Greinasafn fyrir merki: veira

Möguleikarnir í plágunni

Ég á vinkonu sem slasaðist í bílslysi. Hún lamaðist neðan mittis og kemst ekki um nema í hjólastól. Eftir slysið hugsaði hún um hvernig lífið yrði eftir slys. Hún gerði sér grein fyrir að kostirnir væru tveir. Hún gæti valið að hafa hjólastólinn allaf fyrir framan sig og þar meða láta hann stöðugt hindra sig. En svo væri hinn kosturinn. Hún gæti tekið ákvörðun um að hafa stólinn tilfinningalega og vitsmunalega aftan við sig. Og hún valdi seinni kostinn. Hún hefur svo sannarlega lifað ríkulegu lífi, ferðast mikið alla æfi og lifað mikil æfintýri. Við erum í sömu stöðu og vinkona mín var. Hvort látum við vanda og erfiðleika fylla tilveru okkar eða lítum á hvert mál sem viðfangsefni til eflingar? Getum við brugðist við plágum og kreppum sem viðfangsefnum til að læra af og eflast? Vinkona mín brást við með skapandi hætti.

Covid-veiran fer um heiminn og kerfi mannanna brenglast. Nú hefur verið sett á vítækt samkomubann á Íslandi og mun hafa mikil áhrif á líf okkar. Tilgangurinn er skýr og góður. Reynt er að verja þau, sem eru með einhverja sjúkdóma sem veikla viðnám gegn veikindum. Við erum öll kölluð til ábyrgðar og að standa saman og þétta raðirnar í þessari merkilegu iðju að búa til net kærleika og umhyggju. Við endurskipuleggjum vinnu, heimilislíf og samfélag okkar og tökum tillit til ólíkra þarfa fólks. En á þessum aðkreppta tíma erum við líka hvött til að njóta sem mestra gæða í einkalífi okkar. Covid er ekki skemmtilegur ferðafélagi, en er þó á milli okkar og á ferðinni. En við viljum hann ekki, viljum hann út úr mannfélaginu, en til þess að svo verði þurfum við að standa saman. Hvað langar okkur til og hvernig líf viljum við?

Líðan?

Hvernig líður þér í þessum undarlegu aðstæðum þegar stjórnvöld banna okkur að halda stórar samkomur? Hvernig líður þér ef þú hefur skert þol gagnvart pestum og ef ónæmiskerfi þitt er veiklað? Hvernig líður þér, ef þú mátt ekki fara á fundina, sem þér þykir svo gaman að sækja? Hvað getur þú gert? Eru einhver tækifæri í stöðunni og í þessum aðstæðum? Getur þetta orðið inntaksríkur tími í stað þess að vera tími corona-kvíða?

Viðbrögð

Við ráðum ekki öllu því, sem gerist í lífi okkar. Áföll verða, en við getum hins vegar alltaf ákveðið hvernig við bregðumst við þeim. Við erum frjáls í viðbrögðum okkar. Við megum gjarnan temja okkur æðruleysi, núvitund og óttaleysi. En hvernig? Jesús sagði: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.“ Kjarni þessa er, að við þurfum ekki að óttast. Við getum verið hrædd við aðstæður, smitbera, einsemd og erfiðleika, en þó megum við gæta okkar að ala ekki óttann með okkur, fylla ekki sál okkar og vitund með skelfingu eða sannfæra okkur sjálf um að allt fari á versta veg.

Óttinn sem læðist og magnast

Á tímum plágunnar getum við gert svo margt. Það er þakkarvert að þessi tími, sem við lifum nú er allt öðru vísi en Hrunið fyrir 12 árum síðan. Þá bullaði samfélag okkar af reiði í garð fólks. En enginn er reiður vírusnum. Óttinn nærir ekki reiðina nú. Nú er tækifærið til að stoppa, hugsa, anda djúpt og spyrja sig mikilvægra spurninga um gildi, ást og gleðimál. Hvað skiptir þig mestu máli í lífinu? Hvað elskar þú? Hver elskar þú? Getur verið að þú eigir að minnka puðið og fara frekar að gera það sem þér þykir skemmtilegt? Forgangsraða að nýju? Hringja í frænda þinn eða gamla vinkonu, sem þú veist að er með undirliggjandi sjúkdóm og þarf einhvern til að tala við um ótta sinn. Eða kaupa inn fyrir þau? Það er margt fólk í kringum okkur sem bíður eftir að þú spyrjir þessara einföldu spurninga: Hvernig líður þér? Hefur þú áhyggjur?

Úr framtíðinni

Nú er tími að endurskoða. Við erum kölluð til að hugsa um líf okkar. Vissir þú, að Guð er ekki bara til í fortíð og nútíð? Sagan um Guð er ekki bara til í menningunni og í gömlum bókum. Guð er ekki bara á eftir þér. Guð kemur líka úr framtíð. Þegar aðstæður fortíðar og nútíðar vekja með okkur ugg eða ótta kemur Guð. Og þar sem Guð er verður líf til. Á tíma veirunnar er ekki aðeins skelfilegur kórónavírus á ferð heldur er andi Guðs löngu kominn. Guð kallar þig til að setja tilfinningar í samhengi. Ótti er eðlilegur öllu lífi en óttinn á ekki að verða húsbóndi nokkurs manns. Ótti hjálpar okkur í lífsbaráttunni en trú, von og kærleikur mega verða stjórnkerfi okkar. Hvaða möguleika hefur þú núna? Hvað langar þig að gera? Hvernig getur þessi kreppa opnað líf þitt til góðs? Nú er tækifærið.

Jesús sagði: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.“ Á tímum kórónaveirunnar – eins og allar aðrar stundir – er Guð nærri þér. Og heyrir bænir þínar, gengur við hlið þér og styður þig.