Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Dagbók pabba – Kiev og Úkraína

Kveikjum ljós til stuðnings Úkraínu. Nú eru þrjú ár liðin síðan Rússar réðust á nágrannaþjóð sína. Okkur Evrópumönnum, raunar heimsbyggðinni allri, ber siðferðileg og pólitísk skylda til að styðja Úkraínumenn þar til réttlátur friður verður saminn. Við hugsum til Kiev og Úkraínuþjóðarinnar og biðjum og berjumst fyrir að ófriði linni. 
Við Jón Kristján, sonur minn, færðum í vetur á rafrænt form dagbók föður míns, Þórðar Halldórssonar, sem hann skráði þegar Sovétríkin buðu honum í ferð til Rússlands og Úkraínu í maí 1952. Hann var fulltrúi Sveinafélags byggingamanna og var í hópi Íslendinga sem var viðstaddur 1. maí-hátíðahöldin í Moskvu. Dabók pabba er mjög nákvæm og merkileg heimild og við gefum út síðar. Pabbi og ferðafélagar hans hrifust af friðarboðskap Sovét þessa tíma. En Rússarnir rufu friðinn fyrir fjórum árum – og raunar oft frá 1952. Hvar er réttlátur friður og hvenær verður hann? Einhvern tíma förum við feðgar svo í pílagrímaferð á þær slóðir sem pabbi heimsótti en það verður ekki fyrr en eftir eld. Greinilegt er að pabba þótti Kiev, sem hann skrifaði Kieff, merkileg og Úkraína – sem hann skrifaði Úkranía – heillandi. Á þessum minningardegi um hrylling árásarstríðs Rússa sem hefur staðið þrjú ár er vert að minnast þess að hernám Þjóðverja stóð í tvö ár og sjö mánuði. Pútín hefur kreppt krumlu sína lengur en Hitler. Hér er færsla pabba frá 8. maí, 1952, vordaginn þegar hann kom til Úkraínu og heillaðist af fegurð og unaði staðhátta og veðurs.
„8. maí. Borgin Kieff mun vera á sömu suðlægu breiddargráðu og London. En Moskva á sömu gráðu og Kaupmannahöfn. Ég sit núna inni í hótelherberginu og virði fyrir mér götuumferðina, sem er mikil. Allir gluggar eru galopnir en ylurinn og blómaangan og ilmurinn af trjánum verkar svo vel á mig að mér líður yndislega vel. Í stofunni eru 2 gluggar stórir, en undir þeim eru miðstöðvarofnar. Á gólfinu er stórt og þykkt teppi. Gluggarnir eru tvöfaldir og sólbekkirnir eru úr gulum marmara. Fínt skrifborð en á því er raflampi og stórt statív með skriffærum og blekbyttu úr marmara. Sest var að borðum kl. 4 og það var vegleg veisla. En viðtökurnar allar eru sérlega alúðlegar og rausnarlegar. Mjög var létt yfir borðum og virtist mér lífsgleðin meiri hér en ég á að venjast. Eftir að við höfðum etið og drukkið kl. 6 um kvöldið var okkur boðið út, til að skoða borgina og um leið gefnar ýmsar upplýsingar, sem að henni laut og auðvitað spurðum við margs. Á ófriðarárunum var Kieff hernumin í tvö ár og þrjá mánuði, en á þeim árum drápu þýsku nasistarnir 175 þúsund manns. Við komum að mörgum veglegum minnisvörðum: einn var af Lenín, annar var af stórskáldinu og mannvininum Letkensko, þessi stytta er í afar fallegum trjá og blómagarði, en við þennan mikla mann er kenndur háskóli einn hér í borg. Enn fremur er hér stórt safnhús helgað minningu þessa mikilmennis. Þá skoðuðum við enn eitt minnismerki af öðru mikilmenni, sem uppi var á seytjándu öld. Hann vann sér það til ágætis, að hann leysti þjóðina undan oki Pólverja. Styttan var reist 1888. Nú höldum við að háskólabyggingu, einni mikilli. Þar er stórt opið svæði, stór trjágarður með miklum trjágróðri. Öll eru trén í fullum blóma en uppi í trjánum er krökt af krákuhreiðrum, sem eru nýlega búnar að verpa. Hreiðrin eru eins og stórir hjálmar efst í trjátoppunum. Í háskóla þessum eru 5 þúsund nemendur, byggingarnar eru nýlega endurbyggðar því að á ófriðarárunum eyðilagðist háskóli þessi. Þá gengum við inn í ákaflega stóran og fagran trjágarð og mikið óskaplega er fallegt í þessum garði og veðrið er líka svo yndislega milt og blítt. Stór og vegleg myndastytta blasir við okkur og er hún af heilögum Valdimar f. 964. Dálítil hæð er hér í garðinum, auðvitað er hún skógi vaxin. Hún heitir Valdimarshæð. Nú blasir við áin Dnepr við okkur, hún er geysibreið og vatnsmikil. Alls staðar er skógur hvar sem litið er beggja megin árbakkanna. Hér er fjarska fallegt útsýni. Mikið athafnalíf er sjáanlegt hér, allt iðar af lífi niður við ána, mörg skip, flutningaprammar og bátar sigla eftir ánni. Gaman væri að dvelja heilan dag og helst marga daga í þessum yndislega fagra garði, en þess er ekki kostur því marg er að sjá í þessari fögru borg. Fylgdarmenn okkar sögðu að Kieffbúar væru mikið gefnir fyrir trjá og blómarækt og svo mikið væri af görðum í borginni að þar væru 22 m2 á hvern íbúa borgarinnar. Næst gengum við að þinghúsinu, það er stutt frá garðinum á undurfögrum stað. Hjá þinghöllinni stendur minnismerki til minningar um þá, sem féllu 1918 í borgarastyrjöldinni. Þingmenn eru 350 að tölu en þar af eiga 150 konur sæti á þingi. Á þinghúsinu blakti þjóðfáni Úkraníulýðveldisins. Hér stutt frá er reistur minnisvarði af hershöfðingjanum Watukin, sem frelsaði Úkraníu undan nasistum í síðar heimsstyrjöld, en féll stuttu síðar. Watukin lifði á árunum 1901 til 1944. Eftir að hafa skoðað þetta og gengið um götur borgarinnar sáum við geysistóra byggingu, en utan um hana voru vinnupallar. Við spurðum túlka okkar hvaða bygging þetta væri. Þeir sögu að þetta væri dómkirkja Kieffborgar og “Sankti Soffía”, sem reist hefði verið árið 1037 og þá byggð sem sigurtákn. Kirkjan hafði skaddast í síðustu heimsstyrjöld, og nú væri verið að gera við skemmdirnar. Næst stigum við upp í bifreiðir og ókum út fyrir borgina og komum að stórhýsi en þar eru gerðar kvikmyndir, húsakynnin eru afar mikil og margt starfsfólk og leikarar vinna hér við framleiðslu á kvikmyndum. Okkur var sýnd kvikmynd, sem sýndi úkranískt atvinnulíf o.fl. Þegar við komum út að sýningu lokinni, var farið að kólna í veðri og brá okkur mikið við hitann frá því í dag og var mér hrollkalt því ég var lítið klæddur. Við gengum gegnum stóran eplagarð. Garðar þessir eru eign starfsfólksins, sem vinnur við kvikmyndagerðina, og vinnur það við eplaræktina í tómstundum sínum. Á milli trjáraðanna voru stórar hálmhrúgur. Forstöðumaður kvikmyndanna, sem með okkur var, sagði að veðurstofan spáði næturfrosti, og ef svo yrði, væri viðbúnaður til að kveikja í hálminum um nóttina til að halda kuldanum frá eplatrjánum, svo að eplablómin ekki króknuðu úr kulda. Menn voru tilbúnir til að vaka yfir eldunum og fylgjast vel með öllu. Við þökkuðum fyrir okkur og kvöddum húsbændur með handabandi, stigum upp í bílana og ókum heim til hótels Intourist og beint upp í matsalinn á 2. hæð og átum kvöldverð en þá var kl 11 e.h. Þar á eftir tókum við á okkur náðir eftir viðburðaríkan og góðan dag.“

Ef hringarnir gleymast í giftingu – hvað þá?

Meðan hvorugt hjónaefna segir nei í hjónavígslum geta frávik kætt og óvænt atvik dýpkað minningagildið. Brúðguminn hafði ætlað að taka hringaskrín úr vasanum þegar komið var að því að draga hring á fingur brúðarinnar. En skrínið hafði gleymst í skrúðhúsinu. Vandræðasvipur kom á unga manninn og ég áttaði mig á vandanum. Og þar sem athöfnin var fámenn voru allir slakir. Ég tilkynnti hlé í athöfninni og bað ungu hjónin sem voru búin að segja já-in sín að kyssast sem mest og tala á milli faðmlaga meðan ég skaust  fram. Ég bar svo boxið með tilþrifum í kirkju. Hjónin ungu skellihlógu og athöfnin varð bæði djúpalvarleg með ákveðinni einbeitni og jáyrðum og líka eftirminnilega kátleg. Óttist ekki mistökin. Þau eru hluti af lífsflæðinu og vaxtarferli. Hvernig er gott hjónaband? Margþátta flétta. Hið óvænta má vera þar – og hlátrar líka.

Axlarbrot og upprisa

Ég er axlarbrotinn. Bílastæðið í Bláfjöllum var sleipt og hart í góðviðrinu á miðvikudegi fyrir hvell. Eva læknir á bráðamóttökunni skipaði mér ströng á svip að melda mig út úr hlutverkum mínum í lífinu. Ég kvakaði í gærmorgun yfir skerðingum í svefni og vöku og sonur minn horfði á mig og sagði mildilega: „Nú hefur þú tækifæri að horfa inn á við!“ Svona skilar sér til baka uppeldi aldraðra foreldra og hittir örugglega í mark. En hann lagðist svo við hlið mér og las upphátt fyrstu kaflana í Fávita Dostojevskís. Við erum jú með sameiginlegt prógram í Rússunum og það skerðist vonandi ekki stórkostlega. Annar sonur – Bláfjallamaðurinn – reiddi fram dásamlegan hádegisverð. Mamman dekraði svo við alla kallana. Kæru vinir – ég dreg mig í brothlé – verð fjarlægur, félagslega óvirkur og líka á facebook. Ég hreyfi mig virðulega, líka í svefni eins og Búdda. Fastan byrjar fyrr hjá mér en flestum öðrum en páskar eru upprisuhátíð okkar kristinna. Ég lifi í von og trú. 
Meðfylgjandi mynd er sú síðasta fyrir brot.

Trú að hverfa?

Liðna áratugi hafa orðið djúptækar breytingar í menningu vestrænna samfélaga. Andúð á stofnunum hefur aukist, sérstaklega þeim sem eru svifaseinar gagnvart hraða samfélagsins, tæknibreytingum og samskiptaháttum. Þær liggja vel við höggi og greinar ríkisvaldsins eru þar með taldar. Gamlar menningarstofnanir hafa ekki sjálfkrafa gildi eða hlutverk fyrir fjöldann. Fólk sýnir svo afstöðu með fótum og puttum sem slá á takka og skjái og melda sig út. En stofnanir sem hreyfa sig hægt tapa stuðningi fólks sem er á fleygiferð.

Á árunum 2011 til 2015 var gerð rannsókn á trú og trúarviðhorfum ungs fólks í íslenskum framhaldsskólum. Liðlega níu hundruð ungmenna 18 og eldri voru spurð um hvaða afstöðu þau hefðu til mála og álitaefna sem varða trú, aukinn fjölbreytileika lífsskoðana í samfélaginu og gildi átrúnaðar. Niðurstaðan var að meirihlutinn taldi að trú væri ekki samfélagslega mikilvæg og hefði ekki mikla þýðingu fyrir þau persónulega. Er trúin að hverfa? Eða er hún kannski að breytast í íslensku samfélagi? Ég held að svo sé. En breytingar í íslenskum kirkjumálum er eitt og annað staða kristni í veröldinni. Kristnum mönnum fjölgar í heiminum og trúin lifir þvert á trú þeirra sem halda að trúin sé að hverfa.

Trú á breytingaskeiði?

Hvað er trú? Fólk hefur ólíkar hugmyndir um eðli hennar og hlutverk. Sumir telja í einfeldni sinni að trú sé forvísindalegar hugmyndir um líf, vísindi og veröldina og því sé trúin dæmd til að gufa upp í ljóma nýrrar þekkingar. Það er röng túlkun. Sum sem hafa litla dýptarsýn telja að hún sé grunnfærin bókstafstrú. Trúað fólk sé þröngsýnislið. En slík túlkun á trú getur átt við um ofbeldishópa af ISIS-taginu en ekki eiginlega trú. Síðan eru þau sem telja að trú sé einhvers konar rétttrúnaður af sannfæringartaginu.

En trúað fólk sér sig ekki í þessum nálgunum. Þetta eru afbakanir, smættanir sem byrja á röngum stað og ná aldrei aðalatriðinu. Svona einfaldanir byrja allar með því að einblína á fólk og hið smáa, hvernig menn bindi sig á einhvern klafa hugmynda, samfélagsafstöðu eða heimafenginnar speki. En trú er allt annað og mun róttækara fyrirbæri. Trú er dýpri og stærri. Trú er ekki fasteign eða staða sem menn ávinna sér með því að vera meðlimir í kirkjudeild eða stofnun. Trú finnur sér vissulega farveg í kirkjum og samfélagi en lifir þó breytingar verði í þjóðfélagi og menningu. Trú er ekki háð kirkjustofnunum en kirkjur eru háðar trú. Er þá trúin ekki á útleið? Nei. Þó þjóðfélag og stofnanir breytist hverfur trúin ekki heldur aðeins hugmyndir fólks. Trú getur blómstrað þótt kirkja tapi öllum meðlimum sínum og hverfi. Heilbrigð gagnrýni og aukin þekking grisjar burt úreltar hugmyndir um heim, fólk og líka trúarkenningar. En trúin hverfur ekki þótt í ljós hafi komið fyrir löngu að sköpunarsagan er ekki náttúrufræði heldur ljóð um tilgang lífsins og merkilega helgisiði. Nei, trúin þolir ágætlega að fólk segir skilið við manngerða trú og kirkjulegar stofnanir.

Lífsfestan sjálf

Hvað er þá trú? Trú er undur sem Guð kallar fram. Trú er aldrei til án Guðs. Trú lifir ekki án þess að tengjast Guði. Öll þau sem hafa verið upplýst af ljósi trúar fara að sjá veröldina sem mikinn veraldarvef sem er ofinn af Guði. Veröldin er samsett af efni og anda. Geimi og grösum er gefin skipan og lögmál sem trúin kennir við Guð. Hver maður er undur sem Guð gefur. Og einu gildir hvort viðkomandi þakkar Guði tilveru sína eða þykist vera aðeins af sjálfum sér og skýrir tilveru sína af efnisrökunum einum. Í öllu lífi glitrar fegurð, máttur og mikilleiki. Okkar er valið. Við getum sjálf ákveðið að sjá í undri veraldar aðeins tilviljun eða farið leið hinnar stóru nálgunar að nema undur nálægðar Guðs.

Trú er ekki yfirborðslegt fyrirbæri, yfirborðslegar skoðanir og allra síst forvísindaleg lífssýn. Trú er mun fremur það djúptækasta sem til er, lífsfestan sjálf. Það er eðlilegt að fólk hafni gamaldags trú. Guði er ekki þar með ógnað. Guð er dýpt lífsins, okkur nánari en maki, foreldrar eða börn. Guð er okkur nánari en vitund okkar og sjálfsskilningur. Guð er allt það sem skapar tilveru lífs og einstaklionga. Guð er hið hinsta viðmið hvort sem menn trúa Guði eða ekki. Trúarkenningar mega breytast því samfélag, skilningur fólks og viðmið hafa breyst. Og guðstengslin, trúartengslin þarf að skilja með nýjum hætti. Trúin er ekki að hverfa en er að breytast. Við sem trúarsamfélag megum opna fyrir róttækari skilning, breytta skynjun og dýpri nálgun. Það verkefni skynsemi okkar að endurtúlka og nýtúlka trú. Auk okkur trú er forn bón. Hún er líka ný því við megum opna allar gáttir, brjóta hlekki huga og anda og nema í öllu nánd Guðs og endurtúlka. Auk okkur trú og vinurinn Guð svarar.

Arineldur, ljós og hiti

Frá því á unglingsárum hef ég notið þess að kveikja upp og horfa í eld. Ég nýt þess að sitja við arinn eða kamínu, finna fyrir hitanum, skoða logana, njóta neistaflugsins og taka við öllum hugmyndunum sem kvikna í eldinum og skjótast síðan í kollinn. Arinn var í sumarbústað móðursystur minnar. Arnar voru í amerískum húsum sem ég var í á námsárunum vestra. Við nutum arinsins í Litlabæ á Grímsstaðaholti. Kamína var í sumarbústað sem við kona mín byggðum í Svarfaðardal og svo er kamína í kotinu okkar í Alviðru. Á liðnu ári breyttum við gasarni í viðararinn í húsinu okkar í Skerjafirði. Við Jón Kristján felldum svo tvö stór aspartré á síðasta ári, klufum viðinn og hlóðum upp til að þurrka til vetrar. Nú erum við eins og bændur sem þurfum að eiga til vetrarins og helst líka fyrningar. Ég stiklaði asparteinunga fyrir mörgum áratugum og feldi tvær aspanna og við njótum nú ljóss og hita. Ég kveiki upp reglulega og stundum fyrir hádegi þegar ég veit að ég á næðisstund fyrir djúp samtöl eða vingott við góða skáldsögu, ljóðabók eða djúpsækna guðfræði. Þetta er föstudagskveikjan í kvöld. Og við sátum fjölskyldan og töluðum um alvöru mál.