Greinasafn fyrir merki: vígsluafmæli

Til hvers Grímseyjarkirkja, Hallgrímskirkja og … ?

Til hvers kirkja? Er þörf fyrir kirkju? Það er vissulega hægt að ná sambandi við Guð í fjallgöngu, við eldhúsborðið, í búðinni eða bílnum. En trú er ekki bara einstaklingsmál. Trú er stór og alltaf samfélagsmál. Kirkjuhús eru hús til að taka á móti fólki sem leitar hins heilaga, vill syngja lífssöngva, kyrra huga, nærast andlega og leyfa öllu því sem er hið innra að tengjast því djúpa, háleita, stórkostlega, tíma og eilífð – Guði. Kirkja er hverju samfélagi nauðsyn, ekki aðeins til að vera vettvangur um stóratburði lífsins, kveðja látna ástvini og félaga heldur eru kirkjur líka tákn um að nærsamfélagið lifir. Kirkjur eru lífstákn hverrar byggðar. Þegar kirkja brennur, fýkur eða skaddast er það áfall. Kirkjubruninn í Grímsey í september var skelfilegur og varðaði ekki bara Grímseyinga heldur þjóðina, okkur öll. Það var undursamlegt að fylgjast með viðbrögðum landa okkar eftir brunann, hve samúðin var rík og hve margir tjáðu vilja til að styrkja Grímseyinga. Og nú á að byggja. Er það ráðlegt, mikilvægt, gerlegt eða jafnvel þjóðhagslega hagkvæmt?

Til að svara slíkri spurningu er þarft að skoða sögu Hallgrímskirkju. Margir lögðust gegn byggingu kirkjunnar á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar. En hópur hugsjónafólks ákvað að byggja. Sigurbjörn Einarsson messaði á Holtinu og hvatti til framkvæmda. Ekki vantaði úrtölufólkið en kraftmiklir ofurhugar létu ekki stoppa sig. Miðað við fátækt safnaðar og kostnaðaráætlanir var fáránlegt að láta sig dreyma um svona stóra byggingu. Byggingaráform Hallgrímskirkju þóttu órar. Þegar fyrsta skóflustungan var tekin á köldum desemberdegi árið 1945 var ekki einn einasti fjölmiðlamaður við þann merka atburð og hvergi var frá honum sagt. En kvenfélag Hallgrímskirkju lét sig það litlu varða og bakaði með gleði upp kapellu og turn stórkirkjunnar.

Trú er alltaf stærri en hræddar peningasálir. „Við skulum fara til og byggja“ var prédikað á Skólavörðuholti. Ofurhugar Íslands heyrðu og við stöndum í þakkarskuld við þá. Þeir voru frumkvöðlar, sem eru okkur skínandi fyrirmyndir um að þora að hugsa stórt, þora að framkvæma og halda því fram sem mestu máli skiptir fyrir heilbrigði einstaklinga og samfélags. Milli bragganna í Skipton Camp á Skólavörðuholti var kapellan svo vígð Guði þann 5. desember árið 1948. Svo var haldið áfram. Fjöldi iðnaðarmanna hafði atvinnu og lifibrauð af byggingu guðshússins í áratugi. Og þeir unnu kraftaverk og kirkjan var vígð 26. október 1986. Hún á því 35 ára vígsluafmæli nú. Síðan hafa tugir milljóna hafa komið í þetta guðshús.

Grímseyjarkirkja

Kirkja er samfélagi nauðsyn. En er ástæða til að byggja kirkju í Grímsey? Já, þar sem er fólk þarf kirkja að vera, lifandi vettvangur um dýpstu mál lífsins, bestu söngva veraldar og staður til að tjá það sem skiptir máli. Hallgrímskirkjufólk veit hversu mikilvægt var að fá stuðning í framkvæmdum. Og það eru mörg sem stutt hafa kirkjubygginguna, kirkjustarfið, kirkjulistina og fólkið sem hér hefur starfað. Og af því við vitum að ofurhugar þurfa stuðning hefur sóknarnefnd Hallgrímskirkju ákveðið að fjóra sunnudaga í röð munum við í þessari kirkju safna fé til kirkjubyggingar í Grímsey. Fjármunir koma frá þeim sem koma í messu í kirkjunni en að auki hefur sóknarnefnd líka ákveðið að leggja fjármuni úr styrktarsjóði kirkjunnar á móti messusamskotum. Við viljum styðja kirkjubyggingu í Grímsey því kirkja er nauðsyn. Svo tengjumst við Grímseyjarkirkju með ýmsum hætti. Kirkjuvörður og sóknarnefndarmaður í Hallgrímskirkju er t.d. sonur Einars Einarssonar djákna í Grímsey, þess oddhaga kirkjumanns sem vígðist til þjónustu í Grímsey. Fonturinn sem hann gerði brann í kirkjubrunanum. Þegar áföll verða getur endurnýjun hafist. Kirkja er lífsmark, tákn, vettvangur og í Grímsey þarf meira en heimskautsbaut og höfn. Grímsey þarf helgistað, guðshús fyrir fólk. Förum til að byggja var sagt á Skólavörðuholti og svo varð. Förum til að byggja í Grímsey – og svo mun verða.

Bæn og kraftaverk

Í guðspjalli dagsins segir Jesús merkilega sögu. Um konu sem hafði í sér einurð, einbeittni og þor. Hún hafði verið órétti beitt og vildi ekki láta ofbeldið eða óréttinn sigra. Konan ætlaðist til að réttarkerfið virkaði, dómarinn sinnti starfi sínu og mál væru réttilega dæmd skv. lögum og góðri stjórnsýslu. Og hún bað, talaði og hikaði ekki. Hún var n.k. spámaður metoo í fornöld. Þegar þolandi víkur ekki heldur höfðar til sannleika og réttar falla álögin. Jesús Kristur stóð alltaf með lífinu og sagði þessa sögu af konunni sem þorði, vildi og gat. Einbeitni í lífinu skiptir máli. Staðfestan skilar að festurnar losna. Sögumaðurinn Jesús notaði dæmið til að minna á guðsdýrkun og hið mikilvæga að biðja. Í lífinu þörfnumst við þess að tengja við djúp sjálfs okkar, við dýptir lífsins, réttinn og elskuna. Jesús sagði þessa sögu til að minna á að tengja við Guð sem aldrei verður þreyttur á okkur mannfólkinu. Guð heyrir, hlustar, þyrstir að við ræðum um mál okkar, gleðimál og sorgarefni – að við biðjum. Og þegar við hegðum okkur eins og konan sem vildi, þorði og gat gerast kraftaverk. Bæn er ekki að tala við sjálfan sig eða upp í vindinn. Bæn er öflugasta tjáning heims sem jarð- og himintengir, eyðir álögum, sektarkennd, órétti og býr til sátt og leggur grunn að friði. Þess vegna eru kirkjur tengistöðvar. Þeim er ætlað að vera kraftstöðvar fyrir gott og gjöfult líf.

Til hvers kirkja? 

Vestræn samfélög eru að breytast og hið íslenska einnig. En er trú að hverfa? Nei. Guð hættir ekki að vera til þó samfélög þróist. Þrá í grunni mennskunnar hverfur ekki. En formgerðir og stofnanir breytast í rás tímans. Greina verður að stofnanir og mannlíf. Það eru gamlar kirkjustofnanir fremur en kristni sem eru á skilorði samfélagsins. Það merkir ekki að kirkjuskipulag sé ónauðsynlegt – heldur að kirkja sé að endurnýjast. Stofnanir brenna og hverfa en Guð kallar alltaf með nýjum hætti á hverri tíð. Eðli trúar er að lifa í minningu sögunnar en líka í hverri nútíð guðskallsins og þora að ganga til móts við opna framtíð. Ef við bara snúum til fortíðar, lifum í fortíð, munum við ekki verða vör við að Jesús hefur staðið upp og kallað til lífs og starfa.

Hvaða hlutverki gegnir þessi 35 ára Hallgrímskirkja? Hún er guðshús. Hún er falleg. Fjölmiðlar heimsins hafa líka lyft henni í hæðir topplistanna. Árið 2015 valdi Architectural Digest Magazine Hallgrímskirkju sem eina af tuttugu fegurstu trúarbyggingum heims. En helgirýmið laðar og hvetur til íhugunar. Alla daga er hópur fólks biðjandi í kirkjuskipinu. 2016 útnefndi the Guardian kirkjuna sem eina af tíu mikilvægustu íhugunarhúsum heims. Ferðavefurinn Big Seven Tra­vel birt­ir ár­lega lista yfir fimm­tíu fallegustu bygg­ing­ar heims. Listi þessa árs, 2021, hefur verið birtur og Hall­gríms­kirkja er í 38. sæti á þeimn list­a. 127 þúsund ferðamenn tóku þátt í að raða á list­ann. Ekkert annað hús á Norðurlöndunum komst inn á hann. Sem sé Hallgrímskirkja er samkvæmt þessum lista fegursta hús Norðurlanda. Mörgum þykir óperuhúsið í Sydney fagurt en Hallgrímskirkju er þó raðað ofar!

Hallgrímskirkja er sóknarkirkja og líka þjóðarhelgidómur. Hún er áfangi ferðalanga, pílagrímastaður. Kirkjan hefur orðið mörgum hlið himins og margir segjast hafa náð að tengja við uppsprettur lífsins, sjálft sig og verðandi tímans. Alla daga sækir fólk í þetta hlið himins til að tengja við djúpið. Í kirkjunni er gott að íhuga, gott samband. Það sem er mikilvægast er að kirkjan er hús Guðs. Hún er ekki utan þjónustusvæðis. Hún þjónar því hlutverki að vera tengill Guðs og manna. Hún er guðshús eins og Hallgrímur Pétursson nefndi kirkju. Guðshús er bænahús fyrir fólk og líf. Þannig eru allar kirkjur landsins. Hús fyrir bænir og Guð heyrir.

Hallgrímskirkja 24. október 2021. 21. sunnudagur eftir þrenningarhátíð, 35 ára vígsluafmæli Hallgrímskirkju, 347. ártíð Hallgríms Péturssonar. Fyrsta messa hins nýja Kórs Hallgrímskirkju undir stjórn Steinars Loga Helgasonar. Meðfylgjandi mynd tók ég frá þriðju hæð Háskóla Íslands undir morgun síðla vetrar 1982. Sperrur komnar í kirkjuskipinu en ekki fokhellt. 

Lexía: 2Mós 23.1-9
Þú skalt ekki breiða út róg. Þú skalt ekki leggja þeim lið sem fer með rangt mál með því að bera ljúgvitni. Þú skalt ekki fylgja meirihlutanum til illra verka. Þú skalt ekki vitna gegn andstæðingi í neinni sök þannig að þú fylgir meirihlutanum og hallir réttu máli. Þú skalt ekki draga taum fátæks manns í málaferlum. Rekist þú á villuráfandi naut eða asna óvinar þíns skaltu færa honum skepnuna aftur. Sjáir þú asna andstæðings þíns liggja uppgefinn undir byrðinni skaltu ekki láta hann afskiptalausan heldur rétta honum hjálparhönd. Þú skalt ekki halla rétti fátæks manns sem hjá þér er þegar hann á í málaferlum. Forðastu mál byggð á lygi og vertu ekki valdur að dauða saklauss manns og réttláts því að ég dæmi ekki sekan mann saklausan. Þú skalt ekki þiggja mútur því að mútur blinda sjáandi menn og rugla málum þeirra sem hafa rétt fyrir sér. Þú skalt ekki beita aðkomumann ofríki. Þið farið nærri um líðan aðkomumannsins því að þið voruð aðkomumenn í Egyptalandi

Pistill: Kól 2.2-7
Mig langar að allir uppörvist í hjörtum sínum, sameinist í kærleika og öðlist fulla sannfæringu og innsýn og geti gjörþekkt leyndardóm Guðs sem er Kristur. En í honum eru allir fjársjóðir spekinnar og þekkingarinnar fólgnir. Þetta segi ég til þess að enginn blekki ykkur með fagurgala. Ég er hjá ykkur í andanum þótt ég sé líkamlega fjarlægur og horfi með fögnuði á góða skipan hjá ykkur og festu ykkar í trúnni á Krist. Þið hafið tekið á móti Kristi, Drottni Jesú. Lifið því í honum. Verið rótfest í honum og byggð á honum, staðföst í trúnni, eins og ykkur hefur verið kennt, og auðug að þakklátsemi.

Guðspjall: Lúk 18.1-8
Þá sagði Jesús þeim dæmisögu um það hvernig þeir skyldu stöðugt biðja og eigi þreytast: „Í borg einni var dómari sem hvorki óttaðist Guð né skeytti um nokkurn mann. Í sömu borg var ekkja sem kom einlægt til hans og sagði: Lát þú mig ná rétti á mótstöðumanni mínum. Það vildi hann ekki lengi vel. En að lokum sagði hann við sjálfan sig: Ekki óttast ég Guð að sönnu né skeyti um nokkurn mann. En þessi ekkja lætur mig aldrei í friði. Því vil ég rétta hlut hennar áður en hún gerir út af við mig með nauði sínu.“ Og Drottinn mælti: „Heyrið hvað rangláti dómarinn segir. Mun Guð þá ekki rétta hlut sinna útvöldu sem hrópa til hans dag og nótt? Mun hann draga að hjálpa þeim? Ég segi yður: Hann mun skjótt rétta hlut þeirra. En mun Mannssonurinn finna trúna á jörðu þegar hann kemur?“