Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Slys, blóð og ástin í Barcelona

Fólk er flest undursamlegt og umhyggjusamt. Ég varð vitni að manngæðum og elskusemi þegar slys varð í Barcelona. Við sátum og biðum eftir paellu þegar hár hvellur glumdi og bergmálaði milli húsa. Allir hrukku við og ljóst var að umferðarslys hafði orðið. Ég leit upp úr Gaudi-bókinni sem ég var að lesa og sá unga konu falla til jarðar. Hún hafði brunað á mótorhjólinu sínu en ók á bíl sem hafði stoppað á rauðu ljósi. Þungar stunur bárust frá stúlkunni á götunni. Blóðið fossaði úr andliti hennar. Nærstatt fólk hljóp til og stumraði yfir henni. Tvö fluttu mótorhjólið upp á eyju. Fólk kom hlaupandi úr veitingahúsunum með servéttur og pappír til að stöðva blóðfossana. Svo byrjaði konan að gráta. Sjokkið skók líkama hennar og skjálftarnir voru rosalegir. Ég dáðist að hve fumlaust nærstaddir gengu í verkin, studdu hina slösuðu, struku engilslega bak hennar og handleggi, töluðu róandi við hana og aðrir hugguðu skekinn bílstjóra bílsins sem ekið var á. Einhver hringdi strax á sjúkrabíl sem kom eftir örfáar mínútur og annar skömmu síðar. Aðrir stýrðu umferðinni og beindu bílum frá svo hjúkrunarlið kæmist að strax. Verkaskiptingin varð á nokkrum sekúndum og margir lögðu lið. Hin slasaða var flut á sjúkrahús og vakt er yfir hjólinu þar til ástvinir koma og ná í það. Hjálmurinn sem stúlkan var með bjargaði miklu og kannski lífi hennar. Niðurstaðan um mikilvægi hjálma var okkur augljós og orðuð við borðið okkar. Slys verða en það var hjartavermandi að verða vitni að umhggju og kærleika sem konan naut. Vitundin um mannhelgi lifir í Barcelona. Mósaík lífsins er ekki aðeins í Gaudi-brotum heldur líka í fljúgandi mótorhjólum og aðvífandi englum í mannsmynd. Ást hinnar heilögu fjölskyldu sem túlkuð er í stórkostlegri basilíku Barcelona er iðkuð meðal fólksins í borginni.. 

Gaudi og ljóskeilur í Barcelona

Einu sinni sá ég nunnur og presta í Assisi forðast að ganga í sólinni og þau gættu þess að vera alltaf í skugganum. Hitinn var mikill og sólskinið brennandi. Það var dálítið fyndið en ég skildi að með hoppum og stikli reyndu þau að forðast hitann. Ég hef gengið um Jerúsalem, Akka, Genúa, Róm, Malaga, Palma og fleiri suðrænar borgir og furðað mig á hve þétt húsin standa. Svo uppgötvaði ég að í þrúgandi hita er hagkvæmt að stutt sé milli húsa því þau verða fólki, dýrum og húsum skjól. Þau standa svo þétt svo sólskinið skíni sem minnst á vegfarendur og byggingar. Í skuggasundunum er þægilegra að ganga og sitja en í brennandi sólskini og steikjandi hita. Á suðrænum slóðum er mikilvægara að huga að hita og kulda en birtu. Því eru borgirnar í suðrinu með merkjum hugsandi skipuleggjenda. Á norrænum slóðum er mikilvægara að tryggja sem mest ljós en vörn gegn hita. Því er ólánlegt að byggja þéttstæð háhýsi í okkar heimshluta. Þá er ofuhitaarkitektúr ranglega laumað inn eða smyglað í ljósþurfandi byggðir. Þorp og borgir á að skipuleggja til að þjóna fólki og góðri líðan þess.

Palmahúsið

Einu sinni fengum við fjölskyldan lánaða íbúð í gamla hluta Palma, hjarta borgarinnar. Húsið er gamalt, líklega nokkur hundruð ára. Hverfið er enn eldra og með þröngum götum sem halda brennandi sumarhitanum frá og hindra skyndikælingu á vetrum. Íbúðin var dásamleg og hafði verið gerð upp nostursamlega og smekklega. En ég furðaði mig á skipulagi hennar og húsanna í þessum gamla borgarhluta. Litlir gluggar með opnanlegum hlerum voru götumegin og mót suðri og allir svo gerðir að hægt væri að loka þeim, bæði til að hindra ofurbirtu og hitamók sumardaganna en líka hitamissi í vetrarkuldum. Í miðju íbúðarinnar var enginn miðjugangur eins og í mörgum íslenskum íbúðum tuttugustu aldar. Í miðju húsanna í Palma er hins vegar ljóskeila. Húsin eru með miðjustrokk sem opinn er frá neðstu hæð og uppúr – tvær til fjórar hæðir. Gler er allan hringinn kringum ljóskeiluna. Á hæðunum koma íbúar fyrir kerjum fyrir blóm og kryddjurðir í strokknum og við hann. Innan við gluggana er síðan gangur sem nær í kringum ljóskeiluna og gengið er í herbergi, eldhús, baðherbergi og stofur þaðan í frá. Vissulega voru margar íslenskar íbúðir skipulagðar með hringgöngu en án ljóskeilu í miðju. Til eru ljóskeiluhús á Íslandi. Eitt er í götunni þar sem ég bý og oft hef ég komið í hús með „japanskri“ miðju. Þau hús er hönnuð til að hámarka náttúrlega birtu innan dyra. 

Casa Batlló í Barcelona

Palma-útgáfa var áhugaverð og íhugunarefni. Svo þegar ég kom í Casa Batlló-húsið í Barcelona sem Gaudi hannaði sá ég sama skipulag. Reyndar voru ljóskeilurnar tvær í því húsi en ekki ein. Ekki var opið upp úr heldur lokað með gleri til að varna gegn vatni, kulda og ofurhita. Og Gaudi var meistari skreytinga og glæsileika svo ljósbrunnurinn er allur skreyttur og það glæsilega. En lögmálið er það sama í ljóskeiluhúsum á Mallorca, Barcelona eða öðrum borgum við Miðarðarhaf. Brunahita var og er haldið úti, vetrarkulda líka en ljósflæðið tryggt innan hús með ljóskeilu. Ljós frá miðju og svo inn í vistarverur. Skipulagið rímar við sólmiðju og guðsmiðju veraldar. Heillandi.

 

Ástarleikir kríunnar

Kría er minn uppáhaldsfugl, langförul, trygglynd, kát, ákveðin og ver sínar stöðvar af listilegu harðfylgi. Latneska heiti kríunnar – sterna paradisaea – merkir paradísarstjarna, sem tjáir aðdáun einhverra fuglaskoðara fortíðar. Í lok maí var ég í Akrafjöru á Mýrum og þar voru ástarleikir íðkaðir af ástríðu. Kerlan kvakaði framan í karlinn í miðjum leik og óljóst hvað þeim fór á milli, kannski að henni þætti ferlið landregið sbr. Hólavallagarðsspurningin í Ofvita Þórbergs. En þau létu vel að hvort öðru á eftir. Spaugari í kríugerinu flaug niður að parinu og veifaði sandsíli sem ekki truflaði parið. 

Leir-andi

Ólöf Erla Bjarnadóttir sýnir verk sín á hlöðuloftinu á Korpúlfsstöðum. Verk frá ýmsum tímaskeiðum í listferli Ólafar eru á sýningunni Leir-andi, sem er afar fjölbreytileg og gefur innsýn í margar vídir í listferli hennar. Við Elín höfum notað og notið bolla sem Ólöf hefur skapað og dáðst að brúkshlutunum fyrir viðburði hvunndagsins og veislur hátíðanna. En mér þótti skemmtilegt að sjá og skynja breiddina í ferli Ólafar. Jólakúluserían er stórkostleg og var sem nútímaleg helgitafla yfir kökudiskaaltarinu. Jökul- og Laugavegsskúlptúrarnir eru hrífandi og hafa ýmsar trúarlegar skírskotanir. Afgangaskúlptúrarnir eru enn ein víddin og sumir fingurskraut. Staup og stjakar eru á einu borðinu. Allt eru þetta helgimyndir, grúpperaðar uppstillingar eins og ég ólst upp við á bernskuheimili mínu  – svo mér þótti hrífandi heimakennd gagntaka mig að ganga um hlöðuloftið á Korpúlfsstöðum.  

„Þarftu ekki að gera bók?“ spurði ég Ólöfu. Hún horfði á mig með þessu sposka og afvopnandi augnaráði og svaraði: „Ég er búin að því og Saga dóttir þín tók nokkrar af myndunum!“ Svo við Elín fórum með bókina Leir-andi frá Korpúlfsstöðum sem gefur innsýn, skýrir samhengi Ólafar Erlu, sýnir fjölda mynda af verkum hennar og dýpkar því lifunina á hlöðuloftinu. Leir-andi veitir merkingu og skilning á ferli, lífi og verkum Ólafar, handverksþróun hennar, rannsóknir á leir, litun og glerjun, hvernig hugmyndir og handverk hafa þróast og unnið saman og einstakir flokkar eða gerðir hafa orðið til í tímans rás. Svo er bókin afar persónuleg og speglar dásamlega skopskyn, tengslagetu, innsæji, hugsun og iðju Ólafar. Við lesturinn fannst mér hún vera við hlið mér mér og jafnvel hlægja með mér þegar ég skellti upp úr. Lífsgáskinn stígur upp úr texta og myndum bókarinnar.

Glæsileg, vönduð og frábærlega hönnuð sýning. Leir-andi er hrífandi og leiftrandi vel gerð bók um feril frábærs listamanns sem hefur gert okkur mikið gagn en líka miðlað okkur fegurð og inntaki til að njóta. Verkin eru listmunir og helgimunir sem auka unað lífs. 

Um verk Ólafar Erlu: 

https://www.instagram.com/olofeb/

https://www.arkiv.is/artist/242

https://oloferlakeramik.is/Information

Myndirnar hér að neðan tók ég á syningunni á Korpúlfsstöðum 10. maí, 2024. 

 

 

 

Nonni frændi dáinn

Raddfegurð, hlátur og broshlýja einkenndu Jón Þorsteinsson. Ég vissi lítið um Nonna frænda fyrr en  ég hitti hann í Noregi veturinn 1973 – 74. Þar var hann við nám í hjúkrun og djáknafræðum og hóf síðan söngnám sem hann stundaði í Noregi, Danmörk og á Ítalíu. Einu sinni kom Nonni frændi í Íslendingahóp eins og brosandi stormsveipur, talaði hátt, hló hjartanlega, felldi dóma um flest og talaði fjálglega um nám sitt og hugðarefni. Mér þótti hann bæði heillandi og yfirþyrmandi.

Nonni vildi alltaf vera Nonni frændi.  Ólafsfirðingurinn hafði mikinn áhuga á hálfum Svarfdælingnum og rakti okkur snarlega saman. Ef hann fann ekki raunveruleg ættartengsl sem hefðu dugað til skráningar í Íslendingabók var frændríki hans samt opið og hann bauð nýtt fólk velkomið. Allir urðu frændsystkin Nonna. Að gera fólk að frændum og frænkum var skilvirk aðferð Nonna við að komast inn fyrir skinnið og tengja. Að hafa tilfinningu fyrir að vera öðru vísi og berjast við að koma úr skápnum kallaði á og agaði aðferð hans við að frændgera samferðafólk sem honum hugnaðist. 

Í Oslo fylgdist ég með innri orustum Nonna við tónlistina, röddina, hneigðir, einstaklinga og líka Guð. Í Nonna bjuggu mörg heimsveldi tilfinninga, oft í friði en áttu stundum í miklum ófriði. Þá leið honum ekki vel og þurfti að blása. Vinir hans urðu vinir í raun. Eftir 1980 fléttuðust Guð og tónlistin æ meira í lífi Nonna. Árið 1981 vann hann fyrstu verðlaun í keppni kon­ung­lega kirkju­tón­list­ar­sam­bands­ins í Hollandi og eftir það sneri hann sér síðan æ meir að kirkjulegum söng og túlkun trúarlegrar tónlistar. 

Tónlist og trú og leiddu saman Nonna og Lilju, móðursystur mína. Þau áttu skap saman og voru bæði frændrækin. Hún skildi tilfinningaglóð hans og hafði gaman af listfengi hans og skopskyni. Hann virti talandi skáldið og fann í Lilju umhyggjusama móður sem þoldi að heyra allt. Þær Brautarhólssystur umvöfðu lífsháska Jóns Þorsteinssonar með kærleika og fyrirbænum. Nonni vissi að honum væri óhætt í návist þeirra. Hann var þakklátur fyrir viðurkenningu þeirra og tjáði mér hve mikils virði elska Lilju hefði verið honum.

Nonni frændi var dramatískur í samskiptum. Stundum flókinn og rosalegur en oftast heillandi. Ég er þakklátur fyrir röddina hans Nonna frænda og söng, sögurnar, hlýju og vinsemd. Guð geymi hann í ómhúsi eilífðar og líkni Ricardo og ástvinum hans.

Myndin er af Jóni og Lilju Sólveigu í afmæli hennar. 

Æviágrip

Jón Þor­steins­son fædd­ist í Ólafs­firði 11. októ­ber 1951. Foreldrar hans voru Þor­steinn Jóns­son­ og Hólm­fríður Jak­obs­dótt­ir. Hann stundaði hjúkr­un­ar­nám í Nor­egi og söngnám í Oslo, Árósum og Mod­ena. Um tveggja ára skeið söng Jón í óperu­kór Wagner-hátíðal­eik­anna í Bayr­euth. Árið 1980 varð Jón söngvari hjá Rík­is­óper­unn­i í Amster­dam þar sem hann starfaði í rúm­an ára­tug. Síðustu þrjá ára­tugi æv­inn­ar kenndi Jón söng við ýmsa tón­list­ar­skóla á Íslandi og Tón­list­ar­há­skól­ann í Utrecht þar sem þjálf­un ungra söngv­ara af ólíku þjóðerni átti hug hans. Jón Þorsteinsson lést 4. maí, 2024. 72 ára að aldri. Eft­ir­lif­andi eig­inmaður hans er Ricar­do Bat­i­sta da Silva. Myndin hér að neðan er frá tónleikum Jóns Þorsteinssonar í Neskirkju í Reykjavík 23. nóvember 2007. Við orgelið er Hörður Áskelsson. Myndir sáþ.