Greinasafn fyrir merki: vatnssósa

Guð er í endurvinnslunni

Blámessa – vatnið – lífandi vatn

Fyrir skömmu var kínversk fjölskylda í verslunni Nettó að stafla plastflöskukippum, fullum af vatni, í innkaupakerrur. Þetta var undarlegur gjörningur og öllum var ljóst, að fjölskyldan væri að byrgja sig upp fyrir langferð um Ísland. Kona, sem ég þekki, horfði á fólkið og sá, að þau voru búin að setja sextíu plast-vatnsflöskur í kerrurnar. Hún hugsaði sig um: „Á ég að fara og skipta mér af þessu?“ En svo tók hún ákvörðun og sagði fólkinu, að það væri óþarfi að kaupa vatn því alls staðar væri jafnhreint vatn á Íslandi – og líklega betra vatn en í þessum plastflöskum. Hér væri vel væri gætt að hreinlætinu í vatnsveitum. Flöskuvatnið væri bara sóun. Þau kínversku spurðu hvort vatnið á hótelunum væri í lagi. „Já“ svarði hin íslenska. Og ferðamennirnir skiluðu öllu vatninu og þökkuðu fyrir sig. Það er engin ástæða til að blekkja erlenda ferðamenn. Það á ekki að fleygja fjármunum í vatnskaup og auka þar með plastmengunina líka. Og það er líka orðin umhverfissiðfræðileg köllun, að minna fólk á mikilvægi hreins vatns í búðum, kirkjum, þingsölum, veislum og samtölum. Hreint vatn úr er ekki sjálfgefið í veröldinni.

Vatnið og Jesús Kristur

Það gutlar í textum dagsins og það er niður vatns í þeim. Í Hallgrímskirkju eru fimm sunnudagar helgaðir íhugun um gildi, mikilvægi og verndun lífríkis jarðarinnar. Þetta eru ekki bara grænir sunnudagar heldur afar litríkir því allir litir náttúrunnar tjá fjölbreytni sköpunarverksins. Og í dag er messan ekki græn heldur blá. Í blámessu fjöllum við um vatn. Frá skrælþurrum Ísrael hljómar þetta fagra: „Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins.“

Jesús var heillaður af vatni. Hann fór gjarnan að lækjum og vötnum og hjálpaði vatnsleitandi fólki. Hann var vatnamaður og óð út í Jórdan til að laugast og helgast köllun sinni. Kristnir menn fortíðar ályktuðu, að vegna Jórdanviðburðarins hefði Jesús Kristur helgað öll vötn veraldar. Vatnið er heilagt af því Jesús blessaði það með því að metta það veru sinni. Og svo mælti Jesús Kristur næsta hraustlega og sagðist sjálfur vera vatn lífsins. Hvað þýðir það?

Vatnið í stefnu Guðs

Lifandi vatn er annað en þetta venjulega vatn og verður að skiljast í ljósi lífs hans alls og allt til enda. Í baráttu Jesú Krists síðustu klukkustundirnar á krossinum þyrsti Jesú áfaflega. Hann bað um að fá að drekka. Öllu er snúið við í krossfrásögunni. Hið mikilvæga og mesta, lifandi vatn (Andi) þarfnaðist hins lága og ónóga (brunnvatns) sem er andhverfa við það sem guðspjallið annars kennir.[i] Krossþorsti Jesú vísar til allra vatnssagna sagna Biblíunnar. Allir vatnstextar helgiritasafnsins eru flaumar merkingar, sem renna saman og sameinast á krossinum. Og hið eftirtektarverða er, að hið andlega þarfnast hins efnislega. Hið efnislega þarfnast líka hins andlega í lífi fólks í heiminum. Í beiðni Jesú nærri dauðastund á krossinum er gríðarlegt merkingarþykkni. Drykkjarbæn hans varðaði meira en að þorsta eins manns. Þessi krossbæn Jesú tengdi ekki aðeins við aðstæður eða fólk á Golgatahæð, heldur við alla sögu Gyðinga og Hebrea, við allar aldir, við alla sköpun heimsins. Þessi bæn Jesú endurómar gjörning, verðandi, Guðs við sköpun veraldar. Í orðum Jesú á krossinum endurómaði rödd Guðs við sköpun heimsins. Í þorstagjörningi Jesú var allur lífsvilji Guðs fram settur því vatn í lífi Jesú var ekki bara efni fyrir líkama lífvera heldur guðlegt efni, sem tjáði alla elsku Guðs, vilja Guðs og erindi. Maðurinn lifir ekki af vatninu einu, heldur þarfnast svo margs að auki. Allt það, sem er að auki, lifir alls ekki án vatns, því vatn heldur lífi í fólki og lífverum. Öll speki heimsins hverfur ef vatnið hverfur. Skilningsljósin slokkna þegar skrúfað er fyrir vatnið. Svo dramatískt er það, að vernda vatnið í veröldinni. Á mannamáli segjum við að vatn sé einstakt. Guð gaf því hlutverk í sköpun og Guð minnti á vatnið á hinum veraldarástnum, föstudeginum langa. Á máli trúarinnar merkir það, að vatnið er heilagt því Guð hefur fengið því einstakt hlutverk fyrir líf. Og það eitt er nægilegt trúmönnum til að verða vatnsverndarfólk.

Vatnið alls staðar

Vatn er gamalt, eldra en fólk gerir sér almennt grein fyrir. Guð endurvinnur vatn í það óendanlega. Guð er í endurvinnslunni. Í okkur öllum er vatn, sem hefur lengi verið til, jafnvel tugi milljóna ára. Vatnið í þér varð ekki til rétt áður en þú fæddist. Vatnið sem er núna hér í kirkjunni, í ykkur öllum, líka þér, hefur farið um líkama fiska, sóleyja, hvala, trjáa, tígrisdýra, apa, snigla, kaktusa og jafnvel risaeðla. Það hefur borist um allan heim, verið í Jórdan og mörgum jökulám, verið í Kyrrahafinu, Dauðahafinu, Rauðahafinu og Gvendarbrunnavatni. Það er vatn í kirtlum þínum, munni, augum og líffærum. Vatnið er lífinu nauðsynlegt. Líf okkar slokknar, ef vatnið hverfur eða fúlnar.

Vatnið er samhengi og forsenda og okkar er að helga það og vernda. Vatn er dýrmæti heimsins og við erum öll vatnsfólk. En vatn hefur verið misnotað og mengað um allan heim. Víða er vatnsskortur og vatnsvernd er æ brýnna mál alls mannkyns. Mengun er víða gífurleg, sjór og vötn eru svo illa spillt, að fólk getur ekki farið út í vatnið til að baða sig, hvað þá lotið niður og drukkið. Meira en einn milljarður manna hefur ekki aðgang að nægu og hreinu vatni. Ýmsum tegundum plantna, skordýra og dýra er ógnað vegna vatnsmengunar, uppistöðulóna og námavinnslu.

Stefna Sameinu þjóðanna, Evrópusambandsins og reynslan af vatnsbaráttu tuttugustu aldar hefur opinberað að vatn sé frumgæði, sem allir eigi að eiga fá að nýta án þess að borga fyrir annað en aðveitukostnaðinn. Og að aðgangur að hreinu vatni séu mannréttindi. Við berum ábyrgð á lífsgæðum barna okkar, ófæddum kynslóðum. Og kirkjan gegnir ábyrgðarhlutverki í náttúruvernd og við berum öll ábyrgð í þeirri þjónustu.

Hnötturinn okkar er blár, vatnið er alls staðar á og í  þessari lífkúlu okkar, lofti, láði og legi. Vatn er í möttli, í jörðu, í vötnum, öllum sprænum veraldar, í sjó og ofar höfðum okkar og flugvélunum líka. Ekkert líf lifir á þessari kúlu okkar nema vegna vatns. Án þess myndi allt deyja.

Hvað var í kringum þig og var þitt nærsamhengi þegar þú varst fóstur í móðurkviði? Það var vatn. Þú varst og ert vatnssósa. Það er ekki einkennilegt, að vatn er í báðum sakramentum kirkjunnar – því allra heilagasta, í skírn og í altarisgöngu.

Heilsa og ábyrgð

Engill Guðs hrærir í vatni veraldar. En nú er það lífríkið allt sem er veikt. Og við menn sjáum, að við berum ábyrgð á sjúklingnum. Markmið Sameinuðu þjóðanna varðandi vatn eru alvöru ábyrgðarmál okkar kristinna manna. 6. markmiðið um hreint vatn og hreinlætisaðstöðu fólks í heiminum og 14. markmiðið um líf í vatni, auðlindir og allan hinn stórkostlega lífvefnað í höfum og vötnum. Viltu verða heill? Það er spurning Guðs til okkar og varðar hvort við lifum með ábyrgð eða bara af grimmilegri sjálfsást. Tak til starfa, verði ljós, hreinsaðu vatn, stattu vörð um vatnið. Það er trúarleg köllun okkar og ljúf skylda.

Engill vatns

Kínversku ferðamennirnir, sem skiluðu vatnsflöskunum í Nettó hlupu til konunnar út á plan til að þakka enn og aftur. Þau sögðu við hana: „Þú ert engill.“ Okkar hlutverk í veröldinni er að verða vatnsverndarfólk, englar vatnsins og þjónar lífsins.

Amen

Hallgrímskirkja 22. sept 2019. Blámessa – tímabil sköpunarverksins.

Afhent skjal um framlag Hallgrímskirkju til Hljóðbókaverkefnisins Biblíufélagsins. Til minningar um dr. Sigurð Pálsson, fyrrum sóknarprest Hallgrimskirkju og framkvæmdastjóra HÍB.

[i]Sjá t.d. Stephen D. Moore, “Are There Impurities in the Living Water that the Johannine Jesus dispenses? Deconstruction, Feminism, and the Samaritan Woman.“ 13 kafli í The Interpretation of John, 2nd ed., ritstj. John Ashton (Edinburgh: T. & T. Clark, 1997).