Hvernig var að alast upp í Kína eftir að Maó komst til valda? Hvernig var líf venjulegs fólks? Hvað gerðist í þorpunum? Hvernig var skipulag aldanna endurstokkað og siðum riðlað með stjórnmálalegum breytingum? Hvað gerði fólk við trú sína? Hversu djúpt ristu breytingarnar út í héruðunum? Hvernig voru fulltrúar kommúnismans og hvernig var tekið á skoðunum fólks sem voru alls konar?
Uppvaxtarsaga Xiaolu Guo, Einu sinni var í austri, er eiginlega saga Kína síðustu áratugina. Xiaolu fæddist árið 1973. Mamman var í baráttusveit kommúnismans og pabbinn listamaður. Og þar sem Xiaolu var óvelkomið annað barn var hún gefin til fátækra barnlausra bændahjóna. En lífsbarátta þeirra var það hörð að þau gátu ekki séð sér farborða. Í stað þess að bera stúlkuna út fóru þau með hana til föðurforeldra Xiaolu. Afinn og amman bjuggu í sjávarþorpi og þar ólst hún upp fyrstu árin. Afinn drakk, barði ömmuna og var á skjön við samfélagið og tímann. Amman grét, eldaði, fór með sútrurnar sínar og reyndi að verja barnið í hörðum heimi.
Bókin lýsir vel litríkum en erfiðum uppvaxtaraðstæðum. Xiaolu gekk ekki í skóla, en varð snjöll í skóla lífsins þar sem þau náðu lengst sem voru útsjónarsömust. Afinn gafst upp og fargaði sér með því að hella skordýraeitri í búsið sitt. Og þá var komið að því að taka ákvörðun um framtíð stúlkubarnsins. Blóðforeldrarnir komu og náðu í dóttur sína. En þær náðu aldrei neinum tilfinningatakti blóðmóðirin og dóttirin. Meir pabbinn, þó fjarlægur væri flestum, var nær dóttur sinni. Við tók líf í bæ, sem var að breytast úr landbúnaðarþorpi í iðnaðarstórborg.
Xiaolu lifði af í menningarflaumi, námi, kynferðisofbeldi, heimiliskulda, fóstureyðingu, einsemd og eftirsjá. Hún átti í sér persónukjölfestu og einurð, sem fleytti henni alltaf áfram. Svo tók hún ákvörðun um að læra kvikmyndagerð. Og keppti við þúsundir um örfáar námsstöður í kvikmyndaskóla ríkisins. Eftir mikla dramatík komst hún inn og þá lauk bernskunni. Nýtt skeið í lífi Xiaolu Guo hófst í fjölbreytni menningarlífs borgarinnar og áhrifin að vestan heilluðu. Þar á eftir voru svo starfsár hennar í Kína og Englandi, sem er seinni hluti bókarinnar. Sú blóðríka saga verður ekki rakin hér. Það er sagan um austrið í vestrinu.
Einu sinni var í austri er listilega vel skrifuð bók. Hún er laðandi lestrargripur. Bókin gefur innsýn í menningarbreytingar í Kína, veitir skilning á fjölbreytileika mannlífsins, mismunandi þörfum mismunandi héraða, kjörum og kjarabreytingum, áhrifum að utan á kínverska menningu og hópa, vinnubreytingar og baráttu einstaklinganna innan sinna menningarkima. Þessi persónusaga gefur fréttum um Kína mennska ásjónu. Og það er kona sem segir þessa sögu Kína, gefur innsýn í kjör og aðstæður kvenna sem karla, baráttu þeirra, tilfinningar og aðstæður sem voru alls konar. Þessi kvennavinkill gefur sjónarhól að lífi fólks og kjörum þess. Saga um ást og ástleysi, frelsi og ófrelsi, samskipti og einsemd, áföll, von og sigra. Sagan er sögð af djúpum heilindum og einurð, ást og hugrekki sem ekki hvikar þrátt fyrir sviftingar og ægileg áföll.
Frábær, læsileg og hrífandi bók um lífsbaráttu í Kína á hraðbraut breytinganna. Og bók um að allt er fólki fært, sem tekur stefnu. Jafnvel stórveldið Kína kremur ekki vilja til lífs og frelsis. Fjórar og hálf stjarna af fimm.
Ingunn Snædal þýddi og gerði afar vel. Ég rakst aðeins á tvo frágangshnökra í allri bókinni. Bókaútgáfan Angústúra gefur út. Lof sé útgáfunni, sem hefur metnað að gefa út frábærar bækur um efni utan vestræns samhengis. Angústúra er að verða nútímaútgáfa menningarsjóðs, færir okkur heimsbókmenntirnar heim í hlað. Fimm stjörnur til Angústúru. Og dásamlegt er að njóta sumarfrís líka með því að lesa miklar bækur.