Greinasafn fyrir merki: vopnað rán

Sjoppuránið í Nashville – K&M

Ég varð einu sinni vitni að vopnuðu ráni í sjoppu í borginni Nashville í Bandaríkjunum. Ég hafði farið á föstudagskvöldi til að kaupa nauðþurftir fyrir sambýlinga mína. Þegar grímuklæddur byssumaður hentist inn um sjoppudyrnar var ég eini viðskiptavinurinn í búðinni. Allt gerðist ofurhratt. Ég átti bágt með að trúa eigin augum og eyrum. Ránsmaðurinn var æstur og augnaráðið tryllingslegt. Hendur hans titruðu og skjálfandi byssan voru tákn þess að maðurinn væri til alls líklegur. Afgreiðslumaðurinn tók fyrir hjartað og staulaðist að peningakassanum. Hann gerði sig líklegan að afhenda grænt dollarabúnt. Allt í einu beindi ræninginn byssunni að mér. Mér fannst hlaupið svo stórt að það minnti helst á haglabyssuhlaup. Svo heyrði ég hann öskra: „Leggstu á gólfið með andlitið niður.“ Ég lyppaðist niður. Það var mun verra að geta ekki séð neitt eða fylgst með framvindunni. Ég vissi ekki hvort maðurinn væri líklegur til að lóga okkur afgreiðslumanninum eða hvort þetta væri þjófur sem vildi valda sem minnstum usla en ná sem mestu fé. Af því ég sá ekkert bjóst ég við hinu versta. Ég fékk sting í aftanverðan hálsinn og hnakka eins og kúla færi brátt í gegnum höfuð mitt. Ræninginn fékk féð og hljóp út. Ég staulaðist á fætur og fór að stumra yfir afgreiðslumanninum sem var enn með sáran brjóstverk og ofsahræddur. Þá sá ég að hann hafði verið með skammbyssu í afgreiðsluborðinu og skildi að hann hafði verið í spennu hvort hann ætti að grípa hana og skjóta. Ránið settist að í mér og þegar ég minnist þess finn ég enn fyrir verknum í hnakkanum og óttanum.

Skömmu síðar sá ég í kvöldfréttum sjónvarpsstöðvar í Nashville að rán hefði verið framið um kvöldið og svo var sýnt frá sjoppunni okkar hinum megin götunnar. Ég fór að glugganum og sá að maður lá á gangstéttinni. Afgreiðslumaðurinn hafði náð að ýta á öryggishnapp og lögreglan kom strax. Ránsmaðurinn féll í skotbardaga. Ég stóð við gluggann og spurði mig hvort þetta væri sá sami.

Ég var að skoða gamlar filmur frá skólaveru minni vestra og sá þá mynd af framhlið sjoppurnar. Ég umbreytti negatívunni og skoðaði myndina. Atburðurinn rifjaðist upp og verkurinn kom í hnakkann. 

Minning frá skólaárum í Nashville, TN, BNA