Greinasafn fyrir merki: vatn

Guð er í endurvinnslunni

Blámessa – vatnið – lífandi vatn

Fyrir skömmu var kínversk fjölskylda í verslunni Nettó að stafla plastflöskukippum, fullum af vatni, í innkaupakerrur. Þetta var undarlegur gjörningur og öllum var ljóst, að fjölskyldan væri að byrgja sig upp fyrir langferð um Ísland. Kona, sem ég þekki, horfði á fólkið og sá, að þau voru búin að setja sextíu plast-vatnsflöskur í kerrurnar. Hún hugsaði sig um: „Á ég að fara og skipta mér af þessu?“ En svo tók hún ákvörðun og sagði fólkinu, að það væri óþarfi að kaupa vatn því alls staðar væri jafnhreint vatn á Íslandi – og líklega betra vatn en í þessum plastflöskum. Hér væri vel væri gætt að hreinlætinu í vatnsveitum. Flöskuvatnið væri bara sóun. Þau kínversku spurðu hvort vatnið á hótelunum væri í lagi. „Já“ svarði hin íslenska. Og ferðamennirnir skiluðu öllu vatninu og þökkuðu fyrir sig. Það er engin ástæða til að blekkja erlenda ferðamenn. Það á ekki að fleygja fjármunum í vatnskaup og auka þar með plastmengunina líka. Og það er líka orðin umhverfissiðfræðileg köllun, að minna fólk á mikilvægi hreins vatns í búðum, kirkjum, þingsölum, veislum og samtölum. Hreint vatn úr er ekki sjálfgefið í veröldinni.

Vatnið og Jesús Kristur

Það gutlar í textum dagsins og það er niður vatns í þeim. Í Hallgrímskirkju eru fimm sunnudagar helgaðir íhugun um gildi, mikilvægi og verndun lífríkis jarðarinnar. Þetta eru ekki bara grænir sunnudagar heldur afar litríkir því allir litir náttúrunnar tjá fjölbreytni sköpunarverksins. Og í dag er messan ekki græn heldur blá. Í blámessu fjöllum við um vatn. Frá skrælþurrum Ísrael hljómar þetta fagra: „Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins.“

Jesús var heillaður af vatni. Hann fór gjarnan að lækjum og vötnum og hjálpaði vatnsleitandi fólki. Hann var vatnamaður og óð út í Jórdan til að laugast og helgast köllun sinni. Kristnir menn fortíðar ályktuðu, að vegna Jórdanviðburðarins hefði Jesús Kristur helgað öll vötn veraldar. Vatnið er heilagt af því Jesús blessaði það með því að metta það veru sinni. Og svo mælti Jesús Kristur næsta hraustlega og sagðist sjálfur vera vatn lífsins. Hvað þýðir það?

Vatnið í stefnu Guðs

Lifandi vatn er annað en þetta venjulega vatn og verður að skiljast í ljósi lífs hans alls og allt til enda. Í baráttu Jesú Krists síðustu klukkustundirnar á krossinum þyrsti Jesú áfaflega. Hann bað um að fá að drekka. Öllu er snúið við í krossfrásögunni. Hið mikilvæga og mesta, lifandi vatn (Andi) þarfnaðist hins lága og ónóga (brunnvatns) sem er andhverfa við það sem guðspjallið annars kennir.[i] Krossþorsti Jesú vísar til allra vatnssagna sagna Biblíunnar. Allir vatnstextar helgiritasafnsins eru flaumar merkingar, sem renna saman og sameinast á krossinum. Og hið eftirtektarverða er, að hið andlega þarfnast hins efnislega. Hið efnislega þarfnast líka hins andlega í lífi fólks í heiminum. Í beiðni Jesú nærri dauðastund á krossinum er gríðarlegt merkingarþykkni. Drykkjarbæn hans varðaði meira en að þorsta eins manns. Þessi krossbæn Jesú tengdi ekki aðeins við aðstæður eða fólk á Golgatahæð, heldur við alla sögu Gyðinga og Hebrea, við allar aldir, við alla sköpun heimsins. Þessi bæn Jesú endurómar gjörning, verðandi, Guðs við sköpun veraldar. Í orðum Jesú á krossinum endurómaði rödd Guðs við sköpun heimsins. Í þorstagjörningi Jesú var allur lífsvilji Guðs fram settur því vatn í lífi Jesú var ekki bara efni fyrir líkama lífvera heldur guðlegt efni, sem tjáði alla elsku Guðs, vilja Guðs og erindi. Maðurinn lifir ekki af vatninu einu, heldur þarfnast svo margs að auki. Allt það, sem er að auki, lifir alls ekki án vatns, því vatn heldur lífi í fólki og lífverum. Öll speki heimsins hverfur ef vatnið hverfur. Skilningsljósin slokkna þegar skrúfað er fyrir vatnið. Svo dramatískt er það, að vernda vatnið í veröldinni. Á mannamáli segjum við að vatn sé einstakt. Guð gaf því hlutverk í sköpun og Guð minnti á vatnið á hinum veraldarástnum, föstudeginum langa. Á máli trúarinnar merkir það, að vatnið er heilagt því Guð hefur fengið því einstakt hlutverk fyrir líf. Og það eitt er nægilegt trúmönnum til að verða vatnsverndarfólk.

Vatnið alls staðar

Vatn er gamalt, eldra en fólk gerir sér almennt grein fyrir. Guð endurvinnur vatn í það óendanlega. Guð er í endurvinnslunni. Í okkur öllum er vatn, sem hefur lengi verið til, jafnvel tugi milljóna ára. Vatnið í þér varð ekki til rétt áður en þú fæddist. Vatnið sem er núna hér í kirkjunni, í ykkur öllum, líka þér, hefur farið um líkama fiska, sóleyja, hvala, trjáa, tígrisdýra, apa, snigla, kaktusa og jafnvel risaeðla. Það hefur borist um allan heim, verið í Jórdan og mörgum jökulám, verið í Kyrrahafinu, Dauðahafinu, Rauðahafinu og Gvendarbrunnavatni. Það er vatn í kirtlum þínum, munni, augum og líffærum. Vatnið er lífinu nauðsynlegt. Líf okkar slokknar, ef vatnið hverfur eða fúlnar.

Vatnið er samhengi og forsenda og okkar er að helga það og vernda. Vatn er dýrmæti heimsins og við erum öll vatnsfólk. En vatn hefur verið misnotað og mengað um allan heim. Víða er vatnsskortur og vatnsvernd er æ brýnna mál alls mannkyns. Mengun er víða gífurleg, sjór og vötn eru svo illa spillt, að fólk getur ekki farið út í vatnið til að baða sig, hvað þá lotið niður og drukkið. Meira en einn milljarður manna hefur ekki aðgang að nægu og hreinu vatni. Ýmsum tegundum plantna, skordýra og dýra er ógnað vegna vatnsmengunar, uppistöðulóna og námavinnslu.

Stefna Sameinu þjóðanna, Evrópusambandsins og reynslan af vatnsbaráttu tuttugustu aldar hefur opinberað að vatn sé frumgæði, sem allir eigi að eiga fá að nýta án þess að borga fyrir annað en aðveitukostnaðinn. Og að aðgangur að hreinu vatni séu mannréttindi. Við berum ábyrgð á lífsgæðum barna okkar, ófæddum kynslóðum. Og kirkjan gegnir ábyrgðarhlutverki í náttúruvernd og við berum öll ábyrgð í þeirri þjónustu.

Hnötturinn okkar er blár, vatnið er alls staðar á og í  þessari lífkúlu okkar, lofti, láði og legi. Vatn er í möttli, í jörðu, í vötnum, öllum sprænum veraldar, í sjó og ofar höfðum okkar og flugvélunum líka. Ekkert líf lifir á þessari kúlu okkar nema vegna vatns. Án þess myndi allt deyja.

Hvað var í kringum þig og var þitt nærsamhengi þegar þú varst fóstur í móðurkviði? Það var vatn. Þú varst og ert vatnssósa. Það er ekki einkennilegt, að vatn er í báðum sakramentum kirkjunnar – því allra heilagasta, í skírn og í altarisgöngu.

Heilsa og ábyrgð

Engill Guðs hrærir í vatni veraldar. En nú er það lífríkið allt sem er veikt. Og við menn sjáum, að við berum ábyrgð á sjúklingnum. Markmið Sameinuðu þjóðanna varðandi vatn eru alvöru ábyrgðarmál okkar kristinna manna. 6. markmiðið um hreint vatn og hreinlætisaðstöðu fólks í heiminum og 14. markmiðið um líf í vatni, auðlindir og allan hinn stórkostlega lífvefnað í höfum og vötnum. Viltu verða heill? Það er spurning Guðs til okkar og varðar hvort við lifum með ábyrgð eða bara af grimmilegri sjálfsást. Tak til starfa, verði ljós, hreinsaðu vatn, stattu vörð um vatnið. Það er trúarleg köllun okkar og ljúf skylda.

Engill vatns

Kínversku ferðamennirnir, sem skiluðu vatnsflöskunum í Nettó hlupu til konunnar út á plan til að þakka enn og aftur. Þau sögðu við hana: „Þú ert engill.“ Okkar hlutverk í veröldinni er að verða vatnsverndarfólk, englar vatnsins og þjónar lífsins.

Amen

Hallgrímskirkja 22. sept 2019. Blámessa – tímabil sköpunarverksins.

Afhent skjal um framlag Hallgrímskirkju til Hljóðbókaverkefnisins Biblíufélagsins. Til minningar um dr. Sigurð Pálsson, fyrrum sóknarprest Hallgrimskirkju og framkvæmdastjóra HÍB.

[i]Sjá t.d. Stephen D. Moore, “Are There Impurities in the Living Water that the Johannine Jesus dispenses? Deconstruction, Feminism, and the Samaritan Woman.“ 13 kafli í The Interpretation of John, 2nd ed., ritstj. John Ashton (Edinburgh: T. & T. Clark, 1997).

Lifandi vatn

Af hverju hefur þú svona mikinn áhuga á vatni? Vinir mínir hafa stundum spurt mig þeirrar spurningar. Mér hefur alltaf þótt vatn heillandi, hreyfingin, speglun vatns, gegnsæi, hringrás vatnsins. Þegar ég var strákur í Vesturbænum tók ég mig til og fékk gefins dekkjaslöngur hjá körlunum á Landleiðum þar sem nú eru Stúdentagarðarnir. Blés upp og batt saman og bjó til bát sem ég síðan sigldi við Þormóðsstaðafjöruna. Og móðir mín var ekkert að skipta sér af þessu fyrr en systir mín datt í sjóinn og kom holdvot og köld heim. Í sveitinni gekk ég með bæjarlæknum til að skoða vatnsmagnið, hvernig hann nagaði bakkana, laumaði sér milli steina og kom hlægjandi mót sólu. Ég var heillaður af vorflóðum, hvernig snjórinn blotnaði og lyppaðist niður og bunurnar skoppaði niður brekkurnar og faðmaði aðrar og af varð mikill vatnadans. Mér fannst heillandi að fylgjast með hvernig Svarfaðardalsá fór yfir bakka og allur hinn mikli dalur var undir vatni. Mér þótti merkilegt að sjá stíflumannvirkin sem bændurnir í dalnu höfðu byggt til að geta veitt vatni yfir engi. Og svo þegar ég var tíu ára vakti frændi minn mig snemma og sagði mér að nú ætti ég að drífa mig í fötin því værum að fara að veiða. Hann kunni tökin, kenndi mér að kasta og sjaldan hefur straumurinn orðið jafnsterkur í taugum mínum þegar stór bleikja kippti í og ég var nærri búinn að missa stöngina í hylinn. Svo varð ég hamslaus veiðimaður. Hvergi leið mér betur en við straumvatn. Það laðaði, heillaði, og snart einhver djúp hið innra. Milli mín og vatnsins voru tengsl. Á menntaskolaárunum ákvað ég að ég ætlaði í líffræði og sérhæfa mig í vatnalíffræði. En eftir veikindi og lífsháska þegar ég var 19 ára sneri ég við blaðinu og í stað þess að læra allt um vatnið fór ég í guðfræðinám og lærði allt um vatn lífsins. En meðan blóðið hefur runnið um hjarta mér hefur vatnið farið þar um. Alla tíð hef ég heillast af vatni, hugsað um vatn, snert það, dáðst að því og leyft því að vera inntak, umhverfi, áhugaefni og dýrð. Vatni hefur aldrei farið en ég hef notið þess í öðrum skilningi en kannsi hefði orðið í líffræði. Ég hef skírt ótrúlegan grúa barna. Ég hef útdeild víni sem er vatn i altarisgöngum. Ég hef reynt að túlka hið lifandi vatn himins á jörðu í ræðu minni og starfi. Ég er af vatni, þjóna vatni, nýt vatns og leyfi vatninu að heilla og næra mig.

Vatn í veröldinni

Dagurinn er 22. mars, dagur vatnsins en líka afmælisdagur móður minnar. Hún þakkaði fyrir og blessaði vatnið og bar djúpa virðingu fyrir fegurð þess og hlutverki. Vatnið er æðakerfi lífsins og mennskunnar. 

Af hverju hefur þú svona mikinn áhuga á vatni? Vinir mínir hafa stundum spurt mig þeirrar spurningar. Mér hefur alltaf þótt vatn heillandi, hreyfingin, speglun vatns, gegnsæi, hringrás vatnsins. Þegar ég var strákur í Vesturbænum tók ég mig til og fékk gefins dekkjaslöngur hjá körlunum á Landleiðum þar sem nú eru Stúdentagarðarnir. Blés upp og batt saman og bjó til bát, sem ég síðan sigldi við Þormóðsstaðafjöruna. Og móðir mín var ekkert að skipta sér af þessu fyrr en systir mín datt í sjóinn – af slöngubátnum – og kom holdvot og köld heim. Í sveitinni gekk ég með bæjarlæknum til að skoða vatnsmagnið, hvernig hann nagaði bakkana, laumaði sér milli steina og kom síðan úr djúpinu og hló við sólu. Ég var heillaður af vorflóðum, hvernig snjórinn blotnaði og lyppaðist niður og bunurnar skoppuðu niður brekkurnar og föðmuðu aðrar og af varð mikill vatnadans. Mér fannst heillandi að fylgjast með hvernig Svarfaðardalsá flæddi yfir bakka og allur hinn mikli dalur varð vatnaveröld. Mér þóttu merkileg stíflumannvirkin, sem bændurnir í dalnum höfðu byggt til að geta veitt vatni yfir engi.

Í hjarta og sinni

Þegar ég var tíu ára vakti frændi minn mig snemma og sagði mér að nú ætti ég að drífa mig í fötin því værum að fara að veiða. Hann kunni tökin, kenndi mér að kasta og sjaldan hefur straumurinn orðið jafnsterkur í taugum mínum þegar stór bleikja kippti í og ég var nærri búinn að missa stöngina í hylinn. Svo varð ég veiðimaður. Hvergi leið mér betur en við straumvatn. Það laðaði, heillaði, og snart einhver djúp hið innra. Milli mín og vatnsins voru tengsl. Á menntaskólaárunum ákvað ég að ég ætlaði í líffræði og sérhæfa mig í vatnalíffræði. En eftir veikindi og lífsháska þegar ég var 19 ára sneri ég við blaðinu og í stað þess að læra allt um vatnið fór ég í guðfræðinám og lærði allt um vatn lífsins. En meðan blóðið hefur runnið um hjarta mér hefur vatnið farið þar um. Alla tíð hef ég heillast af vatni, hugsað um vatn, snert það, dáðst að því og leyft því að vera inntak, umhverfi, áhugaefni og dýrð. Vatnið hefur aldrei farið mér úr sinni en ég hef notið þess í öðrum skilningi en kannski hefði orðið í líffræði. Ég hef skírt fjölda barna. Ég hef útdeilt víni, sem er mestu leyti vatn, í altarisgöngum. Ég hef reynt að túlka hið lifandi vatn himins á jörðu í ræðu minni og starfi. Ég er af vatni, þjóna vatni, nýt vatns og leyfi vatninu að heilla og næra mig. Vatn er dýrmæti heimsins og ekkert lifir án vatns. Við erum öll vatnsfólk. Og erum af vatnsfólki komið. Afi minn var vatnspóstur í Reykjavík. „Þetta kemur allt með kalda vatninu,“ var sagt. Og það er mikilvægt og varðar í raun allan heiminn.

Vatnið og sagan

Vatn hefur verið lífgjafi en líka valdur að dauða í sögu okkar Íslendinga. Stórár eru á landi og flóð hafa orðið. Í eldgosum hafa mikil flóð myndast, t.d.  þegar gosið hefur í Mýrdalsjökli og Vatnajökli. Í Kötlugosi getur vatnsflóðið orðið með mestu fljótum heims. Íslendingar hafa sótt sjó og á fyrri öldum létu hlutfallslega fleiri látið lífið á hafi en í styrjöldum annarra þjóða.

Vatn er stórmál í Biblíunni og hvernig má annað vera þar sem þjóðirnar fyrir botni Miðjarðarhafs voru sífellt að glíma við þurrk og fá nægilegt vatn fyrir sig og búsmala sinn. Vatn hefur verið misnotað og mengað um allan heim. Víða er vatnsskortur og vatnsvernd er æ brýnna mál alls mannkyns. Mengun er víða gífurleg, sjór og vötn eru svo illa spillt, að fólk getur ekki farið út í vatn til að baða sig, hvað þá lotið niður og drukkið. Meira en einn milljarður manna hefur ekki aðgang að nægu og hreinu vatni. Ýmsum tegundum platna, skordýra og dýra er ógnað vegna vatnsmengunar, uppistöðulóna og námavinnslu.  Og hvað er prestur að skipta sér af vatnsmálum, sem mörgum þykja vera fyrst og fremst spurning um pólitík? Trúin hefur alltaf eitthvað að segja um stóru mál lífsins. Guðfræðin og þmt siðfræðin reyna að skoða mál skipulega og móta ígrundaða stefnu á forsendum kærleika og ástar sem kristnin kennir við Guð.

Við erum vatn

Þegar við fæðumst erum við að þremur fjórðu hlutum vatn – og við erum blaut það sem eftir lifir æfinnar. Ef við ofþornum deyjum við og hið sama gildir um flestar lífverur. Líf allra manna á öllum tímum og alls staðar er háð vatni. Ekkert annað kemur í stað vatns. Vatnið umlykur Jörðina, er í gufuhvolfinu, andrúmsloftinu. Það er regnið, sem bylur á okkur þegar rignir og snjórinn sem hvíttar tilveru okkar í frostatíð. Vatn flæðir í lækjum, ám, vötnum og neðanjarðar. Það er í hafinu, í jöklum á landi og í vötnum. Það gufar upp og dansar upp í andrúmsloftið, myndar ský og þar með hina stórkostlegu hringrás sem íklæðir Jörðina. Vatnið er ekki bara klæði Jarðarinnar, heldur líka undraefnið, blóðið og fjallamjólkin í æðakerfi heimsins sem nærir líf hinnaar bláu plánetu.

Vatn Jarðar 1,4 milljarðar rúmkílómetra

Samtals er vatn Jarðarinnar 1,4 milljarðar km3, í sjó, neðanjarðar, í öllu rennandi vatni heimsins, ís og jöklum og andrúmslofti. Vatnskerfi Jarðarinnar minnkar ekki eða stækkar því andrúmsloftið hindrar að vatn flæði út í geiminn. Nærri 97% vatns er saltvatn í sjó. Ferskvatn er tæplega 3%, um 35 milljón km3.[i]Megnið af ferskvatni er neðanjarðar eða frosið. Innan við 1% vatns jarðarinnar myndar hringrás vatns, um 11 milljón km3 eða nærri 0,77% vatns. Það er því fyrst og fremst rigning og snjókoma sem endurnýja og hreinsa vatnsbirgðir jarðarkúlunnar. Það eru því aðeins 34 þúsund rúmkílómetrar sem nýtast mönnum og lífi sem endurnýjanlegar birgðir vatns. Megnið af nýtanlegu ferskvatni heimsins er svonefnt grunnvatn og er í iðrum jarðar. Það eru grunnhlotin, sem ekki hreyfast mikið vegna þess að berg lokar þetta vatn inni eins og skálar eða poka neðanjarðar. Ofankoma bætist ofan á þessar vatnsbirgðir og yfirflóðið eru gjarnan í lindum. En til eru lokuð vatnskerfi, sem ekki bætist í vegna ofankomu. Þegar farið er að bora niður á þessa grunnvatnsgeyma og dælt upp úr þeim hefur víða verið gengið harkalega á birgðirnar. 

Vatnsskortur

Íslendingar búa yfirleitt ekki við vatnsskort en hins vegar getur komið fyrir, vegna sérstakra aðstæðna eða áfalla, að vatn spillist.[ii]En vansskortur er verulegur og ógnvænlegur víða um heim. Þegar hver maður fær til nota minna en eitt þúsund rúmmetra á ári er um vatnsskort að ræða.[iii]Vatnsstreita ríkir á þeim svæðum þar sem vatnsnotkun er umfram 25% hinna endurnýjanlegu vatnsbirgða.[iv]Veigamikil ástæða vatnskreppu er mannfjölgun. Á hverju ári fjölgar mannkyni um 80 milljónir. Vatnsnotkun jókst alla tuttugustu öldina tvöfalt á við fjölgun fólks. Ástæðan var stóraukin iðnaður, orkuöflun og óhófleg vatnsnotkun og jafnvel sóun í hinum ríku hlutum jarðarkringlunnar. Á næstu áratugum má búast við, að mannfjölgun verði mest í suð-austur Asíu og Aríku sunnan Sahara. Mannfjöldinn leitar í borgirnar og þær munu jafnvel tvöfaldast frá 2020 til 2030.[v]Þessi mikla mannföldaaukning mun ganga á vatnsbirgðir og ef heldur svo fram sem horfir verður gengið freklega á grunnvatnsbirgðir sem ekki ná að endurnýjast. Ef vatn þverr mun fólk deyja eða halda út í óvissuna og gríðarlegir mannflutningar verða inn á vatnsríkari svæði veraldar,t.d. Evrópu og Ameríku. Um 2 milljarðar fólks býr við vatnsskort eða um fjórðungur mannkyns. Í Norður Afríku og Vestur Asíu býr um 60% íbúa við vatnsskort og búast má við miklum áföllum og fjöldadauða á þessum svæðum þegar að sverfur.[vi]Með loftslagsbreytingum hefur ástand vatnsmála sums staðar versnað mjög. Sjúkdómar hafa breiðst út og barnadauði hefur aukist. Fráveitumál eru víða í ólestri og menga vatnsból, ár og læki um víða veröld.

Grunnvatn

Megnið af ferskvatnsbirgðum heimsins er grunnvatn, sem er um sextíu sinnum meira en yfirborðsvatn.[vii]Grunnvatn rennur um jarðveg og gljúpt berg og myndar gjarnan risastór stöðuvötn og yfirborðsvatn rennur í og fyllir upp ef grunnvatn rennur einhvers staðar úr. Þessi stóru vatnsgímöld eru kölluð grunnvatnshlot. Sum þeirra eru lokuð af neðanjarðar og njóta engrar eða lítillar aðveitu að ofan. Grunnvatn er oftast ósýnilegt en yfirborðsvatn sést. Ef grunnvatn flæðir er það á hægri hreyfingu en yfirborðsvatn flæðir hratt. Um helmingur ofankomu fer í læki, ár og fljót, en helmingur ofankomu gufar upp á jörðinni. Þegar grunnvatnsgeymar fyllast flæðir vatn út í lindum, uppsprettum. En þegar dælt er úr grunnvatni er hætta á að dælt sé meira en sem nemur áfyllingu ofankomu. Hættan er að vatnstakan breyti því jafnvægi sem náttúra á viðkomandi svæði hefur skapað og lifríkið skaddist. Plöntur og lífverur sem sem aðlagast hafa eða þarfnast flóðanna geta orðið fyrir skaða af flóðaleysinu.

[i]Ef vatn Jarðarinnar væri rétthrndur ferningur myndi hver hlið vera um 1120 km á lengd.

[ii]Samanber vandi vatnsveitu Ísafjarðar 2017 og gerlamengun í vatni Gvendarbrunna 2018 og 2017.

[iii]Shiva 2002.

[iv]Palanappian and Gleick 2009, 1) og heimasíða Sameinuðu þjóðanna.

[v]UNESCO Water Newsletter NO249 2011.

[vi]https://sustainabledevelopment.un.org/sdg6

[vii]Barlow og Clarke 2002.

Vatn

Hvað var í kringum þig, var þitt nærsamhengi, þegar þú varst fóstur í móðurkviði? Það var vatn. Þú svamlaðir og fórst kollhnísa í legvökva. Hátíðnihljóðin, sem bárust eyrum þínum alla daga, voru frá hinu hraða rennsli blóðsins, vökvans, í æðum móður þinnar og í takti við slátt hjartans sem dældi. Svo þegar legvatnið fór var ekki lengur hægt að lifa inní mömmu – þá fæddist þú. Síðan varstu baðaður eða lauguð í vatni. Móðurmjólkin var að mestu vatn. Þú varst og ert vatnssósa. Svo héldu elskuarmar á þér við skírnarlaug. Glitrandi vatnið í fontinum var borið að kolli þínum og orðin um föður, son og heilagan anda voru nefnd með nafninu þínu.

Síðan hefur vatnssagan haldið áfram. Þú hefur verið í vatni og notið vatns. Í þér er mikið vatn, sem hefur lengi verið til, jafnvel tugi milljóna ára. Það hefur farið um líkama fiska, sóleyja, hvala, trjáa, tígrisdýra, apa, snigla, kaktusa og jafnvel risaeðla. Það hefur borist um allan heim, verið í Jórdan og mörgum jökulám, verið í Kyrrahafinu, Dauðahafinu, Rauðahafinu, vatninu í Krossá. Meðan þú lifir finnur þú fyrir vatnsbúskap líkama þíns. Vatnið er lífinu nauðsynlegt. Líf okkar slokknar ef vatnið hverfur eða fúlnar.

Margir elska vatn og vötn, veiðimenn, fagurkerar og trúmenn allra hefða. Auður djúpúðga var svo elsk að sjónum að hún vildi láta jarða sig í flæðarmáli. Merkilegt, flestum hryllir við ef grafir fyllast af vatni. En af hverju skyldi hin vitra, kristna, Auður hafa sótt til sjávar? Getur verið að vatn hafi eitthvað með Jesú að gera? Getur verið að við þurfum að sjá hið djúptæka í hinu yfirborðslega, greina trúarleg gildi í hinu hvunndagslega?

Skírn Jesú og vatn veraldar

Þegar Jesús vildi skírast var hann sér fullkomlega meðvitaður um, að skírn hans væri ekki með sama móti og iðrunarskírn þeirra sem flykktust til Jóhannesar við Jórdan. Skírnaróskin markar upphaf starfsferils hans. En Jesúskírnin er ekki heldur hin sama og okkar. Jesús skírðist ekki heldur til lífsins eins og við, ekki að endurnýjast eins og við, ekki að losna úr viðjum sorans eins og við. Skírn Jesú var upphaf frelsisverks hans sem gerir skírn okkar mögulega. Skírn Jesú var og er lind, uppspretta í eyðimörk, árstraumur, sem mótar umhverfi og er forsenda gróðurs, sem kenndur er við himininn. Skírn Jesú hefur áhrif á allan heiminn, ekki bara eyðimörk, heldur líka blautsvæðin.

Á miðöldum gátu menn séð í Jórdanskírn Jesú helgun allra vatna heimsins. Jesús helgar allt sem er, gerir það heilagt. Vatnið notum við svo í hinu kirkjulega samhengi skírnarinnar til að helga lífið. Í bikarnum er vatnið helgað þér til blessunar. Í því er helgað vatn og þú mátt því leyfa þér og lífi þínu að blómstra. Af því veröldin er Guðs sköpun, blessuð af Jesú eiga kristnir menn að verja vatn veraldar, vernda og hreinsa. Lífið þarfnast þess. Jesús var skírður – ekki aðeins til að gefa mönnum líf heldur gefa allri veröld líf, vatninu líka.

Vatnsvernd fjær og nær

Vatn hefur verið misnotað og mengað um allan heim. Víða er vatnsskortur og vatnsvernd er æ brýnna mál alls mannkyns. Við ættum að styðja Hjálparstarf kirkjunnar við að gera brunna á vatnsvana svæðum. Mengun er víða gífurleg, sjór og vötn eru svo illa spillt, að fólk getur ekki farið út í vatnið til að baða sig, hvað þá lotið niður og drukkið. Meira en einn milljarður manna hefur ekki aðgang að nægu og hreinu vatni. Ýmsum tegundum platna, skordýra og dýra er ógnað vegna vatnsmengunar, uppistöðulóna og námavinnslu.

Við þurfum að innræta okkur þá frumreglu, að aðgangur að hreinu vatni séu mannréttindi. Vatnsvernd er lífsvernd. Við berum ábyrgð á lífsgæðum barna okkar, ófæddum kynslóðum. Kirkjan gegnir ábyrgðarhlutverki í náttúruvernd og við berum öll ábyrgð í þeirri þjónustu.

Notum vatnsdag til að íhuga köllun okkar til verndar og blessunar vatns. Land, fólk, vatnssósa sköpun Guðs er heilög.