Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Kynningarfundir biskupsefna og kjörmanna

Kirkjuráð ákvað á þessum janúarfundi að efna til fimm kynningarfunda biskupsefna. Þeir verða í hinum fjórum landsfjórðungum og á Reykjavíkursvæðinu og ekki fyrr en framboðstími er útrunninn í febrúarlok. Kynningarfundirnir verða því á tímabilinu 1-14. mars. Guðmundur Þór Guðmundsson, framkvæmdastjóri Kirkjuráðs, mun skipuleggja fundina í samráði við héraðsnefndir. Fundarstaðir og fundartími verður auglýstur síðar. Allir frambjóðendur og kosningabærir prestar og leikmenn prófastsdæmisins eru boðaðir til fundanna.

Í samþykkt kirkjuráðs segir einnig: “Kostnaður við fundina greiðist úr kirkjumálasjóði. Ekki er greiddur ferðakostnaður fundarmanna og frambjóðenda.Kirkjuráð gangist fyrir og kosti útgáfu á sameiginlegu kynningarefni um frambjóðendur til biskupskjörs. Jafnframt verði kynningarefni um frambjóðendur gert aðgengilegt á sérstöku vefsvæði á vef kirkjunnar. Frambjóðendum og stuðningsmönnum þeirra sé gefinn kostur á að kynna málstað sinn í framangreindum miðlum. Fyllsta jafnræðis sé þar gætt um aðgengi.”

Hagsmunatengsl

Hver eru hagsmunatengsl þín?

Ég er ekki meðlimur í neinum stjórnmálaflokki og hef aldrei verið. Sama gildir einnig um konu mína og fjölskyldufólk. Mér vitanlega á mitt nánasta tengslafólk engra sérstakra fjárhagslegra, félagslegra eða pólitískra hagsmuna að gæta umfram það sem almenningur í landinu á. Ég á engin hlutabréf í fyrirtækjum né stunda fyrirtækjarekstur af nokkru tagi. Fjárhagsstaða mín og fjölskyldu minnar er í góðu jafnvægi og getur ekki haft nein áhrif á skoðanir eða ákvarðanir mínar.

Vegna fjölbreytilegra og krefjandi prestsstarfa og að ég er faðir ungra barna hef ég dregið úr félagsstörfum síðustu árin og ég hef ekki viljað gegna stjórnarstörfum af þeim sökum. Ég set fjölskyldulíf og þátttöku mína í uppeldi og heimilislífi í forgang og vil vera börnum mínum góður faðir.

Yfirlit um stjórnarstörf  í félögum er hægt sjá í ferilskrá minni, sem birt er á þessari síðu. Félagar á unglingsárum verða oft ævifélagar. Ég á enn marga vini, sem ég kynntist á mótunarárum. Eftir skólaveru í Melaskóla og Hagaskóla fór ég í MR. Menntaskólaárin voru dásamleg og bekkjarfélagar mínir eru góðir kunningjar þó okkur hafi ekki lánast að búa til bridge- eða matarklúbb. í Kristilegum Skólasamtökum eignaðist ég ýmsa vini líka. Þá urðu félagar mínir í Háskóla að kunningjum og vinum. En tengsl við allt þetta fólk er algerlega persónulegt og óháð fjármunum, pólitík og lífsskoðunum.

Ég styð Hjálparstarf kirkjunnar og starf íslenskra kristniboðsfélaga í Austur Afríku. Sem barn og unglingur sótti ég fundi í KFUM og hef síðan verið félagi í því félagi. Ég er stuðningsmaður KR. Einnig er ég félagi í Ferðafélagi Íslands og í Garðyrkjufélaginu. Ég hef mikinn áhuga á trjárækt, garðrækt og stunda ræktun af kappi og er félagi í Ávaxtaklúbbi Garðyrkjufélagsins. Ég hollvinur Guðfræði- og trúarbragðadeildar og er áhugamaður um velferð Háskóla Íslands. Og einnig hef ég verið félagi í merkilegustu guðfræðisamtökum heims, American Academy of Religion og oft sótt ársfundi þeirra samtaka, enda er þar kynnt það sem nýjast er í rannsóknum á sviðum guðfræðinnar.

Hver eru þá hagsmunatengsl mín? Svar mitt er einfalt. Ég er án hagsmunatengsla og óháður pólitískum, fjárhagslegum og menningarlegum félögum og samtökum öðrum en þeim sem stunda ræktun manna og gróðurs. Af þeim eru kirkjan – og samtök henni tengd – þau mikilvægustu.

Dr. Sigurður Árni Þórðarson gefur kost á sér.

Sigurður Árni Þórðarson, prestur í Neskirkju, hefur ákveðið að gefa kost á sér í embætti biskups Íslands.

Eftirfarandi er yfirlýsing sem send var fjölmiðlum.

Til framtíðar

Ég býð mig fram til biskpsþjónustu. Framtíðarkirkjan er mér efst í huga og ég mun beita mér fyrir breytingum og eflingu þjóðkirkjunnar. Ég hef víðtæka reynslu á öllum sviðum kirkjustarfs og hef verið virkur í umræðu um samfélags- og kirkjumál. Ég hef verið prestur bæði á landsbyggðinni og í Reykjavík.

Helstu stefnumál mín eru:

Sóknarkirkja

Þjóðkirkjan er á breytingaskeiði og hennar hlutverk er að vera kirkja fólksins. Kirkjan á að vera framsækin, frjálslynd, lífleg og öllum opin. Hún á að vera sóknarkirkja en ekki varnarkirkja.

Kirkja trausts

Traust til þjóðkirkjunnar hefur minnkað síðustu ár. Kirkjan á að heyra gagnrýni, gera upp og vera traustsins verð. Biskup þjóðkirkjunnar á að beita sér fyrir að kirkjan sé öruggt og gott samfélag.

Prestur þjóðarinnar

Biskup á að vera fús til samtals, vera virkur þátttakandi í menningarþróun, veita andlega leiðsögn, vera prestur prestanna og þjóðarprédikari. Til að sinna þessu hlutverki þarf að létta af biskupsembættinu hlutverki framkvæmdastjóra kirkjunnar. Stjórnsýsla kirkjunnar þarf að vera gegnsæ og skilvirk. Biskupsstofa á að verða þjónustumiðstöð kirkjunnar.

Kirkja jafnréttis

Þjóðkirkjan á að efla jafnrétti og virkni allra aldurshópa í kirkjunni. Biskup Íslands á að beita sér fyrir jafnri stöðu kvenna og karla.

Kirkja framtíðar

Til að kirkjan eigi sér framtíð þarf æskulýðsstarf að vera forgangsstarf þjóðkirkjunnar. Öflugt barna- og unglingastarf, byggt á nærveru og boðskap Jesú Krists, byggir upp og styður ungt fólk, uppalendur og fjölskyldur. Auka þarf þátttöku fólks í kirkjustarfi og styrkja lýðræði. Þjóðkirkjan þjónar fólki óháð trúfélagsaðild. Biskupi ber að ganga erinda friðar og leiða kirkjuna með gestrisni og til sátta en þó án þess að kirkjan tapi stefnu sinni.

Þjóðkirkjan er á krossgötum. Til safnaða hennar, starfsfólks og stofnana er kallað hátt og snjallt af Guði og mönnum. Ég býð mig fram til þjónustu.

Ég býð mig fram til biskupsþjónustu

Framtíðarkirkjan er mér efst í huga og ég mun beita mér fyrir breytingum og eflingu þjóðkirkjunnar. Ég þekki aðstæður og þarfir dreifbýlis og þéttbýlis, möguleika og kreppur.

Ég hef víðtæka reynslu á öllum sviðum kirkjustarfs og hef verið virkur í umræðu um samfélags- og kirkjumál. Ég hef verið prestur bæði á landsbyggðinni og í Reykjavík. Ég var rektor Skálholtsskóla, fræðslustjóri þjóðgarðsins á Þingvöllum, verkefnisstjóri á Biskupsstofu og tók þátt í samstarfi kirkna á Íslandi og erlendis.

Ég lærði guðfræði á Íslandi, í Noregi og í Bandaríkjunum, er cand. theol. frá HÍ, M.A. og Ph. D. frá Vanderbiltháskóla. Í doktorsritgerðinni skrifaði ég um myndmál í trúarhefð Íslendinga. Ég er fjárhagslega, pólitískt og félagslega óháður.

Ég býð mig fram til að þjóna, efla, sætta og hvetja þjóðkirkjufólk til sóknar.