Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is. Þá var talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is Sá vefur er nú lokaður.

Karl Sigurbjörnsson – blessuð veri minning hans

Karl Sigurbjörnsson er látinn. Ég fylgdist með honum yfir sex áratugi og vann náið með honum í nokkur ár. Karl var hæfileikaríkur maður og frábær prestur. Ég man eftir honum sem glaðværum, kurteisum en hlédrægum unglingi í biskupshúsinu við Tómasarhaga. Nokkrum árum síðar var hann sem ungprestur kominn upp á land úr eldinum í Eyjum. Mér þótti hann heillandi þegar hann kom til að eiga orðastað við háskólanema. Hann kom til okkar með uppbrettar ermar í vorbirtu til að fræða um viskuefni kristninnar. Hann var trúverðugur, spaugsamur og vel upplýstur. Þá gerði ég mér grein fyrir getu hans sem fræðara og ræðumanns. Verkefnin sem hlóðust á hann voru mörg og sum flókin. Einu sinni hringdi hann og bað mig um að gera sér greiða í þungbæru máli sem okkur þótti báðum sem grískur harmleikur með tvo kosti og báða vonda. En hann markaði stefnu út úr ógöngunum. 

Karl var listrænn, smekkvís og drátthagur eins og fínlegar vinjettur hans sýna vel. Hann var vel skáldmæltur. Þá hafði hann auga fyrir húsagerð og las hús vel. Karl var alla tíð hamhleypa til vinnu, afar glöggur, flokkaði ákveðið, var fljótur til verka og vann af skilvísri alúð. Hann vantaði aldrei verkefni en afrekaði langt umfram verkastöðu og væntingar. Prestsþjónusta Karls var frábær og allir hæfileikar hans nýttust. Tíminn í Hallgrímskirkju var Karli gleðiríkari en biskupstíminn þar á eftir.  Á holtinu ríkti frelsi en helsi sótti stíft að á Laugaveginum. 

Karl var hamingjumaður í hjúskap og heimilislífi. Kristín Guðjónsdóttir stóð við hlið bónda síns í öllum verkum og málum. Saman bjuggu þau þremur börnum sínum kærleiksríkt uppvaxtarheimili.

Það var gaman að fylgjast með Karli í tengslum við fólk. Hann var jafnan hlýr, næmur, opinn og glaður í samskiptum. Tengsl Karls við ungu kynslóðina og börn voru alltaf gefandi. Hann sá fólk og líka börnin sem hann umvafði hlýrri elskusemi. Vísitasíuferðir hans voru því ekki aðeins gagnlegar heldur oftast gleðilegar. Hann hafði lag á að gleðja sóknarnefndarfólk og þau sem hann hitti á þessum ferðum. Í þessum ferðum var Karl veitull í stól og á stéttum.

Mannvinur og Kristsvinur Karl Sigurbjörnsson er laus úr helsi heims og farinn inn í frelsi eilífðar. Guð geymi hann og styrki og blessi ástvini hans.

Myndina hér að ofan tók ég af Karli á prestastefnu í Neskirkju 2011. Hann stýrði fundum með glettinni hlýju og festu. Að baki honum er mynd af Munib Younan sem var lútherskur biskup í Betlehem. Þeir voru báðir hugumstórir friðarmenn. Á hinni myndinni hér að neðan ávarpar Karl ungsveininn Jón Kristján. Barnelska Karls birtist í brosi hans við íhugandi barninu.

Passíusálma+

Lifir einhver í skugga Hallgríms Péturssonar? Eru Passíusálmar einhverjum hindrun eða fyrirstaða? Stór og fyrirferðarmikil skáld geta orðið svo mikil að önnur skáld þora ekki, bera svo mikla lotningu að sjálfstæðið glatast. Um tíma var eins og Halldór Laxnes væri slíkur, hamlaði framvindu og kastaði skugga yfir land og menningu. Skuggar þeirrar gerðar verða í öllum greinum mannvísinda, í öllum listgreinum, trúarheimum og í öllum smáheimum sem mennirnir skapa. Síðan minnkar áhuginn eða að verk þeirra eru svo stórkostleg, kenningarnar svo frumlegar og snjallar að þau verða sígilld eða opna svo veigamikinn verkahring að á þau er fallist. Þetta eru hinir miklu snillingar eða löggjafar mannkyns eins og vísindaheimspekingurinn Thomas Kuhn hefur nefnt þá.

Lifir einhver í skugga Hallgríms og Passíusálmanna? Ég held að svo sé ekki. Allir Íslendingar eru frjálsir að trúarhugsun og skynjun. En hvert er þá gildi þeirra? Passíusálmar hafa lifað með þjóðinni og mótað fólk. Þeir hafa hrifið skáld og mótað skáldamál um aldir. En hvert er gildi þeirra og lífsmáttur í samtíð okkar? Hver er dýpt eða “plús” þeirra sem við nútímafólk getum notið og túlkað okkur til gleði, stuðnings og visku?

Öll verk manna, sálmar og ljóð eru tengd tíma, spíra í jarðvegi og andrúmi menningar. Aðeins þau lifa af samtíð sína sem með einhverjum hætti snerta tilveru fólks með einhverjum djúptækum hætti. Þetta eru klassikerarnir. Bókmenntirnar eiga sér slík verk frá öllum tímum sem fólk les. En til hvers. Ég held að klassískt sé það verk sem með einum eða öðrum hætti tjáir lífsmáta, lífshátt, mögulegt líf manns í heiminum. Shakespeare eða frásagnir Biblíunnar verða innlifuðum lesendum veruleiki sem hægt er að lifa í og af. Þau eru klassíkerar vegna þess að lífið sem tjáð er, lífsbaráttan sem túlkuð er og lausnirnar sem sýndar eru höfða til fólks, eru trúverðugar með einum eða öðrum hætti – hafa dýpt, hafa plús, eru dýrmæti sem hver samtíð, hver nútími getur notið og nýtt sér.

Eru Passíusálmarnir klassiker? Kanski er skáldamál þeirra orðið fornlegt lítt yrkjandi fólki samtímans. En er píslarsaga þeirra ekki ríkuleg öllum þeim sem nema þjáningu í lífi sínu eða átökum heimsins? Eru sálmarnir aðeins sýnisbókmenntir sinnar tíðar eða megna þeir að tjá eitthvað fyrir nútímafólk sem verður til lífs?

Skáldin sem lesa hér í Hallgrímskirkju hafa verið beðin að yrkja eða ljóða í framhaldi eða til hliðar við Passíusálma. Þau hafa frjálsar hendur. En mín spurning er hvort eða hvernig klassíkerinn eða píslarsagan hefur áhrif í nútíma. Hvernig ljóða frjáls skáld en í tengslum við Passíusálma? Eru þau í skugga, eru þau frjáls – er skuggi Passíusálmanna kanski hvítur og ljósgæfur?

Ávarp Sigurðar Árna við upphaf ljóðadagskrár Kirkjulistahátíðar í Hallgrímskirkju 6. júní 2003. Skáld fluttu frumort ljóð sín í framhaldi af Passíusálmum. Því var notað heitið Passíusálma+ eða Passíusálmaplús og ávarpið er til inngangs en fjallar einnig um merkingu og hlutverk hins klassíska í menningu og lífi – að veita plús, viðbót, örva til nýsköpunar. Skáldin sem beðin voru að yrkja og lesa voru: Andri Snær Magnason, Baldur Óskarsson, Hjörtur Pálsson, Ingibjörg Haraldsdóttir, Ísak Harðarson, Jón Bjarman, Kristján Þórður Hrafnsson, Kristján Valur Ingólfsson, Margrét Lóa Jónsdóttir, Matthías Johannessen, Sigurður Pálsson, Sigurbjörg Þrastardóttir, Vilborg Dagbjartsdóttir, Þóra Jónsdóttir, Þórarinn Eldjárn. Kennimyndin af Hallgrími Péturssyni er verk Leifs Breiðfjörð og er hluti stóra gluggans yfir aðaldyrum Hallgrímskirkju. 

Fyrsti fiskur Kötlu og veiðiugginn vondi

Henni þótti veiðiugginn vondur! Katla, dóttir mín, er þarna fyrir framan Hnausa í Meðallandi. Hún var fimm ára. Ég fór með henni út að hyl í Eldvatni og hjálpaði henni að kasta. Svo stríkkaði á línunni og sjóbirtingur þeyttist um allan hyl – og sjóbirtingar eru oft sprækir. Þeirri stuttu féllust ekki hendur og hún missti ekki stöngina heldur hélt fast og tókst svo að koma fiskinum á þurrt.  Heim við bæ reyndi Katla að framfylgja síðustu ábendingu pappans – að bíta uggann af! Það gerðu veiðimenn við fyrsta fiskinn. En það þótti henni öllu erfiðara en að ná birtingnum á land. En maður lifandi – einbeitt var hún í öllu. 

Katla greinilega með maðkaboxið hans Vihjálms á Hnausum og stendur þarna stolt með fiskinn sinn fyrir framan gömlu fjósbaðstofuna. Hún er með fyrstu silungastöngina mína sem var keypt hjá Ásbirni Ólafssyni – þar sem nú er Ráðhúsið – og Abu-hjólið keypti pabbi í Veiðimanninum og gaf mér.

Ég dáðist að styrk Kötlu í þessum veiðiskap. Nú er hún farin að kenna sínum börnum veiðar! Ég er hættur – en liðtækur meðhjálpari.

Orð gegn orði (prima facie)

Tessa er slyngur lögmaður, fer á kostum í dómssal og er orðinn stjörnulögfræðingur þó ung sé. Hún kann leikrit dómstólanna, þekkir hvað gengur og greinir veilurnar á færi. Hún ver líka brotamenn í kynferðisbrotamálum og hefur engar lamandi sálarskrúblur þó þeir sleppi við refsingu. En svo verður hún sjálf fyrir broti. Allt breytist í lífi Tessu og hún fær innsýn í líðan þeirra sem brotið er á. Hún neyðist til að endurskoða gildi sín, afstöðu og viðhorf sín sem fagmanns. Meðan hún dró ekki í efa praxis lögfræðinganna gekk vel. En hún áttaði sig á að nálgun hennar og kollega hennar hefði jafnvel ekki réttlæti að leiðarljósi og stefndu ekki að því að sekir yrðu dæmdir og saklausir næðu rétti. Ofbeldið breytti öllu. Tessa fór á botninn og þar er hægt að spyrja stærstu og mikilvægustu spurninganna. 

Þetta er dúndurleikverk í Þjóðleikhúsinu sem laumar ágengum spurningum til okkar um eðli réttar, hlutverk lögfræði, kynferðisbrotamál, sekt og sönnun. Hvernig á að túlka og meta tilfinningar og flókin brotamál? Hverjir stjórna lagakerfum vestrænna samfélaga? Stýrir tuddamenning enn lagapraxis dómskerfisins? Kannski stjörnulögfræðingar séu engar stjörnur heldur fremur gerendur og meðsekir?

Ebba Katrín Finnsdóttir leikur stórkostlega í þessum einleik eftir Suzie Miller. Þóra Karítas Árnadóttir leikstýrir af snilld. Ebba og Þóra toppa báðar. Lýsing og búningar Finns Arnar Arnarssonar hæfðu fullkomlega og fjölhæfur er hann Finnur, kemur mér stöðugt á óvart. Flott þýðing Ragnars Jónssonar. Lokasenan reif í djúpvitund mína. Til hamingju með stórkostlega sýningu og ég hvet alla til að fara, hrífast, reiðast, gleðjast, hryggjast og spyrja spurninga um kerfin og merkingu þess að vera ábyrg manneskja í samfélagi. Það er ekki aðeins í leikhúsinu sem orð er gegn orði – heldur í samfélagi okkar og eigin fjölskyldum. 

Myndin hér að ofan er af Ebbu Katrínu og brotaþolum í baksýn og er af vef Þjóðleikhússins. En myndina að neðan tók ég fyrir upphaf sýningarinnar 19. nóvember 2023 sem var önnur sýningin. 

Ég er hættur að veiða!

Ég verið hamfaraveiðimaður frá því ég veiddi fyrsta silunginn í Svarfaðardalsá 10 ára. Yfir hálfa öld veiddi ég mikið. Nú er veiðum mínum lokið. Ég hef ekki tapað vatnslestrargetu, tilfinningum eða líkamsfærni, útivistargleði og hinni frumlægu hvöt að draga björg í bú. Nei, það er annað og dýpra sem veldur.

Þegar við veiddum marga tugi silunga á dag í haustveiðinni fórum við með í soðið á nágrannabæi. Það var alltaf dásamlegt að færa gömlu hjónunum í Gröf fisk og Laugu og því dásemdarfólki í Uppsölum. Þegar ég var kominn á legg voru prestshjónin á Völlum flutt niður á Dalvík, annars hefðu þau fengið fisk líka. Að draga björg í bú er samfélagsmál – og ætti að vera enn í dag í praxis útgerðarfyrirtækja.

Ég veiddi mikið flest sumur frá 1963. Ég hef veitt þúsundir silunga og fjölda laxa sem ég hef ekki tölu á – m.a. hnúðlax 1971 – sem og helling af sjóbirtingi ekki síst í skaftellskum undraám. Ég hef veitt á Norðurlandi, Hornströndum (aðallega marhnúta), Vesturlandi og Suðurlandi. Sum árin veiddi ég svo mikið að ég seldi fyrir öllum veiðileyfum! Stundum hef ég veitt svo mikið að ég hætti löngu fyrir lokunartíma. Þegar maður er búinn að veiða nóg fyrir sig og sína – ja, þá er nóg komið. Annað er drápsfýsn og hömluleysi. Ég hef ekki veitt undanfarin ár og ekki haft löngun til. Veiðiþráin er farin, löngunin til lífsverndar hefur vikið veiðisókninni til hliðar. Ég vil ekki deyða. Blessunarafstaða og lífsgleði hefur þokað veiðigleðinni til hliðar. En ég skil veiðimenn og dæmi engan sem sækir í vatn og veiði. Ég er til í að fara í veiðitúra með félögum mínum og ástvinum, elda fyrir þau, aðstoða þau, kenna ungviðinu að lesa á og straum, legustaði og tökustaði. Ég vil gjarnan aðstoða þau í köstunum og fræða um náttúruna og dásemdir hennar og víddir. En ég hef veitt minn síðasta fisk – engin dramatík og enginn áföll – bara breyting sem ég álít vera þroska og þarf ekki viðurkenningu neins á slíkri niðurstöðu. Og mér þykir skemmtilegra að sjá fisk skjótast um í hyl en vita af öngli föstum í fiskskjálka. Þetta er endurröðun gilda og gleðiefna.

En ég hafði gaman af þessari svart-hvítu mynd – líklega frá 1975 – sem kom upp í fangið við tiltekt. Efri myndin úr haustveiði í ágúst er frá brúarhylnum í landi Hofs í Svarfaðardal, líklega frá 1970.