Ekki aðeins mönnum þykir gott að elska heldur Guði líka! Í kirkjuræðum mínum hef ég hef gjarnan talað um guðsástina og ástina í veröldinni. Guðsástin er inntakið í gleðiboðskap Jesú Krists og þar með kristninnar. Lífið lifir vegna þess að Guð elskar. Sá boðskapur á alltaf erindi og svo sannarlega líka á þessum spennu- og stríðstímum.
Síðustu áratugi hef ég flutt um eitt þúsund hugleiðingar í helgistundum og sunnudagsprédikanir í kirkju. Úr þessu safni valdi ég 78 ræður í bók fyrir helgidaga ársins. Ritið nefnist Ástin, trú og tilgangur lífsins. Í því er fjallað um þrá fólks og tilfinningar, náttúruna, menningu, tilgang, sjálfsskilning, trú og efa, Guð og ástina í lífinu.
Forlagsþrenningin Bjartur-Veröld-Fagurskinna, sem Pétur Már Ólafsson stýrir, gefur postilluna út af þakkarverðum metnaði. Útgáfuhátíð verður í Neskirkju laugardaginn 11. nóvember og hefst kl. 16 með örþingi í kirkjunni um ritið og prédikun presta í kirkju. Kl. 17-19 verður síðan útgáfuhóf í safnaðarheimilinu og allir eru velkomnir.
Á örþinginu tala þessi: Elín Sigrún Jónsdóttir, Sigurþór Heimisson, Elínborg Sturludóttir, Sigurvin Jónsson, Rúnar Vilhjálmsson, Irma Sjöfn Óskarsdóttir og Ragnar Helgi Ólafsson. Þingstjóri: Vilhelm Anton Jónsson.
Ræðusöfn presta hafa gjarnan verið kallaðar postillur og af því ástin er leiðarstef ræðusafns míns hafa vinir mínir gjarnan talað um ástarpostillu. Það er lýsandi og hnyttin nefning og var lengi vinnuheiti ræðusafnsins. Ragnar Helgi Ólafsson, rithöfundur og grafískur hönnuður, bjó ritið til prentunar. Hönnun hans er í anda bókagerðar stórbóka bókaútgáfunnar Helgafells fyrir hálfri öld. Hallgrímskirkja styður útgáfuna og ég er afar þakklátur sóknarnefnd fyrir. Stuðningurinn tryggði að hægt væri að fá listamann til bókarhönnunar og vanda allan frágang. Elín Sigrún Jónsdóttir hlustaði á allar ræðurnar. Hún er ástkona mín og ást má líka tjá og iðka í samtali um trú og Guð. Halldór Reynisson las yfir handritið og gerði þarfar athugasemdir. Áslaug Jóna Marinósdóttir var öflugur málfarsráðunautur og prófarkalesari. Ég þakka þeim alúð og metnað fyrir mína hönd. Þá þakka ég samstarfsfólki og öllum þeim sem tekið hafa þátt í helgihaldi þeirra kirkna og safnaða sem ég hef þjónað. Tilheyrendur mínir hafa svo sannarlega brugðist við boðskap prédikananna og erindi, rætt um álitaefni, mótmælt sumu, samsinnt öðru og stundum krafist birtingar á vefnum. Prédikun er jú ekki einræða heldur þáttur í löngu samtali margra, ekki verk eins prests heldur samverk anda og samfélags.
Hvernig á svo að nota þessa ástarpostillu? Á kynningarborða sem fylgir útgáfunni segir: „Ég hef gaman af því að elda mat en ég nota aldrei allt kryddið í kryddhillunni í einn rétt. Þessi bók er eins og kryddsafn. Best er að nota hana oft, í smærri skömmtum eða eftir þörfum. Tilgangur hennar er að krydda lífið og næra ástina.“