Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Trú að hverfa?

Liðna áratugi hafa orðið djúptækar breytingar í menningu vestrænna samfélaga. Andúð á stofnunum hefur aukist, sérstaklega þeim sem eru svifaseinar gagnvart hraða samfélagsins, tæknibreytingum og samskiptaháttum. Þær liggja vel við höggi og greinar ríkisvaldsins eru þar með taldar. Gamlar menningarstofnanir hafa ekki sjálfkrafa gildi eða hlutverk fyrir fjöldann. Fólk sýnir svo afstöðu með fótum og puttum sem slá á takka og skjái og melda sig út. En stofnanir sem hreyfa sig hægt tapa stuðningi fólks sem er á fleygiferð.

Á árunum 2011 til 2015 var gerð rannsókn á trú og trúarviðhorfum ungs fólks í íslenskum framhaldsskólum. Liðlega níu hundruð ungmenna 18 og eldri voru spurð um hvaða afstöðu þau hefðu til mála og álitaefna sem varða trú, aukinn fjölbreytileika lífsskoðana í samfélaginu og gildi átrúnaðar. Niðurstaðan var að meirihlutinn taldi að trú væri ekki samfélagslega mikilvæg og hefði ekki mikla þýðingu fyrir þau persónulega. Er trúin að hverfa? Eða er hún kannski að breytast í íslensku samfélagi? Ég held að svo sé. En breytingar í íslenskum kirkjumálum er eitt og annað staða kristni í veröldinni. Kristnum mönnum fjölgar í heiminum og trúin lifir þvert á trú þeirra sem halda að trúin sé að hverfa.

Trú á breytingaskeiði?

Hvað er trú? Fólk hefur ólíkar hugmyndir um eðli hennar og hlutverk. Sumir telja í einfeldni sinni að trú sé forvísindalegar hugmyndir um líf, vísindi og veröldina og því sé trúin dæmd til að gufa upp í ljóma nýrrar þekkingar. Það er röng túlkun. Sum sem hafa litla dýptarsýn telja að hún sé grunnfærin bókstafstrú. Trúað fólk sé þröngsýnislið. En slík túlkun á trú getur átt við um ofbeldishópa af ISIS-taginu en ekki eiginlega trú. Síðan eru þau sem telja að trú sé einhvers konar rétttrúnaður af sannfæringartaginu.

En trúað fólk sér sig ekki í þessum nálgunum. Þetta eru afbakanir, smættanir sem byrja á röngum stað og ná aldrei aðalatriðinu. Svona einfaldanir byrja allar með því að einblína á fólk og hið smáa, hvernig menn bindi sig á einhvern klafa hugmynda, samfélagsafstöðu eða heimafenginnar speki. En trú er allt annað og mun róttækara fyrirbæri. Trú er dýpri og stærri. Trú er ekki fasteign eða staða sem menn ávinna sér með því að vera meðlimir í kirkjudeild eða stofnun. Trú finnur sér vissulega farveg í kirkjum og samfélagi en lifir þó breytingar verði í þjóðfélagi og menningu. Trú er ekki háð kirkjustofnunum en kirkjur eru háðar trú. Er þá trúin ekki á útleið? Nei. Þó þjóðfélag og stofnanir breytist hverfur trúin ekki heldur aðeins hugmyndir fólks. Trú getur blómstrað þótt kirkja tapi öllum meðlimum sínum og hverfi. Heilbrigð gagnrýni og aukin þekking grisjar burt úreltar hugmyndir um heim, fólk og líka trúarkenningar. En trúin hverfur ekki þótt í ljós hafi komið fyrir löngu að sköpunarsagan er ekki náttúrufræði heldur ljóð um tilgang lífsins og merkilega helgisiði. Nei, trúin þolir ágætlega að fólk segir skilið við manngerða trú og kirkjulegar stofnanir.

Lífsfestan sjálf

Hvað er þá trú? Trú er undur sem Guð kallar fram. Trú er aldrei til án Guðs. Trú lifir ekki án þess að tengjast Guði. Öll þau sem hafa verið upplýst af ljósi trúar fara að sjá veröldina sem mikinn veraldarvef sem er ofinn af Guði. Veröldin er samsett af efni og anda. Geimi og grösum er gefin skipan og lögmál sem trúin kennir við Guð. Hver maður er undur sem Guð gefur. Og einu gildir hvort viðkomandi þakkar Guði tilveru sína eða þykist vera aðeins af sjálfum sér og skýrir tilveru sína af efnisrökunum einum. Í öllu lífi glitrar fegurð, máttur og mikilleiki. Okkar er valið. Við getum sjálf ákveðið að sjá í undri veraldar aðeins tilviljun eða farið leið hinnar stóru nálgunar að nema undur nálægðar Guðs.

Trú er ekki yfirborðslegt fyrirbæri, yfirborðslegar skoðanir og allra síst forvísindaleg lífssýn. Trú er mun fremur það djúptækasta sem til er, lífsfestan sjálf. Það er eðlilegt að fólk hafni gamaldags trú. Guði er ekki þar með ógnað. Guð er dýpt lífsins, okkur nánari en maki, foreldrar eða börn. Guð er okkur nánari en vitund okkar og sjálfsskilningur. Guð er allt það sem skapar tilveru lífs og einstaklionga. Guð er hið hinsta viðmið hvort sem menn trúa Guði eða ekki. Trúarkenningar mega breytast því samfélag, skilningur fólks og viðmið hafa breyst. Og guðstengslin, trúartengslin þarf að skilja með nýjum hætti. Trúin er ekki að hverfa en er að breytast. Við sem trúarsamfélag megum opna fyrir róttækari skilning, breytta skynjun og dýpri nálgun. Það verkefni skynsemi okkar að endurtúlka og nýtúlka trú. Auk okkur trú er forn bón. Hún er líka ný því við megum opna allar gáttir, brjóta hlekki huga og anda og nema í öllu nánd Guðs og endurtúlka. Auk okkur trú og vinurinn Guð svarar.

Arineldur, ljós og hiti

Frá því á unglingsárum hef ég notið þess að kveikja upp og horfa í eld. Ég nýt þess að sitja við arinn eða kamínu, finna fyrir hitanum, skoða logana, njóta neistaflugsins og taka við öllum hugmyndunum sem kvikna í eldinum og skjótast síðan í kollinn. Arinn var í sumarbústað móðursystur minnar. Arnar voru í amerískum húsum sem ég var í á námsárunum vestra. Við nutum arinsins í Litlabæ á Grímsstaðaholti. Kamína var í sumarbústað sem við kona mín byggðum í Svarfaðardal og svo er kamína í kotinu okkar í Alviðru. Á liðnu ári breyttum við gasarni í viðararinn í húsinu okkar í Skerjafirði. Við Jón Kristján felldum svo tvö stór aspartré á síðasta ári, klufum viðinn og hlóðum upp til að þurrka til vetrar. Nú erum við eins og bændur sem þurfum að eiga til vetrarins og helst líka fyrningar. Ég stiklaði asparteinunga fyrir mörgum áratugum og feldi tvær aspanna og við njótum nú ljóss og hita. Ég kveiki upp reglulega og stundum fyrir hádegi þegar ég veit að ég á næðisstund fyrir djúp samtöl eða vingott við góða skáldsögu, ljóðabók eða djúpsækna guðfræði. Þetta er föstudagskveikjan í kvöld. Og við sátum fjölskyldan og töluðum um alvöru mál.

Það liðna er ekki draumur – Theodor Kallifatides

Ég hef lært gamla biblíugrísku og get lesið á götuskiltin í Grikklandi en ég skil ekki nútímagrísku. Ég hef lesið klassísk rit Grikkja og hef áhuga á fornaldarsögu þeirra en þekki lítið í nútímasöguna sem mig hefur langað til að skoða betur. En svo las ég bókina Það liðna er ekki draumur – nýþýdda bók Theodor Kallifatides. Hún varð mér persónuleg og heillandi túlkun á sögu Grikklands eftir seinni heimsstyrjöld.

Theodor Kallifatides var átta ára þegar körlunum í Molai, þorpinu hans á Pelópsskaga, var raðað upp svo herforinginn gæti valið úr þá sem fasistarnir ætluðu að drepa. Drengurinn slapp en lík hinna myrtu fundust ekki. Afi drengsins tók í hönd þess stutta, leiddi hann út úr þorpinu og sleppti ekki fyrr en þeir voru komnir alla leið til Aþenu. Frumbernskunni var lokið og lífið í borginu varð allt öðru vísi en í þorpinu, líf í skínandi efnislegri fátækt og mannhafi Aþenuborgar. Síðar gerði hann sér grein fyrir að hann átti sér enga framtíð í Grikklandi, kastaði svörtu steinunum bak við sig og tók lestina norður og alla leið til Stokkhólms. Þar hélt hann áfram námi, kvæntist, kenndi og skrifaði. Það var þriðji kaflinn og um hann er lítið fjallað í þessari bók, sem er um gríska sögu en ekki sænska.

Í bókinni segir Theodor Kallifatides frá uppvexti sínum, fjölskyldu, menntun, tengslum, áhrifum, vinum og óvinum, pólitík, bókmenntum, heimspeki, trú og menningarsögu. Við kynnumst átökum sem ríktu í grísku þjóðlífi eftir hernám Þjóðverja, andstæðum fylkingum í pólitík, ofbeldi, átökum og áhrifum á einstaklinga og fjölskyldur í Grikklandi. Við kynnumst líka menningarpólitíkinni. Með nærfærnum og yndislegum hætti lýsir hann móður sinni, föður og bræðrum, tengslum þeirra, persónum og viðbrögðum. Eftir fyrri heimstyrjöld voru Tyrklandsgrikkir, ein og hálf milljón, reknir frá heimahögum sínum í Litlu Asíu. Faðir Theodors var flæmdur frá Trabzon á Svartahafsströnd Tyrklands og lenti í Molai, fæðingarþorpi mömmu hans á Pelópsskaga. Þar varð hann kennari, kynntist konu sinni og varð hluti nýrrar fjölskyldu. Pabbinn var útlendingur eða aðkomumaður allt lífið. Það litaði líf hans og fjölskyldunnar og kannski sonarins líka. Heimilislífið var elskulegt þótt samfélagið væri yfirspennt. Með því að segja uppeldis- og fjölskyldusögu nær höfundur að lýsa grískri samfélagsþróun seinni hluta tuttugustu aldar. Ég vissi um hinar skelfilegu þjóðernishreinsanir Tyrkja á tuttugustu öld, vissi um fjöldann og dramatíkina en í þessari sögu fáum við innsýn í áhrif á flóttamennina og tilfinningu fyrir líðan þeirra. Það er eftirminnileg mynd sem Theodor Kallifatides segir af föður sínum, lífshlaupi hans og samspili elskandi foreldra.

Bókin er bersögul, hispurslaus og kímileg. Mamma höfundarins sagði honum að hún gæti aðeins lesið bækurnar hans á bak við hurð því í þeim væri svo mikið af kynlífi! En það er ekkert klúrt eða klént í þessari bók. Í henni segir höfundur frá áhrifum, einstaklingum, fólki, viðmælendum, spekingum, trú, tilfinningum, ástamálum, vonum og sorgum, efasemdum og átökum. Þetta er mannelsk bók, rit um blóðríkt og áhugavert fólk, rembingslaust rit um lífsbaráttu og leit að inntaksríku lífi í upplausn samfélags. Kallifatides greinir frá kynhlutverkum, hlutverkum fjölskyldu og tengslum foreldra og barna, hlutverkum skóla, stofnana og hreyfinga. Flæðið er eðlilegt og þrátt fyrir áföll og ágengar spurningar eru engir óþarfa reiðidómar felldir í garð fólks og stofnana. Lýsingarnar eru laðandi og jafnvel lyktin af mat gýs upp. Við lesturinn fann ég oft lykt af grísku tómatasalati og alvöru ólífuolíu. Á leiðinni til Stokkhólms kom Kallifitatides við á veitingahúsi og þar gerði landi hans sér grein fyrir að hann hlyti að vera Grikki – bara af tímíanlyktinni!

Hvenær er maður heimamaður og hvenær ekki? Hver er merking uppvaxtar og má skilja sögu og fjölskyldu með nýjum og skarpari hætti? Er minning einföld og rétt eða alltaf túlkuð? Hvað og jafnvel hvar er heima og er maður alltaf á leið til baka, heim? Getur grísk upphafssaga orðið til að skerpa sýn Íslendings á áttræðisaldri á eigin bernsku? Já. Aldraður fór Kallifatides til baka, skoðaði að nýju gil bernskunnar með myllum og fornri vatnsleiðslu. Hann vitjaði Aþenu og endurskoðaði sögu þjóðar sinnar, hugsaði um via Egnatia, tókst á við fordóma og hleypidóma, þorði að spyrja og líka vitja falskra minninga. Hann var lánssamur því hann hafði tækifæri til þess og hafði líka þjálfað hæfni sína og yddað vel blýantana sína þegar hann fór að skrifa minningarnar. Því er þessi saga hans glimrandi, skörp og áhrifarík.

Fjölskyldusögur og persónuuppgjör geta líka verið lykilsögur til að skýra fyrir utanaðkomandi inntak þróunar og þjóðfélagsbreytinga. Kallifatides fór frá Grikklandi því þar var honum allt lokað. Sonur kommúnistans var geislavirkur. En hann eignaðist nýtt líf í Svíþjóð. Hann var heimamaður í Grikklandi en eignaðist líka nýjan sjónarhól áhorfanda sem nýttist honum til að teikna skarpa mynd af sögu Grikkja og segja þroskasögu sjálfs sín og litríka fjölskyldusögu sem opnar inn og út. Ég er ákveðinn að lesa fleiri bækur hins evlalíska og vel skrifandi Kallifatides.

Þýðing Halls Páls Jónssonar er góð. Mér þótti þó miður að Gagnrýni hreinnar skynsemi I. Kants skyldi ruglað saman við Gagnrýni hagnýtrar skynsemi. Svo er óþarfi að Símeon súlubúi skyldi tilgreindur að sænskum hætti en ekki grískum eða íslenskum því svo oft hefur verið skrifað um karlinn á íslensku. Gera þarf kröfu um nákvæmni í frágangi staðreynda og slíkra tilvísana. Uppfletting á vefnum hefði nægt til að fyrirbyggja slíka skugga á annars vel unnu verki. Dimma er afbragðs forlag.

sáþ 14. jan. 2025

Himintungl yfir heimsins ystu brún – Jón Kalman Stefánsson

Við héldum suðræn bókajól, flugum til Sevilla skömmu fyrir hátíðina. Við tókum með okkur bunka af bókum en lítið af fötum. Við fórum svo suður til Cadiz og fengum í húsaskiptum lánað dásamlegt hús. Þar skiptumst við svo á að lesa bækurnar en létum föt hvers annars vera. Ég var sá þriðji á heimilinu að lesa hinmintunglbókina hans Jóns Kalmans. Tilhlökkunin óx því ég heyrði reglulega áhugaverðar upphrópanir: Þvílíkur texti; það ilmar af þessum blaðsíðum; snilld; skemmtileg efnistök. Ég byrjaði svo að lesa hina mögnuðu sögu um Pétur prest, Dórótheu, mannlíf og manndráp, menntun, lífsafstöðu, siðferði og siðklemmur fólks á Íslandi á 17. öld. Ég var sammála mínu fólki um bókargæðin. Í himingtunglbókinni eru engar klisjur eða þunnildi. Það eru engar menningarlegar grynningar heldur er sagan frábærlega skrifuð, um tengsl og manngildi, um rosamál fortíðar sem hafa augljósar skírskotanir til samtíma okkar, átaka og áfalla í samskiptum hópa og þjóða.

Persónusköpun bókarinnar er sterk. Prestar hafa gjarnan verið tuddar og hrottar í íslenskum bókum og kvikmyndum en Pétur prestur er góðmenni. Hann er glöggur og vel að sér, menntaður vinur orða, fræða og mannvinur. Hann skráir sögu eigin lífs, þjónustu, viðburða í héraði, landi og heimi, baráttu í starfi og líka í djúpum sálar. Jón Kalman uppteiknar gæskuríkan hæfileikamann sem reynir eftir megni að þjóna sem best mönnum og Guði, kirkju, yfirvöldum og lífinu. En þó klerkur sé klókur og vel meinandi er hann hrifnæmur og í texta Jóns Kalmans er enginn hörgull á hrífandi konum sem koma fyrir augu klerksins. Augu hans hvarfla til og hjartað fylgir. Jón Kalmann lýsir líka fleiri prestum og þeir spegla aðrar víddir og m.a. þjónkun við vald. Guðstrú bókarinnar er alls konar og trúarlífið þar með rétt eins og í nútímanum. Gott hjá Jóni Kalman.

Konurnar í bókinni eru sérlega áhugaverðar og ekki síðri en karlmyndirnar. Sterkust, litríkust og ásæknust er persóna Dórótheu bústýru á Meyjarhóli, prestssetrinu. Hún er eins og fjallkonan sjálf, lífströll elskunnar. Stórkostleg kona, réttnefnd guðsgjöf, og ein áhugaverðasta kvenímynd íslenskra bókmennta. Allar elskukonur og ástkonur Péturs eru ólíkar og litríkar, engar dúkkulísur heldur máttugar konur sem verða að hafa fyrir lífinu, lífsfyllingu og hamingju. Þær bregðast við verkefnum lífsins með ólíku móti. Annars ágæt kona Ara í Ögri beitir hótunum þegar veldi karls hennar er ógnað. Vald spillir og bókin er almennt valdgagnrýnin. Biskupsembætti er líka beitt í þágu samfélagsfriðar frekar en í þágu sannleika og manngildis. Karlmyndirnar eru fjölbreytilegar líka, valdsmennirnir eru ekki einsleitir heldur margreytilegir. Bændur eru líka mismunandi í afstöðu, þroska, siðferði og hegðun. Tuddarnir eru auðvitað þarna á ferð en líka góðmenni og lífgjafar. Mannlífið á Íslandi 17. aldar var engu litdaufara en samfélag okkar tíma. Húmor og mannúð stýrir penna Jóns Kalmans.

Sögusviðið er útnárasamfélag nærri hafísnum. En samfélag undir ystu brún fór ekki á mis við menningu, tískubylgjur eða fræðastrauma heimsins. Í lágum húsum voru stórmál rædd, fréttir af Galileó og sólmiðjukenningu voru til skoðunar í vetrarmyrkrinu. Bækur bárust ekki aðeins frá Kaupmannahöfn, heldur líka sunnan úr löndum. Grísk og rómversk klassík var endursögð og túlkuð á bæjunum. Alls konar tungumál hljómuðu og stærðfræðiþrautir af meginlandi Evrópu voru leystar af klókri konu í kokkhúsi á Ströndum. Útjálkabyggð var í góðum og skapandi tengslum við framvindu tímans. Það er því ekki einangrað samfélag heimskunnar sem Jón Kalmann lýsir heldur sprelllifandi, þyrstandi mannfélag eftir þekkingu, fræðslu, fegurð, siðviti og menntun. Vissulega voru til sjálfskipaðir eftirlitsmenn valds og rétthugsunar í samfélaginu sem reyndu að slaufa vaxtarbroddum lífs. En máttur orðs og framtíðar verður ekki haminn af dragbítum. Ritskoðun heimskunnar lýtur sannleika. En lærdómur kostar fórnir – ekkert er ókeypis. Mér þótti heillandi að njóta samfélagslýsingar Jóns Kalmanns, auðvitað stílfærðri en hrífandi og nærandi.

Mér þótti líka áhugavert hvernig Pétur prestur, viðmælendur hans sem og lærdómsmennirnir sem hann hafði samband við íhuguðu eðli hins ritaða máls, hvernig niðurritun breytir gangi lífs og sögu. Skráð saga gengur erinda sannleika. Baskarnir voru drepnir af kappi en ekki forsjá. En drápin voru skrásett og þar með varð von til að mennirnir nytu meiri réttar og sanngirni en annars hefði orðið ef allt hefði verið þaggað niður og valdsmennirnir hefðu fengið að ráða túlkun og skilgreiningu atburða. Sannleikur er ekki eign valdsins.

Hlutverk máls og ritunar er sérstakt og áberandi í þessari bók Jóns Kalmans og kitlar alla sem hafa áhuga á skilgreiningum menningar, hlutverki guðstrúar og áhrifum á siðvit og merkingarmótun  kerfa menningar. Ég var hugsi en mun ekki frekar skrifa um það mál að sinni en freistandi er að greina skrif Jóns Kalmans um orð og trú, gildi og Guð í þessari bók. Ein spurningin eða íhugunin er þessi: Er hægt að snúa merkingu þess að „orðið varð hold“ yfir í að skráning skapi líf? Sleppa öllu hinu yfirjarðneska og túlka svo að efnisgerningur skapi lífið? Er ritlist inntak guðstrúar og réttlætis? 

Við ræddum einstaka útfærslur og snúninga í flækju Jóns Kalmans í jólagóðviðrinu suður við Gíbraltarsund. Málfar bókarinnar er eðlilegt, vísar til eldri málheima en er ekki óþægilega fyrnskuskotið. Við ræddum um hinn meditatíva flæðistíl bókarinnar. Gekk hann upp þessi valhoppandi hugrenningastíll sem Pétur prestur notar, hvattur áfram af Dórótheu, bústýru sannleika og lífs? Flæðistíllinn hefur sína kosti og sjarma en fælir líka frá þau sem þarfnast skýrrar söguframvindu. Stíllinn gengur almennt upp en það eru hnökrar á honum. Og ýmsum smáatriðum hefði mátt sleppa í lokatexta. Mér sýnist að gagnrýninn yfirlesari hefði grisjað út t.d. óþarfa tímaskekkjur. En ég kvarta ekki yfir smælkinu og nefni ekki anakrónismana sem breyta ekki heildaráhrifum. 

Himintungl yfir heimsins ystu brún er magnað rit um lífsbaráttu og siðklemmur, áleitin bók um siðferði, pólitík, átök, ást, grimmd og samsekt. Ekki bara bók um 17. aldar viðburði heldur verkefni okkar sem nú lifum. Hvernig tökum við á móti útlendingum og flóttafólki sem vegna áfalla lenda á okkar strönd? Erum við einfeldningar valdsaðila og lélegs réttrúnaðar? Erum við jafnvel handbendi úrelts hugsunarháttar? 

Himintungl yfir heinmsins ystu brún er bókmenntaafrek ársins og ætti að veita bókmenntaverðlaunin ársins. Fimm stjörnu bók. 

Jón Kalman Stefánsson, Benedikt útgáfa, Reykjavík 2024, 358 blaðsíður.

 

Vitringar á mörkunum

Íslenskir fjölmiðlar, m.a. tvo dagblöð, höfðu einu sinni eftir Rowan Williams, sem þá var erkibiskup í Kantararborg, að biblíusagan um vitringana væri goðsaga. Mér þótti ótrúlegt að hann hefði notað það hugtak um þessa frásögu um  ferðalangana úr Austurvegi. Að mér læddist að blaðamennirnir hefðu ruglast á hugtökum. Ég þekki erkibiskupinn, sat marga fundi með honum og vissi því vel hve nákvæmur og hnífskarpur greinandi hann var. Forystumaður risakirkjusamfélags getur ekki leyft sér fræðilega lausung eða trúarlegan stráksskap. Ég fletti því upp í bresku pressunni á netinu og í ljós kom að erkibiskupinn hafði sagt, að þetta væri helgisögn, hann notaði orðið legend en ekki orðið myth sem merkir goðsaga og er allt annað bókmenntaform en helgisögn. Blaðamenn og íslenska pressan ruglaði hugtökum og fréttin varð því misvísandi, villandi og röng. 

Það skiptir máli hvernig við lesum. Við eigum að lesa bókmenntaformið rétt. Það skiptir t.d. öllu máli að gera sér grein fyrir að sköpunarsagan í Biblíunni er ljóð en ekki grein í alfræðiriti um þróun vetrarbrautarinnar. Goðsaga lýsir tilurð heimsins og yfirskilvitlegum verum, en legendur eru helgisögur á mörkum raunveruleikans, sögur um einstaklinga, sem gætu hafa verið til og um líf eða viðburði sem eiga jafnvel við eitthvað að styðjast í raunveruleikanum. Áhersla helgisögu er ekki á söguferlið sjálft eða ytra form atburðanna, heldur dýpri merkingu og táknmál. Þetta skiptir máli og svona saga tekur sér mynd í samræmi við inntak. Inntakið kallar á form til að ramma inn og miðla með merkingu. Svona sögur á ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega.

Vitringar?

Hvað vitum við um þessa spekinga? Hvað voru þeir margir? Hvaðan komu þeir? Hvað hétu þeir og hvað gerðu þeir? Hugsanlega ímyndum við okkur eitthvað um þá sem Biblían segir ekki og gerum okkur ranga mynd? Hvað voru vitringarnir margir? Vitringarnir hafa gjarnan verið þrír í sögum og á myndum og nefndir Baltasar, Melkíor og Rafael. En í guðspjallinu segir ekkert um fjöldann þó okkur finnist, að svo hafi verið. Í austrænni kristni eru þeir allt að tólf karlar. Ekkert er heldur í guðspjöllunum um nöfn þeirra. Eru þetta allt karlar? Það getum við ekki fullyrt heldur. Sú hnyttni hefur löngum gengið í kristninni að vitringarnir hljóti að hafa verið karlkyns því ef þetta hefðu verið konur hefðu þær byrjað á að fá sér almennilegar leiðbeiningar um hvar Jesú myndi fæðast, þær hefðu verið á staðnum á réttum tíma, þrifið húsið til að undirbúa fæðinguna, hitað vatn, hjálpað til og gefið barninu og foreldrunum eitthvað nothæft s.s. bleyjur, mat og föt en ekki fullkomlega ónothæft dót eins og gull, reykelsi og myrru!

Uppruni og eðli

Margar tilgátur eru um uppruna vitringanna. Um aldir hafa menn séð í þeim tákn mismunandi hluta hins þekkta heims. Ýmsar sögur hafa gengið: Einn þeirra átti að vera svartur og frá Eþíópíu, annar frá Indlandi og einn frá Austurlöndum fjær. Enn í dag er álit sumra kínverskra kristinna að vitringur frá Kína hafi vottað Jesú virðingu sína. Um þetta er ekkert vitað með vissu.

Þegar rýnt er í textann eru mennirnir nefndir á grískunni magus og í ft. magoi. Magusar gátu verið töframenn og af þessu orði er magic sprottið t.d. í ensku. Ef komumenn hefðu verið konungar hefðu þeir verið nefndir öðrum nöfnum. Líkast til ber að skilja söguna sem svo að komumenn, hversu margir sem þeir voru, hafi ekki átt að vísa til töframanna heldur svonefndra mágusa, presta í norðurhluta þess svæðis sem við köllum Íran í nútímanum. Þeir hafi verið kunnáttumenn í stjörnuspeki og lagt sig eftir táknmáli stjarnanna, hugsanlega af væng Zóróastrían-átrúnaðarins, sem var opinn gagnvart guðlegri innkomu eða birtingu.

Mattheus guðspjallamaður var ekki upptekinn af jólasögunni eins og við þekkjum hana úr Lúkasarguðspjalli, en segir hins vegar þessa vitringasögu. Og af hverju sagði hann hana? Í guðspjalli Matteusar er opnun, vitund um að kristnin eigi ekki aðeins erindi við lokaðan hóp Gyðinga heldur allan hinn þekkta heim manna. Guð velur ekki þröngt, heldur vítt. Guð er ekki smásmugulegur heldur stór. Guð er ekki bara einnar þjóðar Guð heldur allra manna. Guð lætur sig ekki aðeins varða einn átrúnað heldur allt líf, hugsun og veru allra. Það er áhersluatriðið og því er ekki einkennilegt að í þessu guðspjalli, sem býður að kristna allar þjóðir, skíra og kenna öllum, komi prestar við sögu utan úr heimi trúarbragðanna. Erindi vitringanna er m.a. að tjá opnun og alþjóðavæðingu hins trúarlega.

Kóngavæðingin

Táknleitandi hugsuðir aldanna hafa lesið í táknmálið og útvíkkað söguna. Þegar konungar fóru að trúa á Krist var ekkert einkennilegt að menn færu að telja að þessir vitru og góðu menn hefðu verið konungbornir, svona til að ítreka það að konungum væri ekki stætt á öðru en að lúta Jesúbarninu. Í ýmsum þýðingum Biblíunnar var gjarnan þýtt (t.d. í ýmsum enskum biblíuþýðingum), að vitringarnir hafi verið konungar, sem hafi fært konunglegar gjafir, en ekki aðeins (ein kenningin er að þetta hafi verið læknistæki eða lækningavörur) tákngjafir presta eða spekinga. Íslenska hómilíubókin segir berlega að þeir hafi verið Austurvegskonungar. En hins vegar þýddi Guðbrandur orðið magos sem vitringur í Guðbrandsbiblíu og þannig hefur verið þýtt allar götur síðan á 16. öld og vitringarnir eru vitringar í nýjustu Biblíuþýðingum.

Helgisagan og töfraraunsæið

Flestir halda, að vitringarnir hafi vitjað Jesú á fæðingarkvöldi í Betlehem af því þannig eru myndirnar og helgileikirnir. En helgisagan er sleip, ekkert er sagt í guðspjallinu um að þeir hafi vitjað Jesúbarnsins þegar það var nýfætt. Ekkert er sagt hvenær þeir komu heldur það eitt er sagt að þeir hafi opnað fjárhirslur sínar og gefið gjafir.

Hvað eigum við að gera við þessa skemmtilegu sögu og hvernig nýtist hún okkur? Það er gaman að segja hana og hún kitlar ímyndunaraflið. En sagan um vitringana er á mörkum raunveruleikans. Hún er vissulega helgisaga. Henni er ekki ætlað að tjá sögulega framvindu heldur merkingu eða inntak. Við leitum flest hins myndræna, dramatíska og sögulega fremur en skilgreininga, hugtaka og formlegrar framsetningar. Við notum sögur til að kenna börnum okkar góða siði, frekar en þylja yfir þeim siðfræðiformúlur. Við segjum smábörnum að diskurinn gráti og meiði sig ef hann dettur í stað þess að skýra hvað brotthætt merkir eða eðli þyngdarlögmálsins.

Birtingarhátíð, þrettándinn birtir hvað? Jú, að í Jesú Kristi opinberar Guð veru sína, kemur í krafti sínum, gerir þennan einstakling að farvegi hjálpar sinnar. Og af því að gagnvirkni er alltaf í guðsríkinu þá er hann leið okkar til himins, farvegur okkar til lífsins, og vettvangur og viðfang vona manna. Hvað eigum við að gera við helgisöguna um vitringana? Svarið er að við eigum að nota vitringana sem fyrirmyndir og íhuga og vitkast. Sagan tilheyrir áhrifasviði mannlífsins. Hún á sér líklega sögulega stoð. Engu skiptir þó hvort svo var eða ekki en þó hefur hún merkingu fyrir raunverulegt líf. Við þurfum ekki að trúa að vitringarnir hafi verið þrír eða tólf. Við þurfum ekki að vita hvort þeir voru frá Eþíópíu, Íran eða Kína. Við þurfum ekki að trúa þessari sögu frekar en við þurfum að trúa Hamlet eða Njálu. En helgisögur hafa merkingu eins og mikilvægar sögur mannkyns, sögur sem túlka mikilvægi og skilgreina lífsefnin.

Í Suður-Amerískum bókmenntum er stundum talað um töfraraunsæi. Bækur  Gabriel GarciaMarquez og Isabel Allende og ég vil bæta við Paulo Coelho líka, lifa á mörkum. Þessar bækur fjalla ekki aðeins um raunveruleikann heldur útvíkkaðan veruleika sem leyfir hið dásamlega, upphafna, undursamlega, teygir ímyndunaraflið og lífið svo að hægt er að opna fyrir viðbótarmerkingu sem síðan bætir lífsskilyrði. Legendur eiga að efla lífsgæði og hæfni fólks. Í þeim anda ættum við að lesa söguna um vitringana. Helgisögur á ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega.

Við mannfólkið erum ferðalangar á leið til fundar við barnið, til að mæta manninum Jesú. Okkar köllun er að gefa það sem okkur er mikilvægt, af okkur sjálfum, já okkur sjálf, og snúa síðan til okkar heima með reynslu af hinu stórkostlega í veganesti. Við erum frjáls að því að túlka þessa vitringa eftir okkar hætti, en tilvera þeirra er tilvera mín og þín. Þú ert í sporum eins þessara manna. Því þarftu ekki að trúa að þeir hafi verið þrír eða tólf. Fjöldi þessara vitringa getur verið allur fjöldi – allra manna á öllum öldum. Þín er vænst í hóp þeirra. Þú mátt vera þarna við hlið þeirra. Þegar þú íhugar sögu þeirra er endursköpuð þín eigin saga. Helgisaga er utan við lífið ef hún er skilin bókstaflega en eflir lífið ef hún fær að tjá merkingu. Þú verður einn af vitringunum þegar þú viðurkennir mikilvægi þess að lúta barninu, manninum, veruleika Jesú Krists. Þá verður lífið töfrandi.