Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Miðausturlönd 5 *****

Við feðgar fórum á bókamarkað og keyptum fjölda bóka og þær voru alls konar. Ég rakst á bók Magnúsar Þorkels Bernharðssonar Miðausturlönd – fortíð, nútíð og framtíð. Ég met höfundinn mikils og hlusta grannt eða les þegar tekin eru viðtöl við hann í fjölmiðlum. Ég vissi af bókinni en hafði hvorki eignast hana né skoðað. Svo var hún þarna í bókaflóði markaðarins undir stúku Laugardalshallar – á spottprís. Hún var með í staflanum sem við roguðumst með út í bíl. Heima fór ég svo að lesa. Fólkið mitt stríddi mér á því að eftir þrjátíu blaðsíður lýsti ég yfir og af sannfæringarkrafti að bókin væri frábær. Þau minntu mig á að ég væri nú bara nýbyrjaður og fannst gassagangurinn hæfa mér illa. En nú er ég búinn að lesa allt ritið, allar 331 blaðsíðurnar. Niðurstaða mín er einföld. Þetta er besta bókin sem ég hef lesið um Miðausturlönd. Magnús Þorkell er ekki aðeins snjall fræðimaður heldur vel skrifandi höfundur líka. Litrík, fræðandi, vel túlkandi og yfirveguð fræðimennska og textinn er leifrandi.

Í hverjum kafla er farið yfir menningarsögu, trúarheim, pólitík og hagsmunasögu menningarhópa landssvæðis eða ríkis. Sjónum er aðallega beint að Egyptalandi, ríkjum á Arabíuskaga, Írak, Íran, Ísrael, Líbanon, Jórdaníu, Sýrlandi og Tyrklandi. Einstakir hópar eða þjóðarbrot eru líka rædd þvert á ríkjamæri, s.s. Kúrdar og mismunandi trúarhópar. Með leiftrandi sögum, útlistunum, fræðslu og túlkun málar Magnús Þorkell myndir og útskýrir af hverju málin þróuðust með ákveðnu móti en ekki öðru vísi. Heimsveldi Breta kemur víða við sögu og einnig Bandaríkin. Ottómanveldið er þarna auðvitað líka. Höfundur skrifar óhikað um hvernig stórveldin hafa beitt sér, hver áhrifin voru og þar með líka hvernig hópar hafa verið misnotaðir og þjóðir jafnvel verið rændar. Olía, auðlindir og flutningaleiðir skiptu máli í þróuninni. Hlutur Frakka, Þjóðverja og Rússa er skýrður og hvernig átök veraldar áttu sína afleggjara á mismunandi svæðum og í mismunandi löndum Miðausturlanda. Fjölbreytileg þróun Islam er túlkuð, mismunandi áherslur og guðfræði sem og átök hópa. Af hverju Ísraels-og Palestínu-vandinn hefur þróast með þeim sárgrætilega hætti sem við verðum vitni að þessa dagana fær skýrt baksvið í meðförum Magnúsar Bernharðs.  

Ég hef haft áhuga á Miðausturlöndum lengi og fylgst með fréttum frá svæðinu allt frá áttunda áratugnum. Ég þekki því flesta gerendur og hinar opinberu skýringarsögur fjölmiðlanna. Magnús Þorkell segir persónusögurnar með litríkum hætti og notar til að fara á dýptina. Hann hreif mig með sér og lánaðist að leysa upp marga fordóma mína og ímyndanir um þróun og einstaklinga. Hann túlkaði fyrir mér sögu þjóða og hópa með svo trúverðugum hætti að ég sé margt með öðrum og skýrari hætti en áður. Þannig eru snilldarbækur, þær breyta, dýpka og kalla fram skilning og þegar best lætur visku. Takk.

Slagorð um Palestínu, Gyðinga, Ísraela og stjórnmálamenn hljóma í mótmælum, fjölmiðlum og átökum hörmungarmánaða frá 7. október 2024. Klisjur magna ófrið en aðeins góð fræði og viska skapa eða fæða frið. Það er þarft fyrir okkur að ná í bókina Miðausturlönd og lesa. Þar er gott veganesti fyrir yfirveguð viðbrögð okkar einstaklinga og skilvirka menningar- og utanríkispólitík okkar Íslendinga.

Fimm stjörnu bók – og mínusarnir svo fáir og smáir að ég kann ekki einu sinni við að nefna þá. Tolle lege.

Frið á Gaza

Í þessari viku eru fimm mánuðir liðnir síðan Hamas liðar réðust á íbúa Ísraels og her Ísraels hóf hernaðaraðgerðir á Gaza landsvæðinu.

Frá og með 7. október hafa ótal mannslíf glatast. Einnig hafa mun fleiri meiðst, innviðir skemmst og fólk hrakist í miklum mæli frá heimilum sínum. Enginn árangur hefur náðst í viðræðum um vopnahlé eða hvort gíslar Hamas-liða verði látnir lausir. Eftir að stríðið braust út hafa aðstæður á Gaza svæðinu verið skelfilegar fyrir öll þau sem þar lifa og versnar enn. Nú berast fregnir af því að börn þar deyja vegna hungurs og vökvaskorts. Sjúkdómar breiðast út, ekki síst vegna þess að hernaðaraðgerðir hafa beinst að heilbrigðis- og sjúkrahússtarfsemi. 

Við ítrekum mikilvægi þess að yfirstandandi friðarviðræður beinist að því að fá gísla Hamas-liða látna lausa og að stríðsaðgerðum á Gaza ljúki í anda mannúðar og í þágu mannlífs á svæðinu. Ákvarðanir og aðgerðir þarf til að tryggja frið og öryggi fólks. Stríðandi aðilar og fjölþjóðlegir aðilar verða að leysa átökin.

Lútherska heimssambandið lýsir yfir þungum áhyggjum yfir hve stríðið á Gaza hefur magnað flokkadrætti og aukið fordóma um allan heim sem beinast bæði að Gyðingum og Palestínufólki. Lútherska samfélagið heldur áfram að biðja fyrir öllum þeim sem þjást vegna stríðsins í Landinu helga og heldur áfram að standa með kristinni nærveru og samfélagi þar. Lútherska heimssambandið stendur með og styður aðildarkirkjuna sína á landsvæðinu, The Evangelical Lutheran Church in Jordan and the Holy Land, starfsfólki sínu í Jerúsalem og öllum þeim sem er þjónað í þessum erfiðu aðstæðum.

 Samþykkt Lútherska heimssambandsins í byrjun mars 2024.

Myndina tók ég af teikningu barns sem ég rakst á í borginni Jaffa í Ísrael, norðan við Gaza.

 

Konurnar sem bökuðu Hallgrímskirkju

Kvenfélag Hallgrímskirkju á afmæli og er 82 ára í dag. Félagið var stofnað 8. mars 1942 í þétt setnum bíósal Austurbæjarskóla. Fyrsta samvera félagsins hófst með guðsþjónustu. Sigurgeir Sigurðsson þáverandi biskup flutti ávarp á stofnfundinum. Fyrsti formaður Kvenfélags Hallgrímskirkju var Guðrún Jóhannsdóttir frá Brautarholti en núverandi formaður félagsins er Guðrún Gunnarsdóttir.

Kvenfélag Hallgrímskirkju hefur verið stórveldi í lífi og sögu Hallgrímskirkju. Félagið efnir til funda og samvera í kirkjunni og styður safnaðarstarfið með margvíslegum hætti. Kvenfélagskonur lögðu svo mikið fé til byggingar kirkjunnar að sagt hefur verið að þær hafi bakað kirkjuna upp. Félagið hefur keypt messuskrúða og einnig skírnarfont kirkjunnar og gefið kirkjunni margar aðrar gjafir.  

Til hamingju með afmælið kvenfélagskonur og sóknarfólk Hallgrímskirkju.

Fallið – Anatomy of a Fall

Ástalíf fólks er alls konar og sjaldnast einfalt. Flestir leita gefandi og nærandi tengsla en svo verða áföll á leiðinni sem teikna lífsmynd fólks. Kvikmyndin Anatomy of a Fall er um ást sem endar með dauða. Hjón í svissneskum fjallaskála eru bæði rithöfundar. Henni gengur vel og gefur út bók eftir bók. Honum gengur verr, á við ritstíflu að stríða, kennir um tímaleysi og alls konar áraun lífsins að hann klárar ekki bókina sína og segir upp kennslustöðu sinni. Og svo var keyrt á drenginn þeirra sem nánast blindaðist. Hann og blindrahundur hans komu að föðurnum látnum í snjónum. Augljóst var að maðurinn hafði fallið af þriðju hæð hússins. En var fallið sjálfsvíg? Drap eiginkonan manninn? Hinn blindi sonur varð meginvitni lögreglu og réttarhalda. Í krufningu hjónalífsins var ansi langt seilst.  

Hvað er sannleikur? Hvað er rétt og er minni alltaf traust? Hjónalíf og ástalíf er marglaga og tengsl fólks líka. Svo bætast við hefðir og venjur í menningu, lögreglu og réttarfari. Er kenningasmíð lögreglu sannleikur og er stundum heldur snemma hrapað að niðurstöðu?

Það hefur löngum verið erfitt að vera manneskja. Flókið ferli yfirheyrslu og réttarhalda er eitt en svo eru tengsl fólks margþætt. Stórkostlegt handrit myndarinnar tekur á öllum þessum þáttum. Það er margþættur, litríkur en vel heppnaður vefur sem kitlar áhorfendur alla leið og til loka. Smásögurnar sem sagðar eru til stuðnings heildinni eru sjarmerandi. Klippingin er meistaraleg. Leikur allra er sérkapítuli – stórkostlegur. Sandra Hüller er orðin ein af skærustu leikstjörnum samtímans.

Þið sem elskið gæðakvikmyndir – látið ekki þetta undraverk fram hjá ykkur fara. Þetta er ekki afþreyingarmynd heldur listaverk fyrir huga, augu, íhugun, tilfinningar og samtöl. Þetta er ekki mynd fyrir fyrsta deit en kannski ættu öll pör að sjá þessa mynd, bæði þau sem eru að byrja að kyssast og hin sem kunna að strjúka ástúðlega og rýna af getu í dýptir elskunnar. Áföll verða en það er okkar að vinna úr og lifa. Og boðskapur myndarinnar er skýr að við veljum í lífi okkar hvort við sköpum og lifum eða ákveðum að vera þolendur og þar með fólk fallsins. Greining falls hjálpar við greiningu ástar og lífs.

Um myndina á IMDb að baki þessari smellu 

Sýnd þessa dagana í bíó Paradís. 

Norsku konungshjónin og skemmtilegasta heimsóknin

Ég sá í fréttum að Haraldur 5. konungur var fluttur á spítala í Malasíu. Hjartsláttur kóngs var veikur og nú er hann kominn með gangráð. Norsk herflugvél flutti Harald síðan heim til Noregs. Fréttin rifjaði upp liðlega þrjátíu ára minningu.

Ég hitti Harald og konu hans einu sinni og þá voru þau hjartanlega kát. Konungshjónin heimsóttu Þingvelli 8. september 1992 í opinberri heimsókn. Þá bjó ég og fjölskylda mín í Þingvallabæ og hlutverk okkar var að gera Þingvöllum gott til og þjóna komufólki hvort sem það voru hópar skólabarna, Þingvellingar eða aðrir Íslendingar að vitja helgistaðar þjóðarinnar, erlendir túristar eða gestir Íslands í opinberum heimsóknum.

Veður var bjart þegar Vigdís forseti, Davíð forsætisráðherra, Jón Baldvin utanríkisráðherra og fylgdarlið komu með konungi og drottningu Norðmanna. Kröftugt norðanrok stytti ávarp Hönnu Maríu þjóðgarðsvarðar og stansinn á Hakinu. Veðrið var slíkt að galsi hljóp í mannskapinn á göngunni niður Almannagjá og mjög slaknaði á formlegheitum hinnar opinberu heimsóknar. Davíð var í smitandi stuði. Jóni Baldvini var strítt fyrir brúnar og slitnar flauelsbuxur en hann tók gamninu vel og kenndi um grasekkilsstandi.

Konungshjónin spurðu um náttúru Þingvalla, þinghald, tengslin við norska löggjöf og framvindu sögunnar. Í Þingvallakirkju var hlé fyrir rokinu og hópurinn gekk í kirkju. „Ertu norskur eða af norskum ættum?“ spurði kóngur mig í ræðulok því hann undraðist norskan framburðinn. Ég upplýsti hann ég hefði verið við nám í Noregi í tæplega eitt ár og hefði átt heima steinsnar frá Slottet í miðborg Osló. „Það er skýringin“ sagði hann brosandi. 

Svo var haldið í Þingvallabæ. Í frétt Moggans daginn eftir var ranglega hermt að farið hafi verið í ráðherrabústaðinn sem þá voru tvær syðstu burstir bæjarins. Stofa forsætisráðherrans var of lítil svo hádegisverðurinn var í stofunni okkar megin í þessu parhúsi þess tíma. Og það var gaman. Maturinn var góður og allir lögðu til samtals. Konungshjónin skildu að íslensk gleðisókn hefði vikið formlegheitum til hliðar og þau tóku þátt í gamninu. Ég dáðist að því hve Vigdís hélt snilldarvel saman öllum þráðum. Hún tilkynnti að vegna roks yrði að fella niður heimsókn í Reykholt. Haraldur hafði hlakkað til en skildi máltækið að þó kóngur vildi sigla myndi byr ráða. Veðurhamurinn lengdi því hádegisverðinn í stofunni heima. 

Haraldur gekk úr Þingvallabæ hlægjandi og Sonja drottning laut að mér og sagði: „„Þið eruð svo fullkomlega afslöppuð í kátínu ykkar. Þetta er skemmtilegasta opinbera heimsóknin sem við höfum nokkurn tíma notið. Takk fyrir.“ Já, slíkt var gamanið. Ég lærði þennan dag að veður skiptir minnstu máli fyrir hve vel heppnaðar ferðir eru. Aðalmálið er hvernig unnið er úr og hvernig áhöfnin bregst við. Það var skemmtilegt að taka á móti norsku konungshjónunum. Ég vona að hjartsláttur Haraldar 5. verði sem jafnastur og bestur og hann megi hlægja sem mest. Konungshjónin lærðu þennan septemberdag að á Íslandi er oftast gaman í vondu veðri. Þá falla álög mannamunarins af fólki. 

Meðfylgjandi hér fyrir neðan er skjáskot af fréttum Mbl af opinberri heimsókn norsku konungshjónanna.  Myndin hér að ofan er af Sögu, Þórði og Kötlu, börnum mínum í þjóðlegum búningnum, þegar forseti Þýskalands kom í heimsókn.