerset Maugham: Tunglið og tíeyringurinn

Ernest Hemingway: Gamli maðurinn og hafið

Hasek: Góði dátinn Sveijk

Aldous Huxley: Brave New World

Astrid Lindgren: Bróðir minn ljónshjarta

Jostein Gaarder: Appelsínustelpan

Mary Daly: Beyond God the Father

Matthías Johannesen – Sálmar á atómöld

Elie Wiesel: Night

Simone Weil: Waiting for God

Yan Martell: Sagan af Pi

Sallie McFague: Models of God

Sallie McFague: The Body of God

Kahled Hosseini: Flugdrekahlauparinn

Karen Armstrong: History of God

Auður Ava Ólafsdóttir: Afleggjarinn

Maja Lunde: Saga býflugnanna

Xiaolu Guo: Einu sinni var í austri

Sigríður Hagalín Björnsdóttir: Eyland

Yotam Ottolenghi: Simple