Liðna áratugi hafa orðið djúptækar breytingar í menningu vestrænna samfélaga. Andúð á stofnunum hefur aukist, sérstaklega þeim sem eru svifaseinar gagnvart hraða samfélagsins, tæknibreytingum og samskiptaháttum. Þær liggja vel við höggi og greinar ríkisvaldsins eru þar með taldar. Gamlar menningarstofnanir hafa ekki sjálfkrafa gildi eða hlutverk fyrir fjöldann. Fólk sýnir svo afstöðu með fótum og puttum sem slá á takka og skjái og melda sig út. En stofnanir sem hreyfa sig hægt tapa stuðningi fólks sem er á fleygiferð.
Á árunum 2011 til 2015 var gerð rannsókn á trú og trúarviðhorfum ungs fólks í íslenskum framhaldsskólum. Liðlega níu hundruð ungmenna 18 og eldri voru spurð um hvaða afstöðu þau hefðu til mála og álitaefna sem varða trú, aukinn fjölbreytileika lífsskoðana í samfélaginu og gildi átrúnaðar. Niðurstaðan var að meirihlutinn taldi að trú væri ekki samfélagslega mikilvæg og hefði ekki mikla þýðingu fyrir þau persónulega. Er trúin að hverfa? Eða er hún kannski að breytast í íslensku samfélagi? Ég held að svo sé. En breytingar í íslenskum kirkjumálum er eitt og annað staða kristni í veröldinni. Kristnum mönnum fjölgar í heiminum og trúin lifir þvert á trú þeirra sem halda að trúin sé að hverfa.
Trú á breytingaskeiði?
Hvað er trú? Fólk hefur ólíkar hugmyndir um eðli hennar og hlutverk. Sumir telja í einfeldni sinni að trú sé forvísindalegar hugmyndir um líf, vísindi og veröldina og því sé trúin dæmd til að gufa upp í ljóma nýrrar þekkingar. Það er röng túlkun. Sum sem hafa litla dýptarsýn telja að hún sé grunnfærin bókstafstrú. Trúað fólk sé þröngsýnislið. En slík túlkun á trú getur átt við um ofbeldishópa af ISIS-taginu en ekki eiginlega trú. Síðan eru þau sem telja að trú sé einhvers konar rétttrúnaður af sannfæringartaginu.
En trúað fólk sér sig ekki í þessum nálgunum. Þetta eru afbakanir, smættanir sem byrja á röngum stað og ná aldrei aðalatriðinu. Svona einfaldanir byrja allar með því að einblína á fólk og hið smáa, hvernig menn bindi sig á einhvern klafa hugmynda, samfélagsafstöðu eða heimafenginnar speki. En trú er allt annað og mun róttækara fyrirbæri. Trú er dýpri og stærri. Trú er ekki fasteign eða staða sem menn ávinna sér með því að vera meðlimir í kirkjudeild eða stofnun. Trú finnur sér vissulega farveg í kirkjum og samfélagi en lifir þó breytingar verði í þjóðfélagi og menningu. Trú er ekki háð kirkjustofnunum en kirkjur eru háðar trú. Er þá trúin ekki á útleið? Nei. Þó þjóðfélag og stofnanir breytist hverfur trúin ekki heldur aðeins hugmyndir fólks. Trú getur blómstrað þótt kirkja tapi öllum meðlimum sínum og hverfi. Heilbrigð gagnrýni og aukin þekking grisjar burt úreltar hugmyndir um heim, fólk og líka trúarkenningar. En trúin hverfur ekki þótt í ljós hafi komið fyrir löngu að sköpunarsagan er ekki náttúrufræði heldur ljóð um tilgang lífsins og merkilega helgisiði. Nei, trúin þolir ágætlega að fólk segir skilið við manngerða trú og kirkjulegar stofnanir.
Lífsfestan sjálf
Hvað er þá trú? Trú er undur sem Guð kallar fram. Trú er aldrei til án Guðs. Trú lifir ekki án þess að tengjast Guði. Öll þau sem hafa verið upplýst af ljósi trúar fara að sjá veröldina sem mikinn veraldarvef sem er ofinn af Guði. Veröldin er samsett af efni og anda. Geimi og grösum er gefin skipan og lögmál sem trúin kennir við Guð. Hver maður er undur sem Guð gefur. Og einu gildir hvort viðkomandi þakkar Guði tilveru sína eða þykist vera aðeins af sjálfum sér og skýrir tilveru sína af efnisrökunum einum. Í öllu lífi glitrar fegurð, máttur og mikilleiki. Okkar er valið. Við getum sjálf ákveðið að sjá í undri veraldar aðeins tilviljun eða farið leið hinnar stóru nálgunar að nema undur nálægðar Guðs.
Trú er ekki yfirborðslegt fyrirbæri, yfirborðslegar skoðanir og allra síst forvísindaleg lífssýn. Trú er mun fremur það djúptækasta sem til er, lífsfestan sjálf. Það er eðlilegt að fólk hafni gamaldags trú. Guði er ekki þar með ógnað. Guð er dýpt lífsins, okkur nánari en maki, foreldrar eða börn. Guð er okkur nánari en vitund okkar og sjálfsskilningur. Guð er allt það sem skapar tilveru lífs og einstaklionga. Guð er hið hinsta viðmið hvort sem menn trúa Guði eða ekki. Trúarkenningar mega breytast því samfélag, skilningur fólks og viðmið hafa breyst. Og guðstengslin, trúartengslin þarf að skilja með nýjum hætti. Trúin er ekki að hverfa en er að breytast. Við sem trúarsamfélag megum opna fyrir róttækari skilning, breytta skynjun og dýpri nálgun. Það verkefni skynsemi okkar að endurtúlka og nýtúlka trú. Auk okkur trú er forn bón. Hún er líka ný því við megum opna allar gáttir, brjóta hlekki huga og anda og nema í öllu nánd Guðs og endurtúlka. Auk okkur trú og vinurinn Guð svarar.