Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Skírdagsbæn

Kom Jesús Kristur.

Ver hjá okkur – kvölda tekur og degi hallar.

Við biðjum fyrir öllum þeim

sem eru okkur bundin kærleiksböndum.

Gæt þeirra á lífsveginum.

Send heilagan engil þinn, Drottinn,

að styrkja öll þau er syrgja og sakna

allar stundir nætur þar til dagur rennur

og ljós þitt kemur. Hjálpa okkur að heyra hvað við okkur er sagt, hver lífsdómur okkar er.

„Í þínar hendur Drottinn Guð vil ég nú fela anda minn. Þú hefur endurleyst mig Drottinn, þú trúfasti Guð. Gæt vor Drottinn eins og sjáaldurs augans. Varðveit oss undir skugga vængja þinna. Frelsa oss Drottinn meðan vér vökum, varðveit þú oss er vér sofum svo að vér vökum með Kristi og megum hvíla í friði.”

Þú knýrð á, gengur í hús þitt,

Sest niður og brýtur brauðið.

Þú brýtur brauð fyrir veröld, sem hungrar

og þyrstir eftir réttlæti, lífsins orði.

Kenn okkur að þiggja brauð þitt,

Þiggja svikalausa fyrirgefninu – vera þín börn.

Amen

Myndina tók ég í Árnessýslu. 

Elskhugi veraldar

Guðsmyndir manna eru tjáning á þrá og oft klisjur. Guð er gjarnan samsafn drauma og óttaefna mennskunnar. Guðstjáning er frumljóð manna. En þegar við skiljum manngerðar klisjur getum við betur skilið að Guð er ekki með stýripinna eða putta á efnaferlum, snjóflóðum eða krabbameinum veraldar. Guð er ekki harðstjóri einhverra hungurleika manna. Valdasæknir henda upp á himininn eigin ímynd í bólginni yfirstærð til að geta síðan réttlætt eigið vald, eigin grimmd og hrylling. Þeir búa til sinn guð sem er alls ekki guð kristninnar. Gagnrýnendur slíkra grunnra klisjuhugmynda hafa rétt fyrir sér. Þannig guð væri hræðilegur. Guð kristninnar ýtir ekki af stað snjóflóðum eða lætur börn deyja og fólk missa ástvini. Sá guð væri fáránlegur. Guð sem ég þekki er bæði mennskur og guðlegur og hefur reynslu af lífi og þjáningu heimsins. Guð sem Jesús Kristur tengir okkur við er ekki hátt upp hafið vald sem bara skiptir sér af okkur og veröldinni í stuði eða reiðikasti. Guð er lífgjafinn sjálfur og nálægur í gleði og böli. Í hryllilegum aðstæðum hvíslar Guð í eyra þér: „Ég elska þig og er með þér og nærri þér.“ Fólk sem missir börn sín en heldur áfram að trúa á Guð lifir fremur í ástartengslum við Guð en auðmýkt fyrir valdi. Frelsi einkennir heilbrigt ástarsamband og einnig guðssamband. Í slíku trúarsambandi er Guð ekki lengur sá sem skipar eða veldur heldur hefur áhrif og er nærri. Í stað þess að stýra fólki eins og leikbrúðum er Guð nærri í lífsferli manna og í náttúrunni líka. Guð er ekki eins og yfirvald í efnaverksmiðju heldur skapar kjöraðstæður. Guð vill ekki vera ofurstjóri heimsins heldur elskhugi veraldar. Guð beitir ekki ofstjórn og þaðan af síður ofbeldi heldur er andlegt fang og stuðningur til hjálpar. Guðstengslin eru frelsistengsl.

Úr bókinni Ást, trú og tilgangur lífsins.

Einurð

Ljóðabók Draumeyjar Aradóttur, Einurð, kom mér mjög á óvart. Kannski ekki gæði bókarinnar, geta skáldsins eða öflugt skáldamál heldur fremur viðfangsefnið. Ég sá á flipanum að höfundur fjallaði um geðhrif, hughrif og kenndir og áhrif á einstklinginnn á fyrsta æviskeiði. Það eru ekki fyrstu árin heldur fósturtíminn í móðurlífi. Og ekki aðeins þeim megin – heldur hinum megin móðurnaflans líka. Gott og vel – hugsaði ég með mér. Já, vissulega áhugavert en samt var ég tortrygginn. En ljóðin gripu strax og vitundin flæddi í matrix lífsins.

„Langminnungar frumur líkama þíns færa mér

uppsafnaða reynslu formæðra okkar og forfeðra

 

langræknar flytjar þær mér áfram niður keðjuna

allar ástir og afrek

alla ósirgra og áföll

 

rista ljóðrúnir á legveggina

sem ég les mig í gegnum næstu vikur og mánuði

en endist ekki ævin til að ráða“ (s. 30)

Uppsöfnuð reynsla kynslóðanna er orðfærð, áhrif samfélags, viðburða og líka áfalla. Hvaða afleiðingar hefur dauðsfall á fóstur og tilfinningaþykkni og samlíf móður og hins nýja lífs. Ljóðin vísa til og tjá þá fléttu en ramma líka vel þagnarmálin.

Einurð er ekki ljóðsaga með póetískum prósatextum heldur nær því að vera marglaga söguljóð um upphaf manneskju og að auki í aðkrepptum aðstæðum. Þetta er þemabók um alvöruþema. Mér þótti stefjavinnan ganga upp. Þemað er unnið með ágætum.

Bókin varð mér persónulega nærgöngul því amma drengjanna minna varð til einhverjum klukkutímum áður en faðir hennar fór í hafið við Vestmannaeyjar. Hverjar eru afleiðingar áfalls, viðbragða og sorgarvinnu móður á hellisbúann nýkviknaða? Fæðingarreynsla er tjáð, inngrip, staða fósturs og síðan framhaldsmótun persónueiginda. Lýsingagnóttin er öflug og grípandi.

Til hamingju Draumey með þessa merkilegu bók. Hún kom inn um bréfalúguna kl. 10 að morgni og upp úr hádegi var ég búinn að lesa. Kona mín sagði vá þegar hún var búin að lesa fyrstu blaðsíðurnar!

Að baki þessari smellu eru upplýsingar um höfundinn. Gott viðtal við Draumeyju á Lifðu núna. Sæmundur gefur út og leggur metnað í útgáfuna sem er þakkarvert. Aðalsteinn Svanur Sigfússon vann bókina til prentunar og hann er landsliðinu í bókahönnun. 

 

 

Hörður Áskelsson heiðraður

Herði Áskelssyni voru veitt heiðursverðlaun íslensku tónlistarverðlaunanna 2024. Það er verðskuldað. Hörður var vorboði í tónlist þjóðkirkjunnar þegar hann kom heim frá námi í Þýskalandi og síðan stormsveipur. Í honum bjó mikill metnaður, geta og einurð sem nýttist ríkulega í uppbyggingarstarfi kóra- og listalífs Hallgrímskirkju. Hann hafði mikil áhrif sem kennari og fyrirmynd í tónlistarlífi þjóðkirkjunnar. Svo var hann frumlegur, sískapandi frumkvöðull. Hann lagði metnað í nýsköpun í sálmagerð og hækkaði viðmiðin almennt í kirkjulífi og tónlist. Ég þakka fyrir mig sem og fyrir hönd íslenskrar kristni. Lof sé Herði Áskelssyni og þökk sé þeim svo stuðluðu að því að heiðursverðlaunin voru veitt svo verðuglega árið 2024. Myndin er af Herði og dótturdóttur hans á 30 ára vígsluafmæli Hallgrímskirkju 2016.

Grein mín til heiðurs Herði í 2003-riti Mótettukórsins er að baki þessari smellu.  Myndina hér að ofan tók Saga Sig. 

Matthías Johannessen og fegursta ástarljóð Íslendinga

Óendanlega smátt er sandkornið

á ströndinni.

Óendanlega stór er kærleikur þinn.

Ég er sandkorn á ströndinni,

kærleikur þinn hafið.

Matthías Johannessen var magnaður ferðafélagi. Ljós heimsins leituðu alltaf að honum þar sem hann fór. Hann varð því gjarnan miðja hverrar samkomu. Hann horfði djúpt í augu og brást við af alhygli. Hann svaraði hnyttilega og stundum rosalega. Ég hitti Matthías fyrst í hringiðu Moggans í Aðalstræti og síðan oft á fundum í Reykjavík og út á landi. Við ræddum margt en nánastir urðum við í úrvinnslu dauða Hönnu, konu hans. Við fórum þá saman austur að Fljótinu helga, Soginu. Við sátum við flauminn og töluðum – og þögðum líka. Matthías hafði engan áhuga á að veiða sem var okkur þó heimilt. Stangirnar lágu því á bakkanum en við önduðum að okkur sólskini og flutum inn í lífheim umhverfisins. Þá vildi Matthías tala um Hönnu, svo líka sefandi harmljóð fljótsins og haustið sem allra bíður.

Stórskáldið sat þarna á bakkanum og íhugaði einbeitt æðruleysið í Fljótsljóði Tómasar. Það er kraftmikið en meira og mýkra er sandkornsljóð Matthíasar. Hin þanda spenna líkingar þess hrífur og faðmar. Það er líka helgiljóð sem Matthías gaf út í Sálmum á atómöld. Þegar ljóðað er um ást lyftist sálin. Augu Matthíasar blikuðu þegar ég spurði hvort hann hefði ljóðað í sálminum til Hönnu sinnar eða Guðs. Hann svaraði ekki spurningunni því í þeim málum sá hann enga andstæðu. Þegar hann horfði á, talaði við eða ræddi um Hönnu var sál hans opin. Þegar hann talaði um Guð var eins og hann talaði um Hönnu líka. Hún var honum guðleg ásjóna. Þegar Hanna  sviðnuðu flugfjaðrir Matthíasar og urðu aldrei samar síðan. Missir hans var djúpsár, sorg er ástarskuggi. Eiginlega fór hluti af honum með henni inn í eilífðina. Og þar er bara himinsjór elskunnar. „Ég er sandkorn á ströndinni, kærleikur þinn er hafið.“ Fegursta ástarljóð Íslandssögunnar og sálmur líka. Guð geymi Hönnu og Matthías, blessi minningarnar um þau og styrki ástvini þeirra.  

Kennimyndina af Matthíasi tók ég í kjallara Neskirkju 2007. Hann talaði þá um skáldverk sín og las upp eigin ljóð. Myndina hér að ofan tók ég 22. febrúar 2009 á Torgi Neskirkju. Matthías var hugsi í umræðum um efnahagshrun Íslendinga. Minningarorð um Hönnu Ingólfsdóttur Johannessen eru að baki þessari smellu